Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Die Falscher (2007) ***1/2

 


 

"Die Falscher" er vel heppnað helfarardrama um rússneska falsarann Salomon 'Sally' Sorowitsch (Karl Markovics) sem handtekinn er og stungið í þýskar fangabúðir nasista á upphafsárum seinni heimstyrjaldarinnar. Við fylgjumst með hvernig honum tekst að bjarga sér úr erfiðri nauðungarvinnu í störf sem henta honum betur, að teikna og falsa peningaseðla fyrir þriðja ríkið.

Meginþungi myndarinnar gerist í prentverksmiðju þar sem gyðingar eru látnir falsa milljónir breska punda og síðan bandarískra dollara fyrir nasistaforingjann Friedrich Herzog (Devid Striesow) sem reynist reyndar aðeins mannlegri en aðrir nasistar. Sally áttar sig á að hann getur hugsanlega lifað helförina af, og hefur áhuga á að taka félaga sína með sér, en skilur líka að afleiðingar fölsunarinnar geti hjálpað nasistum að vinna stríðið.

Togstreitan er vel sviðsett. Meðal félaga hans eru Kolya (Sebastian Urzendowsky) ungur rússi með berkla, en Sally hefur sett sér að koma honum lifandi gegnum stríðið, hvað sem það kostar. Meðal félaga hans er einnig hinn uppreisnargjarni Adolf Burger (August Diehl) sem áttar sig á hversu mikilvægt er að tefja áætlanir nasista, þó að það geti kostað hann og félaga sína lífið. Hinn afar skotglaði nasisti Holst (Martin Brambach) gefur svo áhorfendum góða ástæðu til að hata nasista innilega. 

Það sem gerir söguna enn áhugaverðari en ella er aðalpersónan, sem er afar vel leikin af Karl Markovics og trúverðug. En sem falsari og glæpamaður er hann bæði útskúfaður af nasistum og gyðingum. Persónan reynist dýpri og betri en maður ætlar í upphafi, og ljóst er að átökin hafa gert hann að allt öðrum manni í lok myndar, en hann var í upphafi.

Það er hollt að horfa á góðar helfararmyndir. Þær minna okkur á hversu afvegaleidd heil þjóð getur verið þegar kemur að illa hugsaðri hugmyndafræði, sem er gjösneidd umhyggju gagnvart náunganum. Þannig var nasisminn illa hugsuð hugmynd, rétt eins og nýfrjálshyggjan og ýmsar fleiri kerfishyggjur, þar sem verðmætamat valdhafa snýst meira um kerfið en fólkið sjálft. Nasistar voru venjulegt fólk sem upplifði óvenjulegar aðstæður, og fylgdi leiðtogunum og kerfinu frekar en samviskunni. Sumir þeirra voru verri en aðrir, en allir tóku þeir þátt í hamförum sem valdið hafa óbætanlegu tjóni.

Samviskulausir kaupsýslumenn sem meta pening og fyrirtækjavöxt, arðgreiðslur og árangur, meira en velferð samfélagsins og hamingju fólks, eru einhvers konar nasistar. Eyðileggingin sem þeir valda eru þó ekki jafn augljós. Þeir skjóta ekki fólk í höfuðið fyrir að vera þeim ekki að skapi. Þeir loka fólk ekki inni í fangabúðum við ömurlegar aðstæður. Þeir taka hins vegar lifibrauð af fólki, húsnæði þeirra og möguleika til að komast af. Það að nasistar litu á það sem hermdarverk að rústa hagkerfi heimsins, vekur upp spurningar um hvort þeir sem rústuðu hagkerfi Íslendinga hafi verið einhvers konar nasistar.

 

Mynd: Rotten Tomatoes


Nagandi samviska eða einelti? (og LÝÐVELDIÐ eftir Platón: 331)

Jóhannes í Bónus hefur kvartað yfir að vera lagður í einelti. Lára Hanna skrifar magnaða og skarpa grein um þetta mál hérna: Vesalingarnir. Mig grunar að menn sem lagt hafa land sitt í rúst hafi einfaldlega ekki geð til að líta í eigin barm, og skil ég vel ef samviska þeirra nagar þá óbærilega og muni gera það alla tíð. Þeir hafa skapað sér sitt eigið sjálfskaparvíti, en svo framarlega sem þeir lifa, þá geta þeir aðeins komist út úr því með uppgjöri og endurgreiðslu allra sinna raunverulegu skulda.

Og þá meina ég ekki bara peningaskuldir, heldur verða þeir að viðurkenna með opnum hug allan þann skaða sem þeir hafa gert saklausu fólki, án þess að fela sig á bakvið lagakróka og slíkar fléttur, því samviskunni er nákvæmlega sama um lög og reglur, hún snýst um réttlætið og það að geta litið í spegil og verið sáttur við manneskjuna sem horfir á þig úr endurvarpinu.

Hér gef ég ekki í skyn að Jóhannes sé sá eini sem hafi stundað þau gervivísindi sem felast í að hunsa siðferði og samvisku, en efast ekki um að hann hafi tekið virkan þátt í slíku ásamt töluverðum fjölda, bæði nútímamanna og fólks úr fortíðinni sem um skamman tíma hefur vermt þessa jörð með 37°C í einhver ár, og síðan sameinast jörðinni í 0°C þegar þeirra tími hefur liðið, og að á meðan slíkar manneskjur lifa finni þær fyrir óþægilegum sting samviskunnar. Það að hann skjóti undan eignum undan korteri fyrir gjaldþrot á meðan hann getur ekki (eða vill ekki) borgað skuldir sínar, segir allt sem segja þarf.

Það er ansi súrrealískt að horfa á suma vel menntaða vini mína sem hafa alla tíð sinnt störfum af dugnaði og heiðarleika, örvænta nú um eigin framtíð og Íslands. Sífellt fleiri flytja úr landi og enn fleiri hugleiða það, en eiga erfitt með að stíga skrefið. Sjálfur átti ég frekar auðvelt með að flytja úr landi, því ég hef gert það tvisvar áður. En allt fólkið sem ætlaði að vera alla tíð heima, ég finn mikið til með þeim. Á sama tíma og þessum einstaklingum finnst þeir vera undir hælnum á fjármálafyrirtækjum sem gefa ekkert eftir, eru sumir auðmenn að fá niðurfelldar skuldir og kveinka sér í kjölfarið yfir að vera lagðir í einelti, og þá meðal annars frá þessu fólki sem hefur tapað öllu sínu, vegna þessara manna.

Þetta er ekki einelti, heldur nagandi samviska. Sumir virðast einfaldlega ekki þekkja sjálfa sig nógu vel til að gera greinarmun á eigin samvisku og einelti. Samviska sem ekki er hrein mun aldrei láta óréttláta í friði, og þeir óréttlátu munu aldrei átta sig á að þessi óþægindi er frá þeim sjálfum komin, ekki öðru fólki sem áreitir þá, enda virðist vanta upp á þá mannlegu dýpt sem gerir viðkomandi að manneskju lifandi lífi sem er þess virði að lifa því.

Samviskan er nefnilega öflug. Sé samviskan hrein getur manneskja verið í sátt við sjálfa sig, en sé hún ekki hrein, mun viðkomandi aldrei finna sátt, hvergi á æviskeiði sínu. Viðkomandi gæti reynt hreinsa samviskuna er með iðrun og fyrirgefningu, sem er margfalt meira en bara orðin tóm og ekki hægt að kaupa slíka friðþægingu á e-bay. Eða gera eins og höfðingja á víkingatímum, ráðast að heiðarlegu fólk með sitt eigið særða stolt að vopni, og eyðileggja líf fjölda fjölskyldna án samúðar, án umhyggju, að geðþótta og með þeirri trú að þetta sé allt í lagi, einfaldlega vegna þess að viðkomandi hefur peninga og völd. 

Um þessa einstaklinga hefur á Íslandi verið byggð skjaldborg úr heimilum.

 

 


 

LÝÐVELDIÐ eftir Platón: 331

331a

"Í mínum huga, Sókrates, tjáir Pindar það snilldarlega þegar hann segir að maður sem hefur hagað lífi sínu í samræmi við gott siðferði og verið réttlátur hafi "ljúfa von sem fylginaut, fóstrar gleði í hjartanu, til huggunnar í ellinni - von sem stýrir, meira en nokkuð annað, hverflyndum hug manna." Þetta er ótrúlega vel sagt. Og það er í þessu samhengi sem ég met peninga mikils - og þá aðeins fyrir heiðvirða, reglusama manneskju. 

331b

Ég meina, peningaeign hefur stóru hlutverki að gegna þegar kemur að því að forðast svindl og lygar gegn betri dómgreind, og einnig til að forðast að lifa þessu lífi án ótta við að skulda guðunum einhverjar fórnir eða einhverjum einhvern pening. Auður þjónar mörgum öðrum tilgangi, Sókrates, en þegar allt er íhugað myndi ég segja að fyrir vel gefna manneskju, Sókrates, er auður sérstaklega gagnlegur í þessu mikilvæga samhengi."

331c

"Verulega áhugavert, Cefalus," sagði ég. "En hvað um þennan hlut sem þú orðaðir, að gera hið rétta? Er að gera hið rétta það sama og að segja ætíð satt og skila til baka hverju því sem maður hefur fengið að láni? Eða gæti það, eftir aðstæðum, stundum verið rétt og stundum rangt? Það eru svona hlutir sem ég er að velta fyrir mér. Allir væru sammála um að ef þú fengir vopn að láni frá heilbrigðum vini þínum sem síðan missir vitið og óskaði þá eftir að fá vopnin til baka, þá ættirðu ekki að láta hann fá þau, og ef þú létir hann fá þau værirðu ekki að gera hið rétta, né heldur sá sem væri tilbúinn að segja slíkri manneskju allan sannleikann."

331d

"Þú hefur rétt fyrir þér," samþykkti hann.

"Af þessu leiðir að þetta er ekki skilgreiningin á siðferði, að segja sannleikann og skila til baka því sem maður hefur fengið að láni."

"Jú, víst, Sókrates," sagði Pólemmarkús og greip fram í. "Að minnsta kosti ef við eigum að trúa Símonides."

"Nú," sagði Cefalus, "megið þið tveir halda samræðunni áfram, þar sem ég þarf að taka þátt í athöfninni."

"Og erfi ég þá mál þitt?" spurði Pólemarkús.

"Að sjálfsögðu," sagði hann og hló góðlátlega, og var fljótur að láta sig hverfa.

331e

"Jæja þá," sagði ég, "nú þegar þú hefur erft samræðuna, segðu okkur hvað er það sem Símonídes segir nákvæmlega um siðferðið."

"Að rétt sé að borga til baka það sem þú skuldar," sagði hann. "Að mínu áliti er þetta fáguð athugasemd."

"Nú," sagði ég, "það er ekki auðvelt að vera ósammála Símónídes: hann er snall maður - jafnvel afburðarsnjall. En á meðan þú skilur hvað hann meinar með þessu, Pólemarkús, þá geri ég það ekki. Ég meina, hann meinar greinilega ekki það sem við vorum að tala um fyrir augnabliki síðan, að skila einhverju til einhvers sem misst hefur vitið og óskar eftir að fá hlutinn til baka. Og samt ef eitthvað hefur verið lánað, þá er til staðar skuld, myndirðu ekki segja það?"

"Jú."

 

---

Niðurlag: Ég ætlaði mér að skrifa stuttan inngang að þýðingu minni úr þessu stórverki Platóns, en vangaveltur tóku yfirhöndina, og þakka ég því bæði ríku innihaldi textans og hvernig hann tengist íslenskum samtíma.

Mynd:  Clare Twomey Exhibitions

Tenglar:

 

 


Þegar ég lærði að fljúga ekki

Ég var á leið heim úr vinnunni. Það var hundslappadrífa. Snjórinn leit út eins og púðluhvolpaenglar sem komu svífandi hægt til jarðar og slepptu því að sígelta. Eða það held ég. Ég er ekki nógu vitur til að hlusta á náttúruna og er alltaf beintengdur í iPod Touch furðutækið mitt, þar sem ég hlusta ekki á dynjandi tónlist, heldur skáldsögur og fyrirlestra. 

Þetta er drjúgur göngutúr. Um fimmtán mínútur. Fyrst gegnum snævi þakið skóglendi með útsýni yfir Oslófjörð. Hver einasta trjágrein er hvít og útsýnið greinilega stolið úr auglýsingabæklingi, fyrir utan að þennan dag sást varla til sjávar vegna ofankomu.

Það var á þessum fyrsta kafla sem ég lærði að fljúga. Íslendingar eru of miklir töffarar til að nota kuldaskó með mannbroddum. Að minnsta kosti þessi Íslendingur. Ég var í slitnum Nike skokkskóm og tvöföldum sokkum, enda um 20 stiga frost. Hafði gengið í fimmtán mínútur og heyrði kunnuglegar drunur. Ég heyrði útfyrir sögumanninn að hjörð strætisvagna nálgaðist. Ég þurfti að hlaupa um 300 metra til að ná einum þeirra, upp brekku.

Ég hljóp. Snjórinn um 50 sentímetra djúpur. Þrír vagnar höfðu farið framhjá skýlinu og aðeins einn var eftir. Ég veifaði og bílstjórinn í græna orminum hægði förina, en virtist ekki búinn að ákveða hvort hann ætlaði að stoppa fyrir mig, langatöng í blárri dúnúlpu með svarta lambúshettu á höfði sem huldi allt nema augn, því ég var enn í 100 metra fjarlægð frá strætóskýlinu. Hann stoppaði en lagði ekki upp að skýlinu, heldur hægði á sér úti á miðri götu. Ég tók að sjálfsögðu sprettinn með um 10 kíló á bakinu í bókum, enda ferjan sem ég tek yfir fjörðinn tilvalinn lestrartími.

Eftir um 50 metra sprett sá ég mér til furðu að vinstri fóturinn fór hærra en höfuð mitt, og stuttu síðar fylgdi hægri fóturinn eftir. Ég var fljótur að skipta úr mínu venjulega sjónarhorni niður í kjölturakka, þar sem vinstri mjöðmin skall á ísi þaktri götunni samhliða því að ég skellti flötum lófa niður eins og ég hafði lært í júdótímum sem barn. Það dró úr fallinu.

Virðing gagnvart þyngdaraflinu dýpkar. Sjálfsagt mun ég fórna rottu og tilbiðja guð þyngdaraflsins til að minna mig á eigin ófullkomleika. Ég man bara ekki hvaða guð þetta er eða úr hvaða goðafræði. Kannski ég þurfi að finna hann upp sjálfur?

Þrír dagar hafa liðið. Guð þyngdaraflsins, hvað sem hann heitir, gaf mér minnismerki um flugið. Diplóma í formi marblettar á kviðnum eins og tölvumús að ummáli og í laginu eins og Ísland. Það er meira að segja pinkublettur undir Íslandi til að fullkomna verkið. Vestmannaeyjar, sjálfsagt.

Hvað hef ég lært af þessari flugferð?

  1. Ekki hlaupa á eftir strætó oná ís.
  2. Ekki vera í sléttbotna strigaskóm þegar það er ekki sumar og sól.
  3. Hugsa meira um ferðalagið sjálft og minna um áfangastaðinn.

A Serious Man (2009) ****

 

photo_01_hires

 

"A Serious Man" er ein af þessum myndum sem maður annað hvort hatar eða elskar. Hún er miklu meira um ferðalagið en endirinn, miklu meira um örlögin en hversdagslífið, en gerist samt á fáeinum örlagaríkum dögum í lífi háskólaprófessors í eðlisfræði, sem veit allt og skilur allt, en ekkert af því sem hann veit eða skilur kemur honum að nokkru gagni í lífinu.

Lawrence Gopnik (Michael Stuhlbarg) lifir ósköp venjulegu fjölskyldulífi þar sem nákvæmlega ekkert gerist, nema betur sé gáð. Hann fer ekki að kíkja í kringum sig fyrr en besti vinur hans ýtir af stað atburðarrás sem skekkir verulega hið ofurreglusama líf Gopnik. Þessi vinur, að nafni Sy Ableman (Fred Melamed) er ein af ástæðum þess að orðtæki eins og "með vin eins og þig, hver þarfnast óvina?"verða til.

Sy þessi þykist vera umhyggjusamur vinur, en í raun er hann flagð undir fögru skinni, sem virðist öfunda Larry af lífi hans það ógurlega að hann setur af stað áætlun um að stela konu hans og fá hann rekinn úr vinnunni. Að sjálfsögðu grunar Larry ekki neitt, og heldur að Guð hafi snúist gegn honum, að líf hans sé bölvað, en það eru hugsanlega svör sem fólk finnur þegar það kemur ekki auga á sannleikann.

Larry er skrítnasta persónan af öllum, einfaldlega vegna þess að hann er heiðarlegur, umhyggjusamur og afburðargreindur einstaklingur. Dóttir hans stelur úr veski hans til að safna fyrir fegrunaraðgerð. Sonur hans stelur frá dóttur hans, og brýtur hegðunarreglur í skólanum frá a-ö. Nágranni hans á aðra hönd er einn af þessum hörðu gaurum sem tekur son sinn í veiðiferðir með haglara og reynir að eigna sér hluta af lóð Larrys. Nágranninn á hina höndina er hin eggjandi og hættulega tælandi frú Samsky, að ógleymdum bróðurnum Arthur sem býr inni á heimili þeirra, með krónískt þvagvandamál. 

Fleiri áhugaverðar persónur, eins og eiginkonan, þrír rabbínar, kennari stráksins og síðan einhverjir forfeður hans og draugur úr löngu horfinni fortíð, að ógleymdum lögmanni, tannlækni og manni sem hefur orðin "Hjálpaðu mér" rituð á hebresku á gómhlið tanna sinna, kóreskum nemanda sem reynir að múta Larry til að hækka einkunnir sínar, og einn úr skólanefndinni sem ákveður hvort að Larry verði lífsráðinn eða ekki. 

Allar eru þessar persónur eru trúverðugar og sérstakar. Allar kasta þær ljósi, eða kannski skugga, á líf Larry, og hjálpa honum eða ekki að átta sig á hvað er eiginlega að í lífi hans.

Ég skemmti mér yfir þessari mynd. Hún minnir á eldra verk þeirra Coen bræðra, "Barton Fink". Húmorinn er sá sami, en súrrealisminn er ekki lengur í myndmálinu, heldur því hvernig Larry upplifir lífið og tilveruna sífellt undrandi og óviss um hvað gerist næst.

Upphafsatriðið er svolítið spes og gefur tónninn, með draugasögu þar sem áhorfandinn er sjálfur látinn fylla í eyðurnar, og þá vonandi með eigin fordómum um drauga og hjátrú. Okkur líður illa þegar við fáum ekki útskýringu á einhverju sem skilur eftir tómarúm, og það er nákvæmlega þessi tilfinning sem aumingja Larry þarf að berjast við - að finna tilgang með lífinu til að fylla í þá ógurlega stóru eyðu sem allt í einu ýtir honum út af eigin heimili og skilur heimsmynd hans eftir í rjúkandi rústum.

 

Rotten Tomatoes: 87%

IMDB: 7,4


Hefur nýkommúnismi tekið völdin á Íslandi?

 

page42_blog_entry93_1

 

Þegar nýfrjálshyggjan féll, kom tími nýrrar pólitískrar stefnu á Íslandi. Þessa stefnu má kalla nýkommúnisma, því rétt eins og hefðbundinn kommúnismi snýst hún hvað harðast gegn sínum eigin hugsjónum, gildum og baráttuslögurum og verður að einhvers konar andvana örverpi sem engum gerir gagn, en kvakar samt endalaust út í eitt.

Það má hugsa um þetta út frá díalektísku kenningum Hegels, þar sem hann talar um "kenningu", "gagn-kenningu" og síðan "niðurstöðu".

Mig grunar að frjálshyggjan, sem mótmælt var með kommúnisma á sínum tíma hafi leitt til hófsamari lýðveldissósíalisma. Frjálshyggjan féll aldrei á Íslandi. Það kom aldrei til kommúnisma. Hins vegar var frjálshyggjan uppfærð í frjálshyggju 2.0 og fékk uppnefnið "nýfrjálshyggja". Henni hefur verið mótmælt með nýkommúnisma undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, en verið kölluð ýmist "vinstristjórn" eða "jafnaðarstefna", hvort tveggja rangnefni miðað við aðstæður á Íslandi í dag. 

Nú bíð ég spenntur eftir því hvort að nýkommúnisminn muni vara lengi á Íslandi, eða hvort að þjóðinni takist að brjótast út úr höftum hans og skapa nýlýðveldissósíalisma, fyrst allra þjóða. 

 

Mynd: Real Clear Religion


Chugyeogja (2008) ****

The_Chaser_film_poster
 

Hörkuspennandi tryllir eins og þeir gerast bestir, persónusköpunin trúverðug og illmennið verulega fúlt, og hetjan ekkert sérstaklega góð manneskja í upphafi sögunnar. Það að myndin er frá Kóreu og betri en flestar spennumyndir sem koma frá Hollywood segir okkur kannski eitthvað um að miðpunktur menningarinnar sé að færast í austur.

Joong-ho Eom (Yun-seok Kim) hefur verið rekinn úr rannsóknarlögreglu Seoul fyrir að þiggja mútur og hefur stofnað sitt eigið fyrirtæki. Hann gerir út vændiskonur, sem hefur fækkað hratt upp á síðkastið. Hann grunar að þær hafi einfaldlega strokið frá honum og vinni fyrir einhvern annan, en grunar engan veginn þann hrylling sem liggur að baki hvarfi kvennanna.

Þegar aðeins ein af stúlkunum hans er eftir, einstæða móðirin Mi-jin Kim (Yeong-hie Seo), fær hann hana til að sinna viðskiptavini þrátt fyrir að hún liggi heima í flensu. Joong-ho áttar sig á að allar stúlkurnar sem hurfu höfðu áður farið á fund manns með þetta símanúmer. Hann lætur Mi-jin vita, en hún er þegar á leið heim til viðskiptavinarins og er í bílnum með Young-min Jee (Jung-woo Ha), þegar hún fær símtalið. Hún lofar að láta Joong-ho fá heimilisfangið þegar hún kemst inn. En eitthvað fer úrskeiðis.

Joong-ho fer að lengja eftir hringingu frá Mi-jin og ákveður að leita hennar og sýnir að hann er snjall rannsóknarlögreglumaður, sem því miður hefur ekki nægilega mikla samvinnu frá lögreglunni, sem virðist samansafn af spilltum hálfvitum, skriffinnskupúkum og pólitíkusum sem hugsa meira um eigin frama en að réttlætið sigri. Þegar Joong-ho kemst að hinu sanna og nær fyrir einskæra heppni að handsama fjöldamorðingjann, er sagan rétt að byrja, þar sem hann hefur ekki handtökuheimild og engar sannanir sem leiða hann til Mi-jin, sem hann þráir að bjarga eftir að hann kynnist ungri dóttur hennar.

Myndin er gífurlega vel leikin og leikstýrð, sagan sannfærandi og ofbeldið miskunnarlaust, þó að flest af því eigi sér ekki stað fyrir framan myndavélina. 

 

Rotten Tomatoes: 81%

IMDB: 7.9


LÝÐVELDIÐ eftir Platón: 330 - Verður vondur maður aldrei sáttur við sjálfan sig þrátt fyrir að vera auðugur?

Þessi blaðsíða úr Lýðveldi Platóns passar eins og flís við rass við Kastljósþátt gærkvöldsins þar sem fjallað var um svikafléttur Milestone og Sjóvár. Maður hlýtur að spyrja hvort að þessir einstaklinga trúi því að hægt verði að komast hjá ellinni og kaupa sér kannski eilíft líf og hamingju. Ljóst að ég mun halda áfram að þýða þetta stórmerkilega rit í stað þess að skrifa um alla þá spillingu og það ranglæti sem fram hefur farið á Íslandi og enn er í gangi, en Lýðveldi Platóns fjallar um nákvæmlega þessa hluti, bara í stærra samhengi. Það sem Platón skráði fyrir um 2400 árum um borgríkin í Grikklandi og sérstaklega Aþenu, eiga vel við í dag.

Það má reikna með smávægilegum villum í þessum færslum, enda hafa þýðingarnar ekki verið prófarkarlesnar, en ég geri mitt besta að halda merkingunni skýrri og þýðingunni á hversdagslegri íslensku sem allir ættu að skilja án vandræða.

 

 

 

Herkúles berst við Cerberus, þríhöfða hund Hadesar,
sem stjórnaði einhvers konar Milestone grískrar goðafræði.

 

330a

"Sama lögmál á við um þá sem ekki eru ríkir og eiga erfitt með háan aldur. Það er satt að góðum manni þætti hár aldur ekki sérstaklega auðveldur væri hann fátækur, en það er einnig satt að vondur maður yrði aldrei sáttur við sjálfan sig þó að hann væri ríkur."

"Erfðir þú mest af auðæfum þínum, Cefalus," spurði ég, "eða aflaðirðu þeirra sjálfur?" 

330b

"Hvað ertu að segja, Sókrates?" spurði hann. "Aflaði þeirra sjálfur? Sem kaupsýslumaður kem ég á milli afa míns og föður. Afi minn (sem ég er nefndur eftir) erfði eignir sem eru nánast jafn verðmætar þeim sem ég á í dag, og hann bætti töluvert við þær; faðir minn Lysanias, hins vegar, minnkaði þær í minna en það sem þær eru núna. Ég verð ánægður ef synir mínir erfa frá mér ekki minna, heldur aðeins meira en ég erfði sjálfur."

"Ég skal segja þér af hverju ég spyr," sagði ég. "Það er vegna þess að mér sýnist þú ekki hafa neinn sérstakan áhuga á peningum, og þetta á yfirleitt við um þá sem hafa ekki aflað þeirra sjálfir. Á meðan fólk sem hefur aflað þeirra þykir tvisvar sinnum vænna um þá en nokkur annar."

330c

"Skáldum þykir vænt um eigin ljóð, feðrum þykir vænt um syni sína; á sama hátt bera kaupsýslumenn hug til peninga sinna, ekki vegna gagnsemi þeirra (sem er ástæða þess að allir aðrir hafa áhuga á þeim), heldur vegna þess að þeir eru afurð þeirra eigin vinnu. Þetta verður til þess að pirrandi verður að umgangast þá, þar sem peningar eru það eina sem þeir meta mikils."

"Þú hefur rétt fyrir þér," sagði hann.

330d

"Já," sagði ég. "En mig langar að spyrja þig annarrar spurningar. Hver heldur þú að sé mesti hagurinn sem þú hefur öðlast af ríkidæmi þínu?"

"Nokkuð sem mörgum þætti líklega ósennilegt," svaraði hann. "Sjáðu til, Sókrates, þegar hugsanir um dauðann byrja að reka á huga manns, finnur hann fyrir ótta og áhyggjum um hluti sem honum hafði aldrei áður dottið í hug. Áður fyrr hafði hann hlegið að sögum sem segja frá því sem gerist hjá Hades - um hvernig einhver sem hefur athafnað sig ranglega í þessum heimi er bundinn til refsingar hinumegin - en nú trufla þessar hugmyndir huga hans, og hann veltir fyrir sér hvort þær geti verið sannar."

330e

"Þetta gæti verið vegna veikleika sem felst  í ellinni eða þetta gæti verið vegna þess að nú þegar hann er kominn nær næsta heimi sér hann skýrar; og afleiðingin er sú að hann fyllist af streitu og ótta, og byrjar að reikna út og greina hvort hann hafi brotið af sér gagnvart einhverjum á einhvern hátt. Hver sá sem uppgötvar að hann hefur í lífinu framið fjölda glæpa, vaknar stöðugt í skelfingu upp frá draumum sínum, eins og börn gera, og lifir einnig við kvíða; en á hinn bóginn, hver sá sem er meðvitaður um ekkert rangt í eigin fari horfir til framtíðar með trausti og bjartsýni sem, eins og Pindar segir svo vel, 'veitir honum þægindi í ellinni'."


LÝÐVELDIÐ eftir Platón: 329 - Manngerð, elli og ríkidæmi

 


 

329a

"Auðvitað mun ég deila með þér minni skoðun, Sókrates," sagði hann. "Sjáðu til, samkomur meðal okkur gömlu mannanna sem eru á svipuðu reki eru ekki óalgengar (og sanna þannig gamla máltækið!). Þessar samkomur eru án undantekninga notaðar fyrir nöldur af þeim sem sakna ánægjunnar sem fylgir æskunni. Þeir minna sjálfa sig á ástarlífið, drykkju, veislur og slíka hluti, og kvarta í framhaldinu yfir því að þeir hafi verið rændir þeim hlutum sem eru mikilvægir og halda því fram að áður hafi þeir lifað góðu lífi, á meðan þeir eru varla meðal lifanda í dag.

329b

Aðrir kvarta yfir hvernig fjölskyldur þeirra koma fram við þá gömlu eins og óhreinindi; og í raun er þetta megin ástæða þess að þeir kvarta endalaust yfir öllu því böli sem ellin hefur valdið þeim. En í mínum huga, Sókrates, eru þeir að ásaka saklausan aðila. Ef þetta væri ellinni að kenna, hefði reynsla mín verið eins - í það minnsta svo framarlega sem það á við um ellina - og þannig væri um alla þá sem hafa komist á þennan aldur. En ég hef hitt aðra, sem eins og ég, deila ekki þessari tilfinningu. Sérstaklega þegar ég var einu sinni með skáldinu Sófóklesi og einhver spurði hann, "Hvað finnst þér um kynlíf, Sófókles? Hefurðu ennþá getu til að stunda kynlíf með konu?"

329c

Hann svaraði, "Þegiðu, maður! Til allrar hamingju hefur mér tekist að losna undan slíku, eins og þræll sem hefur sloppið undan ofstækisfullum og grimmum herra." Á þeirri stundu þótti mér þetta svar gott, og ég hef ekki skipt um skoðun. Ég meina, það er enginn vafi á því að í ellinni færðu frið og frelsi frá hlutum eins og kynlífi. Þegar þráin linast í ákafa sínum og róast, þá gerist nákvæmlega það sem Sófókles lýsti - þú öðlast frelsi frá mörgum snarbiluðum herrum. 

329d

Samt sem áður, þá er hár aldur manneskjunnar ekki það sem ber ábyrgð á þessu, né sambandi manns við ættingja, Sókrates, heldur manngerðin. Ef viðkomandi er sjálfagaður og vel skapi farinn, íþyngir ellin ekki mikið; fyrir aðra felst orsök óánægjunnar ekki bara í háum aldri, Sókrates - heldur mun slíkri manneskju líka þykja lífið erfitt í æsku.

329e

Ég fylltist aðdáunar á honum og orðum hans, og vegna þess að ég vildi að hann héldi áfram, reyndi ég að eggja hann áfram með því að segja, "Cefalus, mig grunar að flestir myndu bregðast við því sem þú ert að segja með miklum efasemdum; þeir myndu telja að þér finnist hár aldur auðveldur ekki vegna manngerðar þinnar, heldur vegna ríkidæmi þíns. Hinir ríku fá mikla huggun, segja þeir."

"Rétt hjá þér," sagði hann, "þeir efast. Og það er mikið til í þessu, en þó er þetta ekki jafn mikilvægt og þeir ímynda sér. Sagan um Þemístókles er mikilvæg í þessu samhengi - um það hvernig maðurinn frá Serifus sagði á óforskammaðan hátt að frægð hans væri ekki honum sjálfum að þakka, heldur borginni, svaraði hann, "Það er satt að ég hefði ekki verið frægur væri ég frá Serifus, en það er einnig satt að þú værir það ekki ef þú værir frá Aþenu."


Af hverju í ósköpunum er ég farinn að þýða heimspeki á blogginu?

 

besserwissere

 

Öll vitum við mikið um sumt og höfum tilhneigingu til að telja okkur vita sitthvað um allt. Það getur verið betra að líta á það sem viðhorf til að dýpka þekkinguna.

Oft skrifa ég um mál sem ég tel mig vita lítið um, en skrifa um þau til að læra af þeim. Það sem hefur komið mér á óvart er að furðulega oft reynist skilningur minn góður og vangavelturnar hafa velt upp hliðum sem eru sannar. 

Ekki eitthvað sem ég reikna með fyrirfram.

Annars er ég að rembast við að hætta að skrifa um ICESAVE. Þetta mál finnst mér soga úr mér orku, einfaldlega vegna þess að umræðan virðist að mestu byggð á kappræðum frekar en rökræðum. Í stað þess hef ég gripið til þess ráðs að þýða blaðsíðu úr Lýðveldinu eftir Platón þegar ICESAVE löngunin hellist yfir mig. Það er mín afvötnun.

Ég veit að þessi bók hefur þegar verið þýdd yfir á íslensku og það afar vel og nákvæmlega, en áhugi minn á þessu riti hefur lengi setið í mér, og finnst mér þægilegt að velta velta hlutunum fyrir mér frá einu tungumáli yfir í annað.

 

Þessi grein varð fyrst til sem athugasemd við blogg Sæmundar Bjarnasonar

Mynd af besserwisser: Uredd Stemme

 


The Princess and the Frog (2009) *1/2

 


 

10 ára sonur minn gaf myndinni líka eina og hálfa stjörnu, en dóttir mín 12 ára var rausnarleg og gaf henni tvær af fjórum. Þótti syni mínum myndin ógeðsleg vegna alltof mikillar áherslu á kossa og dóttur minni leiddist einfaldlega.

"The Princess and the Frog" er tilraun Disney til að vinna aftur í handteiknuðum teiknimyndum í stil við "The Little Mermaid", "The Lion King" og "The Beauty and the Beast". Myndin er vissulega fallega teiknuð, en kjarni hennar, sagan og frásögnin, er svo óáhugaverð og leiðinleg að það hefur afgerandi áhrif á teiknimynd sem manni finnst alltof löng. Ég leit þrisvar sinnum á klukkuna áður en myndin endaði og gat varla beðið eftir að komast út.

Tiana hefur misst föður sinn sem slitið hefur sér út við að vinna tvöfalda vinnu alla ævi, og hún er á sömu leið. Hún hefur þurft að líða fátækt þrátt fyrir mikinn dug, en á sér stóra drauma um að opna glæsilegan veitingastað. Þegar hún kyssir talandi frosk, sem er auðvitað prins Naveen í álögum, breytist hún sjálf í frosk, enda þurfti prinsessu til að breyta gaurnum aftur í manneskju.

Aðstoðarmaður prinsinn hafði nefnilega svikið hann og ætlar að taka hans stað og giftast til fjár með aðstoð hins illa Dr. Facilier sem er Voodoo-galdrakall með sérstaklega gott samband við skuggaverur. Hefst nú mikill eltingarleikur, þar sem þeir þurfa blóð úr hinum raunverulega Naveem til að viðhalda útliti aðstoðarmannsins í formi Naveem. Sendir eru skuggar úr undirheimunum til að eltast við froskana tvo, en froskarnir deyja ekki ráðalausir og fá óvænta aðstoð frá jazzdýrkandi krókódílnum Luis og hugrökku ljósflugunni Ray.

Pixar hefur spillt okkur með því að gera frábærar teiknimyndir með vel skrifuðum sögum. Þessi saga er einfaldlega ekki nógu vel sögð, persónurnar of flatar og óáhugaverðar. Það er ekki einu sinni hægt að mæla með þessari mynd fyrir þau allra yngstu vegna Voodoo atriðanna sem gætu heldur betur hrætt smábörnin.

"The Princess and the Frog" er ekki nógu góð til að vera sýnd í bíó. Lögin hitta heldur ekki í mark. Hún hefði átt að fara beint á DVD eða í sjónvarp. Það er reyndar mikið spilað af jazz í þessari mynd sem gerist í New Orleans, og minnir á andrúmsloftið í "The Aristocats" sem var þrungið einhvers konar ást á jazz.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband