Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Óskarsverðlaunum lokið

Ég er mjög ánægður með sæta sigra No Country for Old Men. Ég hafði ekki þorað að veðja á að hún yrði valin sem besta mynd ársins, af því að oftast verða þær útundan. Það var bara greinilega engin spurning þetta árið. Frábær kvikmynd sem ljóst er að maður verður að sjá aftur.

Spá mín hitti ekki alveg í mark. Til dæmis giskaði ég rangt á þær konur sem unnu til verðlauna, en mér fannst Tilda Swinton ekki sýna neinn stórleik í Michael Clayton, og hef ekki séð La Vie en Rose um Edith Pfiafh. Annars hafði ég tilfinningu fyrir öllum öðrum myndum sem unnu til verðlauna í þessum 10 flokkum sem ég tók fyrir.


Don Hugur: 60% rétt.

Don Hjarta:  60 % rétt.

Spá: 50% rétt. 

 Sigurvegari
 Don HugurDon HjartaSpá
Besta teiknimyndin
 
Bestu tæknibrellurnar     
Besta frumsamda handrit
    
Besta handrit byggt á áður útgefnu efni     
Besta leikkona í aukahlutverki
    
Besti leikari í aukahlutverki
    
Besta leikkona í aðalhlutverki
    
Besti leikari í aðalhlutverki    
Besta leikstjórn

  
 Besta kvikmynd
    


80. Óskarsverðlaunin: Spáð í spilin

Þá er komið að Óskarsverðlaunadeginum og að spá í spilin. Ég geri mér fulla grein að vonlaust er að vita hvað fólkið er að pæla sem gefur atkvæði, en oft held ég að verðlaunin fái sú mynd sem hefur verið best markaðssett af framleiðendum. Ég held að Atonement muni sópa til sín verðlaunum í kvöld, ekki vegna þess að hún er góð kvikmynd, heldur vegna þeirrar gífurlega öflugu auglýsingaherferðar sem hefur verið í gangi til að tryggja henni atkvæði. En þetta kemur allt fljótlega í ljós.

Ég nenni ekki að spá í kjóla eða klæðnað á rauða dreglinum.

Ég mun ekki spá í bestu stuttmyndir eða heimildamyndir, enda hef ég ekki séð neinar þeirra. Hins vegar er ég búinn að fylgjast nokkuð vel með kvikmyndum í fullri lengd á árinu, en þar sem ég er að fylgjast með þessu í tómstundum, næ ég náttúrulega ekki að sjá allt það sem mig langar til að sjá. Ég hef ekki heldur fylgst mikið með kvikmyndum utan Hollywood, þannig að ég ræð engan við að velja bestu erlendu myndina, fyrir utan Persepolis.

Don Hugur kemur með þá spá sem Don Hrannar heldur að vinni, sem kalt mat burtséð frá eigin smekk. Don Hjarta byggir á tilfinningu Don Hrannars, og Don Uppreisn stingur upp á mynd sem var ekki einu sinni tilnefnd, og hefði átt að vera það og ætti meira að segja jafnvel að vinna. Endanleg spá er hins vegar sú mynd sem Hrannar trúir að muni vinna, en hefur engan tíma til að útskýra hvers vegna. 

Besta teiknimyndin:

Tilnefndar eru:

PersepolisRatatouilleSurf's Up

Don Hrannar pælir:

Don Hugur velur: RatatouilleDon Hjarta velur: PersepolisDon Uppreisn velur: Beowulf

Don Hrannar spáir: Ratatouille

 

Bestu tæknibrellur:

Tilnefndar eru:

The Golden CompassPirates of the Caribbean: At World's EndTransformers

Don Hrannar pælir: 

Don Hugur velur: TransformersDon Hjarta velur: The Golden CompassDon Uppreisn velur: 300

Don Hrannar spáir: Transformers

 

Besta frumsamda handrit:

    
Diablo Cody (Juno)Nancy Oliver (Lars and the Real Girl)Tony Gilroy (Michael Clayton)Brad Bird, Jan Pinkava, Jim Capobianco (Ratatouille)Tamara Jenkins (The Savages)

Don Hrannar pælir:

   
Don Hugur velur: RatatouilleDon Hjarta velur: JunoDon Uppreisn velur: Hot Fuzz

Don Hrannar spáir: Juno (Diablo Cody)

 

Besta handrit byggt á áður útgefnu efni:

     
Christopher Hampton (Atonement)Sarah Polley (Away from Her)Ronald Harwood (Le Scaphandre et le Papillon)Joel Coen og Ethan Coen (No Country for Old Men)Paul Thomas Anderson (There Will Be Blood)

Don Hrannar pælir:

   
Don Hugur velur: No Country for Old MenDon Hjarta velur: No Country for Old MenDon Uppreisn velur: Stardust

Don Hrannar spáir: Atonement (Christopher Hampton)

 

Besta leikkona í aukahlutverki:

     
Cate Blanchett (I'm Not There)Ruby Dee (American Gangster)Saoirse Ronan (Atonement)Amy Ryan (Gone Baby Gone)Tilda Swinton (Michael Clayton)

Don Hrannar pælir:

   
Don Hugur velur: Cate Blanchett (I'm Not There)Don Hjarta velur: Cate Blanchett (I'm Not There)Don Uppreisn velur: Romola Garai (Atonement)

Don Hrannar spáir: Saoirse Ronan (Atonement)


 

Besti leikari í aukahlutverki

     
Casey Affleck (The Assassination of Jesse James by the Coward Robert Ford)Javier Bardem (No Country for Old Men)Philip Seymour Hoffman (Charlie Wilson's War)Hal Holbrook (Into the Wild)Tom Wilkinson (Michael Clayton)

 
Don Hrannar pælir: 

   
Don Hugur velur: Javier BardemDon Hjarta velur: Javier BardemDon Uppreisn velur: Nick Frost (Hot Fuzz)

Don Hrannar spáir: Javier Bardem (No Country for Old Men)

 

Besta leikkona í aðalhlutverki:

     
Cate Blanchett (Elizabeth: The Golden Age)Julie Christie (Away from Her)Marion Cotillard (La Vie en Rose)Laura Linney (The Savages)Ellen Page (Juno)

 
Don Hrannar pælir: 

   
Don Hugur velur: Ellen PageDon Hjarta velur: Ellen PageDon Uppreisn velur: Angelina Jolie (A Mighty Heart)

Don Hrannar spáir: Julie Christie (Away from Her)

 

Besti leikari í aðalhlutverki:

     
George Clooney (Michael Clayton)Daniel Day-Lewis (There Will Be Blood)Johnny Depp (Sweeney Todd: The Demon Barber of Fleet Street)Tommy Lee Jones (In the Valley of Elah)Viggo Mortensen (Eastern Promises)

Don Hrannar pælir: 

   
Don Hugur velur: Daniel Day-LewisDon Hjarta velur: Johnny DeppDon Uppreisn velur: Simon Pegg (Hot Fuzz)
 

Don Hrannar spáir: Daniel Day-Lewis (There Will Be Blood)

 

Besta leikstjórn:

     
Paul Thomas Anderson (There Will Be Blood)Ethan Coen og Joel Coen (No Country for Old Men)Tony Gilroy (Michael Clayton)Jason Reitman (Juno)Julian Schabel (Le Scaphandre et le Papillon)

Don Hrannar pælir:

  
Don Hugur velur: Ethan Coen og Joel CoenDon Hjarta velur: Ethan Coen og Joel CoenDon Uppreisn velur: Edgar Wrigth (Hot Fuzz)

Don Hrannar spáir: Ethan Coen og Joel Coen (No Country for Old Men)


 

Besta kvikmynd 2007

     
AtonementJunoMichael ClaytonNo Country for Old MenThere Will Be Blood

Don Hrannar pælir:

  
Don Hugur velur: No Country for Old MenDon Hjarta velur: No Country for Old MenDon Uppreisn velur: 3:10 to Yuma

Don Hrannar spáir með óbragð í munni: Atonement



Atonement (2007) **1/2

Hin þrettán ára Briony Tallis (Saoirse Ronan) verður vitni að atburðum sem hún misskilur svo hrikalega að vitnisburður hennar eyðileggur fjölmörg líf. Hún heldur að Robbie Turner (James McAvoy) hafi nauðgað frænku hennar, vegna þess að hún hafði lesið bréf sem hann hafði skrifað um kynfæri systur hennar, Cecilia Tallis (Keira Knightley) og síðan komið að þeim í eldheitum ástaratlotum.

Vitnisburður Briony verður til þess að Robbie er sendur í fangelsi þar sem hann þarf að dúsa í þrjú og hálft ár, þar til seinni heimstyrjöldin hefst, en þá velur hann að fara frekar í herinn og berjast í Frakklandi við nasista heldur en að dúsa lengur bakvið rimla.

Þegar Briony (Romola Garai) hefur náð 18 ára aldri áttar hún sig á eigin misgjörðum og leitar leiða til að bæta fyrir þær. En það eru miklar hindranir á vegi hennar sem koma í veg fyrir að hún geti nokkurn tíma náð sáttum við eigin samvisku. Hvernig er nokkurn tíma hægt að bæta fyrir nokkuð sem hefur eyðilagt svo mikið?

Það er mikið lagt í umgjörð Atonement. Umhverfið er fallegt og ljóðrænt, og svo er eitt langt skot í Frakklandi sem nær yfir nokkrar mínútur, sem er gífurlega vel gert. Mér fannst Romola Garai afar góð sem hin átján ára Briony, en leikur Knightley, sem tilnefnd er til Óskarsverðlauna, þótti mér bara ósköp venjulegur, ekkert spes - ekki nóg til að fá tilnefningu.

Satt best að segja finnst mér Atonement vera frekar tilgerðarleg kvikmynd sem teygir alltof mikið lopann. Hún er greinilega framleidd með Óskarinn í huga, þar sem búningadrömu fá oft tilnefningar. Mér fannst hinn óvænti endir ekkert sérlega sniðugur, og held að úr hefði orðið betri mynd ef höfundar hefðu ekki reynt að blekkja áhorfendur með trikkum.

Ég hafði alltaf á tilfinningunni að einhver væri að kalla til mín og segja mér - sjáðu hvað þetta atriði er flott gert, sjáðu smáatriðin, sjáðu hvað mikið var lagt í sviðsmyndina fyrir hið hernumda Frakkland, sjáðu - endirinn útskýrir allt. Atonement er meðalmynd eins og Queen var í fyrra, búningadrama sem virðist ætla að ná góðum árangri á verðlaunaathöfnum, enda engin mynd jafnvel auglýst.

Mér finnst trikkið með óáreiðanlega sögumanninn ekki ganga upp, en skil samt hvað höfundarnir voru að fara.

Sýnishorn:


Indiana Jones rænir örkinni aftur

Þá er farið að styttast í Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull (hrykalegur titill) og fyrsta sýnishornið komið. Það sýnir okkur Indiana Jones (Harrison Ford) ræna örkinni úr Raiders of the Lost Arc úr bandarísku vöruhúsi, og Cate Blanchett (fær líklega Óskarinn fyrir I'm Not There) sem svarthærðan rússneskan njósnara. Einnig má sjá Ray Winstone (Beowulf | The Proposition) bregða fyrir og þeim sem fær líklega hattinn eftir þessa mynd, ungstjörnunni Shia LaBeouf (Transformers | Disturbia) .

Það verður spennandi að sjá hvernig tekst til hjá Harrison Ford. Nýlega hefur bæði Bruce Willis (Live Free or Die Hard) og Sylvester Stone (Rocky Balboa | Rambo) tekist að endurvekja eigin ferla á sextugsaldri. Nú er vonandi komið að Fordinum að slá í gegn einu sinni enn, og leika svo kannski Han Solo úr Star Wars einu sinni enn. Mér líst ágætlega á þetta sýnishorn, en samt nokkuð ljóst að Spielberg er ekki að rembast við frumleika í þetta skiptið. 

Ætlar þú að sjá Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull í bíó?


Rambo (2008) ****

 

Sarah Miller (Julie Benz) og unnusti hennar Michael Burnett (Paul Schulze) eru á leið til Búrma í átta manna hóp sem boðberar kristinnar trúar. Þau hafa heyrt af gereyðingu þjóðarbrota sem eiga sér stað og vilja koma einhverju góðu til leiðar með því að fræða og hjúkra fólkinu.

Þau reyna að fá bandarískan veiðimann gleraugnaslanga til að sigla með þau frá Tælandi til Búrma. Í fyrstu segir hann þvert nei, og bendir fólkinu vinsamlegast að fara heim þar sem enginn getur breytt neinu með bókum og hjúkrun í stríðshrjáðu landi, óvarin og vopnlaus. Loks samþykkir hann þó þegar Sarah spyr hann hvort að það sé ekki þess virði að bjarga þó ekki sé nema einu lífi. Svarið sem John Rambo (Sylvester Stallone) gefur með augnaráðinu er nóg til þess að áhorfendur viti að þessi eina manneskja sem hann telur þess virði að bjarga er Sarah Miller sjálf.

Rambo samþykkir að fara með hópinn til Búrma. Eftir að hafa slátrað nokkrum sjóræningjum og vakið þannig mikinn óhug meðal farþeganna, skilur hann þau eftir í Búrma og heldur sína leið. Sarah og Michael sinna þorpsbúum þar sem börn hafa misst útlimi vegna jarðsprengja og fólk er vart læst. Það býr við bágar aðstæður sem versna til muna þegar herinn ræðst á þorpið og slátrar nærri öllum þorpsbúum, og handsama Sarah og Michael, ásamt nokkrum öðrum.

Þegar ekkert hefur heyrst frá hópnum í tíu daga er Rambo beðinn að fylgja hóp málaliða á staðinn þar sem hann skildi þau eftir. Hann er ekki lengi að samþykkja, og býr sér til nýja sveðju áður en lagt er af stað. Málaliðahópurinn er eins og klipptur út úr Predator (1987) með Arnold Schwarzenegger. Þeir gera sér ekki grein fyrir hvers lags vígvél siglir bátnum, nema leyniskyttan sem kölluð er Skólastrákur (Matthew Marsden), en hann áttar sig á hvers lags náungi Rambo er.

Hópurinn vill upphaflega ekki fá Rambo með í björgunarleiðangurinn, enda gamall kall sem þeir halda að muni hægja á þeim, en hann fer samt, - og gerir það sem hann gerir best. Eins og hann segir sjálfur, það er jafn auðvelt fyrir hann að drepa og það er fyrir aðra að anda. Við tekur sérstaklega vel uppbyggður björgunarleiðangur.

Tæknilega er Rambo gífurlega vel heppnuð. Það er langur skotbardagi sem hefði alveg eins getað verið leikstýrður af Spielberg, en hann er án nokkurs vafa stolinn úr þeim 20 fyrstu mínútum af Saving Private Ryan sem mest umtal vakti á sínum tíma. Handritið hentar viðfangsefninu fullkomlega og Stallone leikstýrir af stakri snilld. 2006 leikstýrði Stallone Rocky Balboa og tókst það ómögulega, að gera bestu Rocky myndina frá upphafi. Nú endurtekur hann leikinn, og gerir bestu Rambo myndina frá upphafi.

Til viðvörunar, þá er Rambo gífurlega ofbeldisfull mynd þar sem mannslíkamar eru bókstaflega tættir í sundur. Hún höfðar til allra lægstu hvata áhorfandans, en hún gerir það vel og af hreinskilni, - Stallone þykist ekki vera að gera eitthvað annað en ógeðslega og blóðuga stríðsmynd um aldna ofurhetju. Það eru engar pólitískar ræður, aðeins augnaráð og ofbeldi sem segja margfalt meira en nokkur orð.

Ef þú ferð að sjá Rambo í bíó, skaltu ekki eiga von á Howard's End, ballett eða fínni óperu, heldur drullugum leðjuslag frá upphafi til enda. Rambo höfðar til sömu hvata og þeirra sem fylgjast með kappleikjum - þú ferð til að sjá þinn mann rústa andstæðingnum, og dáist að því hvernig hann gerir það. Hvort þú skammist þín eitthvað fyrir að hafa gaman af jafn viðbjóðslegu ofbeldi og birtist hér, er svo allt annar handleggur, - sem vekur reyndar áhugaverðar spurningar um áhrif ofbeldisfullra kvikmynda á ofbeldi í samfélaginu, - spurningar sem ég þykist ekki getað svarað.

Ég gef Rambo fjórar stjörnur af fjórum mögulegum (myndir komast ekki upp í fimm stjörnur hjá mér nema ég sjái þær tvisvar og gefi þeim í bæði skiptin fullt hús), vegna þess að hún gerir nákvæmlega það sem henni er ætlað að gera, hvorki meira né minna. Hún er formúlumynd sem hefði eins getað verið gerð í Hong Kong, en formúlumynd sem hittir á allar réttu nóturnar á öllum réttu augnablikunum.

Ég er viss um að fjölmargir gagnrýnendur muni gefa Rambo slaka dóma þar sem að hún höfðar ekki til þeirra, hún er ekki nógu gáfuleg, hún er ekki falleg, hún er með of miklu ofbeldi - en þannig á Rambo að vera. Rambo á ekki að vera gáfuleg, heldur má hún sýna hráar og ljótar tilfinningar, og aðalpersónu sem er algjörlega týnd í heimi sem er henni óskiljanlegur. Rambo er vonsvikinn einstaklingur sem finnst heimurinn illur og trúir að einungis ill meðöl geti breytt einhverju, og þá ekkert endilega til hins betra.

 

Sýnishorn úr Rambo: 


No Country for Old Men (2007) ****

Lögreglustjóri í Texas, Ed Tom Bell (Tommy Lee Jones), fær inn á borð til sín ljótt mál, þar sem fíkniefnasmygl og fjöldamorð koma við sögu. Hann kemst að því að fyrrum hermaður úr Víetnam stríðinu, Llewelyn Moss (Josh Brolin), hefur fundið nokkrar milljónir dollara eftir að allir sem komu að fíkniefnasölunni drápu hvern annan. Ed Tom hefur einnig komist að því að leigumorðinginn Anton Chigurh (Javier Bardem), auk mexíkóskrar mafíu er á eftir Moss, og að þeir munu ekki stoppa fyrr en peningurinn er kominn í þeirra hendur.

Þó að hægt sé að fullyrða að Ed Tom Bell sé í raun aðalsögupersóna No Country for Old Men, þar sem að hann virðist vera sá eini sem lærir eitthvað af öllum ósköpunum, þá fylgir frásögnin fyrst og fremst Llewelyn Moss og flótta hans undan hinum snartruflaða morðingja, Chigurh.

Llewelyn Moss er einn á veiðum þegar hann slysast til að finna leifarnar af miklu blóðbaði og tvær milljónir dollara. Hann finnur einn mann á lífi sem biður um vatnsopa. Eftir að hann finnur peninginn, fer hann heim og felur hann. Um miðja nótt man hann síðan eftir manninum sem bað um vatnssopann og fer aftur á staðinn þar sem blóðbaðið átti sér stað. Hann kemur að manninum dauðum, og ljóst er að setið er fyrir honum. Þar með hefst flótti hans. Honum tekst að senda eiginkonu sína, Carla Jean Moss (Kelly Macdonald) í burtu, og ætlar að losa sig við alla þá sem eru á eftir honum.

Á milli Llewelyn Moss og Antons Chigurh, sem drepur nánast allt sem vogar sér að anda í návist hans, er mexíkóska mafían - og fá þeir heldur betur að finna fyrir að ekki er gott að lenda í þessum blessaða Chigurh. Mafíuforinginn (Stephen Root) fær leigumorðingjann Carson Wells (Woody Harrelson) til að leita uppi Chigurh og drepa hann, en Chigurh er ekki bara geðveikur, hann er líka snjall og kann að ná stjórn á nánast hvaða aðstæðum sem er.

Á meðan allt þetta gengur yfir kemst Ed Tom nær sannleika málsins, - og þegar hann kemst að því hvílíkur óhugnaður er í gangi fallast honum hendur, og hann verður að endurmeta allt sitt líf og tilgang þess að starfa sem lögreglumaður í heimi þar sem fólki virðist standa algjörlega á sama um siðferði og lög.

No Country for Old Men fjallar í raun um það sem breytist í samfélaginu og það sem er varanlegt. Svo virðist sem að geðveikin, óheilindin og morðin séu varanleg, en að fólkið eldist og kemur að því að það áttir sig á að það ræður ekki lengur við þessa bilun. Hinir ungu telja sig hins vegar ráða við hana, hvort sem þeir gera það eða ekki. Og þeir biluðu kæra sig kollótta og halda bara áfram í sínum klikkaða heimi að gera klikkaða hluti. Fórnarlömbin eru hins vegar bara á röngum stað og á röngum tíma, hending ein virðist ráða hvort að þau lifi eða ekki.

Leikstjórnin er frábær, en allir leikararnir standa sig stórvel og þá sérstaklega hinn frábæri Javier Bardem, sem leigumorðinginn ósýnilegi Chigurh (sem enginn kann að bera fram). Ég mæli með spænsku myndinni The Sea Inside (Mar adentro (2004)), þar sem hann sýnir einnig stórleik. Josh Brolin og Tommy Lee Jones eru líka mjög traustir, og ljóst að Brolin (sonur James Brolin) kemur mjög sterkur inn árið 2007 eftir mörg mögur ár í Hollywood, en hann lék í fjórum áberandi kvikmyndum í fyrra: No Country for Old Men, Planet Terror, In the Valley of Elah og American Gangster. Það verður áhugavert að sjá hann í kvikmyndinni Bush, þar sem hann mun leika George W. Bush, en Oliver Stone mun leikstýra henni, en sú mynd kemur út 2009.

No Country for Old Men hefur fengið fjölda tilnefninga til Óskarsverðlauna í ár:

  • Besta kvikmyndatakan (Roger Deakins)
  • Besta leikstjórn (Ethan Coen og Joel Coen)
  • Besta klipping (Ethan Coen og Joel Coen)
  • Besta árangur í hljóði (Skip Lievsay, Cragi Berkey, Greg Orloff og Peter F. Kurland)
  • Besta árangur í hljóðblöndun (Skip Lievsay)
  • Besta kvikmynd ársins (Scott Rudin, Ethan Coen og Joel Coen)
  • Besti leikari í aukahlutverki (Javier Bardem)
  • Besta handrit byggt á áður útgefnu efni (Joel Coen og Ethan Coen)

Ég er handviss um að Javier Bardem fær Óskarinn fyrir sitt hlutverk, enda mjög eftirminnilegt illmenni þar á ferð. Ég reikna einnig með að Coen bræður fái Óskarinn fyrir bestu leikstjórn, bestu klippingu og besta handritið, - en er í meiri vafa um hvort þeir nái verðlaunum fyrir bestu kvikmynd, en miðað við samkeppnina á ég von á því að þeir taki þetta, enda eru snilldirnar Gone Baby Gone og 3:10 to Yuma ekki tilnefndar sem bestu myndirnar í ár.

 

Sýnishorn úr No Country for Old Men:


The Man from Earth (2007) ***1/2

Hefði ég séð þessi mynd áður en ég byrjaði á greinum mínum um 20 bestu vísindaskáldsögurnar, hefði The Man from Earth komist á þann lista. Hún er ein af bestu tímaflakksmyndum sem ég hef séð, þrátt fyrir að hún hafi verið hræódýr í framleiðslu og líti út eins og hún hafi verið tekin upp heima í stofu. Handritið er frábært! Atriðið hér á eftir sýnir þegar John Oldman trúir hóp virtra fræðimanna fyrir því að hann hafi lifað í 14.000 ár:
 

John Oldman (David Lee Smith) hefur verið háskólaprófessor í 10 ár og ákveður að flytja í burtu. Daginn sem hann ætlar að flytja koma nokkrir kollegar í heimsókn til hans og krefja hann svara um hvers vegna hann ætlar að fara, en Oldman hefur getið sér gott orð sem sögukennari. Oldman segist ætla að flytja í burtu og fá næði til að skrifa vísindaskáldsögu um mann sem hefur lifað í 14.000 ár.

Félögum hans finnst þetta mjög spennandi hugmynd og ræða saman um hvort hún gangi upp. Meðal félaga hans eru kærasta hans, Sandy (Annika Peterson), líffræðingurinn Harry (John Billingsley), biblíufræðingurinn Edith (Ellen Crawford), heimspekingurinn Dan (Tony Todd), sálfræðingurinn Gruber (Richard Riehle), mannfræðingurinn Art (William Katt), og háskólanemandinn Linda (Alexis Thorpe),

Þegar Oldman segir félögum sínum að hann sjálfur sé þessi maður sem lifað hefur í 14.000 ár, þá halda félagar hans fyrst að hann sé orðinn eitthvað ruglaður, eða algjör þrjótur að spila svona með þau. Oldman heldur fast í sína sögu og getur á undraverðan hátt svarað öllum spurningum félaga sinna af hreinskilni og sannfæringu. Sannfæring hans er svo mikil að hópurinn fer að trúa honum, en getur það ekki og gerir því allt sem í þeirra valdi stendur til að afsanna þessar hugmyndir hans.

Þegar í frásögn Oldman kemur fram að hann hafi meðal annars kynnst Búdda, þekkt lærisveina Jesús og farið með Kólumbusi til Ameríku, þá verður félögum hans ofboðið - en þeir eru samt fastir í sögu hans, og sitja með honum langt fram á kvöld til að afsanna hugmyndir hans. Það gengur bara frekar illa.

Handritið að The Man from Earth er hrein snilld. Jerome Bixbie skrifaði það á dánarbeðinu, og var reyndar það veikburða að hann varð að fá son sinn til að skrifa fyrir sig. Þetta handrit er hrein snilld og ótrúlegt að það skuli ekki vera tilnefnt til Óskarsverðlauna fyrir besta handritið í ár.

Reyndar standa leikararnir sig bara í meðallagi, og myndatakan er frekar hugmyndalítil. Það er ljóst að myndin var gerð fyrir mjög lítinn pening, en samt er hún margfalt betri en flestar þær myndir sem maður fær úr draumaverksmiðju Hollywood.

The Man from Earth er um lífið og dauðann, sannleikann, efasemdir og trú, trúarbrögð og trúarbragðaleysi, ódauðleikann og vonina, orsakir og afleiðingar.  Ég gat ekki slitið mig frá henni.

 

Myndir:

Jerome Bixby's The Man from Earth

 

Sýnishorn:


Tollurinn: með okkur eða á móti?

Það er ánægjulegt þegar svona fréttir berast, að þýfi hafi verið stöðvað á leið frá Íslandi af tolli og lögreglu. Þetta er það sem tollurinn á að einbeita sér að: að uppræta glæpi. Ekki ofsækja túrista. Til hamingju tollur!

En...

Á síðustu misserum hef ég heyrt mikið kvartað undan tollinum fyrir að níðast á einstaklingum fyrir litlar sakir, aðrar en að kaupa sér aðeins of mikið af dóti. Reyndar er frekar við tollalögin að sakast en tollverðina sjálfa, þar sem tollalögin takmarka innkaup á vörum erlendis. 

Ég vil segja stutta sögu. Hún er sönn. Þegar ég var í námi í Bandaríkjunum keypti ég mér fartölvu. Eftir námið kom ég með hana heim, og þar sem ég var ekki með mikil verðmæti önnur fór ég beint í gegnum græna hliðið. Ég sagði meira að segja tollverði frá því að ég var með þessa tölvu á mér. Svo leið ár. Ég fór utan og tók tölvuna með. Þegar ég kom heim aftur var ég stoppaður í tollinum og rukkaður um virðisaukaskatt fyrir þessa sömu fartölvu, sem ég viðurkenndi að sjálfsögðu að ég hafði keypt í Bandaríkjunum ári áður.

Mér fannst sárt að þurfa að borga þennan pening og mér fannst þetta óréttlát meðferð, að einstaklingur sem er með vinnutæki á sér skuli vera rukkaður fyrir það í tollinum, á meðan mér fannst að áherslan ætti að vera á glæpamönnum, frekar en fólki sem hefur gert það eitt af sér að kaupa hlut sem var nokkrum þúsundköllum of dýr samkvæmt íslenskum lögum.

Ég skil ekki af hverju við sættum okkur við þetta enn þann dag í dag. Fólki finnst það mikil niðurlæging þegar það kemur til Íslands og tollverðir horfa á það með grunsamlegu augnaráði, og geta með einni bendingu beðið fólk um að opna töskur sínar. Þetta væri gott og gilt ef rökstuddur grunur væri á að viðkomandi væri að smygla inn fíkniefnum eða þýfi; en þegar málið er farið að snúast um hvort að viðkomandi hafi keypt vörur fyrir fleiri þúsundkalla en má samkvæmt íslenskum lögum, þá eru tollverðir farnir að skjóta sig í fótinn og tapa virðingu landans.

Ég veit um fólk sem þorir ekki að taka myndavélar sínar eða fartölvur með í frí til útlanda af ótta við að tollurinn taki þær af þeim þegar heim er komið, nema það geti sýnt kassakvittun um hvar það keypti gripinn. Ég hef heyrt að það sé viðhorf flestra tollvarða að viðkomandi einstaklingur sé sekur þar til sakleysi sannast. Ef það er satt, þá er þetta ekki í lagi, og með slíkri háttsemi fær tollurinn almenning á móti sér, - og í stað þess að koma með vinsamlegar ábendingar sem gætu hjálpað, þorir enginn að segja neitt af ótta við að vera tekinn fyrir.

Alþingi mætti taka tollalögin alvarlega til endurskoðunar, sérstaklega þegar kemur að innflutningi einstaklinga á vörum til persónulegra nota, bæði úr ferðum og þegar þær eru keyptar á netinu.  

 


Tollurinn og lögreglan eiga einmitt að einbeita sér að því að vernda hinn almenna borgara gegn þrjótum sem vinna samfélaginu mein. Ég held að þeir geri þjóðinni lítið gagn með því að fara í gegnum persónulegar eigur fólks og spyrja hvað þær hafi kostað eða hvar þær hafi verið keyptar.

Hver er þín upplifun af tollinum á Íslandi? 

Myndir af vefsetrinu tollur.is 


mbl.is Erlend þjófagengi í sókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Hillary Clinton sætasta stelpan á ballinu?

Eftir að hafa tekið skoðanakönnunina Select a Candidate 2008 kemur í ljós að í skoðunum á ég mesta samleið með Hillary Clinton, en þeir Barack Obama og Mike Gravel fylgja fast á eftir. En hver er eiginlega þessi Mike Gravel, sem virðist eiga fullt tilkall til forsetaefnisins, en hefur kannski ekki nógu mikla fjármuni á bakvið sig til að keppa við Hollywoodmyndir eins og Clinton og Obama. (Reyndar finnst mér áhugavert að Huckabee og McCain eru mér algjörlega ósammála um öll málefnin nema eitt).

Það er búið að fjalla heilmikið um þau Clinton og Obama, en hér eru upplýsingar um Gravel sem ég þýddi úr Wikipedia:

Maurice Robert Gravel, fæddur 13. maí 1930, fyrrverandi öldungadeildarþingmaður frá Alaska frá 1969-1981. Hann tók skýra afstöðu gegn herskyldu í Víetnamstríðinu og lagði sjálfan sig í mikla hættu við að koma Pentagonskjölunum á framfæri árið 1971, en þau fjölluðu um innra skipulag og spillingu í tengslum við skipulagningu á Víetnamstríðinu. Eftir að Gravel hætti í pólitík 1980, fór hann í viðskipti en bæði fyrirtæki hans og hann sjálfur fóru á hausinn, auk þess að hann bjó við heilsubrest.

Hann hefur verið þekktastur fyrir hugmyndir sínar um beint lýðræði og þjóðarfrumkvæði, en þar gefst lýðræðisþegnum mögulegt að taka virkan þátt í lagasetningum, endurskoðunum, tillögum og kosningu um einstök mál. Hann hefur hvorki náð miklu fylgi í skoðanakönnunum né forkosningum, og því afar ólíklegt að hann verði forseti Bandaríkjanna. Hann kveðst hafa verið lesblindur sem barn, og er af fátæku fólki kominn. Hann ólst upp kaþólskur en hafnaði síðar meir hinni kaþólsku trú.

Hann var njósnari í kalda stríðinu, staðsettur í  Vestur Þýskalandi til frá 1951-1954. Hann er með háskólapróf í hagfræði, en borgaði námið með því að starfa sem barþjónn á hóteli og keyra leigubíl í New York.

 

Annars eru þetta stigin sem ég fékk í þessari könnun: 


Hillary Clinton
Score: 67



Barack Obama
Score: 60


Mike Gravel
Score: 60

 


Ron Paul
Score: 28

 


Mitt Romney
Score: 19

 


Mike Huckabee
Score: 7

 


John McCain
Score: 7


3:10 to Yuma (2007) ****

Dan Evans (Christian Bale) er bláfátækur nautgripabóndi sem er við það að fara á hausinn vegna mikilla þurrka. Hann skuldar 200 dollara en getur ekki borgað á réttum tíma. Hollander (Lennie Loftin) lánaði Evans peninginn upphaflega, en hefur meiri áhuga á að eignast land Evans heldur en að fá endurgreitt, því að hann sér fram á að geta stórgrætt á landeigninni þegar lestarteinar verða lagðir yfir svæðið. Hann sendir þrjótinn Tucker (Kevin Durand) til að brenna hlöðu Evans.

Þegar Dan Evans lætur þrjótana ganga yfir sig án þess að gera neitt í málinu, er fjórtán ára sonur hans, William (Logan Lerman) vonsvikinn og sár út í heigulshátt föður síns, og lætur hann pabba sinn heyra það. Stolt Dan Evans, sem misst hefur annan fótinn og hefur fengið örorkustyrk vegna þess, hefur verið illa sært. Honum finnst hann hafa brugðist fjölskyldu sinni.

Þegar Dan og synir hans tveir verða vitni að ráni á hestvagni þar sem fjöldamorðinginn og útlaginn Ben Wade (Russell Crowe) og gengi hans, hefur notað nautgripi Evans til að stoppa vagninn, og Wade tekur af þeim hesta þeirra, verður William enn sárari út í föður sinn en áður, og finnst hann vera mesti heigull í heimi. Dan er aftur á móti skynsamur að taka enga áhættu með syni sína tvo sér við hlið á móti heilu glæpagengi.

Einn lifir af árásina á vagninn, mannaveiðarinn Byron McElroy (Peter Fonda), og fer Dan með hann særðan í næsta bæ. Þegar yfirvöldum tekst að handsama Ben Wade, og Dan eru boðnir 200 dollarar til að fylgja honum að lestinni sem fer næsta dag kl. 3:10 til Yuma, ákveður hann að slá til, - enda hefur hann engu að tapa og til alls að vinna.

Sex manns ákveða að fylgja Ben Wade að lestinni, Dan Evans, mannaveiðarinn McElroy, þrjóturinn Tucker, dýralæknirinn hugdjarfi Doc Potter (Alan Tudyk), auðkýfingurinn Grayson Butterfield (Dallas Roberts)  og bóndasonurinn William Evans eltir þá án þeirra vitundar. Þessi hópur á eftir að lenda í miklum ævintýrum á leiðinni að lestinni, en þeir þurfa að kljást við ýmsar hættur á leiðinni, og þá allra verstu gengið hans Ben Wade, sem er rétt á eftir þeim með hinn grimma og trygga Charlie Prince (Ben Foster) í forystu.


Það áhugaverðasta við söguna er hvernig gagnkvæm virðing verður til á milli þeirra Dan Evans og Ben Wade, sem þróast upp í eitthvað allt annað og meira en samband fanga og varðar, eftir því sem að þeir lifa af fleiri hættur og hafa lært meira um hvorn annan.

 


Christian Bale og Russell Crowe sýna báðir stórgóðan leik, og eru studdir af frábærum leikarahóp þar sem Peter Fonda stendur upp úr, eins og persóna dregin upp úr hvaða Clint Eastwood vestra sem er. Ég skil ekki af hverju 3:10 to Yuma var ekki tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta kvikmyndin.

Í lokin kemur í ljós að lestin til Yuma er ekkert endilega lestin sem Dan Evans hefur hugsað sér að koma Ben Wade í, heldur myndhverfing fyrir hina þröngu og beinu leið. Mér fannst frummyndin frá 1957 hörkugóð, en 2007 útgáfan ennþá betri.

Sýnishorn:


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband