Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Ísland í dag, séð utan úr heimi

absurd-life-pictures87

Hann bloggar: "Heyrðu, ég elska þig."

Þau svara: "Þessi öfgafullu hatursummæli verða kærð til siðanefndar háskólans, bæjarstjórnar Akureyrar og Zuckerberg. Í fyrsta lagi vegna þess að þú sýnir augljóst hatur gegn vantrúarfólki með því að tala um ást. Ást er ekki til! Hvílíkar öfgar! Í öðru lagi vegna þess að þú hefur mögulega einhven tíma talað við börn, perrinn þinn. Og í þriðja lagi vegna þess að ást hefur ekkert með kvenréttindabaráttuna að gera."


Hvað er títt, herra forseti?

Nótt eina á Austurvelli vaknaði styttan af Jóni Sigurðssyni til lífs og hélt ræðu yfir sextíu og þremur rónum sem sátu undir stalli hennar og hlustuðu með misjafnlega mikilli athygli og gáfum. 

"Það er ekki allt Steingrími og Jóhönnu að kenna. Þau hafa engin völd vegna þess að þau hafa ekki kjark til að nýta þau mögulegu völd sem þau gætu haft til annars en að hlíða því sem þau áður kölluðu með ákveðinni fyrirlitningu, nýfrjálshyggjunni," sagði styttan af Jóni og rumdi illilega.

"Heyr heyr," sögðu rónarnir og fengu sér sopa.

"Ég hef ekki orðið var við tímabundið jafnvægi, annað en að gríðarlega há lán hafa verið tekin af ríkinu til að fresta skellinum mikla, flóðbylgju sem mun safna upp krafti með samskonar vöxtum og vaxtavöxtum og heimilin hafa þurft að þola, og þessi bylgja mun skella yfir þjóðina á næsta kjörtímabili, þegar kemur að skuldadögum. Vandanum hefur aðeins verið frestað. Þetta er lognið á undan storminum. Kannski við séum í auga fellibylsins?"

"Heyr heyr," sögðu rónarnir og fengu sér að ropa.

"Það er galið að hafa húsnæðislán verðtryggð í þessu ástandi sem nú ríkir. Þau eru ekkert annað en fjötur um fætur þeirra sem reyndu að eignast húsnæði á síðasta áratug. Er það virkilega glæpur sem fólk á að þjást fyrir árum saman, að þola verri örlög en glæpamenn sem dæmdir eru í fangelsi, eða þrælar fyrir daga frelsisstríðsins, og þá yfirleitt til skemmri tíma en húsnæðislánahelvíti með verðtryggingu, vexti og vaxtavexti sem krauma undir?"

"Heyr heyr," sögðu rónarnir raulandi.

"Réttlæti er mikilvægasta verkefnið í dag, það réttlæti að engin mannvera á þessari jörð þurfi að upplifa þrælkun, og þar sem við erum Íslendingar, sjálfstæðir Íslendingar, ættum við að einbeita okkur að því að enginn Íslendingur lifi við þrælkun, eða líði skort á frumþörfum eins og að vanta mat, klæði eða húsnæði. Þegar við erum öll orðin frjáls, getum við svo hjálpað umheiminum."

"Heyr heyr," hrópuðu rónarnir.

"Þegar peningar og markaðslögmál eru meira metin en sjálft mannslífið, þá erum við komin á villigötur, því að peningum og markaðslögmálinu er nákvæmlega sama um þig og þína velferð í lífinu, en ekki hinum manneskjunum, sama hvað þú hefur gert af þér. Jóni forseta er aldrei sama um þig, kæri Íslendingur, hvaðan sem þú kemur, sama hvað þú hefur gert, sama hvort þér sé sama um mig."

"Heyr heyr," sagði einn róninn á meðan hinir rifust.

"Og jú, ég hef fylgst með. Of mikið kannski. En ég hef fylgst með og mér hryllir við þeim hörmungum sem ég hef séð fyrir, og þeim afleiðingum sem skammsýnistefna fjármálakerfisins og ríkisvaldsins mun leiða yfir framtíð landsins, sem sífellt verður myrkari. Því óveðurskýin hrannast upp, og á endanum mun fátt standa eftir án skemmda."

"Vér mótmælum allir," sagði blaðsíða úr bók sem fauk framhjá styttunni af Jóni.


Skilningsleysi, heimska eða grimmd?

Unglingsstúlka sleppur naumlega undan manni sem hefur haldið henni niðri og reynt að nauðga henni. Hún sparkar í klof hans og hleypur undan. Hann eltir. Hún hleypur út á götu og reynir að stoppa bíla sem þjóta framhjá eins og þeim sé stýrt af vélmennum.

Í skugga undir brú liggur lögreglubíll í leyni og bíður eftir að einhver keyri nógu hratt framhjá. Lögreglumennirnir fölna þegar þeir sjá stúlku hlaupa í átt til þeirra og skuggalega veru á eftir henni. 

Stúlkan hleypur upp að lögreglubílnum og bankar í rúðuna. Móðan frá andardrætti hennar skyggir bílstjóranum sýn.

Lögreglumaður stígur út úr bílnum farþegameginn, hin situr kyrr, og sér hvar skuggalegi maðurinn stoppar eftirför sína.

"Hvað er eiginlega í gangi hérna?" spyr lögregluþjónninn.

"Hann... hann..." Stúlkan kom ekki upp öðru orði.

"Þetta er kærasta mín," sagði nauðgarinn og steig nær. Hann var klæddur vönduðum jakkafötum, og greinilega vel efnaður einstaklingur. Hugsanlega í áhrifastöðu.

"Hann... hann..." stamaði stúlkan með kökkinn í hálsinum og benti á myndarlegan manninn.

"Komdu heim," sagði þessi vel gefni og ríki maður.

Lögreglumaðurinn spyr nauðgarann: "Finnst þér ekki að við ættum að hlusta á hvað konan hefur að segja?"

Maðurinn hristi höfuðið. Lögreglumaðurinn kannaðist eitthvað við hann. Já! Hann hafði séð hann í sjónvarpinu. Margoft! Þetta var frægur maður. 

Stúlkan lyppast niður, hefur fallið í yfirlið. Lögreglumaðurinn grípur um handlegg hennar og segir henni að fara til nauðgarans.

"En veistu hvað hann hefur gert mér?" spyr hún grátandi djúpt í eigin hugarheimi og skilur ekkert í grimmd lögreglumannsins. "Þú ert nú eitthvað að ýkja þetta. Þú berð nú einhverja ábyrgð sjálf. Sjáðu kjólinn sem þú ert klædd í og þessa líka blómstrandi fegurð þína. Þú getur ekki kennt manninum um að vera mannlegur," sagði önnur rödd í huga hennar. Kannski var þessi veruleikafirrta rödd úr veruleikanum sjálfum. Hún gat bara ekki trúað því.

Án þess að sleppa henni, biður hún framtíð Íslands, vegsemd og von, að taka við stúlkunni, og sjá til þess að hún sé ekki að trufla lögregluna frá skyldustörfum sínum. Lögreglumaðurinn sest inn í bílinn og skellir á eftir sér, og stillir síðan hraðamælirinn upp á nýtt. 

"Um hvað var þetta?" spyr lögreglukonan í bílstjórasætinu. 

"Það er ungt og skemmtir sér," svarar lögreglumaðurinn og mælir einn á 107. Kveikt er á bláu ljósunum og sírenurnar settar í gang. Lögreglubifreiðin spólar af stað, stekkur yfir kant, og brunar á eftir hinum stórhættulega ökumanni, sem innan skamms verður einhverjum þúsundköllum fátækari.

Nauðgarinn tekur við stúlkunni og dregur hana inn í skuggann undir brúnni, þar sem hún öskrar og æpir á hjálp. Þeir sem heyra loka gluggum og hækka í græjum á meðan það versta gengur yfir.

 

 

Innblásið af dæmisögu Andreu Ólafsdóttur í Reykjavík Síðdegis: "Augljóst að ríkisstjórnin ætlar sér ekki að gera neitt."


Er í lagi að reka fólk fyrir skoðanir sínar?

censorship1

 

Grunnskólakennari á Akureyri bloggar um trúmál og samkynhneigð. Hann heldur því fram á bloggi sínu að samkynhneigð sé synd. Synd er trúarlegt hugtak sem þýðir að eitthvað verk sé illt í augum Guðs. Syndir drepa sálina eða eitthvað slíkt. Þetta er túlkað sem hatursfull árás á samkynhneigða. Spurning reyndar hvort að það sé túlkunin sem er hatursfull í þessu máli.

Nú verður allt vitlaust vegna þess að maðurinn sem segir þessa hluti er grunnskólakennari, og fólk á erfitt með að ímynda sér að hann geti verið góður, gildur og heill kennari fyrst hann lætur hafa eftir sér slíkar skoðanir. Fólk veltir fyrir sér hvort að trúgjörnum lífsviðhorfum barna standi ógn af manninum. Ekki fylgir sögunni hvaða fög hann kennir, en reikna má með að hann kenni flest fög, en það er eðli grunnskólakennarans.

Grunnskólakennarar eru bara fólk. Þeir hafa gjörólíkar skoðanir um ýmis mál, sumir tjá sig um þessar skoðanir undir dulnefni, aðrir undir eigin nafni. Sumir tjá ekki sínar skoðanir fyrir utan skólastofuna, og sumir tjá þær innan hennar. Sumar virðast þessar skoðanir vera heilbrigðar, sumar öfgakenndar, sumar snarruglaðar. Kennari tjáir skoðun sem meirihluti bæjarfélags dæmir ruglaða og jafnvel hættulega, og fær því ekki að stunda vinnu sína áfram, er sendur í sex mánaða frí á fullum launum, sem reyndar mætti túlka sem verðlaun þegar um jafn erfitt og flókið starf og grunnskólakennslu er að ræða, nokkuð sem sendir svolítið einkennileg skilaboð út í samfélagið, sem alls ekki er ljóst hver eru.

  • Eru skilaboðin þau að fólk í opinberu embætti skuli ekki fjalla um málefni samkynhneigðra?
  • Eru skilaboðin þau að kennarar megi ekki fjalla um viðkvæm málefni opinberlega og hugsanlega hafa óvinsæla skoðun?
  • Eru skilaboðin þau að almenningur skal nú passa sig á að segja ekki það sem hann hugsar, því að slíku verði mætt með hörku?
  • Eru skilaboðin þau að kennarar sem haga sér illa á opinberum vettvangi geti fengið launað frí í kjölfarið?

Grundvöllur mannlegs frelsis og sjálfsvirðingar er að sérhver manneskja fái frjáls um sitt höfuð að strjúka, að hún megi hugsa það sem henni dettur í hug, og koma hugsunum sínum í orð. Enginn hefur rétt á að dæma aðra manneskju fyrir skoðanir hennar, sama hversu fáránlegar þær þykja, og sama hversu óviðeigandi þær þykja. Fái manneskja ekki að koma hugsunum sínum í orð, er verið að hefta, ekki einungis tjáningarfrelsi hennar, heldur frelsi hennar til að móta eigin hugmyndir og skoðanir.

Að skerða málfrelsi annarrar manneskju vegna pólitísks rétttrúnaðar er alltaf slæmt, skaðlegt lýðræðislegu og frjálsu samfélagi. Ástæðan er sú að þarna er gefið slæmt fordæmi. Þarna er verið að hjóla í sömu hjólför og þeirra auðmanna sem kæra fjölmiðlamenn fyrir að tala um fjármál þeirra.

Nú er grunnskólakennari á Akureyri orðinn að píslarvotti pólitískrar rétthugsunar, hugsanlega nákvæmlega það sem hina ofsatrúuðu dreymir um að verða einhvern tíma á lífsleiðinni. 

Síðan hvenær varð það eðlilegt mál á Íslandi að fólk megi ekki segja það sem því finnst, og fyrir vikið vera álitið skynsamt eða heimskt? Af hverju í ósköpunum þarf að ganga lengra og hóta fólki eða koma úr starfi þeim sem hafa "rangar" skoðanir?


Spotify - gerir ólöglega tónlistardreifingu úrelta

WHILTY010

Síðustu misserin hef ég notað Spotify til að hlusta á tónlist. Mér skilst að þessi þjónusta sé ekki til á Íslandi, sem er miður, því allir græða á þessu. Hægt er að finna fullt af góðri tónlist á þessum miðli, og hlusta á hvert lag fimm sinnum ókeypis. Þetta er fínt fyrir gaura eins og mig sem finnst gaman að hlusta á hitt og þetta, en er ekki sérstakur aðdáandi einhverra tónlistargrúppu.

Á móti kemur að eftir þriðja hvert lag eða svo, eru auglýsingar í eina mínútu, sem mér finnst réttlætanlegur kostnaður fyrir að hlusta á tónlistina sem mig langar að hlusta á. Viljirðu losna við auglýsingarnar er hægt að kaupa mánaðarlega áskrift, og líka gera einhverja samninga um niðurhal. 

Ég sé ekki betur en að allir græði. Listamenn fá athygli, það er hlustað á tónlist þeirra, og þeir fá einhverja aura í baukinn fyrir vikið. Tónlistamiðillinn græðir eitthvað líka. Hef ekki hugmynd um hversu mikið, en ég reikna með að Spotify sé orðið frekar arðbært fyrirtæki. Svo græðir hlustandinn og þarf ekki einu sinni að hlusta á samvisku sína nagandi vegna ólöglegs niðurhals.

Væri til dæmis Bubbi á Spotify myndi hann strax græða. Það er nefnilega fullt af Íslendingum erlendis sem sakna að heyra hans ágætu tónlist, sem og annarra íslenskra tónlistamanna, sem virðast velja að loka markað sinn innan Íslands og notfæra ekki nýjustu tækni til að koma sér á framfæri víða um heim. Reyndar eru Sigur Rós og Björk þarna inni, enda ekki bundin í íslensku tónlistarklíkuna Stef, sem er ætlað að tryggja fjárhagslegt öryggi íslenskra tónlistamanna, en er að ég held, óafvitandi, að takmarka möguleika þessara listamanna.

Í augnablikinu hef ég lög eftir Whitney Houston í gangi á Spotify, til að heiðra minningu hennar og hugleiða aðeins hversu fallvalt mannanna líf getur verið, jafnvel meðal þeirra hæfustu okkar. 


Drive Angry (2011) **

driveangry_poster

Fantasíusplatterhasarmyndin "Drive Angry" er full af klisjum, slökum leik og samanstendur af frekar þunnum söguþræði, en inniheldur samt nokkra snilldarpunkta, og þeir eru tvennu að þakka. Kvikmyndatökufólkið, tæknimenn og hljóðmenn eru greinilega fagfólk, og einn leikarinn er hreinn snillingur sem stelur hverri einustu senu sem hann birtist í.

William Fichtner leikur "The Accountant" eða Bókhaldara frá helvíti sem passar upp á að sálir sem sleppa þaðan komi til baka. Hver einasta sena hans er margfalt betur skrifaðuð en allt annað sem birtist í þessari kvimynd. Sjálfsagt hefur hann fengið að semja eigin frasa, því þeir eru bara alltof flottir fyrir svona slaka mynd. Ef hægt væri að klippa saman bara þau atriði sem "The Accountant" birtist í, þá væri strax komið svolítið svalt hugtak sem sniðugt væri að byggja á, kannski heila kvikmynd.

drive6

Nicolas Cage leikur eina slíka sál sem sloppið hefur úr vítisvist helvítis, en dvöl hann þar samanstendur af stöðugu niðurhali upplifunar þeirra sem hann elskar, kvölum þeirra og sorg í jarðlífinu. Frá helvíti verður hann vitni að því hvernig djöflatrúarhópur misþyrmir og drepur dóttur hans, sem er nógur hvati til að hann brjótist úr úr helvíti, reddi sér svölum bíl og taki til við að útrýma öllu genginu.

Nicolas Cage má muna sinn fífil fegurri, en hann leikur í hverri b-og c- myndinni á fætur annarri með hangandi hendi, en gerir það samt nógu vel til að vera margfalt betri en gaurar eins og Steven Seagal, Van Damme og aðrir á sömu línu, hugsanlega með undantekningum. Hann virðist þessa dagana vera að berjast við Jason Statham um hasarhlutverkin. Í þetta sinn leikur hann John Milton, ekki höfund Paradísarheimtar, heldur mann sem reyndist slæmur eiginmaður en góður faðir, sem endaði í helvíti og slapp síðan.

Stórt hlutverk er leikið af Amber Heard, konu sem Milton þarf sífellt að bjarga, en er samt svo mikil hörkukona að hún gengur frá einhverjum illmennum sjálf. Hún hefur sjálfsagt átt að vera einhvers konar Sarah Connor úr "Terminator" myndunum, en passar einhvern veginn ekki inn í söguna þannig að ég fatti.

Ég myndi gefa "Drive Angry" fleiri stjörnur ef hún væri ekki jafn smekklaus og hún reynist vera. Það er frekar mikið af óþarfa splatter og nekt, sem ég reikna með að virki ágætlega til að trekkja að áhrifagjarna unglinga, sérstaklega þegar þetta er sýnt í þrívídd.

"Drive Angry" er ekki svo léleg að ég sjái eftir að hafa horft á hana, en get alls ekki mælt með henni fyrir aðra en þá sem hrífast af splatter og þesskonar smekkleysu. Mér sýnist hún vera undir áhrifum frá "Wild at Heart" eftir David Lynch og "Supernatural" þáttunum sem innihalda svartan bíl, líkan þeim sem í myndinni hefur skrifað á númeraplöturnar "DRV ANGRY".


War Horse (2011) ****

War-Horse-Movie-poster-Film-review-e1324422829991

"War Horse" er önnur fjölskyldumynd Steven Spielbergs frá árinu 2011. Hin fyrri var "The Adventures of Tintin". Báðar hittu þær beint í mark hjá mér.

"War Horse" er í eðli sínu rómantísk fjölskyldumynd um vináttu, tryggð, heiður og ólík gildi. Þrátt fyrir þetta fagra yfirbragð er djúp undiralda sem fylgir söguheiminum, Englandi og Frakklandi frá upphafi til enda fyrri heimstyrjaldar, þar sem margar góðar manneskjur falla í heimskulegu stríði sem enginn vildi bera ábyrgð á.

Styrjaldir eins og fyrri heimstyrjöldin, eru svolítið eins og efnahagshrun, þau eru engum að kenna, og magna upp bæði það besta og versta í fólki. Hinir góðu sem vilja verja sína samherja og eigin þjóð verða hetjur, en hinir grimmu sem hugsa um ekkert annað en að hámarka gróðann eða drepa sem flesta verða að skrímslum.

Í gegnum þessa heimsmynd gengur og hleypur hesturinn Joey, en við kynnumst honum fyrst þar sem unglingurinn Albert Narracott (Jeremy Irvine) verður vitni að fæðingu hans. Á endanum eignast drengurinn hestinn, en faðir hans Ted (Peter Mullan) selur hernum hestinn og sendir hann í eitt grimmasta stríð veraldar, þar sem hestar mega sín lítils gegn stórskotavopnum. Móðirin Rose (Emily Watson) er allt annað en sátt við skammarlega hegðun eiginmanns hennar, sem hún þrátt fyrir allt elskar, og segir hún syni sínum að þó hún hati mann sinn sífellt meira elski hún hann alltaf jafn mikið. Frekar óvenjuleg gildi fyrir kvikmynd á árinu 2012.

Við fylgjumst með ferðum hestsins gegnum stríðið þar sem hann kynnist fjölda fólks af ólíkum uppruna og bakvið ólíkar víglínur. Hinir ensku og þýsku sína hestinum mikla virðingu, en af einhverjum ástæðum fá Frakkar ansi slæma útreið frá Spielberg, sem virðast vera hinar mestu skepnur, þegar kemur að virðingu þeirra gagnvart fráum fákum.

Joey kynnist vingjarnlegum og göfugum enskum herforingja, svörtum og fögrum fáki, þýskum bræðrum sem gerast liðhlaupar, franskri sveitastúlku og afa hennar, frönskum hestavini og skilningslausum yfirmönnum hans, og lendir síðan í aðstæðum sem virðast algjörlega vonlausar, flækist í gaddavír á miðjum vígvellinum og öll von virðist úti. 

Það sem gefur myndinni sérstakan ævintýrablæ er leit drengsins að hestinum, en hvorugur þeirra gefst upp við að leita hvors annars. Það er einmitt þess vegna sem ég kalla "War Horse" rómantíska fjölskyldumynd.

Lokatökurnar í myndinni er með því fallegasta sem sést hefur á kvikmyndatjaldi, þar sem himinn virðist eins og klipptur úr "Gone with the Wind", og restin eins og listalegt málverk á hreyfingu. Afar fallegur endir á góðri kvikmynd, sem hefur ekki snert af kvikyndisskap eða illrætni frá sjónarhorni sögumanns, en auga kvikmyndarinnar sér heiminn út frá augum hests, og sýnir okkur þannig margt af því besta og versta sem við manneskjur höfum að geyma. 

Mig grunar að "War Horse" verði ekkert sérstaklega vinsæl til að byrja með, en verði álitin klassík innan fárra ára. Mér fannst gaman að sjá hversu margir unglingar voru í bíó, og velti fyrir mér hvort þau séu farin að fá leið á öllum hryllingnum, ofbeldinu og grófum húmor sem tröllriðið hefur kvikmyndum og sjónvarpi síðustu misserin. Ekki veit ég svarið.


Gamalkunnur Íslendingur að gera allt vitlaust

Vinnufélagi minn sýndi mér þetta myndband í gær. Hann sagðist hafa sýnt börnum sínum þetta, og að hann væri satt best að segja skíthræddur, og að þetta væri ein stærsta fréttin í heimalandi hans Króatíu. Ég klappaði honum vinalega á öxlina og sagði að ekki væri allt sem sýndist, að mér sýndist viðkomandi fyrirbæri vera skuggalega líkt sprungu og gerði ráð fyrir að gas væri að stíga upp úr henni. Þú skalt leggja þinn dóm á þetta: yfirnáttúrulegt skrímsli eða gas í Lagarfljóti?

Ég gúgglaði þetta, og sá að netið logar vegna þessa myndbands, sem birt var í fyrradag. 

Fyrst sást til Lagarfljótsorms í kringum 1345, og virðist fyrirbærið ansi lífseigt, enda árið 2012 orðið að heimsfrægu skrímsli á einni nóttu.

 

r-ICELANDIC-CREATURE-large570

 

Það er sjálfsagt að leyfa einni af þjóðsögum Jóns Árnasonar fljóta með þessari "frétt".

 

ORMURINN  Í  LAGARFLJÓTI

 

Það bar til einu sinni í fornöld, að kona nokkur bjó á bæ einum í Héraðinu við Lagarfljót. Hún átti dóttur eina vaxna. Henni gaf hún gullhring.

Þá segir stúlkan: "Hvernig get ég haft mest gagn af gullinu því arna, móðir mín?"

"Leggðu það undir lyngorm," segir konan.

Stúlkan tekur þá lyngorm og lætur gullið undir hann og leggur ofan í trafeskjur sínar. Liggur ormurinn þar nokkra daga. En þegar stúlkan fer að vitja um eskjurnar, er ormurinn svo stór orðinn, að eskjurnar eru farnar að gliðna í sundur. Verður stúlkan þá hrædd, þrífur eskjurnar og kastar þeim með öllu saman í fljótið.

Líða svo langir tímar, og fara menn nú að verða varir við orminn í fljótinu. Fór hann þá granda mönnum og skepnum, sem yfir fljótið fóru. Stundum teygðist hann upp á fljótsbakkana og gaus eitri ógurlega.

Þótti þetta horfa til hinna mestu vandræða, en enginn vissi ráð til að bæta úr þeim. Voru þá fengnir til Finnar tveir. Áttu þeir að drepa orminn og ná gullinu. Þeir steyptu sér í fljótið, en komu bráðum upp aftur. Sögðu Finnarnir, að hér væri við mikið ofurefli að eiga og væri ekki hægt að bana orminum eða ná gullinu. Sögðu þeir, að annar ormur væri undir gullinu og væri sá miklu verri en hinn. Bundu þeir þá orminn með tveimur böndum. Lögðu þeir annað fyrir aftan bægslin, en annað aftur við sporðinn.

Ormurinn getur því engum grandað, hvorki mönnum né skepnum, en við ber, að hann setur upp kryppu úr bakinu, og þykir það jafnan vita á stórtíðindi, þegar það sést, t.d. harðæri eða grasbrest.

Þeir, sem enga trú leggja á orm þenna, segja, að það sé froðusnakkur, og þykjast hafa sagnir um það, að prestur nokkur hafi ekki alls fyrir löngu róið þar þvert yfir, sem ormurinn sýndist vera, til að sanna með því sögu sína, að hann sé enginn. 

 

 

Mynd: The Huffington Post

Þjóðsaga: Snerpa.is 

 

 


Chronicle (2012) **1/2

chronicle-poster

"Chronicle" er allt í lagi mynd en samt erfitt að mæla með henni. Svona ofurhetjumynd séð í gegnum ólíkar myndavélar. Vel gerð.

Þrír unglingsstrákar, hinn félagslega virki Steve (Michael B. Jordan), heimspekilegi Matt (Alex Russell) og bældi Andrew (Dane DeHaan) komast í snertingu við einhvers konar furðuhlut sem grafinn er djúpt í jörðu og fyrir vikið öðlast þeir kraft til að færa hluti til með huganum. Þeir eru misjafnlega fljótir að þróa tæknina. Í upphafi nota þeir hana til að færa legókubba, og síðan framkvæma ýmsa hrekki á jafnöldrum sínum, en síðan eykst alvaran þegar einn þeirra veldur alvarlegu slysi. Stuttu síðar kemur í ljós að þessi hugarorka á sér næstum engin takmörk og stutt í að þremenningarnir verði að einhvers konar ofurmönnum, sem verður síðan að baráttu milli hins góða og illa 

Það frumlega við þessa sögu er að við fylgjumst með hvernig hið illa verður til og fáum samúð með þeim sem verður illskunni að bráð.

Persónurnar eru góðar og vel leiknar, sérstaklega Andrew, sem hefur falið ömurleika lífs síns í meðhöndlun myndavélar, en í gegnum augu þessarar og annarra myndavéla sjáum við allt það sem drífur á daga þessara þriggja drengja. Í upphafi fylgjumst við með lífi hans gegnum gömlu vélina hans, og síðan blandast aðrar myndavélar í leikinn, misjafnar að gæðum og misjafnlega höndlaðar. Það gefur kvikmyndinni svolítið sérstakann og skemmtilegan blæ.

Myndin skilur ekki mikið eftir sig. Mér leið eins og ég hefði horft á endurgerð teiknimyndarinnar "Akira", frá 1988, um unglinga sem lenda í samskonar hremmingum, en samt hefði ég ekki viljað missa af henni.

Mæli ekkert endilega með henni í bíó, held hún verði ekkert verri í sjónvarpi eða Blu-Ray.


Hræðsluáróður og rangsýni gagnvart skuldugum heimilum?

mt-rainier-avalanche_301_600x450

Frá því að ég byrjaði að láta mig varða skuldavanda íslenskra heimila sem magnaður er upp með verðtryggingu hafa tvenn rök stöðugt unnið gegn því að þjóðin standi saman gegn þessum vanda. 

Annars vegar er það sá hræðsluáróður að ef verðtrygging verður tekin úr sambandi verði það svo kostnaðarsamt fyrir lífeyrissjóði að þeir geti ekki lengur borgað út lífeyri. Í gær kom hin raunverulega ástæða í ljós, með skýrslu rannsóknanefndar um lífeyrissjóði. Þeir hafa tapað 500 milljörðum í áhættufjárfestingar og verða einhvern veginn að redda sér. Leið þeirra er að nota skuldug heimili sem mjólkurkú og reyna þannig að bjarga því sem bjargað verður. Það er ranglát sýn og verið er að hegna röngum aðila fyrir heimsku og glæpsamlega hegðun annars. Þetta verður að stoppa strax. Verðtrygginguna úr sambandi strax í dag, þar sem hún gerir ekkert annað en að gefa glæpamönnum skálkaskjól.

Hin ástæðan er sú undarlega öfund sem sprettur fram, þegar talað er um að leiðrétta lánin, lán sem áður voru aðeins hluti af verði húsnæðis og fólk taldi sig í góðri trú vera að borga þau niður, en síðan hækka lánin langt umfram greiðslugetu og verð húsnæðis, þannig að lánþegar þurfa að sjálfsögðu leiðréttingu. Það má ekkert gera fyrir þá sem orðið hafa fyrir tjóni, því að þá eru þeir að græða á meðan aðrir fá ekki neitt. Þetta þykir mér slík fásinna að heilbrigð skynsemi ræður ekki við slíka firru. Það er ekki til neitt svar, því skotið er af slíkri ósanngirni, rangsýni og heift, að það er ekkert annað hægt en að taka við högginu og liggja í götunni eftir það.

Ekki má gleyma að ástæða þessara margföldunaráhrifa fálust í sömu samtryggingu, spillingu og græðgi banka, líffeyrissjóða, stórfyrirtækja, dómkerfis, útrásarvíkinga, lagatækna og stjórnmálamanna sem smurðu vélina. Því miður hefur verið upplýst um slíkt gríðarlegt samsæri gegn almennum borgurum á Íslandi, að fyrir venjulega manneskju er erfitt að trúa því að það geti verið satt.

En það er satt. Því miður.

Hvenær á tiltektin að hefjast? Fyrsta verkið hlýtur að tengjast björgun heimila. Það gengur ekki lengur að láta feður, mæður, afa, ömmur, systur, bræður og börn, sitja föst í húsum sínum sem lent hefur undir fjármálalegu snjóflóði þessara samtryggingarafla, afla sem virðast jafnast á við þyngdaraflið, þó að hér sé aðeins um að ræða illverki manna. 

 

 

Mynd: National Geography


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband