Tollurinn: með okkur eða á móti?
8.2.2008 | 18:06
Það er ánægjulegt þegar svona fréttir berast, að þýfi hafi verið stöðvað á leið frá Íslandi af tolli og lögreglu. Þetta er það sem tollurinn á að einbeita sér að: að uppræta glæpi. Ekki ofsækja túrista. Til hamingju tollur!
En...
Á síðustu misserum hef ég heyrt mikið kvartað undan tollinum fyrir að níðast á einstaklingum fyrir litlar sakir, aðrar en að kaupa sér aðeins of mikið af dóti. Reyndar er frekar við tollalögin að sakast en tollverðina sjálfa, þar sem tollalögin takmarka innkaup á vörum erlendis.
Ég vil segja stutta sögu. Hún er sönn. Þegar ég var í námi í Bandaríkjunum keypti ég mér fartölvu. Eftir námið kom ég með hana heim, og þar sem ég var ekki með mikil verðmæti önnur fór ég beint í gegnum græna hliðið. Ég sagði meira að segja tollverði frá því að ég var með þessa tölvu á mér. Svo leið ár. Ég fór utan og tók tölvuna með. Þegar ég kom heim aftur var ég stoppaður í tollinum og rukkaður um virðisaukaskatt fyrir þessa sömu fartölvu, sem ég viðurkenndi að sjálfsögðu að ég hafði keypt í Bandaríkjunum ári áður.
Mér fannst sárt að þurfa að borga þennan pening og mér fannst þetta óréttlát meðferð, að einstaklingur sem er með vinnutæki á sér skuli vera rukkaður fyrir það í tollinum, á meðan mér fannst að áherslan ætti að vera á glæpamönnum, frekar en fólki sem hefur gert það eitt af sér að kaupa hlut sem var nokkrum þúsundköllum of dýr samkvæmt íslenskum lögum.
Ég skil ekki af hverju við sættum okkur við þetta enn þann dag í dag. Fólki finnst það mikil niðurlæging þegar það kemur til Íslands og tollverðir horfa á það með grunsamlegu augnaráði, og geta með einni bendingu beðið fólk um að opna töskur sínar. Þetta væri gott og gilt ef rökstuddur grunur væri á að viðkomandi væri að smygla inn fíkniefnum eða þýfi; en þegar málið er farið að snúast um hvort að viðkomandi hafi keypt vörur fyrir fleiri þúsundkalla en má samkvæmt íslenskum lögum, þá eru tollverðir farnir að skjóta sig í fótinn og tapa virðingu landans.
Ég veit um fólk sem þorir ekki að taka myndavélar sínar eða fartölvur með í frí til útlanda af ótta við að tollurinn taki þær af þeim þegar heim er komið, nema það geti sýnt kassakvittun um hvar það keypti gripinn. Ég hef heyrt að það sé viðhorf flestra tollvarða að viðkomandi einstaklingur sé sekur þar til sakleysi sannast. Ef það er satt, þá er þetta ekki í lagi, og með slíkri háttsemi fær tollurinn almenning á móti sér, - og í stað þess að koma með vinsamlegar ábendingar sem gætu hjálpað, þorir enginn að segja neitt af ótta við að vera tekinn fyrir.
Alþingi mætti taka tollalögin alvarlega til endurskoðunar, sérstaklega þegar kemur að innflutningi einstaklinga á vörum til persónulegra nota, bæði úr ferðum og þegar þær eru keyptar á netinu.
Tollurinn og lögreglan eiga einmitt að einbeita sér að því að vernda hinn almenna borgara gegn þrjótum sem vinna samfélaginu mein. Ég held að þeir geri þjóðinni lítið gagn með því að fara í gegnum persónulegar eigur fólks og spyrja hvað þær hafi kostað eða hvar þær hafi verið keyptar.
Hver er þín upplifun af tollinum á Íslandi?
Myndir af vefsetrinu tollur.is
Erlend þjófagengi í sókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:09 | Facebook
Athugasemdir
Mér finnst tollverðir oft vera með stórmál út af algerum "tittlingaskít".
Einnig finnst mér þessi ofuráhersla á vopnaleitina líka svolítið pirrandi svo vægt sé til orða tekið. Skil svo sem alveg að fara í gegnum slíkt á leið um borð í vél.
Dæmi : Í haust á leið minni heim frá Bandaríkjunum var mér gert að fara í gegnum vopnaleit á flugvellinum í Baltimore þar sem þarf að taka af sér ýmsan fatnað, belti og skó, get alveg gúdderað það enda á leið um borð í flugvél og gæti verið með stórhættulegt útlenskt vatn í fórum mínum. Flugið heim er ávallt næturflug og tók um 6 tíma, lending um kl 07:00. Allir um borð dauðþreyttir og vilja bara komast til síns heima sem fyrst.
En nei........tekur ekki við löng biðröð til að fara í gegnum ANNAÐ vopnaleitarhlið með nákvæmlega sömu aðferðum og hliðið á flugvellinum í Bandaríkjunum. Hvar átti ég að verða mér úti um þann hættulega búnað sem þeir eru að sverma fyrir, þar sem ég sat fastur inni í fljúgandi röri í 6 tíma ? Treysta tollverðir hér ekki tollvörðum í Bandaríkjunum til þessa verks ? Tollverðir í USA eru nú þeir mest "paranoid" af öllum tollvörðum í heiminum í dag.
Ívar Jón Arnarson, 8.2.2008 kl. 18:36
Verður maður þá að skrá hlutina hjá tryggingafélaginu sínu áður en maður tekur þá með til útlanda?? Mín reynsla af tollinum er hins vegar mjög góð, alltaf fengið réttláta meðferð.
Ásdís Sigurðardóttir, 8.2.2008 kl. 18:38
Held ég verði að taka upp hanzkann fyrir tollverðina og lögregluna á Vellinum sem fólk, þeir eru bara að vinna vinnuna sína og ég held að flestir þeirra séu bara að gera það vel. Hins vegar tek ég undir það að starfsreglur þeirra eru fáránlegar, bæði þetta að vernda íslenzka fákeppni og landbúnaðarokur, og einnig ruglið og togstreitan milli Kanans og Evrópu um öryggismál, þar sem hvorugur aðilinn viðurkennir aðferðir hins. Ég held ekki að íslenzku löggunni þyki neitt sérstaklega gaman að finna táfýluna sem gýs upp þegar svefndrukknir farþegar frá Bandaríkjunum þurfa að fara úr skónum í morgunsárið.
EGT
Einar G. Torfason (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 22:44
Takk fyrir góð svör.
Tollurinn hefur að mínu viti ekkert með öryggisgæslu á flugvöllum að gera. Það eru sérhæfð fyrirtæki með sérþjálfuðu starfsfólki sem sjá um þá hluti. Tollurinn sér hins vegar um að athuga hvort einhverju ólöglegu sé komið inn í landið eða út úr því, og reynir að stoppa slíkt athæfi.
Ég er alls ekki að gagnrýna starfsfólks tollsins í þessari grein, heldur einmitt þeim lögum sem það verður að fylgja til að sinna störfum sínum vel.
Hrannar Baldursson, 9.2.2008 kl. 00:55
ég er algerlega sammála þer hvað þessar reglur varðar, þær eru fáranlegar. Ég hef búið erlendis og flutt heim með búslóð og þá var eg spurð hvort eitthvað hafi verið keypt erlendis og eg segi þeim hvað það var. lendi þá i engu smá veseni með að fá búslóðina afhenda, og þurfti að greiða virðisaukaskatt af rúmi, sem eg hafði kvittun fyrir. Þeir áttu svo erfitt með að reikna virðisaukaskattinn af þessari upphæð að þeir ætluðu að láta mig borga nærri tvöfalt hærri upphæð en eg hafði greitt fyrir sjálft rúmið. Ég sá þa auðvitað um leið að það gæti ekki staðist og benti þeim á það. þá var hver starfsmaðurinn kallaður til á fætur öðrum og enginn gat seð að þetta væri vittlaust útreiknað, sem 10 ára frændi minn gat seð að gat ekki staðist.
Einnig lenti eg í þvi að hafa keypt mer hlut a íslandi sem eg sá að myndi borga sig að gera þar sem eg gat fengið tax free á hann þegar eg færi úr landi, en þá var hun ekkert nema óliðlegheitin sú sem var tollinum a Íslandi og var eiginlega bara að koma i veg fyrir að maður myndi vera standa i að kaupa hluti á íslandi til að fá taxfree á þá þegar maður færi úr landi. Allavega kem eg til með að hugsa mig um áður en eg geri það aftur.
Svo eg er alveg sammála þvi að þeir mættu fara endurskoða þessar reglur sem þeir vinna eftir, og ekki einblína svona á þá sem eru að kaupa eitthvað til einkanota og er aðeins dýrara en er leifilegt.
Hekla (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 10:05
ívar jón,,, á flugvöllum í bandaríkjunum er bannað með lögum að leita á stafsfólki flugvallarins og þess vegna þarftu að fara í gegn um vopnaleit á íslandi (ef einhver starfsmaður hefði látið þig fá vopn) og það kemur ekkert tollinum við heldur lögreglunni...
en annars er ég mjög sammála þessu bloggi,, ég var úti í danmörku í des og þegar ég kom heim fékk ég yfirheirslu frá einum tollverði í góðar 20 mín um hvað má eyða og reyndi að fá mig til að játa að ég hafi keypt mér of mikið... svo þegar hann sá ipod í töskunni minni ætlaði hann að fara að taka hann af mér... þessi ipod var 2ja ára gamall og kostaði mig litlar 16.000.- kr í BNA... hann fékk það ekki...
Bergur Frosti (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 17:46
Einnig finnst mér alltaf fyndið hvað tollverðirnir horfa eingöngu á tæki og tól, hef séð nokkra fara í gegnum græna liðið í rándýrum nýjum leðurjakka, með rándýrt nýtt úr en eina sem tollurinn skoðaði var ipod...
og þetta er bara kjánalega, að tollverðirnir séu að hnýsast í töskur fólks og skoða hvað það var að kaupa?
persónulega finnst mér að þeir þyrfti að hafa rökstuttan grun og brot og einnig að ætti fólk að mega kaupa það sem það vill erlendis svo lengi sem það er til eigin nota, annað þegar menn eru að koma með fulla tösku af ipod'um.
Ólafur (IP-tala skráð) 16.2.2008 kl. 16:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.