Bloggfærslur mánaðarins, júní 2021

Getum við vitað þegar einhver lýgur að okkur?

mental-illness-4364348_1280

Við ljúgum þegar við viljandi segjum einhverjum öðrum eitthvað ósatt. En að vita hvenær einhver gerir eitthvað viljandi eða óviljandi er næstum ómögulegt að átta sig á. Við getum trúað einhverju um ætlun annarra, en við getum aldrei fyllilega vitað það.Erfitt verður að sanna þá ásökun að einhver hafi yfir höfuð logið, því þá ertu að gefa þér að þú vitir bæði hvað viðkomandi gerir viljandi.

Þegar við tölum um hvort að einhver sé að ljúga, erum við í raun sjálf að ljúga, því við vitum ekki hvað viðkomandi hefur gert viljandi. Við getum ekki lesið hugsanir annarra, við getum í mesta lagi giskað eða dregið ályktanir, en náum aldrei fullvissu. Í mesta lagi vitum við að þegar við teljum einhvern ljúga, er að hann eða hún er að segja ósatt, og þá kannski bara hugsanlega. Það getur verið að við vitum ekki einu sinni hvort að viðkomandi hafi verið að segja ósatt, því kannski hefur hann eða hún meiri eða minni upplýsingar en við og túlkar þær á annan máta, jafnvel út frá ólíkri heimsmynd. Þannig að þegar við teljum einhvern vera að ljúga getur vel verið að við höfum rangt fyrir okkur. 

Hins vegar þegar einhver segir eitt við eina manneskju og svo andstæðuna við aðra manneskju, þá er ljóst að viðkomandi er annað hvort að ljúga eða hefur ekki nógu mikla greind til að vera samkvæmur sjálfum sér. Jafnvel þó að við vitum að viðkomandi hafi fengið áreiðanlegar upplýsingar, og heldur svo öðru fram, þá getum við ekki dæmt um hvort að viðkomandi sé að segja viljandi ósatt, eða hvort að hann sé bara ósáttur við veruleikann og sannleikann. Hann gæti verið öfgafullur efahyggjumaður, narsisískur sjálfsdýrkandi, eða bara algjörlega villtur í heimi skynsamlegra röksemda. Margt kemur til greina.

En það að vera ekki þess valdur að segja satt hlýtur samt að vera á ábyrgð hvers og eins. Við hljótum að bera nógu mikla ábyrgð á eigin menntun og þekkingu til að afla okkur fróðleik um hluti sem skipta máli, við berum ábyrgð á okkar eigin hugsunum og gerðum, að við beitum hugsuninni til að átta okkur á hvað er satt og rétt, til að við getum gert skyldu okkar í samræmi við það sem er satt og rétt. Einnig ber okkur að fylgjast nógu vel með hlutum sem eru að gerast til að geta tekið ákvarðanir í takt við tímann, en við þurfum samt alls ekki að þekkja hvert einasta málefni í kjölinn. Yfirborðskennd þekking á því sem er í gangi er yfirleitt nóg, en dýpri þekking á málefnum sem tengjast störfum gæti krafist þess af okkur að treysta þeim sem vita betur.

Við getum lifað lífi okkar án þess að hafa djúpa þekkingu á einu eða neinu og án þess að styðjast við rök eða hugsa hlutina vel, en slíkt leiðir líklega til tómlegra og leiðinlegra lífs en þeirra sem vita og skilja meira, því að þeir sem hafa þekkinguna sjá fleiri möguleika til að vaxa og dafna.

Þegar við leitum ekki þekkingar eða skilnings á okkar innri og ytri veruleika, þá erum við líklegri til að blekkja sjálf okkur og þegar við tölum við aðra er líklegra að við förum með ósannindi. Hvort sem þessi ósannindi eru viljandi eða ekki, geta þau hæglega skaðað orðspor okkar, jafnvel þannig að við fáum það orð á okkur að vera fáfróð eða lygarar. Þessir stimplar þurfa ekkert endilega að vera sannir til að hafa áhrif. 

Gleymum því ekki að fáfróð manneskja getur lært og sú sem við teljum ljúga sér heiminn kannski allt öðruvísi en aðrir, og telur sjálfan sig ekkert endilega vera að ljúga, þó að hann lifi í sjálfsblekkingu.

 

Mynd eftir mohamed Hassan frá Pixabay


Þekkjum við okkar ytri og innri veruleika?

ECAF9A84-F1F8-4803-84B5-D5C543A0E828

Við lifum samtímis í tveimur veruleikum; innri veruleika sálarlífsins og ytri veruleika heimsins. Báðir eru þessir veruleikar gríðarlega stórir og upplýsingar um þá takmarkaðar. 

Upplýsingar um hinn ytri veruleika kemur frá skynfærum okkar, vísindalegum rannsóknum og samansafnaðri visku, og reyndar stundum fáfræði sem við höfum erft frá fyrri kynslóðum. En þessi erfða þekking (eða trú) tengir þessa tvo veruleika saman í sérhverri manneskju.

Lögmálin á bakvið það að kynnast sjálfum og innri veruleika eru allt önnur en þau sem við notum til að læra um hinn ytri veruleika. 

Við getum lært ýmislegt um hinn innri veruleika, bæði persónulegan og samfélagslegan, með því að lesa og læra heimspeki, bókmenntir, listir, tungumál og nánast allt það sem við kemur hugvísindum.

Það er samt sífellt stór spurning hvenær hægt er að alhæfa eitthvað um þessa óskildu veruleika. Hvenær vitum við eitthvað með fullri vissu um hluti í þeim báðum, og hvenær er það sem við teljum okkur vita aðeins trú, sem verður hugsanlega augljós framtíðar kynslóðum en er okkur hulin í dag?


Hvernig geta reiðiköst gert þig að betri manneskju?

 bulb-1994881_1920

Þegar við reiðumst getum við algjörlega tapað okkur eins og lýst var í fyrri grein, við heyrum hvorki né sjáum. Það er mögulegt að bregðast við með því að telja upp að tíu og síðan afturábak á núllið. En hvað svo?

Það sem gerist þegar við höfum byggt okkur upp svar við reiðinni, eitthvað viðbragð sem sefar tilfinningarnar og skerpir hugann, þá náum við áttum og getum valið hvort við vörpum reiðinni fyrir borð eða skoðum hana betur til að læra af henni.

Það er í sjálfu sér ekkert að því að halda reiðinni aðeins lifandi og átta sig á að hún er aðeins innri veruleiki, en ekki veruleika allra annarra sem lifa í þessum heimi, og gefa okkur tíma til að greina hana. Hægt er að velta fyrir sér orsökum hennar, hvað varð til þess að hún blossaði upp? Þegar við höfum skoðað þessar forsendur getum við lært eitthvað um okkur sjálf, eitthvað sem getur breytt lífi okkar til hins betra.

Veltu fyrir þér augnabliki þar sem þú reiddist síðast. Hvernig voru aðstæðurnar? Hvað gerðist til að koma reiðinni í gang? Hvernig brást fólkið í kringum þig við? Var reiðin réttlát eða byggð á eigin vanþekkingu eða misskilningi? Hvernig tókst þér að hemja tilfinninguna og hvernig tókst þér að greina orsökina?

Ef þú veltir þessu aðeins fyrir þér ertu líklegri til að taka stjórnina næst þegar eitthvað kveikir á þessari tilfinningu sem deyfir öll skynfærin.

 

Mynd eftir SAFA TUNCEL frá Pixabay


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband