Brengluð tilfinning fyrir íslenskri tungu: Hlakkar mig til eða hlakka ég til?

Sumum orðasamböndum botna ég alls ekkert í. Eitt þeirra er tengt þeirri stífu stefnu að fólk verði að segja: "Ég hlakka til" en að bannað sé að segja "Mig hlakkar til."

Ég hef þá tilfinningu að orðanotkunin "Mig hlakkar til einhvers" sé rétt og að "Ég hlakka til einhvers" sé röng, þrátt fyrir að íslenskufræðingar segi annað. Hins vegar finnst mér rangt að segja "Mig hlakkar yfir óförum annarra", en réttara væri, "Ég hlakka yfir óförum annarra." (Ekkert sérstaklega geðslegur eiginleiki samt).

"Mér hlakkar til" eða "mín hlakkar til" er aftur á móti tómt bull og steypa.

Ég vil halda því fram að eftirfarandi sé tvær ólíkar sagnir:

  1. Að hlakka (Ég hlakka)
  2. Að hlakka til (Mig hlakkar til)

Hefurðu skoðun á þessu?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Hrannar.

Þessi ábending þín samræmist alveg minni máltilfinningu og oft hef ég verið staðinn að því að segja að mig hlakki til.  Held samt að ég sé orðinn heilaþveginn því mér er orðið vel tamt að nota nefnifalls útgáfuna.  Var þó í mörg ár þeirrar skoðunar að sögnin að hlakka ætti að taka þolfall en ekki nefnifall. 

Nú hlakkar í mér og ég hlakka til að sjá hvað aðrir hafa um þetta að segja.

Kveðja, Atli.

Atli Þór (IP-tala skráð) 2.2.2008 kl. 00:35

2 Smámynd: Ómar Ingi

Það er fyrir mestu að fólk skilji þig

Ómar Ingi, 2.2.2008 kl. 03:00

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Það er náttúrulega ekki rétt að það sé bannað að nota þolfall með sögninni hlakka til. Nema þegar maður skrifar ritgerðir í skólum því. Dags daglega getur auðvitað hver sem er sagt það sem honum sýnist. Það er samt sem áður ekki samkvæmt gamalli málhefð að nota þolfallið. Það er annars merkilegt að þú skulir vera svona harður á því að vilja nota þarna þolfall en alls ekki þágufall. Því ef eitthvað er, er þágufallið eðlilegra þarna. Þágufall hefur nefnilega oft það merkingarhlutverk sem kallast 'reynandi', og kemur fram með sögnum eins og 'finnst', 'sýnast', 'virðist', 'líða (illa)', 'þykja', o.s.frf. Þágufallssýkin svo kallaða reynir t.d. fyrst og fremst á orð sem falla í þann flokk. 'Hlakka' myndi einmitt falla í þann flokk. Þolfall aftur á móti er fyrst og fremst notað sem 'þolandi', þ.e. andlag sagnar, með nokkrum undantekningum eins og með sögnunum 'langa', 'vanta', 'varða' og nokkrum fleiri.  En sem sagt, hægt er að réttlæta þágufall með 'hlakka' en varla þolfall. Bara smá innlegg í umræðuna.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.2.2008 kl. 03:51

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Atli, takk fyrir gott innlegg. Fínt að vita til að ég er ekki sá eini með þessa tilfinningu.

Ómar, sammála.

Kristín, ég veit að þetta er ekki þágufall, og tel ég þetta einmitt ganga upp í þolfalli þar sem tilhlökkun er löngun sem hendir fólk, og stundum ráðum við einmitt varla við okkar eigin eftirvæntingar- sérstaklega þegar um börn og pakka er að ræða á þetta sérlega vel við. Það er eins og tilhlökkunin komi yfir okkur. Mín tilfinning er að "að hlakka til einhvers" vísar til þess að við séum að gera eitthvað ákveðið, sem mér finnst ekki passa þegar um tilhlökkun er að ræða, en á hins vegar við ef okkur gefst tilefni til að hlakka yfir einhverju. Þá hlakkar í okkur.

Hrannar Baldursson, 2.2.2008 kl. 06:49

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég hef aldrei séð einhverja naglfasta skýringu á þessu. Ef skipt er út orðum og sagt langar, þá segja menn ekki Ég langar til.  heldur Mig langar til.  Nú ef við setjum finnst eða Líkar þá er forskeytið Mér.

Ekki segir maður: Ég líkar eða Ég finnst eða Mig líkar eða Mig finnst.

Af hverju þolfall eða þágufall fellur ekki þarna inn, er skrítið. Þolfall er að mínu mati eðlilegt í samhenginu. Ég er ekki tilhlökkunin, tilhlökkunin er í mér.  Það er vel þess vert að spyrja um þetta því að ég held að fæstir séu með þetta alerlega á hreinu. Það er eitthvað ósamræmi í þessu öllu, sem mér þætti væntum að sjá skýrt.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.2.2008 kl. 09:04

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það sem mér finnst samt mest áberandi við brenglaða málnotkun á prenti er að það virðist verða æ algengara að deila í sundur samsettum orðum. T.d. Rakara stofa, marmara höll, orð notkun etc.

MIg grunar að þetta megi skrifa á viðleytni manna til að gera lesmál skiljanlegra fyrir leshamlaða eða þroskahamlaða og er t.d. hægt að fá fréttir hér á mbl. í slíkri framsetningu.  Þetta virðist þó vera að breiðast út með faraldsfræðilegum hraða.

Svo til að stríða Kristínu: Maður segir Náttúrlega í stað Náttúrulega.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.2.2008 kl. 09:15

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

viðleitni átti að standa...sorry...þetta hefur maður fyrir að gera sig breiðan.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.2.2008 kl. 09:17

8 identicon

Innlit,- örstutt, flottur pistill, með beztu kveðju .

bumba (IP-tala skráð) 2.2.2008 kl. 10:31

9 identicon

Hrannar, ég held það sé orðið viðtekið á þessu ömurlega skeri, að meðan á annað borð er verið að nota þetta fuglamál, þá ráði hver og einn hvernig hann talar og skrifar. Það er ekkert til sem heitir rétt mál. Hinsvegar finnst mér að það þurfi að fara að taka afstöðu til þess hvort við eigum að gera börnin okkar að second class citizens í heimsþorpinu með því að vera að halda upp á þetta lingó.

Nöldrarinn (IP-tala skráð) 2.2.2008 kl. 13:17

10 Smámynd: Kjartan Jónsson

Ég held að margir íslenskufræðingar (þ.á m. undirritaður) séu á því að "mig hlakkar" sé eðlilegra miðað við merkingarhlutverk orðsins, ekki síst af því að þetta (að hlakka) er tilfinning sem við höfum ekki stjórn á, þ.e. þetta er ekki gerendasögn eins og ég smíða eða ég borða, heldur þolendasögn, eins og "að langa". Hitt er svo annað mál hvaða hefðir eru í gangi og tilurð þeirra.

Kjartan Jónsson, 2.2.2008 kl. 13:25

11 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Kjartan og Hrannar. Einmitt af því að þetta er tilfinning sem við höfum ekki stjórn á ætti þetta að vera þágufall - ekki þolfall. Þolfall er algengast sem andlagsfall sem þýðir að einhver gerir okkur eitthvað. Um það er ekki að ræða í þessu tilfelli. Það er því ekkert sem gerir þolfallið líklegra þarna en nefnifall eða þágufall. Þágufallið hins vegar er einmitt það fall sem í auknum mæli er notað þegar um slíkar tilfinningar er að ræða. Því segi ég aftur það sem ég sagði að ofan, ef við viljum ekki nota nefnifall með þessari sögn væri eðlilegt að nota í staðinn þágufall en ekki þolfall. Eiríkur Rögnvaldsson sagði einu sinni (veit ekki hvort það er upphaflega hans skýring eða ekki) að þágufallið væri að reyna að tryggja sig í sessi sem reynanda-fall (kemur mið tilfinningasögnum) af því að það hefði ekkert hlutverk eins og hin föllin þrjú.

 Jón Steinar,  hmmm, kannski við ættum að velta fyrir okkur reglunum um samsett orð. Hvenær höfum við stofnsamsetningum, hvenær bandstafi, o.s.frv. Ekki misskilja mig, þú hefur rétt fyrir þér þarna. Ég velti því bara fyrir mér af hverju orðið er sett svona saman.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.2.2008 kl. 17:45

12 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

(til)hlökkun er eftirvænting. að finna til eftirvæntingar. vera spenntur fyrir einhverju. því skil ég vel að 'ég hlakki' rétt eins og 'ég vænti' eða 'ég spennist' eða 'ég er spenntur'.

ég er ekki að sjá fyrir mér að hvorki 'mig' né 'mér' muni hlakka, frekar en 'mig' eða 'mér' vænti eða er spenntur.

auk þess sé ég ekki, í málfræðilegu tilliti, hver munurinn er að hlakka yfir óförum annara eða yfir einhverju öðru. eða að hlakka til eins frekar en annars.

Brjánn Guðjónsson, 2.2.2008 kl. 17:50

13 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Góð spurning Brjánn. Og góðar pælingar hérna.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.2.2008 kl. 21:00

14 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Mér finnst og hefur alltaf fundist að ég eigi að hlakka til. Ég minnist þess úr skóla 11 eða   12 ára vorum við spurð hvort við segðum ég, mig eða mér hlakkar, til að ég var sá eini í bekknum sem sagði ég hlakka til. En ég er nú kannski dálítið mikill málhreinsunarmaður, nei kannski ekki alveg. En það er eitt sem pirrar mig dálítið en það er þegar fólk er allt í einu farið að spá í því í staðinn fyrir að spá í það (þolfall). Ég veit ekki hvernig stendur á því að þetta breyttist allt í einu. Hvert er ykkar álit á þessu?

Gísli Sigurðsson, 2.2.2008 kl. 21:01

15 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ljóst er að sitt sýnist hverjum, og sé ég fyrir mér þetta mál fara þurfi að fara fyrir dómara, þar sem að þeir kunna víst töluvert fyrir sér í íslensku.

Að öllu gamni slepptu, gaman að fá svona margar ljómandi og upplýsandi skoðanir.

Mig hlakkar til að hlakka aftur af tilhlökkun yfir að ræða íslenskt mál.

Hrannar Baldursson, 2.2.2008 kl. 21:02

16 identicon

Sæll Hrannar og þið öll. Mikið er þetta fróðleg umræða. Já, ég hef tekið eftir gífurlegum breytingum á málinu á þessum 35 árum sem ég hef að mestu búið erlendis. Eins og þið sjáið skrifa ég ennþá með z, hun var tekin úr málinu löngu eftir að ég flutti út. Sé ennþá eftir henni.

Munið þið eftir jólalaginu sem við sungum í gamla dag?

"Pabbi segir, pabbi segir; bráðum koma dýrleg jól. Mamma segir mamma segir; þá fær Solla nýjan kjól.

Hæ hæ ég hlakka til, hann að fá og gjafirnar. Björt ljós og barnaspil, og borða sætu lummurnar."

Alltaf þegar ég hef lent í vandræðum með sögnina að hlakka, hugsa ég til þessara vísu bernsku minnar og leiðrétti mig ef þess var þörf. Undarlegt hvað svona gamlir hlutir sitja í manni.

Mér hefur fundist slæmt hvernig málvöndun á Íslandi hefur farið aftur. Það er svo sem allt í lagi að málið breytist, í raun og veru er ekkert að gera við því, en hraðinn á þessum breytingum hefur verið óþyrmilega mikill. Enn komum við aftur að þessu sama Hrannar minn, hraðinn, hraðinn hraðinn. Til dæmis þetta blásna R í enda allra orða sem enda á þeim bóksataf, sömuleiðis með L, blásið einnig í endann, nákvæmlega eins og R. Þetta er bæði ljótt og er sérstaklega ljótt í söng finnst mér. En því verður ekki breytt héðan af. Einnig finnst mér slæmt að Í skuli vera á undanhaldi að maður tali nú ekki um Ú. Þetta eru frumhljóð í öllum tungumálum og er það slæmt ef fer sem horfir. Með beztu kveðju.

bumba (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 01:21

17 Smámynd: Einar Jón

Jón Steinar Ég hef aldrei séð einhverja naglfasta skýringu á þessu. Ef skipt er út orðum og sagt langar, þá segja menn ekki Ég langar til.  heldur Mig langar til.  Nú ef við setjum finnst eða Líkar þá er forskeytið Mér.

Ekki segir maður: Ég líkar eða Ég finnst eða Mig líkar eða Mig finnst.

Ein skýring sem ég las einhvern tímann var að ef hægt er að setja nafnorð í nefnifalli strax á eftir sögninni á þágufallið heima þarna, annars ekki. T.d.

Mér finnst málfræðikennsla leiðinleg -> virkar -> þágufall er rétt
Mér vantar málfræðikennsla -> virkar ekki -> ekki þágufall

Ég kann hinsvegar enga skýringu á hvers vegna "ég hlakka til", aðra en að ólíkt Hrannari finnst mér það hljóma réttara. 

Einar Jón, 4.2.2008 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband