Af hverju eru Íslendingar svona fljótir að gleyma?

Ég hef margoft heyrt minnst á að reiðiöldur Íslendinga verði að engu innan fárra vikna, enda erum við svo fljót að gleyma þegar einhver kemur illa fram við okkur.

Þjóðin hneykslaðist mikið þegar settur dómsmálaráðherra valdi mann í stöðu sem var ekki álitinn hæfastur að mati dómnefndar, en samt hæfur. Má taka fram, ákvörðun ráðherra til stuðnings (eða ekki) að umræddur einstaklingur hafði starfað í dómsmálaráðuneytinu og því þekkti ráðherra af störfum hans í stjórnsýslu hversu hæfur dómari hann hlýtur að vera.

Reykvíkingar hneyksluðust mikið þegar sjálfstæðismenn og frjálslyndir (Ólafur F.) kipptu borgarstjórastólnum undan Degi B. Eggertssyni þegar hann ætlaði að fá sér sæti þarsíðasta mánudag. Svokölluð skrílslæti, eða mótmæli um 1000 manns, truflaði fund um nokkrar mínútur - og þótti það alvarlegt mál, það alvarlegt að enginn hefur þorað að þykjast skríll upp frá því.  Þannig að nú starfar settur dómsmálaráðherra í friði sem fjármálaráðherra, Ólafur F. sem borgarstjóri, og Vilhjálmur Þ. bíður þolinmæður eftir að söðla undir sig stólinn. Og allir hafa gleymt Spaugstofuþættinum góða.

Ég velti fyrir mér hvort að þetta séu meðvitaðar aðgerðir, þar sem reiknað er með að hinn íslenski almúgi verði í fyrsta lagi fljótur að gleyma (enda valdarán Reykjavíkurborgar sviðsett á sama tíma og Evrópumót landsliða í handknattleik fór fram - en það er klassísk brella stjórnmálamanna víða um heim að framkvæma vafasama hluti þegar athygli fólks er annars staðar, - en núverandi borgarstjóra til mæðu gekk Íslandi illa í handboltakeppninni og fólk vildi hugsa um eitthvað allt annað en handbolta á þessu augnabliki).

Við höfum fengið þær fréttir að við erum ríkasta og hamingjusamasta fólk í heimi, og sjálfsagt erum við líka umburðarlyndust, frumlegust, klárust, fallegust og skemmtilegust líka, að minnsta kosti miðað við höfðatölu. Yfir hverju höfum við þá svosem að kvarta? Það er ekki eins og einhver hafi verið drepinn! Er ekki í lagi þó að einhverjir kallar fái sínu fram, svo framarlega sem að skaðleg áhrif eru ósýnileg í fljótu bragði?

Hvað með það þó að aðför sé gerð að lýðræðinu? Það veit hvort eð er enginn nema háskólamenntaðir nördar sem geta átt það til að leggja sig undir skriðdreka hvað lýðræði er hvort eð er. Þýðir lýðræði kannski það að við veljum manneskju til að kaupa handa okkur pizzu og svo höfum við ekkert með það að segja þegar hún kemur með gráðostapizzu með skinku, sveppum og humar? Það erum við sem völdum manneskjuna til að kaupa pizzuna, við gáfum frá okkur valdið til að hafa eitthvað um það að segja hvað verður á pizzunni okkar - og við megum bara þakka fyrir að við fáum pizzu yfir höfuð, en ekki súrt slátur. Sá sem við völdum, hann ræður... öllu!

Um hvað var ég aftur að tala? Ó já, gleymni.

Ef engin væri gleymnin væri alltof mikið af þekkingu til staðar í heiminum. Við lesum svo mikið, hlustum svo mikið á fréttir, og fylgjumst svo vel með því sem er að gerast í heiminum, og sérstaklega náunganum, að við höfum ekki tíma til að halda okkur við eitthvað eldgamalt mál sem gerðist fyrir þremur vikum, hvað þá tveimur mánuðum. Við lifum í alltof hröðu þjóðfélagi til að staðna í sama málinu. Það er óþarfi að teygja hugann margar vikur aftur í tímann þegar enginn tapaði aleigunni, enginn var meiddur og enginn drepinn. Við sjáum það bara á fréttum að okkar spillingarmál eru samasem ekki neitt miðað við það sem gerist úti í hinum stóra heimi. Þó að Reykjavíkurborg verður endurnefnd sem Litla-Ítalía, hverjum er ekki sama?

Svo er það spurningin. Er okkur kannski sama? Og er kannski allt í lagi að vera sama? Viljum við ekki bara fá eitthvað til að kjafta um af því að íslenski veturinn er svo leiðinlegur? Kvörtum við kannski bara af því að allir hinir gera það?

Festist ekkert í þjóðarsálinni nema harður dómur verði gerður, að ákvörðun verður tekin, að einhverjum verður refsað, að einhver fái að hirða pokann sinn? Ef ráðamenn gera hluti sem eru siðlausir en löglegir, skiptir það engu máli þar sem við erum svo fljót að gleyma?

Ég þekki fólk sem man ekki söguþráð kvikmyndar daginn eftir að það horfði á hana, og jafnvel ekki að það hafi verið að horfa á viðkomandi kvikmynd, og þrætir jafnvel fyrir það. Fer þannig fyrir verkum sem framkvæmd eru af siðleysi en án þess að vera kærð og dæmd? Að þau gleymist því við nennum ekki að eyða tíma í þau?

Er það siðferðileg skylda almennings að kæra slík mál til dómsstóla, til að þau gleymist ekki og að hugsað verði meira um þau og sams konar framkvæmdir í framtíðinni? Hver leggur línurnar um hvað má og hvað ekki má?

Skiptir kannski siðferði engu máli lengur? Hafa lögin tekið við siðferðisvitundinni?

Af hverju munum við það sem við munum og gleymum því sem við gleymum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Góð spurning og góð grein.  Verð að segja að í mínu tilfelli þá gleymi ég því sem er erfitt og slæmt, allavega set það á salt og svo man ég fullt af sætum, góðum, krúttlegum og yndislegum hlutum.  Mínar minnis tengingar eru voða sérstakar, segja þeir sem þekkja mig.  Svo held ég líka að þó eitthvað pirri mann mikið og maður veit að ekkert sem ég geri fær því breytt, þá gleymi ég því. Kær kveðja.

Ásdís Sigurðardóttir, 31.1.2008 kl. 20:29

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Já, Ásdís. Kannski hefur bjartsýnin okkar eitthvað með gleymnina að gera líka og viljinn til að líta á björtu hliðarnar, sama hversu margar dökkar hliðar geta verið á málunum.

Hrannar Baldursson, 31.1.2008 kl. 20:43

3 identicon

Komdu sæll Hrannar.

Þakka þér kærlega fyrir fallegan og mjög svo áhugaverðan pistil. Gerði mér gott að lesa hann. Má ég aðeins leiðrétta þig, gleymni er ekki til held ég á íslenzku, það hét í mínum ungdæmi gleymska. Það er óþarfi að Gleyma því orði.

Þú spurðir af hverju gleyma íslendingar svona fljótt? Þú svaraðir því sjálfur. HRAÐINN, sem allt er að drepa. Ég hef átt heima erlendis í nokkra áratugi í nokkrum löndum utan Íslands. Hef verið á Íslandi  af og til undan farin 14 ár, en hin síðustu sjö eiginlega alfarið. Það er svo langt komið að ég er núna byrjaður að gleyma, ég sem lít ekki einungis út sem fíll, (þess vegna bloggnafnið og ég bið þig forláts á því að gefa ekki upp mitt eigið nafn að svo stöddu),  heldur hafði ég minni líka sem slíkur. Ég hef alltaf munað allt, og sjaldan notað dagbók. En núna eftir þennan tíma þá er ég algerlega búinn að gefast upp, algerlega á móti mínum vilja. Hraðinn er svo mikill, enginn hefur tíma til neins, allir á fullu, flýta sér að stúdera eins og druslan dregur, gleymir öllu jafnóðum og prófi er lokið. Vinn við kennslu sjálfur þannig að ég þekki þetta vandamál.

Það má heldur ekki gera neinar kröfur, þá verður allt vitlaust, fólki finnst maður leggja sig í einelti og nefndu það bara. Hraðinn hraðinn hraðinn. Líttu á umferðina. Allir alltaf að missa af einhverju sem maður veit ekki sjálfur hvað er. Lízt ekki á þetta. Lítið hækkar kaupið hjá kennurum eins og allir vita, en allt annað hækkar þannig að grundvöllurinn er brostinn fyrir því að ég veri áfram á Íslandi. Ég er kominn á þann aldur að ég get ekki endalaust aukið við mig. En það þarf ég að gera ef ég ætla að halda þessari íbúð sem ég keypti fyrir 4 árum. Hraðinn hraðinn hraðinn.

Það er ekki gaman að tala svona. En svona er ástandið að verða og erum við nú margir kennararnir sem gefumst upp í ár. Margir minna kollega eru að kveðja kennsluna. Nú svo er það allt ofstækið sem er á öllum sviðum í þjóðfélaginu. Það er alveg sama hvert litið er, ofstækið uppmálað allstaðar. Nóg að sinni og fyrirgefðu innlitið. Með beztu kveðju.

bumba (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 22:50

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk sömuleiðis bumba fyrir góð orð. Það kemur mér ekki á óvart að fleiri kennarar séu að gefast upp. Sjálfur hef ég réttindi sem grunnskóla- og framhaldsskólakennari og finnst það frábært starf. Það er fátt skemmtilegra en þegar nemandi áttar sig á einhverju algjörlega nýju og ljómar yfir eigin framförum og uppgötvunum. Sá hugsunarháttur virðist því miður vera við lýði í okkar samfélagi að kennsla skuli vera sjálfboðaliðsvinna, nokkuð sem ég get ekki sætt mig við, enda mjög krefjandi starf sé vilji til að sinna því vel. Ég leitaði inn í einkageirann eftir síðasta verkfall og veit um þónokkra dúndurgóða úr okkar stétt sem hafa gert það sama. Því miður lítur út fyrir enn meiri flótta úr stéttinni og jafnvel úr landi ef ekki gengur vel að semja í ár.

Hrannar Baldursson, 1.2.2008 kl. 00:27

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þetta er spurning sem ég hef oft velt fyrir mér líka. Það er verið að æsa sig út af einhverju máli jafnvel málum svo nokkrum dögum seinna er allt hjaðnað niður. Meira að segja mál sem skifta sköpum.

Ég held að ástæðan sé einföld við erum með nefið hreinlega ofan í öllu. Byggingar á laugaveginum, svifrík sér er búið að vera í aldir, mengun og grænhúsaráhrif, veðrið og svo framvegis. Við erum overlóduð. Þar sem ég hef búið erlendis vestan og austan hafs þá er fólk ekkert að pæla í öllu nema hinu venjulega daglega lífi. Fær sér starbuck í hádeginu, bretar bjór. Kvöldmat áður en það fer heim en ég man aldrei svona ofsaviðbrögð við hverju sem er eins og hér. Við erum mjog hiper þjóðfélag og ég er viss um að blóðið í okkur sé þykkara en í öðrum.  Eru það fréttamiðlarnir.?

Valdimar Samúelsson, 1.2.2008 kl. 10:48

6 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Já sérðu ég fór líka út í aðra sálma en gleymni. Ég gleymdi því að ég var að svara bréfi um gleymni sorry.

Valdimar Samúelsson, 1.2.2008 kl. 10:51

7 identicon

Takk f. þennan pistil Hrannar. Mig langar til að rifja upp orð Halldórs Ásgrímssonar sem féllu í Kryddsíld stöðvar tvö áramótin 2005-2006:

"Allt hefur gengið okkur í haginn þetta árið. Hagsæld hefur aukist og engar deilur á vinnumarkaði. Hver man t.d. eftir kennaraverkfallinu?" Sagði þáverandi forsætisráðherra og glotti. Ég veit um 3524 kennara sem muna haustdagana 20. sept til 9. nóvember 2004. Og hvernig sú deila var "leyst". Ég er að verða eins og borgarstjórinn með töluna 6527  kv gb

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 1.2.2008 kl. 11:46

8 Smámynd: Ómar Ingi

Ég ætlaði að Commenta hérna en um hvað var það nú aftur , ég er bara búin að steingleyma því

Ómar Ingi, 1.2.2008 kl. 16:41

9 Smámynd: Hrannar Baldursson

Skemmtilegar athugasemdir í dag!

Ómar: það hlýtur að vera eitthvað tengt Blade Runner.

Hrannar Baldursson, 1.2.2008 kl. 17:10

10 identicon

Takk fyrir vingjarnleg orð í minn garð. Ég gleymdi (talandi um gleymsku en ekki gleymni), að segja, að í mínu ungdæmi þótti það hugsandi unglingur sem þagði og hlustaði markaði sér skoðun eftir því sem viðkomandi lærði meira og sagði sína meiningu . En í dag hafa allir vit á öllu og kjafta og blaðra hvert í kapp við annað og þessu verður ein allsherjar amerísk spýja. Hraðinn hraðinn hraðinn.

Eins og Valdimar nefndi, allir eru með nefið niður í hvers manns koppi og hafa skoðun á öllu hvort sem maður biðji um hana eða ekki. Alveg óþolandi skellibjöllugangur. Með beztu kveðju.

bumba (IP-tala skráð) 1.2.2008 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband