Dystópía eða veruleiki: Hvað ef Ísland verður gjaldþrota?
2.4.2008 | 08:48
VERULEIKINN
Skilaboðin til fólksins í landinu eru vægast sagt vafasöm. Seðlabankastjóri talar einn daginn um að innlendir aðilar hafa valdið gengisfellingu með spákaupmennsku sem þeir hafa hagnast gríðarlega á. Semsagt bankarán framkvæmt af Íslendingum. Næsta dag talar hann um að erlendir fjárglæframenn hafi verið að gera árás á krónuna. Semsagt bankarán framkvæmt af erlendum aðilum.
Gárungar segja að ástæðan fyrir þessari miklu gengisfellingu var einfaldlega sú að íslensku bankarnir tóku sér allir gífurlega mikinn gjaldeyri í Evrum á sama tíma og með því sviptu þeir teppinu undan íslensku krónunni.
Næstu helgi á eftir birtist fjármálaráðherra sjálfur í Silfri Egils. Hann er spurður um þessi mál, og hans svar er að ef bankarnir lenda í erfiðleikum, þá mun íslenska Ríkið taka lán til að bjarga þeim. Eins og allir vita er íslenska Ríkið ekkert annað en sameign íslensku þjóðarinnar. Meðal annars mín. Ég er mjög ósáttur við það ef bankarnir hafa sinnt ábyrgð sinni illa, að í stað þess að málin séu rannsökuð strax ofan í kjölinn, eru þau þöguð í hel og fullyrt að ef íslenskur banki að íslenska þjóðin komi þeim til bjargar. En athugið, íslenskir bankar eru ekki ríkisreknir!
En hvað ef íslenska þjóðin getur ekki meira?
Ég veit til þess að íslenskir námsmenn erlendis eru ekki að koma aftur heim vegna gífurlega mikils kostnaðar við íbúðarkaup og þar sem lánin á Íslandi eru óhagstæð í samanburði við það sem gengur og gerist annars staðar í Evrópu. Ég veit líka af fólki sem er að flytja erlendis þessa dagana einfaldlega vegna þess að það einfaldlega getur ekki búið á Íslandi - leiga á íbúðum er of dýr miðað við laun, og of erfitt er að kaupa sér nýja fasteign, meðal annars vegna stimpilgjalda. Ég þekki engan gífurlegan fjölda af fólki, og velti fyrir mér hvort að þetta geti verið alvöru vandi.
Ef við missum fólk úr landi sem hefur lokið háskólanámi, erum við að missa mannauð sem skapað getur Íslendingum margfalt fleiri tækifæri en nokkur íslenskur banka- eða stjórnmálamaður getur ímyndað sér. Við megum ekki missa þetta fólk í burtu - en það eru sumir að fara og aðrir farnir. Að missa eina vel menntaða manneskju af slíkri ástæðu er einni manneskju of mikið.
Ég vil reyndar hrósa Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að leggja fram frumvarp í gær til niðurfellingar stimpilgjalda fyrir kaupum á fyrstu íbúð. Mér finnst þetta frumvarp samt ekki ganga nógu langt, finnst að fella ætti niður öll stimpilgjöld strax, og uppgreiðslukostnað lána að auki, en veit að ekki er hægt að gleypa heilan fíl í einum bita og er sáttur við að Björgvin er þó að reyna þetta. Hann er eina röddin í ráðherrahópnum sem ég heyri að vinnur með fólkinu í landinu. Kannski eru fleiri að gera það, ég heyri bara ekkert í þeim.
Íslenska þjóðin er skuldum vafin. Gjaldmiðill okkar hefur hrunið. Dýrmætur mannauður er að hverfa úr landi. Ríkið gerir ekki neitt af viti, eins og fram kemur í mjög góðri grein Vilhjálms Þorsteinssonar Geir gerir ekki neitt.
Þetta er staðan eins og ég sé hana í dag. Ég er tilbúinn að hlusta á þá sem sjá málið í öðru ljósi og geta útskýrt hvernig mynd mín er skökk. Hins vegar sætti ég mig ekki við að rökþrotum verði beitt.
Athugið að ég hef engra pólitískra hagsmuna að gæta. Ég er bara ósköp venjulegur Íslendingur sem þykir vænt um Ísland og framtíð hennar.
DYSTÓPÍAN
Nú ætla ég að draga upp svörtustu mynd sem ég sé fyrir mér, og trúi reyndar ekki að til hennar komi, því að við erum svo flott og skynsöm, en ef Ísland verður gjaldþrota, þá missum við sjálfstæði okkar. Við ráðum engu um inngöngu í Evrópusambandið. Barátta fyrir jafnrétti kvenna og karla mætir afgangi. Lúxusbílum fækkar. Ferðalög til erlendra landa: fjarlægur draumur. Við berjumst við að komast af, í stað þess að lifa lífinu vel. Skólakerfið rústir einar. Fáir hafa efni á lyfjum og læknisþjónustu. Berklar taka sig upp á nýjan leik.
Getum við ímyndað okkur íslenskt samfélag sem einkennist af eymd og aumingjaskap, fátækt og ofríki, heilsuleysi og valdníðslu? Þannig var Ísland fyrir rúmri hálfri öld. Viljum við snúa aftur til fortíðar? Hún er kannski ekki jafn fjarlæg og við höldum.
Erum við ofarlega í ísbrekku, reynum að klóra í bakkann en getum ekki stoppað okkur frá því að renna alla leið á botninn? Eða er til staðar eitthvað tæki, eitthvað eins og íshaki sem getur stoppað þetta fall og með átaki hjálpað okkur að stefna upp á við að nýju?
HVERT STEFNUM VIÐ?
Látum ekki koma til dystópíu, þar sem framtíðin er svört. Okkur sárvantar viðbrögð frá ríkisstjórninni, þó svo ekki væri nema táknræn. Í augnablikinu hef ég á tilfinningunni að ríkisstjórninni sé nokk sama um fólkið í landinu. Það er ekki góð tilfinning, en tilfinning sem auðvelt er að snúa upp í þakklæti og velvilja ef vel er haldið á spöðunum.
Íslenska Ríkið er nefnilega skuldlaust. Það hefur efni á því að lækka skatta á fólkið í landinu. Hins vegar tel ég beinlínis rangt af ríkinu og óréttlátt, og sýna mikið dómgreindarleysi, að lofa bönkum stuðningi og láta fólkið mæta afgangi, því að við fólkið, við erum undirstaða bæði bankanna og ríkisins. Ef við föllum, fellur ríkið og bankarnir líka, nema einhverjir fáir komast hugsanlega undan með auðævi og lifa hamingjusamir, eða réttara sagt farsælir, til æviloka í fjarlægum sólarlöndum.
STAÐAN 2. APRÍL 2008
Allar vörur að hækka um 10-30% á meðan laun standa í stað. Afborganir á bílalánum tekin í erlendri mynt að hækka um 30% á mánuði. Það þýðir að lán sem var kr. 15.000 um áramót er um kr. 20.000 í dag, og heildarlánið þá hugsanlega breyst úr 1.5 milljón í 2 milljónir. Húsnæðislánin hækka að sama skapi, erlend lán meira en þau verðtryggðu, en öll lán hækka, bæði fyrir eigendur þeirra og skuldendur.
Þannig að kannski er ástandið bara fínt fyrir þá sem eiga, en bara erfitt fyrir þá sem skulda? Er þá ekki bara allt í sómanum?
Allar myndir í þessari grein hafa tengil í upprunalega vefsíðu. Hægrismellið á myndina og veljið properties til að rekja slóðina.
Athugasemdir
Athyglisverður pistill. Ég held að allir séu uggandi um hag okkar þessa dagana. Ég eins og fleiri er steinhissa á aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar. Ég held að margt mætti gera til að bæta ástandið meðal annars að fella niður álögur á eldsneyti að minnsta kosti timabundið.
Steingerður Steinarsdóttir, 2.4.2008 kl. 09:51
Ég er sammála því sem Jón Baldvin segir að það þurfi að byrja á því að reka Dabba úr Seðlabankanum.
Stefán (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 11:10
Hrannar, þú segir skýrt og skorinort það sem 80-90% eru að hugsa um þessar mundir.
Berglind Steinsdóttir, 2.4.2008 kl. 19:46
Takk fyrir enn eina gæðagrein.
Georg P Sveinbjörnsson, 2.4.2008 kl. 21:02
Skemmtilega svartsýnn alltaf Don
Farðu að hjóla og hættu þessari bensíneyðslu alltaf
Ómar Ingi, 2.4.2008 kl. 21:03
Kærar þakkir fyrir innlitið.
Hrannar Baldursson, 2.4.2008 kl. 23:52
Voðalegt bölsýnistal er þetta. Auðvitað er alltaf til í stöðunni að allt fari til fjandans en það er nú afar ólíklegt og ef það gerist þá eigum við auðvitað til gríðarlegar náttúruauðlindir, svo ekki sé minnst á svakalegar erlendar eignir lífeyrissjóðanna. Að auki eigum vð alltaf möguleika að flytja til annara EES-landa.
Það er ekki eins og það hafi brostið á styrjöld og erfiðleikarnir okkar eru í raun smávægilegir miðað við það sem meirihluti mannkyns þarf að glíma við - lúxusvandamál.
Það er líka hollt fyrir þjóðfélög að lenda í smá kreppu og mótlæti endrum og sinnum. Ýtir undir hagræðingu, ábyrgð og sparnað og eins gæti kreppa stuðlað að "lagfæringu" á gildismati þjóðarinnar - flott losna við eitthvað af þessari leiðinda peningahyggju.
Annars er fullkomlega eðlilegt að gengið falli þar sem við höfum verið að eyða langt um efni fram undanfarið og bara betra að þessi sjálfsagða leiðrétting kom fyrr en seinna - annars hefði skellurinn kannski orðið enn harðari. Krónan hækkaði ennfremur mikið til útaf álversuppbyggingunni og peningastreyminu til landsins á þeim tíma en svo átti hún alltaf að síga að uppbyggingunni lokið, sem var einmitt að gerast núna.
Í sambandi við bankana þá væri frekar verið að bjarga þeim vegna sérstakra aðstæðna á markaði (skuldatryggingaálag í engu samræmi við lánhæfismat) og af því fall bankanna myndi skaða okkur mun meira en það myndi kosta að aðstoða þá við að komast yfir versta hjallann núna. Í raun álíka og þegar bandaríski seðlabankinn bjargaði Bear Sterns - fall hans hefði haft of slæm áhrif á hagkerfið í heild sinni og mögulega valdið keðjuverkun.
Sýnist heldur ekki verið að tala um að bjarga bönkunum vegna óábygrar fjárfestingarstefnu þeirra (þótt þeir hafi líklega farið fullgeyst) - en ef það myndi gerast yrði það líklega með sama hætti og björgun Bear Sterns - þ.e. hluthafarnir þyrftu að sitja uppi með tapið.
Annars er stórmerkilegt hvað það er mikil svartsýni í þjóðfélaginu núna miðað við alla bjartsýnina og trúna á okkar eigin ágæti fyrir aðeins örfáum mánuðum. Allur þessi æsingur, hvort sem er vegna velgengi eða kreppu, hjálpar ekki neitt. Kannski vantar bara kennslu í andlegri íhugun eða jóga í skólum?
Andri Thorstensen (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 23:59
Tja, Andri. Dystópíur eru alltaf í eðli sínu svona svartsýnar. Andstæða útópíu sko. Málið er að mikið hefur verið talað um Ísland sem einhverja útópíu þar sem allir eru hamingjusamir og ríkir. Mér fannst kominn tími á hina hliðina.
Hrannar Baldursson, 3.4.2008 kl. 00:09
Sæll Hrannar. Ég verð að játa, að ég sá nú enga svartsýni í þessari grein þinni. Spurningarnar sem vakna eru einna helst: Hvað svo? Öllum má vera ljóst að gjaldmiðillinn okkar er of lítill, hvort sem það eru nú innlendir eða erlendir aðilar sem geti lækkað eða hækkað gengið að villd. Þá er komið að stjórnvöldum, en stjórnun er jú að taka ákvörðun.
Sigurður Þorsteinsson, 3.4.2008 kl. 07:56
Fínn pistill Hrannar minn. En mig langar til að vita hvort þessi landslagmynd er úr Fljótum í Skagafirði, nánar tiltekið í Stíflu? Með beztu kveðju.
Bumba, 3.4.2008 kl. 23:17
Blessaður Bumba: takk fyrir, ég veit ekki hvar þessi mynd er tekin, en hún er tengd í þessa vefsíðu hérna:
http://elementaryteacher.wordpress.com/
og er staðsett nákvæmlega hérna:
http://elementaryteacher.files.wordpress.com/2007/08/iceland.jpg
Mér finnst þetta einfaldlega stórfengleg mynd.
Þakka þér athugasemdina, Sigurður.
Hrannar Baldursson, 3.4.2008 kl. 23:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.