Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2023

Hvert væri gaman og áhugavert að ferðast?

Tyrkland2022
Mynd tekin í Istanbúl snemma árs 2022.

“Sú manneskja sem þú ert skiptir meira máli en staðurinn sem þú ferðast til; af þessari ástæðu ættum við ekki að binda huga okkar við einhvern einn stað. Lifðu í þessari trú: ‘Ég er ekki fædd(ur) í einu horni alheimsins; heimurinn allur er landið mitt.-’” Seneca

Ég elska að ferðast og hef komið víða við. Samt er heimurinn svo stór og margir staðir sem mér þætti vænt um að heimsækja, þó ekki á flótta undan veðri og vindum á Íslandi, heldur til að kynnast þessum stóra og fallega heimi aðeins betur.

Með hverju tungumáli sem við lærum áttum við okkur betur á hvernig fólk um víða veröld hugsar og veltir fyrir sér hlutunum. Það er mjög áhugavert að velta fyrir sér muninum á hvernig maður er þegar maður hugsar á einu tungumáli eða nokkrum. Mér skilst að stundum slæðist íslensk orð með þegar ég ræði við fólk á ensku. Bara gaman að því, en tungumálið er ein af leiðum til að ferðast án þess að færa sig úr stað.

Á síðasta ári kom ég víða við. Var strandaglópur í Istanbúl en þar var allt ófært út af snjókomu, ók um Bandaríkin og stoppaði þar í tvær vikur til að ræða heimspeki með þarlendum ungmennum, kom við í vinnuferðum og fríum á Spáni, Ítalíu, Frakklandi, Englandi, Eistlandi, Póllandi, Austurríki og Noregi, og stoppaði á flugvöllum í Danmörku og Svíþjóð. Einnig fór ég ásamt samstarfsfélögum mínum upp á fjölda fella á Suðurnesjum og loks fórum við í virkilega erfiða göngu á Grænahrygg. Allt var þetta gaman.

Mér fannst frekar stórkostlegt að ganga um götur Istanbúl í hundslappadrífu, innan um forna turna og musteri - þar sem menn voru að steikja hnetur í litlum vagni en var greinilega ískalt. Ég fór meira að segja í snjókast við sænskan vin minn, báðir komnir yfir fimmtugt, en leið eins og krökkum á fyrsta snjódegi ársins. Í það minnsta leið mér þannig. Einnig var stórmerkileg upplifun að ganga um Grand Bazaar í snjókomu. Vinalegir sölumenn buðu upp á te, og sæti inni í verslunum að skoða tyrknesk teppi, handklæði og viskustykki. Auðvitað fór taskan full heim.

Mig langar að ferðast meira en þarf þess ekki. Það væri gaman að fara annað en í stuttar sólarstrandarferðir þar sem maður hellir í sig bjór og tekur tásumyndir. Það væri gaman að kynnast því hvernig fólk lifir í þessum heimi við ólíkar aðstæður en við þekkjum frá degi til dags á Íslandi. 

Í fréttinni sem kveikti þessar vangaveltur er talað um hvernig hjón fóru á fjarlægan stað, Bora bora, syntu þar í sjónum með hvölum, höfrungum, hákörlum. Sigldu um og nutu lífsins. Þetta er merki um fólk sem er ánægt í eigin skinni, þau eru ekki að ferðast til að losna undan einhverju böli, heldur ferðast til að upplifa meira af undrum heimsins sem við erum öll hluti af. 

Nú langar mig að leita mér að fleiri ferðalögum, þó að vissulega séu nokkrar ferðir á dagskránni innan skamms á þessu ári. Mér finnst reyndar líka gott að vera heima, gefa mér tíma með bókunum mínum og kynnast út frá þeirra sjónarhorni heiminum ennþá betur, út frá því hvernig aðrir hafa hugsað og skrifað síðustu aldirnar. Jafnvel þetta blogg er skemmtilegt ferðalag í mínum huga.

 


mbl.is Með eyjuna á heilanum í yfir áratug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað langar þig að verða þegar þú verður stór?

Senecatheyounger

“Við skulum meta mikils og elska ellina, því hún er full af ánægju ef maður kann að njóta hennar. Bestu ávextirnir hafa náð fullum þroska.” - Seneca

Það er auðvelt að dýrka æskuna og gleyma því hversu dýrmæt eldri árin geta verið. Þegar við erum ung vinnum við af krafti við að læra og síðan nýta þeirrar þekkingar og skilnings sem við höfum aflað okkur til að byggja okkur framtíð. 

Við reynum að uppfylla allar okkar grunnþarfir, og það getur tekið töluverðan tíma. Við höfum kraft til að vinna á meðan okkur skortir þroska, það er ekki fyrr en við erum að fullu þroskuð sem við þurfum ekki lengur að vinna - þá er kominn tími til að njóta lífsins til fullnustu, með þeim hætti sem hver maður hefur undirbúið sig. 

“Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?” er algeng spurning í leikskóla og fyrstu árum grunnskóla. Margir vilja verða slökkviliðsmenn eða læknar, löggur eða kennarar, kannski vinna í fiski eða við gatnagerð. 

Þegar við höfum fundið okkar starfsferil og unnið störf okkar í einhver ár, hvernig væri þá að spyrja þessarar spurningar aftur. “Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?” 

Ég veit fyrir mitt leyti að mig langar að ferðast um heiminn, mig langar að skrifa, mig langar að hugsa, mig langar að læra svo lengi sem ég lifi, mig langar að elska fólkið í kringum mig, og mig langar að gefa af mér eins mikið og ég get.

Hvort ætli sé betra eða verra fyrir tveggja ára barn? Að eiga hrokafullan og ungan föður sem hugsar ekkert um það eða auðmjúkan og aldraðan föður sem kann að meta tímann með barni sínu?

Hvað um þig? Hvað langar þig að verða þegar þú verður stór?

 

Mynd: The Common Reader

 


mbl.is Áskorun að ala upp ungt barn 73 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju er gott að fagna því sem vel er gert?

1390617

„Það er í samræmi við náttúruna að sýna vinum okkar ástúð og að fagna góðum árangri þeirra, rétt eins og hann væri okkar eigin. Því ef við gerum þetta ekki mundi dyggðin, sem styrkist aðeins með því að beita henni, dvína og hverfa úr okkur. — Seneca

Gærdagurinn var svolítið sérstakur. Rafmagnið gaf sig á Suðurnesjum og því brunuðum við konan úr Grindavík í Kópavoginn til að fylgjast með leiknum gegn Suður Kóreu. Þar tók við að kveikja á sjónvarpstæki og stilla á RÚV, sem var miklu flóknara heldur en að ýta á einn takka. Við þurftum að átta okkur á hvernig ýmis tæki spila saman til að láta þetta ganga upp, og þegar ég var á endanum að gefast upp, birtist ekki þá frænka mín sem bjargaði málunum, og kvaddi með orðunum: “Þú slekkur svo á sjónvarpinu með að ýta á rauða takkann.”

Það var mikill fögnuður að geta séð seinni hálfleik í leiknum, sem Íslendingar unnu auðveldlega, og við fögnuðum hverju marki sem hvert gat gefið krónu afslátt til bensínkaupa í dag. Mér fannst gaman að sjá hóp af sjö drengjum dansa á áhorfandapöllunum sem höfðu málað ÍSLAND á brjóstkassa sína og svo bætt við einu upphrópunarmerki, sjálfsagt til að tryggja að allir gætu verið með. Þetta fannst mér gaman.

Ekki var verra að Íslendingar unnu leikinn með tólf marka mun, en það allra fallegasta var að sjá hvernig bæði leikmenn og áhorfendur fögnuðu sigrinum eftir að leiknum lauk. Áhorfendur sungu lagið “Ég er kominn heim” og það skemmtilega gerðist að leikmenn urðu að áhorfendum sem fögnuðu fólkinu í stúkunni og áhorfendur að leikmönnum sem dönsuðu og fögnuðu innilega. 

Það að fagna þegar einhverjum gengur vel telst til dyggða, enda hefur þessi fögnuður ekki aðeins góð og hvetjandi áhrif á þann sem vann sigurinn, heldur einnig á þann sem fagnar sigrinum. Með því að fagna erum við að þjálfa kærleiksvöðva í sálarlífi okkar og eftir því sem við fögnum og hrósum meira, því ríkari verðum við sjálf af kærleika og þakklæti, svo framarlega sem fögnuðurinn er framkvæmdur af einlægni, og aðrar dyggðir ennþá yfirsterkari löstum í okkar sálarlífi. 

Fyrst verið er að tala um fögnuð sem dyggð, þá má velta fyrir sér hver andstæða hans er og hvaða áhrif hann hefur á bæði þá sem verða fyrir honum og sálarlífi þess sem gefur hann frá sér. Andstæða fagnaðar er gagnrýni, og þá erum við ekki að tala um gagnrýna hugsun - sem er allt annað fyrirbæri, heldur stingandi gagnrýni sem lýsir kannski frekar tilfinningunni öfund en gleði; en sömu aðstæður geta vakið þessar ólíku kenndir í ólíkum manneskjum.

Á meðan fögnuður hjálpar okkur að kveikja ljósin í eigin sál er gagnrýni dugleg að slökkva þessi ljós. Bæði er hún tilgangslaus eftir sigur, er leiðinleg áheyrnar, þar að auki er hún skaðleg þeim sem ber hana á borð, því hún eykur aðeins á þessa öfund og leiðindi sem einstaklingurinn finnur fyrir. Reyndar er gagnrýni gagnrýninnar vegna einnig vita gagnslaus þegar lið tapar, en gagnrýni sem hefur uppbyggingu og aukinn skilning sem markmið er hins vegar allt annað fyrirbæri sem ber að fagna í sjálfu sér.

 

Mynd: mbl.is


mbl.is Mikil gleði þegar sætið í milliriðli var tryggt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig gerir tap okkur betri eða verri?

325725386_3484403388461735_8035076075392823365_n-1170x650.jpg

„En dauði og líf, heiður og skömm, sársauki og ánægja — allt þetta kemur jafnt fyrir góða menn og slæma, sem gerir okkur hvorki betri né verri. Þess vegna eru þessir hlutir hvorki góðir né illir." -Markús Árelíus, Hugleiðingar Bók 2, grein 11

 

Í gær horfði ég á leikinn. Íslendingar spiluðu fyrri hálfleikinn af stakri snilld og voru komnir fimm mörkum yfir gegn Ungverjum í hálfleik. Draumurinn hélt svo áfram í seinni hálfleik þar til slæmi kaflinn kom og hætti aldrei. Það var eins og liðið hefði dáið. Þeir höfðu kannski sprengt sig með snilldinni í fyrri hálfleik. Mistök sem sáust varla í fyrri hlutanum urðu algeng í þeim seinni og andstæðingurinn, eins og náttúruafl, sýndi enga miskunn og refsaði fyrir hvert einasta feilspor. 

Tapið sem slíkt var ekki skemmtileg upplifun, en í sjálfu sér er það hvorki gott eða illt, frekar en lífið og dauðinn, heiður og skömm, sársauki og ánægja; þó að vissulega lítur út fyrir að strákarnir okkar hafi upplifað dauða, skömm og sársauka í þessu tapi.

En rétt eins og dauðinn getur gefið lífinu tilgang, með öflugu hugarfari, þá geta þessar sterku tilfinningar verið notaðar sem viðmiðun fyrir framtíðina, áminning um það sem getur gerst og það sem mun einhvern tíma aftur gerast. Ósigur, svo framarlega sem við lifum hann af, er ekki algjör útrýming - lífið er ekki farið - sálin er ekki farin. Ef við lifum fram á næsta dag og notum þessar tilfinningar af hugrekki og visku geta þær orðið okkur innblástur til að gera ennþá betur. 

Hver lærdómurinn verður er ómögulegt að segja, en hver og einn liðsmaður hlýtur að leita inn á við og spyrja sig hvað hægt er að læra á þessu. Þetta er tækifæri til að skoða sterkar tilfinningar af dýpt, og þegar slíkt tækifæri gefst er vel þess virði að rannsaka þær, og þá er ég ekki að tala um að velta sér upp úr þeim, heldur af skynsemi reyna að skilja þær og það sem þær geta kennt okkur. Að hunsa þær, stinga heyrnartólum upp í eyrun og setja einhverja tónlist á, og stara út í tómið er vita gagnslaust. Að ræða þessa hluti, átta sig á hvað gerðist, skilja af hverju það gerðist, það gefur forsendur til að gera ennþá betur næst.

 

Mynd af heimasíðu HSÍ


mbl.is Óhressir með viðbrögð íslensku leikmannanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju þurfum við dómgreind, heilindi og þakklæti?

gavel-3577060_1280

“Það eina sem þú þarft er þetta: skýra dómgreind, starfa af heilindum fyrir samfélagið; og þakklæti fyrir það sem að höndum ber.” - Markús Árelíus, Hugleiðingar, 9.6

Markús Árelíus var keisari yfir Rómaveldi, hugsanlega sá besti þeirra allra, en pælingar hans og speki hafa lifað fram til dagsins í dag, enda virtist hann með eindæmum hófsamur og vitur maður, sem vildi til að var keisari. Einn af þeim sem hann tók sér til fyrirmyndar var þrællinn Epíktet, sem bjó í sömu borg og hann einhverjum áratugum áður, en hann fékk aðgang að ritum hans, og þau höfðu djúp áhrif á hann. Hvort það hafi verið vegna skapgerðar Markúsar eða þeirrar visku sem í ritunum bjó verður ekki dæmt um hér, en líklega var það hvort tveggja.

Það er nefnilega mikið af fólki sem kemst til valda á öðrum forsendum en þeirri að hafa góða dómgreind eða framkvæma með heill almennings í huga. Oft eru veigaminni leiðarljós sem ráða för, og þá annað hvort hugsjónir ákveðinnar stjórnmálastefnu eða hagsmunir ákveðins hóps. Þetta tvennt síðarnefnda er sjálfsagt algengara í lýðræðisríkjum, heldur en manngerð þess sem öllu ræður.

Þarna komum við að áhugaverðum fleti. Við virðum lýðræðið fyrir að gefa öllum hluta af valdinu, við fáum öll að kjósa og enginn er yfir lögin hafinn. Stjórnmálamenn eru kosnir til valda, og þó að þeir noti alls konar brellur eins og markaðssetningu og sölutækni, sem er misjafnlega áhrifarík eftir því hversu klárt markaðsfólk er í liðinu og hversu mikinn pening þetta fólk hefur í höndunum, þá virðist það ráða úrslitum hver lítur best út og hver er mest sannfærandi, frekar en endilega hver er besti fulltrúi þjóðarinnar, með bestu dómgreindina og nógu mikið vit til að framkvæma í samræmi við það.

Í lýðræðisríki virðist ekki skipta miklu máli hvort að þeir sem kosnir eru til valda séu hæfir í verkin, stofnanirnar sem þau ráða yfir virðist skipta meira máli, og að stofnanirnar séu þessum kostum gefnar að þar stjórni hæfileikaríkt fólk með góða dómgreind og geti fylgt henni eftir í verki. Þannig þurfa dómstólar, lögregla, útlendingaeftirlit, pósturinn, skólar, samgöngustofa og allar þessar stofnanir að vera vel reknar. Málið er að farið er lýðræðislega að ráðningu fólks og gætt þess að það hafi ekki aðeins þá hæfni sem þarf í starfið, heldur bestu hæfni sem til staðar er meðal landsmanna.

Á tímum Markúsar hefur hann sjálfsagt verið yfirvald yfir slíkum stofnunum og séð til að rétta fólkið fengi réttu störfin, á meðan aðrir keisarar hafa sjálfsagt farið auðveldu leiðina, sem var að velja vini og vandamenn í stjórnunarstöður, sem er reyndar nokkuð sem virðist hafa gerst á Íslandi á síðustu misserum, nokkuð sem almenningur sér sem spillingu því slík hegðun er ekki í anda lýðræðis og almannahags, heldur virðist þarna kominn upp einhver valdahroki sem á meira líkt við óvandaða harðstjórn en heilbrigt lýðræði.

En lýðræðisleg vinnubrögð hljóta að felast í að það skipti ekki máli hvort hinn kosni fulltrúi hafi skýra dómgreind, starfi af heilindum og í samræmi við hana og sýni þakklæti þeim verkefnum sem á vegi hans verða; heldur eru ferlar til staðar sem koma í veg fyrir að einræðistilburðir nái að brjótast fram í lýðræðisríkjum.

Til að svara spurningunni sem fyrst var spurt, þá þurfum við dómgreind, heilindi og þakklæti til að vera manneskja sem lifir og starfar af heilindum, og þannig er best að lifa lífinu.

 

Mynd eftir 3D Animation Production Company frá Pixabay


Af hverju höfum við stundum rangt fyrir okkur?

confused-880735_1280

 

“Þegar einhver vinnur þér skaða, eða talar illa um þig, mundu að hann hegðar sér eða talar út frá þeirri forsendu að það sé það eina rétta í stöðunni. Nú er mögulegt að hann fylgi öðrum forsendum en þær sem þú telur réttar, og heldur að eitthvað annað sé rétt. Þess vegna, ef hann dæmir af röngum forsendum, er það hann sem hlýtur skaða, þar sem hann hefur verið blekktur af eigin skoðun. Ef einhver telur að hið sanna sé ósatt, þá verður sannleikurinn ekki fyrir skaða, heldur sá sem hefur rangt fyrir sér um hann. Með því að fylgja þessum reglum eftir munt þú af auðmýkt geta umborið þann mann sem smánar þig, og svarað þegar svona gerist: ‘Hann hafði þessa skoðun’.” - Epíktet

Það kemur fyrir hjá okkur öllum einhvern tíman að hafa rangt fyrir okkur. Sumir átta sig á því þegar þeim hefur verið bent á það og geta leiðrétt sig. Aðrir átta sig á því en ákveða að halda samt í hið ranga. Enn aðrir átta sig engan veginn og það verður tilviljun háð hvort þeir slysist til að leiðrétta sig eða ekki.

Vont er það hugarfar sem heldur fast í rangar skoðanir, og ennþá verra er það þegar haldið er í slíkar skoðanir þrátt fyrir að vita þær rangar.

Þegar ekki er hlustað á aðrar manneskjur sem hafa ólíkar skoðanir, þá er engin leið til að rétta sig við. Telji maður sig alltaf vita best, er maður dæmdur til að standa röngu megin við sannleikann. 

Það getur verið erfitt að átta sig á að manns eigin skoðun getur verið röng, en auðvelt að átta sig á hvort að maður haldi í rangar skoðanir. Við þurfum að spyrja sjálf okkur hvort við séum að hlusta á þá sem eru á öðru máli en við, hvort við berum virðingu fyrir því sem viðkomandi hefur að segja og hugsar, eða hvort við dæmum slíka manneskju sem ómerka fyrir að hafa aðra skoðun en við sjálf?

Ef við hlustum ekki á hina manneskjuna, þá er sá sem ekki hlustar á rangri leið. Ef við hins vegar hlustum og metum rök annarra, þó að okkur geðjist ekki að þeim í fyrstu, þá erum við á réttri leið. Við höfum ekki alltaf rétt fyrir okkur. Við höfum ekki alltaf rangt fyrir okkur heldur. Þeir sem læra af eigin mistökum munu finna góðan farveg, hinir eru vísir til að villast í eigin þoku.

 

Mynd eftir Steve Buissinne frá Pixabay 


mbl.is Útilokuð frá fundum og vinnu nefndarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver fyllir mæli reiði þinnar?

strength-1148029_1280

„Ef einhver reyndi að ná stjórn á líkama þínum og gerði þig að þræl, myndir þú berjast fyrir frelsi. Samt gefur þú alltof auðveldlega hug þinn þeim sem móðga þig. Þegar þú hlustar á orð þeirra og leyfir þeim að ráða yfir hugsunum þínum, gefur þú þeim stjórn yfir þér. - Epíktet

 

Þegar einhver móðgar þig, er reiðin sem þú finnur ólga í brjósti þínu ekki eitthvað sem hin manneskjan kveikti í þér, heldur eitthvað sem þú kveikir sem eigið viðbragð við ytra áreiti. Um leið og þú leyfir þér að reiðast yfir ytra áreiti, þá eru það viðbrögð sem þú velur, hugsanlega vegna þess að þér finnst þau vera hið eina rétta í stöðunni, sama þó að afleiðingin verði sú að þú missir jafnvægið um stund. Það er þá sem þú gefur á þér höggstað.

Undanfarið hefur verið ólga og reiði í íslenskri verkalýðsbaráttu, það hefur ekki farið framhjá neinum. Mörgum finnst ómaklega að sér vegið, að traust sé brotið, að svik hafi verið framin, haldið er fram að samningar séu lélegri en þeir eru. Þetta er vísbending um að reynt sé að reita fólk til reiði, og viðbrögðin sýna að það takist stundum ágætlega. Afleiðingin getur orðið sú að verkalýðshreyfingin missir jafnvægið um stund og gefur á sér höggstað.

Það er þekkt stjórntæki að nota lægsta samnefnarann til að fylkja fólki saman, yfirleitt á móti einhverjum öflum, fólki eða hugmyndum; reita fólk til reiði, gera það svo reitt að það tapar öllum sönsum, geti ekki lengur hugsað skýrt og skynsamlega. Missi jafnvægið.

Sumir stjórnmálamenn hafa notfært sér reiði almennings til að ná völdum, bæði á Íslandi og víða um veröld. Þeir benda á einhverja aðra og kenna þeim um ríkjandi ástand, og þá skiptir engu hvort að þeir hafi rétt eða rangt fyrir sér, segi satt eða ljúgi. Þeir þurfa að virka sannfærandi og sýna að þeir séu að berjast fyrir fólkið sem hefur verið beitt órétti. Þannig ná þeir völdum.

Afleiðingarnar eru vaxandi óánægja, meira af samsæriskenningum, fleira fólk sem trúir að það sé umkringt óvinum, báðir hópar sannfærðir um að hinn hafi rangt fyrir sér.

Þetta er hættulegur leikur sem virðist festast í sömu hjólförum, aftur og aftur. Ólga verður til í samfélaginu, fólk byrjar að móðga hvert annað og reiðist ógurlega. Sums staðar í heiminum brjótast jafnvel út styrjaldir. Á endanum fellur á dúnalogn og sannleikurinn skríður fram í dagsljósið með tíð og tíma, og hlutirnir skýrast. Þegar reiðin er farin, fá skynsemi, rökhugsun og hugsandi fólk tíma til að átta sig á hvað gerðist. 

Lærdómurinn kemst síðan í fræði og skólabækur. Nýjar kynslóðir læra um það sem gerðist á árum áður, en svo gerist eitthvað, aftur. Það kemur kreppa, einhver stjórnmálamaður ákveður að reita fólk til reiði, finnur samnefnara fyrir reiðina og sama sagan endurtekur sig. Leikritið er það sama, hlutverkin eru þau sömu, en það eru komnir nýir leikarar í hlutverkin.

Alltof margir eru tilbúnir að gefa eigin hug og atkvæði slíku valdi. Ekki láta það gerast! Mundu að reiðin í þér er eitthvað sem bara þú getur stjórnað, og ef þú gefur einhverjum öðrum vald yfir reiði þinni er voðinn vís. 

Stjórnaðu skapi þínu vel. Það er hluti af því að byggja betra samfélag og betri heim.

 

Mynd eftir wendy CORNIQUET frá Pixabay


mbl.is „Mælirinn orðinn fullur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getum við lært þegar við teljum okkur vita?

"Það er ómögulegt fyrir mann að læra þegar hann telur sig vita." - Epíktet

pma0ruF2m0hoxMM8zZ2evR57amjdCdmyfmBk2LTO

Til að læra nýja hluti þurfum við að vera opin fyrir námi. Til að vera opin fyrir námi þurfum við auðmýkt. Við þurfum að átta okkur á því að við vitum ekki allt, og við þurfum að halda athyglinni og huganum opnum, en það er einn lykill að því að læra.

Getur verið að sérfræðingar á einhverju sviði gefi okkur þá tilfinningu að þeir viti meira en þeir í raun og veru vit, að þeir falli í þá gryfju að sannfæra okkur um sína þekkingu frekar en að sýna hana í verki? Því ef þér tekst að sannfæra einhvern um sérfræðiþekkingu gætirðu tryggt þér stöðu sem gæti verið grundvöllur þess að þú starfir við það sem þú telur þig sérfræðing í.

Ef það er eitthvað sem ég hef lært við mitt nám og störf, er það hversu mikið það er sem ég veit ekki. Ég hef fullt af hugmyndum sem byggja á fræðum og reynslu, beiti sumum og öðrum ekki, og næ oftast þeim árangri sem er vænst. En ég reyni stöðugt að minna sjálfan mig á auðmýktina, að það sé sífellt eitthvað nýtt sem hægt er að læra, að þekking er aldrei fullkomin heldur vöxum við með henni, rétt eins og tré sem lætur hugmyndir sínar um hæð himinsins ekki stoppa sig frá því að vaxa áfram og lengra upp á við; og á sama tíma leyfa eigin rótum að grafa dýpra í jarðveginn og leita sér næringar. 

 

Mynd: Interesting Engineering


mbl.is Leysti 20.000 ára gamla gátu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband