Á íslenska þjóðin að redda bönkunum?
9.5.2008 | 22:46
Síðan bankarnir voru seldir í einkarekstur og þessar stofnanir fóru að snúast um að græða fyrir eigendur frekar en stuðla að fjárhagslegum stöðugleika fyrir þjóðina alla, hefur íslenskt þjóðfélag gjörbreyst.
Gífurlegur auður hefur orðið til í fjármálageiranum, sem að miklu leyti hefur sprottið úr hækkun á verðmætamati fasteigna og vegna þess að bankarnir eiga enn þær eignir sem fólkið hefur keypt og er enn að greiða niður, eða réttara sagt upp, því að höfuðstóll lána hækkar bara á Íslandi, en lækkar ekki eins og í eðlilegu fjármálaumhverfi.
Eigendur bankastofnana hafa grætt mest á verðbólgu húsnæðismarkaðarins, sem og allir þeir sem að sölu húseigna koma. En nú hefur hægt á markaðnum. Stóra fjármálablaðran er ekki bara hætt að þenjast út, hún er farin að dragast saman. Þetta þýðir að auðmenn græða ekki jafn mikið og áður, og almúgafólk er farið að tapa hraðar en fyrr.
Fólk kallar á aðgerðir, en fær ekki svör.
Hins vegar liggja ákveðnar aðgerðir fyrir, aðgerðir sem eru svo skuggalegar og hættulegar fyrir almennan borgara að mér líst ekkert á blikuna. Aðgerðirnar snúast um að fá alþjóðleg lán til að "redda" íslenskum bönkum úr mestu vandræðunum.
Nú vil ég rekja stutta sögu. Rétt fyrir páska brást á mesta gengisfelling sem um getur í fleiri áratugi á Íslandi. Seðlabankastjóri var fljótur að slá því fram að innlendir sem og erlendir aðilar hafi verið þar að verki. Einnig hefur komið í ljós að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur ekki mannauð, getu eða fjármagn til að rannsaka víðmikil og flókin fjármálamisferli.
Talað var um að bankarnir sjálfir hefðu valdið gengisfellingunni fyrir páska til þess að afkoma þeirri liti betur út á fyrsta ársfjórðungi. Nú kemur í ljós að þessi samsæriskenning stenst, að bankarnir hafi komið út í stórgróða eftir gengisfellinguna sem að þeir hafi sjálfir valdið, á meðan stýrivaxtahækkun og verðbólga sem fylgdi í kjölfarið, hefur valdið því að fólk þarf að borga enn meira hlutfallslega af sínum skuldum, einmitt til bankanna.
Nú eru fyrirliggjandi áætlanir um aðgerðir ríkisins að koma í ljós; að taka erlend lán í massífu magni til að styðja við íslensku bankana, sem takið eftir, eru í einkaeign og eru ekki lengur ríkisbankar. Þetta þýðir í raun að sama þó að bankarnir hafi verið seldir, og að ef þeir fara á hausinn eftir að þessi ofurlán hafa verið tekin, að íslenska þjóðin þarf að borga fyrir með blóði, svita og tárum.
Eins og staðan er í dag, ef banki fer á hausinn, þá fer hann bara á hausinn. Ef Ríkið tekur lán og lánar banka sem síðan fer á hausinn, þarf ríkið að borga upp lánið, þar sem að greiðslur hætta að koma frá bankanum, og Ríkið, sem er ekkert annað en fólkið í landinu, þarf að borga.
Ég vil ekki taka þessa áhættu. Ég vil að skattar mínir fari í verðug málefni: menntun barna minna og heilbrigðismál fyrst og fremst, en ekki í bankastofnanir sem einkaaðilar eiga, sem gæti ekki staðið meira á sama um viðskiptavini þeirra, svo framarlega sem hægt er að græða á þeim.
Ég sé fyrir mér ráðherra eftir nokkra mánuði þegar þessi erlendu lán eru farin að taka á þjóðarbúinu öllu, og ekki er lengur svigrúm til að lækka skatta eða minnka álögur á þá sem standa verst, einmitt lántökunnar vegna. Þeir segja: "Þið báðuð um aðgerðir, borgarar góðir. Þið fenguð það sem þið báðuð um. Samt eruð þið óánægð. Það er greinilega aldrei hægt að gera ykkur til geðs."
Málið er að auðstéttin sem að Ríkinu stjórnar dulbúið hugsjónum lýðræðis (democratic oligarchy) tapar á því að bæta kjör þeirra sem fyrir brauðinu vinna og verst standa. Þess vegna verður staðið í vegi fyrir betri kjörum eins framarlega og kostur gefst. Því að málið er að eftir því sem að auðurinn vex meira hjá fáum, því fleiri einstaklinga þarf til að vinna þá vinnu sem skapar þann auð og viðheldur honum, það er að segja, nema að peningar séu allt í einu farnir að vaxa á trjánum.
Lýsing grínistans George Carlin á því auðræði í Bandaríkjunum sem er skuggalega nálægt hinum nýja íslenska veruleika.
Athugasemdir
Mikill sannleikur fólginn í þessum pistli hjá þér Hrannar. Þetta er nákvæmlega staðan, svo einfalt er það.
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 10.5.2008 kl. 00:55
Heyr, heyr! Hvernig væri að ríkið lánaði bara þessa peninga milliliðalaust til fólksins á sömu kjörum.
Hrafn Rögnvaldsson (IP-tala skráð) 10.5.2008 kl. 11:17
Hrannar, ég held að það skipti ekki máli hvernig fer það lendir alltaf á skattgreiðendum að borga brúsann. En við megum ekki gleyma því, að það er hugsanlega verið að greiða bönkunum pening til að bjarga innistæðum þessara sömu skattgreiðenda, þannig að í einhverjum tilfellum er verið að færa peningana úr einum vasa skattgreiðanda í annan.
En varðandi þennan vanda bankanna og stöðu gjaldeyrisvarasjóðs, þá í fyrsta lagi hefur Seðlabankinn tekjur af bönkunum og þær ekkert litlar, í öðru lagi er ekkert sem bendir til þess í augnablikinu að bankarnir séu að komast í þrot, í þriðja lagi væri tekið erlent lán til langs tíma til að búa til þennan sjóð og ef hægt er að ávaxta þennan sjóð skynsamlega, þá mun hann mjög líklega standa undir sér, í fjórða lagi þyrftu bankarnir að greiða til baka (á einhverjum árum) allt sem sjóðurinn leggur til þeirra og í fimmta lagi, ef til þjóðnýtingar eins eða fleiri banka kæmi, þá fengjust þeir á brunaútsölu (Bears and Stearn var seldur á um 1% af nokkurra daga gamals markaðsvirðis) og hægt væri að selja þá vonandi aftur innan nokkurra ára á mun hærra verði. Það þarf því ekki að vera, að við óbreyttur landslýður töpum nokkru á þessu fyrirkomulagi, þó svo það ylli okkur tímabundunum óþægindum/þrengingum.
Marinó G. Njálsson, 10.5.2008 kl. 12:16
Frábær pistill, Hrannar... og sannur. Kærar þakkir...
Lára Hanna Einarsdóttir, 10.5.2008 kl. 12:33
Takk fyrir virkilega góða hugvekju um mál sem brennur á mörgum.
Georg P Sveinbjörnsson, 10.5.2008 kl. 13:02
Sæll Hrannar,
Las hratt yfir greinina og ágætis grein er þetta. Ég vil þó benda á það að ef banki verndar sig ekki gegn gjaldeyrisáhættu þá er það illa stjórnaður banki. Það að benda á að þeir hafi grætt á gengisfallinu er því slæm rökfærsla - flestir með smá viðskiptavit vissu það að gengið myndi falla þar sem það var búið að vera mjög sterkt upp að þessum tíma. Ég tel það ekki heldur ekki hlutverk bankanna að stjórna genginu það á að vera í höndum Seðlabanka og ríkisstjórnar (þó sú stjórn sé ekki mikil nú). Hlutverk bankanna er líkt og aðra fyrirtæki að hámarka hagnað hluthafa og veita góða vöru/þjónustu til viðskiptavina sinna.
Þú talar einnig um að þú viljir ekki greiða með bönkunum ef þeir fara í þrot, sem er reyndar alls ekki líklegt. Ég tel það nú ekkert betra að ríkið sitji aðgerðalaust á meðan að Íslendingar tapi öllu sínu sparifé, því það er nokkuð ljóst að gjaldþrota banki getur ekki greitt út innistæður sparifjáreigenda.
Ég hef miklar áhyggjur af því að meginþorri Íslendinga sé einfaldlega ekki með nægilega fjármálaþekkingu, þetta er á engan hátt meinað til þín bara mín athugasemd um íslenskan almenning. Tekin eru lán fyrir öllu mögulegu og velflestir lifa langt um efni fram. Síðan þegar í harðbakkann slær þá er strax bent á aðra í stað þess að líta í eigin barm, þurfti fólk endilega hjólhýsi með öllu inniföldu?
Ég sé þegar ég lít yfir athugasemdina að hún er nokkuð hliðholl bönkunum:) Ég vil því taka það sérstaklega fram að ég er á engan hátt tengdur þeim. Ég trúi einfaldlega sterklega á það að hver einstaklingur sé ábyrgur fyrir sínum eigin gjörðum.
Kveðja,
Fannar
Fannar (IP-tala skráð) 10.5.2008 kl. 13:28
Góð grein, Hrannar. Auðvitað hafa bankasnillingarnir hagað sér verr en beljur sem hleypt er út á vorin. Og fengið hrós fyrir, svo skrýtið sem þar er. Svo er alveg með ólíkindum að það sem allir meðalgreindir menn hafa séð fyrir í nokkur ár skuli nú loksins vera að vekja þá sem stjórna landinu af Þyrnirósarsvefninum. Auðvitað er alveg hægt að taka undir með Fannari að við íslendingar sjáumst aldrei fyrir í eyðslunni. Ef hægt er að fá pening með því að skrifa nafnið sitt, er hann tekinn - og eytt strax! En einmitt vegna þessa þjóðareinkennis þarf að vera hér sterk efnahagsstjórn. En hana hefur bara alveg vantað í fjölda ára.
Þórir Kjartansson, 10.5.2008 kl. 14:15
Góð athugasemd hjá Fannari, reyndar það besta sem skrifað hefur verið um þetta blogg og nær sannleikanum en sjálft bloggið. Annars benda Q1 uppgjör bankanna ekki til þess a þeir séu á leið í gjaldþrot, svolítið gömul tugga þar á ferð.
Haffi, 10.5.2008 kl. 15:01
Flott grein Don
Ómar Ingi, 10.5.2008 kl. 16:30
Mjög áhugaverð grein. Eins og nokkrir minntust á að íslendingar tapi sparifénu sínu þá held ég að íslendingar eigi meiri skuldir til að hafa áhyggjur af heldur en sparifé.
kveðja
Skafti Elíasson, 10.5.2008 kl. 23:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.