Færsluflokkur: Kvikmyndir

Bohemian Rhapsody (2018) ****

Bohemian-Rhapsody-Movie-Character-Posters-Queen-Song-Lyrics

Hafir þú gaman af tónlist Queen er "Bohemian Rhapsody" mynd sem þú verður að sjá í kvikmyndasal. Af gagnrýnendum hefur hún verið gagnrýnd töluvert fyrir að vera ekki eitthvað annað en hún er. Einhverjir vildu dökka sýn í sálarlíf Freddy Mercury, gera þetta að tragedíu þar sem Freddy verður á endanum að gefast upp gegn banvænum sjúkdómi. Þetta er ekki þannig mynd.

"Bohemian Rhapsody" er meira í anda tónlistarkvikmynda Alan Parker, sérstaklega "The Committments (1991) og Evita (1996), sem gera meira af því að gefa áhorfandanum flotta tónlist undir einföldu drama, með fullt af rómantík og húmor í bland. 

Dramað fjallar um stofnun hljómsveitarinnar Queen þar sem kafað töluvert í líf og þrár Freddy Mercury (Rami Malek), ekki sem leiðtoga hljómsveitarinnar, heldur sem einn af þeim meðlimum sem gaf henni líf. Malek er stórgóður í sínu hlutverki, nær Freddy sjálfsagt betur en Freddy sjálfur hefði gert, bæði í persónulega drama, sem ein stærsta rokkstjarna allra tíma á sviði, og eins þegar hann tapaði áttum um stund.

Aðrir leikarar standa sig ljómandi vel, þá sérstaklega Lucy Boynton sem fyrsta ástin Mary, akkerið í lífi Freddy, en samband þeirra er miðsvæðis í sögunni, og miðað við þunga ástarsögunnar hefði myndin betur heitið "Love of my Life". Gwylim Lee og Ben Hardy eru einnig stórgóðir sem Brian May og Roger Taylor. Aðdáendur "Wayne's World" (1992) fá líka eitthvað fyrir sinn snúð í skemmtilegu smáhlutverki Mike Myers.

Myndin byrjar og endar á Live Aid tónleikunum þar sem Queen sló rækilega í gegn um allan heim, og klárar söguna á sterkum tón. 

Ef þig langar í rómatíska sýn á Queen og hlusta á frábæra tónlist, skelltu þér í bíó.


10 kvikmyndir í uppáhaldi hjá Don Hrannari

Það er gaman að gera svona lista stöku sinnum. Þessi listi er fyrst og fremst gerður til gamans. Kvikmyndirnar sem um ræðir eru ekki endilega álitnar mestu meistaraverk kvikmyndasögunnar, heldur eru þetta myndir sem mér finnst gaman að horfa á, aftur og aftur. Myndir sem ég get hugsað mér að setja í tækið og horfa á, strax í dag, hefði ég tíma.

Ég mun ekki telja teiknimyndir, sem oft getur verið gaman að kíkja á með fjölskyldunni.

 

1. Raiders of the Lost Ark (1981) - Háskólabíó

RaidersLostArk_127Pyxurz1

 

2. Braveheart (1995) - Kvikmyndahús í Puebla, Mexíkó

braveheart

 

3. Pulp Fiction (1994) - Regnboginn

pulp_fiction_1994_3

 

4. The Lord of the Rings (2001-2003) - Kvikmyndahús Í Merida og Puebla, Mexíkó

sam-and-frodo-mount-doom-636x288

 

5. L.A. Confidential (1997) - Austurbæjarbíó

601px-LAC-Bud-4

 

6. Star Wars (1977) - Nýja Bíó

han-shot-first-640x360

 

7. Life of Brian (1979) - Heima Spóla

life-of-brian

 

8. The Terminator (1984) - Heima Spóla

terminator-1984-linda-hamilton-michael-biehn-pic-7

 

9. Die Hard (1988) - Austurbæjarbíó

645102-4

 

10. 12 Angry Men (1957) - Heima DVD

video_still_3Reasons_12AM_Youtube_Still

 

Aðrar kvikmyndir sem voru nálægt því að komast á þennan lista:  Purple Rose of Cairo, Groundhog Day, Alien/ Aliens, The Avengers, Once Upon a Time in the West, The Matrix, Forrest Gump, Back to the Future, The Thing, The Wizard of Oz, Ben-Hur, The Princess Bride, The Untouchables, Jurassic Park


Prometheus (2012) ***1/2

newprometheusposter 
 
Fyrir utan smá ofleik og lélegan farða frá Guy Pearce og hrúgu af "flötum" persónum, er "Prometheus" snilldarverk. Hún stendur "Alien" og "Aliens" ekki langt að baki, og sjálfsagt smekksatriði hvort hún standi þeim hugsanlega framar. Að minnsta kosti þegar kemur að þema og heimspekilegum pælingum um uppruna mannkyns, stendur hún traustum fótum. 

Ég hef á tilfinningunni að Ridley Scott hafi tekist það ómögulega, að gera persónulega mynd um hans eigin trúarlegu skoðanir og pælingar, og í leiðinni ofbeldisfulla Hollywoodmynd sem getur ekki annað selst vel. 
 
Prometheus_movie_05-e1338830367217
 
Áhugaverðustu persónurnar eru vélmennið David (Michael Fassbender) og vísindakonan Elizabeth Shaw (Noomi Rapace), aðrar persónur eru frekar flatar og virðast frekar þarna til að passa inn í plottið. Þar með talið geimverurnar og hinir svokölluðu "verkfræðingar". Reyndar voru aðrar persónur, þó þær hafi verið dýptarlausar, nokkuð skemmtilegar og sinntu sínum hlutverkum vel, sérstaklega tveir svolítið nördalegir vísindamenn sem villast á vitlausum stað, á vitlausum tíma, í vitlausu rúmi.

Ein skemmtilegasta spurningin sem vaknaði í mínum kolli við áhorfun tengdist sköpun manneskjunnar, en myndin fjallar um það, hvernig fyrsta manneskjan hafi orðið til; var það fyrir slysni, kvikyndisskap eða í þunglyndiskasti geimveru, var manneskjan hönnuð af geimverum eins og vélmenni framtíðarinnar af mönnum, eða er þróunarkenningin hans Darwins rétta skýringin, eða eigum við bara að gefast upp á öllum spurningum og svara að vegir Guðs séu órannsakanlegir?
 
Ekki ætla ég að svara þessum spurningum hér, enda finnst mér miklu skemmtilegra að leyfa spurningum að malla í dágóðan tíma og eyða góðum tíma í vangaveltur.

Flottar pælingar og vel útfærðar í fyrri hluta myndarinnar, sem síðan breytist í vel gerðan spennutrylli þar sem formúlan reynist ansi kunnugleg.
 
Ég hafði gaman af. Þrívíddin er líka óvenju góð.

The Cabin in the Woods (2011) ****

THE-CABIN-IN-THE-WOODS-poster

"The Cabin in the Woods" er stórgóð skemmtun fyrir þá sem hafa einhvern tíma haft gaman af slassermyndum, en það er sú gerð hrollvekja þar sem nokkrum unglingum er safnað saman og þeim síðan slátrað af einhverju skrímsli eða skrímslum. Hér er tekið í eyrun á þessu hugtaki og því snúið niður svo úr verður mikill hasar, mikil læti, miklar tæknibrellur, og eftirminnilegar persónur.

Eins og búast má við af leikstjóra "The Avengers", Josh Whedon, sem skrifaði handritið að þessari mynd ásamt leikstjóranum Drew Goddard, er húmorinn sterkasta hlið myndarinnar. Persónurnar lenda hver á eftir annarri í skelfilegum aðstæðum, haga sér stundum frekar heimskulega - og oft ekki beint í karakter, en það er hluti af leiknum. 

Myndmálið er ofhlaðið og skrautlegt, og þegar myndinni lauk fannst mér eins og ég hefði séð allar slassermyndirnar í einni. En hvílík skemmtun.

Ég spilli engu þegar ég segi aðeins frá upphafi sögunnar, en fimm ungmenni sem virðast í fyrstu passa frekar vel inn í söguna sem staðlaðar arkitýpur, reynast hver annarri skemmtilegri og með óvæntar hliðar, sem þó forða þeim ekki frá þeim hrakalegu örlögum sem tengjast skógarkofanum ógurlega. Ég er heldur ekki að spilla neinu þegar ég segi að óafvitandi eru þessi ungmenni þátttakendur í raunveruleikaþætti þar sem stjórnendur gera sitt besta til að koma þeim í aðstæður sem líklegar eru til að verða þeim að bana. Allt þetta kemur í ljós á fyrstu mínútum myndarinnar.

the-cabin-in-the-woods-poster-e3b14

Dæmi um eitt magnað og reyndar frekar kinkí atriði, sem virðist frekar einfalt, í upphafi myndar, er þegar einn af unglingunum, Holden (Jesse Williams), kemur í herbergi sitt í kofanum og sér þar ógnvekjandi málverk sem sýnir lömb leidd til slátrunar. Hann fjarlægir málverkið, en á bakvið það er gegnsær spegill. Hinu megin við spegilinn er stúlkan sem hann þráir, Dana (Kristen Connolly), að klæða sig úr. Þetta atriði er sérstaklega vel útfært og gerir persónurnar ljóslifandi og spennandi, sérstaklega í ljósi viðbragða þeirra Holden og Dana. Þetta er bara eitt lítið dæmi um frumlegt atriði, en þannig er öll þessi mynd, hlaðin mögnuðum atriðum.

Annað gott atriði er þegar Jules (Anna Hutchinson) fer í sleik við vel tenntan og uppstoppaðan úlfshaus. Það er þegar búið að sýna áhorfendum að eitthvað undarlegt er á gangi í kofanum, og ein persónan hafði kallað úlfinn elg, sem er reyndar vísun í "Evil Dead 2", mynd þar sem uppstoppaður elgshaus lifnaði til lífsins. 

Ef hægt væri að líkja "Cabin in the Woods" við einhverjar aðrar kvikmyndir, mætti segja að hún sé jafningi "Evil Dead 2", en það er töluvert vísað í þá snilld, og síðan í goðsöguna um Pandoru og kassann hennar. 

Chris Hemsworth, sem þekktari er í hlutverki Thor, leikur kláran íþróttamann og er sjálfsagt skærasta stjarna myndarinnar, en hún var kvikmynduð árið 2009, rétt áður en frægðarsól þessa ágæta ástralska leikara fór að stíga. Skemmtilegasta persónan er Marty (Fran Kranz), sem virkar í upphafi eins og uppdópað fífl, en leynir á sér. Richard Jenkins og Bradley Whitford eru bæði fyndnir og ógnvekjandi í hlutverki þáttarstjórnenda.

the-cabin-in-the-woods-film-7f35e

Það magnaða er að spennan stigmagnast, húmorinn heldur sér, og fjölbreytileikinn stökkbreytist og heldur út til enda. Einnig dýpkar sagan og aðstæðurnar eftir því sem nær dregur endinum. Mögnuð mynd!

Þetta er sumarið hans Josh Whedon!


The Hunger Games (2012) ***

o-FINAL-HUNGER-GAMES-POSTER-570

"The Hunger Games" gerist í framtíðinni. Í Bandaríkjunum hefur kreppan þróast yfir í borgarastyrjöld sem einhvers konar elítufasistar vinna. Þeir dvelja í litskrúðugri stórborg og virðast flestöll hafa frekar pervískan smekk.

Samfélaginu hefur verið skipt upp í þrettán stéttir, elítustéttin virðist æðri öllum hinum, en eftir því sem talan hækkar, lækkar stéttin. Hetja myndarinnar, Katniss Everdeen (Jennifer Lawrence) lendir ásamt Peeta Mellark (Josh Hutcherson) í því að vera fulltrúi tólftu stéttarinnar í Hungurleikjunum, en þessir leikar voru stofnaðir af sigurvegurum borgarastyrjaldarinnar til að minna fólk á að halda sig á mottunni. Tveir fulltrúar eru sendir frá stéttunum tólf, og að sjálfsögðu eiga þau tvö úr tólftu stéttinni að hafa minnstu möguleikana. 

Fyrir utan að Katniss reynist sérlega úrræðagóð, þó hún njóti stundum góðra ráða læriföður síns, fyllibyttunnar Heymitch Abernathy (Woody Harrelson) sem áður hafði komist lífs af frá þessum leikum. Leikreglurnar eru þannig að 24 unglingum á aldrinum 14 til 18 ára er plantað á lokað svæði, öll með staðsetningartæki, og þau fá þrjár vikur til að komast lífs af. Aðeins eitt þeirra má vera á lífi í lok þáttarins. Mörg börn eru drepin á eins smekklegan hátt og Hollywood er fært til að sem allra yngstu áhorfendur geti keypt sér miða.

Kvikmyndin fjallar um grimmt samfélag þar sem ungviðinu eru settar strangar og ósanngjarnar reglur. Undir niðri ólgar mikil óánægja víða úr samfélaginu, og það kemur skýrt í ljós að það sem undir kraumar hljóti að komast fyrr eða síðar upp á yfirborðið, og Katniss verður sjálfsagt sá neisti sem kveikir eldinn. Einræðisherran illi og slóttugi er leikinn skemmtilega af Donald Sutherland, og þáttarstjórnendur af skemmtilega skeggjuðum Wes Bentley og hárprúðum Stanley Tucci. Það er valinn maður í hverju rúmi, og leikstjórinn Gary Ross, skilar sínu. Þetta er aðeins hans þriðja kvikmynd sem leikstjóri, en sú fyrsta var snilldin "Pleasantville" (1998) sem einnig fjallar um átök unglinga í afmörkuðum heimi.

"The Hunger Games" er fín skemmtun, distópíumynd sem spunnin er saman úr kunnuglegum sögum, eins og bókinni "Lord of the Flies" eftir nóbelsverðlaunahafann William Golding og raunveruleikasjónvarpsþáttum eins og "Big Brother" og "Survivor" þar sem hæfileikar eru ekki aðalatriðið í þeim heimi, heldur vinsældir hjá almenningi. Auðvitað er þetta að einhverju leyti endurgerð hinnar miklu betri en afar blóðþyrstu japönsku myndar "Battle Royale" (2000), og virðist líka taka hitt og þetta úr myndum eins og "Ben Hur" (1959) og "The Truman Show" (1998).

Þetta er fín skemmtun ef þú þolir að horfa upp á unglinga drepna af hverjum öðrum í rúmar tvær klukkustundir. Til að vera sanngjarn, þá býr miklu meira að baki sögunni heldur en bara tveir tímar af drápsleik, því höfundum tekst að búa til nýjan heim sem virkar raunverulegur og spennandi. Mig langaði í lokin að sjá framhaldið. 

Til þess er leikurinn gerður. Er það ekki?

Contraband (2012) ***1/2

Contraband%20wallpaper

Baltasar Kormákur leikstýrir "Contraband" af öryggi sem aðeins hæfustu leikstjórar hafa til að bera. Hann er greinilega leikstjóri leikaranna, því þar er mestan styrk myndarinnar að finna. Eitt atriði á heimsmælikvarða, og gæti talist til eins flottasta skotbardaga í sögu kvikmyndanna. Flestir kvikmyndaunnendur muna eftir atriði úr "Heat" eftir Michael Mann, þar sem löggur og bófar lentur í mögnuðum skotbardaga. Svipað atriði er að finna í "Contraband", og afar vel útfært. 

Eini veikleikinn sem ég kom auga á var frekar klaufaleg meðhöndlun myndavélarinnar í samtölum, þar sem andlit færðust úr og í fókus, hugsanlega með ráði gert, og hugmyndin sjálfsagt að fylgja sjónarhorni og tilfinningum viðmælanda, en virkar frekar truflandi á köflum, sérstaklega í upphafi myndar. 

Mark Wahlberg er traustur í sínu hlutverki. Hann kann að leika þessa þöglu og sterku týpu sem virðist hafa þunga reynslu að baki, og líklegur til að sigrast á öllum vandamálum sem upp koma, af festu. Og vandamálin spretta heldur betur upp fyrir hann, lausnirnar hver annarri betri. Sumar fyndnar, aðrar snjallar, en aldrei kaldrifjaðar eða grimmar. 

Aukaleikararnir fylla vel í sín hlutverk, sérstaklega Ben Foster, Giovanni Ribisi og J.K. Simmons, en ég hefði viljað sjá meira frá Cate Beckinsale, sem býr yfir miklu meira en hún fékk tækifæri til að sýna í þetta skiptið. Það hefði sjálfsagt verið sniðugt að bæta aðeins við hlutverk hennar, sem hún fyllti vel, en hún hefði getað fengið að sýna aðeins meiri karakter.

Það er góður húmor í myndinni. Hún er vel yfir meðallagi þegar kemur að b-hasarmyndum, því hún leitar sífellt frumlegra leiða og finnur þær. Ég hafði gaman af raunveruleikablænum í andrúmsloftinu. Maður hafði alltaf sterka tilfinningu fyrir hvar persónurnar voru staddar og hvers vegna þær voru þar. 

Þétt mynd og skemmtileg, sem endar þannig að maður fer út úr salnum með bros á vör. Ég hef séð "Reykjavík-Rotterdam" og finnst "Contraband" mun betur heppnuð, þó að þær séu báðar unnar eftir sama handriti. 

Baltasar Kormáki óska ég til hamingju með þetta heillaspor á leikstjóraferlinum.


War Horse (2011) ****

War-Horse-Movie-poster-Film-review-e1324422829991

"War Horse" er önnur fjölskyldumynd Steven Spielbergs frá árinu 2011. Hin fyrri var "The Adventures of Tintin". Báðar hittu þær beint í mark hjá mér.

"War Horse" er í eðli sínu rómantísk fjölskyldumynd um vináttu, tryggð, heiður og ólík gildi. Þrátt fyrir þetta fagra yfirbragð er djúp undiralda sem fylgir söguheiminum, Englandi og Frakklandi frá upphafi til enda fyrri heimstyrjaldar, þar sem margar góðar manneskjur falla í heimskulegu stríði sem enginn vildi bera ábyrgð á.

Styrjaldir eins og fyrri heimstyrjöldin, eru svolítið eins og efnahagshrun, þau eru engum að kenna, og magna upp bæði það besta og versta í fólki. Hinir góðu sem vilja verja sína samherja og eigin þjóð verða hetjur, en hinir grimmu sem hugsa um ekkert annað en að hámarka gróðann eða drepa sem flesta verða að skrímslum.

Í gegnum þessa heimsmynd gengur og hleypur hesturinn Joey, en við kynnumst honum fyrst þar sem unglingurinn Albert Narracott (Jeremy Irvine) verður vitni að fæðingu hans. Á endanum eignast drengurinn hestinn, en faðir hans Ted (Peter Mullan) selur hernum hestinn og sendir hann í eitt grimmasta stríð veraldar, þar sem hestar mega sín lítils gegn stórskotavopnum. Móðirin Rose (Emily Watson) er allt annað en sátt við skammarlega hegðun eiginmanns hennar, sem hún þrátt fyrir allt elskar, og segir hún syni sínum að þó hún hati mann sinn sífellt meira elski hún hann alltaf jafn mikið. Frekar óvenjuleg gildi fyrir kvikmynd á árinu 2012.

Við fylgjumst með ferðum hestsins gegnum stríðið þar sem hann kynnist fjölda fólks af ólíkum uppruna og bakvið ólíkar víglínur. Hinir ensku og þýsku sína hestinum mikla virðingu, en af einhverjum ástæðum fá Frakkar ansi slæma útreið frá Spielberg, sem virðast vera hinar mestu skepnur, þegar kemur að virðingu þeirra gagnvart fráum fákum.

Joey kynnist vingjarnlegum og göfugum enskum herforingja, svörtum og fögrum fáki, þýskum bræðrum sem gerast liðhlaupar, franskri sveitastúlku og afa hennar, frönskum hestavini og skilningslausum yfirmönnum hans, og lendir síðan í aðstæðum sem virðast algjörlega vonlausar, flækist í gaddavír á miðjum vígvellinum og öll von virðist úti. 

Það sem gefur myndinni sérstakan ævintýrablæ er leit drengsins að hestinum, en hvorugur þeirra gefst upp við að leita hvors annars. Það er einmitt þess vegna sem ég kalla "War Horse" rómantíska fjölskyldumynd.

Lokatökurnar í myndinni er með því fallegasta sem sést hefur á kvikmyndatjaldi, þar sem himinn virðist eins og klipptur úr "Gone with the Wind", og restin eins og listalegt málverk á hreyfingu. Afar fallegur endir á góðri kvikmynd, sem hefur ekki snert af kvikyndisskap eða illrætni frá sjónarhorni sögumanns, en auga kvikmyndarinnar sér heiminn út frá augum hests, og sýnir okkur þannig margt af því besta og versta sem við manneskjur höfum að geyma. 

Mig grunar að "War Horse" verði ekkert sérstaklega vinsæl til að byrja með, en verði álitin klassík innan fárra ára. Mér fannst gaman að sjá hversu margir unglingar voru í bíó, og velti fyrir mér hvort þau séu farin að fá leið á öllum hryllingnum, ofbeldinu og grófum húmor sem tröllriðið hefur kvikmyndum og sjónvarpi síðustu misserin. Ekki veit ég svarið.


Chronicle (2012) **1/2

chronicle-poster

"Chronicle" er allt í lagi mynd en samt erfitt að mæla með henni. Svona ofurhetjumynd séð í gegnum ólíkar myndavélar. Vel gerð.

Þrír unglingsstrákar, hinn félagslega virki Steve (Michael B. Jordan), heimspekilegi Matt (Alex Russell) og bældi Andrew (Dane DeHaan) komast í snertingu við einhvers konar furðuhlut sem grafinn er djúpt í jörðu og fyrir vikið öðlast þeir kraft til að færa hluti til með huganum. Þeir eru misjafnlega fljótir að þróa tæknina. Í upphafi nota þeir hana til að færa legókubba, og síðan framkvæma ýmsa hrekki á jafnöldrum sínum, en síðan eykst alvaran þegar einn þeirra veldur alvarlegu slysi. Stuttu síðar kemur í ljós að þessi hugarorka á sér næstum engin takmörk og stutt í að þremenningarnir verði að einhvers konar ofurmönnum, sem verður síðan að baráttu milli hins góða og illa 

Það frumlega við þessa sögu er að við fylgjumst með hvernig hið illa verður til og fáum samúð með þeim sem verður illskunni að bráð.

Persónurnar eru góðar og vel leiknar, sérstaklega Andrew, sem hefur falið ömurleika lífs síns í meðhöndlun myndavélar, en í gegnum augu þessarar og annarra myndavéla sjáum við allt það sem drífur á daga þessara þriggja drengja. Í upphafi fylgjumst við með lífi hans gegnum gömlu vélina hans, og síðan blandast aðrar myndavélar í leikinn, misjafnar að gæðum og misjafnlega höndlaðar. Það gefur kvikmyndinni svolítið sérstakann og skemmtilegan blæ.

Myndin skilur ekki mikið eftir sig. Mér leið eins og ég hefði horft á endurgerð teiknimyndarinnar "Akira", frá 1988, um unglinga sem lenda í samskonar hremmingum, en samt hefði ég ekki viljað missa af henni.

Mæli ekkert endilega með henni í bíó, held hún verði ekkert verri í sjónvarpi eða Blu-Ray.


Mission: Impossible - Ghost Protocol (2011) ****

MissionImpossibleGhostProtocol

„Mission: Impossible – Ghost Protocol“ er betri en allar fyrri Mission: Impossible myndirnar. Allt gengur upp í þetta skiptið. Í stað þess að einblína á Tom Cruise eins og gert hefur verið í öllum fyrri myndunum og áhættuleik hans, hefur verið ákveðið að leggja áherslu á persónusköpun og frumleg atriði, þó að ramminn utan um söguna sé sá sami og áður.

 

Það er einvalalið bæði fyrir framan og aftan myndavélina. Brad Bird leikstýrir sinni fyrstu leiknu mynd, en áður hefur hann fengist við leikstjórn teiknimyndanna „The Iron Giant“, „The Incredibles“ og „Ratatouille“. Það sem sérstaklega vekur athygli er hversu gríðarlega vel heppnuð atriðin eru. Leikstjóranum tekst að skapa góða tilfinningu fyrir umhverfi hvers einasta atriðis og leikur sér skemmtilega með tíma og rúm. Ég man ekki eftir að hafa séð jafn flott atriði í nokkurri annarri hasarmynd.  Ég á ekki orð.

Hægt er að nefna nokkur dæmi:

  • Yfirlitsmynd og eltingarleikur í Búdapest
  • Flótti úr rússnesku fangelsi
  • Brotist inn í skjalasafn með iPad
  • Yfirlitsmyndir yfir eyðimerkur Saudi-Arabíu
  • Brotist inn í netþjónaherbergi á efstu hæðum Burj Khalifa turnsins í Dubai
  • Eltingarleikur í sandstormi
  • Slagsmál á ýmsum hæðum hátæknibílastæðis í Mumbai.

Þetta er ein af þeim myndum sem maður verður að sjá í bíó, helst í risastórum IMAX sal. Tónlistin er líka flott útfærð og gefur manni gæsahúð þegar við á.

Nóg um umgjörðina.

Í þetta sinn þarf Ethan Hunt (Tom Cruise) að koma í veg fyrir kjarnorkustyrjöld sem sænska illmennið Kurt Hendricks (Michael Nyquist) ætlar að koma af stað til að græða á ástandinu sem mun fylgja í kjölfarið. Í för með Hunt slást hin undurfagra og snjalla Jane Carter (Paula Patton) sem leitar hefnda á sínum heittelskaða, tæknisnillingurinn fyndni Benji Dunn (Simon Pegg) sem þráir að taka þátt í alvöru hasar, en situr yfirleitt fyrir framan tölvuskjá, og greinandinn William Brandt (Jeremy Renner) sem hefur furðugóða bardagahæfileika miðað við skrifstofublók, og með óuppgerða fortíð í farteskinu. Þessi hópur vinnur skemmtilega saman að lausn vandamála sem þarf að leysa með mikilli tæknikunnáttu, með því að nýta hvern sentímetra og hverja einustu sekúndu, sem að sjálfsögðu á að vera ómögulegt að auki.

Það eru mörg flott atriði í myndinni. Efst á mínum lista eru eltingarleikur í sandstormi, blekkingarleikur með iPad og síðan Tom Cruise sprangandi utan á hæsta turni heims.

„Mission: Impossible – Ghost Protocol“ er eins og njósna-, hasar- og spennumyndir eiga að vera. Þessi skemmtun gengur fullkomlega upp og er það þétt að mig langaði til að horfa á hana aftur strax og hún var búin. Listilega gerð hasarmynd.

Ekki missa af þessari í bíó!


Eftirvæntingar fyrir kvikmyndaárið 2012

Mig langar að taka saman þær kvikmyndir sem mig hlakkar mest til að sjá á næsta ári. Hámark þrjár myndir á mánuði.

 

Janúar

Contraband (2012)

contraband-16271171-frntl

Leikstjóri: Baltasar Kormákur

Aðalhlutverk:  Mark Wahlberg, Giovanni Ribisi, Kate Beckinsale

Ástæða: Reykjavík-Rotterdam var góð og spennandi að sjá hvernig Baltasari gengur með ekta Hollywood B-mynd.

 

Coriolanus (2011)

Leikstjóri: Ralph Fiennes

Aðalhlutverk: Ralph Fiennes, Gerard Butler, Brian Cox

Ástæða: Hef lengi haft tilfinningu fyrir að Ralph Fiennes sé óvenju djúpur gaur. Verður áhugavert að sjá hvernig honum tekst að leikstýra epísku drama sem hans fyrstu mynd.


Febrúar

Safe House (2012)

Leikstjóri: Daniel Espinosa

Aðalhlutverk:  Denzel Washington, Ryan Reynolds, Robert Patrick

Ástæða: Denzel Washington klikkar ekki, þó að myndirnar í kringum hann gætu stundum verið betri.

 

Mars

Hansel and Gretel: Witch Hunters (2012)

Leikstjóri: Tommy Wirkola

Aðalhlutverk: Jeremy Renner, Gemma Arterton, Peter Stormare

Ástæða: Jeremy Renner er á mikilli uppleið. Allt sem hann gerir verður að gulli þessa dagana.

 


John Carter (2012)

john-carter-poster


Leikstjóri: Andrew Stanton

Aðalhlutverk: Taylor Kitsch, Lynn Collins, Willem Dafoe

Andrew Stanton er frábær Pixar leikstjóri, sem meðal annars gerði Toy Story 3. Þar að auki er John Carter áhugaverð hetja, hálfgerður Tarzan á annarri plánetu. 

   
The Hunger Games (2012)

Leikstjóri: Gary Ross

Aðalhlutverk: Jennifer Lawrence, Josh Hutcherson, Liam Hemsworth

Ástæða: Skemmtilegur leikstjóri sem virðist gera eina góða mynd á áratug. Hann skrifaði "Big" og leikstýrði "Pleasantville".

 

Apríl

    
Bullet to the Head (2012)

Leikstjóri: Walter Hill

Aðalhlutverk: Sylvester Stallone, Jason Momoa, Christian Slater

Ástæða: Walter Hill er gamall og góður leikstjóri sem gerði margar góðar spennumyndir fyrir nokkrum áratugum síðan. Það verður spennandi að sjá hvað hann gerir við Sylvester Stallone og Christian Slater, en báðir þessir leikarar eiga mikið inni þegar kemur að B-myndum.

 

Wettest County (2012)

Leikstjóri: John Hillcoat

Aðalhlutverk: Tom Hardy, Shia LaBeouf, Guy Pearce 

Ástæða: Góður leikstjóri. Tom Hardy og Guy Pearce pottþéttir leikarar.

 

Maí

The Avengers (2012)

The-Avengers-2012-movie-pictures

Leikstjóri: Joss Whedon

Aðalhlutverk: Robert Downey Jr., Chris Evans, Scarlett Johansson, Jeremy Renner

Ástæða: Iron Man, Hulk, Thor, Kafteinn Bandaríki og fleiri ofurhetjur frá Marvel berjast við Loka eða eitthvað svoleiðis. Ekki beint áhugaverð hugmynd, en leikstjórnin í höndum manns sem aldrei klikkar þegar kemur að skemmtilegum myndum (að mínu mati), Josh Whedon sem á að baki snilld eins og Toy Story, Buffy The Vampire Slayer (sjónvarpsþættir) og Firefly + Serenity. 

 

Men in Black III (2012)

Leikstjóri: Barry Sonnenfeld

Aðalhlutverk: Will Smith, Tommy Lee Jones, Josh Brolin 

Ástæða: Will Smith snýr aftur í hlutverk sem hann gerir vel, vísindaskáldsöguhetja með húmor. Áhugavert að Josh Brolin tekur við hlutverki Tommy Lee Jones með tímaflakksfléttu.

 

Júní

    
Snow White and the Huntsman (2012)

Director: Rupert Sanders

Stars: Kristen Stewart, Chris Hemsworth, Charlize Theron

Ástæða: Kíktu á sýnishornið. Lítur út eins og mögulega stórskemmtilegt ævintýri. Getur líka klikkað.

 

   
Prometheus (2012)

fanposter_1

Leikstjóri: Ridley Scott

Stars: Noomi Rapace, Charlize Theron, Patrick Wilson, Idris Elba, Guy Pearce, Michael Fassbender 

Ástæða: Ridley Scott snýr aftur í vísindaskáldskap. Say no more... þar sem aðalhetjurnar leita að uppruna mannkyns en átta sig á að enginn í geymnum getur heyrt þau öskra. Ný "Alien" mynd sem er hvorki framhald né formynd, sem er vissulega hressandi. Scott hefur aldrei gert lélega vísindaskáldsögu og byrjar varla á því núna. Sýnishornið lítur vel út.

 

Brave (2012)

Leikstjórar: Mark Andrews | Brenda Chapman

Aðalhlutverk: Kelly Macdonald, Billy Connolly, Emma Thompson, Julie Walters, Kevin McKidd, Robbie Coltrane, Craig Ferguson 

Ástæða: Pixar klikkar ekki.

 

Júlí

The Dark Knight Rises (2012)

The-Dark-Knight-Rises-2012-Poster-10


Leikstjóri: Christopher Nolan

Aðalhlutverk: Christian Bale, Joseph Gordon-Levitt, Gary Oldman, Michael Caine

Ástæða: Ein af mínum eftirlætis teiknimyndasögum, þar sem Batman tapar slagsmálum gegn Bane og tapar heilsunni. Vona að myndin fylgi sögunni.

 

The Amazing Spider-Man (2012)

Leikstjóri: Marc Webb

Aðalhlutverk: Andrew Garfield, Emma Stone, Rhys Ifans, Irrfan Khan, Martin Sheen, Sally Field

Ástæða: Ég hefði haft meiri áhuga á að sjá framhald með Sam Raimi og félögum, þrátt fyrir lélega þriðju mynd, en samt verður áhugavert að sjá hvernig þessari reiðir af.

 

Ágúst

The Bourne Legacy (2012)

Leikstjóri: Tony Gilroy

Aðalhlutverk: Jeremy Renner, Rachel Weisz, Edward Norton

Ástæða: Jeremy Renner og Edward Norton. 

 

Total Recall (2012)

Director: Len Wiseman

Stars: Colin Farrell, Bokeem Woodbine, Bryan Cranston

Ástæða: Endurgerð stórskemmtilegrar sögu eftir Philip K. Dick, og ekki verra að Colin Farrell snúi aftur til Hollywood. Hann hefur verið dúndurgóður síðustu misserin.

 

The Expendables 2 (2012)

Leikstjóri: Simon West

Aðalhlutverk: Sylvester Stallone, Liam Hemsworth, Randy Couture, Jean-Claude Van Damme, Bruce Willis, Arnold Schwarzenegger, Dolph Lundgren, Jet Li, Jason Statham, Chuck Norris, Terry Crews 

Ástæða: Eins léleg og fyrri myndin var, má gera ráð fyrir betur leikstýrðu malli í þetta skiptið. Sterkt hjá þeim að fá hinn sjötuga Chuck Norris til að taka þátt, því að án hans hefðu engar kvikmyndir nokkurn tíma verið til.

 

September

Looper (2012)

Leikstjóri: Rian Johnson

Aðalhlutverk: Joseph Gordon-Levitt, Bruce Willis, Emily Blunt, Paul Dano, Jeff Daniels, Piper Perabo, Garret Dillahunt, Noah Segan

Ástæða: Hljómar frekar spennandi söguþráður. Leigumorðingi úr framtíðinni á tímaflakki er settur til höfuðs sjálfum sér í fortíðinni.

 

Október

 

Taken II (2012)

Leikstjóri: Olivier Megaton

Aðalhlutverk: Liam Neeson, Famke Janssen, Maggie Grace

Ástæða: Alveg til að fylgjast með Liam Neeson aftur sem hálfgerður miskunnarlaus James Bond sem gerir allt til að bjarga fjölskyldu sinni frá illmennum.

 

Nóvember 

    
Skyfall (2012)

Leikstjóri: Sam Mendes

Aðalhlutverk: Daniel Craig, Helen McCrory, Javier Bardem

Ástæða: Satt best að segja taldi ég 007 af eftir hina hörmulegu "Quantum of Solace", en með Sam Mendes í leikstjórastólnum og Javier Bardem sem illmenni getum við átt von á ansi góðri skemmtun.

 

Django Unchained (2012)

Leikstjóri: Quinten Tarantino

Aðalhlutverk: Joseph Gordon-Lewitt, Leonardo DiCaprio, Kurt Russell, Don Johnson, Christoph Waltz, Sacha Baron Cohen, Samuel L. Jackso og Jamie Foxx í hlutverki Django.

Ástæða: Tarantino

 

Desember

   
Les Misérables (2012)

Leikstjóri: Tom Hooper

Aðalhlutverk: Hugh Jackman, Russell Crowe, Anne Hathaway, Helena Bonham Carter, Sacha Baron Cohen, Eddie Redmayne 

Ástæða: Klassísk saga um félagslegt ranglæti þar sem hinir fátæku fá að þjást út í hið óendanlega meðan hinir ríku og voldugu njóta lífsins. Russell Crowe stendur alltaf fyrir sínu, og reyndar hlakkar mig svolítið til að sjá kvikmynd sem um leið er söngleikur. Svona myndir hefur svolítið vantað.

 

The Hobbit: An Unexpected Journey (2012)

hobbit-poster

Leikstjóri: Peter Jackson

Aðalhlutverk: Martin Freeman, Ian McKellen, Andy Serkis

Ástæða: Ein skemmtilegasta ævintýrasaga sem skrifuð hefur verið og jafnast á Lord of the Rings á blaði. Vonandi tekst Peter Jackson að vera trúr þessu ævintýri. Sýnishornið sem komið hefur út er þó frekar slakt og allt of mikið í sama stíl og Lord of the Rings. En þetta kemur allt í ljós, reikna með að seinni myndin verði betri en sú fyrri, þó að í fyrri myndinni ætti að vera töluvert af tröllum, risaköngulóm, Gollum, orkum og vörgum, því þá fáum við líka að kynnast drekanum Smaug.

 

Gleðilegt nýtt ár!

 

katy_perry_firework_470x300_large

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband