Heimilislíking Don Hrannars

 


 

Næst, sagði ég, berðu saman áhrif menntunar og skorts hennar á eðli okkar gagnvart reynslu eins og þessari: Ímyndaðu þér manneskjur sem búa í íbúum sem liggja inn af göngum upp tröppur, einnig eru stundum lyftur í þessum byggingum. Þetta fólk hefur búið þarna frá barnæsku, alltaf á sama stað, þar sem þau sitja uppi í sófa með háls og fætur hlekkjaða við vegg.

Allir hafa samt farsíma og fjarstýringu í höndunum, sem þau geta notað til að skipta um sjónvarpsrásir, velja bíómyndir eða sjónvarpsþætti, eða til að spila tölvuleiki á stórum flatskjá fyrir framan þau. Þau sjá aðeins fram á við, því þau eru bundin það rígföst að þau geta ekki litið til hliðar. Þau fara heldur aldrei út úr húsi.

Eina ljósið kemur frá sjónvarpsskjánum, sjálflýsandi tökkum fjarstýringarinnar og af smáskjá farsímans.  Ímyndaðu þér að það eina sem þetta fólk sér eru þessi þrjú tæki, og eina hljóðið sem það heyrir er einnig úr tækjunum. Þau geta haft samskipti hvert við annað gegnum símann, og reyndar hafa þau líka aðgang að Internetinu á skjánum, svo þau komast í tölvupóst og á Facebook.

Já, ég ímynda mér þetta.

Ímyndaðu þér líka að fréttatímar eru þvingaðir inn í dagskrána, þannig að fólkið neyðist allt til að fylgjast með sömu fréttunum. Stundum eru fluttar góðar fréttir, stundum vondar, en oftast samt nógu vondar fréttir til að fólk langi síður til að komast út úr íbúðunum og inn í heim ofbeldis og sturlunar.

Þetta er undarleg mynd sem þú lýsir og undarlegir fangar.

Þeir eru eins og við. Heldur þú að þeir geti séð hvern annan?

Hvernig ættu þeir að geta það ef höfuð þeirra hafa verið tjóðruð föst allt þeirra líf?

Hvað um hlutina sem birtast á skjánum? Er það sama ekki satt um þá?

Vissulega.

Og heldurðu að þegar þau tali saman gegnum netið og símann að þau noti ekki sömu nöfnin um hlutina sem þau sjá á skjánum?

Þau yrðu að gera það. 

Og þegar mynd af manneskju birtist á skjánum, myndu þau ekki halda að þetta væri alvöru manneskja og þegar hún talaði að hún væri að tala til þeirra?

Það myndu þau sjálfsagt gera.

Þannig að fangarnir myndu trúa á allan hátt að sannleikurinn væri ekkert annað en myndirnar og hljóðin sem berast þeim af skjánum?

Þeir myndu sannarlega trúa því. 

Hugleiddu þá, hvernig færi fyrir þeim ef fangarnir væru leystir úr fjötrunum og þeir læknaðir af fáfræði sinni, hvað ef eitthvað slíkt ætti sér stað. Hugsum okkur að einn íbúinn sé leystur úr fjötrunum og neyddur til að standa á fætur, snúa höfðinu, ganga og horfa til dyra, þaðan sem dauf birta berst. Fjarstýringin og síminn eru tekin af honum og slökkt á sjónvarpstækinu.

Segjum að fangaverðir drægju hann út um dyrnar, og hentu honum inn í lyftu sem skilaði honum á jarðhæð. Þegar lyftudyrnar opnuðust sæi hann út í fyrsta sinn á ævinni. Honum yrði illt í augunum, honum myndi svima, hann yrði ringlaður og ætti erfitt með að átta sig á öllu því sem hann sér í fyrsta skipti berum augum, undir sólinni.

Hann áttar sig á þegar hann lyftir steini að hann er ekki bara ímynd, heldur raunverulegur hlutur, rétt eins og hönd hans. Yrði hann ekki undrandi? Ef þú segðir honum að uppgötvun hans skipti engu máli, heldurðu að hann myndi trúa þér? Hann áttar sig á að allt hans líf hefur verið blekking, hann hefur aðeins séð myndir af veruleikanum en ekki upplifað veruleikann sjálfan. Ef þú spyrðir hann hvort væri sannara, það sem hann hafði áður séð og það hann sér núna, hverju myndi hann svara?

Að það sem hann sér núna væri sannara.

Og ef vörður neyddi hann til að horfa beint í sólina, myndi hann ekki fá ofbirtu í augum og yrði honum ekki illt? Myndi hann ekki vilja forða sér og flýja til hluta sem hann gæti séð, og frekar leitað til hluta sem hann getur snert en í flatskjái?

Það fer kannski eftir því hvað hann er að horfa á. Ef það er Braveheart eða James Bond...

Svaraðu mér af einlægni.

Jú, vissulega. Hann myndi leita í hlutina fyrst. 

Eftir að hafa horft í sólina um stund er fanginn blindur, en svo jafnar hann sig þegar fer að rigna í augu hans. Hann lítur í kringum sig og sér poll á jörðinni. Hann stingur tánni í pollinn og skelfur af fögnuði þegar hann sér vatnið bregðast við hreyfingunni. Tíminn líður og nóttin skellur á. Hann sér tunglið og stjörnubjartan himinn. Hann hefur verið heilt ár úti og áttað sig á hvernig sólin hefur áhrif á árstíðirnar, og áttar sig á hvernig hún virðist stjórna öllu lífi. 

Skiljanlega.

Nú hefur fanginn sloppið úr augsýn varðanna og áttað sig á að annað fólk eins og hann, mörg hundruð þúsund og jafnvel milljónir, eru hlekkjuð við veggi fyrir framan sjónvarpstæki, eins og hann var. Heldurðu að hann hefði áhuga á að bjarga þeim?

Auðvitað.

Segjum að fanganum takist að ná valdi á fréttastofu sjónvarpsins og segi fólki sannleikann, að það sem þau horfi á sé ekki veruleikinn, heldur lygar. Heldurðu að þau myndu trúa honum?

Líklega ekki.

Hvað ef hann hefði leið til að sanna mál sitt, með því að taka myndir af öllu því sem hann hefur séð og upplifað. Myndi það trúa að hlutirnir sem hann sýndi og segði þeim að væru snertanlegir, væru það í raun og veru?

Ég er hræddur um að þau gætu ekki gert það sér í hugarlund, án þess að hafa haft slíka reynslu. Það þyrfti mjög sérstaka manneskju til að trúa ekki því sem hefur virst eini möguleikinn allt lífið. 

Verðirnir umkringja sjónvarpsstöðina, aftengja hana, ná fanganum og hlekkja hann aftur við vegg. Hann fær aftur fjarstýringu og farsíma, og enn flottari flatskjá. Heldurðu að hann muni reyna að losna úr prísundinni aftur og frelsa alla hina?

Vissulega.

Gæti hann nokkurn tíma sannfært fólkið, þó að hann hefði símasamband og netsamband, um að veruleikinn væri annar en það tryði?

Líklega ekki. 

Til hvers er ég þá að blogga þetta?

Í þeirri von að fleiri rumski?

 

 

 

 

Innblásari: Platón

Mynd: Worth 1000


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Beitt færsla.

Georg P Sveinbjörnsson, 9.11.2008 kl. 01:27

2 identicon

Nútíma hellir - ó já!

Anna Brynja (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 18:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband