Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska?

Eru einhverjir að taka mikla fjármuni út úr bönkunum og skipta þeim yfir í erlendan gjaldmiðil, alltof hratt? Ef svo er, þá gæti eins verið komið fyrir Íslandi og fyrir Argentínu árið 1999, þegar fjárfestar hættu að treysta argentínska hagkerfinu, tóku allan pening úr bönkum, skiptu þeim yfir í dollara og sendu úr landi. Argentína var sem sviðin jörð í mörg ár á eftir. 

Árið 1994 lenti Mexíkó í hrikalegri niðursveiflu, nokkuð sem ég upplifði af eigin raun og skuldir margfölduðust á örfáum dögum. Forsendur málsins voru reknar til þáverandi forseta Mexíkó sem var að ljúka sínu síðasta ári á forsetastól, en hann dró sér gífurlegar upphæðir úr hagkerfinu, skipti yfir í erlenda mynt og flutti til Írlands. 

Er eitthvað samskonar að gerast hér á landi undir sofandi augum stjórnvalda, sem eru kannski að horfa of mikið út á við þegar mikilvægt er að við lítum aðeins í eigin barm?

Samkvæmt frétt mbl.is segir Davíð Oddsson seðlabankastjóri að "hugsanlega hafi einhverjir verið að hafa meiri áhrifa á gengi krónunnar að undanförnu en eðlilegt getur talist".

Þetta er stórfrétt í sjálfu sér, að minnsta kosti fyrir mig, því að ég hélt að ómögulegt væri fyrir fáa einstaklinga að leika sér með gengi krónunnar, og trúði að við værum í landi þar sem hlutirnir eru í föstum skorðum og gegna ekki frumskógarlögmálum, en nú hafa hagfræðingar og sjálfur Seðlabankastjóri fullyrt að það sé mögulegt. Athugið: "Að það sé mögulegt!"

Hvort að möguleikinn hafi verið nýttur er annað mál, og hugsanlega sakamál. Einnig má spyrja hversu lengi þessi möguleiki hafi verið til staðar og hvort að þetta sé í fyrsta skiptið sem svona lagað hefur hugsanlega verið gert á Íslandi, eða hvort að þetta sé líkari almennri reglu og bara fattast vegna tæknilegra mistaka?

Stýrivextir hafa verið hækkaðir um 1.25 prósent og eru því komnir í 15%. Það er mikið miðað við að stýrivextir hjá flestum öðrum Evrópuþjóðum eru um 2%, sem þýðir að lán verða ekki jafndýr fyrir almenning á endanum.

Ég ákvað að lesa mér til og reyna að fræðast um hvað stýrivextir þýða. Svo velti ég þessu fyrir mér, og þrátt fyrir að stundum hafi allt farið í hnút komst ég loks að þessari niðurstöðu:

Samkvæmt mínum skilningi þýðir þetta að ef fjármálastofnanir taka lán frá Seðlabanka Íslands verði vextir á þeim 15%. Er þetta gert til þess að koma í veg fyrir að fjármálastofnanir taki þessi lán, því að þau geta ekki verið annað en óhagsstæð. Segjum samt að fjármálastofnanir taki þessi lán á þessum kjörum, hvað þýðir það fyrir almenna neytendur í landinu. Það er ekki um bein áhrif að ræða, þannig að spekingar geta fullyrt að þetta hafi engin áhrif á neytendur.

Aftur á móti getur þetta verið eins og tvíeggja sverð: ef fjármálastofnanir voga sér að taka lán á þessum kjörum er ljóst að þær verða að fá peningana til baka, og hvar annars staðar en hjá borgurum landsins - ef ekki í gegnum fasta vexti, þá í gegnum verðtrygginguna, - þar sem að verðtryggingar, verðbólga og stýrivextir haldast í hendur. Ef fjármálastofnanir taka hins vegar ekki lán á þessum kjörum, þá eru þær sjálfsagt ekki að endurfjármagna sig og munu þá áhrif þessara stýrivaxta vera skammvinn, og gengið byrja aftur í frjálsu falli, jafnvel innan viku.

Vinsamlegast leiðréttið mig með útskýringum sem venjuleg manneskja skilur fari ég með rangt mál.

 

Dæmisaga sem kemur okkur við:


mbl.is Einhverjir kunna að hafa haft óeðlileg áhrif á gengið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: arnar valgeirsson

get ekki leiðrétt þig þar sem ég er ekki nógu vel að mér. hinsvegar þykir mér þetta vel fram sett og langt því fram að vera nokkur gífuryrði. maður er reyndar að verða smeykur við þetta helvíti því yfirdráttarlán hækka, almenn lán hækka og svo framvegis.

og sjitt ef það bitnar ekki hraustlega á mér barasta....

en hann guðmundur hjá íbúðalánasjóði segir að þetta komi ekki við íbúðakaupendur - alveg strax - eða þá sem fengu lán hjá þeim, eins og t.d. ég..

sem betur fer tók ég ekki íbúðalán hjá bönkunum og sem betur og betur fer ekki í erlendri mynt.

og ég tek ofan fyrir guðna ágústsyni, þó ég hafi aldrei fílað hann og sé ekki í framsókn, fyrir að berjast gegn sjöllunum og bönkunum sem vildu afnema íbúðalánasjóð, þegar hann var ráðherra. þar stóð hann sig með miklum sóma.

þetta lítur ekki vel út maður...

en kíktu á www.godurgranni.blog.is og sjáðu hvað grænlendingar eru að taka skákinni ótrúlega vel...

arnar valgeirsson, 25.3.2008 kl. 22:35

2 Smámynd: Ómar Ingi

Engar byssur í þessu ráni enda glæpamenn oftast í skiptimynt. Þessir sem eru í jakkafötum erum í millunum osfv.

Eða hvað ?

Ómar Ingi, 25.3.2008 kl. 23:27

3 identicon

Erum við að gleyma öllu erlenda vinnuaflinu sem er hér heima á íslandi og sendir launin sín aftur til Lettlands, Litháen og Póllands í milljarðavís og leigir kannski eina herbergisholu hérna á 40 þús. kall.

Margt smátt gerir eitt stórt... og ég er viss um að það eru margir að gleyma þessari jöfnu inn í reikninginn.

Segjum að 3000 útlendingar eigi 150 þús. kr. til að senda til síns heima í hverjum mánuði eftir leigu og uppihald. Þá erum við að gefa okkur að einungis 3000 af þessum 20 þús. útlendingum sem eru á landinu geri þetta.

Við erum að tala um 450 milljónir á mánuði. það eru 5,4 milljarðar á ári.

Ég veit að þessi upphæð hljómar eins og dropi í hafið hjá mörgum en einhver áhrif hlýtur þetta að hafa þegar fjármunir eru fluttir svona úr landi.

Hafþór (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 23:47

4 Smámynd: haraldurhar

   Hrannar þetta útspil hjá Davíð, ætti að upplýsa þig og aðra hversu lítið vit hann hefur á sjórnun peningamála.  

   Bankarnir eins og öll fyrirtæki verða að taka þær ákvarðanir er þeir telja að komi þeirra rekstri best, og að þeir kaupi gjaldeyri, og taki þar með stöðu á móti kr. er einungis vegna þess að þeir telja kr. of hátt skráða. Auk þess sem þeir þurfa gjaldeyrir til að greiða af erl. lánum sýnum.  

   Dæmið er þú tókst frá Argentínu er nákvæmlega það sem hefur verið að gerast hér, og hagstjórn síðustu ára hefur óneitanlega minnt mann á hagstjórn S-Ameríku hér á árum áður þegar aðalinn og þeir sem meira máttu sín voru með peningalegar eignir sínar í  US $, en þeir sem minna meiga sín í gjaldmiðli sinnar þjóðar.

   Þessi vaxtahækkun í dag mun að mínu áliti einungis leiða til enn minna traust á ísl. kr., og gengisleiðréttingin verða enn dýpri en orðið er.

haraldurhar, 26.3.2008 kl. 01:17

5 Smámynd: Garðar Valur Hallfreðsson

Persónulega finnst mér skrítið að Dabbi skuli skjóta þessu svona að en í raun ekki klára setninguna.  Þetta er mjög hefðbundin leið hjá Dabba að framkvæma, þ.e.a.s. skilja eitthvað eftir á vörum almennings til að brúka munn hver við annan.  Hann gerði þetta allan stjórnmálaferil sinn, á snildarlegan hátt, eins og hann orðar það sjálfur að klína smjöri á bak andstæðings og láta hann reyna að sleikja það af. 

Hvað meinti Dabbi með þessum orðum, var hann að beina þessum orðum að Kaupþingi eða....?

Garðar Valur Hallfreðsson, 26.3.2008 kl. 09:11

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Já, Garðar Valur, hvað á það að þýða að láta svona orð falla?

Hinsvegar ef satt er að bankarnir (sem eiga að vera í samkeppni?) eru að ráðast svona á eigin þjóð, þá eru þetta glæpamenn!...ekki spurning! 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 26.3.2008 kl. 12:22

7 identicon

Það getur vel verið að þetta hafi skeð. Það getur líka verið að þetta hafi verið gert áður. Og að þetta verði gert aftur. Þetta er nefnilega fullkomlega löglegt. Meðan krónan er á frjálsum markaði má kaupa og selja án takmarkana. Dabbi getur vælt eins og honum listir. Hann bara hefur enga stjórn á þessu, það þykir honum sárt.

sigkja (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 14:41

8 identicon

Mig langar að koma þessu á framfæri en þori ekki ad gera það undir nafni. Þetta er bara mín skoðun, góð grein hjá þér annars.


Það er breskur prófessor sem virðist vera á launum við að tala Ísland upp í fjölmiðlum erlendis.   En það er staðfest í öðrum fréttum að þessi prófessor hefur verið á launaskrá hér síðan í fyrra.  Það er búið að skipuleggja mikla herferð erlendis sem er bara ekki að virka en það er mikill skjálfti í gangi í  fjármálafyrirtækjum víða en á Íslandi, en sennilega er skjálftin að færast meira yfir til fjárfestingarbanka starfsemi frá viðskiptabanka starfsemi.  Gengið er klárlega ennþá ofmetið og á eftir að falla, en ég ætla ekkert að spá um hversu mikið.  Það eru nefnilega stórir fjármála spekulantar erlendis sem eru að kippa að sér höndunum og þetta ræður Seðlabankinn ekki við frekar en hann ræður vid verðbólguna heima. Þeir ráða ferðinni ekki við.  Mér er líka sagt að vandamálið er ad bankarnir treysti ekki hvorum öðrum, þess vegna eru millibankavextir svona háir.

nafnlaus (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 14:50

9 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Mér sýnist bara mikil skynsemi í þessu og sé ekki að nokkurn hlut þurfi að leiðrétta.

Steingerður Steinarsdóttir, 26.3.2008 kl. 16:02

10 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir góðar athugasemdir. Ég held að vel sé mark takandi á Seðlabankastjóra þó að hann heiti Davíð Oddsson. Nú er stóra spurningin hvort að hægt sé að rekja hræringar sem þessar til réttu ábyrgaðaraðilana.

Hrannar Baldursson, 26.3.2008 kl. 17:19

11 Smámynd: Óskar Arnórsson

Já Hrannar! Ég er ansi hræddur að þú hafir hitt naglan beint á höfuðið. Þeir sem töpuðu í hlutabréfapókernum ætla sér að ná tapinu til baka með þessu gjaldeyrisbraski. Samráð einkabanka og Aðgerðir Seðlabanka eru alveg talandi dæmi um aðferðafræðinna í stærsta bankaráni Íslandssögunar, eða ráni á venjulegu fólki..ýfirlýsing Geirs Haarde er  klassískt dæmi um mann með mikilmennskubrálæði á háu stigi svo ég vittni nú í hann og hefur Davíð snillingur líklegast lagt honum orð í munn:

"Geir sagði að Seðlabankinn væri með þessari hækkun að bregðast við lausafjárkreppu á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum."

Vitlausara bull er varla hægt að sjóða saman! Að halda því fram að Seðlabanki í 300.000 manna þjóð þurfi að grípa til aðgerða vegna lausafjárkreppu á alþjóðlegum gjaldeyrismarkaði.

Falsið skín úr hverju orði sem þessi grúppa segir samanlögð. Sem er heldur ekkert sérlega stór, en er búin að búa til svikamillu sem Íslendingar munu ekkert gera beitt í. Mennirnir sem standa á bak við allt saman, er aldrei minst á í blöðum eða öðrum fjölmiðlum..

Í USA sætu þeir allir í gæsluvarðhaldi meðan sakamálarannsókn færi fram....með dóma framundan upp á 40 ár til æfiloka...en á Íslandi eru ekki til einu sinni lög sem ná yfir þessa menn.

Ég spyr sjálfan mig hvað þeir fái fyrir greiðann... 

Óskar Arnórsson, 26.3.2008 kl. 17:20

12 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Eins og sjá má býr Morgunblaðið yfir upplýsingum um "foul play" . Sjá leiðara um þetta 15.3.2008 ofg hvetur þingmenn til að kryfja viðskiptaráðherra formlegra svara á Alþingi :

Hverjir hagnast?Gengi krónunnar hefur lækkað mikið í þessari viku og þeirri síðustu. Þessi mikla gengislækkun kemur illa við hinn almenna borgara. Innflutningsverð á nauðsynjavörum hækkar, og í sumum tilvikum mikið, vegna þess að erlendur gjaldmiðill verður dýrari. Nú er bensínverð orðið óheyrilega hátt og þar er á ferðinni samspil milli verðhækkana á olíu og gengisbreytinga.

Þeir fjölmörgu Íslendingar, sem hafa kosið að fjármagna húsnæðiskaup sín með erlendum lánum, verða fyrir barðinu á gengislækkun krónunnar. Lán þeirra stórhækka í erlendum myntum.

Verðhækkanir bæði vegna gengislækkunar og vegna verðhækkana í útlöndum keyra verðbólguna upp. Það þýðir að verðtrygging innlendra lána hækkar.

Gengislækkun undanfarinna daga sópar gífurlegum fjármunum frá almennum borgurum til einhverra annarra – en til hverra?

Það er nauðsynlegt að það verði leitt í ljós. Hverjir hafa séð sér hag í því að undanförnu að selja svo mikið af krónum að krónan hefur lækkað í verði? Það hefur verið meira framboð en eftirspurn. Eru það innlendir aðilar?

Bæði ríkisstjórn og Seðlabanki ættu að taka höndum saman um að upplýsa almenning á Íslandi um, hverjir það eru, sem þessa dagana hagnast á lækkandi gengi íslenzku krónunnar. Með því er ekki sagt að það sé neitt athugavert við þessi viðskipti en það er æskilegt að stór viðskipti af þessu tagi fari fram fyrir opnum tjöldum og séu gagnsæ. Er það ekki sjálfsagt? Eru ekki allir aðilar að fjármálamarkaðnum sammála um mikilvægi þess, að viðskiptin séu gagnsæ?

Það er ekki auðvelt að fá þessar upplýsingar. Morgunblaðið hefur leitazt við að fá þær fram í dagsljósið á undanförnum dögum en það gengur erfiðlega. Hver bendir á annan en engu að síður er athyglisvert að þeir, sem á annað borð benda á einhvern, benda á innlenda aðila – ekki útlenda.

Þetta er slíkt alvörumál fyrir þjóðina alla að þessar upplýsingar verða að koma fram. Það liggur beint við að einhver þingmaður beri þessa fyrirspurn fram á Alþingi. Ráðherrar verða að svara fyrirspurnum á Alþingi. Og það er skylda alþingismanna að standa vörð um hagsmuni kjósenda sinna.

Það verður spennandi að fylgjast með því, hvort einhverjir þingmenn á Alþingi bregðast við þessari ábendingu og beini fyrirspurn til viðskiptaráðherra. Það stendur yfirleitt ekki á svörum frá þeim ráðherra.

Hér er hins vegar um grafalvarlegt mál að ræða, sem krefst skjótra svara. Vonandi stendur ekki á viðskiptaráðherra að veita þau.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 26.3.2008 kl. 17:56

13 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

já predikari!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 26.3.2008 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband