Snillingur fallinn: Robert James Fischer (1943-2008)
19.1.2008 | 02:53
Minningargrein um Bobby Fischer með hans eigin orðum. Hann var snillingur á skákborðinu en leiddist út í öfgafullar og ofsóknakenndar skoðanir gegn gyðingum, Bandaríkjamönnum, vestrænum læknavísindum, konum og öðrum skákmönnum, sem er nokkuð sem ég get engan veginn tekið undir. Samt átti hann fjölda gullkorna sem vert er að rifja upp, hvort sem að þau eru pólitískt rétt eða röng.
Hann var sjálfum sér verstur, en átti litríkan feril, og heimurinn, og þá sérstaklega skákheimurinn og Ísland, væri án nokkurs vafa mun fátækari án hans. Ég hef oft kíkt yfir skákirnar hans og dáðst að hugrekkinu og dirfskunni sem hann komst upp með yfir skákborðinu. Mig grunar reyndar að hann hafi ekki gert skýran greinarmun á þeim hugsunarhætti sem góður árangur í skák krefst, og þeim ólíka hugsunarhætti sem þörf er á til að ná árangri í lífinu sjálfu.
Fischer fær orðið:
"Ég er ekki eins mjúk og gjafmild manneskja og ég væri ef heimurinn hefði ekki breytt mér." (Robert J. Fischer)
"Skák er stríð yfir borðinu. Markmiðið er að mylja huga andstæðingsins" (Robert J. Fischer)
"Ég held að það sé nánast öruggt að skákin er teórískt jafntefli." (Robert J. Fischer)
"Ég er besti skákmaður í heimi og er hérna til að sanna það." (Robert J. Fischer)
"Taktík flæðir úr bætri stöðu." (Robert J. Fischer)
"Farðu inn í hvern einasta dag óþekktur til að sanna þig." (Robert J. Fischer)
"Mig langaði að gefa þeim eitthvað til að hugsa um þegar þeir undirbúa sig gegn mér í framtíðarmótum." (Robert J. Fischer)
"Ég mótmæli því að vera kallaður skáksnillingur, því ég tel mig vera algjöran snilling sem vill bara þannig til að teflir skák, sem er nokkuð mikill munur. Rusl eins og Kasparov gæti verið kallaður skáksnillingur, en hann er eins og heimsk alfræðiorðabók um skák. Fyrir utan skákina hefur hann enga þekkingu." (Robert J. Fischer)
"Fyrsta kennslustund þín í skák verður að tefla alla þræði nútíma skákbyrjana, og einnig neðanmálsgreinarnar. Í næstu kennslustund vil ég að þú gerir það aftur." (Robert J. Fischer)
"Ef einhver tæki út fyllingu og setti raftæki í staðinn, gæti hann haft áhrif á hugsun þína. Ég vil ekkert gervi í mínu höfði... Ég lét fjarlægja allar mínar fyllingar fyrir þó nokkru." (Robert J. Fischer)
Einbeittu þér að því að vinna liðsmun. Allt sem andstæðingurinn gefur þér skaltu taka, nema þú sjáir góða ástæðu til að gera það ekki." (Robert J. Fischer)
"Skák er líf." (Robert J. Fischer)
"Andstæðingar mínir leika líka góða leiki. Stundum gleymi ég að taka tillit til þess." (Robert J. Fischer)
"Það eina sem ég vil nokkurn tíma gera er að tefla." (Robert J. Fischer)
"Eins og Ólafsson sýndi mér, þá getur hvítur unnið... Það er erfitt að trúa því. Ég vakti í alla nótt og skoðaði skákina, og sannfærði sjálfan mig að lokum, og svo vill til að í leiðinni lærði ég um hróka og peðsendatöfl." (Robert J. Fischer)
"Ég trúi ekki á sálfræði. Ég trúi á góða leiki." (Robert J. Fischer)
"Mér líkar ekki við bandarískar stelpur. Þær eru mjög stoltar. Þær evrópsku eru þægilegri." (Robert J. Fischer)
"Það eina sem skiptir máli á skákborðinu eru góðir leikir." (Robert J. Fischer)
"Stundum skrifa stelpur mér. Ein stúlka í Júgóslavíu sendi mér fullt af ástarbréfum. Ég veit ekki hvernig hún fékk heimilisfangið mitt. Hún var í áhorfendahóp sem horfði á mig tefla. Hún segir að þegar ég fór hafi stjörnurnar byrjað að hrapa af himnum yfir Júgóslavíu, eða eitthvað svoleiðis." (Robert J. Fischer)
"Eina leiðin til að verða góður í skák er að elska leikinn." (Robert J. Fischer)
"Ég á enga nána vini. Ég á engin leyndarmál. Ég þarf ekki á vinum að halda. Ég segi bara öllum allt, það er allt og sumt." (Robert J. Fischer)
"Skák heimtar algjöra einbeitingu og ást á leiknum." (Robert J. Fischer)
"Ég var vanur að klæða mig illa þar til ég varð sextán ára gamall. Fólk virtist ekki bera nógu mikla virðingu fyrir mér. Mér líkaði það ekki, þannig að ég ákvað að sýna þeim að þeir eru ekkert betri en ég. Þeir voru eiginlega að monta sig. Þeir sögðu, "Hann vann okkur í skák, en hann er samt bara illa klæddur krakki.' Þannig að ég ákvað að vanda klæðnaðinn betur." (Robert J. Fischer)
"98% af hugarorku minni fer í skák. Aðrir nota bara 2%" (Robert J. Fischer)
"Ég er ekki viss um hvað þú meinar með prímadonna, en ef ég hef ekki áhuga á einhverju eða ef mér leiðist einhver, eða ef ég held að þeir séu falskir, þá hef ég ekkert með þá að gera, það er allt og sumt." (Robert J. Fischer)
"Líkami þinn þarf að vera í toppformi. Skákin hrörnar samhliða líkamanum. Þú getur ekki aðskilið líkama frá huga." (Robert J. Fischer)
"Þú lærir ekkert í skóla. Það er bara tímaeyðsla. Þú ferð með bækur út um allt og vinnur heimavinnu. Enginn hefur áhuga á þessu. Kennararnir eru heimskir. Þeir ættu ekki að hafa neinar konur þarna. Þær kunna ekki að kenna. Þær ættu ekki að þvinga neinn til að ganga í skóla. Þú vilt ekki fara, þú ferð ekki, það er allt og sumt. Þetta er fáránlegt. Ég man ekki eftir neinu sem ég hef lært í skóla. Ég hlusta ekki á aumingja. Ég eyddi tveimur og hálfu ári í Erasmus skólanum. Mér líkaði engan veginn við þetta. Þú þarft að vera innan um alla þessa heimsku krakka. Kennararnir eru jafnvel heimskari en krakkarnir. Þeir tala niður til krakkanna. Helmingur þeirra er bilaður. Ef þeir hefðu leyft mér það, hefði ég hætt áður en ég varð sextán ára." (Robert J. Fischer)
"Ég undirbý mig vel. Ég veit hvað ég get gert áður en ég fer inn. Ég er alltaf fullur af sjálfstrausti." (Robert J. Fischer)
Ég ferðast mikið um heiminn. Evrópa, Suður Ameríka, Ísland. En þegar ég er heima, veit ég ekki. Ég geri ekki mikið. Ég vakna kannski klukkan ellefu. Ég klæði mig og allt, kíki í skákbækur, fer niður og borða. Ég elda aldrei minn eigin mat. Ég trúi ekki á svoleiðis. Ég borða ekki heldur á kaffistofum eða sjálfsafgreiðslustöðum. Mér finnst gott þegar þjónn þjónar mér. Góðir veitingastaðir. Eftir mat hringi ég yfirleitt í einhverja af skákvinum mínum, fer í heimsókn og skoða skák eða eitthvað. Kannski fer ég í skákklúbb. Síðan fer ég kannski í bíó eða eitthvað. Það er í rauninni ekkert að gera fyrir mig. Kannski skoða ég bara einhverja skákbók." (Robert J. Fischer)
"Sálfræðilega þarftu að hafa sjálfstraust og þetta sjálfstraust ætti að vera byggt á staðreynd." (Robert J. Fischer)
"Systir mín keypti handa mér skáksett í sælgætisverslun og kenndi mér mannganginn." (Robert J. Fischer)
"Fólk hefur verið að tefla gegn mér undir þeirra eigin getu í fimmtán ár." (Robert J. Fischer)
"Reshevsky og ég erum þeir einu í Bandaríkjunum sem reyna (að lifa á skák). Við fáum ekki mikið. Hinir meistararnir vinna önnur störf. Eins og Rossolimo, hann keyrir leigubíl. Evans vinnur fyrir kvikmyndafyrirtæki. Rússarnir fá peninga frá ríkinu. Við þurfum að treysta á verðlaunafé úr mótum. Og þau eru léleg. Kannski nokkuð hundruð dollarar. Það eru milljónamæringar sem styrkja skákina, en þeir eru allir nískir. Sjáðu hvað þeir gerðu fyrir golfið: þrjátíu þúsund dollarar fyrir mót er ekki neitt. En fyrir skák gefa þeir þúsund eða tvö þúsund og finnst það mikið mál. Mótið þarf að heita eftir þeim, allir þurfa að beygja sig fyrir þeim, tefla þegar þeir vilja, allt fyrir nokkur þúsund dollara sem er þeim einskis virði hvort sem er. Þeir nota skattpening í þetta. Þetta er nískt fólk. Það er fáránlegt." (Robert J. Fischer)
"Það ert bara þú og andstæðingur þinn við skákborðið og þú ert að reyna að sanna eitthvað." (Robert J. Fischer)
"Það er skákmönnunum sjálfum að kenna. Ég veit ekki hvað þeir voru áður, en í dag eru þeir ekki herramannslegur hópur. Þegar hefðarfólk tefldi var meiri tign og virðing tengd skákinni. Þegar þeir voru með klúbba þar sem engum konum var hleypt inn, og allir voru í jakkafötum, með bindi, eins og herramenn, þú veist. Núna koma krakkar hlaupandi á strigaskóm. Jafnvel í bestu skákklúbbum er konum hleypt inn. Þetta er orðið að félagslegum stöðum og fólk er með læti, þetta eru vistheimili fyrir geðveika." (Robert J. Fischer)
"Ég tefli af einlægni og ég tefli til að vinna. Ef ég tapa tek ég meðölin mín." (Robert J. Fischer)
"Mér er sama! Ég þarf ekki að sýna neinum skákirnar mínar vegna þess að þeir eru eitthvað merkilegir!" (Robert J. Fischer)
"Þú verður að hafa baráttuanda. Þú verður að þvinga leiki og taka áhættu." (Robert J. Fischer)
Fischer gegn Rússum
"Allar mínar skákir eru raunverulegar." (Robert J. Fischer)
"Það er þetta sem skákin snýst um. Einn daginn tekurðu andstæðing þinn í kennslustund, næsta dag tekur hann þig í
kennslustund." (Robert J. Fischer)
"Það var opið samráð á milli rússneskra skákmanna. Þeir samþykktu fyrirfram að gera jafntefli hver við annan. Alltaf þegar þeir sömdu jafntefli náðu þeir hálfum vinningi." (Robert J. Fischer)
"Mér finnst gaman að kvelja andstæðingana." (Robert J. Fischer)
"Þeir eiga ekkert í mig, þessir gaurar. Þeir geta ekki einu sinni snert mig. Sumir telja þá betri en mig. Það böggar mig verulega. Þeir halda að enginn Bandaríkjamaður kunni að tefla. Þegar ég hitti þessa rússnesku viðvaninga skal ég sýna þeim hvar þeir standa." (Robert J. Fischer)
"Mér finnst gaman þegar ég brýt sjálf andstæðingsins." (Robert J. Fischer)
"Ég dvel yfirleitt aldrei við taflborðið eftir skák. Sérstaklega gegn Spassky. Ég gerði heimskulega athugasemd sem hann hafnaði strax! Ég veit að ég á eftir að tefla við hann aftur og að það var heimskulegt af mér að haga mér eins og hálfviti fyrir framan hann." (Robert J. Fischer)
"Það eru harðir skákmenn og ljúfir einstaklingar, og ég er harður skákmaður." (Robert J. Fischer)
"Ég er ekki hræddur við Spassky. Heimurinn veit að ég er bestur. Þú þarft ekki einvígi til að sanna það." (Robert J. Fischer)
"Teflum. Ég er til í að tefla hvar sem er." (Robert J. Fischer)
"Þegar ég vinn mun ég leggja titilinn að veði á hverju ári, jafnvel tvisvar á ári. Ég mun gefa skákmönnum færi á að sigra mig." (Robert J. Fischer)
"Snillingur. Það er orð. Hvað þýðir það í raun og veru? Ef ég vinn er ég snillingur. Ef ekki, er ég það ekki." (Robert J. Fischer)
"Karpov, Kasparov, Korchnoi hafa algjörlega eyðilagt skák með siðlausum fyrirfram ákvörðuðum skákum. Þessir gaurar eru virkilega ómerkilegustu hundarnir á svæðinu." (Robert J. Fischer)
"Þegar ég var ellefu ára, varð ég bara góður." (Robert J. Fischer)
"Flest fólk eru lömb sem þurfa stuðning annarra." (Robert J. Fischer)
"Ferill minn snerist við þegar ég uppgötvaði að svartur skuli tefla til sigur í stað þess þess að stefna á að jafna taflið." (Robert J. Fischer)
"Ég las nýlega bók eftir Nietzsche þar sem hann segir að trúarbrögð séu bara til að slæva skilningarvit fólks. Ég er sammála." (Robert J. Fischer)
"Ef ég vinn mót, vinn ég það sjálfur. Ég er sá sem tefli. Enginn hjálpar mér." (Robert J. Fischer)
"Hugur okkar er allt sem við höfum. Ekki það að hann villi stundum um fyrir okkur, en við þurfum samt að skoða hlutina út frá sjálfum okkur." (Robert J. Fischer)
"Ef þú vinnur ekki er það enginn harmleikur - það versta sem gerist er þegar þú tapar skák." (Robert J. Fischer)
"Skák snýst um nákvæma dómgreind, að vita hvenær á að kýla og hvernig skal víkja." (Robert J. Fischer)
"Traust minni, einbeiting, ímyndunarafl og sterkur vilji," (Robert J. Fischer) (Um það sem þarf til að verða sterkur skákmaður.)
"Ég þekki fólk sem hefur allan vilja í heiminum, en getur samt ekki teflt vel." (Robert J. Fischer)
"Ég virkilega elska myrkur næturinnar. Það hjálpar mér að einbeita mér." (Robert J. Fischer)
"Skák er erfið vegna allar spennunnar og einbeitingarinnar, að sitja þarna klukkustund eftir klukkustund. Maður verður úrvinda." (Robert J. Fischer)
"Hver skák er eins og fimm klukkustunda lokapróf." (Robert J. Fischer)
"Þú veist að ég er hættur að tefla upp á gamla mátann því þetta snýst að mestu um teóríur og að leggja á minnið." (Robert J. Fischer)
"Gamla skákin er of takmörkuð. Ímyndaðu þér að spila til dæmis Svarta Pétur á spil, og þú færð alltaf sömu spilin í hendurnar. Hver er tilgangurinn?" (Robert J. Fischer)
"Ég hef engan áhuga á stjórnmálum. Ég kom til Júgóslavíu til að tefla og ekkert annað." (Robert J. Fischer)
"Ég fyrirlít fjölmiðla." (Robert J. Fischer)
"Er það lögbrot að drepa fréttamann?" (Robert J. Fischer)
"Þeir hafa bara áhuga á að skrifa slæma hluti um mig." (Robert J. Fischer)
Ísland, 1972:
Athugasemdir
Góð samantekt.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 19.1.2008 kl. 13:07
Virkilega flottur pistill hjá þér, mikil vinna sem þú hefur lagt í þetta. Takk fyrir kærlega. Þetta var svo sannarlega snillingur og ég verð að viðurkenna að það gladdi mig mjög þegar hann kom til landsins og að hann skildi fá að dvelja hér síðustu lifdaga sína sem frjáls maður og óáreittur. Góða helgi.
Ásdís Sigurðardóttir, 19.1.2008 kl. 13:10
Takk fyrir þetta fallega ferðalag. Hann hafði einstakt lag á því að snúa okkar heimatilbúna raunveruleika á hvolf.
Hver sér fegurðina í þessu?:
"Snillingur. Það er orð. Hvað þýðir það í raun og veru? Ef ég vinn er ég snillingur. Ef ekki, er ég það ekki."
Þarna fór stórkostleg, en skelfilega misskilin, sál.
Linda (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 16:07
skemmtilegt hjá þér hrannar. flott vinna. svona maður gleymist seint... aldrei.
arnar valgeirsson, 19.1.2008 kl. 17:57
Bobby var fyrst og fremst á móti síonistum (einu alversta rasista- og fasistahyski allra tíma og er þá mikið sagt) en margir þeirra eru nú einu sinni gyðingar. Þó er töluvert um nytsama (kristna) sakleysingja sem hafa gleypt við áróðri síonistanna og gert hann að sínum.
Baldur Fjölnisson, 19.1.2008 kl. 20:35
Takk fyrir athugasemdirnar.
Baldur: Bobby virtist alltaf þurfa að finna sér einhvern andstæðing, sérstaklega eftir að hann hætti að tefla. Hann virtist hafa þessa gífurlegu þörf fyrir að vinna, enda taldi hann sig vera alhliða snilling sem gæti unnið hvaða mál sem er.
Hann átti erfiða ævi. FBI grunaði móður hans og hann sjálfan um að vera rússneskir njósnarar, hann var handtekinn i Pasadena eftir að hann varð heimsmeistari og þurfti að dúsa í fangelsi í tvær vikur fyrir að vera með derring við lögreglumenn, - þessi fangelsisdvöl virðist hafa skaðað hann töluvert, síðan gekk hann í kristilegan sértrúarsöfnuð þar sem hann gaf mestan hluta verðlaunafé síns, og þegar hann uppgötvaði hvernig peningurinn var misnotaður gerðist hann trúleysingi, allar eigur hans í Bandaríkjunum voru gerðar upptækar og seldar - þar á meðal allir hans minjagripir um glæsta sigra, nafn hans var notað í leyfisleysi til að selja bækur og kvikmyndir, og hann var á endanum útlagi frá Bandaríkjunum.
Hann átti sér marga óvini, og virtist ekki gera sér fulla grein fyrir hvort þeir væru raunverulegir eða ímyndaðir. Meðal óvina hans voru (ekki stöðugt alla tíð samt) lögreglumenn, konur, rússneskir skákmenn, KGB, FBI, gyðingar, Bandaríkjastjórn, íslenska ríkið, Japanir, Englendingar, Ástralir, og þannig má lengi telja. Að taka hann alvarlega sem gyðingahatara eða rasista er að ganga einum of langt, hann var einfaldlega sjúklingur og ekki hægt að dæma hann fyrir það, enda gerði hann ekki flugu mein.
Hrannar Baldursson, 19.1.2008 kl. 20:59
Því má bæta við að Fischer hélt því fram að allar skákir í heimsmeistaraeinvígum þeirra Kasparovs og Karpovs hefðu verið uppspunni einn og fyrirfram plottuð. Einnig vildi hann ekki fara í aðgerðir þar sem hægt væri að koma hlutum fyrir í líkamanum, og hafði til að mynda látið fjarlægja allar fyllingar úr tönnum sínum þar sem hann óttaðist að hægt væri að koma fyrir rafeindabúnaði bakvið fyllingarnar sem gætu stjórnað hugsunum hans.
Hrannar Baldursson, 19.1.2008 kl. 21:02
Ég hætti að tefla fyrir 20 árum en á meðan ég eyddi tíma í skák var Fischer að sjálfsögðu aðal guðinn og drifkrafturinn. Ég átti bók með öllum skákum Fischers og reyndi að læra af þeim. Maðurinn var algjört fenómen. Þeir lýsa honum núna sem Mozart skáklistarinnar og ég hef engu við það að bæta. Pólitísku rétttrúnaðarkirkjunni líkar illa árásir hans á síonista og reyna að snúa út úr þeim en það gengur ekki.
Baldur Fjölnisson, 19.1.2008 kl. 22:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.