Bloggfærslur mánaðarins, október 2021

Trú eða þekking?

Hvernig vitum við hvað af því sem við trúum er trú og hvað þekking?

Áður en þessu er svarað veltum aðeins fyrir okkur hvað hugtökin þýða. 

"Trú" er eitthvað sem við höldum að sé satt, að það miklu marki að við teljum okkur vita það fyrir víst, það er mögulega satt og mögulega ekki, en við höfum ekki sönnunargögn til staðar sem réttlæta það að þessi trú sé sönn, og þar af leiðandi þekking. Sama hversu sannfærð við erum um að eitthvað sé satt, gerir algjör sannfæring hlutinn ekki sannan.

"Þekking" er eitthvað sem vitum að er satt, en þessi þekking er réttlætanleg með sönnunargögnum sem eru til staðar fyrir þá grennslast fyrir um staðreyndir og rök að baki þekkingarinnar.Þekking hefur ekkert með sannfæringu að gera, heldur er sumt sem við einfaldlega vitum og getum síðan rökstutt út frá staðreyndum og rökum.

Það sem flækir þetta mál er að búin hafa verið til kerfi utan um þessi hugtök, trú og þekkingu, annað kerfið er kallað trúarbrögð og hitt vísindi.

Annað sem flækir málið er umfang trúar annars vegar og þekkingar hins vegar. Trúin hefur engin takmörk, getur náð yfir upptök alheimsins, eðli Guðs, grunnhvatir allra manneskja, og svo framvegis. Þekking nær hins vegar alls ekki svona langt, því hún þarf að byrja á einhverju sem við skynjum og getum sannreynt, sem passar inn í hugtakaheim okkar og er rökrétt. Þannig getum við rökstutt ýmislegt um upptök alheimsins, en getum ekki sannað það endanlega. Hins vegar má vel vera að við þekkjum lögmál sem gera okkur fært að gera okkur hugmynd um hvernig hlutirnir eru, en þessar hugmyndir eru kallaðar kenningar.

Trú krefst ekki sönnunar, það sem við trúum krefst einungis þess að einhverju sé trúað.

Þekking krefst sönnunar og hugtakakerfis, eins og til dæmis að vatn sé búið til úr vetni og súrefni. Það er reyndar auðvelt fyrir þann sem ekkert skynbragð hefur á efnafræði að efast um að þetta séu sannindi. Á sama hátt er ekkert mál fyrir vísindamanninn að efast um sannindi sem felast í trúarbrögðum.

Þeir sem eru trúaðir safnast í hóp og kallast söfnuður. Þeir sameinast í trú sinni og það er fátt eða ekkert sem getur vakið efasemdir hjá þeim.

Þeir sem hafa þekkingu eru annars konar, þeir safnast í hóp og kallast vísindamenn. Þeir sameinast í trú á lögmálum sem eiga við um svið þeirra fræðigreinar, og sannfæring þeirra er aldrei hundrað prósent örugg, það er alltaf rúm fyrir vafa, því það er sífellt hægt að læra meira um þennan heim.

Það er eins og þeir sem trúi, trúi að þeir hafi þekkingu, en þeir sem hafa þekkingu, trúi ekkert endilega að þeir hafi þekkingu.

Að sjálfsögðu eru þetta aðeins vangaveltur á föstudagskvöldi, og ég reyni ekki að sannfæra neinn um eitt eða neitt, heldur langaði mig einfaldlega að skoða betur þessar pælingar sem veltast um í mér. 

Þessi blogg eru ekki skrifuð fyrst og fremst til að fræða, heldur til að læra, til að hefja samræðu, til að spá í hlutina. Mér finnst gott að deila þessum pælingum, en þær eru alls ekki einhver endanlegur sannleikur. Þær eru hins vegar skref í löngum göngutúr míns eigin hugar.

 


Um gagnrýnið viðhorf

Gagnrýnið "viðhorf er altækt í tvennum skilningi: hvað sem er getur orðið viðfang þess og verkefnið er endalaus leit sanninda um heiminn og hugsun manna." - Páll Skúlason, Pælingar II

 

Fátt er mikilvægara meðal lýðræðisþegna en gagnrýnið viðhorf. Fátt er samt meira misskilið heldur en hugtakið 'gagnrýni'.

Gagnrýnið viðhorf og hugsun felst ekki í að rífa hugmyndir niður, skjóta á ríkjandi hugmyndir og kenningar, um að vera á móti einu og öllu, gerast efahyggjumaður andskotans.

Gagnrýnið viðhorf og hugsun snýst um að virða fyrir sér hugmyndir, taka ekki öllu sem sjálfsögðum hlut, sama hver heldur því fram, heldur velta fyrir sér og athuga aðeins betur hvort að það sem þú heyrir sé satt og rétt. 

Ef við tryðum öllu sem við heyrðum myndum við enda í heimi þar sem samsæriskenningar þættu sennilegri en sannleikurinn sjálfur. Kannski erum við reyndar hluti af slíkum heimi?

Það er mjög flókið að bæði hafa gagnrýnið viðhorf og halda góðum samskiptum og traustum samböndum við annað fólk. Til að mynda tengsl með öðru fólki er mikilvægt að hlusta á hvað það hefur að segja, og frekar en að efast um orð þeirra, að trúa þeim, nema í ljós komi að eitthvað sem þau hafa sagt sé ósatt. Þá má byrja að efast, og þá eru tengslin líkleg til að rofna. 

Vandinn er sá að ef við trúum öllu sem okkur er sagt, munu einhverjar ósannar hugmyndir laumast inn í þekkingargrunn okkar, sem verður síðan hluti af okkar skoðanaheimi, nema við séum því duglegri að rýna í okkar eigin hugmyndir og reyna að átta okkur á hvað af því sem við trúum er satt og hvað ósatt. 

Það er endalaus vinna að komast að slíku.

Þetta er ákveðin klemma. Hvað á fólk að gera þegar það hittir nýja manneskju?

Eigum við að trúa því sem manneskjan segir og eiga á hættu að það skekki heimsmynd okkar, eða eigum við að fara varlega í að trúa því sem aðrar manneskjur segja til að það skekki ekki heimsmynd okkar?

Málið er að við höfum aldrei fundið endanlegt svar við einu eða neinu, við erum alltaf leitandi, og þegar við finnum svör er alls ekki ólíklegt að nýjar spurningar spretti fram. Sá sem hefur öll svörin og veit allt betur en allir aðrir, er líklega sá sem minnst veit þegar upp er staðið, því sannri þekkingu fylgir auðmýkt og virðing gagnvart síbreytileika heimsins og eigin huga.

Hvað gerir þú? Trúirðu eða efastu þegar þú ræðir við fólk? Hvernig ferðu að því að vita að það sem þú trúir sé satt? Veistu það bara af sjálfu sér? Síast inn fordómar? Ef þú hefur einhverja fordóma, veistu þá af þeim, eða fela þeir sig í huga þínum, fyrir þér?


Hvað þýðir að vera heimspekilegur?

"Afstaða heimspekinga er stundum talin bera vott um óraunsæi á vandamál og verkefni daglegs lífs. Samkvæmt almannarómi eru þeir með hugann bundinn við fjarlæga eða fjarstæða hluti, stundum skýjaglópar eða draumóramenn, stundum óskaplegir orðhenglar sem þvæla fólki fram og aftur í umræðu sem enginn botn fæst í. Eina vopna þeirra gagnvart veruleikanum er að taka því sem að höndum ber 'með heimspekilegri ró'. - Páll Skúlason, Pælingar II

 

Þegar við förum að velta fyrir okkur hinstu rökum, spyrjast fyrir um af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru, reyna að átta okkar á heildarmynd, og þegar við leitum þessara svara á einlægan hátt, þá gætum við virst vera með hugann í öðrum heimi. 

Þó getur pælingin verið ósköp einföld. Við trúum einhverju og spyrjum sjálf okkur af hverju við trúum því og síðan hvort að þessi trú sé þekking. Sum okkar eru þannig gerð að okkur finnst þessar pælingar ekki bara áhugaverðar, heldur nauðsynlegar til að við áttum okkur á veruleikanum, stærri sannleika en þeim sem við lifum og hrærumst í dags daglega. 

Það gerist nefnilega hjá okkur öllum að við ræktum með okkur einhverjar ranghugmyndir, þær læðast inn í hugarfylgsni okkar þegar við gætum ekki að okkur, og að sjálfsögðu er útilokað fyrir manneskju að gæta alltaf að sér. 

Við rekum okkur á að heimurinn er kannski ekki alveg eins og við héldum eða vildum að hann væri, og veltum þá kannski fyrir okkur hvort að heimurinn eins og hann var hafi verið eitthvað öðruvísi, eða var það bara hvernig við sáum hann þá og sjáum hann núna? Sumir ríghalda í sína gömlu heimsmynd með þrjósku að vopni. Það getur verið heillandi að fylgjast með slíkum manneskjum, sem reyna að ríghalda í stillimynd af heimi sem er stöðugt breytingum háður.

Heimspekingurinn notar tungumálið bakvið tungumálið til að skilja heiminn, hann reynir að átta sig á hugtökum og röklegum tengslum þeirra og hvernig þau tengjast svo skynjun okkar á staðreyndum í veruleikanum. Það flækir svolítið dæmið að við sjáum heiminn út frá ólíkum forsendum, við höfum ólíka upplifun af lífinu, sem er háð því við hvaða aðstæður við ólumst upp og lifum við í dag, áföll sem við höfum upplifað, hvar í heiminum við búum.

Getum við áttað okkur á, gegnum samræðu og rökhugsun, hvernig heimurinn er í raun og veru, óháð því hvaðan við erum, hvar við búum og hvernig líf okkar hefur verið? Væri slíkur heimur raunverulegur eða bara eitthvað fjarlægt kerfi í huga okkar, eitthvað eins og hinn fullkomni hringur, nokkuð sem virðist ekki vera til annars staðar en í hugum okkar?

Það er hægt að átta sig á hvernig við leggjum mat á veruleikann. Við sköpum kerfi í kringum það sem við teljum að sé gott eða illt, rétt eða rangt, fagurt eða ljótt, þekking eða trú, satt eða ósatt, og þar fram eftir götunum; og til að vera samkvæm sjálfum okkur og heil, þurfum við að velta þessu fyrir okkur af dýpt.

Það krefst þess að við getum hugsað vel, að við föllum ekki auðveldlega fyrir rökvillum, að við látum ekki sannfæringu annarra eða okkar sjálfra villa okkur sýn. Það að við sjáum skýrt og greinilega hvernig heimurinn er, greinum sannindi frá ósannindum, það er nefnilega meira en að segja það, sérstaklega þegar fólk ákveður að ríghalda í ósannindi eins og gamla stillimynd. Jafnvel sannleikurinn sjálfur getur átt erfitt með að skína gegn um slík ósannindi. 

Sumir halda ennþá að heimurinn sé flatur, og aðrir að hann sé hnöttóttur, á meðan veruleikinn fer kannski meira eftir að átta sig á að þarna eru ólík og takmörkuð sjónarhorn að takast á. Sjónarhorn vísinda og raka gefa aðra mynd.

Og svo finnst sumum sannleikurinn ekki skipta neinu máli. Að það sé allt í lagi að halda einhverju röngu fram, að eina nauðsynlega réttlætingin á slíku sé að segja slíkt vera skoðun manns, og það sé nóg. Það er að sjálfsögðu ekki nóg til að fá rétta mynd af heiminum, það er hins vegar nóg til að fá skakka mynd af heiminum sem gæti verið skemmtilegt að virða fyrir sér þó að þessi heimur viðkomandi verði frekar bjagaður og á veikum grunni reistur. 

Þeir sem velja að byggja skoðanir sínar á rökum, skynsemi og staðreyndum, það eru heimspekingar. Satt best að segja er slíkt fólk mun nær veruleikanum en þeir sem velta þessum hlutum ekki fyrir sér; en þá vaknar spurningin um hvað veruleikinn sé.

Skynjum við veruleikann betur með upplifun okkar, tilfinningum, sársauka og innsæi; eða með huganum, rökhugsun og samræðum? Ég held að svarið við þessari spurningu sé að einhverju leyti bæði, en samt tel ég að hugurinn þurfi að vera skipstjórinn á þessum báti sem líf okkar er, siglandi gegnum haf veruleikans, stundum í ólgusjó, stundum á sléttum spegli.

 


Hugmynd um heimspeki

"Einn hefðbundinn skilningur á heimspeki er sá að hún sé endalaus leit þekkingar og skilnings á heiminum. Annar hefðbundinn skilningur er sá að hún sé heild eða kerfi allrar öruggar þekkingar á veruleikanum, vísindi allra vísinda. Hinn þriðji hefðbundni skilningur á heimspeki er sá að hún sé fræðigrein um hinstu rök og ástæður hlutanna, hún sé altækust allra fræða því að hún fjalli um undirstöðuatriði í skilningi okkar á veruleikanum." - Páll Skúlason, Pælingar II

 

Mig langar að grípa þessar pælingar Páls á lofti og velta aðeins vöngum yfir þeim. Vonandni finnst gjafmild heimspeki í slíkum vangaveltum. 

 

Leit þekkingar og skilnings á heiminum

Í þessari hugmynd felst heimspekin í manneskju sem leitar sannleikans, en þekking og skilningur á heiminum er ekkert annað en sannleikurinn. Þessi manneskja er oft kölluð heimspekingur eða heimspekileg, enda er það hegðun hennar og hugsun sem skilgreinir hana. Hún fær ákveðin verkfæri í þessa ævintýralegu leit, sem eru skynfæri hennar, rökhugsun og dómgreind. Takist henni að beita þessum verkfærum vel, er hún líklegri til að nálgast sannleikann heldur en með nokkrum öðrum verkfærum sem við þekkjum, eins og skoðunum, trú, innsæi og tilfinningum. Samt gæti verið áhugavert fyrir manneskjur sem stunda sömu leit en með ólíkum verkfærum að ræða saman og átta sig á hvað hvert og eitt okkar hefur fundið á lífsleiðinni, hvert leitin hefur leitt okkur.

 

Heild eða kerfi allrar öruggar þekkingar á veruleikanum

Þetta er frekar vandasöm hugmynd, þar sem stóra spurningin er hvort örugg þekking sé yfir höfuð möguleg. Við getum leitað að öruggri þekkingu bæði í stóru og smáu samhengi og áttað okkur á að hugsanlega sé enginn munur á öruggri þekkingu og trú. Reyndar er þar mikill munur, því trú getur byggt á nánast hvaða forsendu sem er, á meðan örugg þekking þarf að byggja á rökum sem hægt er að réttlæta með sönnunargögnum. Við getum vitað af öryggi að jörðin snýst um sólina, rétt eins og Bubbi, en getum við vitað hvað það þýðir, hvað jörðin og sólin eru bæði í hinu smáa samhengi einstaklingsins og stóra samhengi himintunglanna? Getum við skilið þetta samband af slíkum hreinleika að við byrjum ekki að skálda eitthvað til að átta okkur betur á hlutunum, og að okkar eigin skáldskapur villi okkur sýn? Er nóg að sjá samhengið með skýrum rökum, eða þurfum við að bæta einhverju kjöti á beinin?

 

Fræðigrein um hinstu rök og ástæður hlutanna

Þetta er í raun sú hugsun sem við heyrum stöðugt hjá börnum, oft áður en þau byrja í skóla og eru að velta fyrir sér öllu mögulegu í heiminum. Stundum reynum við að útskýra hlutina fyrir barni, sem jafnvel skilur ekki öll orðin sem við notum, hvað þá heiminn, og getur þá lítið annað gert en að beita því öfluga vopni sem undrunin er, og spyrja í sífellu: "Af hverju?" Það að spyrja af hverju við hverju svari er góð leið til að kafa djúpar í meiningu þess sem heldur einhverju fram. Það getur verið pirrandi að vera á hinum enda 'af-hverju-spurninga', en ef þú gerir þitt besta til að svara, þá muntu á endanum átta þig betur á eigin takmörkunum og skilningi, þú getur átt von á að uppgötva að þú vitir og skiljir ekki hlutina jafn vel og þú hélst. Og það eitt gefur þér aukna dýpt og þekkingu á þér og veruleikanum.


Dýrmætasta sameign Íslendinga?

"Oft er sagt að tungumálið sé dýrmætasta sameiginlega eign okkar Íslendinga. Önnur dýrmæt sameign eru hugmyndir og skoðanir á lífinu og tilverunni, sjálfum okkur og heiminum." (Páll Skúlason, Pælingar II, 1989)

 

Mig langar að pæla aðeins. Hugmyndin er alls ekki að svara þeim spurningum sem ég spyr, heldur hvetja þá sem lesa til að velta þessu líka fyrir sér, og gaman væri að sjá í athugasemdum hvort einhver hafi svör við einhverjum af þeim spurningum sem ég spyr. Það er örugglega einn og einn lesandi sem hefur gaman af þessu, jafngaman og ég hef af því að velta þessu lauslega fyrir mér, eins og litlum steini á þúfu og skoða aðeins hvað felst undir honum.

Tungumálið

Það er nokkuð augljóst að íslenska málið er eitt af okkar dýrmætustu sameignum, þó að málið virðist eiga mikið undir högg að sækja undanfarið, þar sem erfitt er að finna þann veitingastað eða hótel þar sem hægt er að bjarga sér á íslensku einni saman, innanlands. Þar sem íslenska tungan, augljósasta sameign okkar, kannski fyrir utan óveiddan fiskinn í sjónum stafar greinilega ógn af enskunni, væri kannski áhugavert að líta aðeins á þá hluti sem eru ekki jafn óþreifanlegir.

Hinn óveiddi fiskur í sjónum

Ólíkt Norðmönnum mega Íslendingar ekki leita sér eftir sjávarfangi á skipulagðan hátt nema eiga kvóta fyrir honum. Hvort við höfum leigt eða selt þessa sameign fáeinum einstaklingum veit ég ekki, en umræðan virkar frekar skrítin. Einhver sagði einhvern tíma að þjóðin gæti ekki átt neitt þar sem hún hefur ekki kennitölu fyrirtækis eða einstaklings. Hvernig ætli málum sé farið í dag? Má ég kaupa mér trillu eða togara og fara út á sjó og veiða í íslenskri lögsögu? Má ég það ef ég sel ekki aflann, nota hann bara sjálfur?

Hugmyndir og skoðanir um lífið og tilveruna

Skoðanir Íslendinga um lífið og tilveruna eru allskonar, en samt öðruvísi en annarra þjóða. Okkur virðist frekar annt um að hlusta á rök og vísindi, við stefnum að jöfnuði að því er virðist óháð stjórnmálaflokki, við höfum ekki mikinn áhuga á stéttaskiptingu og viljum geta verið stolt yfir afrekum okkar í sameiningu. Við elskum það þegar strákarnir og stelpurnar okkar gera góða hluti á alþjóðlegum vettvangi og nærumst mikið á sameiginlegum sigrum. Einnig stöndum við þétt saman þegar við töpum. Er þetta nærri lagi? 

Hugmyndir og skoðanir um sjálf okkur

Hvert og eitt okkar hefur rétt til að hugsa sjálfstætt. Við megum trúa því sem við viljum, hvort sem það er byggt á trúarbrögðum eða vísindum. Hins vegar viljum við helst ekki að trúarbrögð og vísindi stangist á, því sagan hefur sýnt okkur að á endanum verða vísindin yfirleitt ofan á, sama hversu mikil þrjóska og einurð stendur á bakvið kreddur og hindurvitni. Við teljum flest okkar gott að vera sjálfstæð, finnst réttlátt að kynin séu jöfn, finnst að börn okkar eigi að fá menntun og að fullorðnir eigi að fá tækifæri til að fóta sig hvar svo sem þeir eru staddir félagslega. Við getum verið gríðarlega eigingjörn, og við getum líka haldið af ofstæki með félagsliði, stjórnmálaflokki eða trúfélagi, en á endanum erum við flest til að vega og meta hvar við stöndum út frá skynsamlegum rökum frekar en hreinni tilfinningu. Er þetta nærri lagi?

Hugmyndir og skoðanir um heiminn

Hvernig ætli Íslendingar líti á heiminn? Sjáum við hann útfrá árstíðum okkar, útfrá því hvað sumarið á Íslandi er bjart, hlýtt (stundum) og skemmtilegt, en veturinn myrkur, kaldur og drungalegur? Hefur það áhrif á hvernig við metum hvert annað og mannlíf á Jörðu? Hefur það hvað við erum fámenn áhrif á hvernig við sjáum heiminn? Hefur aðgengi okkar að hreinu vatni og lofti áhrif á hvernig við skynjum og skiljum heiminn? Hefur aðgengi okkar að heimsfréttum, samfélagsmiðlum, Internetinu, sjónvarpsefni og tölvuleikjum einhver áhrif á hvernig við sjáum og skiljum heiminn? Erum við önnur þjóð í dag heldur en fyrir hundrað árum? Erum við önnur þjóð í dag en fyrir þúsund árum? Hvernig verðum við eftir hundrað eða þúsund ár, ennþá sama þjóðin, með sameiginlega sýn á heiminum? Eða breytumst við einfaldlega út frá tíðarandanum og náttúrunni og heimsmynd okkar með?

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband