Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2020

Hvernig greinum við milli falsfrétta og sannra upplýsinga?

Það er gríðarlega mikið af röngum upplýsingum á gangi víða um netið. Þær virðast smitast hraðar en Covid-19. En sannleikurinn er ennþá til staðar, við þurfum bara að beita gagnrýnni hugsun vel til að greina á milli þess sem er satt og ósatt, þess sem er byggt á staðreyndum og þess sem er byggt á skoðunum.

1. Gættu þín á sterkum tilfinningum

Þegar eitthvað truflar þig sérstaklega í fréttum, þegar þú fyllist annað hvort ótta eða reiði, þá skaltu spyrja þig: hvað er þetta? hvað er í gangi?

2. Kannaðu heimildir

Veltu fyrir þér hver er að segja frá og af hverju. Þú þarft ekki að finna nema eina lygi eða eitthvað eitt ósatt í því sem er sagt til að leyfa þér efasemdir. Ósannindi geta verið sögð með góðum tilgangi, en þegar kemur að sannleikanum mundu að tilgangurinn helgar ekki meðalið. Gott er að spyrja reglulega: "hvaðan koma þessar upplýsingar", hvort sem það er þegar þú ert að lesa eða hlusta á fréttina, eða spjalla um hana við vini og kunningja. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem allir geta birt skoðanir sínar eða sögur á netinu. Þetta á líka við um mig.

Þegar þú hefur lært hvaðan upplýsingarnar koma, leitaðu að frekari upplýsingum um manneskjuna og veltu fyrir þér hvort hún standi fyrir ákveðna hagsmuni, eða hafi sterkar skoðanir sem byggja á veikum grunni.

Ef fréttin er sérstaklega stuðandi, athugaðu hvernig hún er borin fram á öðrum miðlum. Skoðaðu málið frá fleiri hliðum en bara þeim sem þér líkar best. 

Athugaðu líka hvort að vefslóð fréttarinnar sé vafasöm, það er nefnilega töluvert um að róbótar semji falskar fréttir sem höfða til fólks út frá 'Like' sem það hefur merkt á samfélagsmiðla, eða jafnvel út frá vörum eða upplýsingum sem það hefur leitað eftir á netinu.

3. Áttaðu þig á áróðri

Áróður er þegar rökin eru einsleit og styðjast við rökvillur, eins og að einfalda hlutina of mikið, reynt að styðja við skoðun út frá vinsældum eða óvinsældum manneskju eða hóps, og þar fram eftir götunum. Með áróðri er reynt að vekja upp tilfinningar. Áróðurstækni er mikið notuð í auglýsingum hvern einasta dag, eins og til dæmis er Coca Cola oftast tengt við gleði og sælu, tannkrem tengt við bros, og þar fram eftir götunum. Þegar kemur að pólitískum áróðri er yfirleitt reynt að vekja óhug, eins og þegar nasistar lýstu gyðingum sem gráðugum og nískum rottum, eða þegar sagt er að hinn pólitíski andstæðingur muni gera líf þitt verra á einhvern hátt. 

Áróður er yfirleitt svarthvítur og flatur. Sannleikurinn er hins vegar í lit og þrívídd.

4. Passaðu þig á nettröllum

Nettröllin hafa minni áhuga á að ræða málin, heldur meiri áhuga á að trufla samræður og reita fólk til reiði. Ekki gefa tröllunum að éta, ekki láta þig trufla þig. Áttaðu þig á hver þau eru og láttu eins og þau séu ekki til. Þá hverfa þau.

5. Passaðu þig á samsæriskenningum

Samsæriskenningar hafa það sameiginlegt að sagt er frá einhverju svakalegu plotti einhvers hóps eða einstaklings sem ætlar svo sannarlega að gera einhverja hræðilega hluti. Yfirleitt eru þetta skemmtilegar sögur, en ekki samþykkja þær eða forsendur þeirra sem sannar, nema þær sannarlega séu það. Tilgangurinn með samsæriskenningum er yfirleitt að auka óöryggi fólks, en stundum er tilgangurinn einfaldlega sá að segja sögu. 

 

Mikilvægast af öllu er að átta þig á hvaðan þú færð upplýsingarnar sem þú færð, vera tilbúin(n) til að greina hvort að þínar eigin skoðanir og trú séu byggðar á því sem satt reynist, og vera sífellt reiðubúin(n) til að endurskoða og læra. 

Hver einasti dagur gefur okkur nýjar upplýsingar í heimi þar sem bæði þekking og veruleiki breytast hratt. Ef þú heldur í gamlar upplýsingar sem hugsanlega voru einhvern tíma viðteknar sem sannleikur, þarf ekki að vera að þær séu það lengur, þar sem við höfum öðlast dýpri þekkingu og skilning, eða þar sem heimurinn hefur breyst.

 

Þetta blogg er innblásið ef grein Alexander Slotten hjá NRK.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband