Gætir þú hugsað þér að búa í gámi?

Fyrir nokkrum vikum ræddi ég við félaga minn um ástandið á íslenska húsnæðismarkaðnum. Hann er verkfræðingur og nýkominn heim úr meistaranámi. Við vorum að velta fyrir okkur yfir hádegismatnum hvernig ungt fólk færi að í dag, þegar það kemur heim úr námi og þarf að koma þaki yfir höfuðið.

Hann sagði mér að útilokað væri fyrir hann að kaupa sér íbúð, til þess er fyrsta útborgun of há. Einnig leist honum ekkert á að festa sig í lánaskuldbindingar næstu 40 árin. Annar kostur var að leigja 90 fermetra íbúð á kr. 160.000,- á mánuði, sem er svipað og grunnskólakennari með mastersgráðu í fullu starfi fær útborgað í mánaðarlaun. Það er líka mjög dýrt fyrir verkfræðing.


Hann sagði mér að nokkrir félagar hans hafi rætt af fullri alvöru að búa til nýtt hverfi þar sem öll hús væru gámar. Málið er að gámar eru vel einangraðir og hægt að setja upp fín loftræstikerfi í þeim. Þar að auki er hægt að raða þeim hverjum ofan á annan, og jafnvel hanna einfalt skolp, rafmagns- og vatnsveitukerfi.

Hugmyndin fékk hljómgrunn við borðið. 


Nú er svo komið að einhverjir einstaklingar á Íslandi hafa framkvæmt þetta. Þeir búa í gámi og borga sjálfsagt eigandanum einhverja lágmarks leigu, en þetta þýðir að þessir einstaklingar geta safnað einhverju af þeim peningum sem þeir eignast, í stað þess að borga alltof háa leigu þar sem leigumarkaðurinn á Íslandi er virkilega dýr, eða borga fjármúgur í vexti bankalána á hverjum mánuði þar sem höfuðstóllinn minnkar ekki, heldur breiðist stöðugt út eins og krabbamein.


Eftir að hafa átt þessar samræður dettur mér ekki í hug að fordæma þetta fólk við Bergstaðarstræti, manneskjuna sem á gáminn, eða yfirvöld í Reykjavík. Þetta er ástand sem við höfum búið til. Þetta eru fyrstu merkin um afleiðingarnar á óeðlilegum hækkunum á húsnæðisverði, og ég spái því að við eigum eftir að sjá meira af sambærilegum hlutum í framtíðinni,jafnvel heilt bæjarfélag byggt á gámum, eins og þegar fyrirfinnst í Lundúnum.

Það er byrjað að selja gámaheimili úti í hinum stóra heimi, sem þurfa ekki að vera slæmur kostur miðað við húsbyggingarkostnað í dag. Kannski er framtíðin ekki í sementi, heldur í gámum?

 

Þátturinn hér fyrir neðan gæti opnað huga þinn um ágæti heimilisgáma.

 


mbl.is Búa í gámi í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

sælir,

Gámar voru notaðir í Vestmannaeyjum eftir gos. Þeir voru settir saman á langvegin (tveir stórir á hvorn enda og einn minni í miðju), einangraðir og mjög auðvelt var að leggja allar lagnir inn fyrir einangrun. Þessir gámar voru í notkun í 20 ár eftir að gosi lauk!

kv. Hafliði

Hafliði Ingason (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 23:17

2 Smámynd: Ómar Ingi

Búa ekki margi í gámum ?

Bara í steypugámum

Ómar Ingi, 27.3.2008 kl. 00:24

3 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Ég bjó í einum slíkum í Vm forðum daga sem og föðurbróðir þínum

Kölluðust því fína nafni; telescope hús. Ágætlega innréttaðir en erfitt að halda meindýrum fyrir utan þá, man ég, Hver veit nema að þetta sé hin rétta lausn í dag? 

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 27.3.2008 kl. 00:30

4 identicon

Fjölskyldan mín bjó í gámahúsi í fáein ár eftir gos eða þar til faðir minn gerði ættarsetrið fokhelt. :)
Ég man ekkert eftir þeim tíma sem við bjuggum þarna en af myndum virðist þetta hafa verið ágætasti íverustaður og vistlegur þeim sem lögðu sig fram við að gera híbýli sitt fallegt.

Gísli Friðrik Ágústsson (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 01:14

5 Smámynd: Anna

Gámar eru notaðir í dag sem viðbót við gistirými, hreinlætisaðstaða við tjaldstæði og fl. Ég kom inní svona hreinslætisaðstöðu og þetta var mjög snyrtilegt.  Það eru heilu hjólhýsahverfin í sumum löndum en þetta hentaði kannski okkar veðráttu betur að hafa gámahús.  Manni finnst orðið "gámur" eitthvað ekki freistandi tilhugsun  um heimili. Fólk gerir svo sem ýmislegt til að bjarga sér. -   En um miðbæinn þá er hann að verða ansi subbulegur og það þarf einhver að bretta upp ermarnar til að snúa við þeirri óheillaþróun sem þar er farin að stinga í augun.

Anna, 27.3.2008 kl. 08:08

6 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Flott hugleiðing.

Steingerður Steinarsdóttir, 27.3.2008 kl. 09:20

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég vissi ekki um gámabyggð Eyjamanna. Stórmerkilegt!  Kærar þakkir fyrir góðar athugasemdir!

Hrannar Baldursson, 27.3.2008 kl. 13:05

8 identicon

Eins og þú veist þá erum við Eyjamenn frumkvöðlar á mörgum sviðum

Hafliði Ingason (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 16:37

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þetta er þekkt víða um heiminn, m.a. hér í Kanada en sumstaðar, sérstaklega á Vesturströndinn hefur húsnæðisverð farið nokkuð úr böndunum hér.

Sjá Hér, hér og hér

Svo má heldur ekki gleyma "trailers", sem eru í raun ekkert nema inntréttaðir gámar, en gjarna þó ekki jafn sterkbyggðir.

G. Tómas Gunnarsson, 28.3.2008 kl. 01:18

10 identicon

Það er ennþá búið í nokkrum svona gámahúsum í Vestmannaeyjum.

Vigfús Eyjólfsson (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband