Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2023

Mannlegt eðli: að verða meira manneskjur

DALL·E 2023-11-30 10.28.40 - A contemplative cowboy in a symbolic landscape, representing the struggle to understand and live according to human nature. The cowboy, embodying wisd

Tré vaxa og blóm blómstra, þau nærast á jörð og regni. Dýr fæðast, þroskast og deyja, þau geta hreyft sig til að nærast og fjölga sér. Fuglar fljúga, fiskar synda, ormar skríða og ljónin liggja í leti undir pálmatré. Lífið snýst oft um að næla sér í næsta bita, eins og reyndar hjá mannfólkinu.

Við vitum kannski meira um það hvað mannlegt eðli er, en þá þurfum við kannski að horfa í það sem gerir okkur að meira manneskjum heldur að því sem gerir okkur meira að dýrum. Græðgi, grimmd og hugsunarleysi gæti flokkast sem eitthvað dýrslegt, en það sem gerir okkur meira að manneskjum eru allt aðrir hlutir, og ég tel að leiðin að manneskjunni sé í gegnum dyggðirnar.

Helstu styrkleikar manneskjunnar, nokkuð sem við gleymum alltof oft að velta fyrir okkur felst í því hversu vel við getum hugsað um stórt sem smátt, elskað hvert annað og sjálf okkur, þekkt okkar eigin tilfinningar og hjálpað hvert öðru. Við getum tengst á ólíkan hátt, eins og hin dýrin getum við fjölgað okkur, en við getum tengt huga okkar saman með tungumáli og fjarskiptatækni sem er engu lík.

Einnig erum við frjáls til að velja á milli þess sem er rétt og rangt. Veljum við rangt, þá sköpum við vandræði, veljum við rétt, þá sköpum við örlítið betri heim. Við eigum það líka til að leita ekki bara eftir fæði og fjölgun, og tryggja það að fjölskylda okkar nái árangri í lífinu, heldur sækjumst við líka eftir merkingu í lífinu, við leitumst við að hugsa betur og gagnrýnið, við reynum stöðugt að bæta samskipti, samvinnu og samveru með öðru fólki.

Við höfum siðferðisvitund, sem snýst um að gera ekki einungis það sem er gott fyrir mann sjálfan, heldur einnig aðra í samfélaginu, sem og jafnvel fyrir allt mannkynið. Bestu dæmin um manneskjur eru þær sem gera þetta vel. Við reynum flest að átta okkur á muninum á því rétta og ranga, og sjáum skýrt hvaða afleiðingar það hefur að lifa lífinu illa og lifa því vel, bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið.

Það er stundum sem dýrslegar hvatir ná völdum á fólki, sem byggir á hatri, grimmd, fordómum og samanburði við aðra, að maður þurfi alltaf að vera númer eitt, alfa-dýrið, og þetta má sjá í stjórnmálamönnum sem vilja ráða yfir öllu hinu fólkinu, og vilja móta heiminn samkvæmt þessari dýrslegu mynd, því sem gerir okkur meira að dýrum og manneskjum, baráttunni fyrir fæði og fjölgun. Þessar hvatir má sjá í flestum harðstjórum og einræðisstjórnum, og reyndar líka í flokkum innan lýðræðisríkja, og í raun finnst mér það siðferðileg skylda okkar sem viljum vera mannleg, að berjast gegn slíkum völdum.

Að heimurinn sé sífellt mannlegri er það sem menntakerfin snúast um, er það sem heimspekin, trúarbrögðin, vísindin og fræðin berjast fyrir. Og hvað eftir annað í sögu mannkyns, birtast öfl sem reyna að rífa niður hið mannlega og þess í stað gera heiminn dýrslegri, grimmari, meira tengdum efni en anda.

Kannski mannlega eðlið felist í því að gefa öllum manneskjum tækifæri til að vera manneskjur, gefa dýrum tækifæri til að vera dýr og gefa plöntum tækifæri til að vera plöntur?

 


Hvaða gagn gerir samviskan?

DALL·E 2023-11-29 16.59.13 - A brave cowboy in a dramatic landscape, engaged in a symbolic battle with a dragon, representing the struggle with conscience. The cowboy, a figure of

Ég veit að ég hef samvisku, einhvers konar siðferðilegan áttavita sem hjálpar mér að átta mig á hvað er gott og hvað er vont að gera. Samviskan lætur mig vita ef ég ætla að gera eitthvað sem er ekki alveg nógu gott, en virðist vera hlutlaus þegar kemur að því að gera eitthvað rétt.

Oft undra ég mig á fólki sem getur logið, stolið og svikið; án þess að það virðist plagað af samviskubiti. Ég skil ekki hvernig slíkt fólk getur sofið vel gegnum nóttina eða fundið gleði í eigin lífi. Satt best að segja held ég að slíkt líf sé ekki þess virði að lifa því, í það minnsta gæti ég ekki lifað slíku lífi.

Samviskan hjálpar okkur að átta okkur á dyggðum eins og visku, hugrekki, réttlæti og hófsemi, og haga okkur í samræmi við siðferðilega áttavitann okkar. Ef við ræktum þessa samvisku hjálpar hún okkur að skilja af hverju við gerum það sem við gerum og hvernig hegðun okkar hefur áhrif á annað fólk, þetta hjálpar okkur að rækta og þroska sjálf okkur sem einstaklinga.

Ef við höfum hreina samvisku vinnum við að innri ró og tilfinningalegri vegferð okkar. Ef við áttum okkur á því að hegðun eins og lygar, þjófnaður og blekkingar trufla ekki aðeins þá sem við ræðum við, heldur sest þessi hegðun um í huga okkar og sál eins og dreki sem situr á gulli, og gefur okkur ekki tækifæri til að breyta hegðun okkar til hins betra.

Þegar við höfum hreina samvisku og fylgjum siðferðilega áttavitanum þá styðjum við einnig samfélag okkar. Samfélag sem getur byggst á trausti og sameiginlegri leit að betri heimi hlýtur að vera betra en samfélag þar sem fólk hlýðir ekki eigin samvisku.

Samviskan er grundvöllur laga og réttar; án hennar getum við ekki sett saman góð lög og reglur, sem geta verið virt í aldanna rás. Samviskan er undirstaða ábyrgðartilfinningar, þess að við berum ábyrgð á gerðum okkar. Hún hjálpar okkur að skilja okkar eigin mistök og leiðrétta þau.

 


Af hverju við ættum að segja hvað okkur finnst

DALL·E 2023-11-28 21.17.00 - A cowboy sitting around a campfire with trusted friends, engaged in a deep and thoughtful dialogue. The cowboy, depicted as open and expressive, is sh

Ekkert okkar hefur fullmótaðar eða fullkomnar skoðanir um alla mögulega hluti. Stundum eru skoðanir okkar nokkuð góðar og stundum frekar vondar. Hvort sem þær eru góðar eða vondar, þá er gott að tjá hvort tveggja. 

Ef við tjáum þær góðu þá erum við líkleg til að fá staðfestingu á gæðum þeirra, og ef við tjáum þær vondu, erum við líkleg til að fá gagnrýni sem við getum nýtt til að endurskoða þær. 

Það borgar sig ekki að tengja eigin egó við skoðanir, hvort sem þær eru góðar eða vondar, heldur vera sífellt vera til reiða ef þarf að endurskoða þær eða dýpka. 

Hugsaðu þér ef þú hefur gefið þér fyrirfram einhverja skoðun á ákveðnu grænmeti, til dæmis spergilkáli vegna þess að þér finnst það líta illa út, eða einhver hefur grett sig þegar hann hefur séð það fyrir framan sig, og af þeirri ástæðu langar þig aldrei til að smakka það. Þú segir að þér líki ekki við spergilkál og einhver svarar með spurningunni, ‘af hverju líkar þér ekki við spergilkál’? Ef svar þitt er að þú vitir það ekki, er það ekki næg ástæða til að prófa spergilkálið?

Þegar við tjáum skoðanir okkar, sérstaklega þegar viðmælendur okkar hafa góðan vilja og gagnrýnan hug, þá getum við lært töluvert á því, en ein forsendan fyrir slíkum lærdómi er að við höldum huga okkar opnum og höfum til staðar hugarfar nægrar auðmýktar til að læra og breyta því sem við töldum áður vera satt og rétt. 

Þegar við tökum þátt í slíkum samræðum með fólki sem við getum treyst, getum við sagt frá okkar dýpstu trú, okkar dýpstu skoðunum, því sem við höldum um ólík málefni; og sífellt lært af viðbrögðum viðmælenda okkar. Fátt er dýrmætara í þessum heimi.

 


Hvalurinn og blindu mennirnir

DALL·E 2023-11-27 07.46.40 - A thoughtful cowboy standing on the deck of a whale-watching ship, gazing out into the sea on a rainy and windy day. He's wearing a waterproof coat an

Dag einn í litlu sjávarplássi voru sex blindir vinir að ræða saman um hvalveiðar. Þeir áttu í hatrömmum umræðum um af hverju ætti að leyfa hvalveiðar og af hverju ætti að banna þær, þar til einn þeirra spurði, “Hefur einhver ykkar séð hval?” og þar sem allir voru blindir hristu þeir allir hausinn og sögðu “Nei.” 

“Förum þá og skoðum hval og komumst að því hvort eigi að veiða þá eða ekki,” sagði sá sem fyrst spurði. 

“Hvernig gerum við það?” sagði annar.

“Hvað um hvalaskoðunarferð?” sagði sá þriðji.

Það var samþykkt og fóru mennirnir sex til borgarinnar þar sem hægt var að komast um borð í hvalaskoðunarskip. Allir fóru þeir í vatnsheldan galla og voru svo leiddir um borð. Það var frekar leiðinlegt veður þennan dag, ansi kalt, frekar hvasst, og það rigndi. Þannig að mennirnir sex sátu í skipinu í hnipri og biðu eftir stóru stundinni, að það sæist í hval. 

Loks kom að því, skipstjórinn lýsti yfir í kallkerfinu að hvalur væri í sjónmáli, hægt væri að sjá hann blása og risastór sporðurinn var nú svo nálægt að fólkið í kringum sexmenningana tók andvarp. Og hvalur sló sporðinum niður þannig að skvettist yfir alla farþegana. 

Þegar þeir sex blindu komu heim í sjávarplássið aftur, reynslunni ríkari af hvalnum, þá settust þeir niður og ræddu saman. 

“Hann var frekar kaldur,” sagði einn.

“Já, og blautur,” sagði annar. 

“Heldur hvass,” sagði sá þriðji.

“Og heyrðirðu þegar hann kom upp, þá hljómaði það eins og andvörp og klapp?” sagði sá fjórði.

“Það var saltbragð af honum,” sagði sá fimmti.

“Mér fannst hann bara nokkuð skemmtilegur,” sagði sá sjötti.

 

Það er nokkuð augljóst að þessi dæmisaga er ný útgáfa a blindu mönnunum sem þreifuðu á fíl til að átta sig á hvernig hann væri, fóru svo til konungs að lýsa honum, en lýstu allir einhverjum eiginleikum, en voru ófærir um að lýsa sannleikanum öllum því þeir sáu hann ekki.

Það sama á við um þessa sex íslensku hvalaskoðara. Hvort þeir hafi verið eitthvað nær því að ákveða hvort veiða ætti hvali eða ekki liggur ekki í augum uppi, en við vitum að allir upplifðu þeir hval með einhverjum hætti, og mynduðu sér skoðun á hvað hvalur er.

Og nú er spurningin, hvernig getum við vitað hvað einhver vera er, án þess að vera bundin þeirri skoðun sem við höfum myndað okkur vegna fyrri reynslu? Og hvernig færum við að því að komast að því hvað hvalur er í raun og veru, hvernig færum við að því að nálgast sannleikann?

Og svo þarf ég að spyrja aftur, hvort ætli sé meira virði, skoðunin um hvalinn eða þekkingin? Getum við vitað sannleikann um hvalinn eða erum við takmörkuð við okkar eigin reynslu og sjónarhorn, getum við aðeins haft skoðun sem er dæmd til að vera tálsýn?

 


Að trúa eða ekki trúa: í leit að jafnvægi

DALL·E 2023-11-26 15.11.04 - A cowboy protagonist symbolizing the quest for balance between trust and skepticism. He is depicted standing at a crossroads, one path leading towards

Hvernig finnum við gullna meðalveginn á milli þess að treysta og að efast? Hvernig hefur sú ákvörðun að treysta eða efast áhrif á hvernig við meðtökum nýjar upplýsingar og lærum um heiminn? Hvernig hefur slíkt áhrif á þekkingu okkar og trú? Mig langar að velta þessu aðeins fyrir mér.

Ég hef verið gagnrýndur fyrir að vilja trúa því sem fólk segir í daglegum samskiptum, og að heimskulegt sé að hlusta á opinn hátt og trúa því sem annað fólk segir, því það gæti auðveldlega verið að ljúga. En mér sjálfum finnst heimskulegri að efast fyrst því þá gæti maður verið að útiloka sjónarhorn og þekkingu sem gæti til lengri tíma litið haft eitthvað að segja. Mér finnst betra að trúa fyrst, velta því svo fyrir mér út frá reynslu, skilningi og sönnunargögnum, og reynist þessi trú röng, varpa henni frá mér, reynist hún rétt, taka hana til mín, og sé ég óviss, halda í óvissuna þegar kemur að þessum þætti.

Það getur verið vandasamt að ákveða hvort maður eigi að treysta því sem annað fólk hefur að segja eða efast um það. Frá unga aldri ákvað ég að treysta því sem aðrar manneskjur segja mér, en svo sannreyna það og skoða betur með opnum hug, og ef í ljós kemur að upplýsingarnar voru rangar, að treysta þá minna á orð þessarar manneskju, en samt hlusta á hana með það í huga að hugsanlega urðu henni á mistök frekar en að hún hafi reynt að ljúga að mér. 

Mig grunar að of mikil trúgirni sé jafn slæm og of mikill efi. Betra er að halda huganum opnum og meta það sem er satt eða ósatt út frá fyrri reynslu og skilningi á heiminum og aðstæðum. 

Sá sem efast of mikið er líklegur til að vera tortrygginn á allar upplýsingar, og láta það í ljós með hegðun sinni. Slík tortryggni getur haft lamandi áhrif á þá sem efast um of, betra væri að velta fyrir sér sönnunargögnum og út frá þeim samþykkja eða hafna nýjum upplýsingum. 

Franski heimspekingurinn Réne Descartes (1596-1650) leyfði sér að efast um allt, og út frá því komst hann að þeirri frægu setningu: “Cogito ergo sum” sem má útleggja á íslensku sem: “Ég hugsa og því er eitthvað”. En hann ákvað að þurrka út alla sína fyrri trú og reyna að koma nýrri og áreiðanlegri trú í staðinn fyrir þá gömlu. Hann velti fyrir sér að þó að hann tryði einhverju nýju, þá gæti einhver illur andi verið að blekkja hann, og komst að þeirri niðurstöðu að hann þyrfti að treysta á eitthvað gott til að geta trúað einhverju yfir höfuð. Þessi efahyggja varð til þess að fjöldi heimspekinga hefur frá hans tíð reynt að finna örugga leið að þekkingu og trú.

Skoðum annað dæmi, uppfinningamanninn Thomas Edison (1847-1931), sem hélt að mögulegt væri að finna leið til að halda ljósi lifandi í ljósaperu. Hann hélt í þessa trú og gerði ásamt samstarfsmönnum sínum fjölmargaðar misheppnaðar tilraunir áður en loks heppnaðist að halda ljósi gangandi í ljósaperu. Þarna höfum við dæmi um mann sem trúir á að eitthvað geti átt sér stað sem ekki hefur áður átt sér stað, og gerir það svo að veruleika. 

Ég væri sjálfur alveg til í að vera bæði eins og Descartes of eins og Edison, því Descartes hugsaði virkilega vel um heiminn og stöðu sína í honum, og áttaði sig á að svo margt af því sem hann trúði var ósatt og hann hafði þennan einlæga áhuga á að bæta þekkingu sína á heiminum, og svo vildi ég vera eins og Edison sem hefur óbilandi trú á einhverju sem ekki er til, en verður svo til og breytir heiminum til hins betra. Að finna jafnvægi þarna einhvers staðar hlýtur að vera galdurinn.

Hver hefur ekki heyrt börn segja þegar maður býður þeim eitthvað að borða: “Ég elska ekki svona mat,” og svo þegar þau loks smakka, finna þau að þetta er gott og borða. Efasemdirnar gætu komið í veg fyrir fyrsta smakkið, og þannig komið í fyrir það að barnið nærist og líkar svo í raun næringin. 

Þannig er það með flest, ef við höfnum of snemma, þá getum við misst af einhverju sem getur haft djúp og góð áhrif á okkur. Ef við erum til í að prófa hlutina, svo framarlega sem við treystum manneskjunni sem er að bjóða okkur og vitum að góður vilji stendur að baka, þá þurfum við aðeins að gæta þess að við erum að treysta réttu manneskjunni. 

Millivegurinn á milli trausts og efa er opinn hugur sem er tilbúinn að skoða hvort það sem hann heldur að sé satt, sé satt í raun og veru, og það sem hann heldur að sé ósatt, sé ósatt í raun og veru. Við þurfum að átta okkur á að við getum alltaf haft rangt fyrir okkur og stundum slysast til að hafa rétt fyrir okkur. 

Það er ekkert sérlega gáfulegt að halda að maður hafi alltaf rétt fyrir eða alltaf rangt fyrir sér, millivegurinn hlýtur að vera einhvers staðar þarna á milli, svo framarlega sem maður er tilbúinn til að rýna aðeins í sönnunargögnin.

 


Er til dæmi um algilda staðhæfingu sem, er, var og verður alltaf sönn?

DALL·E 2023-11-25 21.16.38 - A cowboy protagonist, representing a philosopher, standing amidst a landscape that creatively blends elements of Greek philosophy, mathematics, and ph

Málið með algildar staðhæfingar er að það þurfa að vera aðstæður, reglur og sameiginlegur skilningur á tungumálinu til þess að einhver ein alhæfing getur alltaf verið sönn.

Til dæmis gætum við sagt að ef við teljum saman hornin í þríhyrningum þá verði þau alltaf 180 gráður, en forsendurnar eru þær að þetta sé í samræmi við stærðfræðireglur þar sem gráður og tölur eru skilgreindar. Þannig verður þetta aðeins satt ef við samþykkjum þessar grundvallarreglur stærðfræðinnar. Ef við höfnum þeim, þá er ég ekki viss um hvort þær séu algildar, þó að þær verði það alltaf innan þessa ramma. 

Það sama má segja um 2 + 2 = 4. Þegar um stærðfræði er að ræða, einhverja hugarleikfimi sem spilar eftir ákveðnum reglum, þá er þetta alltaf satt út frá þeim reglum. En ef við breytum aðeins aðstæðunum og segjumst vera að tala um tvo vatnsdropa sem blandast tveimur vatnsdropum, hversu margir vatnsdropar verða það, eða þegar við blöndum tveimur hugmyndum saman við tvær aðrar hugmyndir, hvað verður það að mörgum hugmyndum, sjáum við að staðhæfingin er ekkert endilega sönn við allar aðstæður.

Ég get staðhæft að ég viti hversu margar stjörnur eru til í alheiminum eða hversu margir litir eru sjáanlegir fyrir mannsaugað, en í sannleika satt getum við ekki einu sinni vitað hvort fjöldi stjarna eða lita séu slétt tala eða oddatala.

Við getum svo athugað staðhæfingu eins og að allt segir gerist eigi sér orsök, og að það sé eitthvað sem er alltaf satt. Reyndar þarf jafnvel þessi fullyrðing að styðjast við ákveðnar reglur og skilning á heiminum, eðlisfræðina og lögmál heimsins samkvæmt henni; en hver veit hvort til sé menningarheimur sem geti hafnað allri eðlisfræði sem slíkri og fundið aðrar leiðir til að sjá orsök og afleiðingu. Til dæmis í sögum og ljóðum virðast orsök og afleiðing oft virka þveröfugt við það sem gerist í veruleikanum, þá getur vatn til dæmis runnið upp á við og fólk flogið. Það sem verra er, sumir gætu freistast til að trúa sögunum frekar en því sem eðlisfræðin segir okkur, og þá fer allt í rugl.

Þegar kemur að stóískri heimspeki, þá snýst hún um að sætta sig við þá hluti sem eiga sér stað í heiminum og hafa jafnvel djúp áhrif á okkur, svo framarlega sem við höfum ekkert um þá að segja. Slík manneskja getur ekki verið mótfallin þyngdaraflinu og samt verið sátt við lífið og tilveruna, hún getur ekki verið ósátt við að fólk ljúgi og svíki og samt fundið hamingju í lífinu.

Heimspekingar í upphafi hinnar grísku heimspeki reyndu að finna staðhæfingu sem er, hefur alltaf verið og verður alltaf sönn. Þales hélt því fram að vatn væri grundvallarlögmál allra hluta, Anaxímender hélt því fram að hið óendanlega væri upphaf allra hluta, Anaxímenes að loft væri frumefni alheimsins, Pýþagoras að tölustafir og stærðfræði væru grundvallarlögmál veruleikans, Heraklítus hélt því fram að breyting væri grundvallarlögmál heimsins, en Parmenídes að breytingar væru ekkert annað en sjónhverfingar og að heimurinn væri óbreytanleg heild, síðan hélt Empedókles því fram að rót alls efnis fælist í frumefnunum fjórum, eldi, vatni, lofti og jörð, Anaxagóras hélt því fram að hugurinn væri það sem tengdi allt í heiminum saman, Demókratus að heimurinn samanstæði af örsmáum atómum og Platón að heimurinn væri tvískiptur, annars vegar í hið skynjanlega og hins vegar í veruleikann. 

Eins og sjá má, getum við nálgast alhæfingar um heiminn frá afar ólíkum sjónarhornum, getum rökrætt hvert þeirra er best, en einhvern veginn getum við alltaf fundið einhverja leið til að sjá veikleika í öllum þessum hugmyndum.

 


Af hverju andmæla sumir staðreyndum?

DALL·E 2023-11-24 19.52.23 - A thoughtful cowboy contemplating the clouds in the sky, symbolizing the interpretation of information and building of one's worldview. The scene is s

Við fáum upplýsingar okkar héðan og þaðan, úr reynslu okkar, eða úr því sem við skynjum, dreymum og hugsum. Við fáum þær úr sögum sem gætu virst sannar og verið ósannar og úr sögum sem gætu virst ósannar og verið sannar. Við fáum upplýsingar úr tónlist, málverkum, ljósmyndum, kvikmyndum, jafnvel úr húsgögnum sem hafa verið smíðuð af einhverjum öðrum.

Hvernig við vinnum úr þessum upplýsingum er svo annað mál. Við gætum ákveðið að við ætlum að taka 100% mark á öllu því sem við upplifum, og að allar aðrar upplýsingar verða óáreiðanlegri í okkar huga, allt það sem við heyrum frá öðrum. 

Í raun er tvennt sem við þurfum til að byggja upp trausta heimsmynd af veruleikanum. Annars vegar eru það áreiðanlegar upplýsingar og hins vegar er það traust rökhugsun sem við notum til að flokka hugmyndir og átta okkur á hvernig allar þessar áreiðanlegu upplýsingar passa saman.

Ólíkt fólk velur upplýsingar með ólíkum hætti, en fræði- og vísindafólk byrjar á staðreyndum og því sem þykir áreiðanlegt og líklegt samkvæmt ströngum rannsóknarleiðum sem viðurkenndar eru af ólíkum fræðigreinum.

Sumir velja að taka orð stjórnmálamanna eða trúarleiðtoga sem áreiðanlegar upplýsingar, en það geri ég ekki, því slíkar upplýsingar byggja meira á skoðunum og lífsviðhorfum heldur en staðreyndum. Þó er hægt að læra margt af því sem fyrri kynslóðir hafa lært um heiminn og hægt að njóta margs af því sem menningin gefur okkur, hvort sem það eru listir, matargerð, ólíkur hugsunarháttur, og þar fram eftir götunum.

Sama hvort við byggjum okkar eigin heimsmynd og þekkingu á fræðum eða menningu, þá borgar sig að beita gagnrýnni hugsun til að átta okkur á hvað við samþykkjum og hvað við höfnum, sem og nógu mikilli auðmýkt til að sjá að við getum haft rangt fyrir okkur og þurft að endurskoða eigin hug ef hugmyndir okkar reynast stangast á við veruleikann.

Það að byggja heimsmynd sína á stjórnmálum, trúarbrögðum eða einhverju öðru svipuðu, eins og íþróttum, þá er það eins og að byggja heimsmyndina á útliti skýja sem fljóta yfir höfði okkar. Öll þessi fyrirbæri sem sjást í skýjunum geta þá talist til veruleikans. Ef við sættum okkur hins vegar við heim fræða og vísinda, gæti það duga okkur að vita að það sé skýjað og að hugsanlega gæti rignt í kjölfarið.

 


Hver er munurinn á námi og kennslu?

DALL·E 2023-11-23 08.52.20 - A cowboy as the main protagonist, depicted in a thoughtful pose, symbolizing reflection and learning. The background is a classroom setting, subtly bl

“Ef við kennum í dag eins og við kenndum í gær stelum við morgundeginum frá nemendum okkar.” - John Dewey. Lýðræði og Menntun. 1916. 

Í menntavísindum er gerður greinarmunur á námi og kennslu. Samt virðist þessi greinarmunur ekki alltaf vera gerður af þeim sem velta kennslufræðinni lítið fyrir sér. Við þurfum að þekkja okkar eigin takmörk, hvort sem við erum að kenna eða læra.

Stundum hef ég heyrt þá hugmynd að kennsla sé “yfirfærsla þekkingar”, að hún sé tekin frá einum stað og sett inn í annan. En það er misskilningur. Við getum ekki fært þekkingu úr einni manneskju í aðra. Þekking er eitthvað sem við byggjum upp, hvert og eitt, út frá upplýsingum og reynslu, með athygli og vinnu. 

En veltum þessu aðeins fyrir okkur.

Kennsla felst til dæmis í miðlun upplýsinga, skipulagi námsumhverfis, framkvæmd kennslustunda, leiðsögn og stuðningi við nemendur, og stundum námsefnisgerð. Það er misjafnt hvað kennarinn vill að nemandinn taki með sér í lok kennslu, en yfirleitt er það ákveðin þekking og skilningur, færni og viðhorf, sem í einu orði er kallað hæfni

Kennarinn getur ekki þvingað þessari hæfni upp á nemandann, nemandinn þarf að sýna náminu athygli, þarf að viða að sér upplýsingum, ekki aðeins frá kennaranum, heldur einnig úr eigin reynsluheimi, af netinu, úr bókum, úr tímaritsgreinum, frá öðru fólki úr samfélaginu og þar fram eftir götunum. Einnig þarf nemandinn að leggja á sig vinnu, oftast einhvers konar rannsóknarvinnu, þarf að skipuleggja sig og eigin þekkingu, afla sér verkfæra og síðan æfa sig í að beita þeim. Sjálfsagt gengur misjafnlega í fyrstu tilraun, en flest okkar getum lært hluti sem við einbeitum okkur að. Loks þurfum við að vilja gera það sem við höfum lært, við þurfum að móta viðhorf til að gera það sem við höfum lært vel og vandlega, og gæta þess að lærdómurinn verði að dyggð.  Þetta getur verið jafn einfalt og að negla nagla af nákvæmni, fjarlægja tönn úr gómi án þess að valda skaða, eða skrifa grein um muninn á námi og kennslu.

Hlutverk nemandans er einmitt að nota kennsluna til að byggja upp eigin þekkingu, færni og viðhorf, og gerir það best með því að sýna þá virkni sem ætlast er til samkvæmt áætlun kennarans. Nemandinn getur tekið við upplýsingum og unnið úr þeim, en getur aldrei tekið þekkingu frá annarri manneskju. Það er algengur misskilningur. Nemandinn er sá sem þarf að vinna til að nám eigi sér stað. 

Kennari getur kennt betur en nokkur annar án þess að nemandinn læri nokkuð, og nemandi getur lært ýmislegt án þess að fá nokkra kennslu. Kennsla hjálpar nemandanum að öðlast hæfni hratt og vel, en það er á ábyrgð nemandans hvort að hann þiggi þennan stuðning og leggi á sig þá vinnu sem þarf til að öðlast þessa hæfni. Sé nemandinn latur og fylgist ekki með eða sinnir ekki námi sínu, þá mun hann ekki læra. Svo einfalt er það.


Hvað er skylda?

hrannar._Create_an_image_featuring_a_cowboy_standing_in_a_thoug_c11ab108-e96b-44be-891e-2234c6701739

Þegar nasistar komust til valda í þýskalandi gengu margir til liðs við þá og héldu að það væri þeirra skylda að þjóna þýska ríkinu. Hvort sem þeir vissu það eða ekki, þá var önnur skylda æðri. Sú skylda var að þjóna mannkyninu og góðum vilja eftir bestu getu. Nasistar vildu ekki hlusta á slík markmið og helst afmá þær manneskjur sem mótmæltu grimmd þeirra. Til allrar hamingju barðist mikill hluti mannkyns gegn þessu brjálaði, sem á endanum varð til þess að nasistar neyddust til að gefast upp. 

Eftir stríð hafa sjálfsagt margir séð að sér og eftir því sem þeir höfðu gert fyrir Ríkið, og snúið lífinu til betri vegar. 

En skylda er margsnúið hugtak. Það merkir nefnilega ekki það sama fyrir ólíkar manneskjur. Það fer svolítið eftir gildum þeirra og skilningi á hvað er gott og hvað er illt. Enginn vill gera neitt illt, og eru að gera sitt besta, rétt eins og allir þeir hermenn sem gengu í lið með nasistum, allar konurnar sem stóðu með þeim, öll börnin sem ólust upp í Hitlersæskunni.

Það væri frekar barnalegt að telja slíkan hugsunarhátt vera úr sögunni, og það væri afar hollt fyrir okkur að muna hvað getur gerst ef markmið eins og heimsyfirráð einnar þjóðar trompar allt annað, ef góðmennskan og hjálparstarf er fótum troðið, ef markmiðið verður dýrmætara en mannslífið, ef manneskjurnar verða gerðar að tölustöfum á blaði, í stað þess að vera óendanlega dýrmætar verur sem eiga skilið að lifa frjálsu og heilbrigðu lífi, fyrir það eitt að vera til. 

Ég get ekkert að því gert, en þegar ég heyri af fólki sem talar um að okkur beri ekki skylda til að gera ákveðna hluti, þá velti ég fyrir mér hvort að mannkyninu hafi nokkuð borið skylda til að stoppa nasista, því ekki voru til lög sem kröfðu allt mannkynið til þess, ekki bar miskunnsama samverjanum skylda til að stoppa og hjálpa manni sem hafði verið rændur og barinn. Ber okkur aðeins skylda til að bjarga drukknandi manneskju frá drukknun, ef það stendur í lögum?

Er skyldan lagalegt hugtak eða siðferðilegt, og ef það er siðferðilegt en ekki lagalegt, þýðir það þá að henni fylgi engin kvöð? Er sómakennd og skylda gagnvart henni ekki nóg til að gera það sem er rétt, eða þurfa lögin að liggja að baki?

Hugsum þetta aðeins betur. Nasistar bjuggu til sín eigin lög og reglur sem áttu við um alla Þjóðverja og alla þá sem lutu yfirráðum þeirra. Margar af reglum þeirra og mörg af þeirra lögum voru grimm og í sjálfu sér ill. Þetta þýðir að þegar einhver semur og setur lög og reglur, þá verða þær ekki réttlátar í sjálfum sér, sérstaklega ef þær valda þjáningum og skapa vandamál. Þegar við sjáum slíka reglu, þá getur það verið skylda okkar að hlýða henni ekki, þó að sumir telji það vera skyldu okkar að hlýða henni. Ef við sjáum að hún er ranglát í sjálfri sér, þá hljótum við að hafna henni.

Grundvöllurinn á bak við öll lög og allar reglur eru að við séum góð og sanngjörn hvert við annað. Þegar í ljós kemur að afleiðingar regluverks er andstæða hins góða, þýðir það að berjast verður gegn hinum ranglátu lögum og reglum. 

Vandinn er sá að mikið af fólki trúir því að lög og reglur séu eitthvað gott og rétt í sjálfu sér, að þeim ber að fylgja, sama hvað. En það er ekki málið. Sumt er rangt þó við teljum það vera rétt, en að þekkja muninn á ranglæti og réttlæti krefst dýpri skilnings en þess að þekkja lögin, heldur einhvers meira, viðmiða og gildismats sem ekki er hægt að lögfesta, heldur er eitthvað sem samviska okkar vekur á frekar dularfullan hátt djúpt í okkur sjálfum.

 


Hvað er ekki hægt að kenna?

hrannar._a_cowboy_teaching_in_a_classroom_what_love_is_-_while__6008b7a4-5919-4a9f-b8de-44c4d27a7973

Þú getur ekki kennt einhverjum að elska einhvern annan. Þú getur ekki kennt einhverjum að elska íþrótt sem honum líkar ekki. Þú getur ekki kennt einhverjum að upplifa tilfinningar þínar. 

Þu getur ekki kennt einhverjum visku, hugrekki, réttlæti eða aðrar dyggðir. Þú getur ekki kennt öðrum þekkingu þína.

Hins vegar er hægt að tjá og miðla upplýsingum.

Er kennsla kannski eitthvað annað en við höldum hana vera?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband