Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Into the Wild (2007) ***1/2

"Into the Wild" er vel heppnuð mynd um ferðalag flækings sem kallar sig Alexander Supertramp (Emile Hirsch), en hann hefur hafnað uppruna sínum og leggur út í guðsgræna náttúruna í leit að hamingju. Hann áttar sig á að frægð, frami og ríkidæmi er 20. aldar fyrirbæri og hefur engan áhuga á að festast í hlutverki samtímans, og vill þess í stað skrifa sína eigin sögu, lifa sínu eigin lífi.

Á ferðalagi hans burt frá foreldrum sínum, hittir hann og hefur djúp áhrif á manneskjur sem eru á sínum eigin stöðuga flækingi í þessu lífi. Þetta fólk uppgötvar að þessi ungi maður er djúpvitur og með hjartað á réttum stað, þrátt fyrir óvenjulegar ákvarðanir. Umfram allt kallar náttúran sjálf á hann og hann vill gera allt til að lifa eftir eigin sannfæringu.

Það er ekki annað hægt að velta fyrir sér eftir að hafa horft á þessa mynd, hversu margir eru fastir í eigin tíðaranda, kerfi sem fólk flýtur eftir og reynir kannski að grípa í grein á árbakkanum til að berjast á móti. En flestir munu hrapa þennan foss sem er framundan, því allar greinar trjábakkans hafa verið rifnar upp með rótum.

Kannski þú verðir að komast snemma upp úr fljótinu til að komast upp úr straumnum. Kannski þarftu ómælanlegt hugrekki, sjálfstæðu og visku til. Og sjálfsagt munu þeir sem fljóta í straumnum hrópa upp úr sínum votu draumum að einungis bilað fólk fari sína eigin leið.

Góð mynd í leikstjórn Sean Penn, en hann hefur fengið góðan hóp aukaleikara til að styrkja söguna. Þarna koma til sögunnar stórleikarar eins og Marcia Gay Harden, William Hurt, Hal Holbrock, Catherine Keener, grínarinn Vince Vaughn og hin áhugaverða Kristen Stewart sem slegið hefur í gegn sem Bella í Twilight myndunum, að ógleymdum hinum stórgóða Emile Hirsch í aðalhlutverkinu.


Látum vaða yfir okkur eða stöndum saman eins og STRÁKARNIR OKKAR?

Um sóknarleik Ólafs Ragnars á CNN.

bilde?NewTbl=1&Avis=XZ&Dato=20100129&Kategori=IDROTTIR02&Lopenr=725665363&Ref=PH&Item=7&Maxw=450&Maxh=450&NoBorder=1
 

 

Það er ekki bara í handbolta sem að við verðum að standa okkur vel. Handbolti er fyrst og fremst leikur, og svo skemmtilega vill til að landsliðið er að reynast afar góð fyrirmynd fyrir þegna þjóðarinnar. Þeir gefast ekki fyrirfram upp. Þeir sýna andstæðingnum virðingu. En þeir skjóta á hann og berjast eins og ljón. Það er forseti Íslands að gera. Það væri afar ósanngjarnt af okkur að láta hann einan standa í sókn og vörn. Þjóðin þarf að sýna honum stuðning og að hún sé traust bakland.

Staðreyndin er sú að íslenska ríkisstjórnin hefur misreiknað og mismetið þetta ICESAVE mál og engan veginn áttað sig á hvað er í gangi. Í stað þess að taka sér stöðu með þjóðinni, hefur hún því miður gengið í dómarahlutverkið og dæmt víti á eigið lið.

Ég styð Ólaf Ragnar í þessari baráttu. Hann er okkar rödd í samræðu við umheiminn og tekur þetta með keppnisanda, í stað uppgjafarvælsins sem heyrist frá pólitískum fulltrúum þjóðarinnar. Það má segja að hann komi sterkur inn í íslenska liðið og hefur staðið sig vel sem liðstjórnandi og skytta í einum mikilvægasta leik Íslendinga.

Þetta er ekki eini mikilvægi leikurinn í mótinu. En forsetinn er að gefa tóninn. Við megum alls ekki gefast upp og láta valta yfir okkur þegar við mætum mótlæti, heldur standa í fæturna og berjast fyrir okkar stöðu í þessum heimi. Ef við berjumst ekki fyrir okkar málstað mun enginn gera það.

Það mætti gefa íslensku ríkisstjórninni gula spjaldið og vísa henni af velli í tvær mínútur fyrir gróf brot í vörninni. Okkur vantar að endurskipuleggja liðið, því við erum ekki enn komin með stig í þessari alþjóðlegu keppni um réttlæti vegna fjármálahruns.

 

 

Mynd: Vísir.is


mbl.is „Það er verið að kúga okkur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

A Good Year (2006) **1/2

 

A_Good_Year

 

Ég geri mitt besta til að sjá allar myndir með Russell Crowe. Oftast er ég meira en sáttur við afurðina. Síðustu árin hefur hann varla klikkað. "A Good Year" kom mér svolítið á óvart. Þarna koma hinn goðsagnakenndi leikstjóri Ridley Scott og Maximus sjálfur, Russell Crowe, saman á ný, og útkoman er svona frekar klén. Stærsti plússinn við þessa mynd er hin gullfallega og hæfileikaríka franska leikkona Marion Cotillard.

Scott virðist ætla sér að gera einhvers konar Jacques Tati mynd, þar sem aðalhetjan er svolítill klaufi með pípu og tekur sjálfan sig alvarlega. Stíllinn passar bara ekki við Scott. Hann er epískari en þetta.

Russell Crowe leikur bankamann í fjármálahverfi Lundúna sem er að sjálfsögðu klárari en allir aðrir bankamenn og kann að græða milljarða á fáeinum mínútum með því að snúa aðeins út úr kerfinu. Nokkurn veginn fyrirmynd sökudólgsins sem kom Íslandi á hausinn. Maðurinn hefur þráhyggju. Hann verður að vinna. Ekki bara sigra, heldur vinna öllum stundum, nótt og dag, taka sér aldrei frí. Vinnuhólisti dauðans. Sjálfsagt ekkert ósvipuð týpa og Ridley Scott og Russell Crowe. 

Jæja, sem krakki fór þessi frekar þunni karakter oft í heimsókn til frænda síns sem hélt úti vígarði einhvers staðar í Frakklandi. Þar ræddi hann og lék heilmikið við kallinn, sem leikinn er af Albert Finney eins og honum væri borgað fyrir að leika hlutverkið, og að sjálfsögðu lærir strákurinn ekki neitt og verður kaldrifjaður bankaræningi, innan frá, en samt löglega, svona næstum. Þú veist.

Jæja, skíthællinn fer til Frakklands þegar gamli frændi deyr til þess eins að hirða arfinn og selja víngarðinn. Málið flækist þegar í ljós kemur að Frakkar hafa fattað þau grundvallarsannindi að fólk skiptir meira máli en peningar, og smám saman lærir bankagreifinn þetta líka. Fer að taka til heima hjá sér. Verður ástfanginn. Fattar að peningar eru ekki allt. Og lifir hamingjusamur til æviloka. 

Skíthællinn. Bandit

Ég játa að mér stökk bros á vör nokkrum sinnum, en það var yfirleitt þegar Cotillard birtist og framkvæmdi einhverja ómetanlega snilldartakta, eins og að brosa fallega.

Sagan gengur svosem upp, og myndin er fagmannlega gerð, en þarna eru þeir Crowe og Scott langt, langt, langt frá sínu besta.

Samt bíð ég spenntur eftir Hróa Hetti frá þeim félögum, þó að ég þekki þá sögu afturábak og áfram. Eða kannski vegna þess að ég þekki þá sögu afturábak og áfram og vonast samt til að mér verði komið á óvart. Það er nefnilega fátt skemmtilegra en að heyra sömu söguna sagða aftur, sérstaklega ef hún er góð. "A Good Year" var ekkert sérstaklega góð saga.


Græðgi eða réttlæti: sambærilegar forsendur samkvæmt alþingismanni í Kastljósviðtali

 

 

 

Ásbjörn Óttarsson, alþingismaður braut lög um arðgreiðslur, en fjölskyldufyrirtæki hans greiddi honum einhverja tugi milljóna í arð þrátt fyrir að vera rekið með tapi og skulda yfir milljarð króna, fyrir Hrun. 

Þessi þingmaður hefur lykilhlutverki í að vinna úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir efnahagshrunsins. Ég get ekki séð betur en að maðurinn sé vanhæfur til að vinna úr jafn mikilvægri skýrslu þar sem hann virðist ekki hafa nógu hreina samvisku fyrir hvað er rétt og hvað rangt í fyrirtækjarekstri, og velti fyrir mér hvort að honum sé sætt á þingi eftir þessar uppljóstranir.

Helgi Seljan spurði Ásbjörn hvort honum þætti eðlilegt að maður sæti á Alþingi sem hefur beina hagsmuni af ákvörðunum tengdum kvótakerfinu, en Ásbjörn hefur barist fyrir auknum kvótaheimildum sem þýddi að hann sjálfur, sem og aðrir í hans aðstöðu, fengi pening beint í eigin vasa og styrkti þá sjálfsagt rekstur útgerðarfyrirtækja, og þar af leiðandi þjóðfélagið, bæði með atvinnusköpun og auknum skattgreiðslum; og Helgi vogaði sér að velta fyrir sér hvort að um hagsmunaárekstra væri að ræða. Að sjálfsögðu á þessi spurning sér þá hliðstæðu að spyrja hvort að maður sem hefur brotið lög í fyrirtækjarekstri eigi að taka þátt í rannsókn á brotum í fyrirtækjarekstri.

Þá svaraði þingmaður þannig að þetta væri sambærilegt við þá þingmenn sem væru í skuldavanda vegna húsnæðislána, og væru að ræða um vanda heimilanna á þingi. Þá rennur upp fyrir mér hvort að gera ætti athugun á því hversu margir þingmenn græði persónulega á því að koma heimilum ekki til hjálpar, vegna þess að þeir teljast líklega til  fjármagnseigenda frekar en skuldara. En það er annað mál. Einnig væri áhugavert að rannsaka betur hvort að þeir sem settu neyðarlögin hafi í leiðinni bjarga eigin sparifé.

Ég velti fyrir mér hvort að Ásbjörn Óttarsson, alþingismaður, kunni að gera greinarmun á eplum og appelsínum, og leyfi mér að efast um það. Ég sé skýran greinarmun á máli eins og aukningu kvóta sem skilaði pening beint í vasann og þeirri háværu kröfu íslenskra heimila um að ránið úr vösum þeirra verði leiðrétt. Að peningnum skuli skilað til baka. Peningum sem rænt var við setningu neyðarlaga. Peningum sem rænt var úr framtíðarvösum skuldara þegar fjármagnseigendum var lofað að innistæður þeirra væru tryggðar að fullu. Peningum sem var rænt með því að dæla peningum skuldara inn á reikninga kröfuhafa, sem höfðu fengið eigin skuldir niðurfelldar, sem höfðu fengið sínar innistæður tryggðar, sem gátu andað rólegar á meðan súrefni er dælt úr lungum skuldara.

Annað er krafa um meiri gróða, hitt er krafa um réttlæti. Þetta er ekki einu sinni spurning um stigsmun. Þarna er eðlismunur.

Hvað er þessi maður að gera á þingi?

Smelltu hér til að sjá viðtalið og leiðréttu mig vinsamlegast hafi ég misskilið eitthvað alvarlega. Ég trúði nefnilega ekki mínum eyrum og augum.

Sjálfsagt hefur Ásbjörn bara verið í sama leik og flestir aðrir á þessum tíma, þar sem allir þurftu stærri flatskjá, nýrri jeppa, stærra hús, og sjálfsagt er þessi Íslandsmeistari í veiðum bara smápeð miðað við allt annað á þessu risaskákborði sem skollið hefur yfir þjóðina eftir Hrun.

Margt smátt gerir eitt stórt.

Þarna er greinilega eitthvað að. Lög voru brotin af manni sem situr á Alþingi. Málsbætur hans eru þær að enginn hefur haft skaða af, að hans mati, og að þetta er í raun hans einkamál þar sem þetta er hans fyrirtæki.

Samt, hærri kröfur eru gerðar til þingmanna en götusópara, með fullri virðingu fyrir götusópurum, og engan veginn ásættanlegt annað en að þessi þingmaður víki, sem og allir aðrir þingmenn sem geyma sambærilegar beinagrindur í skápum sínum. Ef þetta hefur verið regla frekar en undantekning, er ljóst að slík hegðun er sambærileg við þá hegðun sem lá að baki efnahagshruninu og vanda allra þeirra fjölskylda sem eru komnar í neyðaraðstöðu.

Þarna virðist vera um að ræða skort á siðferðilegri dómgreind, þar sem farið er eftir því sem allir gera, þó að það sé ólöglegt, en fyrst allir hinir gera það, þá hlýt ég að mega það líka. Að svona mál komist upp getur aðeins verið dæmi um tæknileg mistök, eða hvað?

 

E.S. Þetta er allra besta rannsóknarviðtal sem ég hef séð í Kastljósinu. Spurningarnar voru hvassar, vel undirbúnar, komu sér beint að efninu, voru nógu gáfulegar til að gefa áheyrendum svigrúm til að hugsa um málin á eigin spýtur, og svo var spyrillinn kurteis og þolinmóður. Hefur þetta eitthvað með breytingar á ritstjórn að gera?


mbl.is Greiddi ólöglegan arð fyrir mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orphan (2009) ***1/2

Er hægt að búa til vel heppnaða spennumynd um fallega níu ára stúlku sem er í raun ekki falleg níu ára stelpa?

orphan-poster

"Orphan" er vel heppnuð spennumynd með frekar hrollvekjandi undirtón, þar sem illmennið er dulbúið sem 9 ára stúlka að nafni Esther (Isabelle Fuhrman), sem laumar sér inn í saklausa fjölskyldu sem munaðarleysingi, og notfærir sér alla þá sálfræðilegu veikleika sem upp geta komið í hjónabandi sem þolað hefur þurft erfiða tíma, til þess eins að drepa þau öll.

John (Peter Sarsgaard) og Kate Coleman (Vera Farmiga) hafa átt erfitt uppdráttar í hjónabandinu eftir að hafa misst barn í móðurkviði. Hvorugt þeirra er fullkomið. Kate er alkóhólisti sem hefur ekki snert vín í heilt ár og þjökuð af sorg vegna barnsins sem dó, og John hefur það vandamál að vera svo yfirmáta venjulegur og skyni skorpinn af skilningi, þrátt fyrir að telja sig leika föðurhlutverkið vel, að maður getur ekki trúað öðru en að þarna sé raunveruleg persóna.

Þau eiga tvö börn fyrir, áður en þau ákveða að ættleiða Esther, soninn Daniel (Jimmy Bennett) sem finnur strax á sér að eitthvað alvarlegt er að þegar Esther kemur inn á heimilið, og dóttirin heyrnarlausa Max (Aryana Engineer) sem áttar sig fljótt á hlutunum en á skiljanlega erfitt með að tjá sig um það. Esther lumar á mögnuðu leyndarmáli sem útskýrir nokkuð vel af hverju öll þessi geðveiki á sér stað.

Leikararnir standa sig allir afburðavel, en leikstjórnin klikkar aðeins með of ýktri notkun á speglum og skrapandi málmhljóðum til að bregða áhorfendum. Það magnar vissulega upp stemmingu, en hefði verið hægt að koma þessu inn án þess að augljóst væri að leikstjórinn léki sér að áhorfendum.

Þrátt fyrir að vera með ansi frumlegan undirtón og góðan leik, er þetta ósköp venjuleg spennumynd, klisja sem hefur verið gerð góð skil á hvíta tjaldinu. Sambærilegar kvikmyndir eru seinni útgáfan af "Cape Fear" þar sem Robert DeNiro og Nick Nolte fóru á kostum, og "Omen" þar sem afkvæmi skrattans tekur upp á að hreiðra um sig meðal manna og drepa fólk í leiðinni.

Mér líkaði við tóninn í myndinni. En það er snjór yfir öllu og svolítið grátt, en með aðeins betri tónlist og hljóðbrellum hefði þessi mynd getað orðið klassísk.


Food, Inc. (2008) ****

Ef við erum það sem við étum, þá erum við í djúpum skít.

Heimildarmyndin Food, Inc. virðist í upphafi ætla að vera einhvers konar einfalt skólaverkefni, þar sem krakkar gætu hugsanlega valið einhverja vöru úti í búð, og síðan rakið uppruna þeirra. Samkvæmt myndinni er afar ólíklegt að börnin kæmust að sannleika málsins.

Ýmsar áhugaverðar hugmyndir birtust, og sérstaklega frá bónda nokkrum sem hélt því fram að það væri ekki bara óheilbrigt, heldur óheiðarlegt að framleiða mat eins og risafyrirtækin gera í dag. Hann hélt því fram að í dag snerist allt um vinnubrögð, ferla og árangur, allt um spurninguna hvernig hlutirnir eru gerðir, en fáir nenntu að velta fyrir sér af hverju. Ég hef til dæmis ekki velt því alvarlega fyrir mér hvort að kjötið sem ég borða sé ræktað á heilbrigðan hátt, eða það úttroðið af maís á meðan það lifir stuttu offitulífi, en eftir að hafa séð þessa mynd er ég líklegri til að velta fyrir mér því sem ég kaupi úti í búð, og enn líklegri til að forðast skyndibitastaði.

Ástæðan er einföld. Dýr eru víðs vegar alin upp í verksmiðjum, þau troðin út af mat sem þau hefðu aldrei látið í sig úti í guðsgrænni náttúrunni, og fyrir vikið truflast melting þeirra og kjötið verður að einhverju leyti úrkynjað. Þegar grasætur eru látnar éta maís allt sitt líf, er ekki von á góðu. Einnig eru aðstæður við ræktunina hörmulegar, en sagt er í myndinni frá ræktunarverksmiðjum þar sem dýrin troða nánast marvaða í eigin saur, síðan eru dýrin slátruð, þar á eftir hreinsuð og síðan hökkuð.

Sýnt var frá risaverksmiðjum þar sem svínum og kjúklingum er slátrað í massavís, þannig að það minnir helst á lýsingar frá Auswitch í seinni heimstyrjöldinni. Það er magnað hvað þegar er búið að úrkynja dýrin sem við borðum. Það er vonlaust að átta sig á hvort að dýrin hafi verið ræktuð á heilbrigðan hátt, eða hvort genum þeirra hafi verið breytt, eða hvort þau séu klónuð. Og ekki er fyrirséð um afleiðingar þess að borða úrkynjuð dýr. Maður er víst það sem maður étur, ekki satt?

Það er ekki bara hollt að horfa á þessa mynd, hún er líka áhugaverð og hefur þannig skemmtigildi að áhorfanda hlýtur að koma á óvart það sem fyrir augu ber.

Hafir þú aldrei velt fyrir þér af hverju matur er framleiddur á færibandi og hvort að það sé hollt og hverjar afleiðingarnar gætu verið, þá verðurðu að sjá þessa mynd. Hafirðu þegar áttað þig á þessu fyrirbæri, þá mæli ég með að þú mælir með þessari mynd.

Það er ekki þannig orðað í myndinni, en þú getur í raun dregið þá ályktun, að þegar þú kaupir þér hamborgara á skyndibitastað, þá sértu að kaupa blöndu af kjöti, beinum, blóði og skít. 

Spurning hvort ég fari ekki að ráði dóttur minnar og gerist grænmetisæta, eða í það minnsta passa mig betur á matnum sem ég kaupi ofan í mig, að maður sé ekki að setja ofan í sig mat sem einungis fylgir stífum stöðlum sem hafa ekkert með heilindi að gera, heldur afköst. Að þetta sé allt sama tóbakið og að allir éti það.

Einnig þótti mér merkileg umfjöllunin um Soja-baunarækt í Bandaríkjunum. En flestar baunir hafa verið erfðaræktaðar og búið að eigna fyrirtæki þær með höfundarrétt. Ef Soja-baunir með þessu erfðaefni finnast á bæjum sem rækta baunir, og bændur borga ekki "stef-gjald" til eigendanna, þá fer þetta risafyrirtæki í mál við bændur, sem geta ekki varið sig vegna þess hversu dýrt er að verjast í slíkum málum. 

Þannig virðast stórfyrirtæki vera farin að ryðjast yfir litla manninn, mannréttindi og það sem þeim sýnist, án þess að bera nokkra virðingu fyrir þeim sem standa í vegi þeirra. Það er þessi hugsunarháttur sem olli Hruninu á Íslandi, og hann er að festa rætur enn á ný á meðan ráðþrota ríkisstjórn reynir að bregðast við, en áttar sig ekki á að innan hennar eigin raða er fólk sem vill innleiða þennan skort á hugsunarhætti, því að ákveðinn hópur mun öðlast forréttindi gagnvart þeim sem minna mega sín.

Það er eins og þeir sem eiga gífurlega mikið af peningum, eignist með því réttarkerfið, fjármálakerfið, stjórnmálin og landið. Sjálfsagt heiminn líka. Og troða mat sínum í heimskan almúgann: mig og alla hina.

Ef þessi mynd gerir mig pirraðan með því að fjalla um mín eigin nánu samskipti við matinn sem ég læt ofan í mig, og tengist íslenska efnahagshruninu á skýran hátt, þá ættirðu að hafa nokkuð skýra grein um hvort þig langi til að sjá þessa mynd. 

Þessi kvikmynd hefur breytt viðhorfum mínum til eigin matarræðis. Ef heimildarmynd nær það sterkt til manns og sannfærir mann svo algjörlega um að eitthvað alvarlegt sé að í heiminum, og ef maður samþykkir rökin og mótar þannig skoðun sem maður var ekki meðvitaður um áður en horft var á myndina, þá er nokkuð ljóst að viðkomandi kvikmynd fær fullt hús fyrir.

Kannski ekki fimm stjörnur eins og "Avatar". Fjórar stjörnur duga.


Myndu Íslendingar láta Litlu stúlkuna með eldspýturnar deyja?

 


 

Í sögu H.C. Andersen um Litlu stúlkuna með eldspýturnar verður lítil stúlka úti sem neydd hefur verið til að selja eldspýtur á afar köldu gamlárskvöldi. Faðir hennar neyðir hana til að selja eldspýtur, sjálfsagt til þess að fá inn einhverja aura fyrir brennivíni, annars verði hún barin.

Fólk er afskiptalaust gagnvart þessari stúlku, sem sér bjartari heim með því að kveikja í eldspýtunum.

Eru íslenskir skuldarar Litla stúlkan með eldspýturnar, og fjármagnseigendur, sjálfsagt um 75% íslensku þjóðarinnar, afskiptalaust fólk sem er nákvæmlega sama um þessa aumingja sem selja eldspýtur til að komast af.

Þeir sem drápu þessa litlu stúlku var að sjálfsögðu samfélagið sem leyfði slíkum hörmungum að eiga sér stað, og yppta í raun öxlum þegar þeim er bent á að hvert einasta mannslíf er óendanlega dýrmætt. "OK," hugsar kannski viðkomandi. "Líf þitt er kannski einhvers virði fyrir þig, en af hverju ætti mér ekki að vera sama?"

Ég velti fyrir mér hvaða örlög biðu slíkrar stúlku á götum Reykjavíkur í dag?

Segjum að hún standi fyrir utan veitingastað á Laugarvegi og bílarnir streyma framhjá. Í þeim sitja alþingismenn, ráðherrar, bankamenn, útrásarvíkingar, kennarar, fræðimenn, frægir menn og fólk með kröfuspjöld á lofti. Myndi einhver taka eftir henni og vísa henni leið inn í betri framtíð heldur en á heimili föður hennar þar sem hún yrði fyrir ofbeldi, lokuð inni á stofnun, eða kæmi hugsanlega einhver velviljaður að sem tæki stúlkuna með sér, gæfi henni að borða, og myndi leita ráðstafana sem gæfu henni möguleika á farsælu lífi?

Myndir þú stoppa og hjálpa Litlu stúlkunni með eldspýturnar?

Þegar ég geng um götur Osló þessa dagana verða oft á vegi mínum einstaklingar sem sitja á pappakassa með plastbauk sér við hlið og betla pening. Ég spyr mig hvernig geti staðið á þessu í samfélagi sem er svo ríkt og þekkt fyrir stuðning við þá sem minna mega sín. Ég hef engin svör.

Og ég hef engum af þessum ólánsömu einstaklingum gefið eina einustu krónu. Í augnablikinu þarf ég að varðveita hverja einustu krónu fyrir mín eigin börn, svo þau verði ekki að litlu börnunum með eldspýturnar. Hins vegar hafa þessir einstaklingar gripið athygli mína, og fengið mig til að velta fyrir mér hvað verður um ógæfufólk á Íslandi, sem og víðar, þegar sífellt fleiri bætast í þann hóp, þrátt fyrir dugnað og heiðarleika. 

Kíktu á Disney útgáfuna af þessari sögu, hún er afar góð, en af einhverjum ástæðum hefur hún aldrei verið sýnd í bíó, og ég held hún sé ekki heldur sýnd í sjónvarpi. Sjálfsagt þykir hún of alvarleg. 


Sætur stórsigur gegn Dönum!

Fylgdist með leiknum á netinu eins og hinum leikjunum.

Ég hafði fyrir leikinn spáð stórum sigri eða stóru tapi. Ekkert annað kæmi til greina. Allt færi eftir hinum sanna karakter liðsins.

Liðið hefur sýnt sinn karakter og tekið á stórveldum með baráttuhug. 

Megi ríkisstjórnin taka handboltakappana til fyrirmyndar í slag sínum við Breta og Hollendinga.


Síðasta vígi íslenskra fjölmiðla fallið?

 

 
Fjölmiðlafrelsi er afar mikilvægt fyrir þjóðarsálina. Með slíku frelsi getur hún tekið rökstuddar ákvarðanir sem byggja á staðreyndum og áreiðanlegum upplýsingum. Hafi hún ekki fjölmiðla sem hún getur treyst, eykst ringulreiðin, og auðveldara verður fyrir áróðursherferðir, sem byggja á fordómum, fáfræði og eiginhagsmunum, að ná árangri. 

 

Samkvæmt "Spjaldskrá um fjölmiðlafrelsi" var fjölmiðlafrelsi á Íslandi verulega skert á árunum 2008 og 2009. Þessi rannsókn hefur verið gerð árlega frá 2002 og Ísland alltaf verið mælt meðal efstu þjóða. Það er að breytast.

Spjaldskráin er byggð á spurningarlista þar sem spurt er um beinar árásir á fjölmiðlamenn og fjölmiðla, sem og um óbeinar árásir gegn fjölmiðlum. Aðeins er fjallað um frelsi, ekki gæði. 

Það væri áhugavert að spá fyrir um hvernig staðan verður árið 2010. Við erum ennþá í sæmilega góðum málum á heimslistanum. Erum í 9. sæti af 175 þjóðum. En slíkt getur breyst hratt. Ég spái því að árið 2010 dettum við út af topp 10 listanum yfir fjölmiðlafrelsi, en eins og staðan er í dag, mælumst við með minnsta fjölmiðlafrelsið á Norðurlöndum.

 

 

fjolmidlahaftir.jpg
 

 

Af hverju hefur þetta breyst á Íslandi? Er það vegna þess að Bónusklíkan á helming íslenskra fjölmiðla og Björgúlfsklíkan hinn helminginn? Eina varnarvígið hefur verið bloggið og RÚV. Blogg getur ekki talist áreiðanlegur fjölmiðill, þó að ýmsir bloggarar séu áreiðanlegir. RÚV var eina varnarvígið sem stóð eftir.

Nú velti ég fyrir mér hvort að trúverðugleiki RÚV muni hrynja í kjölfar uppsagna og annarra sparnaðaraðgerða, sem hefðu reyndar að mínu mati mátt byrja með niðurskurði á skemmtiefni, þar sem hlutverk RÚV er að vera hlutlaus upplýsingamiðill sem gegnir lykilhlutverki í neyð.

Nú er neyð, og svo virðist sem að mikilvægir upplýsingaþættir hafi verið skornir niður á meðan léttmetið stendur eftir. Þetta er svona svipað og að gefa sveltandi barni súkkulaðimola frekar en máltíð. 

Ég spái því að eftir þessa aðgerð muni Ísland falla enn frekar á þessum lista, en þori ekki að spá um hversu mikið. Þegar maður sér utan úr heimi hvernig niðurskurðarhnífnum er beitt, get ég ekki annað en borið þetta saman við hvernig aðrir samtíðarmenn hafa tekið á ríkisfjölmiðlum, og sýnist mér sem að svipaðir hlutir séu að gerast á Íslandi og Kastró var þekktur fyrir á Kúbu, og Chavez í Venesúela.

Danir eru í 1. sæti yfir þá sem geta tjáð sig án áreitis, enda þekktir þessa dagana fyrir að segja nákvæmlega það sem þeir meina, og fá stuðning frá eigin ríki.

Í næstu mynd ber ég saman breytingar á fjölmiðlafrelsi milli Dana og Íslendinga, frá 2002 til 2009. Eins og sést á súlunum hafa verið töluverðar sveiflur hjá Dönum, á meðan Íslendingar hafa verið stöðugir, þar til árið 2008 að breytingar verða dramatískar.

 

 

fjolmidlahaftir_is_dm_954037.jpg

 

 

Mynd úr síðasta vígi 300: About.com

Súlurit: HB

"Spjaldskrá um fjölmiðlafrelsi" á Wikipedia.


Af hverju allar þessar uppsagnir hjá RÚV?

Mér dettur í hug að þetta hafi eitthvað með niðurstöður rannsóknarnefndar að gera, um forsendur Hruns, og hugsanlega hluti af áróðursstríði til að fá ICESAVE samþykkt.

Samt á ég erfitt með að trúa því. En samt ekki. Ástandið á Íslandi verður súrrealískara með hverjum deginum. Ég verð satt að segja hissa þegar einn af æðstu mönnum Samfylkingar kaupir einbýlishús á 73 milljónir þegar húsnæðismarkaðurinn er nánast frosinn og þegnar þjóðarinnar að tapa húsnæði og flytja úr landi. Einhvern veginn er þetta engan veginn í takt við þá raunverulegu kreppu sem komin er á fullt skrið, og sífellt fleiri finna fyrir.

Getur verið að þessir brottrekstrar séu hluti af stóru plotti yfirhylmingar og áróðursstríðs, enda RÚV mikilvægt sem hlutlaus fréttamiðill? Er þetta liður að því að gera RÚV að pólitískri áróðursstofnun, í stað varðar hlutlausrar upplýsingagjafar?

Þetta er ekki óeðlileg spurning miðað við alla þá spillingu sem hefur flotið upp á yfirborðið síðan Hrunið hófst.

Sumir segja að þessi ríkisstjórn sé ekki spillt eins og sú síðasta, þetta séu bara byrjendur sem munu læra. Miðað við styrkina sem þingmenn fengu í eigin kosningabaráttu virðast þeir skulda einhverja greiða.

Í kommúnistastjórnum hefur tíðkast pólitísk ritskoðun til að halda múginum rólegum. Er þetta upphafið af einhverju slíku? Það er ómögulegt að vita það með vissu, fyrr en eftir nokkur ár reikna ég með, en það er skítalykt af þessu.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband