Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

The Wire (2002-2008) *****

the-wire-2

17. maí síðastliðinn setti Jón Gnarr það sem skilyrði til samstarfs við Besta Flokkinn að fulltrúar annarra stjórnmálaflokka hefðu séð sjónvarpsþættina "The Wire". Ég hafði ekki séð þá og skildi ekki af hverju. Nú hef ég séð þá og tel mig skilja hvað borgarstjórinn var að hugsa.

"The Wire" fjallar um spillingu og hvernig hún eyðileggur líf fólks, hvar sem er í samfélaginu. Allar ákvarðanir sem teknar eru á einu þrepi samfélagsins hafa áhrif á önnur. Fókus þáttanna er á jaðarmenningu: skipulagða glæpastarfsemi og verr skipulagða lögreglustarfsemi og félagslegt kerfi sem er komið í hundana.

Yfirmenn í lögreglu Baltimore hafa hagrætt tölfræðilegum upplýsingum í mörg ár. Þeir nappa smáglæpamenn á kostnað þeirra stóru. Það er ekki fyrr en McNulty rannsóknarlögreglumaður fær algjört ógeð á þessum aðferðum og tekst að koma í gang rannsókn á skipulagðri glæpastarfsemi að eitthvað virðist ætla að breytast.

Þættirnir flétta saman fjölmörgum sögum úr öllum lögum samfélagsins. Meðal þeirra er borgarfulltrúinn Carcetti sem ákveður að bjóða sig fram til borgarstjóra. Heimilislausi dópistinn Bubbles sem þráir ekkert heitar en að komast út úr vitleysunni. Ræninginn Omar sem gengur um með haglabyssu undir síðum frakkar og sérhæfir sig í að ræna glæpamenn. Við fáum að fylgjast með glæpaforingjunum Avon Barksdale, String, Marlo og Grikkjanum; lögfræðingnum sem kennir þeim að forðast dóma, fjölmörgum lögreglumönnum í vestur-umdæmi og morðmálum, og sérstaklega sérsveitinni "Stórfelldir Glæpir".

Þessi sérsveit hefur það markmið að finna upplýsingar um skipulagða glæpastarfsemi og klófesta foringjana. Á leið sinni að glæpamönnunum þarf þessi hópur lögreglumanna að takast á við ýmis vandamál, þá sérstaklega pólitík og skaðlega skammsýni yfirmanna sem kæra sig um ekkert annað en fallegar tölur á pappírum fyrir hvern ársfjórðung, mönnum sem er nákvæmlega sama um hvort að árangur náist gegn glæpum, og hugsa um fátt annað en eigin frama.

Þessi sérsveit er skrautleg. Helsti drifkrafturinn í henni felst í snillingnum Lester Freamon, sem er svona ef þú púslaðir saman Morgan Freeman og Sherlock Holmes og fengir út nútíma persónu. McNulty er einnig fyrirferðarmikill, en hann lifir fyrir að leysa mál. Gallinn er að hann er bitur út í kerfið, og tilbúinn að gera allt til að leysa málin. Hann er líka algjörlega stjórnlaus þegar kemur að áfengi og konum. Svona nokkurs konar Dirty Harry, bara skítugri. Aðrar góðar persónur er hinn óþolandi þurs Herc, góða löggann Carver, hinn seinheppni Prez, Kima Greggs, varðstjórinn Landsman og morðlöggan Bunk. Ég gæti skrifað langa grein um allar þessar frábærar persónur sem fram koma í þáttunum en það er ekki markmiðið með þessari grein.

Markmiðið með greininni er að velta fyrir mér af hverju Jóni Gnarr finnst nauðsynlegt að samstarfsfólks sitt sé viðræðuhæft um þá. Mér sýnist það augljóst. Það er þessi hugsunarháttur sem tengist því að hugsa um borgarbúa annað hvort sem tölustafi eða sem manneskjur.

Þeir sem hugsa um borgarbúa sem tölustafi hafa öfluga tölfræði á bakvið sig til að styrkja sig í sessi. Hinir sem hugsa um borgarbúa sem manneskjur þurfa að horfa upp á einstaklinga þjást, þurfa að átta sig á þeirri ógurlegu fjarlægð við hið mannlega sem virðist nauðsynleg til að geta stjórnað ferlíki eins og borg. 

Stóri slagurinn snýst um kerfið og tölurnar sem það þarf á að halda til að virka, og hvernig það valtar áfram yfir allt og alla sem sýna ekki samvinnuhug. 

"The Wire" fjallar líka á dapurlegan hátt um að tilgangsleysi þess að vera fastur í kerfi, sama hvort það sé pólitík, skóli, verkalýðsfélag, lögregla eða glæpasamtök, og hversu erfitt er að slíta sig út úr slíku kerfi og lifa lífinu sem frjáls manneskja, og hvernig frelsið felst meira í viðhorfi fólks til lífsins og sjálfsþekkingu, en valdi þeirra yfir öðrum manneskjum. Þættirnir fjalla líka um breytingar á tækni og viðhorfum, og hvernig slíkt hefur áhrif á samfélagsmyndina.

Ég get ekki annað tekið undir meðmæli Jóns Gnarr, að ómetanlegt væri að hafa samstarfsfélaga í stjórnmálum sem hafa horft á og velt vandlega fyrir sér "The Wire", en þeir eru án vafa meðal bestu sjónvarpsþátta sem framleiddir hafa verið.
 
"The Wire" er hörkugott drama. Margar góðar persónur falla í valinn, persónur sem manni er ekki sama um, og ekkert er dregið úr ljótleika morða eða málfars. Þú getur ekki misst af einum einasta þætti án þess að missa af þræðinum. Besta leiðin til að horfa á þessa þætti er að kaupa þá á DVD og horfa á þá í réttri röð.  

Er spilling vandamál?

Þegar aðgangur að stjórnmálum snýst aðallega um hversu mikla styrki þú færð til að komast í efstu sæti stærstu flokkana, og síðan hversu mikla styrki þú færð til að koma flokki þínum til valda; þá er fyrst og fremst verið að skapa eða spinna ímynd fyrir kjósendur, og engu máli skiptir hvort hún sé sönn eða ekki, aðeins hvort hún sé aðlaðandi og nóg til að kjósandi sem hallast í þessa átt hallist nógu langt til merkja X við reit flokksins í kjörklefanum.

Við heyrum stöðugt af bakstungum samflokksmanna sem reyna að koma sínu fólki að, við heyrum af háum styrkjum til stjórnmálamanna - sem eru ekkert annað en mútur, við heyrum að stjórnmálamönnum þyki þetta ekki merkilegt vandamál (enda samdauna því), og við heyrum af hvernig flokkhollir félagar raða sér í stjórnsýsluna, í óauglýst störf. Það er svo mikið í gangi að maður spyr hvort eðlilegri manneskju fallist ekki hendur þegar hún sér vandamálið.

Spilling á Íslandi er vandamál í mínum huga. Stundum velti ég fyrir mér hvort það sé bara ég sem sé þetta sem óeðlilegt umhverfi fyrir samlanda minna. Er það bara ég sem sé þetta? Er sjón mín eitthvað skökk? Af hverju er ekkert gert við þessu?

Það er útilokað að finna réttlæti í samfélagi þar sem spilltir einstaklingar setja lögin.

En hvað er spilling?

Spilling er þegar eiginhagsmunir og skylda rekast á, og sérhagsmunir eru látnir ráða för. Eðli málsins vegna er afar erfitt að sýna fram á að einstaklingur eða flokkur láti sérhagsmuni ráða för í ákvörðunum sínum. Hugsanlega veit viðkomandi einstaklingur ekki nógu mikið um siðferði til að gera greinarmun á þessu tvennu, kannski er honum bara sama.

Þannig gerist þetta.

Segjum að X fari í prófkjör. Hann á góða vini í fyrirtækinu Z og biður þá um styrk, sem og önnur fyrirtæki. Fyrirtæki Z gefur honum rausnarlegan styrk, býður honum á fundi til að kynna honum stefnu fyrirtækisins og langtímamarkmið, en segir þó ekki beint að ætlunin sé að stjórnmálamaðurinn muni hjálpa til. En um leið og stjórnmálamaðurinn hefur tekið við hinum rausnarlega styrk, hefur ákveðið samkomulag verið treyst á milli fyrirtækisins og stjórnmálamannsins. Að hagsmunir þeirra liggja saman. 

Verði stjórnmálamaður X duglegur, komist framarlega í flokk og komi flokknum til valda, þá veit hann að árangurinn er fyrirtæki Z að þakka. Og fyrirtæki Z veit að það hefur komið inn góðum manni og heldur áfram að veita styrki í formi lítilla eða stórra gjafa, jafnvel peninga.

Þegar stjórnmálamaður X þarf að setja lög, hefur hann ákveðin viðmið um hvort lögin séu góð eða ekki. Þessi viðmið ættu að vera með hliðsjón af gæfu þjóðarinnar, en hann getur ekki hugsað sér að setja lög sem væru hins vegar til trafala fyrir fyrirtæki Z. Setji stjórnmálamaður X fyrirtæki Z í forgang yfir almannaheill, þá er hann að taka sérhagsmuni framyfir skyldu sína, og er þar af leiðandi spilltur.

Þetta er aðeins eitt af mörgum mögulegum dæmum um spillingu.

Annað dæmi, og ekkert skárra, er þegar stjórnmálamaður er svo flokkshollur að hann tekur stefnu og loforð flokksins framyfir skyldur sínar gagnvart þjóðinni. Það gerist aftur og aftur, þegar leiðtogar stjórnmálaflokka útiloka hina óþægu frá völdum og verðlauna aðeins þá sem hlíða.

Þannig verður pólitísk spilling að sífellt stærra vandamáli fyrir þjóðina alla, en aftur á móti til þæginda fyrir stjórnmálamanninn sjálfan. Spilltur stjórnmálamaður myndi aldrei vinna gegn spillingu, myndi gera lítið úr hugtakinu og láta eins og þetta sé bara ímyndun einhverra geggjaðra bloggara úti í bæ.

Hinir óspilltu myndu hins vegar leggja krafta sína í að smíða frumvörp gegn slíkri spillingu, þar sem allir styrkir og gjafir til stjórnmálamanna yrðu bannaðir, að komið yrði í veg fyrir skoðanakúgun á stjórnmálamönnum sem og öðru fólki. 

Það er ekki auðvelt að vera skyldurækinn, hvort sem maður vill vera það eða ekki. Það er þúsund sinnum auðveldara að leyfa spillingaröflunum að sópa sér inn í heim þæginda og kæruleysis, þar sem fólkið í landinu er ekkert annað en múgur, þar sem skylda er ekkert annað en hugtak sem nota skal þegar það hentar, þar sem meðvitund um að sérhver ákvörðun á þingi hefur víðtæk áhrif á fólkið í landinu, þar sem pennastrik eins getur þýtt líf eða dauða annars.


Nærast stjórnmál og trúarbrögð á göfugum lygum?

"Það lítur út fyrir að leiðtogar okkar þurfi að notfæra sér í töluverðum mæli lygar og blekkingar til að vernda hagsmuni þegna sinna. Og við segjum að allar slíkar lygar væru gagnlegar sem einhvers konar lyf."

- Ríkið, Plató, 459d)

 

Þessa vikuna virðast lygar ráðherra vera mikið mál fyrir þjóðina og fjölmiðla, en lítið mál fyrir aðra ráðherra og stjórnvöld. Þetta lygamál var frekar gróft og lygin augljós en samt er látið eins og ekkert sé. Íslensk börn fá ókeypis kennslustund í gagnsemi þess að ljúga, en það voru nákvæmlega slíkar kennslustundir sem mótuðu hóp fólks sem við köllum í dag útrásarvíkinga.

Það er ekki mitt mál hvað íslensk stjórnvöld kenna börnum okkar. Mitt hlutvek er að vernda börn mín frá þeirra illsku. 

Ráðamenn kippa sér lítið upp við að upp komst um eina lygi og standa þétt við hlið hins uppvísa lygara. Og ég velti fyrir mér af hverju. Eftir smá umhugsun get ég ekki komist að annarri niðurstöðu en að hin uppvísa lygi sé aðeins lítið brot úr miklu stærri lygi, og sé litla lygin viðurkennd, sé hætta á að stóra lygin verði afhjúpuð.

En ekki ætla ég að fjalla um íslensk stjórnmál í þessari færslu. Ég hef meiri áhuga á hinu almenna en því sértæka. Hið sértæka gefur vissulega eldsneyti og ástæður til að fjalla um hið almenna, en aðeins með því að fjalla um hið almenna og fjarlægjast þannig eigin skoðanir og tilfinningar um málefnin, getum við séð í gegnum þoku sjálfblekkinga.

Göfug lygi er þegar valdhafar eða leiðtogar setja fram ósanna mynd til að ná tökum á þegnum sínum eða fylgjendum. Þeim er gefin von um eitthvað annað og betra handan seilingar, eða þá að ákveðnar skoðanir eru festar í sessi sem óhagganlegur veruleiki. 

Dæmi um slíkar göfugar lygar eru margskonar sögur um uppruna heimsins, bæði trúarlegar og sumar jafnvel kenndar við vísindi, eins og kenningin um miklahvell. Þannig er hægt að vinna málum fylgi - þeir sem trúa frekar miklahvelli en öðrum sköpunarsögum eru líklegri til að styðja við vísindalegar framfarir, eins og þær séu veruleiki frekar en hugtak. Í stjórnmálum eru notuð hugtök eins og skjaldborg yfir heimilin, björgunaraðgerðir á strandstað, og ýmsar göfugar lygar notaðar til að vinna fylgi. 

Göfugar lygar er hvorki hægt að sanna né afsanna. Ef ég segist ætla að reisa skjaldborg um heimili landsins, hvernig er hægt að sýna fram á að sú skjaldborg sé ekki í byggingu eða hafi ekki verið byggð, þar sem að hún er hvorki mælanleg né til?

Þessar lygar eru til staðar og fólk lætur blekkjast, því það er verið að gefa þeim eitthvað til að grípa þegar veruleikinn er sá að það er ekkert til að grípa í. Þeir sem eru við það að detta ofan af húsþaki græða lítið á að grípa í ímyndaðan kaðal. Þeir sem eru hins vegar við völd græða heilmikið á að sýna fólki sem heldur að það sé að hrapa fram á ímyndaðan kapal sem það síðan rígheldur í og vil ekki sleppa, enda sjá þau fram á bráðan dauða sleppi það tökum.

Það er hægt að spyrja sig hvort að lygar séu einhvern tíma réttlætanlegar. Sumir telja svo ekki vera. En þá vakna spurningar eins og hvort réttlætanlegt sé að ljúga til að koma í veg fyrir að illmenni komist til valda eða vinni einhverjum skaða. Ég held ekki. Því að með lyginni umbreytirðu sjálfum þér og þínum flokki í eitthvað annað illt afl. Þýði sannsöglin það að þú tapir völdum vegna þess að hin illmennin svífast einskis, vakna spurningar um hvort að lygar séu nauðsynlegar til að vernda þá sem þú vilt vernda. 

Vandinn er sá að við fyrstu lygina verðurðu að holdgervingi þess sem þú vildir berjast gegn. Þú hefur orðið að óvini þínum, og verður stöðugt verri eftir því sem þú fléttar lygavefinn lengur. Þannig umbreytist hið besta fólk í skaðræðisskepnur við þátttöku í hinum grimmu stjórnmálum, og það er vegna þessa að ég sjálfur hef ekki viljað taka þátt í stjórnmálum, því ég vil halda í mín eigin heilindi og ekki spillast, og óttast að stjórnmál geti auðveldlega spillt mér eins og flestum öðrum, enda aðeins mannlegur.

Þessi grein sprettur úr vangaveltum mínum yfir lygum viðskiptaráðherra, manni sem virtist algjörlega heill í gegn sem fræðimaður fyrir aðeins tveimur árum síðan, en hefur nú glatað þeim trúverðugleika sem hann hafði, með því að halda fast og klaufalega í ímyndaðan kaðal sem allir sjá að er ekki raunverulegur, nema kannski hann sjálfur. Það að ríkið styðji við bakið á honum staðfestir aðeins að lygin sé miklu stærri og víðtækari en almúginn fær séð.

Einnig sprettur þessi grein úr þeim samræðum sem átt hafa sér stað í athugasemdakerfi síðustu færsla minna, þar sem hart er barist um sannleikann þegar kemur að trúarbrögðum. Þar hafa ólíkar fylkingar tekist á eins og tveir herir á gríðarstórum vígvelli sannleikans, slegið saman sverðum og skjöldum, og sumir komist að þeirri niðurstöðu að þeir séu í einu liði, og aðrir í öðru liði, en ég sjálfur komist að þeirri niðurstöðu að þetta stríð sé sjónhverfing og ég geti áhyggjulaus ekki aðeins staðið fyrir utan það, heldur smellt á mig vængjum og svifið yfir átakasvæðið og virt fyrir mér fólkið sem slæst hvert við annað og velt fyrir mér hvernig heimurinn væri ef þetta fólk myndi vinna saman að betri heimi, og þá skil ég að hugtakið "betri heimur" getur verið sjálfsblekking ein, þar sem hugtakið sjálft er ekkert annað en göfug lygi.

Pælingar mínar um hinar göfugu lygar hófust þegar ég var barn, en móðir mín hafði sagt mér að ég ætti aldrei að ljúga, ekkert réttlæti lygar. Og ég spurði af hverju, en fékk ekki svör sem ég gat sætt mig við. Samt var þessi hugmynd vakandi í mínu hugskoti og ég velti fyrir mér áhrifum lyga og þess að segja alltaf satt. Ég komst að þeirri niðurstöðu að betra væri að segja alltaf satt vegna þess að ef ég reyndi að ljúga einhverju, þá komst það á endanum upp, þar sem minningin um sannleikann var alltaf sterkari en minningin um lygina. Það er auðveldara að gleyma lygum en hinu sanna. Þar að auki er svo vandasamt að greina hið sanna frá hinu ósanna og átta sig á samhengi þess sem er satt, að lygar eru eins og rafmagnstruflanir í herbergi þar sem þörf er á góðri birtu til að læra.

Það var ekki fyrr en ég fór að lesa heimspeki að ég áttaði mig á að ég var ekki einn í heiminum svo skrítinn að velta þessum hlutum fyrir mér. Og það var þegar ég las Ríkið eftir Plató að ég rakst á málsgrein sem einmitt fjallaði um hina göfugu lygi, og virtist réttlæting á lygum stjórnmálamannsins. Þessi málsgrein vakti furðu mína og reiði. Ég var svekktur út í Plató fyrir að koma með svona rugl, í fyrstu, enda hafði hann í fyrri ritum haldið uppi harðri baráttu gegn sófistum, eða þeim sem ástunduðu sannfæringalist og lygar sem atvinnugrein, og bjuggu til stjórnmálamenn sem gátu rætt mál frá öllum hliðum og notað rök til að koma sjálfum sér til valda, frekar en að leita sannleikans.

Ég velti fyrir mér hvort að einn mesti heimspekingur allra tíma hafi gefist upp í baráttu sinni fyrir sannleikanum. Að sannleiksást hans hafi dáið. Að hann hafi ekki lengur séð tilgang með baráttunni. Að hann hafi verið kominn í hring. Að lygar og blekkingar geti ekki annað en sigrað í stríðinu gegn sannsögli og gagnsæi.

Og að þessi saga hafi endurtekið sig á Íslandi í dag, um 2400 árum síðar.

 

"Hvernig gætum við komið í kring einni af þessum gagnlegu lygum sem við höfum þegar rætt um, göfuga lygi sem myndi, í besta falli sannfæra jafnvel leiðtogana sjálfa, en væri það ekki mögulegt, í það minnsta aðra borgarbúa?

Hvers konar lygar?

Ekkert nýtt, heldur sögu sem lýsir einhverju sem gerst hefur á mörgum stöðum. Það er að minnsta kosti það sem skáldin segja og þau hafa sannfært margt fólk um að trúa orðum þeirra líka. Það hefur ekki gerst meðal okkar og ég er ekki einu sinni viss um að það gæti gerst. Það þyrfti vissulega mikinn sannfæringarkraft til að fá fólk til að trúa því."

- Ríkið, Plató, 414c

 

Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú, gagnrýna hugsun, heimspeki og vísindi:


Hvað gerir þig að þeirri manngerð sem þú ert?

Síðan byrjaði ég að hlæja -- fyrst í svefni, síðan vakandi, enda hefur mér verið sagt þetta um sjálfan mig og ég trúað því -- þó að ég muni það ekki -- enda ég hef séð sömu hluti í öðrum smábörnum. Síðan, smám saman, áttaði ég mig á hvar ég var og óskaði þess að segja öðrum óskir mínar, þeim sem gætu fullnægt þeim, en ég gat það ekki! Enda voru þarfir mínar fastar innan í mér, og þau voru fyrir utan, og þau gátu ekki með neinum af þeirra mætti komið inn í sál mína. Þess vegna sveiflaði ég handleggjum mínum og fótum, og grét, gaf þær fáu og veikburða vísbendingar sem ég gat, þó að merkin hafi vissulega ekki verið lík því sem ég þráði innan í mér og þegar ég var ekki sáttur -- bæði vegna þess að þau skildu mig ekki og vegna þess að það sem ég fékk var ekki gott fyrir mig -- varð ég sífellt ósáttari við að hinir eldri hlýddu mér ekki og að þeir sem ég réð engan veginn yfir þjónuðu mér ekki eins og þrælar -- ég hefndi mín á þeim með því að gráta. Það að smábörn séu svona, hef ég lært sjálfur með því að fylgjast með þeim; og þau, þó að þau þekktu mig ekki, hafa sýnt mér betur hvernig ég var heldur en þau sem gættu mín í æsku.

- Játningar Ágústínusar, I.8.

Mér sýnist þessi málsgrein vera sönn. Að svona sjái börn heiminn. Þau finna þörf og krefjast þess að henni sé fullnægt. Þegar börn vaxa úr grasi gerist eitt af fjórum hlutum sem gerir okkur að þeim manngerðum sem við erum:

  1. barnið sættir sig við að fá ekki öllum sínum þörfum fullnægt
  2. barnið sættir sig ekki við að fá ekki öllum sínum þörfum fullnægt
  3. barnið fær öllum sínum þörfum fullnægt og telur að þannig eigi lífið að vera
  4. barnið fær öllum sínum þörfum fullnægt en áttar sig á að þannig þurfi lífið ekki nauðsynlega að vera

Það barn sem tekur fyrsta valið er líklegt til að vera frekar rólegt barn, sem sættir sig við að ýmislegt í þessum heimi sé ekki endilega eins og því finnst að það eigi að vera, og sættir sig við að einhver skil séu á milli óska þess og veruleikans. Sjálfsagt eru flestir í þessum hópi, þar sem fæstir fá allt það sem hugur þeirra girnist. Grunar mig að trúarbrögð spretti út frá þessari ósk um að fá allt sem hugurinn girnist, ef ekki í þessu lífi, þá í því næsta - og trúarbrögðin setja saman reglur og vinnubrögð um hvernig hægt er að nálgast slíkan heim.

Það barn sem tekur val þrjú er líklegt til að krefjast sífellt einhvers af öðrum, og fær óskir sínar uppfylltar. Það verður stjórnsamt og áttar sig á að börn úr hópi eitt geta talið að hópur þrjú sé bara eitt af þessum fyrirbærum sem er ekki eins og maður óskar sér, og því finnur slíkt barn annað fólk til að fullnægja þörfum sínum og telur að þannig eigi heimurinn einfaldlega að vera. Ef einhver setur sig gegn óskum slíks barns, sættir það sig engan veginn við slíkt, og grætur með öllum sínum mætti þar til það fær nákvæmlega það sem það vill. Í hópi eitt og þrjú erum við komin með fyrirmyndir af stjórnendum og starfsmönnum í samfélagi, fólk sem trúir að þannig sé lífið og þannig eigi það að vera.

Þau börn sem lenda í hópi tvö, þau sem fá ekki þörfum sínum fullnægt og sætta sig engan veginn við það, eru líkleg til að verða frekar reiðir einstaklingar og leita leiða til að fá þörfum sínum fullnægt en finna þær hvergi. Einu svörin sem þessi börn finna eru tímabundin og öfgafull. Leiti þau í trúarbrögð, verður trúin að vera sterk. Leiti þau í dóp, fara þau alla leið.

Þau börn sem eru í fjórða hópnum byrja með mikið forskot í lífinu, því þau eru frjáls. Þau hafa fengið það sem þau óska sér og læra smám saman að þannig þurfi lífið ekki endilega að vera. Þau átta sig á að eigið val hefur áhrif á framtíðina og hvernig þau geta mótað eigin líf og samfélag með ólíkum hætti en þau sem eru í hópum 1-3.

Það sem gerir þetta spennandi, er að enginn er fastur í sínum eigin hóp af einhverjum ytri mætti, heldur verða viðkomandi fangar eigin viðhorfa og tilfinningar um hvernig lífið eigi að vera. Það er erfitt að breyta sér eftir að hafa alist upp á einn ákveðinn hátt, og það er fangelsi sem við lendum öll í. Við getum aðeins brotist út úr slíkri geymslu ef við viljum það, og hef ég ákveðnar efasemdir um að við myndum vilja það, enda höfum við sterka tilhneigingu til að trúa því að heimurinn sé eins og við upplifum hann, óháð því að upplifun okkar á heiminum er byggð á gjörólíkum forsendum.

Þó að börn þegar þau vaxa úr grasi átti sig á að þau eru öðruvísi en önnur börn, þá hafa þau enga sérstaka þörf til að verða eins og börnin í hinum hópunum, heldur eru líklegri til að leita uppi þá sem eru þeim líkari í lífsskoðunum.

 

Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú, gagnrýna hugsun, heimspeki og vísindi:


Er Guð dauður?

Guð er dauður. Guð verður áfram dauður. Og við höfum drepið hann. Hvernig getum við huggað okkur, mestu morðingja allra morðingja? Það sem var heilagast og mest af öllu því sem þessi heimur hefur til þessa átt hefur blætt til dauða undan hnífum okkar: hver mun þrífa upp þetta blóð? Hvaða vatn getum við notað til að hreinsa okkur? Hvaða sáttahátíðir, hvaða heilögu leiki þurfum við að finna upp? Er mikilfengleiki þessa verks ekki of mikill fyrir okkur? Verðum við sjálf ekki að verða guðir til þess eins að virðast geta staðið undir þessu verki? - Nietzsche, Hin Kátu Vísindi, þáttur 125.

Síðustu 12 færslur mínar hafa fjallað um trúarbrögð á einn eða annan hátt. Eitt af markmiðum allra þessara greina var að velta fyrir mér hvort að Guð væri í raun dauður.

Þannig hugsaði ég þetta: ef Guð er dauður, þá verður flestum sama um þessar greinar, en sé ennþá líf í Guði, munu greinarnar fá einhver viðbrögð.

Engar af þeim greinum sem ég hef skrifað á blogginu hafa fengið jafn mikil viðbrögð og þessar síðustu 12 greinar. Þannig að Guð er sprelllifandi.

Hver er annars merkingin með spurningu eins og þeirri hvort að Guð sé lifandi eða dauður? 

Ég held að líf Guðs felist í þeim áhuga sem öll umræða um hann vekur. (Ég vísa til Guðs í karlkyni orðsins vegna, ekki vegna þess að ég tel Guð vera kynbundna veru, enda aldrei séð neina handbæra sönnun á tilvist kynfæra slíkrar veru.)

Nietzsche hefur verið slegið upp sem gaurnum sem fullyrti um dauða Guðs. Að sjálfsögðu hefur skoðun Nietzsche verið einfölduð og honum lagt ýmislegt í munn, bæði vegna einfeldningslegrar túlkunar á texta hans, sem og hagræðingu Elizabeth Nietzsche á skrifum bróður síns Friedrich Nietzsche til að kenningar hans féllu betur að heimsmynd nasista, nokkuð sem Friedrich Nietzsche hefur sjálfsagt haft óbeit á, enda segir sagan að hann hafi slitið samband við sinn besta vin vegna rasisma hins síðarnefnda.

Það sem fékk Nietzsche til að fullyrða að Guð væri dauður, var meira gagnrýni á spillingu og óheiðarleika í þýsku samfélagi samtíma hans, þar sem fólk með rotið siðferði þóttist trúað og hagaði sér í samræmi við helgiathafnir kirkjunnar, en lifði ekki í samræmi við kristið siðferði. Honum blöskraði tvískinnungur stjórnmálamanna og auðmanna.

Hugmyndir hans um ofurmennið, manneskju sem þurfti ekki á trúarbrögðum að halda til að komast til menntunar, er svo annar merkilegur þráður í sömu sögu. Stóra spurningin er hvort að hver einasta manneskja sé þess fær að vera ofurmenni, eða hvort fáeinir séu dæmdir til þess og fjöldinn muni ávallt fylgja hinum fáu sterku.

Ef fjöldinn fylgir þessum fáu sterku, hvort ætli sé betra að fjöldinn fylgi í kjölfar flóðhests sem aldrei bifar, kirkjunnar, eða stjórnmálaafls sem sveima eins og hrægammar í leit að dauðum flóðhestum?

Síðan Nietzsche lifði höfum við séð afleiðingar þess að fylgja ofurmennum. Við þurfum ekki að líta á dæmi úr sögu fasista, nasista og kommúnista. Það er nóg að líta í okkar eigin barm, á ofurtrú okkar á stjórnmálaelítu og útrásarvíkingum. Hún er sama eðlis. 

Þessi ofurmenni koma og fara, en trúarbrögð virðast standa af sér hvert fárviðrið á fætur öðru, enda eru skilyrðin að baki ofurmenninu annars vegar og trúarbrögðum hins vegar afar ólík. Ofurmennið er mannlegt og dauðlegt, og þarf ekki að gera nema ein mistök til að missa tök sín á samfélaginu. Trúarbrögð eru hins vegar ómannleg og ódauðleg, enda samanstanda þau af samfélagi fólks og tengslum einstaklinga, en byggja ekki á einstaklingunum sjálfum.

Hópar eru sterkari en einstaklingar. Hópar með hugmyndir sem fólk er tilbúið að gefa lífið fyrir eru sterkari en hópar sem hafa ekkert fram að bjóða. Það þarf ekki nema tvo til þrjá einstaklinga til að halda lífi í trúarbrögðum sem virðast vera að deyja út, en svo geta þau blossað út og blómstrað allt í einu á nýjan og óvæntan hátt vegna breyttra aðstæðna í mannlegu lífi.

Er Guð dauður? 

Nei. Guð er lifandi, að minnsta kosti sem spennandi hugtak, hugtak sem hvetur okkur til að velta fyrir okkur lífsgildum, þekkingu og takmörkunum.

Það merkilegasta við þetta allt er að þeir sem halda mestu lífi í Guði eru þeir sem flokka sig sem trúlausa, en þeir eiga það til að gefa þessum umræðum spennandi og skemmtilegt líf.

Vissulega eru vegir Guðs óvæntir og órannsakanlegir. Whistling

Guð er dauður. -Nietzsche

Nietzsche er dauður. -Guð

 

Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú, gagnrýna hugsun, heimspeki og vísindi:

 


Getum við hugsað um ekkert?

Fyrir nokkrum árum sökk ég í djúpar pælingar um ekkert og eftir marga daga, vikur, mánuði eða ár komst ég að þeirri niðurstöðu að hugmyndin um ekkert væri hugsanlega hvaðan hugmyndin um guði og Guð sprettur úr. Fátt er jafn gefandi fyrir mannshugann en að íhuga vandlega ekkertið og hvaða tengingar þetta hugtak hefur við veruleikann.

Þessi hugmynd kviknaði þegar ég var í þjálfun sem heimspekikennari í New Jersey árið 1993. Börnin voru sex ára og hugmyndin var að ræða saman um siðfræðileg mál eins og mikilvægi þess að íhuga af hverju reglur verða til, hvort réttlætanlegt sé að drepa dýr til matar, og hver munurinn er á manneskjum og dýrum er þegar kemur að hugtaki eins og slátrun. Ég vil taka það fram að þessar hugmyndir komu hvorki frá mér né kennsluefninu, heldur eru þetta pælingar sem spretta iðulega upp í samræðum sex ára barna.

Reyndar er oft talað um að börn séu mun grimmari en fullorðnir. Ég held að það sé satt, en ástæðuna tel ég einfalda. Þau eru öll manneskjur og hvert og eitt þeirra hefur sínar eigin skoðanir um lífið og tilveruna, og þessar skoðanir eru jafn réttmætar hjá börnum og hjá fullorðnum. Sex ára barn hefur gífurlega lífsreynslu, sem því miður er oft gert lítið úr. Ég held að börn séu oft grimm því þau fá ekki tækifæri til að vinna úr málefnum sínum með því að ræða saman. Þau kunna það ekki. Þau fá stanslausa ítroðslu á staðreyndum, kenningum og skoðunum kennara, en fá lítil tækifæri til að móta sínar eigin skoðanir, nema með undantekningum - og þaðan spretta snillingarnir.

En hvað um það. Í þessari kennslustund með sex ára börnum sem hófst með því að ég stóð fyrir framan þau og ætlaði að kynna mig, en þá stóð kennari barnanna upp og sagði að þau ættu eftir að flytja "Pledge of Alliegence" þar sem börn tjá virðingu sína fyrir föðurlandinu og fánanum, með algjörlega tómum svip þar sem ekki er hægt að sjá annað en orðin fara bara út um munninn og streyma út í buskann. Svipað og þegar maður situr í kirkju og hlustar á trúarjátninguna.

I pledge allegiance

to the flag
of the United States of America,
and to the Republic for which it stands:
one Nation under God,
indivisible,

With Liberty and Justice for all.

En hvað um það. Í sögu sem ég las fyrir hópinn situr stúlka fyrir framan spegil og veltir fyrir sér hvað andlit hennar er ófullkomið. Augun ekki nákvæmlega rétt staðsett og nefið aðeins á röngum stað, einhverjar tennur skakkar og svo framvegis, en foreldrar hennar höfðu gefið henni þennan innrammaða spegil í afmælisgjöf og hún var að velta fyrir sér hvort það væri vegna þess að þeim fannst að hún þyrfti að passa aðeins betur upp á útlitið. Margar aðrar hugmyndir eru settar fram í sögunni, en börnin festu sig við þessa málsgrein, og þá sérstaklega eina hugmynd sem kom frá þeim sjálfum.

Þessi lýsing er skrifuð eftir minni, og þar sem næstum tveir áratugir hafa liðið, hefur eitthvað af ímyndunarafli mínu tekið við þar sem gleymskan hefur tekið völd.

Spurning eins nemanda hljómaði þannig: "Hvað sjáum við í speglinum eftir að við slökkvum ljósið og horfum samt áfram í hann?"

Það komu bara þrjú svör: 

  1. Svart
  2. Myrkur
  3. Ekkert 

Ég spurði börnin hvað þessi fyrirbæri væru. Þau voru fljót að svara því að svart væri ekki litur, heldur fjarvera alls litar, og að myrkur væri fjarvera alls ljóss. Þegar kom að útskýringu á Engu, þá vandaðist málið.

  1. Eitthvað er eitthvað sem er ekki
  2. Eitthvað er fjarvera hluta
  3. Eitthvað er ósýnilegt
  4. Eitthvað er eins og hvítt, en líka eins og svart, samtímis
  5. Eitthvað er það sem kemur eftir dauðann

Allar þessar hugmyndir voru ræddar, en það að eitthvað væri eitthvað sem kemur eftir dauðann vakti mesta athygli barnanna. 

"Það er ekki satt, við förum til himnaríkis þegar við deyjum," sagði eitt barnið. "Já, það kemur svona ljós í göngum og við förum inn í það."

"Nei," sagði einn svolítið kokhraustur strákur. "Það er vísindalega sannað að maðkar éta okkur. Hugsið ykkur hvað væri óþægilegt að vita af því. Þið sem haldið að ekkert sé eftir dauðann eða himnaríki, þið vonist bara til að komast hjá sársaukanum sem fylgir því að vera étinn af möðkum."

Óneitanlega var þessi hugmynd svolítið óhugnanleg, en þá sagði eitt barnið. "Við vitum ekki hvað verður um okkur þegar við deyjum, en getum við ekki útilokað ekkertið?"

"Nú? Af hverju?" spurði ég.

"Ekkertið getur ekki verið til. Ef ekkert væri til, þá væri ekki neitt annað. Við gætum ekki upplifað ekkert, því það er ekki til staðar, og ef það er ekki til staðar gætum við ekki heldur verið til staðar til að upplifa það."

"Nei," sagði annað barn. "Við getum ekki upplifað það því þegar við erum dauð erum við ekki lengur til. Þess vegna sjáum við ekkert."

"Hvað nákvæmlega er þetta ekkert?" spurði annað barn.

"Ekkert er ekki eitthvað. Þegar eitthvað er ekki lengur, þá er ekkert," sagði eitt barn.

"En ef það er ekki lengur, þá var það kannski og verður, og ef eitthvað var eða verður, þá getur það varla verið ekkert?" spurði annað barn.

"Hausinn á mér," sagði eitt barn. "Mig svimar, þetta er svo erfitt."

"Já," sagði ég. "Á meðan við veltum hlutunum fyrir okkar getum við fundið til þreytu og svima, rétt eins og í leikfimi, að líkaminn þreytist við mikla áreynslu. Við jöfnum okkur þegar við förum að hugsa um annað."

En það sem virðist gera eftir svona kennslustundir er að börnin fara með hugmyndirnar heim til foreldra sinna og ræða málin við þau. Flestir foreldrar eru þakklátir slíkum samræðum, en svo eru sumir sem hneykslast á að skólinn skuli leyfa börnum að hugsa um hvað sem er. Og kröfur þeirra foreldra hljóma oft ansi hátt og verður til þess að forðast er að nálgast frjálsa hugsun eins og þá sem heimspekin boðar.

Samræðurnar héldu áfram. Ekki fullkomnar. Engan veginn. Sum börn virtust vera með hugann við annað, og sum börn hvísluðust á, nokkuð sem kom í ljós eftir tímann að pirraði kennarann sem sat aftast í stofunni, gífurlega mikið. Hann heyrði ekki samræðuna, hann sá bara hegðunina. Það fannst mér merkilegt. Málið er að maður getur ekki reiknað með einum öguðum þræði í slíkum samræðum, heldur verður maður að hlusta eftir þeim hugmyndum sem hafa möguleika til að vekja aðrar hugmyndir. Hugmyndir sem erfitt getur verið að festa niður.

Eftir nokkrar mínútur þar sem börnin voru í raun að slaka á með því að fara út um víðan völl kom spurning sem hélt samræðunni um ekkert áfram:

"Getur ekkert verið til?" 

Þögn sló á hópinn. Og annað barn spurði:

"Getum við gert okkur hugmynd um ekkert?"

Og annað barn sagði. "Ég bara hef ekki hugmynd um hvað ekkert er. Getum við hugsað um ekkert, ef það er ekki til og við getum varla gert okkur hugmynd um það?"

Þá hringdi bjallan og ég þakkaði börnunum fyrir þátttökuna. Þau stigu brosandi á fætur og ýttu stólum sínum í hefðbundnar raðir. Þau þökkuðu mér fyrir komuna og ræddu aðeins við mig um Ísland og hvernig Ísland hefði átt að heita Grænland og Grænland Ísland, og spurðu mig hvort ég spilaði körfubolta af því ég var svo stór, og þar fram eftir götunum.

Síðan ræddi ég aðeins við kennarann frammi á gangi. Þar sem ég hafði upplifað gífurlega flóru af spennandi hugmyndum, hafði hann upplifað frekar óagað umhverfi þar sem sum börn komust upp með að leika sér með blýant milli fingranna. 

Jæja, þetta hafði nú bara verið fyrsta heimspekikennslustund mín með börnum, og ekki gæti hún verið fullkomin frekar en annað - þó að mér hafi fundist hún ákaflega spennandi og gefandi. Eftir þetta hef ég varið hundruðum klukkustunda á sambærilegan hátt, á Íslandi, í Bandaríkjunum, Mexíkó og Suður Ameríku. Og alltaf tekst samræðunum að taka á sig spennandi mynd. 

En hvað segir þú?

Getum við gert okkur hugmynd um ekkert? Og ef þú getur gert þér hugmynd um ekkert, geturðu lýst henni? Það væri gaman að sjá tilraunir til þess á athugasemdakerfinu. Engu skiptir hvort hugmyndin sé fullmótuð eða ekki, fullkomin eða löskuð, klaufalega orðuð eða vel. Allar athugasemdir velkomnar.

Sumir hafa viljað þagga niður í umræðum um ekkert með því að kalla þær orðaleiki og einskis virði, en hvernig geta umræður verið einhvers virði nema þær séu ástundaðar?

 

Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú, gagnrýna hugsun, heimspeki og vísindi:


Loks vil ég þakka Óskari Arnórssyni með athugasemd sinni númer 115 í færslunni Eru trúaðir heimskari en trúlausir? og öllum hinum sem virkan þátt hafa tekið í athugasemdum fyrir að hvetja mig áfram eftir þessum brautum. Mér finnst svona heimspekilegt blogg mun áhugaverðara en pólitískt gagnrýnið blogg, sem þó er vissulega nauðsynlegt og gagnlegt, en þetta er meira uppbyggjandi fyrir þá sem vilja þjálfa sig í því sem vantar mikið í samfélag okkar: samræður þar sem þeir sem eru ósammála geta fundið sameiginlegan grundvöll og hlustað hver á annan. Við eigum kannski ennþá langt í land, en þetta er leið sem mig langar að skoða.


Eru trúaðir heimskari en trúlausir?

Áberandi hefur verið í umræðu um trúarbrögð og trúleysi að "hinir trúlausu" telji greind "hinna trúuðu" eitthvað verri en hinna sem trúlausir eru. Ég vil velta fyrir mér hvort að þetta sé satt.

Ég get vel séð að rökhyggjufólk skori hærra á SAT og IQ prófum en aðrir sem engan áhuga hafa á rökum. Það er ekki ólíklegt að margir þeirra sem aðhyllist rökhyggju skori hátt á slíkum prófum, hvort sem viðkomandi eru trúaðir eða trúlausir. 

Það er enginn frímiði á gáfnafar að skrifa sig á lista meðal trúlausra, sérstaklega ef þú heldur að skráning þín á slíkan lista auki gáfnafar þitt. 

Ekki gleyma því heldur að gáfnapróf mælir gáfur út frá ákveðnum viðmiðum. Trúarbragðagreind er ekki ein af þeim gáfum sem gáfnapróf mæla, og væri áhugavert að sjá hverjir skoruðu hærra á slíku prófi, hinir yfirlýst trúlausu, hinir yfirlýst trúuðu, eða þeir sem eru með neinar yfirlýsingar. 

Þess fyrir utan þykir ekki staðfest að neitt gáfnapróf sem búið hefur verið til mæli raunverulegar gáfur, heldur aðeins afmarkaða hæfileika sem viðkomandi hefur fengið þjálfun í eða þjálfað sjálfur. Greind er nokkuð sem er afar erfitt að skilgreina og festa reiður á, rétt eins og trúarbrögð. Að rannsaka samhengi á milli greindar og trúarbragða hlýtur að verða afar loðið, og að taka niðurstöður slíkra rannsókna án þess að kynna sér aðferðafræði viðkomandi rannsóknar, skilgreiningu hugtaka, þá hópa sem voru mældir, og setja niðurstöðurnar í Slideshow inn á YouTube, sýnist mér ekkert sérstaklega gáfulegt, ekki frekar en áróðursmyndbönd eru yfir höfuð.

Þarna vísa ég í myndbandið, Are Religious People Smarter?, sem mér sýnist sett upp sem áróður frekar en eitthvað sem mark er á takandi. Það er of einhliða um sína afstöðu og tekur aðeins dæmi sem styðja eigin ályktanir. Þarna er verið að setja trúarbrögð upp sem skrípamynd. 

Almennt er talað um tvær gerðir gáfna: faglega og praktíska, og hefur þessum gáfum verið skipt niður í átta greindarsvið í kenningum um "Multiple Intelligences", eða fjölgreindir og hugsanlega eru greindarsviðin fleiri. Þar fyrir utan er sérhver greind skilgreind útfrá ákveðnum eiginleikum, sem eru ekki allir endanlega ákvarðaðir, sem hægt er að læra markvisst, til að geta talist greindur á viðkomandi sviði.

Mig grunar að lykillinn að gáfum sé aðlögunarhæfni, og hafi manneskjan fasta lífsskoðun, sama hver hún er, hvort sem hún er trúuð eða trúlaus, þá mun viðkomandi eiga erfiðara með að aðlaga sig nýjum aðstæðum. 

 

Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú, gagnrýna hugsun og vísindi:

Þessa grein skrifaði ég sem svar við athugasemd 100 í síðustu færslu, Af hverju enda umræður um trúmál oftast í vitleysu?


Af hverju enda umræður um trúmál oftast í vitleysu?

Hópur manna sem kenna sig við trúleysi hefur verið áberandi í umræðum um trúarbrögð á blogginu, og hamrað svo stöðugt á þeim sem voga sér að tjá trú, að þeir síðarnefndu voga sér ekki að taka þátt og velja frekar að ræða saman þar sem umræðan nær ekki eyrum þessa litla en ofsafengna hóps sem virðist vilja stjórna allri umræðu um trúarbrögð og virðast ekki átta sig á að afleiðingar slíkrar hegðunar er einfaldlega sú að á þá verður ekki hlustað, að þeir verða sem heild fordæmdir af hinum þögla meirihluta. Að þeir átti sig ekki á þeim skaða sem þeir valda eigin afstöðu er mér ráðgáta. 

Einn stór misskilningur, jafnvel hjátrú, er að fólk sem er á öndverðum meiði geti ekki rökrætt mál. Dæmi um slíkt eru þrætur trúleysingja og trúaðra, þar sem báðir eru svo sannfærðir um eigin málstað að þeir hafa engan áhuga á finna sameiginlegan flöt á umræðunni. Þegar ákveðin afstaða er fyrirfram tekin og hún rökstudd án tillits til sjónarmiðs þeirra sem hafa ólíka afstöðu, þá er um kappræðu að ræða. Í kappræðum skiptir minna máli hvað er satt og hvað er rétt, en meira máli að vera sem mest sannfærandi í máli, og fá sem flesta í sama lið. Þar er dygð að valta yfir andstæðinginn. Í samræðu er andstæðingur hins vegar ekki til.

Það eru sterk fordæmi fyrir slíku karpi á Íslandi, því miður, og fer þar hörðust fram stétt stjórnmálamanna sem virðast engan áhuga hafa á að líta út yfir eigin sandkassa, en samt með örfáum undantekningum skynsamra einstaklinga sem vekja veikar vonir undirritaðs. Ef þingmenn færu að rökræða mál á samvinnugrundvelli í stað þessara eilífu kappræðna, þá færi kannski eitthvað jákvætt að gerast í þeim búðum, fyrir þjóðina.

Kappræður eru ekki það sama og samræður. Samræður eru ólíkar kappræðum að því leyti að markmiðin eru gjörólík, sem og aðferðirnar. Markmiðið með samræðu er ekki að vera sannfærandi eða koma með sannfærandi rök, heldur finna hvað er satt og rétt í því mæli sem er rætt, og bæði læra af og fræða viðmælendur. Á meðan mikilvægasta tæki kappræðumannsins er að vera mælskur og tala sem mest, óháð hversu skýrar hugmyndirnar eru, er mikilvægast fyrir þá sem taka þátt í samræðum að hlusta, og greina í sundur það mikilvæga frá hinu sem er það ekki, að rök séu skýr og greinileg, að afstaða til samræðu sé til staðar.

Það sem er sameiginlegt með kappræðum og samræðum er að hvort tveggja er kallað rökræður, en menn átta sig ekki alltaf á að ólíkt eðli þessara rökræðna skapa gjörólíkar forsendur fyrir málflutningi. Mig grunar að oft hafi þeir sem eru að tala saman ekki hugmynd um þennan greinarmun á milli samræðna og kappræðna, og láti þess í stað aðeins brjóstvitið ráða, en huga lítið að því að hugsa um hvernig við hugsum og hvernig við tengjum hugsanir okkar við ræðu og hvernig ólíkar ræður tengjast. Ég hef einnig tekið eftir þessu meðal enskumælandi félaga minna og kemur þeim sífellt á óvart þegar ég geri skýran greinarmun á "debate" og "dialogue", eða kappræðum og samræðum, og óska eftir að kappræður fari fram annars staðar, en samræður á meðal okkar. Yfirleitt byrjar ferlið með smávægilegum árekstrum, en þegar fólk fer að kannast við leikreglurnar, þá fara af stað samræður sem allir geta lært af. 

Ég gerði tilraun hér á þessu bloggi til að koma af stað samræðu um trúarbrögð, og finnst nokkuð vel hafa tekist til, þó að sumir gestir hafi mætt í kappræðuskapi og verið duglegir að nota ad-hominem rökvilluna til að geta lítið úr þeim sem voru á öðru máli eða ræddu málin í tóni sem öðrum líkaði ekki. Sumir læra að ræða saman, aðrir þrjóskast við. Þannig er þetta bara. Þeir sem læra ekki samræðutækni falla sjálfkrafa út. Aðeins þeir hæfustu komast af. Ég er ánægður með útkomu þessarar tilraunar, þó svo að sumir einstaklingar virðist hafa einbeittan áhuga á að gera sem minnst úr öllum þeim skoðunum sem ekki koma úr þeirra herbúðum.

Þrátt fyrir kaldar kveðjur mínar til kappræðna, þá vil ég taka fram að kappræður geta haft fræðandi gildi þegar þeim er vel stjórnað og takmarkanir þeirra meðvitaðar öllum sem taka þátt í viðkomandi umræðu, og þær geta verið gagnlegar þeim sem hafa áhuga á að skilja málefni út frá ólíkum sjónarmiðum - en það að rökin miða að því að sannfæra frekar en að fræða, gerir kappræðuhefðina að hálfgerðum bófa, sem rænir öllu vitrænu úr samhengi. Enda voru þeir Sókrates og Platón frægir fyrir að fordæma kappræðukennara sem sófista, sem helstu óvini vitrænnar samræðu. Skal ég ekki dæma um hvort að rétt sé að fordæma alla kappræðu, en ljóst er að ef sá sem ástundar kappræðu og veit það ekki, þá er sá hinn sami í vondum málum, sérstaklega ef viðkomandi hefur einhver völd, og ennfremur sé hlustað gagnrýnislaust á málflutninginn.

Samræðuhefð er sú hefð sem heimspekingar reyna að fylgja eftir, yfirleitt í frekar stóru samhengi, þar sem þeir halda áfram samræðum sem hófust fyrir árhundruðum síðan og passa sig á að taka tillit til og bera virðingu fyrir skoðunum einstaklinga sem fyrir löngu eru fallnir frá. Stundum gleymist þó að bera sambærilega virðingu fyrir þeim sem eru á lífi í dag og hafa eitthvað til málanna að leggja, sem er að mínu mati álíka slæmt og að hunsa forfeður okkar.

Það eru til ólíkar gerðir samræðuforma, og öll eru þau góð, en gegna ólíku hlutverki. Bloggsamræðan er frekar nýtt form fyrir samræður, þar sem þeir sem áhuga hafa á málefnum geta skrifað athugasemdir við færslu, eins og þessa, og komið með sína eigin sýn á málið. Þetta form er ólíkt þeirri vönduðu aðferð og öguðu vinnubrögðum sem krafist er af atvinnuheimspekingum sem vinna í hugmyndum þeirra sem eru ekki lengur til staðar, en er meira í líkingu við samræður yfir eldhúsborði, með þeirri undantekningu að allt sem sagt er hefur verið skráð og verður geymt á skráðu formi hugsanlega í einhver ár eða jafnvel aldir.

Hver veit hvað afkomendur okkar munu hugsa um blogggreinar og athugasemdir sem þessar. Verða þær hluti af stærra samræðuformi í framtíðinni eða falla allar þessar pælingar í gleymsku með tíð og tíma?

Mig grunar að kappræðurnar gleymist en samræðurnar verði geymdar og varðveittar langt inn í framtíðina, því þar er hægt að finna kjarna sem kappræður eru aðeins megnugar að skauta yfir eins og beljur á svelli.

Eins og áður, bíð ég lesendur velkoman að skrifa athugasemdir við þessa grein og ræða saman. Ég get ekki lofað að svara öllum athugasemdum, enda tekur slíkt tíma, nokkuð sem ég hef í takmörkuðum mæli, en ég les þær allar af miklum áhuga.

 

Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú, gagnrýna hugsun og vísindi:


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband