Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
Bloggannáll: Hvernig ég uppgötvaði fjármálakreppuna með gagnrýnni hugsun á meðan ráðamenn voru í fríi
31.12.2008 | 12:21
Mér finnst merkilegt hvernig ég virðist hafa innsæi í stoðir íslenska efnahagskerfisins, þrátt fyrir að hafa aldrei áður rannsakað það af áhuga. Eini bakgrunnur minn í hagfræði er að ég kenndi fagið í framhaldsskóla í Mexíkó fyrir nokkrum árum og þurfti þá að leggja mig mikið fram við undirbúning, til að átta mig á helstu straumum og stefnum hagfræðinnar, og lærði að sjálfsögðu mikið af því að rannsaka fagið með nemendunum.
Það sem vakti áhuga minn í mars 2008 var að eitthvað siðferðilegt virtist vera að gefa undan - að verið væri að ráðast á bankakerfið okkar og enginn vissi hver. Því fór ég að pæla í þessu og áttaði mig á hversu illa stödd við vorum í raun og veru - að stjórnvöld stóðu aðgerðarlaus frammi fyrir miklum vanda - og það sem verra var, notuðu tímann í páskafrí, sumarfrí og utanlandsferðir í stað þess að hrinda strax af stað rannsókn á málinu.
Ég uppgötvaði...
....að árásirnar á kerfið komu ekki utanfrá, heldur virtust þær koma innanfrá til að tryggja gott útlit ársfjórðungsreikninga bankanna - og þá var mér ljóst að í okkar litla kerfi gat lítill hópur hrist stoðir kerfisins þegar þeim hentaði til að fella krónuna - og þá gætu þeir skipt erlendu fjármagni á hagstæðari máta.
...að líklegt væri að þetta bitnaði fyrst og fremst á þeim sem minnst mega sín, og að fjölskyldur og framtíð barna okkar væri í voða. Einnig áttaði ég mig á því að mótmæli gegn einstaklingum og ráðamönnum skila engu - þessar aðgerðir rista ekki djúpt - því að raunverulegu völdin eru í höndum auðmanna og þeir hafa haft þau í áratugi og munu hafa þau áfram - en ríkisvaldið er í augnablikinu peð sem hægt er að fórna þegar það hentar.
...að góð leið til að berjast áfram í þessari stöðu væri að vekja upp nýjar og ferskar hugmyndir, og úr varð bjartsýni.is með stuðningi Forseta Íslands og nokkurra frábærra einstaklinga frá ýmsum fyrirtækjum af landinu. Í dag telur Facebook hópur bjartsýni 1250 meðlimi og fer stækkandi. Mér til mikillar ánægju stofnaði Eyjan.is síðu með svipuðu formerkjum, kallað Betra Ísland skömmu eftir að ég stofnaði til Facebook hópsins.
Árið 2008 verður kvatt í kvöld. Ég ætla ekki að sprengja neina flugelda, en í stað þess minnast á það sem mér þykir merkilegt á árinu sem er að líða, úr eigin bloggfærslum. Kvikmyndaumfjöllun og slíkir dómar verða ekki hluti af þessum annáli, né pælingar um upplýsingatækni og vefsíðugerð, sem tóku reyndar mikið pláss á bloggsíðum mínum í ár.
Færslur ársins 2008:
1. sæti Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska? (25. mars)
2. sæti: Dystópía eða veruleiki: Hvað ef Ísland verður gjaldþrota? (2. apríl)
4. sæti: Er pólitísk spilling búin að skjóta rótum á Ísland? (21. ágúst)
Janúar 2008 - Mánuður dauðsfalla og gleymsku
1. sæti: Snillingur fallinn: Robert James Fischer (1943-2008)
2. sæti: Stórleikari fallinn: Heath Ledger (1979-2008)
3. sæti: Af hverju eru Íslendingar svona fljótir að gleyma?
Febrúar 2008 - Mánuður pælinga um trú, tungu og toll
1. sæti: Skipta trúarbrögð einhverju máli?
2. sæti: Brengluð tilfinning fyrir íslenskri tungu: Hlakkar mig til eða hlakka ég til?
3. sæti: Tollurinn: með okkur eða á móti?
Mars 2008 - Mánuður fjármálakrísu, umburðarlyndis og eineltis
1. sæti: Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska?
2. sæti: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera fyrir fólkið í landinu?
3. sæti: Erum við virkilega hamingjusamasta þjóð í heimi?
4. sæti: Gætir þú hugsað þér að búa í gámi?
Apríl 2008 -Mánuður gjaldþrotapælinga og undrun á aðgerðarleysi stjórnvalda
1. Dystópía eða veruleiki: Hvað ef Ísland verður gjaldþrota?
2. Af hverju hlusta ráðamenn lýðræðisþjóðar ekki á lýðinn?
Maí 2008 - Mánuður 500 milljarða heimildar, bankabjörgunar og tilvistar Guðs
1. sæti: Á íslenska þjóðin að redda bönkunum?
2. sæti: Til hvers þarf ríkið heimild til að taka allt að 500 milljarða króna erlent lán?
3. sæti: Er Guð til?
Júní 2008 -Mánuður ísbjarnadrápa, bensínverðs og menntunar
1. sæti: Hvaða hugmyndir hafa bandarískir unglingar um ísbjarnarmálið?
2. sæti: Af hverju er eldsneyti allt í einu orðið svona dýrt?
3. sæti: Hellislíkingin, heimspeki menntunar og það sem þú færð aldrei að vita nema þú leggir þig eftir því
Júlí 2008 - Mánuður brjálaðra viðtala
1. sæti: Núna: Sverrir Stormsker og Guðni Ágústsson í stórskemmtilegu viðtali á Útvarpi Sögu
Ágúst 2008 - Mánuður verðtryggingar, spillingar og hagsmunaárekstra
3. sæti: Er pólitísk spilling búin að skjóta rótum á Íslandi?
4. sæti: // Eru það persónulegir hagsmunir sem koma í veg fyrir aðgerðir ríkisstjórnar?
September 2008 - Mánuður þegar lán hættu að vera hagnaður, Glitnir fer á hausinn og bjartsýni skýtur upp í mínum kolli
1.// Eru lán skilgreind sem hagnaður það sem valdið hefur Íslandskreppunni árið 2008?
2. Hver er áhættan fyrir þjóðina og ábyrgð okkar há í milljörðum fari Glitnir á hausinn?
3.// 13 einkenni góðs hugarfars til að takast á við gengisfellingu, kreppu og verðbólgu
Október 2008 - Mánuður bankahruns, þjóðargjaldþrots og mótmæla
2. sæti: Má ég vinsamlegast mótmæla mótmælunum gegn Davíð Oddssyni?
3. sæti: Hófst stærsta bankarán aldarinnar fyrir nákvæmlega sjö mánuðum og lauk því fyrir tveimur vikum?
Nóvember 2008 - Mánuður bankaránspælinga og hugmynda til að hjálpa þegnum Íslands
1. sæti: Sagan um bankaránið
2. sæti: Heimilislíking Don Hrannars
3. sæti: Af hverju má ekki nota séreignalífeyrissparnað til að borga húsnæðislán?
4. sæti: Kemur ríkisstjórnin með aðgerðarpakka fyrir heimilin sem tekið verður fagnandi?
Desember 2008 - Mánuður bjartsýni, reiði og jóla
1. sæti: Af hverju bjartsýni á myrkum dögum? Og hvað er eiginlega bjartsýni?
3. sæti: Vissir þú að fyrsti jólasveinninn lenti í fangelsi fyrir að berja biskup?
Ég óska bæði lesendum mínum og ekki-lesendum farsældar á nýju ári. (Gleymi ég einhverjum?)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Eru einhverjir annmarkar á skáldaleyfi* fjármálaráðherra?
30.12.2008 | 22:41
"Þegar völd gera mann hrokafullan, minna ljóð hann á eigin takmarkanir. Þegar völd þrengja áhugasvið og umhyggju manns, minna ljóðin hann á ríkidóm og fjölbreytileika hans eigin tilvistar. Þegar völd spilla, hreinsa ljóð, því að listin sýnir sannleika þess mannlega sem verður að þjóna sem hornsteinn dómgreindar okkar." (John Fitzgerald Kennedy, 1917-1963)
Ljóst er að settur dómsmálaráðherra tók ranga stjórnskipulega ákvörðun og að hún lítur út eins og afsprengi spillingar fyrir almenningi öllum. Hvort sem um spillingu hafi verið að ræða eða ekki, þá hlýtur sú tenging sem fólk gerir við athöfnina að skipta lykilmáli. Oft er grunur um sekt jafn afrifaríkur og sönn sekt. Hverri ákvörðun fylgir ábyrgð hefði ég ætlað. Hvernig ætli þessi ábyrgð verði öxluð?
Ég hjó eftir eftirfarandi í grein mbl.is um þetta mál:
Umboðsmaður telur annmarka á þessu en þó ekki meiri en svo að hann telur að þeir leiði ekki til ógildingar," sagði Árni Mathiesen við Morgunblaðið í kvöld.
Hlutverk umboðsmanns Alþingis var einungis að meta hvort að um annmarka hafi verið að ræða eða ekki. Hann hefur ekkert að segja um hugsanlegar afleiðingar þessa brots, eins og fram kemur í niðurstöðu umsagnar hans, ef lesið er aðeins lengra:
Úr niðurstöðu umboðsmanns alþingis:
Eins og áður sagði er það niðurstaða mín að tilteknir annmarkar hafi verið á undirbúningi, ákvörðun og málsmeðferð setts dómsmálaráðherra við skipun í umrætt embætti héraðsdómara. Að teknu tilliti til dómaframkvæmdar hér á landi og að teknu tilliti til hagsmuna þess sem hlaut skipun í embættið tel ég ekki líkur á að ofangreindir annmarkar leiði til ógildingar á skipuninni. Það fellur hins vegar utan starfssviðs míns að taka afstöðu til þess hvaða lagalegu afleiðingar þessir annmarkar á meðferð málsins kynnu að öðru leyti hafa í för með sér ef um þetta yrði fjallað af dómstólum t.d. í formi skaðabótamáls. Ég beini þó þeim tilmælum til skipaðs dómsmálaráðherra að framvegis verði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem lýst er í áliti þessu við undirbúning og veitingu embætta héraðsdómara.
Við getum ekki sagt að um lögbrot sé að ræða, heldur verður löglærður dómari að skera úr um það. En til þess þarf sjálfsagt einhver að kæra málið, eða hvað? Líklegasta niðurstaðan er að hinir þrír sem metnir voru hæfari kæri málið og semji um sæmilegar skaðabætur frá Ríkinu, og þar með verði málinu lokið.
Væri þá réttlætinu fullnægt?
Undarleg er íslensk þjóð!
Allt, sem hefur lifað,
hugsun sína og hag í ljóð
hefur hún sett og skrifað.
Hlustir þú og sé þér sögð
samankveðna bagan,
þér er upp í lófa lögð:
landið, þjóðin, sagan.
Stephan G. Stephansen (1853-1927)
* Skilgreining á skáldaleyfi, af vefsetrinu Bókastoðin:
Stundum taka skáld sér skáldaleyfi en með því er átt við að þeir virða ekki settar reglur, t.d. hvað málform eða bragform varðar. Þetta gerði Halldór Laxness til dæmis, en hann hundsaði ng- og nk-reglurnar í stafsetningu og skrifa orð á borð við langur svona lángur. Skáldaleyfi getur einnig falist í því að hagræða sögulegum staðreyndum eða tíma.
Telur nýmæli í niðurstöðu umboðsmanns | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt 31.12.2008 kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bolt 3D (2008) ****
30.12.2008 | 18:59
Árið 2008 hefur verið gott fyrir teiknimyndir. Þær bestu sem ég hef séð á árinu eru Kung-Fu Panda, Wall-E og Bolt. Mér finnst Bolt sú besta af þeim þremur, þó að erfitt geti verið að bera þær saman. Bolt hefur nefnilega hjartað á réttum stað, í sögu með ógleymanlegum persónum. Aðeins tvisvar áður hef ég séð teiknimyndir sem mér finnst algjörlega frábærar. Það eru Lion King (1994) og Toy Story (1995). Þetta eru sams konar sögur, persóna týnist, leitar að sjálfum sér og lærir nýjan tilgang með lífinu.
Ég vil taka það sérstaklega fram að ég sá myndina í þrívídd og með íslenskri talsetningu sem var frábærlega unnin.
Bolt er fimm ára gamall hvutti sem heldur að hann sé ofurhundur, en sannleikurinn er sá að hann er sjónvarpsstjarna sem veit ekki að allt í kringum hann er tilbúningur, rétt eins og Jim Carrey sem Truman í The Truman Show (1999). Reyndar á Bolt sér eina sanna fótfestu í lífinu, en það er skilyrðislaust ást hans á eiganda sínum, stúlkunni Penny. Hann trúir að illmenni séu stöðugt á eftir henni og leggur sig allan fram við að bjarga henni úr vandræðum. Á nóttinni er hann skilinn eftir í hjólhýsi á sviðinu, og komið er í veg fyrir að hann fái nokkurn tíma að sjá hinn raunverulega heim.
Framleiðendur þáttanna óska eftir að einhverjir þættir endi illa. Í lok þáttar er látið sem að Penny hafi verið rænt og Bolt komið fyrir í hundakassa. Allir þættir höfðu endað vel til þessa, þannig að Bolt er virkilega pirraður þegar hann losnar úr kassanum, og tekst að flýja úr hjólhýsinu en þegar hann ætlar að stökkva í gegnum glugga rotast hann og dettur ofan í kassa sem póstsendur er til New York.
Þegar út úr kassanum er komið þarf Bolt að komast aftur til Hollywood og bjarga Penny frá illmenninu með græna augað. Hann fær óvænta hjálp frá kettinum Mittens og hamstrinum Rhino. Hamsturinn Rhino kom mér til að hlæja upphátt nokkrum sinnum, en það hefur ekki gerst síðan ég sá Get Smart (2008) síðasta sumar. Smám saman uppgötvar Bolt að hann hefur lifað í draumaheimi, uppgötvar mikilvægi vináttu og gefst ekki upp í leit að Penny, fyrr en að hann sér að hún hefur fengið annan hund, alveg eins og hann. Þá fyrst þarf hann á sannri vináttu að halda.
Sagan er í raun afar einföld, en framsetningin og persónusköpunin er fyrsta flokks. John Lasseter, frumkvöðull Pixar Studios sá um framleiðsluna á myndinni og má greinilega skynja handverk hans, enda leggur hann alltaf mikla áhersluna á að sagan sé frumleg og skemmtileg, áður en hann fer út í tæknilegri hluti, sem eru samt líka óaðfinnanlegir.
Kvikmyndir | Breytt 31.12.2008 kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Felur Forseti Íslands slóðina með Jóni Ásgeiri eða kann Ástþór Magnússon ekki að googla?
30.12.2008 | 11:11
Í morgun kl. 5:27 birti hinn ágæti Ástþór Magnússon samsæriskenningu undir nafninu Forseti Íslands felur slóðina. Hér er greinin:
Á vefnum forseti.is er nú nánast útilokað, nema með einhverri djúpleitartækni, að finna myndir af atburðum tengdum útrásarvíkingum eða ræður forsetans við þau tilefni. Efnið virðist annaðhvort hafa verið fjarlægt eða linkar á það faldir.Smellið á myndina til vinstri sem sýnir: http://forseti.is/Forsida/Myndasafn/Atburdir en þar finnast ekki lengur linkar á t.d. myndir frá afhendingu Útflutningsverðlauna forseta Íslands til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Þess í stað er fólki sýnd mynd af forsetanum með fólki í hjólastólum og engir linkar á aðra atburði, eins og útrásina, sem þó var meira áberandi í starfi forsetans.
Myndirnir af Jón Ágeiri og forsetanum geta aðeins þeir augum litið sem vita nákvæmlega hvar eigi að kafa undir yfirborðið: http://forseti.is/Forsida/Myndasafn/Atburdir/Utflutningsverdlaun2008/ - Linkar á síðuna hafa verið fjarlægðir og myndirnar faldar öðrum en þeim sem kunna djúpleit á vefnum.
Ljóst er að vef forseta Íslands hefur verið breytt að undanförnu með svipuðum hætti og Bók um forseta sem var breytt eftir að bókin var komin í prentsmiðju þegar hagkerfið hrundi. Menn tala um að 60 síður hafi horfið úr bókinni. Það virðist orðið mikið feimnismál fyrir Ólaf Ragnar Grímsson að sjást á ljósmyndum með útrásarvíkingum eða hafa flutt hvetjandi ræður fyrir útrásina. Slíkt efni virðist annaðhvort horfið eða slóðirnar faldar (linkarnir) frá þeim sem fara inná heimasíðu forsetans.
Slóðin á afhendingu Útflutningsverðlauna skaut upp í athugasemd við frétt um þetta mál á eyjan.is eftir að ég vakti athygli á þessu máli í fyrri grein minni. Ég fann ekki þessa slóð þegar ég skrifaði fyrri greinina þótt ég hafi eytt meira en klukkutíma á vef forsetans í að leita að þessu. Hvort forsetinn keyrði í Loftsköstum á skrifstofuna til að smella linknum aftur inná síðu sína veit ég ekki. Hinsvegar líkist þetta því sem gárungarnir á sorprit.com kalla "Hreinsgerningar" og þar sagt að Íslandsmeistari í sjónhverfingum viðskiptalífsins kenni þau fræði í Grísaskólanum við Höfðabakka.
Ef googlun er það sem Ástþór Magnússon kallar djúpleitartækni, þá þyrfti hann að sækja almennt tölvunámskeið með bloggvini mínum Bjarna Harðarsyni. Ég ákvað að athuga hvort þetta væri satt og fór beint á google.com og sló inn leitarorðin "forseti.is Jón Ásgeir".
Það komu nokkrar niðurstöður. Ljóst er að Eyjumenn eru að standa sig vel í leitarvélarmálum því að þeir birtust efstir á blaði. Niðurstaðan sem ég sóttist eftir var hins vegar númer fimm í röðinni, nokkuð sem auðvelt er að sjá því að slóðin byrjar á forseti.is:
Þegar ég smelli svo á niðurstöðuna fæ ég þessa síðu:
Þessi leit tók mig um sekúndu í framkvæmd. (Að skrifa greinina tók aðeins meiri tíma)
Síðan hrun bankana hefur átt sér stað hefur mikið verið ráðist á einstaklinga með einhvers konar níð, sama hvort viðkomandi heiti Davíð, Geir, Björgvin, Ólafur, Jón - það er alltaf verið að finna einhvern sökudólg og hann ásakaður um hitt og þetta, ætlunin að taka orðspor viðkomandi af lífi.
Slíkar upphrópanir skila litlu. Það þarf að rannsaka vandlega hvað gerðist og hver gerði hvað og ákæra þá sem hafa gerst uppvísir um alvarlega spillingu eða glæpi. Dómstóll götunnar er aldrei nákvæmur og sjaldan réttur og er ekki líklegur til að skila okkur réttlæti.
Ólafur Ragnar studdi útrásarvíkingana. Það er rétt. Það gerir hann hins vegar ekki að glæpamanni frekar en allar þær manneskjur sem hafa farið í Bónus eða Hagkaup síðustu 10 árin og keypt eitthvað þar. Ólafur Ragnar hefur stutt þá einstaklinga sem leitað hafa til hans og hjálpað þeim að koma sér á framfæri erlendis. Hvað getur verið slæmt við það?
Þegar í ljós kemur að ástandið er alvarlegt, fer Ólafur Ragnar í fyrirtæki og biður starfsmenn fyrirtækja að hjálpa sér við að leita leiða til að styðja þá Íslendinga sem eiga um sárt að binda vegna kreppunnar. Hvað er slæmt við það?
Ólafur Ragnar hefur verið úthrópaður fyrir þetta og sagt að hann sé bara að leita sér vinsælda. Það er út í hött. Hann var endurkjörinn síðasta sumar til næstu fjögurra ára og hefur því ekkert við vinsældir að gera. Hann hefur sýnt óvæntan styrk og áhuga á að hjálpa þeim sem minna mega sín, og leita leiða til að opna fyrir tækifæri á nýjan leik.
Einnig hefur Ólafur Ragnar verið gagnrýndur fyrir að hafna fjölmiðlafrumvarpinu. Hann gerði það ekki. Þegar hann skrifaði ekki undir þurfti þjóðaratkvæðagreiðslu til að samþykkja það. Af einhverjum ástæðum fór sú atkvæðagreiðsla ekki fram. Ef forseti telur sig ekki geta skrifað undir lög af einhverjum ástæðum, á hann ekki að skrifa undir þau lög. Það er ekkert flóknara en það.
Hugsanlega verð ég gagnrýndur fyrir að verja Forseta Íslands og á reyndar vini, kunningja og ættingja sem hafa gagnrýnt mig harkalega fyrir að sýna honum og þjóðinni stuðning í verki, en mér er slétt sama. Ég sé ekki betur en að hann hafi lagt sig allan fram við að verja heiður Íslendinga með kjafti og klóm, af heilindum, bæði erlendis og hérlendis, og ég leyfi mér að virða hann fyrir það.
Þannig hefur vonandi einni samsæriskenningu sem á sér enga stoð í veruleikanum verið varpað fyrir borð. Gróa er nefnilega ansi öflug þar til hún er stoppuð með sannleikanum, og hún á jafnvel einhvern mátt þrátt fyrir að sannleikurinn hefur komið í ljós - því hún hefur tilhneigingu til að hlusta aðeins á það sem hentar hverju sinni.
(Það má taka fram að Sverrir Stormsker skrifar aðra grein af sinni alkunnu ritsnilld, væntanlega um sama mál, en er mér greinilega ósammála: Sögufölsun forsetans). Spurning hvort að þetta sé ekki ágætis dæmi um hvernig sögurnar spinnast.
Og enn spinna menn lengra: Ljósmyndir af forseta Íslands með auðmönnum og útrásarvíkingum fjarlægðar af vef embættisins
Ætli þessu verði nokkuð hætt fyrr en allir trúi þessu? Er þetta kannski sprottið úr öfgatrú eins og þeirri að fjölmiðlar ljúgi aldrei?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fjölskyldufaðir skotinn vegna skvaldurs í bíó
28.12.2008 | 18:33
Í fyrradag hunsaði fjölskylda sem sat fyrir framan mann á kvikmyndasýningu í Bandaríkjunum ósk hans um að þau hættu að skvaldra með þeim afleiðingum að maðurinn, James Joseph Cialella yngri, 29 ára gamall, stóð upp, gekk í kringum sætaröðina og krafðist þess að fjölskyldan vinsamlegast héldi sér saman. Rifrildið æstist upp í handalögmál þar til Cialella dró upp skammbyssu og skaut fjölskylduföðurinn í vinstri handlegg.
Gestir kvikmyndahússins, sem höfðu verið að horfa á The Curious Case of Benjamin Button, með Brad Pitt og Cate Blanchett í aðalhlutverkum, þustu í allar áttir og leituðu skjóls, en Cialella fór hins vegar aftur í sæti sitt og hélt áfram að horfa á myndina, þar til lögreglan færði hann í gæsluvarðhald.
Mér finnst þetta áhugaverð frétt. Sérstaklega þegar mér verður hugsað til menningarmuns á Íslandi og Bandaríkjunum, og hvernig við tökum á málum þegar við erum ósátt. Ef einhver skvaldrar í kvikmyndahúsi hérna heima eða veldur ónæði á annan hátt, er sá hinn sami í mesta lagi beðinn um að sýna tillitssemi. Verði hann við því, gott mál. Ef ekki, er líklegt að sá sem kvartaði muni hafa það frekar skítt, að minnsta kosti þar til hann kemst heim og getur róað sig við að blogga um hvað var ömurlegt í bíó vegna tillitsleysis annarra bíógesta.
Sjá frétt um skotárásina hjá philly.com
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
The Philadelphia Story (1940) ***1/2
26.12.2008 | 12:46
Allir kannast við hinn klassíska ástarþríhyrning, þar sem til dæmis tveir karlar berjast um hylli og ást einnar konu. Í The Philadelpha Story fáum við aðeins flóknari útgáfu: ástarfimmhyrning, þar sem karlarnir eru þrír og konurnar tvær. Úr verður hin besta skemmtun.
Ljóðskáldið Macaulay Connor (James Stewart) og myndlistamaðurinn Elizabeth Imbrie (Ruth Hussey) sem starfa hjá slúðurtímaritinu Spy sem dálkahöfundur og ljósmyndari fá það verkefni frá ritstjóra blaðsins, Sidney Kidd (Henry Daniell) að fjalla um brúðkaup í Philadelphia. Þau eiga í einhvers konar rómantísku sambandi en eru ekki á föstu.
Tracy Lord (Katharine Hepburn) og George Kittredge (John Howard) eiga að giftast á laugardegi, en Connor og Imbrie mæta heim Lord fjölskyldunnar, sem er afar illa við blaðasnápa í fylgd fyrrverandi eiginmanns Tracy, C. K. Dexter Haven (Cary Grant).
Hjónaband þeirra Tracy og Dexter hafði lokið með ósköpum tveimur árum fyrr, enda Tracy mjög kröfuhörð og Dexter í vandræðum með áfengisneyslu. Dexter vill fyrir alla muni koma í veg fyrir brúðkaupið, en hann veit að George Kittredge er ósvífinn tækifærissinni sem ætlar sér að nota ríkidæmi Tracy fyrir pólitískan frama. Macaulay Connor hefur einnig mjög sterkar skoðanir á Kittredge og þekkir sögur um hvernig hann kom sér úr fátækt til ríkidæmis.
Macaulay Connor er meinilla við að skoða einkalíf annarra, og líkar það enn verr þegar Lord fjölskyldan, öll sem ein setur á svið blekkingarleik til að þykjast vera venjuleg suðurríkjafjölskylda. Connor ákveður samt að fara á bókasafn til að lesa sér til um fjölskylduna, en finnur þar sjálfa Tracy Lord sem situr og les smásögubók eftir Macaulay. Þau átta sig strax á að þau hafa dæmt hina manneskjuna of fljótt, og áhugi þeirra hvort á öðru fer hratt vaxandi og verður hugsanlega að einhverju meiru þegar þau fá sér í glas seinna um kvöldið.
Það er hreinn unaður að fylgjast með þeim James Stewart og Katherine Hepburn leika saman. Það einfaldlega geislar af þeim og þau hafa nákvæmlega það sem þarf til að allir vilji að þau nái saman á endanum. Það vita allir að Kittridge væri ekki góður eiginmaður fyrir hana. Dexter og Imbrie standa á hliðarlínunni, en hafa afdrifarík áhrif á framvindu sögunnar.
Afar skemmtileg kvikmynd sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Þó að The Philadelphia Story sé orðin 69 ára gömul, er hún mun betri en flestar rómantískar gamanmyndir sem gerðar eru í dag, sérstaklega vegna þess hversu frábær persónusköpunin er hjá risunum þremur: James Stewart, Katherine Hepburn og Cary Grant.
James Stewart fékk óskarinn sem besti leikari í aðalhlutverki og Donald Ogden Stewart fékk óskarinn fyrir besta handritið.
Atriði úr The Philadelphia Story: Somewhere Over the Rainbow
Vissir þú að fyrsti jólasveinninn lenti í fangelsi fyrir að berja biskup?
23.12.2008 | 19:19
Jólin koma.
Sumir segja jólin vera kristna hátíð, aðrir segja hana vera heiðna. Allir þekkja Coca-Cola jólasveininn og líka hina 13 íslensku jólasveina sem sífellt reyna að bæta sig þrátt fyrir verra en slakt uppeldi hjá Grýlu og Leppalúða. Einhvern veginn tengist Jesúbarnið líka jólunum og vitringarnir þrír.
Talað er um anda jólanna, við köllum hann jólaskap. Þetta jólaskap er tengt því að hafa gaman af jólalögum, finna gjafir handa þeim nánustu og hlakka til aðfangadagskvölds og síðan jólahátíðarinnar allrar.
Hvaðan kemur jólaskapið?
Til að svara þeirri spurningu vil ég kynna þér fyrir manni sem fæddist um árið 275 í 15.000 manna bæ að nafni Patara sem staðsett er í Tyrklandi.
Hann hét Nikulás. Síðar var hann kallaður heilagur Nikulás.
Þegar hann var enn barn létust foreldrar hans, Epífaníus og Jóhanna, í faraldri. Þau voru kristin að trú og vellauðug, þannig að Nikulás erfði bæði kristna trú og mikil auðævi. Hann ákvað að verja auðævum sínum við að aðstoða hina fátæku, þjáðu og sjúku með því að gefa fólki sem þurfti á nauðsynjum að halda.
Hann gaf þessar gjafir með leynd og ætlaðist ekki til að fá neitt til baka.
Fræg saga segir af fátækum manni sem var við það að selja þrjár dætur sínar í þrældóm, að hann fann á heimili sínu þrjár pyngjur fullar af gulli, og tókst þannig að bjarga börnum hans frá hræðilegum örlögum. Pyngjurnar voru síðan raktar til Nikulásar.
Nikulás stundaði pílagrímsferðir til Jerúsalem og bjó þar um tíma, en flutti síðan aftur til Tyrklands, til borgarinnar Myra, sem nú heitir Demre. Nikulás er yfirleitt kenndur við Myra. Þar varð hann ungur að aldri biskup yfir borginni, og varð hann fljótt þekktur fyrir auðmýkt, gjafmildi til þeirra sem þurftu á að halda, ást hans á börnum, baráttu hans fyrir réttlæti og umhyggju hans fyrir sjómönnum og föngum.
Sögur fara af honum þar sem hann bjargaði þremur saklausum einstaklingum frá rómverskri aftöku, og var hann vel þekktur fyrir að skipta sér af þegar ranglátir dómar voru kveðnir upp og fólk fangelsað fyrir litlar eða rangar sakir. Einnig er sagt af ferðum hans til Konstantínópel (Istanbúl í dag) þar sem hann bað keisarann um að lækka skatta borgaranna í Myra. Einnig er sagt að hann hafi komið í veg fyrir hungursneyð með því að kaupa hveiti af skipum sem voru á leið til Alexandríu.
Einnig eru til af honum kraftaverkasögur sem færa töluvert í stílinn, en það sem hann afrekaði í hinu hversdagslega lífi var nóg til að hans er enn minnst í dag, þegar venjulegt fólk klæðist jólasveinabúningi og hjálpar jólasveininum að koma með gjafir í skóinn eða jólatréð, - þá er í raun verið að minnast heilags Nikulásar í verki.
Nikulás tók virkan þátt í að skjalfesta kenninguna um hina heilögu þrenningu og barðist af hörku fyrir henni á ráðstefnu í Nicaea, árið 325. Þegar Arius frá Egyptalandi hélt því fram að Jesús,sonur Guðs væri ekki jafningi föður hans, Guðs sjálfs, þá segir sagan að Nikulás hafi strunsað yfir gólfið og gefið Arius vænan löðrung.
Fyrir löðrunginn var Nikulás færður fyrir Konstantín keisara, sem bað biskupa um að ákveða refsinguna. Biskuparnir rifu af honum biskupaklæðin, hlekkjuðu hann og hentu í fangelsi. Nikulás skammaðist sín fyrir uppákomuna og bað fyrirgefningar.
Næsta morgun kom vörður að Nikulási í fangaklefanum. Voru hlekkirnir lausir og hann aftur kominn í biskupsklæði, og las hann í Biblíunni. Þegar keisarinn frétti af þessu krafðist hann lausnar Nikulásar og Nikulás var aftur gerður af biskup yfir Myra, og vann málið um að Jesús og Guð yrðu hér eftir taldir til jafningja. Þú þarft ekki að fara lengra en í trúarjátninguna og skoða aðeins sögu Kirkjunnar til að sjá hvað þessi ráðstefna hefur haft mikil áhrif.
Hvort að Jesús og María hafi birst Nikulás í fangelsinu þessa örlagaríku nótt og fært honum lesefni og biskupaklæði má liggja milli hluta - en það er sagan sem Konstantín keisari fékk að heyra. Sjálfum finnst mér líklegra að einhver hafi heyrt af vandræðum þessa góða manns sem hjálpað hafði svo mörgum, og ákveðið að koma honum til hjálpar.
Hvort sem er, þá er ljóst að þær hugmyndir sem hann lifði fyrir, að hjálpa þeim sem minna mega sín og að sælla sé að gefa en að þiggja, eiga enn við í dag og þá sérstaklega á jólunum.
Gleðilega hátíð!
Heimildir og myndir:
InstaPlanet Presents: Cultural Universe
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Af hverju gerum við kröfu um siðferðilega hegðun?
22.12.2008 | 22:39
Síðustu daga hefur farið hátt að menn verði að víkja úr embættum og störfum, og axla ábyrgð. Er höfuðástæðan oft sú að siðferðileg hegðun viðkomandi hefur verið gagnrýnd og þykir óásættanleg, og viðkomandi jafnvel gagnrýndur fyrir spillingu, - sem er þá sjálfsagt ein höfuð andstæða siðferðilegar hegðunar.
Af hverju gerum við þessa kröfu um góða siðferðilega hegðun og hvað er eiginlega siðferðileg hegðun?
Fyrst ætla ég að gera tilraun til að svara seinni spurningunni, um hvað siðferðileg hegðun sé, og síðan hinni sem er enn dýpri um af hverju við krefjumst hennar.
Siðferði er nefnilega svolítið magnað. Til er fjöldi kenninga um siðferði og hafa heimspekingar krufið þær í mörg hundruð ár og eru enn ekki komnir að einni niðurstöðu - heimspekingar vilja nefnilega oft leita fleiri spurninga en svara. Samt virðast hugmyndir um gott siðferði alltaf skiptast í tvær fylkingar; annars vegar þá sem setur markmiðin á oddinn: nytjahyggjan (utilitarianism)- sem er nátengd efnishyggju, og hin sem metur meira ferðina að markinu en markmiðið sjálft: mannhyggja (transcendentalism) - sem er nátengd hughyggju.
Mér dettur í hug að mótmælendur séu að gagnrýna siðferði nytjahyggjunnar, þar sem að hún er það sem ræður ríkjum í stjórnmálum, hagkerfi og framkvæmdum, en megin markmið nytjahyggjunnar er að heildin fái notið farsældar, þó að það geti kostað að einhverjum einstaklingum sé fórnað. Eftir stutta umhugsun kemst ég að þeirri niðurstöðu að mótmælendur séu ekki að gagnrýna nytjahyggjuna sem slíka, heldur að hún sé ríkjandi siðferðikerfi, og að einhver heilindi vanti til að lifa í samræmi við hana.
Hugsanlegar hefur fólk á tilfinningunni að verið sé að heildinni fyrir fáa einstaklinga, í stað þess að verið sé að fórna fáum einstaklingum fyrir heildinaþ Ef svarið er að fáum sé fórnað fyrir heildina, þá er viðkomandi siðferði gott og gilt og í samræmi við nytjahyggjuna, sama hversu vafasöm okkur gæti þótt það siðferðikerfi sem slíkt, en sé hins vegar verið að fórna heildinni fyrir fáa, er ljóst að um alvarlega siðferðilega bresti að ræða sem geta ekki endað með neinu öðru en ósköpum.
Rétt eins og þegar klippt er á línu línudansara.
Af hverju krefjumst við siðferðilegrar hegðunar?
Þegar við horfum á knattspyrnuleik og þekkjum reglurnar, og sjáum leikmann slá bolta í mark, þá ofbýður okkur og viðkvæmir einstaklingar gætu jafnvel orðið öskuillir ef dómarinn dæmir mark. Þarna gerist eitthvað ósanngjarnt - og við fáum engu við ráðið. Við verðum alveg brjáluð í skapinu, nema náttúrulega ef við höldum með þeim sem skoraði. Þá er þetta kannski réttlætanlegt. Ef við þekkjum ekki reglurnar og höfum engan áhuga á leiknum, þá stendur okkur sjálfsagt á sama.
Börn eru sérstaklega næm á réttlæti og sanngirni. Það þarf ekki mikið til að þau skynji þegar jafnvægið er ekki í lagi. Það þarf ekki meira en að í hópi þriggja barna að eitt þeirra fái fleiri liti í hendurnar en hin að upphróp um ósanngirni með réttlátri reiði tekur völdin.
Það er semsagt eitthvað djúpt innra með okkur sem dæmir hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ef við skynjum ósanngirni eða óréttlæti, þá truflar það okkur. Næm tilfinning gegn ranglæti er mikilvæg fyrir allar heilsteyptar manneskjur - og þegar þær sjá ranglæti bera sigur - þá ofbýður þeim. Sérstaklega ofbýður þeim þær manneskjur sem sjá ekki hið augljósa óréttlæti, og reiðast þessum manneskjum fyrir blindni þeirra og sinnisleysi.
Það vill heldur enginn sjá hetjuna, alla hans vini og fjölskyldu lúta í duftið fyrir illmennum í kvikmyndum eða skáldsögum, og hví ættum við þá að líða það í lífinu sjálfu?
Þessi sterka trú okkar á réttlætinu er grundvöllur skilnings okkar á lífinu og tilverunni. Þessi frumhvöt getur reynst okkur illskiljanleg og hvatt okkur til að leita skýringa við henni og hvernig við tengjumst veröldinni á djúpan hátt, með ástundun heimspeki eða trúarleit. Þeir einstaklingar sem fara veg heimspekinnar verða að vera tilbúnir til að opna fyrir fleiri spurningar og kafa enn dýpra í leyndardóma tilverunnar, en þeir sem fara leið trúarinnar geta óhræddir lokað á spurningar því að svörin eru gefin með nokkuð áreiðanlegum kerfum. Hvort sem þau svör eru sönn eða ekki, þá líður fólki betur ef það hefur einhver svör sem rangt er að efast um.
Ég vil gera tilraun til að svara spurningu sem birtist í heiti bloggsins: Við gerum kröfu um siðferðilega hegðun einfaldlega vegna þess að við þurfum að halda jafnvægi í heiminum. Siðferðið er okkur jafn mikilvægt og að geta staðið á tveimur uppréttum, en við göngum að því vísu og áttum okkur ekki á mikilvægi þess fyrr en við getum ekki notað fæturna af einhverjum ástæðum, eða upplifum og verðum vitni að einhvers konar óréttlæti.
Mig grunar að heild Íslendinga þjáist í dag vegna fárra einstaklinga, sem er greinilegt brot gegn siðferði nytjahyggjunnar - en það kerfi er aðeins hægt að réttlæta - og jafnvel það þykir vafasamt - ef fáum er fórnað fyrir heildina - en aldrei, aldrei, aldrei - að heildinni sé fórnað fyrir fáa einstaklinga - sem virðist þó hafa gerst og við þurfum að spyrna við með öllum tiltækum og uppbyggjandi ráðum, en þó án þess að grípa til leiða sem valda enn frekari óhamingju og jafnvel ófarsæld, rétt eins og er að gerast á Grikklandi í dag, þar sem ofsareiði og óeirðir gera stöðugt illt verra.
Myndir
Hugsuður: Richastic!
Ímynd nytjahyggjunnar - Hamingjusamt svín: Utilitarianism.com
Hönd Guðs eða Maradonna: Soccerfansnetwork.com
Jafnvægi og fíll: Starstore.com
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Af hverju bjartsýni á myrkum dögum? Og hvað er eiginlega bjartsýni?
14.12.2008 | 09:35
Ég spurði son minn hvernig hann skilgreindi bjartsýni. Hann svaraði því til að svartsýni þýddi að við værum blind því að við leituðum ekki í ljósið, en bjartsýni þýddi að við horfðum í ljósið og það gæti blindað okkur. Þetta er hárrétt hjá honum, en eins og alltaf, þá er til millivegur sem gefur okkur færi á að horfa í ljósið með sólgleraugum öðru hverju án þess að blindast.
Það er rétt að Íslendingar eiga í miklum vanda þessa dagana. Stjórnvöld hafa brugðist og auðkýfingar hafa nánast gert þjóðina gjaldþrota, og ekki nóg með það - þeir eru enn á sömu braut. Fréttirnar um spillingu, skuldir og tap hellast yfir þjóðina eins og svartnætti.
Þegar það gerist, geturðu tekið afstöðu. Ætlarðu að láta alla þessa illsku hellast yfir þig og blinda þig, þannig að þú getir ekkert annað séð en hörmungar og vonleysi. Ætlarðu kannski að hafna þessu öllu saman og sjá þess í stað björtu hliðarnar á öllu, eins og Birtingur Voltaire, og láta eins og ekkert slæmt geti hent nokkurn mann, sama hvaða hörmungar sá hinn sami lendir í.
Til er þriðji kosturinn, og hann er að fylgjast með þessum hörmungum, en láta þær ekki yfirbuga sig með því að velta sér stanslaust upp úr þeim í fari sem erfitt er að komast upp úr. Munum að við erum manneskjur sem höfum þann eiginleika að geta sigrast á vandamálum - þegar við einblínum á eina leið til sigurs - eins og mótmæli, þá komumst við því miður ekki langt, því að þeir sem við mótmælum geta valið að hlusta ekki.
Hins vegar eru til fleiri leiðir, óteljandi leiðir, til að bæta heiminn örlítið með því að líta heiminn björtum augum þrátt fyrir allt. Þrátt fyrir alla þessa spillingu, alla þessa glæpi og allar þessar skuldir, þá getum við ekki stöðugt treyst á einhverja aðra til að leysa vandann. Við þurfum að taka málin í okkar hendur.
Ég ákvað að fara þá leið að skoða það sem hefur gengið vel áður og gengur vel í dag, til að veita mér innblástur - að finna smá ljóstæru í svartnættinu - bjartsýni, eða ljós innan frá, eins og vasaljós, sem getur hjálpað til að finna leiðir út úr þessum Surtshelli sem margir virðast týnast í.
Ég er venjuleg manneskja eins og þú. Hneykslaður á þeirri spillingu sem hefur fest um sig í stjórnkerfinu, skilningsleysi ráðamanna um pólitíska ábyrgð, misnotkun auðmanna á almannafé í hagnaðarskyni og hvernig þeir hafa komist undan á meðan almenningur situr uppi með skuldirnar - og ég er meðal þeirra sem sitja í skuldasúpunni. Í stað þess að mæta á mótmælafundi, hef ég einbeitt mér að því að finna aðrar leiðir út úr vandanum. Ein þeirra er bjartsýni.is.
Skrifstofa forseta Íslands studdi okkur til verksins og hjálpaði góðum hóp að ná saman, fólki sem hugsar á svipuðum nótum, sem áttar sig á alvarleika ástandsins en vill ekki sitja á auðum höndum eða treysta á einhvern annan sem hvort eð er virðist ekki treystandi til að leysa málin. Ég sé lítið gagn í að gagnrýna forsetann sjálfan fyrir að hafa stutt útrásina, því að útrásin sem slík er ekki vandamálið, heldur þeir auðmenn sem misnotuðu og misnota enn aðstöðu sína.
Öflug fyrirtæki eru enn að hagnast á framleiðslu út um allan heim sem hönnuð er á Íslandi. Það er ekkert að slíkri útrás. Eina gallaða útrásin er sú sem byggð var á fjármálabraski, sem þýðir ekki að öll önnur útrás hafi verið sams konar brask. Að segja alla útrás vera af hinu illa er það sama og að segja alla Íslendinga vera glæpamenn bara vegna þess að sumir Íslendingar eru glæpamenn. Það er munur á hluta og heild.
Fólk er oft úrræðagott á ögurstundu. Ég vil heyra sögur af slíku, þegar fólk hefur sett sér markmið sem virðist vonlaust að ná, en nær því samt. Slíka sögu er hægt að finna hér, og hefur þegar veitt mér töluverðan innblástur: Sagan af 3X Technology og fyrsta útflutningnum. Þessi saga segir mér einfaldlega að þó aðstæður séu erfiðar og virðist óyfirstíganlegar, þá getum við með dug og ímyndunarafli búið til aðstæður sem leysa málin eða komast í það minnsta nær takmarkinu.
Við getum ekki einbeitt okkur að slíkum lausnum þegar við erum bundin við mótmæli og hneykslun á þeim mannlegu hamförum sem yfir okkur dynja - þar þyrftum við að í raun að kalla eftir aðstoð annarra þjóða til að uppræta upplausn okkar, þar sem að við virðumst ekki ráða við það sjálf - frekar en fjölskylda sem er buguð af alkóhólisma. Meðlimir fjölskyldunnar þurfa þó ekki að gerast meðvirkir allir sem einn, sumir geta farið út og leitað leiða til að gagnast sinni þjóð, þó að það verk geti þótt galið við fyrstu sýn.
Fyrir sex árum síðan glataði ég aleigu minni í fellibylnum Ísidóri. Morguninn sem veðrinu slotaði (stóð yfir í 36 klst.) bankaði nágranni minn uppá hjá mér og rétti mér sveðju. Við fórum út á götu og byrjuðum að höggva í sundur eitt af þúsundum trjáa sem rifnað höfðu upp með rótum í storminum. Það hefði sjálfsagt verið mikil bjartsýni hjá mér að ætla að höggva í sundur þau 10 þúsund tré sem rifnuðu upp með rótum og féllu á götur borgarinnar. Engu að síður var verk mitt hluti af stærri heild þar sem fjöldanum tókst að höggva nóg í trén til að geta opnað fyrir umferð, sem gerði mexíkóska hernum fært að komast inn í borgina með hermenn sem tóku við verkinu að kvöldi og héldu því áfram næstu daga.
Ég og mín fjölskylda fengum enga aðstoð frá íslenska eða mexíkóska Ríkinu, og við báðum heldur ekki um aðstoð heldur reyndum að leysa málin sjálf, samt fengum við mikla aðstoð frá fjölskyldu okkar Í Mexíkó sem útvegaði okkur húsaskjól næstu mánuðina. Við fluttum úr einni borg í aðra, fundum okkur ný störf og héldum áfram að lifa lífinu eftir bestu getu.
Þannig lít ég á bjartsýni.is. Þarna er komin uppspretta fyrir góðar hugmyndir. Í raun er ég nágranni þinn sem réttir þér sveðju eftir fellibyl. Þú getur skellt á mig í reiði, ráðist á mig með sveðjunni, eða komið með mér og byrjað að höggva á flækjuna sem lokar fyrir góðum leiðum.
Á bjartsýni.is eru velkomnar sögur sem stinga upp á leiðum til að leysa núverandi vanda í stað þess að vonast til að einhver annar leysi hann.
Aðstandendur vefsins eru hvorki Pollýanna né Birtingur. Við snúum ekki öllu við og segjum að hörmungar séu góðar, heldur leitum leiða út úr vandanum með því að líta á björtu hliðarnar, og ekki bara það - heldur getum við búið til nýjar og bjartar leiðir sem enginn hefur kannski séð fyrir.
Þannig getum við byrjað á því að skilgreina bjartsýni. Til er óvirk bjartsýni sem vonast bara til að slæmir hlutir séu að einhverju marki góðir, eða vonast til að málin bara reddist af sjálfu sér - þetta reddast! - og svo er það hin virka bjartsýni - þar sem við leitum leiða til að leysa vandamálin og finna góðar leiðir sem við viljum fylgja - og gerum það!
Myndir:
Sólgleraugu: trend clothes
Spilling: Fractal Ontology
Bjartsýni: bjartsýni.is
M&M áróður: studio seventy7
Fellibylurinn Ísídór: National Geophysical Data Center
Bjartsýnismaður í eyðimörk: John Fenzel
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Margt gengur vel - verum bjartsýn
12.12.2008 | 08:34
Í dag mun forseti Íslands opna með formlegum hætti vefinn bjartsýni.is, vef sem birtir aðeins uppbyggjandi efni jafnt frá atvinnulífinu sem einstaklingum, um árangur sem hefur náðst á erfiðum tímum, tækifæri sem búin eru til á kreppudögum, og einfaldlega jákvæðar sögur sem hjálpa okkur á fætur og til að líta lífið aðeins bjartari augum.
Þó að fæturnir séu stundum rígfastir við jörðina er hollt að líta til sólar öðru hverju.
Opnunin verður í húsnæði Gogogic á hádegi í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)