Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Viltu fórna ömmu þinni til að verða rík(ur)? Uppskrift að fjármálafléttu sem virkar

Umsvifamikil bankaránsflétta átti sér stað á Íslandi (og er enn í gangi) og í dag sitja ræningjarnir að gróðanum á meðan almenningur blæðir. Þetta var snilldarlega gert. Fléttan er svo einföld en jafnframt svo flókin í augum dómkerfis. Þetta eru fáir leikir, en nauðsynlegir, enda er fléttan í tveimur ferlum.

1. Kaupa minnst tvö leppfyrirtæki á sama degi. Kostnaður um kr. milljón.

2. Fá eins há lán hjá banka og mögulegt er fyrir eitt fyrirtækið. Upphæð slíks láns getur verið frá einni milljón í einhverja milljarða. Fer eftir hversu hátt lán lánveitandi er tilbúinn að veita. Halda hinu fyrirtækinu skuldlausu.

3.  Hið skuldlausa selur skuldsetta fyrirtækinu eitthvað, hvað sem er, jafnvel velvild, og eignin er borguð með láninu.

4. Fyrirtækið sem tók lánið er sett á hausinn, en fyrst er reiknaður arður út frá hagnaðinum sem felst í hærri höfuðstól vegna lánsins.

5.  Eftir stendur eitt gjaldþrota fyrirtæki sem kröfuhafar geta ekki fengið neitt út úr, og annað fyrirtæki sem heldur þeirri eignarmyndun sem fólst í að kaupa lánið af hinu fyrirtækinu. 

Þetta er einföld flétta. 

Nú spyrjum við hvernig á því stendur að leppfyrirtæki fengu þessi lán hvað eftir annað. 

Jú. Lánastofnanirnar sjálfar voru keyptar fyrir lán með sama hætti, og því var mögulegt að veita sífellt hærri lán frá þessum lánastofnunum, sem geymdu síðan að sjálfsögðu sem innlán þær upphæðir sem áður höfðu verið lánaðar einu fyrirtæki, og seldar öðru. 

En þessar upphæðir voru tryggðar, enda innlán.

Það er nefnilega auðvelt að múta sumum pólitíkusum og embættismönnum þegar fer að hitna í kolunum. Þeir geta reddað málunum og fá í staðinn eitthvað mjúkt. Enda fyrnist ábyrgð stjórnmálamannsins fljótt.

Að fólk sjái þetta ekki eða vilji ekki sjá þetta, og afleiðingar þessa, meðal annars á venjulega lánþega, heiðarlegt fólk, á ég bágt með að skilja, og grunar að það hljóti að vera fyrst og fremst vegna áhugaleysis og vanþekkingar.

Engum hefur verið refsað fyrir þessa hegðun. Hún er lögleg á Íslandi. Sem er skömm. Djúp og ljót skömm.

Framkvæmdu þessa fléttu og þú getur orðið rík manneskja. Sum okkar myndu aldrei framkvæma slíkar fléttur, enda höfum við eitthvað sem kallast samviska og annað sem kallast réttlætiskennd sem stoppar okkur. En samviskan og réttlætiskenndin er ekki öllum gefin. Því miður.

Og fólkið með samviskuna og réttlætiskenndina þarf að borga og þjást vegna þessara fléttubjálfa. Er um of mikið beðið þegar krafist er að þetta ranglæti hætti?

Það á að leyfa fjármálafyrirtækjum að hrynja vegna lélegrar stjórnunar, í stað þess að halda þeim og þeirra eigendum uppi á ofurlaunum með verðtryggingunni, hærri sköttum á borgara, og stöðugan niðurskurð í embættismannakerfinu.

Það eina sem mun standa eftir þegar kemur að skuldadögum eru svartir turnar fjármálastofnana sem standa auðir. Allt annað verður í rjúkandi rúst.

 

Ég mæli með grein félaga míns, Marinós G. Njálssonar: Ótrúlegt að enn sé verið að tala um að bjarga bönkum - Þeir eiga að bjarga sér sjálfir eða fara á hausinn


Mikil er grimmd Íslendingsins

Fólk tók lán fyrir húsnæði. Það þótti eðlilegt. Síðan hrundi fjármálakerfið. Sökin var hjá fjármálastofnunum og ríkinu. Innistæður voru tryggðar í botn. Þannig að þeir sem áttu pening urðu ekki fyrir ónæði. Hins vegar tvöfölduðust allar verðtryggðar skuldir og hækka enn. Engin útkomuleið önnur en gjaldþrot, og ekki hefur enn reynt á ný gjaldþrotalög, þar sem mögulegt er að viðhalda kröfum gagnvart fólki að eilífu. Gjaldþrot fyrir manneskju er ekki það sama og gjaldþrot fyrir fyrirtæki. Fyrirtæki er bara kennitala. Manneskja er líf.

Af hverju áttar fólk sig ekki á ranglætinu og gerir eitthvað í því?

Hugsanlega vegna þess að meirihluta landsmanna líður bara nokkuð vel og getur verið sáttur við að þessi minnihluti taki á sig allan skellinn.

Mikil er grimmd Íslendingsins. Sérstaklega þegar hann getur lokað eyrunum, hallað sér aftur í hægindastólnum og horft á Liverpool spila, helst beint, frekar en hlusta á endalaust vælið í bloggurum og lánþegum.

 

---

 

Ég mæli sterklega með góðri grein Marinó G. Njálssonar sem greinir þessi mál út frá heilbrigðri skynsemi og sterkri réttlætiskennd: Almenningur ber skaðann af óheiðarleika, vanhæfi og spillingu fjármálafyrirtækja


Hin stórfenglega vinstri ríkisstjórn

Þremur árum eftir efnahagshrun hefur hin vinstri ríkisstjórn íslenska slegið rækilega í gegn. Henni hefur tekist að framkvæma öll þau loforð sem hún lét falla áður en hún komst til valda.

Hagur landsmanna hefur tekið stökk til hins betra. Þar sem að manneskjur skipta ekki jafn miklu máli og kerfin, hefur mikil orka verið lögð í að reisa bankana við eftir mikið fall þeirra. Það hefur að mestu tekist. Þó að einhverjar fjölskyldur hafi flutt úr landi og einhverjir einstaklingar tapað vitinu, þá má búast við slíku í flestum samfélögum. Berum okkur bara saman við samfélög þar sem allt er á öðrum endanum. Þá ættum við að sjá hvað við höfum það gott.

Tekist hefur að vernda hina réttlátu verðtryggingu frá árás hagsmunasamtaka, þannig að tryggt er að enn streyma gríðarlegar fjárhæðir inn í lífeyrissjóðina. Gagnrýnisraddir segja að verið sé að mergsjúga heimilin með þessu móti. Skiptir það einhverju máli? Er ekki sama hvaðan gott kemur?

Krónan er sterkari en nokkurn tíma áður. Í stað þess að láta hana fljóta einhvers staðar á gjaldeyrishafi hafsins, höfum við fest hana við íslenska bryggju og látum hana ekki róa fyrr en stærri bátur er kominn í höfn, Evran. 

Evrópusambandsaðild er rétt handan við hornið. Þegar tekist hefur að rústa algjörlega íslenska hagkerfinu, svelta nokkrar fjölskyldur, og fylla þær slíku vonleysi að engin útkomuleið virðist möguleg, þá er rétti tíminn til að koma á þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB, og hver kýs gegn einu útgönguleiðinni?

Tekist hefur að sefa þjóðina hvað eftir annað. Í hvert sinn sem hún reiðist, þá koma fram útspil sem rugla fólk í rýminu og draga úr reiði hennar, því hún veit ekki alltaf út í hvern hún á að vera reið. Til allrar hamingju trúir hún blint að kumpánarnir Davíð, Hannes og Geir séu ábyrgir fyrir öllu sem út af hefur borið síðustu tvo áratugina, þar á meðal allar ákvarðanir sem teknar hafa verið síðustu þrjú árin, enda aðstæðurnar þröngvaðar upp á hina snilldarlegu vinstri stjórn.

Það er ljóst að Ísland á sér bjarta framtíð undir leiðsögn vinstri stjórnmálaflakka, sem vinna undir merkjum sannleikans án þess að segja hann, sannfæringar án þess að fylgja henni, umhverfisvernd án þess að skipta sér af henni. Framtíðin er björt fyrir Íslendinga undir slíkri leiðsögn. Þessir lampar sem skína á Alþingi ættu allir að vera steyptir í mót.

Það kæmi mér á óvart ef ríkisstjórnin fengi ekki einróma lófaklapp við upphaf næsta þings og 99% aftkvæði í næstu kosningum, enda hefur henni á eftirminnilegan hátt tekist að fanga hvern hvítflibbaglæpamanninn á fætur öðrum, stórglæpamenn sem höfðu næstum rænt öllu sem mögulega var hægt að ræna af þjóðinni, og meira til. Þeir sitja nú í Hörpunni, elítufangelsinu.


Virka silfurkúlur?

Talað er um "silfurkúlur" í viðskiptaheiminum þegar talað er um að leysa mörg mál með einni lausn. Hjá öflugri fyrirtækjum er ekki aðeins litið á silfurkúlur með efasemdaraugum, heldur djúpri tortryggni, því að stjórnendur vita að silfurkúlur eru stórhættuleg fyrirbæri sem eiga til að springa í byssunni. Það er líka talað um að silfurkúlur geti drepið varúlfa og önnur skrímsli. Verðtryggingin er slíkt skrímsli og ESB er silfurkúla. Silfurkúlur eru því miður skáldskapur. Ekkert annað. Innantóm von. Einhvers konar trúarbrögð. Jafnvel gervivísindi.

Öðru hverju birtist svona silfurkúlulausn við öllum vandamálum ákveðins mengis. Stundum samþykkja stjórnendur að láta reyna á hana, en á endanum reynist hún ekki áhættunnar virði, bæði virkar hún ekki eins og hún átti að virka og var þar að auki margfalt dýrari en gert var ráð fyrir. Og eftirá sjá allir hvað hugmyndin var absúrd og sjá eftir að hafa ekki farið hófsamari og skynsamlegri leiðir að markmiðunum, leiðir sem hefðu kannski kostað meiri vinnu en upphafleg áætlun, en skilað árangri.

Þetta er þekkt. Þetta er vitað. Þetta er alltaf að gerast. Og gerist enn.

Hin íslenska ríkisstjórn boðar lausn allra vandamála með inngöngu í ESB. Innganga í ESB á ekki bara að uppræta alla spillingu á Íslandi, hún á líka að breyta krónunni í evrur og uppgufun krónunnar á að leysa verðtryggingarbölið. Þetta hljómar eins og draumur. Sannfærandi draumur. En trúðu mér, þetta er lítið annað en blekking sem heldur að hún sé draumur.

Því miður er inngöngumiðinn í ESB farin að hljóma eins og silfurkúla, og er ég hræddur um að ríkisstjórnin, vegna síns afar takmarkaða og þrönga hugsunarhátts, muni sitja með hendur í skauti alla tíð og kenna síðan einhverju tilfallandi um þegar vandamálin leysast ekki af sjálfu sér hvort sem að innganga í ESB verður að veruleika eða ekki. Hugsanlega verður Davíð kennt um. Það hefur virkað ágætlega undanfarið að kenna Dabba um allt sem farið hefur úrskeiðis. Davíð og sjálfstæðisflokkurinn eru nefnilega svona andsilfurkúlur, það sem skapað hefur öll vandamál nútímans. Þannig hugsa einfeldingar. Þannig líður þeim vel. Reikna ég með.

Það er sorglegt að sjá hvernig lýðskrumarar og pólitíkusar tala í skyndilausnum, en virðast gleyma að velta fyrir sér raunhæfum markmiðum og hvernig ólíkar lausnir geta tekið á þeim. Það er fáránlegt að festa sig við eina lausn þegar hugsanlegar lausnir eru fjölmargar, og margar sjálfsagt betri og auðveldari en þessi eina stóra. 

Allt sem þarf til er vilji, skynsemi og smá mannúð. Frá fólkinu sem ræður. Og að þau fatti að silfurkúlur eru skáldskapur sem ekki virka í veruleikanum og að ESB er silfurkúla sem mun aldrei virka til að leysa öll vandamál.

Aftur á móti er ég ekki á móti ESB. Ég tel skynsamlegt fyrir Íslendinga að ganga í ESB, einfaldlega vegna þess að verðmætum og auðlindum er ekki skipt á réttlátan hátt heima fyrir, og tel að með veru í ESB hefðum við fleiri verkfæri til að taka á vandamálum - en það þýðir ekki að þessi verkfæri séu ekki til staðar í dag, bara í öðru formi. Þessi verkfæri eru falin eða hunsuð til þess að þvinga þjóðina til að samþykkja ESB umsókn.

Það er ranglát leið, sviksamleg og fölsk.


Þjóðaratkvæðagreiðsla um verðtryggingu?

Ég hef hlustað á rök með og á móti verðtryggingunni, og heyri samhljóm með ICESAVE málinu. Vilhjálmur Bjarnason lét jafnvel út úr sér í Kastljósþætti að verðtryggingin væri réttlát. Ég hefði haldið að hvert einasta mannsbarn sæi ranglætið í þessu, og get ekki annað en spurt hvaða vonda málstað Vilhjálmur hafi að vera. Síðan kemur Þórólfur Matthíasson fram og gagnrýnir útreikninga Hagsmunasamtaka heimilanna, og í kjölfarið fylgir Hrannar Björn Arnarson, aðstoðarmaður forsætisráðherra eftir á Facebook með orðalaginu: "Blekkingar Hagsmunasamtaka heimilanna afhjúpaðar - allir fjölmiðlar gleyptu dæmin hinsvegar hrá !" Ekki veit ég hvaða hagsmuna þessir einstaklingar hafa að gæta, en þeir virðast hvorki hlutlausir né hafa mikinn áhuga á réttlæti. Því miður. Kannski þurfa þeir bara knús?

Rökin á móti verðtrygginginu snúast um réttlæti. Fyrir efnahagshrunið höfðu sumir sjóðir fitnað mikið, meðal þeirra lífeyrissjóðir, og krefjast þeir að stöðugt sé bætt gulli á hauginn í hlutfalli við haug sem þegar var alltof stór fyrir. Þessir sjóðir eru það eina sem virðist verða að vaxa þrátt fyrir að allt annað í kring hafi rýrnað. Á gullinu sitja ósnertanlegir drekar sem blása eldi og brennisteini á þá sem geta hugsanlega ógnað gulli þeirra á einhvern hátt.

Rökin með verðtryggingu snúast um hagsmuni. Hagsmuni þeirra sem stjórna drekunum. Hagsmuni þeirra sem eiga gullið og vilja sjá það vaxa meira. Þetta er hópur Jóakim Aðalanda sem áttar sig ekki á því að peningar eru ekki til að synda í, heldur til að nota og leyfa hjólum atvinnu og samfélags að snúast. Þessir Jóakimar eru svo reiðubúnir að verja gullið til skamms tíma að þeim er nákvæmlega sama þó að venjulegt fólk sjái lífskjör sín rýrna og eigin möguleika og drauma verða að engu. Þessum Jóakimum er nákvæmlega sama um alla nema Jóakim Aðalönd.

Réttlæti á við um alla. Hagsmunir eiga við um suma. Þessir fáu sem eiga auðinn munu berjast með kjafti og klóm til að halda honum og krefjast þess að hann vaxi. Og þeir eru að gera það, með verðtryggingunni.

Hugsaðu þér veislu árið 2006. Elton John mætir og syngur. Fínustu kræsingar á borðum. Rándýrt. Þúsund manns boðið. Og hvert ár eftir það er krafist þess að veislan verði 4% flottari, þrátt fyrir að veisluhaldarinn fór á hausinn árið 2008! Hvar er vitið í þessu?

Ég veit að til er fólk sem heldur því fram að þjóðaratkvæði eigi ekki við þegar kemur að skattlagningu og slíku, en ég held að þessir einstaklingar hafi rangt fyrir sér. Þjóðinni er hægt að treysta fyrir sjálfri sér.

Mætti ekki gefa þjóðinni kost á að greiða atkvæði um verðtrygginguna?  Hér með óska ég eftir þingmanni sem vill leggja það til á næsta þingi.


Gylfi Magnússon: Verðtrygging lána bönnuð víða um heim vegna baráttu gegn verðbólgu

Gylfi Magnússon, helsti hagfræðigúrú ríkisstjórnarinnar og fyrrverandi ráðherra, var virtur fræðimaður áður en hann fór í stjórnmál. Hann varð gífurlega vinsæll á meðal almennings eftir að hann hélt ræðu á mótmælafundi og ljóst að honum var ekki sama um heimilin í landinu. Síðan varð hann ráðherra. Við vitum hvað gerist þegar góð manneskja fær of mikil völd alltof fljótt. 

 

Smelltu á myndina til að skoða grein Gylfa Magnússonar á Vísindavefnum.

verdtrygginggylfim.jpg


Ísland eina landið í heiminum sem tryggir skuldir heimilanna?

Jóhanna Sigurðardóttir fjallar um efnahagsleg rök, sanngirni og verðtrygginguna. Loksins. Eða hvað?

Smelltu á myndina til að stækka hana.

islandverdrygging.jpg


Afnema verðtrygginguna?

Afnema verðtrygginguna. Afnema verðtrygginguna. Afnema verðtrygginguna.

Er ekki sagt að séu hlutirnir endurteknir nógu oft verði þeir að veruleika?

Afnema verðtrygginguna. Afnema verðtrygginguna. Afnema verðtrygginguna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband