Færsluflokkur: Bloggar
Hvernig er fjármagn að færast frá lánum yfir á fjármagnseigendur?
23.3.2023 | 07:41
Þetta er eitt dæmi úr veruleikanum. Þau eru örugglega fleiri.
16. mars 2023 greiddi Íslandsbanki eigendum sínum 12,3 milljarða í arð. Sjá frétt.
Á sama tíma hafa mánaðarlegar greiðslur af húsnæðislánum hækkað um rúmar 100.000 af 30 milljón króna lánum og 200.000 af 60 milljón króna lánum. Þessar útborganir virðast fara beint í arðgreiðslurnar. Athugið að nú munu þessar tölur hækka enn meira þar sem stýrivextir eru komnir upp í 7.5% á Íslandi, og verðbólgan mælist yfir 10%.
Samt eru sumir að græða á ástandinu þó að langflestir séu að tapa miklu.
Af hverju fær þetta að viðgangast?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Er stéttaskipting á Íslandi?
18.3.2023 | 08:59
Í gær átti ég mjög góða samræðu við íslenskan framkvæmdastjóra og fjárfesti, en okkur greindi á um eitt atriði, það var svarið við spurningunni hvort stéttaskipting væri á Íslandi. Ég taldi augljóst að svo væri, og ekki bara það, að hún væri að nálgast hættumörk. En svarið var meira byggt á tilfinningu en skýrum rökum, og í dag hef ég ákveðið að velta þessu aðeins fyrir mér og skoða hvort eitthvað sé hæft í þessari tilfinningu minni.
Það voru þrenn rök sem ég hafði í huga þegar við ræddum saman. Ein rökin voru þau að þeir sem hafa auðinn á sínum höndum, og þá sem dæmi sægreifar og erfingjar þeirra, hafa skapað stétt sem ekki allir hafa aðgang að.
Annað sem ég hafði ég huga er að Hjálpræðisherinn og Samkaup bjóða fólki í neyð upp á mat hvern einasta virka dag, þar sem öllum þeim sem þurfa á að halda er boðið að borða í hádeginu, án þess að gert sé upp á milli þeirra sem koma, og þeim einnig gefinn einhver matur til að fara með heim. Samkvæmt heimasíðu Hjálpræðishersins mæta um 180 einstaklingar í mat hjá þeim daglega. Um daginn heyrði ég af fólki tengdu starfinu að fjöldinn hafi tvöfaldast síðustu vikur.
Það þriðja sem ég hafði í huga er hvernig verðbólgan og skortur á raunverulegri baráttu gegn henni er að ýta undir misskiptingu lífsgæða.
Viðmælanda mínum fannst líklegra að mikið væri um nepótisma á Íslandi eða frændhygli, þar sem fyrirtæki og stofnanir eru líklegri til að bjóða fjölskyldumeðlimum eða vinum störf, heldur en ókunnugum eða fólki úr verri fjölskyldum samfélagsins, fólki sem er þekkt fyrir að nenna ekki að leggja á sig vinnu og er ekki treystandi. Ég get auðvitað samþykkt að svo sé, en grunar að vandinn sé dýpri.
Stéttaskiptingu má skilgreina sem togstreitu um takmörkuð verðmæti í samfélagi, þegar einn hópur hefur aðgang að þessum verðmætum en annar ekki.
Þekktar eru sögur úr mannkynssögunni þegar slík togstreita endar í borgarastríði og byltingu. Franska byltingin kemur upp í hugann sem dæmi um slíkt og þegar drottning Frakklands Marie-Antoinette sagði þegar henni var tjáð að þeir verst stæðu hefðu ekkert að borða: Látum þau borða köku. Lítill fjöldi auðmanna hefur margoft þurft að verja sig gegn fjöldanum sem ekki sættir sig við ríkjandi ástand.
Aristóteles lýsir í fjórðu bók sinni um stjórnmál stéttaskiptingu þannig: Vegna þess að hinir auðugu eru yfirleitt fáir, en hinir fátæku margir, líta þeir út eins og illmennin í sögunni, og þegar einn eða annar hópurinn stendur uppi sem sigurvegari, er það sú stétt sem myndar ríkisstjórn. Í bók tvö um stjórnmál segir hann að fátækt sé foreldri byltinga og lýsir síðar í þeirri bók að aðallinn verði ósáttur við tilvistina vegna þess að þeir telji sig verðmætari þegna samfélagsins og þar af leiðandi eiga meiri heiður skilinn; og þetta sé það sem oft veldur uppreisn og byltingu. Hann lýsti þarna viðkvæmu siðferðilegu og samfélagslegu jafnvægi sem þarf að viðhalda, en hann telur það rangt fyrir hina fátæku að taka auðinn af hinum ríku og skipta honum upp á milli sín, eins og er aðferð kommúnismans, og einnig að rangt væri af hinum auðugu að gera almúgann fátækan. (Mín þýðing)
Ég held einmitt að hið síðarnefnda sé að gerast núna á Íslandi, að hinir auðugu og valdhafar í samfélaginu séu að valda aukinni fátækt. Alls ekki hver einasta slík manneskja, heldur stéttin sem slík. Það lýsir sér í viðbrögðum við hárri verðbólgu, að í stað þess að spyrna við henni er aukið við hana, og þar að auki eru stýrivextir misnotaðir gegn þeim sem minna mega sín. Bankar græða meira en nokkurn tíma áður á meðan heimilin blæða. Hver maður hlýtur að sjá hvert þetta stefnir.
Við sáum merki um stéttarbaráttu í verkföllum Eflingar um daginn. Mig grunar að ástandið muni versna enn frekar, vegna áhuga- og aðgerðaleysis stjórnvalda og þeirra sem meira mega sín, að við séum að nálgast þau mörk að fjöldinn geri uppreisn gegn hinum fáu auðugu; og þá verði hinir auðugu dæmdir af almúganum sem hin verstu illmenni, sem að sjálfsögðu verður ósanngjarn dómur, en gæti orðið að þeim ríkjandi dómi sem stýrir samfélaginu næstu árin, ef núverandi valdhafar átta sig ekki á veruleikanum.
Ég ákvað að biðja Open AI að hjálpa mér að svara spurningunni sem ég bar upp í fyrirsögninni, Er stéttaskipting á Íslandi? og bætti við Rökstyddu svarið með tölum frá Hagstofunni, og svarið sem ég fékk á innan við sekúndu var þannig:
Já, á Íslandi er stéttaskipting. Hagstofan birti upplýsingar um stéttaskiptingu í janúar 2021 og sýndi síðan niðurstöðuna:
- Yfirstétt (stjórnendur, fagaðilar og hátt menntað starfsfólk): 15,8% af öllum launaða starfsmönnum
- Millistétt (meðalmenntað og einfalt starfsfólk): 76,7% af öllum launaða starfsmönnum
- Lágstétt (ókyrrðar- og einföld starfsfólk): 7,5% af öllum launaða starfsmönnum
Vel svarað af gervigreindinni og erfitt að þræta fyrir þetta!
Það sem mig grunar að gerist með verðbólgunni og stýringu vaxta eins og verið er að gera í dag er að millistéttin er að minnka hraðar en mælingar sýna og sé að flytjast yfir á lágstéttina. Skellurinn kemur að sjálfu sér ekki fyrr en fastir vextir losna og fólk sér fram á að eiga ekki lengur fyrir skuldum. Það er hin fræga snjóhengja sem í augnablikinu hangir yfir bæði millistétt og lágstétt, en yfirstéttin virðist ekki sjá hana, enda á fullu að að hámarka gróðann.
Ég spurði Open AI annarrar spurningar: Er hættuleg stéttaskipting á Íslandi í dag? og fékk afar flott svar sem ég læt fylgja með, en lagfæri samt einhverja stafsetningu:
Í almennum dráttum er ekki hægt að fullyrða hvort stéttaskiptingin á Íslandi í dag sé hættuleg eða ekki, þar sem það er rökstudd ályktun sem fer eftir mismunandi sjónarhornum og skilgreiningum á hvað stéttaskipting er. Hins vegar eru til ákveðnar hættur sem geta fylgt með mikilli og ójafnri stéttaskiptingu, svo sem hækkandi fjöldi fátækra, vaxandi mismunur á tekjum og auðlindum milli stéttanna, minna jafnrétti og félagsleg samheldni, auk þess sem þetta getur haft neikvæð áhrif á heilsu og velferð fólks í lægri stéttum. Íslenska samfélagið vill vera þekkt fyrir að vera bæði gagnsætt og jafnt, og jafnrétti, félagsleg samheldni og velferð fólks eru mikilvæg gildi í íslensku samfélagi. Því er mikilvægt að reyna að minnka mismun milli stétta, örva jafnrétti og félagslega samheldni. Þetta er áskorun sem er stöðugt á dagskrá íslenska samfélagsins og kröfur eru gerðar til stjórnmálanna og atvinnulífsins að takast á við þessar áskoranir og vinna að velferð og jafnrétti allra þegna samfélagsins.
Ég er í sjálfu sér algjörlega sammála þessu svari og finnst það skynsamlegt, en það sem vekur áhyggjur mínar er að mér sýnist sífellt halla meira á gagnsæi og jafnrétti.
Vísbending um skort á gagnsæi er málið um Lindarhvol, þar sem alþingismönnum er beinlínis bannað að leggja fram fyrirspurnir um málið á Alþingi. Ég hef aldrei heyrt annað eins! Samkvæmt grein 48. stjórnarskrárinnar eru alþingismenn eingöngu bundnir við sannfæringu sína. Samkvæmt þessu er þeim frjálst að spyrja um hvað sem er á þingi, það að Alþingi kjósi sér forseta sem stýrir störfum þess er í 52. grein, sem þýðir að 48. grein ræður, því eftir því sem að grein stjórnarskrárinnar er hærri í listanum, hefur hún meiri völd en þær síðari. Þannig má enginn banna fyrirspurnir um nokkuð mál í þingsal og hið eina rétta af þingmönnum sem hafa fengið slíkt bann er að spyrja samt um málið.
Hugsanlega er ástæðan sú að stjórnvöld standa í málarekstri við einkaaðila og því geta þessar upplýsingar verið viðkvæmar, en fjandinn hafi það, varla svo viðkvæmar að þingmenn og almenningur fái ekki að heyra þær? Einnig var ferlið þar sem hluti af Íslandsbanka var seldur með vafasömum + hætti vísbending um að gagnsæi sé ekki lengur til staðar meðal íslenskra stjórnvalda, og nú hefur almenningur sífellt sterkari tilfinningu fyrir að verið sé að fela eitthvað og ljúga, sem getur varla verið gott fyrir samfélagið og traust innan þess til lengri tíma.
Hin vísbendingin er um jafnréttið og auðinn. En það er útlit fyrir að það sé farið að fjölga í lágstéttum og þeir sem fara með völd virðast ekki sjá neitt að í samfélaginu, þó að einhverjar raddir í minnihlutanum, þá sérstaklega Þorgerður Katrín, hafi orðið var við þennan halla og sífellt spurt, án þess að fá nein vitræn svör. Þorgerður hefur verið í stöðu þeirra sem stjórnuðu og hunsuðu varnaðarmerkin rétt fyrir Hrun, en hún virðist hafa lært mikið af reynslunni og gerir nú sitt besta til að vekja athygli á því að ekki er allt í allrabesta lagi í samfélaginu, að hættumerkin séu til staðar, að það þurfi að bregðast við. En svo virðist samt vera að vegna þess að hún er í minnihluta á þingi að meirihlutinn hafi ákveðið að hlusta ekki á hana og svara fyrirspurnum hennar með innihaldslausu rausi. Sem þýðir aðeins eitt, fleiri þurfa að spyrja þessara spurninga. Það skiptir ekki máli í hvaða flokki það fólk er, það sem skiptir máli er að við sjáum vísbendingar um hvað er að gerast og bregðumst við þeim.
Það þarf að berjast gegn verðbólgunni án þess að minnka hóp millistéttarinnar og stækka hóp þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu. Reyndar væri réttast að útrýma fátækt eins og sjálfbærnimarkmið segja til um lögum samkvæmt.
Það er tími til að bregðast við. Sá tími er núna. En núna er fljótt að líða hjá og verða að því sem var. Ekki verða að fórnarlambi eigin mistaka og aðgerðarleysis. Horfum í staðreyndirnar, sjáum hvað er að gerast og bregðumst við áður en snjóhengjan fellur og snjóflóð ríður yfir borg og byggð. Það viljum við ekki.
En já, ef þú misstir af því í þessari langloku, þá er svarið já, það er stéttaskipting á Íslandi og merki um að hún sé að þróast í hættulega átt.
Mynd: DALL-E 2
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvernig fáum við valdhafa til að berjast gegn verðbólguvánni?
17.3.2023 | 07:14
Það eru furðulegir dagar á Íslandi í dag. Verbólga er yfir 10%, sem þýðir að manneskja sem hefur fengið 1000 kall að láni þarf að borga rúmar 1100 til baka líði ár, sem þýðir að ef hún hefur 10 milljónir að láni verður lánið orðið að meiru en 11 milljónum eftir eitt ár.
Talað er um að þetta sé ástand sem varð bara til vegna aðstæðna úti í heimi og í tengslum við Covid-19; en svo sést að þeir sem geta spyrnt við fótum virðast ekki hafa agann til þess, heldur þvert á móti kasta eld á verðbólgubálið.
Vissulega hækkaði eldsneytið mikið þegar stríðið í Úkraínu hófst, og ljóst er að það er meginforsendan fyrir gríðarlegri verðbólgu. Á Íslandi er eldsneytið dýrt, mun dýrara í flestum öðrum löndum heims, og á síðasta ári hefur það hækkað gríðarlega. Hækkunin hefur orðið til þess að kostnaður við að flytja inn aðföng hefur aukist og að verslanir hafa séð sig knúnar til að hækka vöruverð sitt, sem hefur orðið til þess að íslenskir viðskiptavinir, rétt eins og fyrirtækin, leita út fyrir landsteinana með vörukaup sín. Því af hverju ætti almenningur ekki líka að bregðast við þessum verðhækkunum?
Fyrirtæki og heimili sem skulda 1 milljón horfa fram á að eftir ár verði skuldin orðin að 1.1 milljón. Þetta þýðir að ef skuldin er 100 milljónir í ár, verður hún rúmar 110 milljónir að ári, það er að segja sé skuldin verðtryggð. Það er ennþá aðeins hagstæðara að vera með óverðtryggð lán, en 100 milljóna skuld af óverðtryggðu með bestu hugsanlegu kjörum verður að 108 milljóna skuld eftir ár. Hvert einasta hálfa prósent í stýrivaxtahækkunum virkar nefnilega ekki eins og í fyrri verðbólgum, því það er ekki verið að ráðast á orsök vandans, heldur er fólk sem skuldar að upplifa sig í greiðslugildru sem erfitt er að losa sig úr.
Það er hægt að tala um lausnir sem munu eiga sér stað á næstu árum, en ef þú ert við völd í dag og sérð að fólkið er í vanda, ekki bara þeir verst stöddu, heldur allir sem hafa tekið lán, þá þarftu að taka á vandanum strax í dag, ekki á morgun. Það þýðir ekki að setja fætur upp á borð, klóra sér í hausnum og vonast til að þessir hlutir reddist, heldur verðum við öll að gera okkar besta til að taka á þessum vanda. Málið er að vandamálin sem við sjáum ekki og gerum ekkert við eiga það til að vaxa og verða verri, og að því kemur að þeir sem hafa völdin til að gera eitthvað standa fyrir slíkum vanda að þeir geta ekkert lengur gert.
Það sem þyrfti að gera strax í dag er að minnka skatta og gjöld tímabundið, gera eins og Norðmenn sem þó eru þekktir að hafa gríðarlega mikla skatta á þegnum sínum, gefa eftir skatta á veggjöld tímabundið og hafa þak á húsaleiguhækkunum.
Það mætti jafnvel taka til baka alla þá skatta og öll þau gjöld sem lögð voru á síðustu áramót. Það væri frekar sársaukalaus aðgerð. Það kæmi minna í ríkiskassann og stofnanir þyrftu sjálfsagt að herða beltisólarnar, en það er nákvæmlega það sem seðlabankastjóri hefur beðið um að verði gert, að við vinnum öll saman í þessu. Ekki taka þetta sem gagnrýni á núverandi stjórnarhætti, heldur vinsamlegar hugmyndir um hvað hægt er að gera áður en það verður of seint. Og fljótlega verður það of seint.
Það er erfitt að skilja hvers vegna ríkisstjórnin sýnir áhugaleysi gagnvart þessum málum og aðeins örfáar raddir í stjórnarandstöðu tali um þetta, sem skiljanlega reyna stöðugt að vekja athygli á þessu vandamáli. Kannski er það ekki til að vinna sér inn pólitíska punkta, kannski er vandinn raunverulegur og þau vilja að fólk sem geti spyrnt við opni augun.
Þegar við sjáum snjóhengju stækka yfir bæ og byggð, þá hljótum við að velta fyrir okkur hvort við ættum ekki að bæta í snjóflóðavarnirnar eða jafnvel rýma byggð þar til snjóhengjan hefur bráðnað eða fallið. Ef ekkert verður gert geta hörmungar átt sér stað. Við getum skipulagt okkur áður en miskunnarlaus náttúran tekur völdin. Miskunnin er nefnilega á okkar valdi.
Verðbólgan er ekki af náttúrunnar hendi, hún er mannanna verk, en hún er lík þessari snjóhengju sem virðist hanga þarna efst í fjallinu. Bæjarstjórinn gæti yppt öxlum og sagt að hún sé alltof langt í burtu, að ekkert slæmt hafi gerst í 30 ár, þetta reddist. Þegar snjóflóðið loksins skellur á og hrífur með sér hús og líf þeirra sem í þeim búa sjáum við að eitthvað hefur gerst sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir, segja sumir, en þeir sem sinntu ekki eigin ábyrgð segja sjálfsagt fölir í sjónvarpsviðtali: það var ekki hægt að sjá þetta fyrir.
Þannig er með verðbólguna og áhrif hennar. Núna er tíminn til að gera eitthvað í málunum. Seðlabankastjóri hefur sent út skilaboðin, það er bara eins og enginn hlusti á hann. Hann virkar svolítið eins og lögreglustjórinn í "Jaws" sem varar bæjarstjórnina við, segir þeim að loka bænum vegna hákarlahættu, en ekkert er gert fyrr en harmleikur hefur átt sér stað, og jafnvel þá er ekki nóg aðhafst.
En tækifærið er núna. Það má lækka skatta og fyrir þá sem telja gjöld ekki vera skatta, þá má lækka gjöldin líka. Þessar lækkanir mega vera tímabundnar og geta þýtt að minni peningur streymir sjálfkrafa inn í ríkissjóð.
Því það sem gerist í augnablikinu með stýrivaxtahækkunum er að fólk sem er að greiða af húsnæðislánum á óverðtryggðum lánum þarf að borga mun hærri upphæðir en það ræður við. Það vilja allir standa við skuldbindingar sínar, en það sem gerist í raun með stýrivaxtahækkunum er að bankarnir velta allri ábyrgð yfir á þá sem hafa tekið lánin, fá miklu meira í eigin vasa og borga út miklu meiri arð. Það er örugglega ekki það sem seðlabankastjóri hafði í huga með auknum stýrivöxtum, en það er það sem er að gerast. Þeir eru ekki að breyta hegðun þeirra sem þurfa að breyta hegðun sinni, heldur eru þeir að kúga þá sem geta síst varið sig.
Ég vil skora á þá sem sjá þennan augljósa sannleik að tala þessu máli, vekja athygli á því, og ef þetta er nógu vel skrifað og skýrt, endilega deila. Fáum vini okkar með til að gera þetta frábæra samfélag sem við lifum í ennþá betra, þetta samfélag nýsköpunar, með dugnaðarfólki sem stöðugt gerir heiminn betri með eigin verkum, fáum þá sem stjórna landinu til að skilja hvað er að gerast. Og ef þau skilja það, fá þau til að sýna málinu áhuga og gera það sem þarf að gera, ekki á morgun, ekki í fyrradag, heldur í dag. Lifa í núinu sko.
Tíminn líður. Klukkan slær. Við getum ekki stoppað það. En við getum bætt aðstöðu okkar með sameiginlegu átaki. Það getur kostað einhver átök, en við þurfum að passa upp á hvert annað.
Mynd: DALL-E 2
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hvernig stöðvum við verbólguna?
16.3.2023 | 08:06
Eftir örstutta rannsókn með Open AI - Chat, sem stakk upp á að tvennt væri hægt að gera til að berjast við verðbólgu, annars vegar væri það að hækka stýrivexti, nokkuð sem Seðlabanki Íslands hefur nú gert 11 sinnum án þess að það sýni mikinn árangur. Hin leiðin sem gervigreindin stakk upp á varr að hámarka verð á vörum, það er setja neyðarlög þar sem til dæmis væri tímabundið bannað að hækka leiguverð, bankavexti, matreiðsluvörur, húsnæði, eða alls konar vörur og þjónustu sem eru of dýrar, þar til verðbólgumarkmiðinu hefur verið náð. Það er ekki góð leið.
Hvaða afleiðingar hefði það að banna hækkun á vöruverði almennt? Gervigreindin var spurð, og hennar svar að það myndi sjálfsagt skaða einhver fyrirtæki og minnka framboð á þeim vörum sem til staðar eru. En málið er að ef megin grundvöllurinn á bakvið verðbólguna er vöruskortur, þýðir það ekki að átak þurfi í að gera að framleiða þær vörur sem vantar? Ef það kostar svona mikið að flytja vörurnar inn til landsins, þyrftu landsmenn þá ekki að keppast um við að skapa fyrirtæki sem bjóða fram þessar vörur? Væri þetta tækifæri til að styðja nýsköpun enn frekar?
Af hverju ætti það ekki að vera mögulegt? Þyrftum við að greina hvaða erlendu vörur það eru sem hækka svona mikið vöruverðið hjá okkur? Við vitum að heimsmarkaðsverð á bensíni hefur hækkað mikið, en einnig álögur íslenskra stjórnvalda á þessari vörutegund.
Þýðir það að kannski væri réttasta leiðin að finna leiðir til að lækka gjöld og skatta á fólk tímabundið, kannski tímabundið?
Norðmenn stoppuðu vegaskatt í landi þeirra fyrir árið 2023 og hafa sett þak á húsnæðisleiguverð. Hollendingar hafa sett þak á húsnæðisleigu og lagt aukaskatt á þá sem eru að leigja út íbúðir sem þeir nota ekki sjálfir sem eigið heimili. Svo má lengi telja. Ríkisstjórnir víða um Evrópu hafa brugðist við ástandinu af skynsemi og festu, sem hefur dregið úr heimatilbúnni verðbólgu.
Íslenska ríkisstjórnin hefur hins vegar brugðist. Það er ljóst. Hún hækkaði meira að segja álögur um áramótin í stað þess að setja þær á salt eins og hvert mannsbarn sér að þurfti að gera. Samt getur hún ennþá bætt úr ráði sínu, verið okkar Herkúles í þessum bardaga við skrímslið verðbólguna sem á okkur herjar, en það lítur í augnablikinu út fyrir að þar skorti samstöðu og vilja. Kannski er það vegna þess að alþingismenn og ráðherrar finna ekki fyrir ógninni á sama hátt og venjulegt fólk? Kannski hafa allir sem sitja á hinu háa alþingi lokið við að greiða sín lán og skulda ekkert lengur, enda með laun sem gera þeim fært að safna í sarpinn. Hver veit?
Það er ljóst að miklar áskoranir eru til staðar og nú er þörf á að lyfta Grettistaki til að vernda þá sem þurfa vernd. Rangt væri að flokka þá sem þurfa vernd eftir einhverjum eiginleikum sem þeir hafa, aldri, kyni, þjóðerni, eða jafnvel aðstæðum, heldur þarf að finna raunhæfar leiðir til að skera á verðbólgu og stýrivexti, ekki eftir einhverja mánuði eða ár, heldur strax í dag, áður en afleiðingarnar og skaðinn verða að óafturkræfum skaða.
Við ættum að beita kröftum okkar gegn þeim ógnum sem að okkur steðja. Sama þó að sumir séu í vari, þá er það skylda okkar sem samfélag að vernda alla þegnana jafnt. Annað er brjálæði.
Mynd: DALL-E 2
Bloggar | Breytt 17.3.2023 kl. 06:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvað er það sem gerir hluti óþolandi?
18.2.2023 | 10:40
"Fyrir skynsama veru er einungis það sem gengur gegn náttúrunni óþolandi, á meðan það sem er viðeigandi getur hún þolað." - Epíktet
Ef það er eitthvað eitt sem mér finnst erfitt að þola, þá er það ranglæti, og þá sérstaklega þegar þeir sem verr standa þurfa að þola árásir frá þeim sem betur standa.
Dæmi um þar sem varúðarbjöllurnar hringja hjá mér:
Þegar stýrivextir hækka vegna verðbólgu eru það þeir sem verst standa sem taka á sig verstu höggin, án þess að eiga það skilið, því þeir sem verst standa er fólkið sem þarf að taka sér lán til að kaupa sér þak yfir höfuðið. Sumir taka sér bílalán en það er önnur saga. Á Íslandi er fólk ekki verið gegn barsmíðum auðjöfra og fyrirtækja sem miskunnarlaust eru í samkeppni við fólkið á götunni.
Dæmi eru til um fyrirtæki sem yfirbjóða íbúðir og húsnæði sem eru til sölu. Þá standa fjölskyldur frammi fyrir því að bjóða í sama hlut og þurfa að sjá í hverja einustu krónu, og þurfa að bjóða hærra en fyrirtækin sem ætla kannski að kaupa húsnæðið til þess að leigja það út, eða hámarka gróðann. Leigumarkaðurinn á Íslandi er síðan þannig að fyrirtækin sem leigja út sýna enga miskunn við að hækka leiguna það mikið að leigjendur (fjölskyldur eða einstaklingar) neyðast til að flytja út og finna sér nýtt heimili, sem getur þýtt miklar og alvarlegar breytingar í lífi þeirra. Þetta er dæmi um hlut sem er augljóslega gegn náttúrunni, gegn hinu eðlilega í mannlegum samfélögum.
Auðvitað á það ekki að vera barátta upp á líf og dauða að geta eignast húsnæði, sérstaklega á landi þar sem veður er það hart að maður lifir vart veturinn af án húsnæðis.
Þessi vandi hefur komið upp víða annars staðar í heiminum. Ég hef heyrt af að þak hafi verið sett á leiguverð í einhverjum löndum Evrópu og að fyrirtækjum hafi verið bannað að kaupa íbúðir gagngert til þess að setja þær á leigumarkað. Þetta eru aðgerðir sem hafa verið kenndar við Lúxemborg og Holland, en ég þekki lögin í þeim löndum ekki af dýpt, þó að hugmyndirnar að baki þeim séu skýrar og virðast til þess gerðar að vernda samfélagið.
Málið er að hinn frjálsi markaður, þegar hann verður of frjáls, þá verður hann stundum að ósýnilegu og miskunnarlausu afli sem tekur virkan þátt í eyðileggingu alls þess sem fólk sem verður fyrir því hefur byggt um ævina. Sérstaklega ef það stendur veikt fyrir, þá verður offorsið oft frá slíku afli það hræðilegt að manneskjur bugast, þær brotna niður og verða aðeins að skuggamynd af þeirri manneskju sem þær hefðu getað orðið. Fjárhagslegt óveður getur unnið mikinn skaða rétt eins og náttúrulegt óveður, en fjárhagslegt óveður er samt ekki eitthvað sem kemur frá náttúrunnar hendi, heldur úr samfélagi manna - og er því hægt að afstýra.
Ef mér er refsað fyrir að hafa brotið af mér, gert eitthvað á annarra hlut, brotið lögin, unnið gegn því sem er náttúrulegt, þá finnst mér slík refsing þolanleg, því hún er að breyta ranglæti í réttlæti. En ef mér er refsað fyrir að hafa ekki eignast jafn mikinn pening og einhver annar, fyrir að hafa farið í störf sem fá meðallaun eða lág laun fyrir vel unnið starf frekar en ofurlaun, þá er það óþolandi. Því þarna fær ranglætið að vinna áfram gegn fólki. En þetta gerist, og það er óþolandi.
Það má færa rök fyrir því að þeir sem eiga mest séu þeir sem hafa valdið mestri verðbólgu, og það er fólkið sem hefur ekki þörf á lánum og getur svo sannarlega verið eyðsluklær án þess að finna fyrir því. En verðbólgan kemur samt mest niður á þeim sem hafa lán og eiga jafnvel í vandræðum með að greiða þau.Ef fólkið á pening í krónum, þá hverfur hann frekar hratt, en ef það á erlendan gjaldeyri, þá safnast í sjóði þeirra.
Það virðist ráðist á það fólk sem minnstu úrræðin hefur úr öllum áttum, því þeir sem hafa verðtryggð lán þurfa að horfa upp á þau hækka um 10% á ári sökum verðbólgunnar, en hinir sem hafa óverðtryggð lán þurfa að horfa upp á þau hækka um 8% á ári. Afleiðingin er að þeir sem eiga mikið fá minna, og þeir sem eiga minna tapa öllu. Sú tilhugsun veldur mér óþægindum, enda segir mín réttlætistilfinning að þetta sé ranglátt.
Enn verra er þegar hinir ranglátu hafa dómstóla, lög og reglur með sér; eitthvað sem er upphaflega búið til sem tæki til að binda siðferðið í orð, til að skikka ólátabelgina til að haga sér almennilega. En þegar ólátabelgirnir eru farnir að setja lögin er voðinn vís. Þegar þeir eru búnir að hnýta þannig um hnútana að þeir sem beittir eru ranglæti geti hvergi leitað sér skjóls, gætt þess að hlutirnir séu gerðir löglega og með fyrirvörum, að það verði löglegt að lúberja fólk með fjárhagslegu ofbeldi, svo framarlega sem að fólk skrifar undir samning þess eðlis, þá er samfélagið allt í djúpum siðferðilegum vanda, því lögin eru ekki í samhljómi með því sem við finnum að er réttlátt. Það sem stríðir gegn réttlætiskennd okkar hlýtur að vera ranglátt í sjálfu sér.
Við hverja tilkynningu frá Seðlabanka Íslands um að stýrivextir verði hækkaðir, þýðir það að vextir á húsnæðislánum rjúka upp, og þegar vextir eru orðnir það háir að fólk ræður ekki lengur við afborganir, þegar það sér að boginn er það hátt spenntur að það ræður ekki við meira, þá er líklegt að það gefist upp á því að þræla til eilífðarnóns. Það hljómar kannski ekki sem há upphæð ef þú hefur engin lán að heyra hækkun um 0.5% á stýrivöxtum, en þetta getur samt þýtt tugi þúsunda á mánuði. Nú er líklegt að vextir á langtímalánum bankanna hækki upp í minnst 8% í næstu viku, sem þýðir að ef þú hefur fengið óverðtryggt lán á breytilegum vöxtum að það breytist þannig. Nú erum við að tala um 8% á ársgrundvelli, sem byrjar strax að telja, og þú byrjar að borga af því mánaðarlega.
Sjálfsagt áttar venjulegt fólk sig ekki á hvað þetta þýðir, og þá meina ég fólk sem er ekki með háskólagráðu í fjármálaútreikningum, en fjármálaspekingar þekkja vel hvað gerist með vaxtavexti, eitthvað sem lítur mjög sakleysislega út í fyrstu, en reynist svo valda gríðarlegum ójöfnuði. Indverski fjárfestirinn Mohnish Pabrai hefur vitnað í Albert Einstein (líklega ranglega) sem átti að hafa sagt: Vaxtavextir eru áttunda undur veraldar. Sá sem skilur þá, eignast þá; sá sem skilur þá ekki, borgar þá. Þó að Einstein hafi kannski ekki sagt þetta, þá er sannleikskorn í þessu.
Nú langar mig að setja upp reiknidæmi sem er innblásið af sögu sem Pabrai sagði í þessu myndbandi. Segjum að afborganir hafa verið frystar, að ekkert sé greitt upp í lán mánaðarlega, þá sjáum við hvernig upphæðin hækkar.
Tökum óverðtryggð lán upp á kr. 1000 (þúsundkall) sem fyrsta dæmið, síðan mun ég hækka dæmin og reyna að tengja þau við eitthvað í veruleika okkar, en hér geng ég út frá 8% vöxtum á ári, sem þýðir að heildarupphæðin fyrir verðtryggðu lánin er miklu hærri.
- Eftir eitt ár hefur kr. 1000 hækkað upp í kr. 1080
- Eftir fimm ár hefur kr. 1000 hækkað upp í kr. 1469
- Eftir tíu ár hefur kr. 1000 hækkað upp í kr. 2159
- Eftir tuttugu ár hefur kr. 1000 hækkað upp í kr. 4.661
- Eftir þrjátíu ár hefur kr. 1000 hækkað upp í kr. 10.063
Þetta virðist ekkert svo svakalegt, en hækkum nú upphæðina upp í 10 milljónir, en það er raunhæft fyrir einhvern sem hefur tekið bílalán til að kaupa eitthvað eins og Teslu eða nýlegan og flottan bíl.
- Eftir eitt ár hefur kr. 10.000.000 hækkað upp í kr. 10.800.000
- Eftir fimm ár hefur kr. 10.000.000 hækkað upp í kr. 14.690.000
- Eftir tíu ár hefur kr. 10.000.000 hækkað upp í kr. 21.590.000
- Eftir tuttugu ár hefur kr. 10.000.000 hækkað upp í kr. 44.661.000
- Eftir þrjátíu ár hefur kr. 10.000.000 hækkað upp í kr. 100.063.000
Tökum 30 milljónir sem dæmi:
- Eftir eitt ár hefur kr. 30.000.000 hækkað upp í kr. 32.400.000
- Eftir fimm ár hefur kr. 30.000.000 hækkað upp í kr. 44.079.842
- Eftir tíu ár hefur kr. 30.000.000 hækkað upp í kr. 64.767.750
- Eftir tuttugu ár hefur kr. 30.000.000 hækkað upp í kr. 139.828.714
- Eftir þrjátíu ár hefur kr. 30.000.000 hækkað upp í kr. 301.879.707
Tökum að lokum 50 milljónir sem dæmi, því það er alls ekki fjarstæðukennt að fólk sem hefur keypt sína fyrstu íbúð eða hús á um 60 milljónir, og tekið kannski um 50 milljóna kr. lán fyrir því.
- Eftir eitt ár hefur kr. 50.000.000 hækkað upp í kr. 54.000.000
- Eftir fimm ár hefur kr. 50.000.000 hækkað upp í kr. 73.466.404
- Eftir tíu ár hefur kr. 50.000.000 hækkað upp í kr. 107.946.250
- Eftir tuttugu ár hefur kr. 50.000.000 hækkað upp í kr. 233.047.857
- Eftir þrjátíu ár hefur kr. 50.000.000 hækkað upp í kr. 503.132.844
Þetta er það sem verkalýðsleiðtogar meina þegar þeir segja að auðmenn séu að sópa til sín peningum láglauna- og millistéttar. Ef þú skilur ekki þessar tölur, þá áttarðu þig kannski ekki á því sem er að gerast, en ef þú skilur þær, þá sérðu að það er holskefla ranglætis að sópast yfir þá sem eru verr staddir í samfélaginu, og hlýtur að sjá að þetta fólk þarf að verja, og þá ekki með því að lágmarka tjónið, heldur stoppa það og refsa á viðeigandi hátt þeim sem eru að hagnast á þessum óviðeigandi leikreglum.
Þetta þykir kannski eðlilegt í íslensku samfélagi, en það er alls ekki náttúrulegt, og nokkuð sem líðst hvergi meðal siðmenntaðra þjóða, þjóða sem berjast fyrir því að sérhver þjóðfélagsþegn sé varinn ofbeldi af hvaða tagi sem er.
Því er það í raun ekki forsenda þess að við sköpum samfélag? Að við söfnum okkur saman til að verjast veðri og vindum, og óvinum okkar sem koma utan frá? Ef við þurfum líka að verjast óvinum sem koma innan úr samfélaginu, og sem eru varðir af efsta lagi þess, þá hljótum við að vera í vondum málum.
Til gamans má geta til að sýna hvað vaxtavextir eru magnað hugtak, að ef þú ert sæmilega góður skákmaður og býður andstæðingi upp á 64 skákir, og fyrir fyrstu skákina sem þú vinnur færðu eina krónu, en eftir hverja skák eftir það færðu að tvöfalda upphæðina. Ef þú vinnur allar skákirnar, veistu hvað þú færð mikið í vasann? Ef þú reynir að reikna þetta í huganum þá getur þú týnt tölunni frekar fljótt, en ef maður setur þetta upp í formúlu, verður krónutalan þannig (samkvæmt Pabrai):
- 18.446.744.073.709.551.615,-
Þessi lokatala er ansi há, svo fáránlega há að erfitt getur verið að láta sér detta þetta í hug. En málið er að svona eru vextir og vaxtavextir settir upp sem grundvöllur lána víða um heim, en munurinn er sá að verðbólga er reiknuð öðruvísi á Íslandi en annars staðar, Seðlabankinn bregst við öðruvísi á Íslandi en annars staðar og leikreglurnar virðast ekki vera jafnar.
Af hverju það hringir ekki í viðvörunarbjöllum hjá stjórnvöldum er ofar mínum skilningi.
Mynd eftir Steve Buissinne frá Pixabay
Myndband: Compounding is the 8th wonder of the world eftir Mohnish Pabrai
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þegar árásir sigra skynsemina
13.2.2023 | 22:11
Ad hominem árás gegn einstaklingi, ekki gegn hugmynd, er mikið hrós. Það þýðir að manneskjan hefur ekkert gáfulegt fram að færa um skilaboð þín." - Nassim Nicholas Taleb, Svarti svanurinn, 2007.
Ein þekktasta rökvilla rökfræðinnar er kölluð "Ad-Hominem", en í stuttu máli merkir hún að þegar rökræður eiga sér stað þá reynir gjarnan annar aðilinn að brjóta gegn lögmálum rökfræðinnar og fara frekar í manninn en boltann, svo fótboltamál sé notað.
Þetta afbrigði mælskulistarinnar á sér stað þegar mælandi reynir að varpa skugga á manngerð, vilja eða eitthvað í fari viðmælanda frekar en að taka á málefninu sjálfu.
Það er mjög óþægilegt að verða fyrir slíkum árásum, sérstaklega ef viðmælandinn hefur ekkert til að verja sig annað en röksemdir og góðan vilja. Hann mun aldrei svara í sama mæli því það er ekki hans eðli að sannfæra aðra um hvað honum finnst, heldur sýna fram á hvernig málum er háttað í raun og veru.
Vandinn er sá að það er mun auðveldara að vekja eftirtekt og sannfæra fólk með skýrum tilfinningum og hörðum dómum frekar en röksemdarfærslum og hófsemi.
Samt er það skylda allra þegna í lýðræðisríki að fella ekki dóm nema rökin hafi fullnægjandi forsendur. Var ríkissáttasemjari hlutdrægur eða ekki í sínum málflutningi? Óháð sannleikanum hefur orðspor hans var flekkað af andstæðingum hans, honum gefnar upp sakir sem eiga ekki við rök að styðjast.
Slíkt getur gerst þegar heitar tilfinningar og köld rök rekast á.
Sjá Wikipedia síðu um Ad-hominem rökvilluna: Persónuníð
Mynd: Svarti Svanurinn eftir Taleb á amazon.com
![]() |
Ég hygg að ég hafi gert allt rétt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvað er verðbólga og hvað veldur henni?
4.2.2023 | 11:57
Verðbólga er brenglun á verði þegar peningar tapa gildi sínu. - Lewis og Forbes (2022)
Síðustu misseri hafa Íslendingar upplifað töluverða verðbólgu. Seðlabanki Íslands hefur þá stefnu að halda verðbólgunni stöðugri þannig að krónan haldi gildi sínu. Þá er markmiðið að árleg verðbólga verði 2.5% að jafnaði. Árið 2022 endaði í 9.6% ársverðbólgu samkvæmt Hagsjá Landsbankans.
Samt hafa sumar vörur hækkað mun meira en 9.6%. Sem dæmi er að ég fer nánast daglega í verslun á Íslandi og kaupi mér þar Coca Cola Light. Í desember kostaði hálfs líters flaska tæpar 140 krónur. Í dag kostar slík flaska 199 krónur. Þetta er dæmi um 40% hækkun á vöruverði, reyndar á hlut sem ekki er neitt sérstaklega vinsæll, en þegar verðbólgan er 10% og varan hefur hækkað um 40%, þá þýðir það aðeins eitt. Ef fólk heldur áfram að kaupa þessa vöru í sama mæli og áður, þá verður verðbólgan mun hærri en þessi 9.6%. Þarna er reyndar dæmi um að fyrirtæki verðleggur vöruna á brenglaðan máta, sem verður reyndar aðeins til þess að fólk hættir líklega að kaupa vöruna hjá fyrirtækinu.
Alls konar fyrirbærum er kennt um verðbólgu. Frá tásumyndum á Tene, til þess að fólk fæst ekki í vinnu nema með mun betri launum eftir COVID-19. Það er nokkuð ljóst að hækkun á húsnæðismarkaði hefur verið gífurleg síðustu árin, einnig að álögur ríkisins í janúar hafa haft jafnmikil áhrif á verðbólgu og önnur ár, en alls ekki í takt við það sem er að gerast í samfélaginu. Það er eins og verðbólga frá ríkinu sé á einhvers konar sjálfvirkni og fólkið í brúnni átti sig ekki á að betra væri að taka mið af ríkjandi ástandi heldur en að rúlla boltanum áfram eins og venjulega, þó að aðstæður hafi gjörbreyst. Það heyrist auðveldlega á innantómum rökum stjórnarliða að þeir hafa ekki verið á tánum, bæði vörn og sókn eru léleg og valdhafar í dag eru að fá ljótan skell vegna þess að þau hafa misst einbeitinguna eða eru illa undirbúin fyrir það sem er að gerast.
Annað eins hefur gerst víða um heim. Ég á í fórum mínum milljarð dollara peningaseðil frá Zimbabwe, sem reyndar var einskis virði, en sá seðill er afleiðing verðbólgu þar í landi sem mátti rekja til mikillar spillingar, þar sem forseti landsins hugsaði mest um eigin hag og hafði engan áhuga á velgengni eigin þjóðar, svo framarlega sem hann fékk sitt. Sambærilegir hlutir gerðust á sjöunda áratug síðustu aldar í Bandaríkjunum þegar Richard Nixon var forseti, þegar Þjóðverjar í kringum 1920 kenndu bankamönnum og gyðingum um verðbólguna, og Rómverjar í forneskju kenndu kristnu fólki um verðbólguna. Það getur verið vandasamt að finna sökudólginn, en sjálfsagt er málið það að þeir sem stjórna verðlagi á vörum og þjónustu séu þeir sem bera stærstu ábyrgðina.
Þegar kemur að hækkun húsnæðisverðs á Íslandi, þá getum við varla kennt fasteignasölum um, heldur markaðsöflunum, samkeppni um framboð og eftirspurn, sem fólk nýtir sér eða ekki. Vilji fólk eignast þak yfir höfuð sér í stað þess að búa hjá foreldrum eða leigja, þurfa þau að kaupa sér fasteign, og eru í samkeppni ekki aðeins við annað fólk sem er í sömu stöðu, heldur fyrirtæki sem kaupa sér fasteignir til að leigja út. Það er ákveðin spilling, því leikurinn er ekki jafn, hvort sem þú ert manneskja í leit að þaki yfir höfuðið eða fyrirtæki í leit að auknum gróða.
Markaðsöflin ráða líka þegar kemur að verðlagningu í verslunum. Vandinn er sá að við erum háð því að kaupa okkur nauðsynjavörur í matinn, og stundum lúxusvörur eins og Coca Cola Light, en getum valið að hætta að kaupa lúxusvörurnar. Samt hafa matvörur hækkað á síðasta ári, og þá aftur í verslunina sem ég versla mikið við, hækkað um meira en 15% á einu ári, nokkuð sem hlýtur að vera algjörlega á ábyrgð þeirra sem reka verslunina. Af hverju fyrirtækið þarf að auka vöruverð veit ég ekki. Kannski er það vegna þess að það er að borga starfsfólki sínu betur, eða bara þessi ósköp venjulega græðgi. Hver veit?
Það var ljóst að vegna viðskiptaþvingana við Rússa þegar þeir hófu stríð gegn Úkraínu að heimsmarkaðsverð á olíu og gasi rauk upp víða um heim, en hvergi í Evrópu hefur eldsneytið verið jafn dýrt og á Íslandi. Af hverju það er veit ég ekki, en það hlýtur að vera merki um að eitthvað sé að þegar kemur að verðsetningu. Ég gerði mitt besta á tímabili og reyndi að nota strætó, ætlaði að sjá hvort ég gæti tekið virkan þátt í að vernda umhverfið með minni mengun vegna eigin bifreiðar, en komst að því að dýrara var fyrir mig að taka strætó, og þar að auki sótti hann mig ekki í samræmi við tímaáætlun, sem þýddi að þetta reyndist gagnslaust fyrirtæki, í það minnsta fyrir mig.
Í gegnum tíðina hefur ýmsu verið kennt um verðbólgu: slæmt veður, COVID, stríði í Úkraínu, launahækkanir, mikil aukning flóttamanna, tásumyndir á Tene, flatskjáir, græðgi fyrirtækja sem stýrast af markaðsöflum, Krónunni, að húsnæðisverð sé inni í vísitölureikningum, lélegri hagstjórn, slakri stjórnsýslu og þar fram eftir götunum. Getur verið að þetta sé allt eða bara sumt að spila inn í, og meira til?
Þurfum við kannski hvert og eitt að gæta okkar? Það er ekki langt síðan að stjórnvöld ákváðu að setja gjaldeyrishöft á Ísland, og hver veit nema eitthvað svipað sé í kortununum núna, því það er nokkuð ljóst að stjórnvöld eru að missa stjórnina á verðbólgunni, þessari miklu furðuskepnu sem enginn virðist skilja eða þola, en hefur þau augljósu áhrif að verðgildi peninga okkar minnka hratt.
Ég kenni ekki Seðlabankastjóra um verðbólguna, þó að mig langi til þess eftir misheppnaðan húmor hans um tásumyndir á Tene. Hann reynir aðeins að bregðast við henni með þeim tækjum sem hann hefur, eins og stýrivaxtahækkunum. En þær gera bara lítið gagn annað en að valda meiri skaða, sérstaklega þeim sem skulda vegna hárra húsnæðislána sem tekin hafa verið vegna verðlags á húsnæðismarkaðnum.
Stóri sökudólgurinn virðist vera húsnæðismarkaðurinn þar sem einstaklingar (fjölskyldur) og fyrirtæki eru að berjast um sömu eignirnar - og að sjálfsögðu mun halla á einstaklinga og fjölskyldurnar gegn þeim fyrirtækjum sem hafa miklu meiri auð undir höndum. Ef slíkt fær að viðgangast stjórnlaust áfram um ókomna tíð mun það kosta að fólk hefur ekki efni á eigin þaki yfir höfuðið og neyðist til að greiða þessum fyrirtækjum sem keypt hafa húsnæði leigu. Eins og við höfum séð á síðustu mánuðum, þá eru slík fyrirtæki fyrst og fremst að hugsa um hagnaðinn, en ekki fólkið sem býr hjá þeim. En staðreyndin er sú að við þurfum öll þak yfir höfuðið, og það má líta á það sem sjálfsögð mannréttindi að eiga þak yfir höfuðið frekar en að leigja af fyrirtækjum sem metur auðinn meira en manneskjuna.
Þarna er skekkja sem stjórnvöld geta lagað, en þau þurfa að vakna, skilja og sjá fyrst, og ekki gera bara eitthvað út í bláinn. Heldur átta sig á vandanum og taka aðeins á honum.
Þannig blasir þetta við mér í það minnsta.
Mynd eftir Brian Adcock
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hvert væri gaman og áhugavert að ferðast?
21.1.2023 | 10:48

Mynd tekin í Istanbúl snemma árs 2022.
Sú manneskja sem þú ert skiptir meira máli en staðurinn sem þú ferðast til; af þessari ástæðu ættum við ekki að binda huga okkar við einhvern einn stað. Lifðu í þessari trú: Ég er ekki fædd(ur) í einu horni alheimsins; heimurinn allur er landið mitt.- Seneca
Ég elska að ferðast og hef komið víða við. Samt er heimurinn svo stór og margir staðir sem mér þætti vænt um að heimsækja, þó ekki á flótta undan veðri og vindum á Íslandi, heldur til að kynnast þessum stóra og fallega heimi aðeins betur.
Með hverju tungumáli sem við lærum áttum við okkur betur á hvernig fólk um víða veröld hugsar og veltir fyrir sér hlutunum. Það er mjög áhugavert að velta fyrir sér muninum á hvernig maður er þegar maður hugsar á einu tungumáli eða nokkrum. Mér skilst að stundum slæðist íslensk orð með þegar ég ræði við fólk á ensku. Bara gaman að því, en tungumálið er ein af leiðum til að ferðast án þess að færa sig úr stað.
Á síðasta ári kom ég víða við. Var strandaglópur í Istanbúl en þar var allt ófært út af snjókomu, ók um Bandaríkin og stoppaði þar í tvær vikur til að ræða heimspeki með þarlendum ungmennum, kom við í vinnuferðum og fríum á Spáni, Ítalíu, Frakklandi, Englandi, Eistlandi, Póllandi, Austurríki og Noregi, og stoppaði á flugvöllum í Danmörku og Svíþjóð. Einnig fór ég ásamt samstarfsfélögum mínum upp á fjölda fella á Suðurnesjum og loks fórum við í virkilega erfiða göngu á Grænahrygg. Allt var þetta gaman.
Mér fannst frekar stórkostlegt að ganga um götur Istanbúl í hundslappadrífu, innan um forna turna og musteri - þar sem menn voru að steikja hnetur í litlum vagni en var greinilega ískalt. Ég fór meira að segja í snjókast við sænskan vin minn, báðir komnir yfir fimmtugt, en leið eins og krökkum á fyrsta snjódegi ársins. Í það minnsta leið mér þannig. Einnig var stórmerkileg upplifun að ganga um Grand Bazaar í snjókomu. Vinalegir sölumenn buðu upp á te, og sæti inni í verslunum að skoða tyrknesk teppi, handklæði og viskustykki. Auðvitað fór taskan full heim.
Mig langar að ferðast meira en þarf þess ekki. Það væri gaman að fara annað en í stuttar sólarstrandarferðir þar sem maður hellir í sig bjór og tekur tásumyndir. Það væri gaman að kynnast því hvernig fólk lifir í þessum heimi við ólíkar aðstæður en við þekkjum frá degi til dags á Íslandi.
Í fréttinni sem kveikti þessar vangaveltur er talað um hvernig hjón fóru á fjarlægan stað, Bora bora, syntu þar í sjónum með hvölum, höfrungum, hákörlum. Sigldu um og nutu lífsins. Þetta er merki um fólk sem er ánægt í eigin skinni, þau eru ekki að ferðast til að losna undan einhverju böli, heldur ferðast til að upplifa meira af undrum heimsins sem við erum öll hluti af.
Nú langar mig að leita mér að fleiri ferðalögum, þó að vissulega séu nokkrar ferðir á dagskránni innan skamms á þessu ári. Mér finnst reyndar líka gott að vera heima, gefa mér tíma með bókunum mínum og kynnast út frá þeirra sjónarhorni heiminum ennþá betur, út frá því hvernig aðrir hafa hugsað og skrifað síðustu aldirnar. Jafnvel þetta blogg er skemmtilegt ferðalag í mínum huga.
![]() |
Með eyjuna á heilanum í yfir áratug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvað langar þig að verða þegar þú verður stór?
18.1.2023 | 22:54
Við skulum meta mikils og elska ellina, því hún er full af ánægju ef maður kann að njóta hennar. Bestu ávextirnir hafa náð fullum þroska. - Seneca
Það er auðvelt að dýrka æskuna og gleyma því hversu dýrmæt eldri árin geta verið. Þegar við erum ung vinnum við af krafti við að læra og síðan nýta þeirrar þekkingar og skilnings sem við höfum aflað okkur til að byggja okkur framtíð.
Við reynum að uppfylla allar okkar grunnþarfir, og það getur tekið töluverðan tíma. Við höfum kraft til að vinna á meðan okkur skortir þroska, það er ekki fyrr en við erum að fullu þroskuð sem við þurfum ekki lengur að vinna - þá er kominn tími til að njóta lífsins til fullnustu, með þeim hætti sem hver maður hefur undirbúið sig.
Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? er algeng spurning í leikskóla og fyrstu árum grunnskóla. Margir vilja verða slökkviliðsmenn eða læknar, löggur eða kennarar, kannski vinna í fiski eða við gatnagerð.
Þegar við höfum fundið okkar starfsferil og unnið störf okkar í einhver ár, hvernig væri þá að spyrja þessarar spurningar aftur. Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?
Ég veit fyrir mitt leyti að mig langar að ferðast um heiminn, mig langar að skrifa, mig langar að hugsa, mig langar að læra svo lengi sem ég lifi, mig langar að elska fólkið í kringum mig, og mig langar að gefa af mér eins mikið og ég get.
Hvort ætli sé betra eða verra fyrir tveggja ára barn? Að eiga hrokafullan og ungan föður sem hugsar ekkert um það eða auðmjúkan og aldraðan föður sem kann að meta tímann með barni sínu?
Hvað um þig? Hvað langar þig að verða þegar þú verður stór?
Mynd: The Common Reader
![]() |
Áskorun að ala upp ungt barn 73 ára |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Af hverju er gott að fagna því sem vel er gert?
17.1.2023 | 14:58
Það er í samræmi við náttúruna að sýna vinum okkar ástúð og að fagna góðum árangri þeirra, rétt eins og hann væri okkar eigin. Því ef við gerum þetta ekki mundi dyggðin, sem styrkist aðeins með því að beita henni, dvína og hverfa úr okkur. Seneca
Gærdagurinn var svolítið sérstakur. Rafmagnið gaf sig á Suðurnesjum og því brunuðum við konan úr Grindavík í Kópavoginn til að fylgjast með leiknum gegn Suður Kóreu. Þar tók við að kveikja á sjónvarpstæki og stilla á RÚV, sem var miklu flóknara heldur en að ýta á einn takka. Við þurftum að átta okkur á hvernig ýmis tæki spila saman til að láta þetta ganga upp, og þegar ég var á endanum að gefast upp, birtist ekki þá frænka mín sem bjargaði málunum, og kvaddi með orðunum: Þú slekkur svo á sjónvarpinu með að ýta á rauða takkann.
Það var mikill fögnuður að geta séð seinni hálfleik í leiknum, sem Íslendingar unnu auðveldlega, og við fögnuðum hverju marki sem hvert gat gefið krónu afslátt til bensínkaupa í dag. Mér fannst gaman að sjá hóp af sjö drengjum dansa á áhorfandapöllunum sem höfðu málað ÍSLAND á brjóstkassa sína og svo bætt við einu upphrópunarmerki, sjálfsagt til að tryggja að allir gætu verið með. Þetta fannst mér gaman.
Ekki var verra að Íslendingar unnu leikinn með tólf marka mun, en það allra fallegasta var að sjá hvernig bæði leikmenn og áhorfendur fögnuðu sigrinum eftir að leiknum lauk. Áhorfendur sungu lagið Ég er kominn heim og það skemmtilega gerðist að leikmenn urðu að áhorfendum sem fögnuðu fólkinu í stúkunni og áhorfendur að leikmönnum sem dönsuðu og fögnuðu innilega.
Það að fagna þegar einhverjum gengur vel telst til dyggða, enda hefur þessi fögnuður ekki aðeins góð og hvetjandi áhrif á þann sem vann sigurinn, heldur einnig á þann sem fagnar sigrinum. Með því að fagna erum við að þjálfa kærleiksvöðva í sálarlífi okkar og eftir því sem við fögnum og hrósum meira, því ríkari verðum við sjálf af kærleika og þakklæti, svo framarlega sem fögnuðurinn er framkvæmdur af einlægni, og aðrar dyggðir ennþá yfirsterkari löstum í okkar sálarlífi.
Fyrst verið er að tala um fögnuð sem dyggð, þá má velta fyrir sér hver andstæða hans er og hvaða áhrif hann hefur á bæði þá sem verða fyrir honum og sálarlífi þess sem gefur hann frá sér. Andstæða fagnaðar er gagnrýni, og þá erum við ekki að tala um gagnrýna hugsun - sem er allt annað fyrirbæri, heldur stingandi gagnrýni sem lýsir kannski frekar tilfinningunni öfund en gleði; en sömu aðstæður geta vakið þessar ólíku kenndir í ólíkum manneskjum.
Á meðan fögnuður hjálpar okkur að kveikja ljósin í eigin sál er gagnrýni dugleg að slökkva þessi ljós. Bæði er hún tilgangslaus eftir sigur, er leiðinleg áheyrnar, þar að auki er hún skaðleg þeim sem ber hana á borð, því hún eykur aðeins á þessa öfund og leiðindi sem einstaklingurinn finnur fyrir. Reyndar er gagnrýni gagnrýninnar vegna einnig vita gagnslaus þegar lið tapar, en gagnrýni sem hefur uppbyggingu og aukinn skilning sem markmið er hins vegar allt annað fyrirbæri sem ber að fagna í sjálfu sér.
Mynd: mbl.is
![]() |
Mikil gleði þegar sætið í milliriðli var tryggt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)