Skipta trúarbrögð einhverju máli?

Í dag var ég gagnrýndur fyrir að efast um nokkuð sem ég gat ekki vitað.

Mér finnst sjálfsagt að efast um hluti sem ég veit að ég þekki ekki. Þetta á sérstaklega við um hluti sem hægt er að sanna eða afsanna með sönnunargögnum. Þegar kemur að stærri málum, eins og tilvist Guðs, óendanleika alheimsins, eðli sálarinnar, náttúru mannsins, og slíku, þá leyfi ég mér líka að efast, án þess að það þýði endilega að ég sé trúlaus.

Trú er persónulegt fyrirbæri. Þegar um ósannanlega hluti er að ræða, sem eru jafnvel handan mannlegs skilnings - ekki það að ég þykist þekkja takmörk mannlegs skilnings - þá duga rök skammt og þar af leiðandi er tilgangslaust að rökræða slík mál. Þegar þú reynir að sannfæra einhvern um þína eigin trú þarftu að beita mælskulist þar sem markmið orðræðunnar er að sannfæra, en ekkert endilega að leiða hið sanna í ljós. Sumir virðast halda að sannleikurinn felist í kappræðu, að sá sem hefur betur í kappræðu hafi vald á sannleikanum. Eðli sannleikans er bara ekki svo einfalt.

Hins vegar tekst mönnum með ýmsum brögðum að sannfæra fólk um að vera hluti af hópi fólks sem trúir á sambærilega hluti. Þannig verða trúarbrögðin til, stofnanir um trú. Þessar stofnanir líta stundum svolítið stórt á sig og sumar þeirra telja jafnvel þá sem tilheyra ekki hópnum, einskis virði og glataðar sálir eða jafnvel sem sálarlaus skrímsli. Þetta getur gengið út  í öfgar.

Til er fólk sem hefur ákveðna trú en finnur engan samhljóm með trúarbrögðum, og svo eru líka til einstaklingar sem trúa því að Guð sé ekki til, og finna því heldur ekki samhljóm með trúarbrögðum. Þetta fólk er trúarbragðaleysingjar, en er oft misnefnt sem trúleysingjar.

Trúleysingjar eru nefnilega undarlegt fyrirbæri, og leyfi ég mér að efast um tilvist þeirra. Trúleysingi er manneskja sem engu trúir. Sú manneskja trúir ekki að mjólkin sem hún er að drekka sé útrunnin eða ekki, né heldur hvort hún er að drekka mjólk yfir höfuð eða ekki. Sú manneskja trúir ekki á þörf þess að drekka, né á þörf þess að lifa. Ég leyfi mér að efast um að algjörlega trúlaus manneskja sé til.

Aftur á móti eru til manneskjur sem trúa ekki á tilvist Guðs, og spurning hvort að það fólk mætti ekki kalla Guðleysingja. Reyndar væri það vafasamt, því að ef Guð er til og er algóður, þá myndi hann sjálfsagt sjá aumur á þeim sem trúa ekki að hann sé til, og ekkert verða sár út í þau. Því hver getur verið sár út í þá sem hafa ekki forsendur til þekkingar?

Samt skil ég vel mikilvægi trúboðs. Málið er að trúarbrögð geta hjálpað við að stjórna hópum af fólki til betra lífs. Trúarbrögð getur komið hlutum í reglu þar sem engin regla var fyrir. Trúarbrögð geta hjálpað við að leiða siðferðilega fötluðu fólki til betri vegar, fólki sem er ekki tilbúið til að átta sig á hvað er gott eða illt, rétt eða rangt, satt eða ósatt, út frá eigin forsendum, og finnst betra að treysta á yfirvald til að segja sér hvað er gott eða illt, rétt eða rangt og satt eða ósatt.

Ekki ætla ég að fullyrða um hvernig best er að lifa lífinu, tel best að hver og einn fái nógu góða menntun sem gefi forsendur til að meta hlutina út frá eigin forsendum. Við erum líkleg til að lifa eftir þeim reglum sem við setjum okkur sjálf.

Það væri óskandi að til væru kúrsar í gagnrýnni hugsun á öllum skólastigum sem gerðu þetta mögulegt. Ég held að slíkir kúrsar séu nauðsynlegir hvort sem að þjóð er á flótta undan trúarbrögðum eða tekur þeim fagnandi.

Hvað finnst þér?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Guð

  Trú á guði ræðst af efnaboðum í gagnaugablaðsblöðku heilans.  Það dugir að erta þar svæði á guðleysingja og með það sama hellist yfir hann trúarhiti. 

Jens Guð, 4.2.2008 kl. 00:16

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Hrannar

Þú talar eins og agnostikerinn - þ.e. telur þig ekki geta sagt af eða frá um það hvort að guð sé til.  Þú setur því ekki sönnunarbyrðina á þá sem segja að Guð sé veruleiki.  Jafnframt tekur þú út rökræðuna með því að segja að fyrirbærið sé ofar mannlegum skilningi.  Þetta kalla ég að skjóta sig í fótinn og leyfa mannlegri ímyndun, borna fram sem sannleika, að fljóta framhjá gagnrýnislaust. 

Ég er heldur ekki sammála túlkun þinni og notkun á orðinu trú.  Það er viðtekin venja og skynsamlegast að nota orðið trú yfir þá sannfæringu (eða lífsskoðun) að einhver æðri máttur sé til, eitthvað yfirskilvitlegt sé til staðar sem annað hvort hefur áhrif á líf okkar eða ekki.  Það að vera trúlaus merkir því að trúa ekki á tilvist æðri máttar, þ.m.t. guð kristninnar.  Það er ekki það sama og vera án sannfæringar eða lífsskoðana. 

 Sögnin "að trúa" er notuð mun frjálslegar en nafnorðið "trú" og merkir m.a. að "treysta á" eða "aðhyllast".  Þannig get ég sagt að ég trúi á vísindalegar aðferðir til að leiða í ljós sanna þekkingu eða eins sanna og okkur er frekast unnt á hverjum tíma, en það felur ekki í sér trú á æðri mátt.  Það er  betra að nota sögnina "að aðhyllast" og geri ég það oftast til að forðast frekari misskilning. 

Svo segir þú:

"Aftur á móti eru til manneskjur sem trúa ekki á tilvist Guðs, og spurning hvort að það fólk mætti ekki kalla Guðleysingja. Reyndar væri það vafasamt, því að ef Guð er til og er algóður, þá myndi hann sjálfsagt sjá aumur á þeim sem trúa ekki að hann sé til, og ekkert verða sár út í þau. Því hver getur verið sár út í þá sem hafa ekki forsendur til þekkingar?"

Hér talar þú eins og guðfræðingur.  Vissulega er það rétt að kalla þá sem ekki trúa á þann æðri mátt sem kallaður er guð, guðleysingja.  Ég er þannig bæði trúlaus og guðlaus því ég trúi hvorki á æðri mátt né guð.  Svo segir þú "Reyndar væri það vafasamt..." og nefnir að "ef Guð væri til þá..." gæti hann túlkað þessa hluti á ákveðna máta og nefnir þar að hugsanlega væri hann algóður og myndi vorkenna og bla bla bla...  Þú ert kominn langt út fyrir rökræna hugsun og farinn að blaðra eftir kenningum ákveðinnar trúarsetningar.  Þessi málflutningur er kenndur við "varnagla Pascals" þar sem hann sagði að það borgaði sig ekki að hafna trú á guð þar sem EF að hann væri til myndi það borga sig að útiloka hann ekki. 

Ég hafna þessum málflutningi því í honum er litið fram hjá sönnunarbyrðinni og gert ráð fyrir að hinn hugsanlegi guð verðlauni fyrir trú á hann.  Ef svo væri þyrfti ég ekki þessi verðlaun því góð hegðun í mínu eina lífi dugir mér og mínum.  Ávinningurinn er áþreifanlegur og þarfnast ekki ytri (guðs) staðfestingar.

Um trúarbrögðin er hægt ræða í löngu máli en ég set punkt hér.

Svanur Sigurbjörnsson, 4.2.2008 kl. 01:59

3 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ég veit ekki hvort betra er að tala um trúleysi eða guðleysi að mínu mati er þetta nefnilega sami hlutur. Trú hlýtur ævinlega að snúast um einhvers konar guði eða gyðjur. Menn geta nefnt guð sinn ýmsum nöfnum, jafnvel æðri mátt eða það góða í heiminum engu að síður trúa þeir á þetta fyrirbæri og treysta því sem guði. Ég kýs að trúa engu slíku. Að mínu mati erum við hér fyrir tilviljun sköpunar og lífs sem er virðist kaotískt og fyrst og fremst stjórnast af þörf og löngun til að lifa. Ég held að það geti ekki flokkast undir trú.

Steingerður Steinarsdóttir, 4.2.2008 kl. 10:31

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

ÉG þakka fyrir pistilinn Ég trúi og kenndi börnum mínum trú, okkar Guð hjálpar og styrkir okkur á góðum og erfiðum tímum. Okkur finnst gott að hafa okkar trú. Kveðja.

Ásdís Sigurðardóttir, 4.2.2008 kl. 14:06

5 identicon

Það er ekki nokkur munur per se á Hans & Grétu, álfum & tröllum eða guðum... þetta er allt tilbúningur, sumir byrja að trúa eftir högg á hausinn aðrir byrja vegna eymdar og volæðis og enn aðrir vegna þess að þessu er borað inn í þá frá barnsæsku.
Stærsta einstaka orsök trúar er hræðslan við dauðann.
Bottom line: Engir guðir eru til, þeir sem segja þá vera til verða að sanna það en ekki bara sýna bækur sem segja guðina vera til

Engir guðir eru til nema í hugum fólks

DoctorE (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 14:58

6 Smámynd: halkatla


frábær pistill (frá mínum gamla heimspekikennara í FB, ha humm en þú getur ekki munað eftir mér því ég sagði aldrei neitt, og skilaði ekki einu sinni dagbókinni ógurlegu sem við áttum að skrifa yfir okkar heimspekilegu vangaveltur ) það eina sem ég er ósátt við í pistlinum er að þú stingur uppá notkun orðsins Guðleysingi en mér finnst það hræðilegt orð, að vera guðlaus er að vera vondur (samkvæmt biblíunni) en trúleysingi er bara einhver sem trúir ekki að Guð sé til. Allavega finnst mér ljótt að kalla fólk guðlaust en alltílagi að kalla það trúlaust. 

ég er á móti flestum ef ekki öllum trúarbrögðum en er samt algjörlega að vona að allt fólk gerist trúað hið snarasta - það er okkar eina von!

Guð er til og hann er alltumkring!

halkatla, 4.2.2008 kl. 16:45

7 Smámynd: Ómar Ingi

Heimurinn væri betri án trúarbragða.

Ómar Ingi, 4.2.2008 kl. 19:46

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Getur þú sannað það Ómar ?   

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 4.2.2008 kl. 21:17

9 Smámynd: Morten Lange

Fín færsla Hrannar, þangað til þú  tekur fyrir trúleysi og guðleysi, og að mínu matti breytir merkingu orðanna. Ég tek svo heilshugar undir lokaorðunum þínum um nauðsýn þess að efla rökhugsun og sjálfstæða hugsun í skólum.  Já, og ekki bara þar að mínu mati. Við sem fengu ekki þessa styrkingu í skólakerfinu þurfum á fræðslu að halda líka.  Kannski ætti til dæmis KHÍ  að  bjóða alla blaðamenn á námskeiðum í að miðla þessu og nota svo líka aðferðafræðin og þessa nálgun í sinni vinnu.

En aftur að trúleysi og guðleysi :

Sjá til dæmis textinn í  Wikipediu, um trúleysi, sem ég kann betur við  en þínar útleggingar hér fyrir ofan.  Ég held að textinn þarna á Wikipedia í betri samsvari við almenna skilning þeirra sem hafa kynnt sér efnið. Annað sem er mikilvægt er að skilgreiningin hefur  merkingu sem hjálpar umræðuna um þessi mál frekar en öfugt.

Reyndar vilja sumir segja að trúleysi samsvari agnosticism á ensku, sem sagt segist ekki vita neitt um guði né annað yfirnáttúrulegt.  Og guðleysi samsvari atheism, sem haldi fram að yfirnáttúrlegir verur  séu  bull og tilbúningur.  (Nett einföldun og stytting)

Mér finns til dæmis þessi grein hjá Wikipediu um  ekki-trúabrögð  sýna nokkuð skýrt að bæði trúleysingar og guðleysingar séu sannarlega til. (Þó að hvorki greinar Wikipediu né önnur rit séu sönnun eins né neins ). Varðandi tölfræðina  hef ég þá sannfæringu að skilgreiningarnar sem hafa verið notuð þarna í grein Wikipediu,  séu ekki alveg sambærilegar á milli landa. 

Loks að spurningu þinni : Að trúarbrögð skipta máli er ótvírætt, en áhrif þeirra og tröllatrú manna á kennisetningar og á endanlegum sannleika þeirra er gert of hátt undir höfði að mínu mati. Ég tek trúarbrögð sem til dæmis ekki reynir að troða sín sannleika inn á börnum fagnandi.  

Mér finnst þú segja að jafn mikilvægt eða mikilvægari og að kenna  um trúarbrögð, er að kenna gagnrýnni hugsun með miklu markvissara hætti en nú er gert.  

Við því segi ég  "Amen !"  :-)  

Morten Lange, 4.2.2008 kl. 23:13

10 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Hvað gerir Guð?...eða trúarbrögð, annað en að koma í staðin fyrir fáfræði?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 5.2.2008 kl. 00:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband