Vissir þú að fyrsti jólasveinninn lenti í fangelsi fyrir að berja biskup?
23.12.2008 | 19:19

Jólin koma.
Sumir segja jólin vera kristna hátíð, aðrir segja hana vera heiðna. Allir þekkja Coca-Cola jólasveininn og líka hina 13 íslensku jólasveina sem sífellt reyna að bæta sig þrátt fyrir verra en slakt uppeldi hjá Grýlu og Leppalúða. Einhvern veginn tengist Jesúbarnið líka jólunum og vitringarnir þrír.
Talað er um anda jólanna, við köllum hann jólaskap. Þetta jólaskap er tengt því að hafa gaman af jólalögum, finna gjafir handa þeim nánustu og hlakka til aðfangadagskvölds og síðan jólahátíðarinnar allrar.
Hvaðan kemur jólaskapið?
Til að svara þeirri spurningu vil ég kynna þér fyrir manni sem fæddist um árið 275 í 15.000 manna bæ að nafni Patara sem staðsett er í Tyrklandi.
Hann hét Nikulás. Síðar var hann kallaður heilagur Nikulás.
Þegar hann var enn barn létust foreldrar hans, Epífaníus og Jóhanna, í faraldri. Þau voru kristin að trú og vellauðug, þannig að Nikulás erfði bæði kristna trú og mikil auðævi. Hann ákvað að verja auðævum sínum við að aðstoða hina fátæku, þjáðu og sjúku með því að gefa fólki sem þurfti á nauðsynjum að halda.
Hann gaf þessar gjafir með leynd og ætlaðist ekki til að fá neitt til baka.
Fræg saga segir af fátækum manni sem var við það að selja þrjár dætur sínar í þrældóm, að hann fann á heimili sínu þrjár pyngjur fullar af gulli, og tókst þannig að bjarga börnum hans frá hræðilegum örlögum. Pyngjurnar voru síðan raktar til Nikulásar.
Nikulás stundaði pílagrímsferðir til Jerúsalem og bjó þar um tíma, en flutti síðan aftur til Tyrklands, til borgarinnar Myra, sem nú heitir Demre. Nikulás er yfirleitt kenndur við Myra. Þar varð hann ungur að aldri biskup yfir borginni, og varð hann fljótt þekktur fyrir auðmýkt, gjafmildi til þeirra sem þurftu á að halda, ást hans á börnum, baráttu hans fyrir réttlæti og umhyggju hans fyrir sjómönnum og föngum.
Sögur fara af honum þar sem hann bjargaði þremur saklausum einstaklingum frá rómverskri aftöku, og var hann vel þekktur fyrir að skipta sér af þegar ranglátir dómar voru kveðnir upp og fólk fangelsað fyrir litlar eða rangar sakir. Einnig er sagt af ferðum hans til Konstantínópel (Istanbúl í dag) þar sem hann bað keisarann um að lækka skatta borgaranna í Myra. Einnig er sagt að hann hafi komið í veg fyrir hungursneyð með því að kaupa hveiti af skipum sem voru á leið til Alexandríu.
Einnig eru til af honum kraftaverkasögur sem færa töluvert í stílinn, en það sem hann afrekaði í hinu hversdagslega lífi var nóg til að hans er enn minnst í dag, þegar venjulegt fólk klæðist jólasveinabúningi og hjálpar jólasveininum að koma með gjafir í skóinn eða jólatréð, - þá er í raun verið að minnast heilags Nikulásar í verki.
Nikulás tók virkan þátt í að skjalfesta kenninguna um hina heilögu þrenningu og barðist af hörku fyrir henni á ráðstefnu í Nicaea, árið 325. Þegar Arius frá Egyptalandi hélt því fram að Jesús,sonur Guðs væri ekki jafningi föður hans, Guðs sjálfs, þá segir sagan að Nikulás hafi strunsað yfir gólfið og gefið Arius vænan löðrung.

Fyrir löðrunginn var Nikulás færður fyrir Konstantín keisara, sem bað biskupa um að ákveða refsinguna. Biskuparnir rifu af honum biskupaklæðin, hlekkjuðu hann og hentu í fangelsi. Nikulás skammaðist sín fyrir uppákomuna og bað fyrirgefningar.
Næsta morgun kom vörður að Nikulási í fangaklefanum. Voru hlekkirnir lausir og hann aftur kominn í biskupsklæði, og las hann í Biblíunni. Þegar keisarinn frétti af þessu krafðist hann lausnar Nikulásar og Nikulás var aftur gerður af biskup yfir Myra, og vann málið um að Jesús og Guð yrðu hér eftir taldir til jafningja. Þú þarft ekki að fara lengra en í trúarjátninguna og skoða aðeins sögu Kirkjunnar til að sjá hvað þessi ráðstefna hefur haft mikil áhrif.
Hvort að Jesús og María hafi birst Nikulás í fangelsinu þessa örlagaríku nótt og fært honum lesefni og biskupaklæði má liggja milli hluta - en það er sagan sem Konstantín keisari fékk að heyra. Sjálfum finnst mér líklegra að einhver hafi heyrt af vandræðum þessa góða manns sem hjálpað hafði svo mörgum, og ákveðið að koma honum til hjálpar.

Hvort sem er, þá er ljóst að þær hugmyndir sem hann lifði fyrir, að hjálpa þeim sem minna mega sín og að sælla sé að gefa en að þiggja, eiga enn við í dag og þá sérstaklega á jólunum.
Gleðilega hátíð!
Heimildir og myndir:
InstaPlanet Presents: Cultural Universe
Athugasemdir
DARK KNIGHT.
Ómar Ingi, 23.12.2008 kl. 23:44
Gleðileg jól
Óskar Þorkelsson, 24.12.2008 kl. 12:41
Gleðileg jól.
Brattur, 24.12.2008 kl. 14:34
Gleðileg jól!
Þorsteinn Briem, 24.12.2008 kl. 17:14
Bestu óskir um gledileg jól Hrannar minn.Megi árid 2009 vera tér farsælt og gefa gledi í hjarta.
falleg sagan af heilugun Nikulási.
Julehilsen fra Jyderup
Gudrún
Gudrún Hauksdótttir, 24.12.2008 kl. 23:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.