Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Er MJ að slá í gegn aftur?

michael-jackson

Ég man þegar "Thriller" kom út og fór með bróður mínum í Bræðurna Ormson þar sem auglýst var að hið stórmerkilega myndband við "Thriller" yrði frumsýnt. Það var frumsýnt og endursýnt, og svo endursýnt margoft. Vincent Price fór laglega með draugalínur upphafslínurn og lokaði laginu skemmtilega. Þarna fékk maður að sjá MJ umbreytast í uppvakning, með bestu mögulegu tæknibrellum, í leikstjórn John Landis sem hafði gert "American Werewolf in London", mynd sem var mikið talað um en ég mátti ekki sjá vegna aldurs. Þetta var dagurinn sem ég uppgötvaði Michael Jackson. Hann uppgötvaði hins vegar aldrei mig. Þetta varð til þess að ég keypti vínilplötuna Big, átti uppáhaldslag með MJ og Paul McCartney, "Say say say," og keypti mér meira að segja geisladiskana HisStory þegar þeir komu út, og síðan DVD diskana síðar. Hann náði til mín, og það er ekki auðvelt að ná sambandi við mig. Trúðu mér.

12 árum síðar var ég staddur í Bandaríkjunum þar sem fólk kepptist um að tala illa um Michael Jackson og mikið notað af orðum eins og 'monster' og 'freak'. Ég botnaði ekkert í kananum. Það var sagt að MJ væri skrímsli sem misnotaði börn. Slíkar ásakanir voru auðveldar fyrir fólk sem girnist ekkert annað en peninga, enda lék MJ sér mikið með börnum. Hvort sem hann var sekur eða ekki, þá voru ásakanirnar óumflýjanlegar. 

Hann var ekki aðeins kallaður skrímsli vegna vináttu sinnar við börn, heldur vegna útlitsins og útlitið skiptir því miður afar miklu máli í heimi þar sem efnið er andanum æðra, en hann var þegar orðinn afmyndaður í framan vegna mikilla lýtaaðgerða. Reyndar held ég að pepsíslysið sem hann lenti í þar sem hár hans og andlit brenndust illa, hafi hugsanlega neytt hann í slíkar aðgerðir, einfaldlega til að hann gæti mögulega haldið áfram að vinna, og þar sem þær hafi misheppnast, hafi hann reynt sitt ýtrasta til að komast í lag og farið í ótal aðgerðir, lamið þannig hausnum við sama vegginn endalaust, og með sömu útkomu og eftir að hafa lamið hausnum endalaust í vegg. En allt kom fyrir ekki.

Í dag sér maður fullt af krökkum hérna í Noregi taka Moonwalk dans og raula lagstúfa úr MJ lögum, og ekki má gleyma að heimildarmynd um hann er að slá virkilega í gegn og fær dúndurdóma, eins og lesa má í gagnrýni Roger Ebert, sem ég hef þýtt hér.

Ég er ekki mikill aðdáandi Michael Jackson, en finnst tónlistin hans frábær. "This Is It" virðist vera öflugur minnisvarði reistur þessari stjörnu, minnisvarði sem virðist sýna hann í öðru ljósi en maður reiknaði með. Kvikmyndinni er leikstýrt af Kenny Ortega, þeim sem gerði Zac Efron að stórstjörnu  með "High School Musical" þríleiknum (hann verður líklega enn stærra nafn eftir "Me and Orson Welles" sem kemur fljótlega í bíó).

Það er enginn ákveðinn tilgangur með þessari bloggfærslu. Ég varð einfaldlega að hrífast með straumnum sem gengur í Moonwalk bylgjum af slíkri nákvæmni að maður getur varla staðið kyrr.


Hvað er að þessari mynd?


Finndu fimm mistök


mbl.is Ágreiningur í skattamálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velur þú frekar það sem er skemmtilegt en venjulegt?

Skondið myndband um píanótröppur þar sem sýnt er fram á að skemmtigildið hefur áhrif á notkun einföldustu hluta, eins og stiga eða rúllustiga. Þetta vekur nokkrar spurningar.

  1. Höfum við meiri tilhneigingu til að kjósa stjórnmálamenn sem þykja skemmtilegir en venjulegir?
  2. Kjósum við að sama skapi frekar myndarlegt fólk en ófrítt?
  3. Væri heimurinn betri ef alltaf væri gaman?


Unnið að endurreisn mannorðs Íslendinga erlendis: Vann borðaverðlaun á Noregsmeistaramóti Skákfélaga 2009

spillelokale-300x225

Ég átti unaðslega helgi. Sat að tafli alla helgina. Tefldi sex kappskákir á þremur dögum, sem sumum þykir svolítið of mikið af hinu góða, en mér finnst ágætt.

Fyrir um tveimur mánuðum síðan gekk ég í Taflfélag Osló, OSS, og hef teflt hjá þeim í tveimur atskákmótum þar sem ég var þriðji í bæði skiptin, og einnig hef ég verið að tefla í meistaramóti félagsins, gengið hörmulega, með 1.5 vinning eftir fimm umferðir. Ég kenni flensunni um slaka einbeitingu í öllum jafnteflisskákunum, en síðustu tapaði ég af tómum klaufaskap.

moen-225x300
Formaður taflfélags Osló, Ole Christian Moen

Þrátt fyrir slakan árangur í meistaramótinu fékk ég tækifæri til að tefla með b-liði félagsins, enda virðist alltaf vanta liðsmenn sem eru sífellt áfjáðir í að tefla. Þannig er ég. Þegar John Kristian Johnsen liðstjóri spurði mig hvað ég vildi tefla margar, sagðist ég tilbúinn að tefla allar, enda veit ég að fyrir liðstjóra er ekkert verðmætara en að hafa liðsmann sem er til í að leggja sig allan fram. Hann var frekar hissa, en sagði svo að Íslendingar væru bara svona helvíti harðir, alltaf tilbúnir að leggja sig 110% fram. :)

Ég náði góðri einbeitingu allt mótið og tefldi þrjár skákir sem ég var ánægður með, en þrjár aðrar svolítið gallaðar.

baldursson-300x225
Tek við borðaverðlaunum af skipuleggjanda mótsins Torstein Bae fyrir besta árangur varamanns.

Sem varamaður tefldi ég alltaf á 4. borði og andstæðingar því ekkert endilega alltaf súpersterkir, en þeir voru samt flestir vel með á nótunum. Ég fékk 5.5 vinninga af 6 mögulegum, en var heppinn í jafnteflisskákinni, þó að hún hefði getað snúist mér í vil á endasprettinum. Til samanburðar fékk besti keppandi á fjórða borði 4 vinninga af 6. Andstæðingar mínir voru að styrkleika 1200-2000 norsk stig, en ég lenti í mestum vandræðum með 1600 stiga ungling. Hans mistök voru að berjast fyrir að ná jafntefli gegn þessum hættulega Íslendingi, og reyna ekki að vinna auðunna stöðu. Miðað við stöðuna á borðinu hefði hann unnið skákina hefði hann verið aðeins sterkari, hann sá einfaldlega aldrei leikina sem hefðu veitt mér náðarhöggið, en ég var í þeirri óþægilegu stöðu að sjá þá og vonast til að hann léki þeim ekki. 

asker09-300x225
Sigurvegararnir (frá vinstri): Berge Østenstad, Jonathan Tisdall, Carl Fredrik Ekeberg, Nils Grotnes og Jøran Aulin-Jansson.

Þetta var stórskemmtilegt mót. A-sveit Asker sigraði á mótinu með 18.5 vinninga af 24 mögulegum, en þetta mót er svolítið öðruvísi en heima. Noregur er að miklu leyti eins og Ísland var fyrir um 10 árum síðan, áður en útrásin byrjaði og ekkert lið er með liðum á Íslandsmóti skákfélaga án þess að kaupa sér liðsauka frá útlöndum. Norðmenn gera ekki slíkt, heldur eru allar sveitir fullar af félagsmönnum sem hafa viðkomandi félag sem aðalfélag.

Lið Asker skipuðu stórmeistararnir Berge Østenstad og Jonathan Tisdall, alþjóðlegi meistarinn Bjarke Sahl, sem og FIDE meistararnir Carl Fredrik Ekeberg, Nils Grotnes og Jøran Aulin-Jansson.

Lið Taflfélags Osló lenti í 2. sæti með 17.5 vinninga. Það vantaði herslumuninn upp á til að sigra á mótinu, en liðmenn voru að mínu mati ekki nógu samstilltir. Sumir af sterkustu mönnum félagsins voru ekki tilbúnir að bjóða fram krafta sína í allar umferðir, sem ég held að sé veikleikamerki. Þar að auki eru tveir sterkustu keppendur félagsins að tefla á Evrópumeistaramóti landsliða, stórmeistararnir Jon Ludvig Hammer og Leif Erlend Johannessen, en fjarvera þeirra gaf mér hins vegar tækifæri til að komast inn á sem varamaður b-sveitar. Eftir mótið sagði formaður félagsins, Ole Christian Moen, að ég væri kominn á lista yfir kandídata í a-sveitina eftir þennan árangur, og get því státað af að vera á topp 20 lista sterkasta taflfélags Noregs í augnablikinu. Ég er svolítið stoltur af sjálfum mér í augnablikinu. :)

sc3b8lv-300x225
A-sveit OSS (frá vinstri): Emanuel Berg, Daniel Kovachev, Andreas Moen og Ørnulf Stubberud. Einnig tefldu Atle Grønn, Kristian Trygstad og Nicolai Getz fyrir liðið en þeir mættu ekki á verðlaunaafhendinguna.

Við verðlaunaafhendinguna var skemmtileg stemmning, en það voru veitt mörg aukaverðlaun: borðaverðlaun, besti árangur sveitar undir 1200, 1600 og 2000. Besta barna- og unglingasveitin.

Hægt er að lesa góða yfirlitsgrein um mótið hér á norsku, en þarna fann ég myndir og nöfn keppenda. 

Ég stefni á að skrifa um mótin sem ég tefli á, hvort sem um hraðskákmót, atskákmót eða kappskákmót er að ræða, og sama hversu vel eða illa mér gengur, aðallega til að skrásetja minninguna. 


Hvað er Scope Driven Management?

 

Kannastu við að hafa byrjað á verkefni eða jafnvel skipulegt rekstur vandlega, en komist svo að því að ákvarðanir eru ekki viðeigandi fyrir markmið eða kröfur, hugsanlega vegna forsendubreytinga?

Scope Driven Management er aðferðarfræði sem á margt líkt með gagnrýnni hugsun, en henni hefur verið fundinn farvegur með hugbúnaðarkerfinu Scope Map og Scope Atlas. Þetta er myndrænt kerfi sem hjálpar skipuleggjanda eða stjórnanda að skilja samhengið á milli markmiða, krafna, lausna og afurða, sem getur reynst sérstaklega gagnlegt þegar um flókin ferli er að ræða.

Þessi hugmyndafræði er sérstaklega ætluð stofnunum og fyrirtækjum, en einstaklingar geta líka notfært sér þetta til að skipuleggja sig, allt frá smáum verkefnum eins og mataruppskrift til risastórra eins og rannsóknum á viðskiptatengslum, en um leið og maður fyllir inn í eyðurnar um það sem maður þarf að gera til að uppfylla ákveðin markmið, verður til gagnagrunnur sem síðan er hægt að nota til að ýta verkefnum áfram og klára þau með góðri forgangsröðun.

Ég hef ákveðið að fara í samvinnu með Ambitiongroup fyrirtækinu sem hefur þróað þessa hugmyndafræði og hugbúnað í fimmtán ár, og reynst hefur afar vel víða um heim til að auka nýtingu fyrirtækja og finna ný tækifæri í rekstri. Þetta fyrirtæki er í afar hröðum vexti, sérstaklega vegna þess hversu vel hefur gengið með verkefni og rekstur sem sett hafa verið upp í kerfið.

Ég er sérstaklega spenntur fyrir þessari aðferðarfræði þar sem að hún getur gert verkefni og rekstur gagnsæjan fyrir alla þá sem að honum koma. Nokkuð sem gæti verið gagnlegt fyrir ríkisstjórn, opinberar stofnanir og fyrirtæki á tímum þar sem sífellt er krafist meira gagnsæis, en ég tel Scope Driven Management vera flotta leið til að átta sig á hvernig málin standa í raun og veru, og gera svo eitthvað í því.

Sem kennari sé ég strax hvernig hægt væri að nota hugbúnaðinn í skólastofu með skjávarpa og gagnvirkni töflu. Hægt væri að setja áhugaverðar pælingar upp í ScopeMap og rannsaka með nemendum.

Hafirðu áhuga á nánari upplýsingum, hafðu þá samband við mig í hrannar@scopemap.com

Þú getur sótt þér afrit af hugbúnaðinum hérna og prófað hann í 30 daga, bæði á Mac og PC, en það er erfitt að átta sig á gagnsemi hans án handleiðslu.


Hver hefur samúð með Roman Polanski?


Roman Polanski, 2005

Roman Polanski hefur verið eftirlýstur af bandarískum dómstólum í marga áratugi. Hann var ákærður fyrir að nauðga stúlku árið 1977. Fórnarlambið hefur margoft sagt að hún vilji ekki að Polanski verði ákærður, og hefur beinlínis óskað eftir því að fallið verði frá kæru til að hlífa henni og fjölskyldu hennar frá upprifjun þessara afar sorglega atburðar.

Til samanburðar byrjuðu Elvis Presley og Priscilla Presley rómantískt samband árið 1959 þegar hún var aðeins 14 ára, og þau giftust svo sjö árum síðar, og Jerry Lee Lewis giftist 13 ára frænku sinni árið 1958, en það var löglegt í þeirra ríki. Polanski var og er mikill Elvis aðdáandi, og spurning hvort að hinn aðflutti Pólverji hafi talið að kynlíf með stúlkum undir 18 ára aldri væri í lagi, þar sem allir virtust vera að gera það hvort eð er.

Nú vil ég alls ekki gera lítið úr broti Polanski gagnvart stúlkunni, en það sem virðist hafa gerst var þetta. Roman Polanski, 44 ára gamall, var gestaritstjóri Vogue, og fékk hina 13 ára gömlu Samantha Gailey í ljósmyndatöku á heimili Jack Nickolson, á meðan Nickolson var fjarverandi. Meðan á tökunni stóð gaf Polanski stúlkunni áfengi og fíkniefni, og samkvæmt frásögn hennar neyddi hann hana til samræðis, þar sem hún þrábað hann um að hætta, en hann sinnti ekki þeirri beiðni hennar. Þó að Polanski hafi sagt að henni hafi líkað leikurinn, þá réttlætir það ekki neitt af því sem hann gerði.

roman
Polanski við réttarhöldin 1977

Polanski var ákærður fyrir sex atriði, meðal annars tengt áfengi og fíkniefnum, en fimm atriði voru felld niður á móti því að hann viðurkenndi sekt sína á nauðgun, sem hann gerði. Í stað þess að taka út dóm sinn flúði Polanski Bandaríkin og hefur verið eftirlýstur síðan. Kynferðisbrotaglæpir fyrnast ekki í Bandaríkjunum. Nú hefur Polanski verið handsamaður í Sviss og verður framseldur til Bandaríkjanna innan skamms, þar sem réttað verður aftur yfir honum og hann sjálfsagt dæmdur í fangelsi fyrir glæpinn sem hann framdi fyrir 32 árum síðan.

Mér finnst áhugavert af hversu mikilli hörku "réttlætið" sækir gegn Polanski, og hefur að engu óskir fórnarlambsins um að fella málið niður af mannúðarástæðum, bæði gagnvart henni og fjölskyldu hennar, sem og gagnvart Polanski, enda hafa þau fyrir löngu síðan gert upp þetta mál sín á milli. En rétt skal vera rétt, eins og skriðdreki sem ryðst áfram, öðrum glæpamönnum og nauðgunum til viðvörunar. Enginn sleppur í gegnum kerfið, sama hversu ríkir þeir eru, sama hvað þeir hafa gert af sér. Viðkomandi skal refsað til að gera úr honum fordæmi, ekki til að bæta hann sem manneskju, eða loka málinu fórnarlambsins vegna, heldur fyrst og fremst, og í raun eingöngu, kerfisins vegna. Kerfið fær sitt.


Polanski leikstýrir Mia Farrow 1967.

Ég hef enga samúð með Polanski vegna þessa glæps, en hann fær hins vegar samúð mína fyrir það hvernig mannkynið hefur komið fram við hann. Það er algjört aukaatriði að Polanski sé heimsfrægur kvikmyndaleikstjóri sem gert hefur fjölmargar frábærar kvikmyndir, hins vegar skiptir það meira máli hvað hann hefur þurft að greiða fyrir þá dýpt sem frásagnarlist hans hefur yfir að búa.

Polanski fæddist árið 1933 í Póllandi. Þegar hann var sex ára gamall réðust nasistar inn í Pólland. Hann, ásamt foreldrum sínum var hann einangraður í gettói Krakow ásamt þúsundum gyðingum borgarinnar. Hvorki hann né foreldrar hans voru gyðingar, en það var aukaatriði fyrir nasistana. Fjölskyldan var aðskilin. Faðir hans lifði af þrælkunarbúðir nasista í Mauthausen-Gusen, Austurríki, en móðir hans var myrt í Auschwitz útrýmingarbúðunum. Polanski sjálfum hafði tekist að flýja úr gettóinu árið 1943, þegar hann var tíu ára gamall, og lifði af stríðið með aðstoð kaþólskra fjölskyldna. Hann sýnir þessar aðstæður æsku sinnar í kvikmyndinni The Pianist.


Úr "The Pianist"

Eftir misheppnað fyrsta hjónaband kynntist Roman Polanski leikkonunni Sharon Tate og giftist henni árið 1968, þá orðinn frægur kvikmyndaleikstjóri. Þau voru afar hamingjusamlega gift, Tate komin átta og hálfan mánuð á leið, þegar hópur sem fylgdi trúboði fjöldamorðingjans Charles Manson myrti hana. Polanski var niðurbrotinn maður eftir þetta, flutti til Evrópu og skyldi allar eigur sínar eftir í Bandaríkjunum. Hann lét hafa eftir sér að við þennan atburð hafi hann tapað allri trú á eitthvað gott í heiminum og fór að trúa að heimurinn væri einfaldlega fáránlegur. Vonir hans og bjartsýni umturnuðust í djúpa bölsýni og ósætti við lífið og tilveruna. Sannleikurinn er hins vegar sá að Polanski var Tate ótrúr á þessu eina hamingjusama ári sem þau voru gift, en þetta kom fram í réttarhöldum árið 2005 í Bretlandi.

roman_polanski_wanted_and_desired_movie_image__3_
Roman Polanski og Sharon Tate

Polanski hélt áfram að gera bíómyndir, snéri aftur til Bandaríkjanna, og flúði þegar hann sat uppi með ákæru um nauðgun.

Eftir situr siðferðileg spurning: er réttlætanlegt að halda ákærunni gegn Polanski til streitu, og fá hann framseldan til Bandaríkjanna til að horfast í augu við glæp sinn. Án umhugsunar gæti maður freistast til að hugsa: þessi Kanar eru svo miklir kjánar, þeir fyrirgefa aldrei neitt. En eftir nánari umhugsun þar sem gallar Polanski eru nokkuð augljósir, væri það honum hugsanlega fyrir bestu að vera neyddur til að horfast í augu við fortíð sína, þrátt fyrir allar þær þjáningar sem hann hefur þurft að líða?

Ég get vel skilið að maður sem þurfti að horfa upp á flesta vini sína og ættingja myrta í æsku af nasistum, og síðan horft upp á ólétta eiginkonu sína myrta, að eitthvað hafi einfaldlega klikkað í hausnum á honum. Hugsanlega hefur eitthvað verið að síðan hann var barn. Hugsanlega hafa áhrif stríðsins þessi djúpu sálrænu áhrif á manninn, þannig að hann er fastur í einhverju sálarvíti sem hann losnar hugsanlega aldrei úr á meðan hann lifir. 

Roman-Polanski-leaves-cou-001
Roman Polanski á leið úr réttarhöldunum 1977

Hugsanlega gæti bandarískur dómstóll hjálpað þessum 76 ára gamla manni að takast á við fortíðina. Hver veit? Verði hann dæmdur, vaknar spurningin um hvernig rétt væri að dæma hann. Fangelsisvist til æviloka? Bandaríkjamenn eru þekktir fyrir slíka dóma. Háar skaðabætur? Samfélagsþjónustu? Ætti dómarinn að taka mið af þjáningum hans í æsku? Morðinu á eiginkonu hans og barni? Farsælum leikstjóraferli?

Ekki öfunda ég þann dómara sem fær þetta verkefni í hendurnar.

Hver getur sett sig í spor manns sem hefur lifað af helför nasista, verið fórnarlamb fjöldamorðingjahóps Charles Manson og verið hundeltur af bandarískum yfirvöldum í 32 ár? Maður sem hefur dópað upp og nauðgað barni, ætti í mínum hugarheimi skilyrðislaust að refsa, en ég viðurkenni að ég hef ekki hugmynd um hvernig refsing væri viðeigandi í þessu tilfelli, þar sem maðurinn hefur tekið út alla mögulega refsingu með því einu að hafa verið pólskt barn í helför nasista.

Held að best væri að rukka Polanski um dágóða upphæð og láta peninginn renna til góðgerðarmála, og leyfa honum síðan að lifa lífi sínu í friði. Það myndi gerast í fullkomnum heimi, en þessi heimur er engan veginn fullkominn, eins og ævi Polanski er ágætt dæmi um.

Að lokum langar mig að birta áhugaverða umfjöllun um málið gerða af CBS sjónvarpsstöðinni, þar sem meðal annars kemur fram að ástæður handtökunnar í Sviss séu tengdar heimildarmynd sem gerð var um Polanski í fyrra, "Roman Polanski: Wanted and Desired", og hugsanlega vegna aukinnar samvinnu Svisslendinga við Bandaríkjamenn í kjölfar efnahagshrunsins, og þá helst sem merki um samstarfsvilja Svisslendinga. Einnig er áhugavert að Polanski á hús í Sviss, og hann hefur ferðast frjáls um allan heim í áratugi, án þess að nokkrum manni hafi dottið í hug að framselja hann til Bandaríkjanna.


mbl.is Gerðu viðvart vegna heimsóknar Polanski
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilt þú starfa sem ráðherra?

Fínt starf á góðum launum. Bónusar undir borðið þegar það á við og líka þegar það á ekki við frá ýmsum fyrirtækjum og stofnunum sem þurfa á stuðningi þínum að halda.

Hæfniskröfur: Þú þarft ekkert að kunna og ekkert að vita. Mikilvægt er þó að þú hafir einhverjar skoðanir á málunum og getir staðið á þeim. Skiptir engu máli hvort að skoðanirnar séu skynsamlegar eða ekki, ef þú getir talað um þær án þess að segja nokkurn skapaða hlut, ertu líklegri til að halda starfinu lengur. Hafirðu skoðanir sem stangast á við skoðanir flokksins þarftu að vera liðtækur lygari. Slíkir hæfileikar skerpast með reynslunni.

Þú þarft ekki að kunna neitt tungumál. Ekki einu sinni íslensku. Hins vegar þarftu að geta skrifað undir bréf, og því nauðsynlegt að þú kunnir að gefa eiginhandaráritun. Lestur, skrift og reikningur er annars ekki nauðsynlegt skilyrði. Nema þú verðir fjármála- eða viðskiptaráðherra. Þá þarftu að kunna að lesa úr flóknum skjölum sem starfsmenn láta þig fá. Ekki hafa áhyggjur, þú færð hjálp.

Óskað er eftir einstaklingi sem vill takmarka gagnrýna umræðu, enda getur slík umræða haft áhrif á ógrundaðar skoðanir. Sérstaklega viljum við baráttumanneskju gegn nafnlausu bloggi. Fyrst þarf að setja lög gegn því, og síðan gegn nafngreindu bloggi þar sem hægt verður að refsa fólki fyrir að hafa rangar skoðanir. Þetta blogg er gott dæmi um slíkt. Þó að skoðanir séu reistar á brauðfótum þýðir ekki að megi gagnrýna þær. Þú verður við völd þegar þú ert ráðherra og orð ráðherra eru lög á Íslandi, eða geta að minnsta kosti orðið það nokkuð auðveldlega.

Þú þarft að geta sýnt staðfestu. Ef einhver er þér ósammála, þarftu að geta notað tilfinningar þínar, móðgast og reiðst, yfir að einhver sem er þér lægra settur í samfélaginu geti vogað sér að sýna yfirvaldinu óvirðingu, en yfirvaldið ert þú.

Til að fá starfið þarftu að standast ákveðið próf. Fyrst þarftu að velja stjórnmálaflokk sem hentar hæfilega skoðunum þínum. Það er nóg að þið séuð sammála í 51% tilfella, og þú lýgur bara um hitt þar til þú kemst til valda. Reyndar geturðu líka, ef þú hefur áhuga á, gengið í stjórnmálaflokk þar sem þú ert ósammála flestu, en það er erfiðara að ná árangri í slíkum flokki.

Veldu þér samt helst flokk sem er að koma vel út úr skoðanakönnunum, þá áttu meiri séns, því að þó þú lendir neðarlega í prófkjöri geturðu vel komist inn, bara ef þú ert með í prófkjörinu. Stefndu samt alltaf á fyrsta sætið og notaðu öll tækifæri til að gera þig að sýnilegum stjórnmálamanni. Farðu í öll viðtöl sem þú getur, búðu til ný vandamál þar sem enginn sá vandamál áður, og gagnrýndu Silfur Egils fyrir að bjóða ekki minnihlutahópum í sjónvarpsþáttinn sinn. 

Eftir að hafa sigrað glæsilega í prófkjöri, eða lent ofarlega, enda hefur þér vonandi tekist að rægja flesta andstæðinga þina og sýnt fram á að skoðanir þeirra stangast á við skoðanir flokksins, auk þess að þetta fólk hefur sjálfsagt skuggalega fortíð af einhverjum ástæðum. Skiptir ekki máli hvað það er. Fáðu flokksfélaga til að treysta þér og stingdu það svo miskunnarlaust í bakið. Mundu að nota hanska til að fingraför þín verði ekki eftir á hnífnum. Lygarnar mega þó ekki vera augljósar, smá kryddaður sannleikur virkar best þar sem erfitt er að afsanna slíkt.

Vinnustaður þinn verður ráðherraskrifstofa þar sem þú þarft í rauninni að geta gert tvennt: skrifað nafnið þitt og lagt kapal í tölvunni. Þú færð nýja og flotta fartölvu og getur farið með hana í bílinn, en þú hefur líka bílstjóra þannig að þú þarft aldrei að hætta í miðju spili. Þar að auki geturðu ráðið þér aðstoðarmann til að skrifa undir skjölin þín ef þú vilt ekki tengjast ákveðnum málefnum með eigin nafni. Þannig að í raun þarftu ekki að kunna neitt, geta neitt, eða vera neitt. Lúxusjobb!

Þetta er reyndar ekki alveg jafn einfalt og það sýnist, því þú munt einnig þurfa að sýna þig á hinu háa Alþingi, þar sem að mest áberandi starfsfólkið er oft í ræðupúlti. Þú þarft að kunna að gera lítið úr pólitískum andstæðingum þínum fyrir framan alla hina starfsmennina, og takist þér að móðga viðkomandi vegna vaxtarlags, útlits, kynþáttar, en alls ekki kyns, ertu vís til að skora vinsældarpunkta hjá ýmsum í þjóðfélaginu. Þú þarft aftur að geta talað lengi um sem minnst, og best væri til að fá sem mesta athygli að biðja um orðið alltaf þegar það er laust, sama hvort þú hefur eitthvað til málanna að leggja eða ekki. Það hlustar enginn í alvöru á þig hvort eð er. Talirðu í hringi heldur fólk náttúrulega að það sjálft sé að hugsa í hringi. 

Það er auðvelt að verða ráðherra á Íslandi.

Viljirðu verða forsætisráðherra þarftu að kunna eitt til viðbótar, að nota myndhverfingar til að styðja mál þitt, því að myndhverfingar geta þýtt svo margt. Hver skilur til dæmis hugtak eins og "skjaldborg" utan um heimili landsins? Skjaldborg getur náttúrulega þýtt ýmislegt. Castro og Mao settu til dæmis skjaldborg utan um landa sína með því að hleypa þeim ekki úr landi, dreifa eignum þegna jafnt þeirra á milli, og varði heimilin þannig fyrir árásum erlendis frá. Myndhverfingar má túlka á svo marga vegu og fólk getur hneykslast endalaust á merkingu þeirra, og tapað þannig orku sinni í vitleysu, á meðan þú getur búið til nýja myndhverfingu. Þannig er starf forsætisráðherra eins og ljóðagerð.

 

E.S. ef þig skortir þolinmæði til að að bíða eftir næstu kosningum, geturðu sjálfsagt ráðið verkefnalítinn listamann til að skipuleggja fjöldamótmæli. Það virkar sérstaklega vel á viðkvæmum tímum.


Vantar þig, fyrirtæki þitt eða stofnun, örugga og óháða aðstoð við skipulagsbreytingar?

Viltu draga úr álagi? Þarftu að endurskipuleggja? Viltu vinna að endurskipulagningunni á traustan og skýran hátt, og helst á virkan hátt með samstarfsfólki þínu? Ef svo er, skaltu tala við mig.

Á krepputímum þarf að endurskipuleggja. Þannig er það bara. Ríkisstofnanir munu sameinast, deildir innan fyrirtækja verða lagðar niður eða sameinaðar öðrum, verkefni endurskipulögð.

Margir óttast um störf sín á Íslandi. Ekki að ástæðulausu. Endurskipulagningar eru farnar í gang og fyrsta hugmynd stjórnenda virðist oft snúast um að leysa frá störfum fólk sem gegnir ekki lykilhlutverki og má missa sín. Endurskipulagning krefst gífurlega vandaðrar vinnu, þar sem markmið, kröfur, mögulegar lausnir og afurðir þurfa sífellt að vera í sjónmáli, og samband þeirra skýrt og greinilegt, sérstaklega að skýrt sé þegar einum þætti er breytt hvernig hann hefur áhrif á aðra lykilþætti starfseminnar. 

Endurskipuleggingar geta endað með ósköpum ef þær eru ekki gerðar vel. Í stað þess að huga fyrst og fremst að nauðsynlegum rekstrarþáttum er þeir stundum sneyddir af, og það getur í sjálfu sér valdið gífurlegum skaða á rekstri fyrirtækisins.

Eftir að hafa leitað tækifæra í Noregi síðasta hálfa árið, fann ég loks sprotafyrirtæki sem framleiðir vöru og hugmyndafræði sem ég held að geti reynst afar gagnlegt á krepputímum, varan heitir Scope Map, og hugmyndafræðin Scope Driven Management. Þú getur sótt forritið fyrir PC eða Mac hér, en það er einföld útgáfa af stóru lausninni, Scope Atlas, sem er miðlægt kerfi notað gegnum netið.

Hugmyndin er í sjálfu sér einföld. Starfsemi fyrirtækis eða skipulag verkefnis er teiknað upp með Scope Map hugbúnaðinum, og síðan er unnið skipulega að því að átta sig á forsendum hvers rekstrar- eða verkliðar, og þannig er hægt að finna óþarfa starfsemi sem hægt verður að stoppa og beina í gagnlegri farveg. Helsti styrkur kerfisins er að allt ferlið er myndrænt á einum skjá, í stað þess að vera í 100 blaðsíðna möppu, og eftir stutta stund með Scope Driven Management ráðgjafa kemur í ljós að það er heilmikið hægt að spara, þegar maður er meðvitaður um tengsl á milli forsenda og niðurstöðu verks.

logoÞessi vara hefur verið á markaði í 15 ár og þróuð af hugbúnaðarfyrirtækinu Ambitiongroup, sem samkvæmt Deloitte er fyrirtæki á hraðri uppleið, en það er í þriðja sæti yfir þau fyrirtæki sem uxu hraðast í Noregi frá 2007 til 2008. Þetta kerfi hefur verið notað víða um heim, og stefnan að dreifa því víðar.

Fyrirtæki sem hafa áhuga geta fengið ókeypis kynningu hjá mér í nóvember eða desember, en þyrftu að láta mig vita með góðum fyrirvara, þar sem ég þarf að koma til Íslands við annan mann til að halda slíkan fund.

Hafðu samband við mig í tölvupósti hrannar@scopemap.com viljirðu vita meira. Við getum komið á 90 mínútna fundi þar sem við getum sýnt þér hvernig kerfið virkar útfrá starfsemi þess reksturs eða verkefna sem þú berð ábyrgð á. Til þess að það sé mögulegt þarftu að senda okkur stutta greinargerð á ensku um kjarnann í ákveðnum rekstri eða verkefni. Við greinum textann, búum til Scope Map útfrá honum og sýnum þér mynd af rekstrinum sem gefur þér nýjar og skýrari hugmyndir sem hjálpar þér að taka góðar ákvarðanir hratt og örugglega.

Ég hef sótt stíf námskeið í þessari hugmyndafræði og hugbúnaði. Það sem kom mér mest á óvart er hvernig Scope Driven Management virkar vel með þeim hugmyndum um gagnrýna hugsun sem ég hef velt fyrir mér í áratugi.


Hvað gerist ef Ísland verður gjaldþrota?

Þeir sitja hlið við hlið, vagninn er troðfullur, en kona nokkur stígur á fætur og Jón sest í sæti hennar, við hlið síns gamla félaga úr boltanum. Jón hnippir í öxl Ísleifs.

"Alltaf í boltanum?"

"Ha?" svaraði Ísleifur og þóttist ekki kannast við Jón.

"Manstu ekki eftir mér? Nonni! Ég var í vörn."

"Já, allt í lagi. Jú. Hæ."

"Ennþá í boltanum? Þú varst orðinn svo helvíti góður? Fórstu ekki út að keppa?"

"Jú," svaraði Ísleifur. 

"Kominn heim?"

"Já, var seldur en meiddist á hné."

"Ég skil. Hvenær fluttirðu heim?"

"Það eru komin sjö ár. Djöfulsins ástand maður."

"Segðu. Allt að fara til andskotans," sagði Jón. "Þú ættir að sjá lagerinn í Bónus. Hann er ekki svipur hjá sjón. Ég held að Ísland sé komið á hausinn."

Við þessi orð rétti Ísleifur úr sér og leit hvössum augum á Jón. "Í fyrsta lagi er gjaldþrot þjóðar afar ólíklegt. Sérstaklega í nútímaheimi."

Það stóð ekki á svarinu frá Jóni: "Gunnar Tómasson skrifaði í dag um að ekki verði hægt að komast undan greiðsluþroti íslensku þjóðarinnar. Þar að auki er afar erfitt að segja eitthvað um nútímann, þar sem að manneskjur eru oftar en ekki vitrar ekki fyrr en löngu eftirá. Held að þumalputtareglan sé 50 ár þegar kemur að þjóðfélagsmálum."

"Sagðistu ekki vera á lager hjá Bónus?" spurði Ísleifur forviða, enda svarið aðeins dýpra en hann reiknaði með.

"Ég er með doktorsgráðu í bókmenntafræði og sagnfræði," sagði Jón. "Gagnslausar upp á vinnu að gera, en fínar til að greina ástandið. Venjulega þegar þjóð uppgötvar að hún stefnir í þá átt að ríkið geti ekki lengur stutt við hagkerfið, þá er fyrsta skrefið að fara á fund með öðrum þjóðum til að breyta forsendum viðskiptasamninga á milli landa til að auka viðskipti. Til dæmis, Land A, gæti fundað með Landi B og beðið land B að fella niður tolla eða gjöld til þess að auka innflutning á vörum Lands A.

"Þetta er að sjálfsögðu fín hugmynd og segir sig sjálf," sagði Ísleifur og virtist allt í einu ákafur, eins og þegar hann spilaði sóknarleik í gamla daga, eða rétt fyrir vítaspyrnu. "En hvað gerðum við? Jú, við lokuðum á gjaldeyrisviðskipti og í stað þess að leysa úr höftum jukum, bundum við allt niður. Hefur einhver umræða verið um það að fella niður tolla tímabundið frá öðrum löndum til að fyrirtæki á Íslandi haldi sér á floti, einhverjar pælingar um að lækka skatta á meðan erfiðleikar steðja að? Ha?! Ekki tekið í mál. Það á bara að hækka skatta, ekki breyta álögum, handstýra krónunni í einhvers konar sjálfsfróunarvíti. Er þetta lið ekki í lagi?"

Það glampaði í kristalstær augu Jóns Hreggviðssonar þegar hann uppgötvaði að það var komin í gang samræða. Þeir gætu kannski talað saman af viti án þess að blanda stjórnmálaflokkum eða þekktum persónum úr þjóðlífinu inn í umræðuna. Hann vonaði það. "Ef þessi leið gengur ekki upp," sagði hann, "mun þjóðin sækja um lán frá öðrum löndum."

Ísleifur var eldrauður í framan eins og hann ætlaði að springa úr reiði, en orðin komu samt afar öguð út úr strikinu hans, sem við köllum oft munn: "Væri ekki lágmark að reyna fyrst að taka á sínum málum, áður en óskað er eftir nýjum lánum? Erum við ekki eins og fulli frændinn sem er búinn að eyða öllu í bús, og vill fá smá lán fyrir bara einni flösku í viðbót?" Ísleifur horfði á Jón. Jón horfði á Ísleif og reyndi að halda andlitinu kyrru á meðan. "Ef ég væri önnur þjóð og Ísland væri að biðja mig um lán, og ég vissi hvað ég vissi, um rótgróna spillingu, skuggalega viðskiptahætti, kúlulán og niðurfellingu skulda fyrir suma en ekki aðra, þá myndi ég einfaldlega taka tvö skref til baka og segja nei takk. Að lána Íslandi pening við þessar aðstæður er eins og að kasta þeim ofan í logandi hraun og vonast til að peningurinn stöðvi hraunið."

Jón gat varla haldið í sér flissinu þegar hann sá fyrir sér vörubílana keyra fulla farma af peningum og sturta ofan í rjúkandi Heklugíg. "Venjulega leita þjóðir að vinaþjóðum þar sem friðarsáttmálar þeirra eiga venjulega við um, ekki aðeins frið frá styrjöldum heldur einnig hagfrið sem þýðir að hitt landið mun styrkja það."

"Kaninn," sagði Ísleifur. "Helvítis Kaninn! Tryggðu þeir efnahagslegan frið hjá okkur herstöðvarinnar vegna og hugsanlega sé meginástæða þess að við eigum engan bakhjarl í dag að að þeir fóru frá okkur? Höfum við alltaf verið háð öðrum þjóðum til að halda hagkerfi okkar gangandi?"

"Þetta er með líflegri strætóferðum," sagði Jón skælbrosandi, en reyndi að murka lífið úr sælubrosinu og tala af alvöru. "Ef þetta gengur ekki upp, mun þjóðin leita aðstoðar frá öðrum þjóðum og bjóða eitthvað í staðinn sem þjóðin getur borgað með."

"OK, Kaninn er farinn," sagði Ísleifur niðurlútur á svip. "Norðurlandaþjóðirnar eru búnar að fá nóg af íslenskum oflátungum sem hafa reynt að yfirtaka og eyðileggja fyrirtæki í þeirra löndum, og skilið eftir sig sviðna jörð þar sem annars staðar, sérstaklega í Hollandi og Bretlandi. Hverja getum við beðið um hjálp og hvað getum við boðið þeim í staðinn? Hvað um Pólverja og Rússa? Vilja þeir lána og ef svo er, hvað vilja þeir í staðinn?"

"Herstöð?" stakk Jón upp á. "Skilyrðislausa pólitíska hlýðni á alþjóðavettvangi, sama hvað það kostar? Nýja heimsmynd í anda þjóðarinnar sem styrkir okkur. Við gætum selt sál okkar til að bjarga okkur."

"Ertu að segja mér að Íslendingar hefðu þurft að sýna Íraksstríðinu áframhaldandi skilning og stuðning til að halda Kananum á Íslandi, að kannski þá og aðeins þá hefðum við komist hjá því að missa Kanann og þar með alla tryggingu fyrir efnahagslegum stöðugleika úr landi?" sagði Ísleifur og horfði lengi á Jón. Báðir þögðu um stund, virtust hugsi, en svo sagði Ísleifur: "Hefðum við semsagt átt að selja George W. Bush sálu okkar og styrkja heilagt stríð hans gegn Írak, þó að það hafi verið óréttlátt, til þess eins að tryggja efnahagslegan stöðugleika heima fyrir? Ekki datt mér í hug að svona mál gætu haft áhrif."

"Já, kannski," sagði Jón.

"Ertu þá líka að segja að Íslendingar séu amerískir í hugsunarhætti? Það er nú ekki eins og við horfum stöðugt á bandaríska sjónvarpsþætti og bíómyndir, lifum í raunveruleikasjónvarpi þeirra og drekkum kók alla daga, né fáum okkur Cheerios eða Cocoa Puffs í morgunmat? Ætlarðu kannski að segja mér að Íslendingar séu farnir að ganga í kínverskum Nike skóm frekar en sauðskinnsskóm?"

"Áttu flatskjá?" spurði Jón.

Ísleifur kinkaði kolli.

"I rest my case," sagði Jón. "Ef þetta klikkar..."  

Ísleifur greip frammí fyrir Jóni. "Ég veit ekki betur en að þetta hafi klikkað. Það hefur engum höftum verið létt, og ekkert land virðist vilja lána okkur pening. Hvað gerist næst?"

"Verðbréfamarkaðurinn mun hrynja og lánveitingar hætta," sagði Jón.

"Ó? Hefur það ekki þegar gerst?" sagði Ísleifur.

"Allar fjármálastofnanir munu hrynja."

"Virkilega? Fleiri en þær sem hafa þegar hrunið?"

Jón kinkaði kolli. "Allar stofnanir ríkisins munu leggjast af, eins og heilbrigðiskerfi, lögregla, slökkvilið, menntun, vegagerð, og svo framvegis."

Ísleifur bankaði hausnum lauslega í rúðuna. "Það er nú óþarfi að dramatísera hlutina. Er ekki nóg að skera niður um 30%?"

"Fyrirtæki munu loka og störf tapast," bætti Jón við.

Ísleifur bankaði hausnum aðeins harðar í rúðuna. "Hvenær verður botninum náð?"

"Það verða fjöldamótmæli og engin lögregla til að stoppa þau eða slökkvilið til að slökkva elda."

"Mótmælunum lauk í janúar," sagði Ísleifur. "Ég var þar. Ríkisstjórnin féll."

"Og hvað breyttist?" spurði Jón. "Þau mótmæli eru ekkert miðað við hvernig næsti vetur getur þróast. Fólk er þegar byrjað að drepa hvert annað fyrir mat."

"Á Íslandi? Nei, þetta er kjaftæði í þér. Heldurðu að við séum eitthvað bananalýðveldi?"

"Sjáðu til," sagði Jón. "Hinir ríku munu kaupa landið og snúa lýðræðinu í harðstjórn."

"Ertu að tala um fortíðina eða framtíðina?" spurði Ísleifur, ég veit ekki betur en að hinir ríku hafi átt Ísland frá því áður en það öðlaðist sjálfstæði, og þeim hafi einfaldlega tekist að stjórna upplýsingaflæði þannig að sagan hefur verið skrifuð og samþykkt af þeim sjálfum, að sjálfsögðu til að almúginn rísi ekki upp gegn þeim. Kannski er bloggið að breyta þessum hluta af heiminum og þess vegna er allt að hrynja!"

"Hvað heldur þú?" sagði Jón og ýtti á rauðan hnapp merktur STOPP.

 

Samkvæmt Gunnari Tómassyni, hagfræðing, er þetta raunverulegur möguleiki og hann telur að hugsanlega verði Ísland orðið gjaldþrota innan árs. Ekki það að ég vilji hræða fólk með þessum pælingum, en mér sýnist nokkuð ljóst að ef ekki verður gert neitt af viti, heldur þjóðin áfram að renna niður þessa hálu brekku þar til á endann er komið. Það sem þessi grein fjallar um er fyrst og fremst hvað það er sem biði okkur á þessum afturenda hagkerfis sem hefur dáið drottni sínum.

Segjum að Ísland fengi enga aðstoð frá öðrum löndum aðrar en stanslausar kröfur, og að Ísland yrði loks lýst algjörlega gjaldþrota. Segjum að vöruflutningar til Íslands myndu algjörlega stoppa. Flugvélar og skip hætta að ganga á milli Íslands og annarra landa, nema ef eitthvert erlent fyrirtæki myndi ákveða að viðhalda samgöngum milli Íslands og útlanda, kannski vegna þess að enn eru margir ferðamenn hrifnir af landinu og svo heyrist að fullt af orku sé til sem hægt væri að selja úr landi. Þetta eru því miður ekki fjarstæðukenndar pælingar.

Ég ákvað að Googla aðeins um þetta og leitaði svara við spurningunni, "What happens to bankrupt countries?" og fann nokkuð gott svar á síðunni WikiAnswers. Svörin sem ég fann datt mér í hug að setja upp í samtal tveggja náunga sem hittast í strætó, enda hafa bílar þeirra verið gerðir upptækir og seldir, en þeir sitja uppi með skuldirnar.


Hvaða myndir verðurðu að sjá í bíó?

Þetta eru allt myndir sem enn eru sýndar í kvikmyndahúsum á Íslandi. Kíktu á umsögnina og skelltu þér svo í bíó.

Ég er búinn að þýða 13 ritdóma eftir Roger Ebert og birta á rogerebert.blog.is

4_up-pixar-render-thumb-300x287-7005

Þessa verðurðu sjá í bíó:
Up (2009) ****
Orphan (2009) ***1/2
Funny People (2009) ***1/2
Ice Age: Dawn of the Dinosaurs (2009) ***1/2

bilde?Site=EB&Date=20090812&Category=REVIEWS&ArtNo=908129987&Ref=AR&Profile=1023&Maxw=438

Bíómiðans virði:
District 9 (2009) ***

9 (2009) ***
Bandslam (2009) ***

bilde?Site=EB&Date=20090923&Category=REVIEWS&ArtNo=909279998&Ref=AR&Profile=1023&Maxw=438

Ekki bíómiðans virði:
Surrogates (2009) **1/2

G-Force (2009) **1/2
Fame (2009) **
The Ugly Truth (2009) **
The Haunting in Connecticut (2009) **

Fleiri þýðingar eru á leiðinni. Áhugasamir geta keypt birtingarrétt á einstaka greinum og birt í dagblöðum eða tímaritum, lesið í útvarpið eða birt á vefsíðu.

Hafirðu áhuga "exclusive" birtingarrétti (þ.e.a.s. að fá nýjustu greinarnar birtar) þarftu að hafa samband við mig í tölvupósti, og semja um það.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband