Af hverju bjartsýni á myrkum dögum? Og hvað er eiginlega bjartsýni?

 


 

Ég spurði son minn hvernig hann skilgreindi bjartsýni. Hann svaraði því til að svartsýni þýddi að við værum blind því að við leituðum ekki í ljósið, en bjartsýni þýddi að við horfðum í ljósið og það gæti blindað okkur. Þetta er hárrétt hjá honum, en eins og alltaf, þá er til millivegur sem gefur okkur færi á að horfa í ljósið með sólgleraugum öðru hverju án þess að blindast.

Það er rétt að Íslendingar eiga í miklum vanda þessa dagana. Stjórnvöld hafa brugðist og auðkýfingar hafa nánast gert þjóðina gjaldþrota, og ekki nóg með það - þeir eru enn á sömu braut. Fréttirnar um spillingu, skuldir og tap hellast yfir þjóðina eins og svartnætti.

Þegar það gerist, geturðu tekið afstöðu. Ætlarðu að láta alla þessa illsku hellast yfir þig og blinda þig, þannig að þú getir ekkert annað séð en hörmungar og vonleysi. Ætlarðu kannski að hafna þessu öllu saman og sjá þess í stað björtu hliðarnar á öllu, eins og Birtingur Voltaire, og láta eins og ekkert slæmt geti hent nokkurn mann, sama hvaða hörmungar sá hinn sami lendir í.

Til er þriðji kosturinn, og hann er að fylgjast með þessum hörmungum, en láta þær ekki yfirbuga sig með því að velta sér stanslaust upp úr þeim í fari sem erfitt er að komast upp úr. Munum að við erum manneskjur sem höfum þann eiginleika að geta sigrast á vandamálum - þegar við einblínum á eina leið til sigurs - eins og mótmæli, þá komumst við því miður ekki langt, því að þeir sem við mótmælum geta valið að hlusta ekki.

 

 

Hins vegar eru til fleiri leiðir, óteljandi leiðir, til að bæta heiminn örlítið með því að líta heiminn björtum augum þrátt fyrir allt. Þrátt fyrir alla þessa spillingu, alla þessa glæpi og allar þessar skuldir, þá getum við ekki stöðugt treyst á einhverja aðra til að leysa vandann. Við þurfum að taka málin í okkar hendur.

Ég ákvað að fara þá leið að skoða það sem hefur gengið vel áður og gengur vel í dag, til að veita mér innblástur - að finna smá ljóstæru í svartnættinu - bjartsýni, eða ljós innan frá, eins og vasaljós, sem getur hjálpað til að finna leiðir út úr þessum Surtshelli sem margir virðast týnast í.

Ég er venjuleg manneskja eins og þú. Hneykslaður á þeirri spillingu sem hefur fest um sig í stjórnkerfinu, skilningsleysi ráðamanna um pólitíska ábyrgð, misnotkun auðmanna á almannafé í hagnaðarskyni og hvernig þeir hafa komist undan á meðan almenningur situr uppi með skuldirnar - og ég er meðal þeirra sem sitja í skuldasúpunni. Í stað þess að mæta á mótmælafundi, hef ég einbeitt mér að því að finna aðrar leiðir út úr vandanum. Ein þeirra er bjartsýni.is.

 

 

Skrifstofa forseta Íslands studdi okkur til verksins og hjálpaði góðum hóp að ná saman, fólki sem hugsar á svipuðum nótum, sem áttar sig á alvarleika ástandsins en vill ekki sitja á auðum höndum eða treysta á einhvern annan sem hvort eð er virðist ekki treystandi til að leysa málin. Ég sé lítið gagn í að gagnrýna forsetann sjálfan fyrir að hafa stutt útrásina, því að útrásin sem slík er ekki vandamálið, heldur þeir auðmenn sem misnotuðu og misnota enn aðstöðu sína. 

Öflug fyrirtæki eru enn að hagnast á framleiðslu út um allan heim sem hönnuð er á Íslandi. Það er ekkert að slíkri útrás. Eina gallaða útrásin er sú sem byggð var á fjármálabraski, sem þýðir ekki að öll önnur útrás hafi verið sams konar brask. Að segja alla útrás vera af hinu illa er það sama og að segja alla Íslendinga vera glæpamenn bara vegna þess að sumir Íslendingar eru glæpamenn. Það er munur á hluta og heild.

 


 

Fólk er oft úrræðagott á ögurstundu. Ég vil heyra sögur af slíku, þegar fólk hefur sett sér markmið sem virðist vonlaust að ná, en nær því samt. Slíka sögu er hægt að finna hér, og hefur þegar veitt mér töluverðan innblástur: Sagan af 3X Technology og fyrsta útflutningnum. Þessi saga segir mér einfaldlega að þó aðstæður séu erfiðar og virðist óyfirstíganlegar, þá getum við með dug og ímyndunarafli búið til aðstæður sem leysa málin eða komast í það minnsta nær takmarkinu.

Við getum ekki einbeitt okkur að slíkum lausnum þegar við erum bundin við mótmæli og hneykslun á þeim mannlegu hamförum sem yfir okkur dynja - þar þyrftum við að í raun að kalla eftir aðstoð annarra þjóða til að uppræta upplausn okkar, þar sem að við virðumst ekki ráða við það sjálf - frekar en fjölskylda sem er buguð af alkóhólisma. Meðlimir fjölskyldunnar þurfa þó ekki að gerast meðvirkir allir sem einn, sumir geta farið út og leitað leiða til að gagnast sinni þjóð, þó að það verk geti þótt galið við fyrstu sýn.

 

 

Fyrir sex árum síðan glataði ég aleigu minni í fellibylnum Ísidóri. Morguninn sem veðrinu slotaði (stóð yfir í 36 klst.) bankaði nágranni minn uppá hjá mér og rétti mér sveðju. Við fórum út á götu og byrjuðum að höggva í sundur eitt af þúsundum trjáa sem rifnað höfðu upp með rótum í storminum. Það hefði sjálfsagt verið mikil bjartsýni hjá mér að ætla að höggva í sundur þau 10 þúsund tré sem rifnuðu upp með rótum og féllu á götur borgarinnar. Engu að síður var verk mitt hluti af stærri heild þar sem fjöldanum tókst að höggva nóg í trén til að geta opnað fyrir umferð, sem gerði mexíkóska hernum fært að komast inn í borgina með hermenn sem tóku við verkinu að kvöldi og héldu því áfram næstu daga.

Ég og mín fjölskylda fengum enga aðstoð frá íslenska eða mexíkóska Ríkinu, og við báðum heldur ekki um aðstoð heldur reyndum að leysa málin sjálf, samt fengum við mikla aðstoð frá fjölskyldu okkar Í Mexíkó sem útvegaði okkur húsaskjól næstu mánuðina. Við fluttum úr einni borg í aðra, fundum okkur ný störf og héldum áfram að lifa lífinu eftir bestu getu.

Þannig lít ég á bjartsýni.is. Þarna er komin uppspretta fyrir góðar hugmyndir. Í raun er ég nágranni þinn sem réttir þér sveðju eftir fellibyl. Þú getur skellt á mig í reiði, ráðist á mig með sveðjunni, eða komið með mér og byrjað að höggva á flækjuna sem lokar fyrir góðum leiðum.

Á bjartsýni.is eru velkomnar sögur sem stinga upp á leiðum til að leysa núverandi vanda í stað þess að vonast til að einhver annar leysi hann. 

 

 

Aðstandendur vefsins eru hvorki Pollýanna né Birtingur. Við snúum ekki öllu við og segjum að hörmungar séu góðar, heldur leitum leiða út úr vandanum með því að líta á björtu hliðarnar, og ekki bara það - heldur getum við búið til nýjar og bjartar leiðir sem enginn hefur kannski séð fyrir.

Þannig getum við byrjað á því að skilgreina bjartsýni. Til er óvirk bjartsýni sem vonast bara til að slæmir hlutir séu að einhverju marki góðir, eða vonast til að málin bara reddist af sjálfu sér - þetta reddast! - og svo er það hin virka bjartsýni - þar sem við leitum leiða til að leysa vandamálin og finna góðar leiðir sem við viljum fylgja - og gerum það!

 

Myndir: 

Sólgleraugu: trend clothes

Spilling: Fractal Ontology

Bjartsýni: bjartsýni.is

M&M áróður: studio seventy7

Fellibylurinn Ísídór: National Geophysical Data Center

Bjartsýnismaður í eyðimörk: John Fenzel


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Góð grein Don

PS: Búin að tryggja þér eintak af Dark Knight

Ómar Ingi, 14.12.2008 kl. 12:22

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk Ómar,

Ég er búinn að sjá Dark Knight tvisvar. Einu sinni heima og einu sinni í IMAX í London, og fannst hún ekkert betri fyrir vikið. Heldurðu virkilega að DVD útgáfan geri myndina betri?

Hrannar Baldursson, 14.12.2008 kl. 12:34

3 Smámynd: Börkur Gunnarsson

heill félagi!

ég stoppa lengur við næst og verð í sambandi!

Börkur Gunnarsson, 14.12.2008 kl. 14:55

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Gott að heyra Börkur. Farðu varlega í Afganistan.

Hrannar Baldursson, 14.12.2008 kl. 15:34

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Gott að þú ert vaknaður Don, því þú ert maður lausna.

Gangi ykkur vel með bjartsýni.is ekki veitir af.  Ég vil benda á

HHHH formúluna: Gerðu þér grein fyrir HVAÐ þú vilt, HVENÆR þú vilt það, HVERSVEGNA þú vilt það og HVERNIG þú hyggst ná því.

Eins vil ég benda ykkur hjá bjartsýni á manneskju sem þið ættuð að fjalla um hún er hérna á blogginu http://maggatrausta.blog.is/blog/maggatrausta/ .  Hún hefur unnið úr mjög erfiðri stöðu með bjartsýni eftir að hafa orðið atvinnulaus í byrjun keppunnar.

Magnús Sigurðsson, 14.12.2008 kl. 22:56

6 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Eins og vant hjá þér Hrannar afar góð og frumleg úttekt.

Guðmundur Pálsson, 20.12.2008 kl. 20:45

7 Smámynd: Ómar Ingi

Held að Blu Ray útgáfan frelsi þig Don

Ómar Ingi, 23.12.2008 kl. 00:44

8 Smámynd: Héðinn Björnsson

Á slystað þarf að byrja á því að koma í veg fyrir frekari slys. Sjálfur hef ég þess vegna valið að fókusera á að nota mína samfélagsvinnu í að koma núverandi valdhöfum frá (auðmennirnir og ríkisstjórnin þeirra), enda tel ég að þeir muni stela öllum ávöxtum vinnu okkar. Þegar það er frá skal ég slást í lið með uppbyggingunni.

Héðinn Björnsson, 6.1.2009 kl. 14:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband