Færsluflokkur: Heimspeki

Þurfum við trú til að öðlast mannlegan þroska?

Öll trúum við einhverju. Hugsanlega trúum við öll á eitthvað líka.

Í fyrri skilningnum geturðu trúað því að mjólkin sem þú drekkur sé ekki komin yfir síðasta neysludag. Í seinni skilningnum getur verið að þú trúir á Guð, guði, hið guðlega eða fjarveru alls guðlegs. Þetta stutta erindi fjallar um síðari skilninginn á trú. Höfundur svarar ekki spurningunni, heldur veltur henni aðeins fyrir sér.

Á þessum dögum rafrænnar alheimsmenningar er auðvelt að sjá skýrt og greinilega að trúarbrögð eru ólík um allan heim, og efasemdarmenn sjá auðveldlega að sögurnar á bakvið öll þessi trúarbrögð og guðlegu verurnar geta ekki allar verið sannar, alls staðar og um allan tíma, nema vegirnir séu því óútskýranlegri.

En slík trú snýst ekki um sannleikann, því þá væru kerfin kringum trúna ekki kölluð trúarbrögð, heldur sannleikabrögð. Slíkt er náttúrulega fjarstæða. Samt heldur fólk áfram um allan heim að iðka sín trúarbrögð, og maður getur ekki annað en forvitnast um af hverju það sé. 

Trúarbrögð eiga það sameiginlegt að hafa eitthvað göfugt markmið, einhverja fallega sýn, eitthvað sem fullkomnar lífið þegar því loks lýkur. Kristnir, gyðingar og múslímar fara til himnaríkis, sannir fylgjendur Búdda öðlast upplýsingu, goðatrúarmenn fara til Valhallar, hindúar fæðast aftur og aftur, og þar fram eftir götunum. En fólk kemst ekki á þessa eftirsóknarverðu staði með því einu að lifa og deyja, nei, það þarf nefnilega að kaupa sér aðgangsmiða. Og þar er lykillinn að gildi trúarbragða.

Leiðirnar til að kaupa aðgangsmiðann eru ólíkar, en þessar leiðir gefa lífi þess sem lifir ákveðið gildi. Viðkomandi verður þátttakandi í sögu, og skiptir þá engu máli hvort hún sé sönn eða ekki, heldur er málið að þetta er saga sögð kynslóð eftir kynslóð, og hún er ekki endilega skráð í bók, heldur með verkum.

Kristnir reyna að lifa góðu lífi, fylgja fordæmi Jesús Krists, sem fórnaði sjálfum sér fyrir syndir mannkyns, eins og sagan segir, og boðaði að fólk ætti að fyrirgefa hvoru öðru, eina leiðin til að breyta röngu í rétt væri með kærleika og fyrirgefningu. Goðatrúar aftur á móti héldu að það væri skylda sérhvers manns að rétta fyrir hið ranga sem einhverjum var gert, hugsanlega með blóðhefnd, eða dæma viðkomandi fyrir dómstólum. Eitt af mikilvægustu gildum margra gyðinga sem ég hef kynnst um ævina er að leita sér sannrar þekkingar, á meðan þeir sem stunda Búdda leita uppljómunar leita eftir visku, og múslímar gera sitt besta til að vernda allt það sem í trú þeirra er heilagt.

Það skondna við þetta er að öll þessi (og fleiri) trúarbrögð hafa rétt fyrir sér, þau eru rétt út frá menningarheimi viðkomandi, en eru líka röng út frá fræðilegu eða vísindalegu sjónarhorni, þar sem þau líkjast meira hindurvitnum en sannleikanum.

Samt eiga fræði og vísindi ekki auðvelt með að gagnrýna trúarbrögðin sem hindurvitni, því eðli þeirra vegna hafa þau ekki upp á neitt að bjóða í staðinn. Ástæðan er sú forsenda vísinda að þau eru þekkingarleit, en ekki sannleikur eða þekking. Hins vegar getur manneskja sem engum trúarbrögðum fylgir, og nemur vísindi, talið sig hafa næga visku eða þekkingu til að meta trúarbrögð sem einskis virði, og upphefja þess í stað trú sem byggir á vísindalegum upplýsingum og kenningum. 

Vandinn við vísindalegar kenningar er að þær eru síbreytilegar. Ef þú trúir einhverju eins og flestir nútímamenn gera, á að heimurinn hafi byrjað í stóra hvelli, útilokarðu þann möguleika að þessi kenning geti verið röng og muni af framtíðar eðlisfræðingum vera afsönnuð. Það sama á við allar aðrar kenningar vísinda, sama hvað þær virðast sannfærandi.

Þá situr eftir spurningin, er ekkert eftir sem hægt er að trúa á? Er hægt að trúa á gagnrýna hugsun, skynsemi, eða heilbrigða skynsemi? Er hægt að taka ákvarðanir út frá þeim hugmyndum og kenningum sem eru til staðar, hvort sem þær eru byggðar einungis á fræðum og vísindum, eða að einhverju leyti á reynslu fyrri kynslóða? Hvernig ætli maður feti sig um slíkan heim? Þarf maður að vita allt, fylgjast með öllu, eða kannski bara rækta sjálfan sig?

Þyrftum við að trúa á skynsemina til að öðlast mannlegan þroska, eða er nóg að vita til hennar? Vandinn hérna er hugsanlega sá að sú vinna sem fer í að vera skynsamleg manneskja krefst miklu meira heldur en sú vinna sem fer í að fylgja trúarbrögðum, og það er ekkert víst að allir nenni að trúa á skynsemina.

Eða er hin nýja trú, kannski trúin á lífið sjálft, á dygðina, dugnaðinn, hugrekki, og allt það góða í mannlegu fari, eitthvað sem við getum pælt í með því að hlusta á sögur eða horfa á kvikmyndir, og ræða ekki aðeins hvort sagan var góð, heldur líka persónurnar, hvort þær hafi verið góðar eða illar, ekki bara vel eða illa samdar, og þá út frá hvaða heimsmynd. Er þetta svipuð aðferð og hlusta á fornar mýtur og dæmisögur, og meta hið góða og illa út frá þeim, þar sem hið góða og illa er ekki eitthvað sem leynist í sögunum, heldur eitthvað sem býr djúpt í okkur sjálfum?

Hugsanlega skiptir það okkur á endanum mestu máli að bæta heiminn, eða að minnsta kosti þann heim sem börn okkar munu erfa. Til að það sé mögulegt, þurfum við að átta okkur á sögunni um heiminn og hvernig hægt er að hafa góð áhrif á hann til framtíðar. Það krefst trúar, því að skilningur á sögum krefst trúar, eða að sjá annað en það sem er innan seilingar.


Af hverju þurfum við að hugsa betur?

Við lifum á tímum 'annars konar staðreynda' og 'teygjanlegra hugtaka' þar sem skoðanir og sannfæringarkraftur virðist skipta meira máli í daglegri umræðu en staðreyndir og rök.

Stjórnmálamenn eru kosnir til valda á þeirri forsendu að þeir standi við kosningaloforð sín, og þegar þeir gera eða geta það ekki, þurfa þeir að standa eða falla með kjósendum sem virðast standa á sama hvort menn standi við orð sín, og virðast telja mikilvægara að viðkomandi líti vel út, komi vel fyrir sig orði og sé svolítið snyrtileg(ur).

Þetta er ekkert nýtt. 

Sá sem segir alltaf satt, rökstyður mál sitt vel, hugsar skýrt, sýnir auðmýkt, vísar í staðreyndir og áreiðanlegar heimildir, sá virðist hafa lítið roð í þá sem kunna að ljúga og pretta, flækja mál sitt með útúrsnúningum, þykjast vita allt en vita í raun lítið, og vísa í sögusagnir, eigin ímyndun og slúður máli sínu til stuðnings.

Lygarinn kallar hinn sannsögla lygara og hinn sannsögli kallar lygarann lygara, en fyrir þá sem ekki hafa nennu til að hugsa gagnrýnið um málflutninginn, meta áreiðanleika og gæði rökhugsunar á bakvið orðin, mun mögulega trúa lygaranum og efast um áreiðanleika þess sem gerir sitt besta til að segja alltaf satt.

Lygarinn vísar í tilfinningar, sá sannsögli í staðreyndir. Allir skilja tilfinningar, þær eru einfaldar, og eiga samhljóm með okkur öllum, en staðreyndir þurfa að vinna sér sess og hægt er að efast um þær, eins og alla vísindalega þekkingu. Efi kemst ekki fyrir þegar um tilfinningar eru að ræða, annað hvort er eitthvað sorglegt, skammarlegt, gleðilegt, eða eitthvað slíkt, á meðan staðreyndir eru oft umdeildar, eins og hvort hnatthlýnun sé í raun mögnuð upp af mannkyninu, hvort að heimurinn sé einfaldlega til af náttúrunnar hendi, hvort að alheimurinn sé endalaus eða endi, jafnvel hvort að kókosolía sé holl eða ekki.

Hlustum vandlega á þá sem fara með völdin eða vilja fá þau, og þá sem taka mikilvægar ákvarðanir. Nota þeir tilfinningar sem rök, eða staðreyndir? Vísa þeir í rök eða tilfinningar?

Taktu eftir hvað það er miklu auðveldara að mynda sér skoðun um útlit og framkomu einhvers heldur um það sem viðkomandi hefur að segja. Veltu fyrir þér hvort þér finnist viðkomandi traustsins verð(ur) vegna framkomu eða vegna meiningar og merkingar þess sem viðkomandi hefur að segja.

Okkur líkar auðveldlega við þá sem eru fyndnir og orðheppnir, en ekkert endilega við þá sem eru alvarlegir og nákvæmir.

Við erum líklegri til að slást í hóp með lygurum þar sem þeir höfða til tilfinninga okkar, svo framarlega sem við veltum ekki stóra samhenginu fyrir okkur.

Hugsum betur, því þá getur reynst erfitt að blekkja okkur.


Áramótaheit 2013

serenity-wide_450

Árið 2014 rennur brátt að ósi, bakkafullum af loforðum. Betri tímar bíða handan við næsta horn, ævintýrin og möguleikarnir láta ekki á sér standa.

Ég heiti því að vera opinn fyrir tækifærum og ef þrautin reynist að stökkva yfir fljótið þar sem bilið virðist of breitt, að hafa hugrekki, leikni og þor til að taka stökkið.

Ég bið um stóíska ró til að viðurkenna það sem ég get ekki breytt, hugrekki til að breyta því sem ég get breytt, og visku til að þekkja muninn á því sem ég get og get ekki breytt.

Megi árið 2014 verða þér til heilla, bloggvinur og lesandi góður!

 

Áramótakveðja,

Don Hrannar 

 

 ---

 

Mynd: HD Wallpapers 

Heimildir: Æðruleysisbænin úr Biblíunni endurskrifuð með mínum orðum. 


20 mögulegar hugsanir sjálfhverfrar manneskju

egocentricHaldið hefur verið fram að heil kynslóð Íslendinga sé sjálfhverf. Sjálfhverfan er frekar heillandi hugtak, þar sem að hinn sjálfhverfi telur sjálfan sig alltaf hafa rétt fyrir sér, óháð rökum og aðsæðum; fær mikið út úr því að gera lítið úr öðru fólki, því þannig upphefur hann sig; elskar að fá athygli, því þannig fær hann staðfestingu á eigin ágæti.

Öll lendum við á sjálfhverfuskeiði einhvern tíma á lífsskeiðinu, yfirleitt á barnsaldri, en svo vöxum við upp úr henni. Mörg okkar, alls ekki öll. Þar sem að hin sjálfhverfa manneskja er líkleg til að trúa að hún sjálf hafi rétt fyrir sér í flestum hlutum, eru stjórnmál sjálfsagt eðlilegasti starfsvettvangur slíkrar manneskju, þar sem að flestir þeir stjórnmálamenn sem ná árangri, eru ekki þeir sem gefa eftir, heldur standa á sínu, hvað sem það kostar - nema kannski þegar það hentar þeim illa - og þá hafa þeir ekki skipt um skoðun, heldur aðeins gefið eftir til að vinna með öðrum. Sem er í sjálfu sér svolítið sjálfhverft. 

Mig langar að velta þessu fyrirbæri aðeins fyrir mér, og reyna að setja mig í spor sjálfhverfrar manneskju og reyna að átta mig á hvernig hugsanir skjótast í huga hennar - hugsanir sem hún er ólíkt þeim sem ekki eru sjálfhverfir, tilbúin að fylgja eftir í riti og verki. Það reynist mér afar auðvelt verk, þar sem ég fell inn í mengi Íslendinga á aldrinum 25-45 ára, og er þar af leiðandi sjálfhverfur samkvæmt skilgreiningu. Frown

Hér eru dæmin. Veltu þessu fyrir þér. Ef slíkar hugsanir eru afgerandi í þínum huga, þá ertu sjálfsagt sjálfhverf manneskja. Ef ekki, þá ertu kannski samhverf manneskja, sem er ekkert skárra. 

  1. "Allir hugsa eins og ég."
  2. "Ég er miðja alheimsins."
  3. "Ég fyrst."
  4. "Ég elska mig."
  5. "Allir eru að horfa á mig."
  6. "Öllum finnst merkilegt það sem ég segi."
  7. "Ég get stjórnað heiminum."
  8. "Ég er best(ur)."
  9. "Ég skapaði Guð."
  10. "Ef ég hef mína eigin skoðun, þá hlýtur hún að vera rétt."
  11. "Það er engin manneskja eins og ég."
  12. "Það er engin manneskja mikilvægari en ég."
  13. "Allir verða mér sammála á endanum, ef ég bara nenni að sannfæra þá."
  14. "Öll fegurð heimsins er falin í mér og ég er sá eini sem veit það."
  15. "Allir hinir eru heimskir."
  16. "Ég hlusta á engan sem hugsar ekki eins og ég."
  17. "Þau halda að ég sé vitleysingur, en sjá ekki að það eru þau sjálf sem eru vitlaus."
  18. "Allt sem fer úrskeiðis hlýtur að vera einhverjum öðrum að kenna en mér."
  19. "Djöfull eru flestir vitlausir að fatta ekki að það er ég sem segi sannleikann allan."
  20. "Pirrandi allir þessir bloggarar sem kunna ekki að skrifa almennilega íslensku, eins og ég."

Erum við orðin nógu klár til að þekkja fordóma og áróður?

Síðustu daga hafa birst frekar slakar greinar á Vísi þar sem orðið "sjálfhverft" er ofnotað, sem síðan hefur verið dreift með hneikslihrópum um Facebook, en fyrrverandi þingmaður setur sig í Hitlerstillingar og hrópar yfir mannfjöldann að allir sem tilheyra ákveðnum hópi séu á einn hátt og að allir sem tilheyra öðrum hópi séu á annan hátt. Hann kastar þar glösum úr glerhúsi.

Eins og við hefðum mátt læra af áróðursmaskínum síðari heimstyrjaldarinnar, og ýmsum pólitískum áróðursstríðum eftir það, þá felst öflugasti áróðurinn í því að skella skuldinni á hópa sem minnst mega sín. Þar voru gyðingar sakaðir um að stela öllum viðskiptatækifærum, fatlaðir sakaðir um að kosta samfélagið of mikið, samkynhneigðir sakaðir um að brengla siðferðisvitund þjóðarinnar, og þar eftir götunum.

Nú sakar þingmaðurinn fyrrverandi alla Íslendinga á ákveðnu aldursskeiði um að vera sjálfhverfir og bæði sökudólgar hruns og orsök þess að lífeyrisréttindi eldri borgara skerðist. Þessu staka spjóti sínu beinir hann gegn þeim sem verst hafa orðið úti vegna hrunsins. 

Þetta er ekkert annað en hatursáróður. Innsæi mitt segir, eða mig grunar, án þess að geta sannað það, að maðurinn beiti þessum áróðri til að tryggja pólitíska framtíð einhverra vina sinna, sem eru þá væntanlega af sama sauðahúsi.

Það eru því miður alltaf einhverjir sem hlusta illa, og hugsa með sér að þetta geti verið satt, að einhver sannleiksbrot hljóti að felast í þessu, þar sem ekkert afsannar slíkar úthrópanir. Ekkert sannar þær heldur. Ekki frekar en að nokkur sönnun er til staðar fyrir grun mínum eða innsæi, sem varð þess valdandi að ég skrifaði þessa grein.

Slíkt er eðli fordóma og áróðurs.


Leitin að hinu óþekkta

lestkristiansand.jpg
 
Ég sit í lest og ferðast frá Stavanger til Kristiansand, í Noregi. Það er myrkur þarna úti. Ég veit að tré, fjöll, vötn og fjöldi fólks streymir framhjá mér, eða þá að ég streymi framhjá því. Og ég veit að þetta eru allt tré, fjöll, vötn og fólk sem ég þekki ekki. Jafnvel þó að ég þekki eitthvað til einhverra þeirra.
 
Og ég átta mig á að ferðalagið í gegnum þetta líf er svolítið eins og að sitja í þægilegu sæti við lestarglugga og horfa á allt hið óþekkta streyma framhjá, og ég átta mig á að þegar við ferðumst svona hratt, þurfum við eitthvað til að halda okkur í, við þurfum á einhverju að halda sem við þekkjum. Kannski þess vegna logga ég mig inn á bloggið mitt með iPadnum mínum og byrja að skrifa. Og ég skrifa þér þó að ég þekki þig ekki neitt, og kannski vegna þess að ég tel mig þekkja þig að einhverju leiti. Og innst inni veit ég að þessi þú sem ég skrifa, er ég sjálfur, einhvers staðar í framtíðinni, einstaklingur sem man ekki til þess að hafa skrifað þessi orð, en gerði það samt. 
 
Þannig verð ég sjálfur jafn ókunnugur og hver annar sá sem les þessi skrif.  
 
Reyndar þarf ég ekki að hugsa lengi til að sjá að jafnvel hugur minn er umhverfi fullt af trjám, fjöllum vötnum og fjölda fólks sem ég þekki ekki. Því að hver einasta manneskja sem ég hef kynnst, ég gæti kynnst henni betur; hvert einasta tré sem ég hef séð, gæti ég snert; og hvert einasta fjall sem ég hef klifið, gæti ég klifið aftur. 
 
En alltaf staldra ég við það sem ég þekki, þegar tími gefst til þess. Hugsanlega vegna þess að ég vil kynnast því betur. Sem þýðir kannski í raun að vilji ég þekkja það betur, sé ég svolítið heillaður af hinu óþekkta. Og ég veit að það litla sem ég veit er eitthvað sem ég get þekkt betur, og því er ég umkringdur hinu óþekkta. Af hverju ætli við leitum svo stíft af þekkingu, þegar svo lítið er af henni að hafa, og svo lítið af vanþekkingu okkar sjálfra, þegar úr svo miklu er að moða?
 
Við ferðumst gegnum þetta líf og stærum okkur af því sem við þekkjum, því við teljum okkur vera það sem við vitum, vera þær prófgráður sem við höfum náð í skólum lífsins. En kannski erum við einmitt ekki það sem við þekkjum, heldur nákvæmlega það sem við ekki þekkjum, því að lífið er ekki eitthvað sem stendur í stað, heldur streymir áfram og afmáir allar minningar, þannig að það eina sem eftir stendur er eitthvað sem ekki fæst afmáð. Og hvað er það? Kannski þekkingarleysið sjálft? Nakinn skilningur? Eða kannski það sem við erum innst inni og yst úti?
 
Við erum ekki það sem við höfum, við erum það sem við leitum. Við erum það sem við beinum athygli okkar að á hverri stundu. Og athygli mín er stöðugt á námi, á því hvernig við lærum, og ég heillast af augnablikum þar sem ég uppgötva mig sem fáfróðan, þegar ég geri mistök, þegar ég geri eitthvað heimskulegt, eitthvað sem ég skammast mín fyrir, og reyni síðan að átta mig á hvaðan mistökin koma. 
 
Góður vinur minn telur að þetta sé stöðug leit að afsökunum, en ég tel mig vita að  að þetta er leit að skýringum, skilningi á sjálfum mér og heiminum, því að oft veit ég ekki af hverju ég geri mistök - þau bara gerast, og ég hef þessa þörf til að setja saman kenningar um hvaðan mistökin spretta. Og þá helst til að koma í veg fyrir að þau gerist aftur af mínum völdum.
 
Stundum geri ég mistök þegar ég er veikur fyrir, stundum vegna  hugarfars - því ekki er ég fullkominn þar frekar en nokkur annar - stundum finn ég til hroka, þeirri hugmynd að ég geti gert hlutina betur en allir aðrir, og stundum finnst mér ég hafa lífið í hendi mér, en það er á slíkum augnablikum sem mistökin koma í heimsókn og minna mig á að auðmýktin skili meiru en hrokinn. 
 
Ég er alltaf í leit að þessu augnabliki þar sem allt stendur í stað, þar sem allt er fullkomið, þar sem ekkert getur orðið betra, en svo átta ég mig á að þetta augnablik finnst ekki í lífinu, þar sem lífið stendur aldrei í stað. Kannski finnast þessi augnablik í þeim verkum sem maður skilur eftir sig. Eins og þessari bloggfærslu, til dæmis.
 
En hvaða verk skil ég eftir mig, þar sem ég þýt gegnum heiminn í þessari hraðlest? Er ég eitthvað meira en gufa sem líður upp í andrúmsloftið? Eru þessi skrif eitthvað meira en bókstafir sem birtast örfáum augum og gleymast svo á troðfullri lestarstöð, fullu af fólki sem getur varla beðið eftir að komast inn í lestina sem ég er að fara úr? Við þurfum nefnilega alltaf að kíkja á næsta blogg, lesa næstu grein, gera eitthvað annað.
 
Við erum alltaf á leiðinni út í buskann.
 

Af hverju eru lygar skaðlegar?

 liar
 
Lygar eru eitt af þeim fyrirbærum í þessum heimi sem vert er að fyrirlíta. Ég er ekki að tala um saklausan skáldskap, eða þegar fólk segir eitthvað rangt vegna þess að það veit ekki betur, heldur þegar það viljandi segir ósatt. Reynir að blekkja með orðum.
 
Sá sem lýgur, getur gert það af ýmsum ástæðum, til dæmis gæti viðkomandi talið að lygin hjálpaði honum að verja slæman málstað, geti verið gagnleg við ákveðnar aðstæður, eða væri einfaldleg skemmtilegri en sannleikurinn. Ástæðurnar eru margar. Helsta uppspretta lyga virðist tengjast hagsmunavörslu, sérstaklega þegar hagsmunirnir tengjast eigin skinni.
 
Afleiðingarnar eru alltaf þær sömu þegar litið er til lengri tíma, skaðlegar fyrir lygarann og það samfélag sem lygarinn lýgur að. Hugsanlega lifir lygarinn við þá sjálfsblekkingu að lygar séu skaðlausar, og einfaldlega nauðsynlegur hluti af leiknum sem þetta líf getur verið í hans huga, og réttlætir sig jafnvel með þeirri hugsun að allir hinir ljúgi líka. Og ekki er ólíklegt að viðkomandi muni taka þetta afar sjúka viðhorf til heimsins, með sér i gröfina.
 
Það er tvennt sem einkennir lygara: þeir eru yfirleitt tilbúnir til að taka sér afstöðu óháð þeim upplýsingum sem fyrir liggja, og þar að auki hafa þeir mikla trú á eigin minni og gáfum. Því varla lýgur sá sem telur sig ekki geta valdið lýginni til lengri tíma? Þeir telja sig klára, en eru það ekki, því að lygin gerir þá sem ástunda hana sífellt heimskari. Sjálfur treysti ég ekki eigin minni. Of oft hefur mig misminnt um staðreyndir og hef upplifað þá sorglegu mæðu sem fylgir því að hitta manneskju og muna ekkert eftir henni. Ef svona erfitt getur verið að muna sannleikann, hversu erfitt ætli það sé að muna lygarnar og aðgreina þær frá sannleikanum til lengri tíma litið? Frekar treysti ég á skilninginn, og gagnrýna hugsun, að virða hlutina fyrir mér í hvert sinn sem ég rannsaka þá, eins og ég sé að gera það í fyrsta sinn.
 
Hvernig gera lygar einstakling heimskari? Jú, sjáðu til. Við tengjum okkur saman í mannlegu samfélagi með orðum, og á meðan setningarnar og meiningarnar í orðunum eru sannar, þá getum við byggt upp traust samfélag saman, treyst hverju öðru, vaxið saman. Þegar lygarar blanda sér í slíkt samfélag, yfirleitt til að láta sig og sín sjónarmið líta betur út, þá hefur það áhrif á hvernig við upplifum  veruleikann.  Þegar við uppgötvum síðan að það er gjá milli veruleikans sjálfs og þess veruleika sem við trúum á, vakna spurningar um hvernig heimurinn sem við upplifum varð að öðru en því sanna. 
 
Unglingar sem vaxa úr grasi sjá stundum hræsnina sem fylgir lygum, því þeir eru tengdir við hinn náttúrulega heim, og eru enn að móta trú sína á heiminum, og þeir sjá í gegnum lygarnar, að minnsta kosti um sinn. 
 
Reynst getur erfitt að rekja þræðina í lyganetinu, og hugsanlega er það vonlaust verk, en sá sem í upphafði lagði fram lygina, hefur tekist að skekkja heimsmyndina, og hefur tekist að rugla samfélagið í rýminu, þannig að það verður veikara fyrir, og tefur fyrir framförum, hugsanlega í einhver ár, en það fer sjálfsagt eftir völdum viðkomandi. 
 
Er eitthvað heimskulegra en slík verk?

Ert þú vel menntuð manneskja?

Jean+Jacques+Rousseau

 

"Um leið og við verðum meðvituð um tilfinningar okkar, höfum við tilhneigingu til að leita eftir eða forðast þá hluti sem valda þeim, í fyrstu vegna þess að þeir eru ánægjulegir eða óþægilegir, síðan vegna þess að þeir henta okkur eða ekki, og að lokum vegna dóma við byggjum á hugmyndum um hamingju og hið góða sem rökhugsunin gefur okkur. Þessar hneigðir styrkjast og festa rætur með vexti rökhugsunar, en hefðir sem meira eða minna eru vafðar úr fordómum okkar, hindra okkur." (Jean-Jacques Rousseau, Emile)

 

Hugtakið menntun speglar þroska manneskjunnar. Til að öðlast menntun þarf sérhver að ná valdi á þremur þroskastigum. Fyrst, að átta sig á því sem veldur henni ánægju eða óánægju og ná einhvers konar stjórn á þessum fyrirbærum, þannig að lífið verði ánægjulegt. Annað stig er að átta sig á því gagnlega, gagnslausa og skaðlega, fyrir okkur sjálf, og einbeita okkur að því gagnlega. Þriðja stigið er síðan tengt hinu góða, og hamingjunni, og þá þýðir hamingja ekki aðeins eigin ánægja, eða farsæld í eigin lífi, heldur er hún vafin inn í það samfélag sem einstaklingurinn byggir með öðru fólki. Hið góða byggir þá á tvenns konar rótum, því sem gerir samfélagið hamingjusamt, án þess að fórna heilindum sem fylgja góðum verkum.

Sú manneskja sem nær þessu hæsta stigi menntunar er þó ekkert endilega líkleg til að verða vinsæl eða vel metin af þeim sem ekki hafa náð sama stigi, og þó að hún reyni fyrst og fremst að hjálpa hinum að komast á þetta góða stig, þá segir sagan okkur að þeir sem fastir eru á stigunum fyrir neðan séu of fastir í viðjum eigin fordóma og venja að þeir átti sig á að góð gagnrýndi geti hjálpað þeim, þó svo að um stundarsakir geti hún virst óþægileg. Sagnfróðir menn geta fundið fjölmörg dæmi þessu til stuðnings.

Lítum aðeins á Ísland. Á Alþingi Íslendinga eru fjölmargar manneskjur, og virðast þær því miður ekki allar hafa náð valdi á þriðja stigi menntunar, þó að vissulega séu undantekningar á þessu greinilega til staðar. Þeir sem berjast fyrir sérhagsmunahópa eru á öðru stigi menntunar og kæra sig ekkert um þetta þriðja stig, því það er þeim framandi og engan gróða að finna í því. Og því miður má finna manneskjur á þingi sem virðast ekki einu sinni hafa náð valdi á fyrsta stiginu. Ég nefni engin nöfn.

Ekki misskilja mig. Háskólanám er ekki trygging fyrir að manneskja nái valdi á þessu þriðja stigi, því að viðkomandi getur haft áhuga fyrst og fremst, alla sína háskólatíð, á hvað honum eða henni þykir ánægjulegt eða gagnlegt fyrir sjálfa sig; án þess að velta því fyrir sér eitt augnablik hvað sé gott fyrir samfélagið. Og þá getur samfélagið verið, ekki einungis Ísland, heldur einnig alþjóðasamfélagið, og jafnvel félagasamtök. Samt verður að finna jafnvægi milli hamingju heildarinnar og hamingju einstaklings.

Hugsanlega getur sex ára barn verið vel menntað, búið að ná valdi á þessum þremur stigum, en fer svo inn í skólakerfi sem afnemur þessa menntun og villir barninu sýn. Slík menntun getur þó verið gagnleg fyrir flest börn, þó að réttast væri að hafa augun opin þegar kemur að mögulegum undantekningum. Og þá væri best að finna þessum undantekningum farveg sem hentar þeirra gáfum og lífssýn.

Helstu óvinir þeirrar manneskju sem leitar hamingju og hins góða er viðhaldið með venjum og hefðum. Þó að þessar venjur og hefðir virðist virðulegar í dag, eru margar þeirrar sprottnar úr fordómum sem við myndum varla með glöðu geðji samþykkja að byrja á í dag.

Til að mynda er þingmönnum skipað að ávarpa aðra þingmenn sem "hæstvirta", þrátt fyrir að viðkomandi þingmenn beri enga virðingu fyrir viðkomandi þingmanni, og geri ekkert til að ávinna sér slíka virðingu með verkum sínum. Það eina sem gefur virðingartitilinn er að vera kosinn inn á þing. Þarna má finna aragrúa fordóma í einu litlu hugtaki.

Fyrsti fordómurinn sem ég kem auga á hér, er sú skoðun að einhver geti verið meira virtur en aðrir. Þarna má finna hugmynd sem á rætur í hugmyndum um stéttarskiptingu, og þegar hugtakið er notað í sífellu, er hætt við að viðkomandi verði ónæmur fyrir þeim fordómum sem lita hugtakið. Kæmi bloggari inn á þing, bara í heimsókn, og væri talað við hann eða hana úr ræðustól, þá væri viðkomandi ekki áyrtur sem hæstvirtur. Það eitt er umhugsunarvert.

Annað, og það er þegar manneskja sem greinilega þolir ekki aðra manneskju, kallar hana "hæstvirta". Með þessu er viðkomandi að setja afar slæmt fordæmi, því að hún lýgur að öllum þeim sem eru að hlusta, hún gefur tvö ólík skilaboð, bæði einhvers konar hatur og einhvers konar ást. Þetta er í besta falli slæm fyrirmynd fyrir aðra þjóðfélagsþegna, og í versta falli skaðleg lygi sem grefur undan virði virðingarhugtaksins.

Í þriðja lagi, þá er virðing ekki eitthvað sem maður fær í hendurnar eða hefur, heldur eitthvað sem maður verður að ávinna sér í heiðarlegri samvinnu með öðru fólki. Og önnur manneskja getur ekki ætlast til að borin sé virðing fyrir henni, aðeins vegna þess að hún hefur áunnið sér eitthvað sæti, heldur þyrfti að virða það við aðra manneskju sem ekki er tilbúin til að bera fyrir henni tilsetta virðingu.

Aftur á móti, getum við sagt sem svo, að ef forminu er sleppt, þá leysist stjórnsýslan upp í stjórnleysi, að grafið sé þannig undan undirstöðum skynsamlegrar umræðu. Ég held að þessu sé einmitt öfugt farið, að með því að viðhalda hefðum sem byggja á fordómum, þá séum við að grafa undan skynsamlegri umræðu, ekki öfugt. Geta fordómar verið grundvöllur fyrir góðar ákvarðanir? Ég leyfi mér að efast um það.

Ég vildi óska þess að á hverju einasta þingi heims væru einungis manneskjur sem náð hefðu valdi á öllum þremur þroskastigum menntunar. Ég veit að svo er ekki, og ólíklegt að þessi draumur rætist í mínu lífi, ekki einu sinni á litla Íslandi.

En það kostar ekkert að leyfa sér að dreyma.


Af hverju höfum við ekki ennþá lært að vinna saman?

critical-thinking

 

"Við erum borin í heiminn lasburða, og þurfum styrk; bjargarlaus, þurfum við aðstoð; galin, þurfum við rökhugsun. Allt þetta skortir okkur við fæðingu; allt sem við þurfum til að verða mennsk, er gjöf menntunar.

Þessi menntun kemur til okkar frá náttúrunni, frá mönnum, og frá öðrum fyrirbærum. Innri vöxtur líffæra okkar og gáfna tilheyrir menntun af náttúrunnar hendi, hvernig við lærum að nota þennan vöxt er menntun af manna völdum, það sem við lærum af reynslu um umhverfi okkar er menntun tengd fyrirbærum."

Jean-Jacques Rousseau, Emile. 

 

Hefurðu nokkurn tíma velt fyrir þér af hverju börn fara í skóla. Ég meina, virkilega velt því fyrir þér, af dýpt, velt því vandlega fyrir þér?  

Okkur finnst sjálfsagt að senda börn okkar í skóla, fyrst í leikskóla, síðan barnaskóla, þar á eftir gaggó, og síðan framhaldsskóla og þar á eftir í háskóla ef vel hefur gengið á skólaferlinum, og þar geta börnin fengið jafnvel orðið af doktorum sem ílengjast mögulega alla sína ævi í skólastofnun.

Eru skólar nauðsynlegir? Hvað læra börn í skólum?

Við byrjum á því að læra bókstafi og að telja. Lestur og reikningur eru þannig grundvallarnám. En á sama tíma lærum við að sitja í skólastofu með fjöldanum öllum af ókunnugu fólki, og okkur er ætlað að læra þá list að umgangast þetta fólk af virðingu. Misjafnlega tekst til.

Það virðist stundum flækjast fyrir fólki hvernig börn læra að bera virðingu fyrir hvert öðru. Stundum mætti halda að hún yrði til af sjálfri sér, og þá einatt í kappleikjum. Þeir duglegustu í kappleikjunum vinna sér hugsanlega inn meiri virðingu en hinir sem geta minna.  Af dýrkun okkar á kappleikjum og samkeppni kennum við börnum okkar að sigurvegararnir eru þeir sem virðingar njóta. Það er tilgangurinn sem helgar meðalið.

Sé þetta satt, þá er það sorgleg staðreynd.

Við eigum það til að gleyma því að styrkleiki okkar finnst ekki í samkeppni, heldur fyrst og fremst í samvinnu. Þetta sýnist mér hafa gleymst að einhverju leiti í íslenskri samfélagsmynd... eða ætti ég að kalla þetta samkeppnismynd?

Þeir sem skora framúr, þeir sem græða mest, þeir sem eru kosnir, hinir útvöldu, þeir erfa ríkið. Hinir fylgja þeim eftir og ráða ekki neinu. Með því að einbeita okkur að þeim örfáu sem skara framúr, gleymum við heildinni sem stendur á bakvið einstaklinginn, og gleymum jafnvel þeim verðleikum sem sérhver manneskja hefur að geyma, óháð getu eða framúrskaranleika.

Ef við skoðum fjölmiðla, þá þarf ekki lengi að fletta til að sjá hvernig foringja-, fjármála- og frægðardýrkun ræður þar ríkjum. Og ekki nóg með það, heldur virðast flestir, ef ekki allir, sáttir við þetta ástand, finnst það eðlilegt, og telja það bara vera svona og eigi að vera svona af því að það er svona.

En gleyma því að þetta er sprottið úr menntun okkar, skólun okkar. Við erum það sem við lærum. Við stefnum að ákveðnum markmiðum, og séu markmiðin galin, þá verðum við galin.

Mig grunar að markmið okkar séu svolítið galin. Og að við verðum svolítið galin í skólun okkar. 

Gætirðu hugsað þér Ísland þar sem börn læra að ræða saman og hugsa saman, og vaxa frá hinum galna heimi, þeirri framtíða sem virðist bíða barna á Íslandi og um víða veröld frá vöggu til grafar? 


Þekkir þú einhvern sem hefur aldrei rangt fyrir sér?

Funny_Pictures_Star-Wars_New_Bulb_Vader 
 
Eitt það erfiðasta sem nokkur manneskja lendir í er sú krísa sem fylgir því að uppgötva það að maður hafi haft rangt fyrir sér í mikilvægu máli, hvort sem málið snýst um Icesave, guðstrú, traust á vinum, stjórnmálahreyfingum eða skilning á heimspekilegum hugtökum. Þó að erfitt geti reynst að takast á við slíkt, þá er alls ekki slæmt að uppgötva það að maður hefur haft rangt fyrir sér, af þeirri einföldu ástæðu að þá gefst tækifæri til að leiðrétta eigin hugmyndaheim, svo framarlega sem að viðkomandi er tilbúinn til að virða fyrir sér staðreyndir, hlusta á rök, og gera greinarmun á vægi staðreynda, og vægi þeirra gilda sem í húfi eru.
 
Það góða við að vera einstök manneskja er einmitt þessi sveigjanleiki sem hún getur haft. Þú getur trúað einu í dag og trúað einhverju allt öðru á morgun, sem gengur þvert á fyrri skoðunina, án þess að það sé í sjálfu sér rangt. Fari maður að verja hina gömlu trú sem maður hafði áður, einfaldlega til að verja hana, og einfaldlega vegna þess að maður hefur eignað sér hana, þá er lítið um það að segja. Þrjóska getur verið erfið viðfangs.
 
Þegar hópur fólks er saman kominn, þá getur fólkið hjálpað hverju öðru til að rannsaka betur eigin hugmyndaheim, og hvernig eigin hugmyndir tengjast  hugmyndum annarra, stundum á afar ólíka vegu. Þannig er hægt að læra ýmislegt á sjálfum sér sem maður hafði ekki áttað sig á fyrr. Möguleg umræðuefni eru óteljandi.
 
Hins vegar gerist annað þegar hópurinn hefur einhverra hagsmuna að gæta. Hvort sem þessir hagsmunir eru tengdir stjórnmálum, íþróttum eða peningum, þá er eins og fólk umturnist og fái óseðjandi þörf til að sýna öllum hinum að viðkomandi hafi rétt fyrir sér, sama hvað það kostar, og eini mælikvarðinn á hvort maður hafi rétt fyrir sér eða ekki, eru ekki rök, staðreyndir eða djúp gildi; heldur það hvort meirihlutinn sé sammála eða ekki. Þetta vil ég kalla miðaldahugsunarhátt.
 
Það er eins og meirihlutinn hlusti ekki á rök. Mig hefur lengi grunað þegar kosningar eru annars vegar að einhvers konar 20/80 regla sé í gangi, það er að einungis um 20% þeirra sem kjósa, hugsi sig vandlega um, rannsaki það sem er í boði, og geri upp hug sinn með gagnrýnum hætti, og hafi næga rökhæfni til að komast að skynsamlegri niðurstöðu.
 
Hvað annað getur útskýrt stöðu stjórnmála í heiminum í dag? Reglan er sú að sá sem hefur aflið eða máttinn, það er að segja fjárhagslegan stuðning á bakvið sig, hefur möguleika til að sigra. Aðrir eiga ekki séns. "Might is right" á Íslandi sem og annars staðar í heiminum. Skynsemi og sannleikur virðast skipta minna máli þegar kemur að átakastjórnmálum, því um leið og skýr mynd af hreinum sannleika hefur verið teiknuð upp af einum, kemur einhver annar og þyrlar ryki í augum þeirra sem fylgjast með. Og þeim tekst það, þó að um 20% sjái í gegnum rykið.
 
Og það þykja eðlileg vinnubrögð.
 
Það að aflið ráði er hugsunarháttur aftan úr fornöldum, og margoft hefur mannkynið séð afleiðingar slíks hugsunarháttar, og einhvern veginn reynist okkur erfiðara en tárum tekur að komast upp úr þessum hjólförum, hugsunarlaus hjökkum við í sama farinu öldum saman, hugsanlega vegna þess hroka sem felst í að telja okkur sjálf vita betur en þá sem á undan okkur komu, til dæmis vegna aukinnar vísinda- og tækniþekkingar, og gleymum að þannig munu næstu kynslóðir hugsa um okkur. Þar til okkur tekst að brjóta þennan vítahring.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband