Ólafur F. hemur reiðina gegn harðri yfirheyrslu í Kastljósi (og samanburður við þátt Sverris og Guðna).

Gærdagurinn var frekar heitur. Það er ekki nóg með að hitamet hafi verið slegin víða um land, heldur steig hitinn greinilega til höfuðs nokkurra þjóðþekktra einstaklinga.

Fyrst var það Sverrir Stormsker sem í miskunnarlausum og gáskafullum spurningum gekk fram af Guðna Ágústssyni í þætti sínum á Útvarpi Sögu, þannig að Guðni á endanum gekk út. 

Í Kastljósi reyndi Helgi Seljan síðan að spyrja Ólaf F. Magnússon spjörunum úr, og vildi greinilega vera afar gagnrýninn í sínum spurningum, en klikkaði algjörlega á lykilatriði hnitmiðaðrar gagnrýni: að hlusta á hinn aðilann. Reyndar má segja Helga það til vorkunnar að Ólafur var ekki mikið skárri, þar sem hann hafði fyrst og fremst áhuga á að koma á framfæri því jákvæða í starfi borgarstjórnar, en Helgi vildi hins vegar gagnrýna einhverja fleti niður í þvílíkan kjöl að það var engan veginn hægt að fylgja honum eftir. 

En Ólafi til vorkunnar, reyndi hann að svara spurningum Helga, en komst aldrei langt því að greinilega var ekki hlustað á það sem hann hafði að segja, og hugmyndin var einungis að veiða út úr honum lokuð svör, frekar en leyfa manninum að tjá sig á frjálsan hátt.

Það þykir mér afar léleg stjórnun.

Með því að halda viðtalið út og gagnrýna þáttarstjórnanda fyrir slaka frammistöðu hélt Ólafur F. höfði, og það þrátt fyrir að vera í erfiðri stöðu sem óvinsæll borgarstjóri sem tekið hefur mjög umdeildar ákvarðanir. Þáttastjórnendur mega aldrei gleyma því að þeir eru að ræða við manneskju, en ekki vél sem gefur þeim nákvæmlega þau svör sem þeir vilja.

Ef ég ber þetta viðtal saman við viðtal þeirra Sverris og Guðna, þá er eðli þeirra gjörólíkt, því að Sverrir gerði stöðugt athugasemdir við það sem Guðni hafði að segja, á meðan Helgi virtist einungis þylja upp spurningalista sem hann hafði á borðinu fyrir framan sig.

Skondið hvernig Sverrir virkaði á mig sem virkilega forvitinn og skapandi einstaklingur, með meiri áhuga á skoðunum Guðna en upplýsingum, en Helgi Seljan sem vélrænn skriffinnskuþræll sem vildi draga fram upplýsingar úr Ólafi F. eins og lögreglumaður að setja saman skýrslu eða pyntari. Það er gott að leyfa viðmælendum sínum ekki að komast upp með hvað sem er, en það má nú leyfa þeim að segja það sem liggur þeim á hjarta. Hvernig getum við annars kynnst þeim?

Í báðum tilvikum snýst málið um stjórnun. Stjórnmálamanninum finnst eðlilegt að hann stjórni. Sverrir Stormsker hunsaði það og spurði stanslaust eins og krakki sem bara þarf að vita hlutina og hefur engan áhuga á hver ræður. Mistök Helga Seljan voru hins vegar þau að hann hafði engan áhuga á að ræða við sinn viðmælanda, vildi kúga hann til hlýðni og spyrja um tilfærslu einnar manneskju í starfi eins og það sé eitthvað höfuðmál, á meðan tugir manna hafa misst störf sín á sama degi hjá Ræsi, Just for Kids, og Mest. 

Þá má benda á að áhugavert væri að fylgjast með dýpri rannsókn á þessum málum:

  1. Hvernig Ræsir segir upp öllu sínu starfsfólki með það í huga að ráða einhverja aftur,
  2. Hvernig stjórnendur Just for Kids skilja fyrrum starfsmenn sína eftir í óvissu með því að segja þeim ekki hvort þeir fái borgað um mánaðarmót eða ekki og
  3. Hvernig Mest var skipt upp í tvö fyrirtæki áður en hluti þess var gerður gjaldþrota, og hvernig Glitnir fær gífurlegar fjárhæðir út úr þessu á meðan starfsmenn fá ekki full laun, þar sem Mest er ekki lengur skuldbundið til að borga þeim, heldur fyrirtækið sem var búið til og gert gjaldþrota á einum mánuði. 
  4. Bensín- og díselmál: hvernig verðið hækkar alltaf með verðhækkunum utan, en lækkar ekki í samræmi við það.
Öllum þessum málum var reyndar gerð ágæt skil í Fréttum, en Kastljós ætti að mínu mati að kafa dýpra og snúa sér aftur að fréttaskýringum, í stað þess að vera blaðurþáttur um ekki neitt.

30. júlí 2008 var með undarlegri dögum. Ég get bara ekki sagt annað.

Nú hefur einnig komið fram að Guðni óskar þess að þátturinn hans Sverris verði ekki endurfluttur, og ef svo færi að þátturinn yrði bannaður, þá væri búið að banna útvarpsþátt á Íslandi í fyrsta sinn, held ég, sem myndi náttúrulega bara vekja enn meiri áhuga fólks á þættinum og sjálfsagt verða til þess að honum verði dreift á netinu í massavís og verði þannig instant klassík, svo ég leyfi mér að sletta.

Það má taka fram að Ólafur sést rjúka út með þjósti að baki Þórhallar Gunnarssonar strax eftir viðtalið. Tímasetning útgöngunnar er góð. Kastljós fær falleinkunn að þessu sinn, Ólafur plús í kladdann fyrir að gagnrýna spyrjandann afar vel, með athugasemdum sem þáttastjórnandinn þarf að svara vilji hann fá einhvern aftur í viðtal til sín. Ekki myndi ég vilja fara í viðtal til Helga Seljan, en hefði sjálfsagt lúmskt gaman af því að ræða við Sverri Stormsker.

 

Hér má sjá brotið úr Kastljósi: Ólafur F Magnússon borgarstjóri

 

Myndir: 

Helgi Seljan á flickr

Ólafur F. Magnússon á vef borgarstjóraembættis


mbl.is Guðni gekk út í beinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Bergz

Skemmtilegar pælingar hjá þér Hrannar hér á blogginu, nú og áður.

En nú hafa greinilega Ólafur F. og Guðni gengið í "Félag vandræðamanna"! :)


En að moviedæminu, sem er svo skemmtilegt hjá þér. Ertu til í að smella einkunnagjöf, frá 1-5 stjörnu, á Bond-myndirnar; ég geri hið sama og síðan skiptum við á upplýsingum og berum saman?

Snorri Bergz, 31.7.2008 kl. 08:45

2 identicon

Auðvitað þurfti Helgi að láta svona við Ólaf. Ólafur byrjaði með einhverja þulu sem hann hafði greinilega æft fyrirfram þar sem hann ætlaði að nota tímann til þess að vera með einhverja ræðu til að hylla borgarstjórnarmeirihlutann. Þegar Helgi lét hann ekki komast upp með það þá brotnaði Ólafur saman, hann var nánast farinn að gráta.

Ólafur (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 08:49

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Snorri: Takk fyrir þetta. Ertu að spá í alvöru rýni eða bara lista? Ég hef náttúrulega séð þær allar oftar en einu sinni og ætti því að geta búið til lista með einkunn, en þarf að sjá þær aftur til að rýna. 

Ólafur: Ég sá þetta ekki eins. Reyndar var greinilegt að Ólafur F. mætti vel undirbúinn með ræðu og ætlaði ekki að láta slá sig út af laginu, og ljóst var að hann var í uppnámi, en mér fannst hann taka vel á málunum. Ætli hann sé ekki bara með betri borgarstjórum sem Reykjavík hefur átt, þrátt fyrir hvernig hann komst til valda?

Hrannar Baldursson, 31.7.2008 kl. 08:53

4 Smámynd: Ómar Ingi

Já loksins er Helgi komin með eistu aftur í Kastljósi og hegðar sér eins og hann sé í vinnunni.

Honum er létt eftir að dómsmálið er nánast frá enda fáranlegt með öllu það mál.

Ómar Ingi, 31.7.2008 kl. 10:24

5 Smámynd: Steinn Hafliðason

Ég verð að viðurkenna að þetta kemur mér ekki svona fyrir sjónir. Mér fannst Ólafur koma mjög illá út úr þessu viðtali og þegar hann fékk ekki að halda framboðsræðuna sína þá vildi hann engan veginn svara spurningum Helga. Ólafur hefði átt að koma betur undirbúinn í viðtalið því hann gat sagt sér það að hann fengi spurningar um brotthvarf fulltrúa síns úr skipulagsráði en ákvað frekar að rembast eins og rjúpan við staurinn með fyrirfram samda ræðu í staðinn fyrir að gefa nokkuð trúverðug svör við spurningum sem hann fékk.

Steinn Hafliðason, 31.7.2008 kl. 10:49

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég verð nú að segja að þetta hefur örugglega virkað á marga sem góð útkoma fyrir Ólaf því hann hélt haus og Helgi virkaði bara eins og lítill dóni.  Ekki gott viðtal.  Helgi er góður en þetta var ömurlegt viðtal.

Ásdís Sigurðardóttir, 31.7.2008 kl. 11:25

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ómar: Helgi tapaði sér algjörlega í þessari yfirheyrslu

Steinn: Við getum verið sammála um að vera ósammála. Mér fannst Helgi einfaldlega reyna að kúga viðmælanda sinn til svara.

Ég hef reyndar tekið eftir því að margir sem blogga um þetta mál kalla Ólaf F. Ólaf Blörr, sjálfsagt vegna Spaugstofublörrsins fyrr í vetur, og hef á tilfinningunni að þarna fari óvinsælasti maður Íslands, og einungis þess vegna kemst Helgi upp með þetta. Samúð með Ólafi F.er skiljanlega lítil, rétt eins og með öðrum stjórnmálamönnum á Íslandi í dag sem virðast nú sem aldrei fyrr setja sig á hærri stall en hinn almenni borgari, og fyrir vikið er hann auðvelt fórnarlamb. En gefur það okkur hinum almennan skotrétt á manninn? 

Kannski...

Hrannar Baldursson, 31.7.2008 kl. 11:28

8 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég er að reyna að senda þér bloggvinabeiðni en tölvan mín gerir það ekki fyrir mig, vilt þú reyna, ég hef týnt þér úr hópnum mínum og finnst það miður.

Ásdís Sigurðardóttir, 31.7.2008 kl. 11:29

9 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ásdís: ég vil nú ekki heldur missa þig sem bloggvin. Hvað hefur gerst?

Hrannar Baldursson, 31.7.2008 kl. 12:08

10 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Nú höfum við tengst á ný, ég hef oft verið að lesa bloggið þitt í gegnum forsíðuna, veit ekki hvað gerðist  allavega allt komið í lag núna.

Ásdís Sigurðardóttir, 31.7.2008 kl. 12:23

11 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ef Guðni Ágústsson hefur staðið sig svona illa gegn hinum "forvitna" Sverri Stormsker þá verð ég að endurskoða dómgreind mína.

Líkt og venjulega hélt Sverrir að viðtalið snerist um að fá viðbrögð Guðna við að vera meðhöndlaður eins og broslegur auli og skemmtikraftur handa áheyrendum undir vægasta sagt undarlegum húmor spyrilsins. Guðni fékk krefjandi spurningar um eitt funheitasta pólitíska deiluefni þjóðarinnar. Hann vildi fá næði til að svara þessu faglega og með rökum. Það hugnaðist Sverri ekki og hélt áfram að tala niður til Guðna eins og smákrakka.

Gðuðni Ágústsson er umdeildur pólitíkus eins og fleiri. Hann er að upplagi leiftrandi húmoristi og flinkur. Hann setti ekki ofan við þetta viðtal.   

Árni Gunnarsson, 31.7.2008 kl. 12:51

12 Smámynd: Hrannar Baldursson

Árni: alltaf gott þegar fólk endurskoðar dómgreind sína, en ég tel Guðna alls ekki hafa staðið sig illa fyrir utan að hann stóðst ekki storminn.

Hrannar Baldursson, 31.7.2008 kl. 15:56

13 Smámynd: 365

Í Kastljósinu í gær fengum við að sjá tvo aðila sem greinilega fara í taugarnar á hvor öðrum, gapuxar báðir og vaða áfram elginn eins og námuhestar, lélegt í alla staði, ég spyr, hvert er Kastljósið að fara, þeir hitna stólarnir, það er næsta víst.

365, 31.7.2008 kl. 16:15

14 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

´  

Ég sá viðtalið í Kastljósinu, og ég get ekki skilið að nokkur maður, hvort sem er stjórnmálamaður eða annar með snefil af sjálfsvirðingu getur lagt sig út fyrir að fara í viðtal við Helga Seljan. 

Ég fylgdist með "viðtalinu" til að heyra spurningar og svör við þeim.  Hinsvegar urðu spurningarnar að aðdróttunum með svívirðilegum framígrípingum.  Ég tel rétt að slíkir þættir eins og Kastljósið ættu að vera bannaðir börnum innan 18 ára.  Svona rétt til að gæta velsæmis í uppeldi og kennslu í samræðulistinni og kurteisisvenjum.

Helgi Seljan er ekkert annað en hreinræktaður dóni og óþverri.

Kveðja, Björn bóndi   LMN=

Sigurbjörn Friðriksson, 31.7.2008 kl. 16:26

15 Smámynd: Ómar Ingi

Mér fannst Helgi loksins vera starfi sínu vaxinn

Ómar Ingi, 31.7.2008 kl. 16:34

16 Smámynd: Árni Gunnarsson

Enn er mér fyrirmunað að skilja að spurning um belju sem átti að hafa heitið Kleópatra beri vott um virðingarverða forvitni!

Guðni leit á sig sem pólitíkus eftir upphaf þáttarins og var í hlutverki hins alvörugefna málsvara bændanna og styrkjakerfisins. Það hlutverk er viðkvæmt og engum öfundsvert. En auðvitað er Sverrir ekki maður sem tekinn er alvarlega. Ég er bara ekki viss um að Guðni þekki þessa "þjóðþekktu" persónu mikið og er það reyndar frekar til efs að svo sé. Og eiginlega finnst mér hann ekki setja ofan við það þó það upplýsist að hann fylgist lítið með menningarstarfi Sverris St. og hafa komið í þáttinn illa undirbúinn fyrir hans akademiska spjallvettvang.

En ég er ánægður með Helga Seljan og bíð nú með óþreyju eftir að hann taki Geir Haarde og Davíð til skrafs og ráðagerða með sömu- eða viðlíka vélbyssuskothríð og þeirri sem dundi á borgarstjóranum.

Þess verður varla langt að bíða-eða hvað?

Árni Gunnarsson, 31.7.2008 kl. 16:53

17 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ómar: Þér finnst líka Blade Runner og Dark Knight vera snilld.

Árni: Vita ekki allir að Sverrir Stormsker er léttgeggjaður tónlistarmaður með sorakjaft? Hann endurtekur spurningar af því að það hefur ákveðinn riþma, ekki til að ná í upplýsingar. Held ég. Guðni gerði þau mistök að taka sjálfan sig alltof hátíðlega í beinni útsendingu hjá stormskerinu. Það er eins og fara út í banka og óska eftir því að manni verði gefinn peningur.

Björn bóndi: Það er ljóst að Helga Seljan og Ólafi F. kom ekki vel saman, og að taktíkin var afar léleg hjá 'stjórnandanum', en Helgi Seljan er ekki dóni, hann virðist einfaldlega hafa verið yfir sig stressaður og bara ekki höndlað þetta.

Kannski fjöldi fólks hafi bara fengið sólsting í gær og því orðið heitt í hamsi. Ímyndið ykkur ef það væri reglulega rúmur 40 stiga hiti á götum Reykjavíkur. Allt yrði vitlaust!

Hrannar Baldursson, 31.7.2008 kl. 17:16

18 Smámynd: Ingólfur

Ég horfði á þetta og hélt satt að segja að ég væri að horfa á Spaugstofuna.

Ólafur byrjaði fljótlega á algjörri einræðu um allt annað mál í stað þess að svara spurningu Helga. Hann blaðraði í yfir mínútu þarna, sem er langur tími í svona viðtali, og það eina sem Helgi náði að stinga inn í var "Ólafur...   ...en Ólafur..."

Mér fannst það því ekkert skrítið að Helgi passaði vel upp á það, eftir að hann náði aftur stjórn á þættinum, að Ólafur fengi ekki að fara aftur út fyrir efnið.

Ingólfur, 31.7.2008 kl. 18:26

19 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Hrannar;  Þá getum við kannski verið "pínulítið" sammála.  Kannski ekki dóni, en óþverri þá.  O.K.

Kveðja, Björn bóndi  ïJð<

Sigurbjörn Friðriksson, 31.7.2008 kl. 19:21

20 Smámynd: Júlíus Valsson

Góður pistill hjá þér Hrannar de Breiðholt.

kveðja,

Julius frá Torfufelli

Júlíus Valsson, 31.7.2008 kl. 19:33

21 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég var að horfa á þetta viðtal fyrst núna við þennan ljósastaur sem er kallaður borgarstjórinn.

Hann hefði frekar átt að ræða við einhvern annan ljósastaur.

Theódór Norðkvist, 31.7.2008 kl. 20:15

22 Smámynd: Snorri Bergz

Hrannar: ég hef líka séð þér mörgum sinnum; óþarfi að leggja mikla vinnu í "rýni"; bara gera solid lista með 1-5 stjörnum. Sjá svo til hvort við séum sammála eða ósammála um einstakar myndir!

Kv

SGB

Snorri Bergz, 31.7.2008 kl. 21:18

23 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ingólfur: sitt sýnist hverjum

Björn bóndi: jú jú, pínulítið sammála er þó eitthvað

Júlíus frá Torfufelli: Takk. Flott nafn!

Theódór: Með ljósastaur meinarðu sjálfsagt að eftir þáttinn ertu meira upplýstur um borgarmálin?

Snorri: Gerum þetta. Ég get reyndar ekki byrjað alveg strax. Gef mér kannski smátíma yfir helgina. 

Hrannar Baldursson, 31.7.2008 kl. 21:56

24 Smámynd: Ómar Ingi

Sem segir allt sem segja þarf

Ég hef rétt fyrir mér og þú ert útí að aka

Shiiiiiiii

Ómar Ingi, 31.7.2008 kl. 22:47

25 Smámynd: Snorri Bergz

OK, skilafrestur c.a. þriðju-miðv? Hóumst á þá...

Snorri Bergz, 31.7.2008 kl. 22:54

26 Smámynd: Benna

Fannst Ólafur koma illa út úr þessu viðtali og skil Helga vel að grípa fram í fyrir honum enda Olafur vanur að halda bara ræður og leyfa engum spurningum að koma að...sjálfsagt út af otta við að svara heiðarlega og skömm yfir sinni hegðun og ákvarðanatökum.

Helgi stóð sig sem alvöru fréttamaður og leyfði borgarstjóra ekki að komast upp með þvælu og bull

Benna, 1.8.2008 kl. 00:31

27 identicon

"Ólafur F. hemur reiðina gegn harðri yfirheyrslu í Kastljósi" 

Hvaða taugaveiklun er þetta?  Er það "hörð yfirheyrsla" að spyrja um málefni líðandi stundar? 

Svavar (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 01:27

28 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Ég skil ekki hvernig þú getur fengið út þessa niðurstöðu. ÉG skoðaði þetta viðtal og gat ekki betur séð en að helgi Seljan hafi verið að spyrja krefjandi spurninga en Ólafur svaraði aldrei fyllilega. Mér finnst að ef politíkusar gefa ekki tæmandi svör á að sýna þeim harðneskju. Það gefur ákveðið fordæmi út í samfélagið og einnig þá kröfu til politíkusa að þeir þurfi að vera heiðanlegir og gegnheilir í svörum. Upp þann heiðanleika sárvantaði hjá Ólafi og því fanst mér rétt að taka hann á beinið.

Brynjar Jóhannsson, 1.8.2008 kl. 04:46

29 Smámynd: Hrannar Baldursson

Svavar: Engin taugaveiklun, en eins og framkoman var í þættinum, já.

Benna: Viðtalið var þvæla og bull, þar sem að Helgi sýndi ekki lágmarks virðingu gagnvart viðmælanda sínum. Þegar ekki er traust á milli þeirra sem ræða saman, kemur ekkert út úr samræðunni.

Brynjar: Skoðanir á hvort að þetta hafi verið viðeigandi taktík hlýtur á endanum að byggja á mati hvers og eins. Mér fannst rétt að taka á málunum af hörku, en fannst taktík Helga afar slök, enda kom ekkert út úr henni.

Hrannar Baldursson, 1.8.2008 kl. 06:04

30 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég átti við að Helgi hefði alveg eins getað tekið viðtal við ljósastaur eins og Ólaf F. Það eru meiri líkur á að hann hefði náð vitsmunasambandi við ljósastaur en Ólaf.

Jú, jú það var kveikt á ljósastaurnum í Kastljósinu en það hlýtur að hafa verið sett vitlaus pera í hann.

Theódór Norðkvist, 1.8.2008 kl. 09:51

31 identicon

Um hvað snerist þáttastjórnun Helga Seljan þegar hann fékk Ólaf F. í viðtal? Jú, hann ætlaði sér að fá uppúr honum að ástæða uppsagnar nefndarmanns byggði á annarlegum hvötum og meintu ráðríki Ólafs sem borgarstjóra. Ef menn skoða fyrstu mínútu viðtalsins sést að uppsögnin sé meginástæða þess að Ólafur var fenginn í þáttinn. Meðan borgarstjórinn reynir að svara og fara síðan með umræðuna á dreif grípur Helgi tíu sinnum frammí fyrir honum á fyrstu 2 mínútunum og endar á að segja við Ólaf að hann stjórni þættinum. Það skondna í þessu öllu er að Ólafur svarar spurningu Helga í kjölfarið þegar hann segir að nefndarmanni hafi verið sagt upp vegna þess að hún vildi ekki starfa samkvæmt stefnu sitjandi meirihluta og fylgja borgarstjóra að málum. "Hún vill ekki starfa með mér eða borgarstjórnarflokki F-listans að þessu máli heldur sitja þar á eigin forsendum" lætur borgarstjóri hafa eftir sér og í raun ætti það að vera fullgild skýring og svar við spurningu Helga. Ef Helgi myndi starfa sem sómakær fréttamaður myndi næsta skref hans felast í að láta svar Ólafs nægja að sinni og spyrja næst fyrrverandi nefndarmann hvort skýringar Ólafs stæðust. Kæmi eitthvað annað í ljós að því loknu væri Helgi kannski kominn með höggstað á Ólafi og gæti þar af leiðandi gengið á hann og krafist skýringa. En í stað þess að vera málefnanlegur, skýr og ákveðinn þáttastjórnandi kýs hann að grípa frammí 21x í viðtalinu og beita viðmælanda sinn yfirgangi. Eðlilega fer Ólafur í vörn og menn mega alveg hafa skoðanir á því hvort hann hafi verið við það að gráta eða ekki, það skiptir engu máli. Það sem skiptir máli er hvort við viljum að stjórnmálaumræða á Íslandi fari á það plan sem kom fram í Kastljós-þættinum. Viljum við ofsafengna fréttamenn í æsifréttaleit eða faglega umræðu um hvernig stjórnmálamenn eigi að vinna í þágu fólksins. Held að ég þurfi vart að taka fram á hvor leiðinni Helgi Seljan er...

Á einhvern ótrúelgan hátt túlkar hann svar Ólafs (um að nefndaraðilinn fyrrverandi hafi ekki viljað starfa með honum eða meirihlutanum áfram) á þann hátt að Ólafur sé "að gefa svo margt í skyn" að sem áhorfanda fannst mér dapurt að verða vitni að sjá á hvaða plan fréttaskýringaþættir eru komnir. Þessi túlkun Helga er eingöngu þref. Hann hjakkast í sama farinu eftir að hafa fengið svar við eigin spurningu. Hann er augljóslega ekki sáttur við svarið, vill fá annað svar sem myndi henta honum betur og ætlar ekki að gefa sig fyrr en Ólafur veitir honum það. Og hann hefur ekkert í höndunum sem gefur ástæðu til að ætla að Ólafur sé ekki að segja satt. Ég skal alveg viðurkenna að ég veit ekkert um sannsögli borgarstjóra í þessu máli en miðað við svör hans í þættinum hef ég enga ástæðu til að efast. Sem þáttastjórnandi var Helgi ekki búinn að afla sér neinna gagna sem gætu mögulega leyft áhorfendum að efast um orð borgarstjóra og hafi borgarstjóri óhreint mjöl í pokahorninu þá var hann alls ekki að fara gefa það upp undir slíkum kringumstæðum. Því má segja að hvort sem mönnum líkar betur eða verr, hvort sem þeim líkar vel við Helga eða Ólaf, þá sé mergurinn málsins sá að Ólafur gaf góða útskýringu á uppsögn nenfdarmannsins og Helgi kom illa undirbúinn til þáttarins; ætlaði sér að láta Ólaf vinna rannsóknarvinnu sína.

Nú heyrir maður oft það viðhorf að þáttastjórnendur eigi að ganga hart á stjórnmálamennina og fá ákveðin svör frá þeim, ekki að leyfa þeim að komast hjá því að svara og fá þá til að koma hreint fram. Nú má alveg benda á mýmörg dæmi þar sem stjórnmálamenn hafa komist upp með að segja ekki rétt frá og komist upp með það. En svona framkoma fréttamanns eins og Helgi Seljan sýndi er greinilega ekki til þess fallin að lyfta umræðunni á æðra plan. Fréttamenn þurfa að sýna af sér þokka og fagmennsku í stað þess að höfða til lægstu hvatanna. Hann sýndi af sér hálfgerðan barbarisma og þegar allt er á botninn hvolft spyr maður sig hvort hann hafi lært svona frammíköll og frekju á fréttamannanámi sínu?

Kristbjörn H. (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 15:43

32 Smámynd: Hrannar Baldursson

Kristbjörn: Eins og mælt frá mínu hjarta.

Theódór: Ekki vanmeta ljósastaura. Þeir geta verið ansi skýrir.

Hrannar Baldursson, 1.8.2008 kl. 16:09

33 Smámynd: Theódór Norðkvist

Mikið rétt, Ólafur F. Magnússon gefur fjölmiðlamönnum alltaf mjög skýr svör við spurningum sem hann er ekki spurður.

Theódór Norðkvist, 2.8.2008 kl. 21:51

34 Smámynd: Hrannar Baldursson

Theódór. Afsakaðu hvað ég svara þér seint. Ólafur F. svaraði spurningunum í þættinum, en á sömu nótum og aðrir pólitíkusar.

Ég hef á tilfinningunni að Ólafur F. sé að upplifa einelti af verstu gerð.

Hrannar Baldursson, 7.8.2008 kl. 09:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband