Hvernig ríkisstjórnin getur komið skuldurum til hjálpar þrátt fyrir verðtryggingar, gengisfellingu og verðbólgu

 


 

Skammbyssur drepa ekki. Fólk drepur.

Þannig hljómar frægur frasi félags skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum. 

Það sama má segja um hvaða tól og tæki sem er: það er ekki tækið sem slíkt sem er slæmt, heldur er raunin sú að hægt er að misnota öll tæki. Hægt er að nota bíl til að hringspóla á skólalóð. Hægt er að nota hamar til að brjóta rúður í verslunum. 

 

 

 

 

Hægt er að misnota hvað sem er.

Verðtryggingin er slíkt tæki. 

Verðtryggingin var upphaflega búin til sem svar við óðaverðbólgu, en óðaverðbólga er þegar kostnaður á vörum, þjónustu og launum hækkar stjórnlaust. Vilji fólks var ekki nægilega gott tæki til að stoppa verðbólguna, og því bjuggu einhverjir snillingar til verðtrygginguna, sem þýddi einfaldlega að þeir sem lánuðu pening, fengu aftur jafnverðmætan pening til baka, sama þó að verðgildi peningsins hefði breyst. 

Þetta var sanngjarnt og gott ráð.

 

 

 

 

Gekk þetta vel í nokkra áratugi, en ekki lengur. Verðbólgan er farin af stað aftur, þrátt fyrir verðtrygginguna, og hugsanlega vegna hennar - þar sem hún tryggir að eigendur sparifjár tapi engu þó að þeir leiki sér svolítið með hagkerfið. Þeir sem eru tryggðir með verðtryggingum, geta einfaldlega ekki tapað. Hins vegar geta skuldarar tapað öllu sínu á einu bretti vegna verðtryggingar.

Þetta er frekar snúið, en jafnframt sáraeinfalt. Spurningin er einföld: hvort viljum við að eigendur taki á sig þá áhættu að tapa eigum sínum, eða að skuldarar sökkvi einfaldlega dýpra í skuldafenið? Valið er skýrt. Eigendur eru ekki í hættu, en skuldarar eru það. Vegna verðtryggingar.

 

 

 

 

Það versta við ástandið er ekki verðtryggingin sem slík, heldur sú staða sem komið hefur upp, að skuldarar eiga enga kosti í stöðunni aðra en að hafa lán sín verðtryggð. Íslendingar geta ekki tekið lán á sömu kjörum og aðrir Evrópubúar, því að steypueignir á Íslandi eru ekki metnar jafn mikils á alþjóðamarkaði og þær eru metnar innanlands. 

Vandinn er sá að það eru engin úrræði fyrir skuldara, á meðan eigendur hafa endalaus úrræði. Af hverju hjálpa eigendur ekki skuldurum upp úr súpunni?

 

 


 

 

Jú, svarið virðist frekar einfalt. Besta hugsanlega verkfærið á þessari jörð eru manneskjur, og því meira sem manneskjan skuldar, því meira þarf hún að vinna. Þetta er reyndar algjörlega þvert á grundvallarkennisetningar kristinnar trúar þar sem manneskjan er óendanlega verðmæt og skal ekki notuð sem tól eða tæki, heldur borin óendanleg virðing fyrir henni sem vitundarveru í sjálfri sér, og þar af leiðandi er manneskja allt annað og miklu meira en tól eða tæki.

Fyrir hverja vinnur manneskjan? Fyrir eigendur. Og hvert fer hagnaðurinn? Fer hann til þeirra sem vinna eða þeirra sem eiga? Ef þú værir eigandi myndirðu vilja henda frá þér þeim drifkrafti sem gefur þér sífellt meiri auð? Að sjálfsögðu ekki.

 

 

 

 

Þannig að hugsanlega er dýpsti vandinn við efnahagsástandið á Íslandi í dag sá að ekki er vilji til staðar til að jafna aðstöðu eigenda og skuldara. Og það er ljóst að ef ríkið reyndi að jafna þennan mun yrði hún strax upphrópuð sem ættjarðarsvikari og kommúnisti. 

Þetta er ekki ný saga, og engin auðveld lausn til staðar. 

Ef ríkisstjórnin gæti bara hjálpað skuldurum sem vilja losna við skuldir sínar upp úr þeim, og finna leið fyrir þetta fólk sem mun ekki kosta það alla sína ævi, þá væri ríkið á réttri leið. En það er erfitt fyrir ríkisstjórnina að finna leiðir fyrir fólkið, því það eru alltof margir hagsmunaaðilar með puttana á stöðum þar sem puttar eiga ekki að vera.

 

 


 

 

Ef ríkisstjórnin eða Seðlabankinn gæti boðið almenningi lán á kjörum sem eru ekki háð íslensku krónunni, hugsanlega í Evrum, og opnaði þannig fólki leið út úr húsnæðiskrísunni sem gæti skollið á árið 2009, og leið út úr síhækkandi skuldum vegna verðbólgu og verðtryggingar, þá væri þessi ríkisstjórn búin að tryggja sér mitt atkvæði í næstu kosningum, sama hvað á undan hefur gengið.

Þetta er hægt.

 

 

 

 

Myndir: 

Bjartsýni: SME Life Tips

Skammbyssa: Bali Buzz

Hamar: How Stuff Works

Björgunarhringur:Google Image Listing

Fen: Sparrowflight13: Magic in the Air

Glöð manneskja: American Chronicle

Verkamaður: Cringel.com

Þumalfingur: Blacknight Soluctions


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: kop

Ég er að mestu sammála þér, en held ekki að lán í Euro væri góð lausn. Hvað ef krónan heldur áfram að falla, hún virðist vera í óstöðvandi fríu falli. Fólk fær jú laun í krónum.

Ríkisstjórnin gerir auðvitað ekkert, því hún er í teymi peningamannanna, sem þurfa að vera gulltryggðir í bak og fyrir.

kop, 29.8.2008 kl. 19:29

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sæll Vörður, ég er að tala um skref í rétta átt, en ekki endanlega lausn allra mála. Með þennan möguleika til staðar aukast einfaldlega möguleikar landsmanna, en skerðast ekki.

Hrannar Baldursson, 29.8.2008 kl. 20:42

3 Smámynd: Jón V Viðarsson

Þegar verðbólgan var um 100% hér á Íslandi var ákveðið að setja á verðtryygingu bæði á lánin og launin. Verðtryggingin var síðan tekin af laununum þegar verðbólgan gekk til baka. Við skulum ath það að 4% verðbólga í Evropu er að sliga alla skuldara og éta upp alla sjóði þar. Í Danmörku eru lífeyrisjóðirnir að tapa miljörðum króna vegna þessa. Verðum að hafa verðtryggingu til þess að verja okkar sparnað , nema að við viljum hafa hér 15% fasta vexti. Hvort heldur þú lesandi góður að sé betra. Nei við brosum út að eyrum þegar verðbólga er 2 til 3% og 4,5% vexstir . Þótt íbúðaverð hafi farið upp um 60% þá er ekki þar með sagt að þú verðir að skuldbreita lánum , Þú getur setið áfram í húsnæðinu og haft greiðslurnar lágar áfram. Þeir sem hafa verið að skuldbreita lánum til að kaupa bíla og þess háttar lenda núna í þessari klemmu.

Jón V Viðarsson, 29.8.2008 kl. 20:53

4 identicon

Það sem alþingi gæti gert er að afnema verðtrygginguna, það er einföld ákvörðun.  Eins og þú bendir á var verðtryggingin sett í öðrum tilgangi en að spila á hana eins og nú er gert, bankarnir hafa getað sýnt ríflegan hagnað þetta árið með því að græða á gengishagnaði og verðtryggingu.  Með hvoru tvegga hafa þeir úrslita vald og því má segja að þeir stjórni verðbólgunni. Að afnema verðtryggnguna er engin allsherjar lausn því hún yrði ekki afnuminn afturvirkt, en með því að gera það yrði sagt hingað og ekki lengra haldið ykkur á mottunni.

Þeir sem skulda mikið ættu að hugleiða það hætta að borga, þeir eru kannski hvort sem er í vonlausri stöðu eins og kerifið er í dag. Kannski í besta falli þrælar lánadrottna sinna næstu áratugina.  Þeir ættu ekki að herða sultarólina þannig að það ógni heimilishag heldur hætta og byrja á núlli, í því gæti frelsið falist.

Magnús (IP-tala skráð) 29.8.2008 kl. 20:58

5 Smámynd: Ómar Ingi

Góð færsla

Ómar Ingi, 29.8.2008 kl. 21:08

6 Smámynd: Jón V Viðarsson

Ég er sammála þér Magnús að best er fyrir fólk að vera ekki að kaupa eignir í dag á meðan staðan er svona. Það er mun hagstæðara að leigja íbúð og bíða þar til línurnar skýrast. Það þyrfti að koma á því kerfi að fólk fái vaxtabætur greiddar út mánaðarlega til þessa að mæta verðbólgunni. Það gæti hjálpað þeim sem eru í vandræðum. Danir fá vaxtabætur greiddar af öllum lánum og þær eru ekki tekjutengdar eins og hér.

Jón V Viðarsson, 29.8.2008 kl. 21:27

7 Smámynd: Jón V Viðarsson

Vönduð og góð færsla hjá þér Hrannar !

Jón V Viðarsson, 29.8.2008 kl. 21:35

8 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þessi ritgerð fær 9,9 af 10 /þakka/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 29.8.2008 kl. 23:08

9 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Afar athyglisverður pistill, takk fyrir.  Ég er frekar hrifin að 0 stöðulausn Magnúsar.

Sigrún Jónsdóttir, 30.8.2008 kl. 00:22

10 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég er svo sátt við að teljast til meðal fátækra.  Kær kveðja og góður pistill

Ásdís Sigurðardóttir, 30.8.2008 kl. 01:49

11 Smámynd: Hrannar Baldursson

Jón Viðar: Ef 4% verðbólga er að sliga fólk í Evrópu, hvernig er 14.5% verðbólga ekki að sliga skuldara á Íslandi?

Magnús: Vandinn við að byrja aftur á núlli er að ef þú lýsir þig gjaldþrota geturðu ekkert eignast í 10 ár eftir gjaldþrotið. Hins vegar þarf Ríkið að grípa inn í og ég er loksins búinn að uppgötva hvers vegna það gerir það ekki. Um það fjallar minn næsti pistill.

Ómar: Takk

Jón Viðar: Ég er ekki að hugsa um kaup í dag, heldur þau lán sem fólk hefur verið að taka síðustu 5 árin, t.d. 100% húsnæðislán. Vissulega hefur húsnæðið hækkað í verði, en höfuðstóll lánsins hækkar hins vegar mun hraðar, þannig að í höfuðstóll lánsins stækkar stöðugt og er í mörgum tilfellum orðinn meiri en verðmæti húsnæðisins. Mín tilfinning fyrir eðlilegum lánum er sú að þegar maður borgar reglulega af þeim, þá ætti höfuðstóllinn að lækka frekar en hækka eins og hann gerir í dag.

Jón Viðar: Takk.

Haraldur: Það er ekkert annað. Takk fyrir það.

Sigrún: Þakka þér. Að afnema verðtryggingu fyrir öll lán héreftir og gera fólki fært að skuldbreyta mundi skerða hag eigenda svo mikið að þeir myndu aldrei samþykkja þetta með góðu geði, og sjálfsagt fara í herferð gegn hugmyndinni.

Ásdís: Ef þú átt húsnæði ertu ein af meðal ríkum Íslendingum. Vandamálið eru allir þeir sem hafa verið að kaupa t.d. sitt fyrsta húsnæði á yfir 20 milljónum á síðustu fimm árum sjá höfuðstólinn hækka upp í 25 milljónir í stað þess að sjá hann lækka niður í 15 milljónir eftir reglulegar afborganir. Verð húsnæðis hækkar ennþá á meðan, en sala á húsnæði er stopp, þar sem ekki lengur er lánað. Hvar er réttlætið í því?

Hrannar Baldursson, 30.8.2008 kl. 09:12

12 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Góður og tímabær pistill.

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 30.8.2008 kl. 09:48

13 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir það, Sóldís Fjóla.

Hrannar Baldursson, 30.8.2008 kl. 09:54

14 Smámynd: Jón V Viðarsson

Takk fyrir svarið Hrannar.  Málið er að fólk er að taka 90% verðtryggð lán til 40 ára og þess vegna er höfuðstóllinn alltaf að stækka. Þú getur samið um að greiða fyrst niður höfuðstólinn af láninu til þess að minka vaxta hlutann. Sem sagt greiða lánið fljótar niður. En þá verður fólk líka að eiga einhvern pening í sparnaði til þess að ráða við það. Í flestum Evru löndum er lánað til 24 ára í senn og eru greiðslur á mánuði svipaðar og af verðtryggðum lánum hér til 40 ára. Það fólk sem er með lán til 20 ára hér með föstum vöxtum sem eru um 16% er í góðum málum og eignast mun fyrr góðan hlut í eigninni. Maður skrifar ekki undir óútfilltan víxil til 40 ára nema að vera vel undirbúinn og í stakk búinn til að mæta þeim þrengingum sem á vegi verða til svo langs tíma. Takk fyrir mig .

Jón V Viðarsson, 30.8.2008 kl. 10:56

15 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Góður pistill Hrannar, vil benda Jóni Viðari á þegar hann talar um að fólk þurfi að eiga sparnað að stór hluti þjóðarinnar getur ekki sparað því að það er ekkert eftir í launaumslaginu til að spara eða greiða niður höfuðstól þegar reikningarnir hafa verið greiddir. Lánin verðtryggð en launin ekki. Flestir eiga ekki annan kost en að taka lán, á okurvöxtum og með verðtryggingu. Þegar ég segi útlendingum frá því hvernig lánamálin eru hjá okkur molbúunum, hlæja þeir og skella sér á lær og skilja ekkert í því að hér skuli líðast okurlánastarfsemi sem sé aukinheldur lögleg og það sem þeir eru mest hissa á er að við skulum láta bjóða okkur þetta.

Rut Sumarliðadóttir, 30.8.2008 kl. 11:15

16 Smámynd: Gunnar Freyr Rúnarsson

Það hefði hjálpað mikið ef við hefðum skúnkast til að vinna gullið í Peking.  Þá hefðum við, ég, þú, systir mín og aðrir skuldarar gleymd sér í sigurvímu næstu mánuði.  Við hefðum örugglega getað gleymt okkur smá stund.   

Það besta sem getur komið fyrir þjóð í þrengingum er að vinna "BIKARINN"  Argentínumenn hafa td. getað huggað sig við fótboltann.  Við þurfum hins vegar að treysta á handboltann.

Sem dæmi þá hefur eitt lána minna hækkað á stuttum tíma úr 78.000-91.000.  Kannski ekki mikið miðað við aðra skuldara.   Bara eitt lán af mörgum, en en ekki mikið samt... 

Gunnar Freyr Rúnarsson, 30.8.2008 kl. 11:40

17 Smámynd: Jón V Viðarsson

Rut :  Ég þekki marga Pólverja , einn af þeim er lærður Rafirki en er hér á Íslandi vegna þess að laun hans heimafyrir dugðu ekki til þess að leigja herbergi og lifa af mánuðinn. Þetta fólk er híngað komið til þess að öðlast betra líf. Ég hef spjallað við þetta fólk og það hefur sagt mér margar sögur um efnahagsvandann í Póllandi. Margt af þessu fólki hefur þegar keypt sína fyrstu íbúð hér á Íslandi og þeir gera sér fyllilega ljóst að til þess að ná endum saman þarf að spara og eyða ekki í neina vitleysu. Hamingja þeirra snýst um fjölskilduna fyrst og fremst en ekki veraldleg gæði eins við Íslendingar td.

Jón V Viðarsson, 30.8.2008 kl. 12:13

18 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Takk fyrir kommentið Jón. Skil ekki alveg samhengið á milli pólverja og skrifa minn. Pólland er kannski ekki endilega eitt af þeim löndum sem við viljum líkja okkur við. Eins og dæmin sanna með fólksflótta þaðan. Kannski verður þetta eins á Íslandi ef fram heldur sem horfir.

Rut Sumarliðadóttir, 30.8.2008 kl. 12:41

19 Smámynd: Hrannar Baldursson

Jón Viðar: Þakka þér. Fólk tekur 40 ára lán þegar það er skásti kosturinn í stöðunni. Að það skuli vera skásti kosturinn í stöðunni fyrir fjölda fólks er áhyggjuefni í sjálfu sér.

Rut: Ég er þér hjartanlega sammála, um að fólki er skorinn ansi þröngur stakkur með verði húsnæðis, kostnaði við lán og verðbólgu. Það er oft ekkert eftir til sparnaðar, og þar að auki er útilokað að byrja sparnað fyrr en skuldir hafa verið greiddar, þar sem að vextir á skuldum eru alltaf hærri en vextir á eignum.

Gunnar Freyr: Málið er að ýmislegt furðulegt gerist í kringum stóra og mikla viðburði, og þá er einmitt mikilvægas að vera vakandi. Taktu eftir fréttunum sem birtast fyrir jól og páska þegar fólk er í hátíðarskapi og nennir ekki að stressa sig yfir leiðindamálum, og líka þegar í gangi eru merkileg mót eins og ólympíuleikar og heimsmeistaramót. Enska knattspyrnan virðist reyndar hafa sterka hefð sem virkar vel sem besta tækið til að slá ryki í augu Íslendinga.

Jón Viðar aftur: Þó að aðstæður séu enn verri annars staðar, eins og í fyrrum kommúnistalöndum, þýðir ekki að við skulum sætta okkur við að setja okkur á svipaðan stall. Margt fólk sem kemur hingað til lands þarf að búa við mjög erfiðar aðstæður áður en það getur byrjað að festa kaup á nokkru. Einnig er varasamt að flokka alla Íslendinga undir einn hatt, undir efnishyggjupakk, þó að efnishyggjan sé óumdeilanlega ríkjandi heimspeki á Íslandi í dag og í hugmyndafræðilega og sögulegu samhengi hlýtur að taka enda fyrr eða síðar, því að engin þjóð þrífst á tómhyggju til lengdar. Við töpum okkar einkennum og því sem við elskum við að vera Íslendingar, og þegar við höfum tapað því er okkur sama því að við höfum annað hvort svo miklar áhyggjur af því að afla meira eða nógu miklu. Við erum föst í hringiðu efnishyggjunnar. Kannski við ættum að endurskýra Ísland sem Kalýpsó.

Hrannar Baldursson, 30.8.2008 kl. 12:43

20 Smámynd: Hrannar Baldursson

Rut: Það sem ég sagði.

Hrannar Baldursson, 30.8.2008 kl. 12:44

21 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Bara svo að það sé á hreinu þá hef ég ekkert á móti pólverjum. Hef kynnst nokkrum þeirra. Á pólska mágkonu sem ég kann afar vel við. Upp til hópa mjög duglegt og grandvart fólk.

Kannski verðum við nýju "pólverjarnir"? Við vorum það uppúr 1970 þegar íslendingar í hundraða ef ekki þúsunda tali, flúðu heimalandið vegna efnahagsástandsins og lélegra kjara. Flestir til hinna norðurlandanna. Haldi lánin áfram að hækka og pyngjan að léttast í sama hlutfalli gæti það farið svo.

Rut Sumarliðadóttir, 30.8.2008 kl. 13:11

22 Smámynd: Jón V Viðarsson

Takk fyrir svörin Hrannar og Rut. Að lokum vil ég benda a að í Danmörk eru 15 bankar að fara á hausin vegna of mikilla innlána varðandi húsnæðislán. Varla viljum við lenda í þeirri stöðu. Hvert mannabarn í Danaveldi þarf að borga 7000 kr DK vegna þess að Danski Seðlabankinn þurfti að yfirtaka Hroaskeldubanka. Mörg hundruð Danir eru fluttir til Svíþjóðar vegna skattapíningar og er ríkisstjórnin þar á bæ að fara að breita eftirlaunaaldrinum úr 60 í 62 ár til þess að fá fleiri út á vinnumarkaðinn. Það er minnsta atvinnuleysi í DK í Evropu ( hvers vegna fá þeir ekki meira af erlendu fólki í vinnu ) Já góð spurning.

Jón V Viðarsson, 30.8.2008 kl. 13:38

23 identicon

Takk fyrir kommentið Hrannar, ég vil þakka þér fyrir góðan pistil sem hefur enn einu sinni vakið áhugaverðar umræður.  Vandinn við að hætta að borga og byrja á núlli er gjaldþrot, eins og þú bendir á, en í því felst það að lifa frá degi til dags, ekki um efni fram því að lánstraustið er núll og eignamyndun getur engin orðið í 10 ár.  En hvað ef þú skuldar yfir 20 millj. í húsnæði í dag og ert kannski að borga 120 þús. af lánum á mán. og eftirstöðvarnar hækka um ca. 300 þús. eftir greiðslu og horfurnar eru ekki góðar um að ástandið lagist?  húsnæðið er ekki seljanlegt og verð þess á niðurleið,  þá er spurningin í hverju felst lausnin.  Ef haldið er áfram að borga  getur þa frestað óumflýjanlegu gjaldþroti um einhvern tíma eða kostað 40 ára ánauð.  Eitt er víst að ef fólk hefur val um að leigja á 120 þús. á mánuðu og standa á núlli eftir þá greiðslu eigna og skuldalega séð þá er það bertra en að skulda yfir 20 millj. jafvel þó eigið fé í eigninn nemi 20%.

En fólk hefur alltaf val, kannski ekki um góða kosti og einnig er það svo þegar lán er tekið.  Sennilega getur orðið "lán", með þeim formerkum að stofnað sé til skuldar, verið ein mestu öfugmæli á íslensku. 

Magnús (IP-tala skráð) 30.8.2008 kl. 17:58

24 identicon

Bíð spenntur eftir næsta pistli.

Magnús (IP-tala skráð) 30.8.2008 kl. 18:02

25 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæll Hrannar

Það er alltaf mjög fróðlegt að fara inn á bloggið hjá þér. Efnismikið og gott. Er sjálfur að brjóta hlekki lesblindu með mínu bloggi og nota það Því á annan hátt. Stefni á að skrifa eina til 7 greinar á viku í framtíðinni.

Nú bregður svo við að þú skrifar grein, á mínu fagi og þá er ég nú ekki eins hrifinn. Meta þarf m.a.  skuldastöðu, eða eignastöðu á föstu gengi.

Þú getur ekki sagt með 10% verðbólgu og 10 milljóna skuld, nú hafa skuldir mínar aukist um 1 milljón. Það er mikil einföldun. Verðgildi myntarinnar hefur einnig rýrnað. Mat á eignum mínus skuldum á föstu verðlagi væri raunhæfara mat. Þegar eignir voru að hækka að raunvirði á Íslandi, heyrðist ekki bobbs frá fasteignaeigendum, nú þegar lækkun á sér stað hlaupa allir upp til handa og fóta og kvarta.

Hrannar þetta er sýnilega ekki þitt sérsvið en góð samantekt engu að síður.  

Sigurður Þorsteinsson, 30.8.2008 kl. 19:33

26 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Frábær og hnitmiðuð færsla og hygg ég að þú höggvir hér ansi nálægt sannleikanum í greiningu þinni, jafnvel óþægilega að einhverra mati. Sumum eru ekkert of hrifnir af því að almúginn sé með þessi atriði á hreinu, getur skapað ólgu.

Tillaga þín væri vissulega skref í rétta átt og virðist skynsamleg.

Hrannar Baldursson á þing segi ég!

Georg P Sveinbjörnsson, 30.8.2008 kl. 21:12

27 Smámynd: Jón V Viðarsson

Langar að koma með gott dæmi handa ikkur. Við skulum segja að þú Hrannar viljir kaupa íbúð í dag og átt tvær millur til að borga út. Íbúðin sem þú hefur skoðað kostar 20 millur , ok þú gerir tilboð í eignina sem er 18 millur. Eigandinn keypti þessa eign fyrir 9 millur 2001 eignar hlutur hans gæti því verið 11 millur svo hann væri sáttur við að fá 9 millur í gróða. Aftur á móti að ef hann hefði skuldbreitt láninu þá þyrfti hann sennilega að borga með henni 2 millur og tæki því ekki tilboðinu. En segjum að þú fáir nú þessa eign á 18 millur þá hefur þú 2 millur í plús sem þú getur sett á verðtryggðan 3 ára reikning með 7% vögstum + 15% verðtryggingu þá værir þú bara í góðum  málum með þína eign og gætir brosað framan í heiminn.  Þarna er Verðtryggingin að vinna með þér.

Jón V Viðarsson, 30.8.2008 kl. 21:41

28 Smámynd: Hrannar Baldursson

Rut: Landflótti gæti hafist eins og hann hefur gerst nokkrum sinnum áður. Sammála því.

Jón Viðar: Ég viðurkenni fávisku mína um aðstæður í Danmörku, og þekki ekki sögur um banka sem þar hafa farið á hausinn. Ég er heldur ekki að stinga á öfgafullum lausnum, eða það held ég ekki.

Magnús: Já, það er alltaf hægt að velja, en þegar aðeins er um afarkosti að velja, þyrfti að leggja höfuðið í bleyti og græðgina á hilluna, og ekki bara finna heldur búa til betri leiðir. Það er stutt í næsta pistil. 

Sigurður: Ég get einmitt notað þessa einföldun, því að laun sem greidd eru í krónun rýrna líka. Auðvitað heyrist lítið í fólki sem telur að það sé að græða, og meira í þeim sem finna að þeir eru að tapa. Það er eins og með sælu og sársauka, þegar maður er sæll er maður hljóður og hallar sér aftur en þegar maður finnur til sársauka þarf maður að öskra.

Georg: Takk fyrir þetta. Á þing segirðu? Ég held að maður þurfi að vera svoddan klækjarefur til að koma einhverju í gegn á þingi, - og þar að auki er enginn stjórnmálaflokkur á landinu sem passar við mínar skoðanir, - að ég held. 

Jón Viðar: Ágætt dæmi. Ekki gleyma að kostnaður við að taka lán upp á 18 milljónir er um 800.000 krónur vegna stimpilgjalda, lántökukostnaðar og þingfestingar. En vissulega er þetta rétt hjá þér, að eigendur græða meira en skuldarar. Þannig er það.

Hrannar Baldursson, 30.8.2008 kl. 21:52

29 Smámynd: Jón V Viðarsson

Þetta átti víst að vera þín fyrsta eign svo stimpilgjöld falla niður hjá þér í þessu tilfelli. Takk fyrir mig

Jón V Viðarsson, 30.8.2008 kl. 22:13

30 Smámynd: Hrannar Baldursson

Kærar þakkir fyrir frábærar athugasemdir Jón Viðar.

Hrannar Baldursson, 30.8.2008 kl. 22:53

31 Smámynd: Hrannar Baldursson

Andrés: takk fyrir leiðréttinguna. Hér með leiðrétt!

Hrannar Baldursson, 31.8.2008 kl. 00:13

32 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sæll Jóhann,

Ég er ekki að mæla með niðurfellingu verðtryggingar á þeim lánum sem eru útistandandi, heldur að við getum einfaldlega tekið t.d. 100% húsnæðislán í erlendum gjaldmiðli án verðtryggingar. Þetta ætti að vera hægt og gæti orðið góður kostur fyrir þá sem hafa áhuga.

Hrannar Baldursson, 31.8.2008 kl. 09:28

33 Smámynd: Gísli Tryggvason

Þetta er góð, og að vanda vel rökstudd, umfjöllun um málefni sem ég hef lengi viljað taka á en ekki fundið formlegan flöt á - m.a. vegna þess að fáir hagfræðingar vilja taka undir efasemdir mínar um verðtryggingu. Ég hef gagnrýnt hana einkum út frá tveimur sjónarmiðum.

Í fyrsta lagi hef ég vakið athygli á því neytendasjónarmiði að óréttmætt sé að annar aðilinn, sá veikari, skuldarinn (oft neytandi) beri alla áhættuna af óvissum atburði sem hann hefur enga stjórn á einn og sér, verðbólgunni, en hinn aðilinn, t.d. banki, hefur oft nokkkur áhrif á með athæfi sínu. Sú óskipta áhætta skuldarans er auk þess ekki háð neinum takmörkunum, "the sky is the limit." Þetta taka sumir lögfræðingar undir og stundum útlendingar - ef þeir skilja yfirleitt fyrirbærið sem ég er að reyna að lýsa. 

Í öðru lagi hef ég haldið því fram því efnahagslega sjónarmiði - sem vissulega er ekki á sérsviði mínu - að verðtrygging sé ekki bara lögvernduð afleiðing verðbólgu heldur líklega að nokkru leyti orsök hennar, þ.e. sterkir aðilar á markaði hafa ekki hag af því að halda niðri verðbólgu því þeir fá vextina alltaf og verð"bætur" ofaná, óháð sinni fjármögnun; jafnvel kunna þeir að hafa hag af meiri verðbólgu.

Gísli Tryggvason, 31.8.2008 kl. 13:13

34 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þakka þér Gísli. Þetta er rétt athugað, að neytandinn tekur alla áhættuna og getur ekkert gert, en verður að treysta lánveitanda til að misnota ekki aðstöðu sína. Mögnuð athugasemd!

Til að sanna að einhverjir geti hagnast á verðbólgu, verðum við aðeins að finna eitt dæmi þar sem einhver hefur grætt á verðbólgu. Þekkirðu slíkt dæmi?

Hrannar Baldursson, 31.8.2008 kl. 13:20

35 Smámynd: Gísli Tryggvason

Ég hef gengið út frá því að slíkur hagnaður liggi fyrir í fréttum, t.d. nýverið, en það kann að vera rétt að spyrja formlega.

Gísli Tryggvason, 31.8.2008 kl. 21:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband