Af hverju hlusta ráðamenn lýðræðisþjóðar ekki á lýðinn?

Þegar Davíð Oddsson var við völd virðist hann sífellt hafa verið með nýjar og skemmtilegar hugmyndir í gangi. Eins og gengur og gerist voru sumar þeirra slæmar, aðrar góðar og einstaka algjör snilld. Þegar leið á valdatíðina virðist hugmyndaflæðið hafa minnkað, og í stað þess að vera frumkvöðull, fór Davíð og hans flokkur að bregðast við áreiti með svolítið sérstakri taktík.

Fyrst var engu svarað. Beðið var rétta augnabliksins og þá komið með svar sem átti að falla vel í kramið. Þetta hefur gengið eftir og Sjálfstæðisflokkurinn sigrað í hverjum kosningunum á fætur öðrum.

Geir Haarde varð formaður sjálfstæðisflokksins og sjálfkrafa formaður. Hann virðist bara vera allt öðru vísi týpa en Davíð og hefur sjálfsagt lagt ákveðnar línur fyrir ráðherralið sitt. Ég efast um að þetta séu línur sem vinna flokknum atkvæði í næstu kosningum.

Atriði sem hafa hreinlega hneykslað mig, og það er ekki auðvelt að hneyksla mig:

1. Hinn ágæti þingmaður Árni Johnsen veitt uppreist æru eftir að hann þurfti að dúsa í fangelsi fyrir tæknileg mistök í starfi. En Árni fór á sakaskrá fyrir glæp í opinberu starfi, og var síðan hreinsaður af henni af félögum sínum. Hvað segir það um félaga hans?

2. Hinn ágæti ráðherra Árni M. Matthiesen gengur í starf dómsmálaráðherra til að veita hinum ágæta lögfræðingi og góðu manneskju Þorsteini Davíðssyni starf sem héraðsdómari, en Þorsteinn var valinn þó að nokkrir umsækjendur hafi verið metnir hæfari en hann til að gegna starfinu. Þetta þótti Árna eðlilegt og val hans var varið af ýmsum flokksbræðrum hans, sem segir ýmislegt um þá, miður gott því miður.

3. Fólkið í landinu hrópar á hjálp fyrir utan kastala ríkisstjórnarinnar. Atvinnubílstjórar gerast riddarar og ganga frammi skjöldu og eru orðnir að trúverðugri fulltrúum fyrir almenning heldur en ríkisstjórnin sjálf, þrátt fyrir að valda almenningi töluverðum óþægindum í umferðinni. Þeir eru reiðir því að þeim finnst ekki hlustað á fólkið í landinu. Reyndar hefur samgönguráðherra, sem er í samfylkingunni, samþykkt að ganga á fund með þeim og virðist opinn fyrir að hlusta á fólkið, en ráðherrar úr sjálfstæðisflokknum virðast hins vegar loka sig af og lítið þora að gera.

Ég hef ákveðna kenningu um hvað er í gangi. Ég held að óheilindin sem dæmi 1 og 2 eru dæmi um séu að brjótast út sem óvirkni í dæmi 3. Sjálfstraust ráðherra fer dvínandi, þeir eru hættir að trúa á sjálfa sig, því þeir hafa týnt þeim gildum sem halda þeim í jarðsambandi, tengdum fólkinu sem þeir eiga að starfa fyrir.

Þegar völdin koma ekki frá hjartanu, heldur reiða sífellt á nefndarálitum og fræðilegum athugunum, sem hvort eð er þarf ekki að taka mark á, eins og settur dómsmálaráðherra sýndi við ráðningu héraðsdómara, þá er það einfaldlega merki um að stórveldið sé að hruni komið.

Ég er sífellt sáttari við einstaka ráðherra samfylkingarinnar. Samgönguráðherra og viðskiptaráðherra virðast vera með hjartað á réttum stað, svo og iðnaðarráðherra, maður sem þorir að tala þegar aðrir segja honum að þegja - og ég vona svo sannarlega að hann láti ekki þagga niður í sér með hræðsluáróðri. Hins vegar heyri ég ekkert frá félagsmálaráðherra og sýnist því formaður flokksins því miður vera alveg úti á þekju, og bregðast við í anda sjálfstæðismanna.

Þetta eru bara málin eins og ég sé þau frá mínu takmarkaða sjónarhorni. Ég tel verkin segja miklu meira en nokkur orð, og að dæma skuli árangur eftir verkum, en ekki eftir umsögnum.

Það er söknuður að manni eins og Davíð Oddsson var á fyrri hluta stjórnmálaferils síns. Hann sýndi mikinn drifkraft og hafði oft frumkvæði. Hann starfaði af miklum heilindum fyrir þjóðina og á mikið hrós skilið. Einnig í lokin, þegar hann sá að þetta var ekki lengur að ganga upp, þá hætti hann störfum sem stjórnmálamaður og snéri sér að öðru, í stað þess að þrjóskast í starfinu, nokkuð sem hefði einfaldlega skaðað meira út frá sér.

En svona er staðan í dag. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í mínum huga tapað trúverðugleika sínum, og þetta er flokkur sem ég hef kosið til valda. Samfylkinguna vantar leiðtoga sem þorir að sýna frumkvæði, því að einhver þarf að gera það.  Það hrikalega er að fólkið í landinu fær ekki einu sinni viðbrögð.

Málið er að til að geta sýnt frumkvæði þarftu að búa yfir heilindum, þarft að bregðast við þegar vandi steðjar að, og hafa hugrekki til að sýna frumkvæði, en slíku hugrekki má samt ekki rugla við fífldirfsku.

Hinar fjóru víddir krefjandi hugsunar þurfa einnig að vera í lagi og vinna saman fyrir góðan og virkan stjórnmálamann: gagnrýnin hugsun (critical thinking), skapandi hugsun (creative thinking), umhyggja (caring thinking) og margbrotin hugsun (complex thinking).

Spurning um að taka landvættirnar sér til fyrirmyndar? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

XD

Ómar Ingi, 4.4.2008 kl. 09:09

2 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Flott samantekt.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 4.4.2008 kl. 14:29

3 Smámynd: Þórður Helgi Þórðarson

Djöfull ertu klikkaður mar, díses

Þórður Helgi Þórðarson, 4.4.2008 kl. 15:01

4 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Sjálfstæðismenn og Samfylkingarmenn gerilsneyddir af þessum fjórum víddum, a.m.k. út á við.

Flottur pistill að vanda

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 4.4.2008 kl. 19:44

5 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Það er alveg ljóst, að manni leiðist ekki að lesa pistlana þína

Sigurður Þorsteinsson, 4.4.2008 kl. 20:18

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir athugasemdirnar, og sérstaklega fyrir hrósið Sigurðu, Guðrún og Kjartan. Líka þér Þórður, þó að ég hafi ekki hugmynd um hvað þú meinar. Ómar: XD? Varla fyrr en sjálfstæðismenn fara að sýna betri hliðar.

Hrannar Baldursson, 4.4.2008 kl. 20:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband