Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Heimilin knúin til að afskrifa 58 milljarða hjá bankastofnunum í dag?

Enn virðist ætlunin að dýpka kreppuna hjá heimilum landsmanna. 33 milljarðar afskrifaðir hjá Íbúðalánasjóði. 25 milljarðar afskrifaðir hjá bönkunum vegna innlánatrygginga.

Hvaðan kemur þessi peningur?

Jú. Almenningur borgar. 

Hvað um skuldug heimili sem kljást við forsendubrest, sum hver í örvæntingu?

Þeim virðist mega blæða út. Þau skulu borga meira á meðan kröfuhafar græða meira.

Hvar er skjaldborgin?


mbl.is Fjáraukalög hækka um 58 milljarða vegna lánastofnana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árásin á Marinó: Viljum við búa við þægilegt ranglæti frekar en óþægilegt réttlæti?

Bankar rændir innanfrá. Afleiðingin flókin: þeir komust undan með allt ránsféð og skildu bankana eftir sem rjúkandi rúst. Misvitrir ráðamenn hymdu yfir glæpinn og létu eins og ekkert hafði gerst með því að tryggja innistöðu á öllum reikningum bankanna. Þetta þýddi að þeir fáu sem áttu marga milljarða inni á reikningum fengu þennan pening tryggðan. Þar sem bankarnir voru gjaldþrota þurfti að finna pening til að borga þessum einstaklingum og stofnunum til baka, og ekki bara það, heldur með vöxtum, enda voru þetta verðtryggðir reikningar.

Þjóðin hefur þurft að borga þennan reikning. Flestir þegnar landsins hafa þegar kynnst hækkandi sköttum og verðlagi, minni tækifærum til atvinnu,  tapað peningum; en engir jafn miklu og þeir sem fjárfestu í húsnæði fyrir sjálfa sig og fjölskyldu sína og tóku lán til að fjármagna kaupin. Það segir sig sjálft að fólk sem fjárfestir í húsnæði gerir það yfirleitt að vel íhuguðu máli, fer í greiðslumat og veit að það þarf að vinna af heilindum til að endar nái saman, jafnvel í einhverja áratugi, og þetta fólk ætlaði sér að gera það.

En síðan kemur í ljós að helsta leiðin til að borga reikningshöfum til baka er með því að hækka þessi húsnæðislán og höfuðstóla þeirra - stökkbreyta þeim - og hverjum hugsandi manni er ljóst hversu ósanngjarnt er að þessi hópur fólks, sem hefur tekið lán fyrir húsnæði, er fólkið sem þarf að standa undir tryggum greiðslum og vöxtum á bankareikninga.  Því miður virðist ekki nógu mikið af hugsandi fólki á Íslandi.

Marinó G. Njálsson áttaði sig strax á þessu ranglæti og tók þátt í stofnun Hagsmunasamtaka heimilanna, félagasamtökum sem spruttu upp úr þessari þörf, félagasamtökum sem hafa engan rekstrargrundvöll annan en málefnið, enda stunda stjórnarmenn störf sín í sjálfboðaliðsvinnu. Þeir eru ekki að fá laun eins og "andstæðingar" þeirra: þingmenn, forstjórar lífeyrissjóða, verkalýðs(ekki)leiðtogar, útrásarvíkingar og fleiri.

Marinó hefur ekki lagst á hnén, heldur staðið traustur í báðar fætur með góðan félagsskap sem bakland og bogað í burtu af elju og réttsýni bæði þeirri þoku sem stjórnvöld hafa stöðugt kallað fram til að blinda þegna þessa lands. Hann hefur gert þetta með gagnrýnni hugsun. Spurt þegar hlutir eru óljósir. Kannað heimildir. Hugsað. Reiknað út. Og síðast en ekki síst skrifað og tjáð sig um niðurstöður sínar.

Nú er ráðist á fjölskyldu hans og árásin réttlætt með því að segja hann opinbera persónu. Eru semsagt allir þeir sem tjá sig á bloggi og tekið er viðtal við í fjölmiðlum allt í einu opinberar persónur og fjölskyldur þeirra orðnar að réttmætu skotmarki? Verðurðu opinber persóna ef þú skráir þig í félagasamtök sem berst fyrir sameiginlegu markmiði? Er ekki nóg að Marinó hefur skýrt á eigin bloggi hver hans eigin staða er? Þarf virkilega að ráðast gegn eiginkonu hans og börnum líka?

Það var rétt hjá Marinó að skrá sig úr Hagsmunasamtökum heimilanna til að verja eigin fjölskyldu, enda sýnir það þann þrýsting sem heiðarleg vinnubrögð verða fyrir þegar ranglæti er blessað af stjórnvöldum í samfélaginu. Það sýnir líka að hann markmið hans og viðmið hafa ekki breyst.

Athugið að þetta er maður sem fær ekki eina einustu krónu fyrir vinnu sína. Hann er að berjast til að vernda heimili sitt og fjölskyldu, og í leiðinni öll þau heimili og fjölskyldur sem lent hafa í sama ranglæti eftir hrun; og aðeins skynjað skilningsleysi frá flestum þeim sem ekki eru í sams konar stöðu, fólkinu sem þegar hefur greitt sín háu laun og laust er úr klóm slíkra fjárfestinga - sem einkennir að sjálfsögðu flesta þá sem standa gegn þeim hugmyndum að finna réttláta lausn og lagfæra ranglætið - þar sem að slíkar lausnir geta komið þeim sjálfum í vanda. 

Hugsaðu þér gildismatið: frekar að verja eigin hag umfram hag heildarinnar og láta eins og þessi fórnarlömb hrunsins eigi þetta skilið, og jafnvel að þau séu ekki til. Það er ljóst að verði ranglætið leiðrétt mun það kosta þjóðina mikið, en það þýðir líka að fólk horfist í augu við það sem þurfi að gera til að reka réttlátt samfélag. Það verður hins vegar margfalt dýrara að láta ranglæti líðast.

Viljum við búa við þægilegt ranglæti frekar en óþægilegt réttlæti?


Hugsarðu alltof mikið?

Calvin_and_hobbes

Þessa dagana er ég að velta fyrir mér hvernig við hugsum og bloggum, og er að tengja það saman við vangaveltur sem spretta við lestur Camus, Sartre, Kafka og Kierkegaard. Síðustu færslur hafa sprottið að mestu úr slíkum tilvistarpælingum. Skiljanlega átta sig ekki allir á hvað ég hef verið að pæla en markmiðið með færslum mínum á þessu bloggi hefur einatt verið gert til þess að læra aðeins meira um heiminn, deila með samferðarfólki mínu því sem leitar á mig, og finna leiðir til að finna ný sjónarhorn, nýjar spurningar og vonandi einhver svör.

Í dag stóð ég samtímis þrjár klukkustundir í rigningu fyrir utan strætóskýli. Á meðan velti ég eftirfarandi spurningum fyrir mér:

  1. Hvort ætli sé verra, að hugsa alltof mikið eða hugsa alltof lítið?
  2. Hvernig áhrif hafa hugsanir á tilfinningar okkar?
  3. Líður okkur betur ef við hugsum "fallegar" hugsanir og verr ef við hugsum "ljótar" hugsanir?
  4. Hvernig væri líf manneskju sem hugsaði ekki neitt, en leitaði bara í þægindi?
  5. Hvernig væri líf manneskju sem hugsaði alltof mikið, og er sama um þægindi?
  6. Eru hugsanir okkar og tilfinningar óaðskiljanleg heild?
  7. Hvernig er gremja sem tilfinning ólík sársauka?
  8. Verður sá sem hugsar of lítið auðveldlega að fórnarlambi ríkjandi hugmynda með því að fylgja þeim blint eftir?
  9. Verður sá sem hugsar of mikið auðveldlega að fórnarlambi eigin takmarkana og dæmdur til að blekkja sjálfan sig?
  10. Er munur á að hugsa lítið og að hugsa illa? 
  11. Er munur á að hugsa mikið og að hugsa vel?

Mér fannst gefandi að velta þessum spurningum fyrir mér og vildi deila þeim með varðhundum bloggsins míns. Blush

Ég fann svör við öllum þessum spurningum, en er viss um að þau svör eru sjálfsagt ólík þeim svörum sem þú finnur. Að spyrja gefur stundum meira en að svara.


Af hverju eru varðhundar vantrúar svona reiðir?

cnh2

Ofbeldi birtist í ólíku formi.

Fyrr á öldum þótti sjálfsagt að karlmaður réði algjörlega yfir konu sinni á heimilinu. Í dag kallast slíkt heimilisofbeldi. Áður fyrr gátu kennarar agað nemendur sína með líkamlegum refsingum. Í dag kallast slíkt ofbeldi. Áður fyrr fengu konur ekki að kjósa. Í dag myndum við kalla það ranglæti, og hugsanlega ofbeldi.

Í dag þegar einhver bloggari vogar sér að nota hugtakið "trúarbrögð" í fyrirsögn, getur sá hinn sami átt von á miklum straumi athugasemda frá varðhundum vantrúar sem láta eins og á þá hafi verið ráðist og verið sé að vaða yfir þá með skítugum skóm. Þessir varðhundar eru yfirleitt ekki kurteisir og blindir á önnur sjónarhorn en sín eigin, þó að þeir séu duglegir að spyrja lokaðra spurninga, sem gerðar eru til að leiða ímyndaða andstæðinga í einhvers konar gildru.

Sumir þeirra eru þó heiðarlegir og kraftmiklir einstaklingar, en eru svo blindaðir í einhvers konar reiði og heift, að það er erfitt að hafa skýr samskipti við þá. 

Það sem ég á erfitt með að skilja er hvaðan öll þessi heift sprettur. Kemur hún undan djúpstæðum vonbrigðum vegna þess að þeir höfðu einhverjar annarlegar væntingar til trúarbragða sem síðan reyndust ekki á rökum reistar? Hafa viðkomandi einstaklingar orðið fyrir einhvers konar ofbeldi af hendi trúarbragða? Gera þeir ekki greinarmun á trúarbrögðum og stofnunum trúarbragða?

Ég upplifi dónalegt orðbragð sem tjáningu á reiði. Kannski er það bara einhver misskilningur hjá mér, sem væri ágætt að fá leiðréttan.

Gaman væri að heyra hvað varðhundum vantrúar finnst um þetta mál. Eins og áður er ég svolítið upptekinn við aðra hluti í dag, en mun lesa allar athugasemdir, án þess að ég geti lofað að svara þeim öllum.

 

Þetta byrjaði allt hérna: Eftir þjóðfund: Vill þjóðin öflugri kirkju til að styrkja siðgæðið? (svarið virðist vera nei) og hélt svo áfram með þessum tveimur greinum og tugum athugasemda:

 


Hvað er eiginlega að þessum varðhundum vantrúar?

chch-atheist

Um daginn túlkaði ég  hugtakið "siðgæði" sem trúarhugtak.

Athugasemdakerfið tók kipp. Fjöldi athugasemda var svo mikill að ég treysti mér ekki til að svara þeim öllum, enda ber mér engin skylda til þess og er þar að auki frekar upptekinn við störf mín.

En þegar menn sem telja sig fulltrúaða trúlausra Íslendinga ásaka bloggara um óheiðarleika fyrir að velta hlutunum fyrir sér, krefjast þess að vita hver trúarleg afstaða bloggarans er, og krefjast svara við spurningum sínum eins og bloggarinn sé eitthvað yfirvald á launum; þá get ég ekki annað en velt fyrir mér hvort þessir menn, hefðu þeir völd, myndu vilja ritskoða allt sem þeir eru ósammála, strika út óþægilegar hugmyndir og helst henda tjáningarfrelsinu í eitthvað verra en fangelsi og murka úr því líftóruna.

Ég hef unnið mér til sakar að sýna bæði trúuðum og trúlausum, sem og þeim sem eru þarna einhvers staðar á milli, umburðarlyndi. Þessi glæpur virðist vera það alvarlegur í augum sumra einstaklinga að hann sé verðugur að minnsta kosti klukkustundar hömrun á lyklaborð og mörgum smellum á "Birta".

Þessir blessuðu varðhundar virðast blindir á þann stóra sannleik að ekki allt fólk er með þeirra eigin gleraugu á nefinu eða útsýni yfir herbergi þeirra og tölvuskjá. Sumir virðast vera svona rándýr í eðli sínu sem þola ekkert öðruvísi en þann heim sem þeir sjálfir vilja búa í. Og þeim er sama hvað öðrum finnst, og móðgast jafnvel sé fólk ósammála þeim á forsendum sem eiga meira við trú en rök að styðjast. Þeir fatta ekki að bakvið hinstu rökin hlýtur að vera einhver óskynsamleg skoðun, einhver trú. Þeir eru jafnvel blindir á sína eigin trú og halda að hún sé ekki til.

Þessi ofsi sem einkennir sumar athugasemdirnar eru fyrirtaks dæmi um hvernig samræður ættu alls ekki að fara fram. Þetta er sams konar hegðun og ég hef gagnrýnt í umræðuhefð stjórnmálamanna. Þeir ryðjast fram fyrir alla og þola ekki þegar einhver er ósammála eða skilur tilveruna á annan hátt. Þessir menn hafa þotið fram á ritvöllinn og gert skurk á flestum bloggsíðum þar sem, án þess að hafa lesið hvert einasta rit trúarbragða eða trúleysis um þessi mál, einhver vogar sér að minnast á "trúarbrögð". Fyrir vikið hlýtur hinn þögli meirihluti að stækka, en það er þetta venjulega og skynsama fólk sem nennir ekki að bendla sig við svona rugl.

Þessir tveir menn eru að vinna málefninu "vantrú" mikinn skaða með sínu framferði, og stundum grunar mig að þeir hljóti að vera útsendarar einhvers trúfélags sem vill gera lítið úr þeim sem ekki trúa. Þeir misreikna sjálfa sig svo hrikalega að þeir eru að tryggja samúð trúlausra með trúuðum.

Hafirðu áhuga á að kíkja á þessar furðulegu athugasemdir og bera þær saman við mínar sakleysislegu vangaveltur, er þér velkomið að kíkja í heimsókn á hinar síðurnar, Eftir þjóðfund: Vill þjóðin öflugri kirkju til að styrkja siðgæðið? og Á að banna trúarbrögð í skólum?

Þessi varðhundahegðun hlýtur að eiga sér rætur í einhverjum djúpstæðum sálrænum vandamálum. Mikið vildi ég heyra skoðanir þeirra Freud og Jung á þessum ofsafengnu lyklaborðsvörgum. Sjálfsagt yrði ég samt engu nær.

 


Á að banna trúarbrögð í skólum?

Trúfrelsi snýst ekki bara um að mega vera trúlaus í friði fyrir áreiti. Trúfrelsi snýst líka um að mega vera trúaður í friði fyrir áreiti. Kristni og ásatrú eru sjálfsagt þau trúarbrögð sem ríkt hafa á Íslandi frá öræfi alda, og vissulega sanngjarnt að gera þeim öllum jafnt undir höfði. Ef út í bönn er farið, þá væri alveg eins hægt að banna stærðfræði þar sem að sú grein er ekki byggð á öðru en ímynduðum tölum.

Það er ótrúlegt að þurfi að ræða þetta á tímum þegar margt fólk er í neyð og hjálpar þurfi. En sjálfsagt er eitthvað samhengi þarna á milli. Þeir sögðu einhverjir gamlir spekingar að samband væri á milli ræktun trúarbragða og trausts í samfélagi, að án trúarbragða ríkti upplausn og efi - og þá sama hver trúin er. Rétt eins og lýðræðið, er formið mikilvægara en innihaldið.

Allra best væri að hefja kennslu í gagnrýnni hugsun, siðfræði og heimspeki í skólum, en athugið að í þeim greinum er ekki reynt að troða gildum upp á fólk, heldur miðað að því að fólk skilji hvað í gildunum búi. Gildin koma frá fólkinu sjálfu, og með greiningu rökfræðinnar og með góðum samskiptum er hægt að kryfja af dýpt hin ólíku gildi, og reyna að átta sig á heildarmyndunum þeim að baki. Aftur á móti liggur djúpur vandi í þeirri tilhneigingu kennara til að "fræða" börn um sín eigin gildi umfram önnur. 

Það þarf ekki að banna eitt eða neitt. Hins vegar þarf að móta skólastefnu betur. Bæta stöðu og laun kennara, endurnýja námsgögn barna, setja metnað í menntun. Ég hef atvinnu af þessu í dag og líkar það vel. Því miður hefur reynst afar erfitt að finna leiðir fyrir slíkar hugmyndir á Íslandi, þar sem nám fór að snúast um að komast á endastöð sem fyrst til að komast í háskólanám sem fyrst til að komast út á atvinnumarkað sem fyrst til að græða sem mest sem allrafyrst, í stað þess að nema staðar í skjóli og virða heiminn og mannlífið aðeins fyrir sér.


Eftir þjóðfund: Vill þjóðin öflugri kirkju til að styrkja siðgæðið? (Myndbönd)

calv2

 

 

Pælingar

Siðgæði er ekki það sama og siðferði, þar sem að siðgæði er gildishlaðið hugtak, en siðferði er það ekki. Siðgæði ber merki um áhuga fyrir að setja siðferðilega mælikvarða og fylgja þeim eftir, en siðferði fjallar um að hver og einn rannsaki stöðugt eigin siðferði og beiti skynsemi til að öðlast það.

Það lítur út fyrir að þjóðfundur sé að kalla eftir trúaðra samfélagi, að þarna sé þjóðkirkjunni gefið tækifæri til að rétta hjálparhönd, að fólk sé búið að fá leið á stöðugu áreiti þeirra sem vilja aðskilja ríki og kirkju, að fólk hafi andstyggð á þeirri sundrungu, ósamstöðu og spillingu sem virðist einkenna nútímasamfélagið á Íslandi.

Ég skil vel ef fólk vill gera auknar kröfur á siðgæði í íslensku þjóðfélagi, en er samt engan veginn sannfærður um að rétta leiðin sé að hverfa aftur í aldnar kreddur. Þarna gætu enn og aftur sprottið upp átök á milli þeirra sem vilja fylgja siðferðislegum viðmiðum kristninnar strangt eftir án þess að gefa vafa nokkuð svigrúm, og hins vegar þeirra sem vilja að hver og ein manneskja leiti svara á eigin forsendum. Þetta gæti verið nýtt upphaf hinna stöðugu átaka milli vísinda og trúarbragða, milli frelsi einstaklingsins og skyldu hans, milli sannleika og trúar.

Mig grunar að ákall um siðgæði komi til vegna hinnar augljósu spillingar, fjársvikagjörninga og hneykslunarmála sem hafa dregið þjóðina niður í svaðið, og að eitthvað vanti til að hífa þjóðina upp úr kviksyndinu, kannski einhvern þjóðarkarakter, kannski einhverja hetju.

Ég efast um að fólkið hafi haft kristilegt siðferði kirkjunnar ofarlega í huga, en spái því að kirkjan muni túlka þessa niðurstöðu sem eldsneyti í baráttu hinnar kristnu þjóðar gegn vantrú.

 

Óformleg rannsókn

Ég leitaði að orðinu "siðgæði" með Google til að átta mig betur á viðteknum skilningi hugtaksins. Efstu 10 niðurstöðurnar voru þannig (endurtekningar fjarlægðar):

 

  1. Tvöfalt Siðgæði (Lag eftir PS&CO / Big Nose Band)
  2. Youtube: Hvað er þjóðkirkjan? Siðgæði
  3. Youtube: Guðni Ágústsson og kristilegt siðgæði (skilaboð: standa vörð um kirkjuna)
  4. Kristilegt siðgæði | Efst í huga (Blogg eftir Kristjönu Bjarnadóttur)
  5. Siðgæði - Trúin og lífið (Grein eftir Karl Sigurbjörnsson, biskup)
  6. Freedomfries » Siðgæði (Samansafn greina um kynferðislegt ofbeldi í Bandaríkjunum)
  7. Tvöfalt siðgæði gagnvart kennitöluflakki (Af Fuglahvísli á AMX)
  8. Tvöfalt siðgæði alkans. ÞAÐ ER TIL LAUSN (Blogg um alkóhólisma)
  9. Sigga Dögg » tvöfalt siðgæði (Bloggað um strippdans)
  10. Siðmennt » Er kristilegt siðgæði ekki lengur til? (Grein um tilvistarkreppu kristilegs siðgæðis)

 

Samkvæmt þessum niðurstöðum helstu leitarvélar heims, þá virðist fólk tengja hugtakið siðgæði við kristna trú, kynferðislega vafasama hegðun og hentistefnu.

 

Þjóðfundur

 Samkvæmt frétt Eyjunnar um þjóðfund voru þetta helstu niðurstöðurnar:

  • Siðgæði
  • Mannréttindi
  • Valddreifing ábyrgð og gagnsæi
  • Lýðræði
  • Náttúra Íslands vernd og nýting
  • Réttlæti velferð og jöfnuður
  • Friður og alþjóðasamvinna
  • Land og þjóð

 

Myndbönd um siðgæði:


Hvaðan kemur öll þessi grimmd? (Myndband)

Ég hef verið að hugsa.

Síðustu árin hafa margir bloggtímar farið í að greina hið íslenska ástand. Á þessu bloggi, snemma árs 2008, grunaði mig að verið væri að stela úr bönkum innanfrá og að slík hegðun gæti ekki endað öðruvísi en með ósköpum. 

Það gerðist.

Svo hélt tíminn áfram að líða. 

Enn heldur ránið áfram þó að allar viðvörunarbjöllur séu löngu farnar í gang, löggan mætt á svæðið, jafnvel búið að rýma bankana og hugsanlega selja þá aftur í hendur þeirra sem rændu þeim upphaflega. Það getur enginn vitað vegna bankaleyndar.

Í síðustu færslu rökstuddi ég að samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu á kommúnisma, þá er Ísland kommúnistaríki í dag. Sagan hefur sýnt okkur að kommúnismi er ekki vænlegur kostur til lengri tíma, því að manneskjur finna öryggi í eignum. Til dæmis húseignum. En kommúnismi reynir að svipta fólk slíkum eignum. Ekki á einum degi, heldur yfir lengri tíma. Það er ekki þægilegt ástand, enda brýtur það gegn þeirri grunnþörf manneskjunnar, að þurfa að eiga sér samastað, að eiga sér heimili.

Við skilgreinum okkur að vissu marki út frá eigum okkar. Séu þessar eigur minningar, metum við þær mikils. Allt sem tengir okkur við minningar okkar er okkur dýrmætt, því að í námunda við ákveðnar eigur vakna minningarnar aftur til lífsins, og við líka. Það er ómannúðlegt að svipta manneskju minningum sínum. Það er ómannúðlegt að svipta fjölskyldu heimili sínu. Sama hver stökkbreytt skuldin er í peningum talin, þá getur hún aldrei verið hærri en virðingin sem okkur er skylt að bera fyrir heiðarlegum manneskjum og heimilum þeirra.

Samt er manneskjan svo skrítin. Fólk getur verið grimmt við náunga sinn. Sérstaklega ef þeim er sagt að sýna grimmd af einhverjum sem hefur völd. Valdboðið er magnað fyrirbæri. Ef Steingrímur J. Sigfússon eða Jóhanna Sigurðardóttir, valdamestu manneskjur Íslands í dag, skipuðu almenningi að vera grimm og vond við annað fólk, þá má gera ráð fyrir að um 65% myndi hlíða skipuninni, sama hversu hryllilegar afleiðingar hún gæti haft fyrir hinn aðilann. 

Þú trúir mér kannski ekki? Hugsaðu um fólkið sem er að berjast gegn stökkbreyttum skuldum. Hugsaðu um fólkið sem hefur neyðst til að yfirgefa land sitt. Hugsaðu um fjölskyldurnar sem hafa sundrast. Og væri þér skipað að sína þessu fólki grimmd og miskunnarleysi, myndir þú gera það?

Þú hristir kannski höfuðið og segir jafnvel "aldrei nokkurn tíma í lífinu", en hin kalda staðreynd er sú að hægt er að fá meirihluta fólks til að gera óhugnanlega hluti.

Tilraun var gerð á 6. áratug 20. aldar, kennd við Milgram, þar sem ósköp venjulegri manneskju var gert að spyrja óséðan aðila í klefa spurninga. Ef svörin voru röng, gaf spyrjandinn svaranda raflost. Svarandinn sýndi skýr viðbrögð um sársauka á móti, sífellt af meiri þjáningu eftir því sem hann svaraði fleiri spurningum vitlaust, því styrkur rafstuðsins var sífellt aukinn milli spurninga, af spyrjandanum.

Ef spyrjandinn fékk bakþanka, þá var honum skipað að halda áfram. Spyrjandinn vissi ekki að sá sem sat fyrir svörum var leikari sem fékk í raun ekki raflost, heldur þóttist fá það. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að um 65% þátttakenda héldu áfram að kvelja manneskjuna með spurningum og raflosti sem gat dregið hina óséðu manneskju til dauða. Aðeins vegna þess að henni var sagt að gera þetta.

Mig grunar að þetta skýri af hverju fólk við heldur áfram að kvelja samlanda sína án þess að skilja afleiðingar gjörða sinna.

  1. Erum við svoleiðis í dag?
  2. Ert þú þannig mannvera?
  3. Hvernig getur þú vitað hvað þú myndir gera?
  4. Hvernig getur þú vitað hvað þú ert að gera öðrum með því að lifa lífinu eins og þú gerir í dag?
  5. Ef þú vissir að líferni þitt skaðaði annað fólk, myndirðu hætta því?
  6. Ef einhver segði þér að hafa ekki áhyggjur af þessu, myndirðu ekki frekar hlusta á þann sem segir þér ekki að hafa áhyggjur, heldur en þessa skjálfandi rödd sem við köllum samvisku?
  7. Hvernig liði þér ef þú værir sviptur lifibrauði þínu og heimili, og sæir þau viðbrögð meirihluta almennings að þetta sé bara allt í lagi á meðan þau sjálf eru örugg?






Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband