Hellislíkingin, heimspeki menntunar og það sem þú færð aldrei að vita nema þú leggir þig eftir því

Í gærmorgun lásum við hellislíkingu Platóns og ræddum út frá henni um eðli menntunar. Mikið var furðað sig yfir hversu erfitt það getur verið að koma mikilvægri þekkingu til skila eftir að við höfum lært hana, því að erfitt er að fá fólk til þess einfaldlega að hlusta og meðtaka eitthvað nýtt. Ný þekking getur nefnilega rutt sér leið inn í þægindasvæði viðkomandi og verið óþægileg, þar sem að þá þyrfti viðkomandi hugsanlega að endurmóta eigin hugmyndir um lífið og tilveruna.

Við í þessum litla hóp erum að upplifa slíka hluti. Síðustu fimmtán ár hef ég verið að kenna heimspeki í þessari sömu skólastofu tvær vikur á ári, og alltaf verða til samræður og hópar sem halda út í lífið með þekkingu sem erfitt er að öðlast hvar sem er.

Málið er að við ræðum um þau málefni sem okkur kemur til hugar, og reynum að kryfja málin til mergjar. Þar sem ég hef ágæta þekkingu á sögu hugmynda, og heimspeki er mér sérstaklega hugfangin, þá tekst yfirleitt að fá í gang samræður þar sem farið er í grundvallarspurningar.

Til dæmis þegar rætt er um almenn hugtak eins og vináttu, og teknir ólíkir vinklar á því, og spurt hvernig vinátta tengist fegurð, hinu góða, trausti, þekkingu, samræðum, virðingu, og jafnvel mótun samfélags og stjórnskipan, brjótast fram hugmyndir úr huga hvers og eins sem hafa síðan áhrif á misjafnlega mótaðar skoðanir einstaklinga í hópnum, sem hafa hugsanlega áður ekki hugsað um málið, hafa kannski spjallað aðeins um það, hafa lært um það frá kennurum eðal lesið í bókum, eða hafa hugsað um það sjálf - en ekkert jafnast á við að geta einbeitt sér að málum sem eru manni hugfangin með hópi af fólki sem hefur fullan vilja, áhuga og getu til að dýpka vitund og þekkingu um viðkomandi fyrirbæri.

Við höfum nú þegar einbeitt okkur að heimspeki og samræðum, vináttu og visku, samfélagi og einstaklingi, spillingu og heiðarleika, umburðarlyndi og skort á því, trúarbrögðum og trúleysi, muninum á að leita sannleikans og leita eftir skuggamyndum hans, við höfum hugsað um hugann og hvernig hann tengist skynjun, ímyndun, tilfinningum og hugsunum, og jafnvel velt fyrir okkur hvort að verðið á bensíni væri svona hátt ef Bill Gates væri forseti Bandaríkjanna. Þetta er ekki allt sem við höfum rætt. Ein aum færsla nær ekki yfir öll viðfangsefnin sem farið er í, hægt væri að skrifa heila bók út frá samræðum sérhvers dags.

Heimspekilegar spurningar virðast nefnilega ekki loka neinum möguleikum, heldur þegar einni hefur verið svarað, opnast tíu nýjar gáttir inn í víðáttur huga og þekkingar. Öfugt við þegar maður spyr hvað klukkan sé.

Annars er best að drífa sig í morgunmat, því kennslan byrjar eftir 35 mínútur. LoL


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vonandi verður þekking að undirrót þess að mannkynið allt öðlist þá visku sem þarf, til að lifa af.  Ég hef sérstakar áhyggjur af múslimum. 

Ólafur B. Jónsson (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband