Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

20 mögulegar hugsanir sjálfhverfrar manneskju

egocentricHaldið hefur verið fram að heil kynslóð Íslendinga sé sjálfhverf. Sjálfhverfan er frekar heillandi hugtak, þar sem að hinn sjálfhverfi telur sjálfan sig alltaf hafa rétt fyrir sér, óháð rökum og aðsæðum; fær mikið út úr því að gera lítið úr öðru fólki, því þannig upphefur hann sig; elskar að fá athygli, því þannig fær hann staðfestingu á eigin ágæti.

Öll lendum við á sjálfhverfuskeiði einhvern tíma á lífsskeiðinu, yfirleitt á barnsaldri, en svo vöxum við upp úr henni. Mörg okkar, alls ekki öll. Þar sem að hin sjálfhverfa manneskja er líkleg til að trúa að hún sjálf hafi rétt fyrir sér í flestum hlutum, eru stjórnmál sjálfsagt eðlilegasti starfsvettvangur slíkrar manneskju, þar sem að flestir þeir stjórnmálamenn sem ná árangri, eru ekki þeir sem gefa eftir, heldur standa á sínu, hvað sem það kostar - nema kannski þegar það hentar þeim illa - og þá hafa þeir ekki skipt um skoðun, heldur aðeins gefið eftir til að vinna með öðrum. Sem er í sjálfu sér svolítið sjálfhverft. 

Mig langar að velta þessu fyrirbæri aðeins fyrir mér, og reyna að setja mig í spor sjálfhverfrar manneskju og reyna að átta mig á hvernig hugsanir skjótast í huga hennar - hugsanir sem hún er ólíkt þeim sem ekki eru sjálfhverfir, tilbúin að fylgja eftir í riti og verki. Það reynist mér afar auðvelt verk, þar sem ég fell inn í mengi Íslendinga á aldrinum 25-45 ára, og er þar af leiðandi sjálfhverfur samkvæmt skilgreiningu. Frown

Hér eru dæmin. Veltu þessu fyrir þér. Ef slíkar hugsanir eru afgerandi í þínum huga, þá ertu sjálfsagt sjálfhverf manneskja. Ef ekki, þá ertu kannski samhverf manneskja, sem er ekkert skárra. 

  1. "Allir hugsa eins og ég."
  2. "Ég er miðja alheimsins."
  3. "Ég fyrst."
  4. "Ég elska mig."
  5. "Allir eru að horfa á mig."
  6. "Öllum finnst merkilegt það sem ég segi."
  7. "Ég get stjórnað heiminum."
  8. "Ég er best(ur)."
  9. "Ég skapaði Guð."
  10. "Ef ég hef mína eigin skoðun, þá hlýtur hún að vera rétt."
  11. "Það er engin manneskja eins og ég."
  12. "Það er engin manneskja mikilvægari en ég."
  13. "Allir verða mér sammála á endanum, ef ég bara nenni að sannfæra þá."
  14. "Öll fegurð heimsins er falin í mér og ég er sá eini sem veit það."
  15. "Allir hinir eru heimskir."
  16. "Ég hlusta á engan sem hugsar ekki eins og ég."
  17. "Þau halda að ég sé vitleysingur, en sjá ekki að það eru þau sjálf sem eru vitlaus."
  18. "Allt sem fer úrskeiðis hlýtur að vera einhverjum öðrum að kenna en mér."
  19. "Djöfull eru flestir vitlausir að fatta ekki að það er ég sem segi sannleikann allan."
  20. "Pirrandi allir þessir bloggarar sem kunna ekki að skrifa almennilega íslensku, eins og ég."

Erum við orðin nógu klár til að þekkja fordóma og áróður?

Síðustu daga hafa birst frekar slakar greinar á Vísi þar sem orðið "sjálfhverft" er ofnotað, sem síðan hefur verið dreift með hneikslihrópum um Facebook, en fyrrverandi þingmaður setur sig í Hitlerstillingar og hrópar yfir mannfjöldann að allir sem tilheyra ákveðnum hópi séu á einn hátt og að allir sem tilheyra öðrum hópi séu á annan hátt. Hann kastar þar glösum úr glerhúsi.

Eins og við hefðum mátt læra af áróðursmaskínum síðari heimstyrjaldarinnar, og ýmsum pólitískum áróðursstríðum eftir það, þá felst öflugasti áróðurinn í því að skella skuldinni á hópa sem minnst mega sín. Þar voru gyðingar sakaðir um að stela öllum viðskiptatækifærum, fatlaðir sakaðir um að kosta samfélagið of mikið, samkynhneigðir sakaðir um að brengla siðferðisvitund þjóðarinnar, og þar eftir götunum.

Nú sakar þingmaðurinn fyrrverandi alla Íslendinga á ákveðnu aldursskeiði um að vera sjálfhverfir og bæði sökudólgar hruns og orsök þess að lífeyrisréttindi eldri borgara skerðist. Þessu staka spjóti sínu beinir hann gegn þeim sem verst hafa orðið úti vegna hrunsins. 

Þetta er ekkert annað en hatursáróður. Innsæi mitt segir, eða mig grunar, án þess að geta sannað það, að maðurinn beiti þessum áróðri til að tryggja pólitíska framtíð einhverra vina sinna, sem eru þá væntanlega af sama sauðahúsi.

Það eru því miður alltaf einhverjir sem hlusta illa, og hugsa með sér að þetta geti verið satt, að einhver sannleiksbrot hljóti að felast í þessu, þar sem ekkert afsannar slíkar úthrópanir. Ekkert sannar þær heldur. Ekki frekar en að nokkur sönnun er til staðar fyrir grun mínum eða innsæi, sem varð þess valdandi að ég skrifaði þessa grein.

Slíkt er eðli fordóma og áróðurs.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband