Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

The Hunger Games (2012) ***

o-FINAL-HUNGER-GAMES-POSTER-570

"The Hunger Games" gerist í framtíðinni. Í Bandaríkjunum hefur kreppan þróast yfir í borgarastyrjöld sem einhvers konar elítufasistar vinna. Þeir dvelja í litskrúðugri stórborg og virðast flestöll hafa frekar pervískan smekk.

Samfélaginu hefur verið skipt upp í þrettán stéttir, elítustéttin virðist æðri öllum hinum, en eftir því sem talan hækkar, lækkar stéttin. Hetja myndarinnar, Katniss Everdeen (Jennifer Lawrence) lendir ásamt Peeta Mellark (Josh Hutcherson) í því að vera fulltrúi tólftu stéttarinnar í Hungurleikjunum, en þessir leikar voru stofnaðir af sigurvegurum borgarastyrjaldarinnar til að minna fólk á að halda sig á mottunni. Tveir fulltrúar eru sendir frá stéttunum tólf, og að sjálfsögðu eiga þau tvö úr tólftu stéttinni að hafa minnstu möguleikana. 

Fyrir utan að Katniss reynist sérlega úrræðagóð, þó hún njóti stundum góðra ráða læriföður síns, fyllibyttunnar Heymitch Abernathy (Woody Harrelson) sem áður hafði komist lífs af frá þessum leikum. Leikreglurnar eru þannig að 24 unglingum á aldrinum 14 til 18 ára er plantað á lokað svæði, öll með staðsetningartæki, og þau fá þrjár vikur til að komast lífs af. Aðeins eitt þeirra má vera á lífi í lok þáttarins. Mörg börn eru drepin á eins smekklegan hátt og Hollywood er fært til að sem allra yngstu áhorfendur geti keypt sér miða.

Kvikmyndin fjallar um grimmt samfélag þar sem ungviðinu eru settar strangar og ósanngjarnar reglur. Undir niðri ólgar mikil óánægja víða úr samfélaginu, og það kemur skýrt í ljós að það sem undir kraumar hljóti að komast fyrr eða síðar upp á yfirborðið, og Katniss verður sjálfsagt sá neisti sem kveikir eldinn. Einræðisherran illi og slóttugi er leikinn skemmtilega af Donald Sutherland, og þáttarstjórnendur af skemmtilega skeggjuðum Wes Bentley og hárprúðum Stanley Tucci. Það er valinn maður í hverju rúmi, og leikstjórinn Gary Ross, skilar sínu. Þetta er aðeins hans þriðja kvikmynd sem leikstjóri, en sú fyrsta var snilldin "Pleasantville" (1998) sem einnig fjallar um átök unglinga í afmörkuðum heimi.

"The Hunger Games" er fín skemmtun, distópíumynd sem spunnin er saman úr kunnuglegum sögum, eins og bókinni "Lord of the Flies" eftir nóbelsverðlaunahafann William Golding og raunveruleikasjónvarpsþáttum eins og "Big Brother" og "Survivor" þar sem hæfileikar eru ekki aðalatriðið í þeim heimi, heldur vinsældir hjá almenningi. Auðvitað er þetta að einhverju leyti endurgerð hinnar miklu betri en afar blóðþyrstu japönsku myndar "Battle Royale" (2000), og virðist líka taka hitt og þetta úr myndum eins og "Ben Hur" (1959) og "The Truman Show" (1998).

Þetta er fín skemmtun ef þú þolir að horfa upp á unglinga drepna af hverjum öðrum í rúmar tvær klukkustundir. Til að vera sanngjarn, þá býr miklu meira að baki sögunni heldur en bara tveir tímar af drápsleik, því höfundum tekst að búa til nýjan heim sem virkar raunverulegur og spennandi. Mig langaði í lokin að sjá framhaldið. 

Til þess er leikurinn gerður. Er það ekki?

Hvernig liti heimurinn út án trúarlegra bygginga?

Trúarbrögð koma mér oft á óvart, ekki vegna þess að ég dýrka þau, heldur vegna þess að stundum átta ég mig á að þau varðveita margar af fegurstu hliðum mannssálarinnar, eins og þá að varðveita minningu þeirra sem fallnir eru frá og gefa fólki næði til að vera með þessu fólki, einhvernvegin, þó að það sé farið. Svo er arkitektúrinn oft magnaður.
 
Það er eitthvað sem heillar mig við byggingar sem tengjast átrúnaði. Ekki ríkidómurinn á bakvið flestar þeirra, heldur alúðarvinnan sem á finna í handverkinu, skilaboðin sem felast í strúktúrnum og sögurnar sem þessar byggingar geyma. Í fyrra las ég tvær bækur eftir Ken Follet um líf fólks sem kemur að byggingu kirkju í skálduðu bresku þorpi, og endurvakti það áhuga sem hefur lengi blundað í mér, en ég hef samt ekki veitt neina sérstaka athygli. Til dæmis heimsæki ég ekki borgir með þá hugmynd að heimsækja kirkjur, að minnsta kosti ekki meðvitaða, en þegar ég hugsa til baka, þá eru þessar byggingar meðal þeirra sem vekja mesta athygli mína.

Á ferðum mínum hafa fimm heilagar byggingar vakið nógu mikla athygli hjá mér til þess að ég hafi farið inn í þær og gleymt mér þar algjörlega. Það eru þessar:

1. Skálholtskirkja, Íslandi
 
Fór í sumarbúðir í Skálholt sex ára þar sem hvað eftir annað var hrædd úr mér líftóran, með heimsókn í hin frægu göng og með ansi líflegum tröllasögum. Fór einnig með söngglöðum vinum eitt sinn í Skálholt, þau voru í kór, ekki ég. Fór einnig í eftirminnilega námsferð með Þorsteini Gylfasyni og fleiri heimspekingum, þar sem ég skrifaði ritgerð um sköpun. Þótti gaman að ræða við Þorstein um hana eftir að hafa skrifað hana, enda botnaði hann ekkert í þessum furðulegu pælingum mínum. Sagði að þetta yrði sjálfsagt skýrara með tíð og tíma.
 
2211_1___Selected
 
 
2. Hallgrímskirkja, Íslandi
 
Ég er Reykjavíkurbarn, kirkjan hefur verið eitt helsta kennileiti borgarinnar frá því ég man eftir mér. Man þegar ég fór efst í turninn. Þótti það flott. Því miður eru ekki allar minningar frá þessari kirkju góðar minningar.
 
caldari
 
 
 
Heimsótt í útskriftarferð FB. Gat ekki slitið mig frá myndunum á veggjum musterisins. Var skammaður af verði fyrir að fara á skónum inn í musterið til að sjá hinn gullna Búddha.
 
sentinels-cc-buck82
 
 
4. Kirkjan í Puebla, Mexíkó
 
Bjó þrjú ár í borginni. Sagan um kirkjubjöllurnar er eftirminnileg, en sagan segir að verkamenn hafi verið ráðþrota um hvernig koma ætti bjöllunum upp í turninn og farið heim að kvöldi þar sem bjöllurnar hvíldu á jörðinni, en um nóttina áttu englar að hafa komið bjöllunum upp í turninn og gert verkamönnunum lífið léttara næsta dag. 
 
Catedral_de_Puebla
 
 
5. Chichen Itza, Yucatan, Mexíkó 
 
Bjó þrjú ár í Merida, nálægri borg. Píramídinn er helgaður hinum forna guði Kuculcan. Heimsótti oft hinar fornu rústir Maya.
 
chichen-kukulkan
 
 
 
Keyrði frá Noregi til Ungverjalands á mínum litla Nissan Micra síðustu páska. Sá margt fallegt. Kom mér á óvart að sjá sjö trúarbyggingar við sama torg, tákn um virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum.
 
Megyesz%C3%A9khelyek_-_B%C3%A1cs-Kiskun_megye_-_Kecskem%C3%A9t
 
7. Kirkjan í Budapest, Ungverjalandi
  • Bara awesome!
 
57220-main-cathedral-from-other-side-of-river-budapest-hungary
 
 
8. Notre Dame í París
 
Fjölskylduferð til Parísar og Disneyland í fyrra. Notre Dame stóð samt upp úr. Það er eitthvað við það að ganga þarna um og ímynda sér hringjarann og hvar Victor Hugo hefur valið sér að setjast niður og sjá fyrir sér ævintýrin.
 
800px-Notre_Dame_dalla_Senna_crop
 
 
 
Var við nám í New Jersey. Tvíburaturnarnir alltaf sýnilegir. Mér datt í hug að þeir væru musteri fyrir peninga, en fátt virðist heilagra í heiminum þessa dagana en peningar. Fjármálum heimsins hafði að mestu verið stjórnað frá þessum turnum, þar til hryðjuverkamenn sprengdu þá árið 2001.
 
424px-Wtc_arial_march2001
 
 
 
Hinn ágæti félagi minn, Einar S. Einarsson, kveikti svolítið í mér um daginn þegar hann bauð mér og mínum liðsfélögum til minningarathafnar í Laugardælakirkju um Bobby Fischer. Ég var algjörlega heillaður af þeirri alúð og vináttu sem Einar sýndi meistaranum sem hafði verið duglegur við að hrinda frá sér vinum, enda virðist hann hafa verið af þeirri gerð að hann vildi helst vera einn og í næði við lestur misgóðra bóka. Hluti af minningarathöfninni var að heimsækja leiði Fischer, og hlusta á tvö eftirlætislög hans. Það var svolítið sérstakt augnablik að sitja þarna með skákfélögum mínum og hlusta á "My Way" með Sinatra og "Green Green Grass of Home" með Tom Jones. Minning meistarans er haldið í heiðri.
 
89_165_369750122118249 
 
Mér þætti gaman að kíkja til Rómar, Moskvu og Indlands, ekki bara til að sjá þessar byggingar, heldur einnig upplifa menninguna sem lifir í kringum þær.


Myndir: víða af netinu. Smelltu á textann til að sjá vefsíðuna þar sem ég fann viðkomandi mynd.


"Hvað er hamingja, herra Hitchcock?"

 

"Skýr sjóndeildarhringur - þegar ekkert þvælist fyrir þér, þegar aðeins hlutir sem eru skapandi og ekki eyðileggjandi bíða þín... Ég þoli ekki rifrildi, ég þoli ekki tilfinningar milli fólks - Ég tel hatur vera orkueyðslu, algjörlega gegn framleiðslu. Ég er mjög næmur - hvasst orð, sagt af manneskju í bræði, ef hún stendur mér nærri, hvílir á mér í marga daga. Ég veit að við erum aðeins mannleg, við upplifum þessar ólíku tilfinningar, köllum þær neikvæðar tilfinningar, en þegar þær hafa verið fjarlægðar og þú getur litið fram á veginn og vegurinn framundan er auður,  og nú ætlar þú að skapa eitthvað - þá tel ég mig eins hamingjusaman og ég vil nokkurn tíma vera."


Af hverju drepur maður mann?

lumet-12angryment

 

"Hvenær drepur maður mann?" spurði höfuðskáld okkar. Við mættum einnig spyrja þessarar spurningar í dag þegar samfélagsmein virðast ætla fólk lifandi að drepa. Getur verið að efnahagslegur þrýstingur, grimmd og skilningsleysi jafnist á við fólskulegar líkamsárásir? Ein gerð árásar ræðst að grundvallarstoðum manneskjunnar í samfélaginu, hin að líkamanum. Hvort tveggja er alvarlegt. Hvort er alvarlegra? Varla stendur okkur á sama?

 

Af hverju drepur maður mann?

Ágæt vefsíða um hversdagssálarfræði svarar þessari spurningu ágætlega. Þar er þvi haldið fram að drápshvötin stafi af átta ólíkum ástæðum:

  1. Fjandskap (innræti)
  2. Bældum persónuleika
  3. Hefnigirni
  4. Upplifun fórnarlambs
  5. Þráhyggju
  6. Ofsóknarbrjálæði
  7. Geðveiki
  8. Illmennsku og reiði

Í síðustu viku heimsótti ég Ísland. Þá ræddi ég við fjölda fólks og spurði marga hvernig fólki litist á ástandið í þjóðfélaginu. Flestir voru frekar myrkir í máli og sögðu það sama. Að ástandið væri slæmt. Allir virtust eiga vini og fjölskyldumeðlimi í fjárhagslegum kröggum. Og margir furðuðu sig á að ekki væri þegar búið að sjóða upp úr. Það hlyti að gerast bráðlega. Þá spurði ég hvað þau hefðu að segja um jákvæðar fréttir frá stjórnvöldum, að allt væri á uppleið og full ástæða til bjartsýni. Svörin voru einatt á þá vegu að þarna væri um að ræða áróður, lygar og bull, sem gerðu bara illt verra.

Ég get alveg trúað því að soðið hafi upp úr hjá einum einstaklingi á mánudaginn var vegna upplifunar viðkomandi á ástandinu, þegar hann réðst á forstjóra lögmannsstofu með eggvopni, og að verði ekki tappað af þrýstingnum sem kraumar undir niðri, er ég hræddur um að þetta geti verið fyrsta af mörgum samskonar málum. Því hafi þetta gerst einu sinni, er mikil hætta á að þetta gerist aftur. Það er einfaldlega fastur liður í áhættumati að spyrja spurningarinnar: "hefur viðkomandi ógn orðið að veruleika á síðasta hálfi ári?" Sé svarið játandi, þá hækkar áhættustuðullinn töluvert og skynsamt fólk sér að eitthvað verður að gera í málinu. Hvort rétt sé að bregðast við með vörnum, eða fara forvarnarleiðina, er nokkuð augljóst atriði fyrir suma, en vefst sjálfsagt fyrir mörgum þeim sem á valdasprotum halda.

Mig grunar að mikill fjöldi Íslendinga upplifi bælingu, og finnist þeir vera fórnarlömb mafíu glæpamanna sem villtu á sér heimildir sem heiðarlegir bankamenn, stjórnmálamenn og útrásarvíkingar fyrir Hrun. Slíkt veldur ólgu sem getur sprungið við ólíkar aðstæður. Þegar einhver er bældur, vill hann geta tjáð sig. Þegar einhver upplifir sig sem fórnarlamb, vill viðkomandi geta kennt einherjum um, og jafnvel hefnt sín. Þannig er bara mannlegt eðli. Sama hvert þjóðernið er. Íslendingar eru líka manneskjur.

Afneitun á ástandinu mun ekkert bæta. 

 

Aðeins um umræðuhefðina á Íslandi: 

 "Höfuðmein pólitískrar umræðu á Íslandi manna á meðal í netheimum er ekki hið svokallaða skítkast – heldur hitt að menn lesa ekki það sem skrifað er og heyra ekki það sem sagt er heldur leyfa sér að lesa milli línanna og ímynda sér hvað liggur að baki orðunum og láta svo eins og þeir hafi lesið eða heyrt sína eigin túlkun." (Pétur Tyrfingsson)

Pólitísk umræða á Íslandi er lítið annað en gjamm og gól. Þetta sjáum við í útsendingum frá Alþingi þar sem þingmenn keppast við að hrópa niður ræðumenn úr öðrum flokkum. Einnig birtist þetta fyrirbæri í umræðuþættinum misvirta Silfri Egils, sífellt þegar stjórnmálamönnum er ætlað að ræða saman. Stundum tekst Agli að halda uppi skynsamlegum samræðum, og þá eru stjórnmálamenn yfirleitt fjarverandi. Þó með undantekningum.

Grundvöllur gagnrýnnar hugsunar er að skilja ekki aðeins eigin málstað, heldur einnig ólík sjónarmið um sama viðfangsefni, óháð því hver er á móti hverjum eða hvaða hagsmunir flækjast inn í málið.

Málsmetandi menn í samfélaginu hafa vogað sér að hafa þá skoðun, og sagt hana, að óánægjan í samfélaginu sé orðin það alvarleg að hún sé farin að brjótast út í ofbeldisverkum. Mér sýnist þeir hafa rétt fyrir sér. Þegar manneskja ræðst á aðra manneskju til að drepa hana, þá hlýtur viðkomandi að hafa ástæðu til, sama hvort viðkomandi eigi við sálræn vandamál að stríða eða ekki. Það er alltaf einhver ástæða, sama hversu klikkuð hún getur verið. Skoðaðu listann ofar í greininni og lestu yfir vefsíðuna sem vísað er í og kynntu þér af hverju fólk drepur fólk.

Í þessu tilfelli hafði skuld láglaunamanns upp á ellefu þúsund krónur stökkbreyst og orðið að áttatíu þúsund króna skuld. Með samningaumleitunum gat skuldin lækkað í fimmtíu þúsund krónur. Þetta getur hæglega verið dropi sem fyllir mælinn hjá manneskju sem hefur átt fjárhagslega erfitt. Það er fátt sem reynir jafnt á sálarlífið og þurfa stöðugt að hafa áhyggjur af því að geta séð fyrir grundvallarþörfum. Ekki veit ég hvort það var tilfellið í þessu dæmi, en get ímyndað mér að það sé ekki fjarri sannleikanum. 

Ég vil taka það sterklega fram, svo það fari ekki framhjá neinum, ég fordæmi alla glæpi, jafnt ofbeldisglæpi á líkamlega sem og fjárhagslega sviðinu. Það er ekkert sem réttlætir morðtilraun, en ég get vel skilið forsendurnar að baki slíku, enda sæmilega lesinn í bókmenntum og hef horft á bíómyndir. Einnig bendi ég þeim sem vilja öðlast frekari skilning á hvernig menn geta drepið menn, að lesa um heimstyrjaldirnar tvær, glæpasögur eftir Arnald, Larsson eða Nesbö, kíkja yfir gögn í réttarmálum, horfa á kvikmyndina "12 Angry Men", eða jafnvel "The Godfather" eða "Goodfellas". Hlustaðu á frásagnir Kúrda sem komust lífs af eftir tilraunir Íraka til þjóðarmorðs. Og þú getur öðlast einhvern skilning á fyrirbærinu, en sjálfsagt aldrei endanlegan. Mörg sambærileg og fróðleg dæmi má finna í Biblíunni, Kóraninum, goðafræði og öðrum bókmenntum.

Manneskja reynir að drepa aðra manneskju þegar hin manneskjan ógnar tilveru viðkomandi á einhvern hátt og af einhverjum ástæðum, annað hvort raunverulegum eða ímynduðum. 

 

Tengiliðir:

Everydaypsychology.com

Grein Péturs Tyrfingssonar

Mynd úr 12 Angry Men


Contraband (2012) ***1/2

Contraband%20wallpaper

Baltasar Kormákur leikstýrir "Contraband" af öryggi sem aðeins hæfustu leikstjórar hafa til að bera. Hann er greinilega leikstjóri leikaranna, því þar er mestan styrk myndarinnar að finna. Eitt atriði á heimsmælikvarða, og gæti talist til eins flottasta skotbardaga í sögu kvikmyndanna. Flestir kvikmyndaunnendur muna eftir atriði úr "Heat" eftir Michael Mann, þar sem löggur og bófar lentur í mögnuðum skotbardaga. Svipað atriði er að finna í "Contraband", og afar vel útfært. 

Eini veikleikinn sem ég kom auga á var frekar klaufaleg meðhöndlun myndavélarinnar í samtölum, þar sem andlit færðust úr og í fókus, hugsanlega með ráði gert, og hugmyndin sjálfsagt að fylgja sjónarhorni og tilfinningum viðmælanda, en virkar frekar truflandi á köflum, sérstaklega í upphafi myndar. 

Mark Wahlberg er traustur í sínu hlutverki. Hann kann að leika þessa þöglu og sterku týpu sem virðist hafa þunga reynslu að baki, og líklegur til að sigrast á öllum vandamálum sem upp koma, af festu. Og vandamálin spretta heldur betur upp fyrir hann, lausnirnar hver annarri betri. Sumar fyndnar, aðrar snjallar, en aldrei kaldrifjaðar eða grimmar. 

Aukaleikararnir fylla vel í sín hlutverk, sérstaklega Ben Foster, Giovanni Ribisi og J.K. Simmons, en ég hefði viljað sjá meira frá Cate Beckinsale, sem býr yfir miklu meira en hún fékk tækifæri til að sýna í þetta skiptið. Það hefði sjálfsagt verið sniðugt að bæta aðeins við hlutverk hennar, sem hún fyllti vel, en hún hefði getað fengið að sýna aðeins meiri karakter.

Það er góður húmor í myndinni. Hún er vel yfir meðallagi þegar kemur að b-hasarmyndum, því hún leitar sífellt frumlegra leiða og finnur þær. Ég hafði gaman af raunveruleikablænum í andrúmsloftinu. Maður hafði alltaf sterka tilfinningu fyrir hvar persónurnar voru staddar og hvers vegna þær voru þar. 

Þétt mynd og skemmtileg, sem endar þannig að maður fer út úr salnum með bros á vör. Ég hef séð "Reykjavík-Rotterdam" og finnst "Contraband" mun betur heppnuð, þó að þær séu báðar unnar eftir sama handriti. 

Baltasar Kormáki óska ég til hamingju með þetta heillaspor á leikstjóraferlinum.


Ísland hefur verið selt, og fáir fatta það

depression1600x1200

Þegar húsnæðislán hækka langt umfram áætlun og lánþegi sér fram á að sífellt meira af tekjum hans fara í afborganir af lánum sem áttu að vera í mun minna hlutfalli, og þegar hann leitar allra hugsanlegra leiða út úr ástandinu en er aðeins boðið upp á fjórar leiðir: borga meira, gjaldþrot, flytja úr landi, eða gefast upp, þá fer valið sjálfsagt eftir karakter.

Þegar heil þjóð lendir í sömu aðstöðu, má spyrja hvaða karakter þjóðin hefur til að bjarga sér. Munu hinir sterkari vernda hina veikari, eða munu hinir sterku nýta sér umframkraftinn og brjóta hina veikari á bak aftur. Af því sem ég hef orðið vitni að síðustu þrjú árin, er ég hræddur um að seinni kosturinn verði veruleikinn eftir fáein ár, því þetta er veruleikinn í dag. Ekki sé ég breytingar í vændum.

Ríkisstjórnin heldur að innganga í laskað Evrópusamband og að taka upp Evru, gjaldmiðil sem hefur hækkað vöruverð og lamað fjármálastarfsemi í fátækari löndum, og þannig skapað aðstæður fyrir svarta markaði, er vafasöm lausn.

Þessi ríkisstjórn hefur tekið gríðarleg lán til að laga núverandi stöðu. Þessi lán eru sama eðlis og húsnæðislán. Í fyrstu er lánþegi sáttur við að hafa eignast þak yfir höfuðið, og er tilbúinn að borga til baka, en svo kemur í ljós að lánin verða óviðráðaleg, og leiðirnar fjóru: borga meira, gjaldþrot, flytja úr landi, eða gefast upp, verða kosturinn fyrir framtíð okkar. Stjórnmálamenn sem sitja á þingi í dag munu ekki þurfa að hafa miklar áhyggjur, því skuldadagar hefjast ekki fyrr en þeir eru farnir frá völdum, og hafa þegar safnað að sér öllum þeim auð sem þeir geta til að verða meðal hinna sterkari í framtíðinni. Þjóðin verður ekki kölluð lánþegi, heldur skuldari. Ekki verður talað um réttlæti, heldur um rétt kröfuhaga til að hámarka hagnað sinn.

En hvað mun þjóðin gera þegar hún horfir framan í þann blákalda veruleika að geta ekki borgað lengur af lánunum? Ekki getur heil þjóð gefist upp. Hún getur borgað meira með að veita aukinn aðgang að auðlindum. Spurning samt hvort það muni duga. Kannski olía á drekasvæðinu geti reddað málunum? Kannski ekki. Þjóð getur víst ekki farið í gjaldþrot, því gerist það munu hrægammar utan úr heimi einfaldlega storma inn og hrifsa til sín allt steini léttara, löglega að sjálfsögðu. 

Ætli þjóðin muni ekki standa í sömu stöðu og undirritaður á endanum, sjá sig knúna til að flytja úr landi, finna heiðarlegt og gott fólk sem er til í að vinna saman á jafnréttisgrundvelli. Margt verra gæti gerst en að Íslendingar færu í aukið samband við Noreg. Þetta eru miklar frændþjóðir og karakter hins venjulega borgara nauðalíkur. Hins vegar kunna Norðmenn að temja spillingaröflin, nokkuð sem Íslendingum hefur mistekist hrapalega.

Kreppan mun dýpka vegna þess að ríkið tók húsnæðislán sem þjóðin getur aldrei borgað til baka.

Ísland hefur verið selt, og fáir fatta það.

 

Mynd: ThyWord


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband