Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Hvar er siðferðið í að hengja bakara fyrir smið?

Hinn ágæti bloggari, Valgarður Guðjónsson spyr á bloggi sínu: "Er öllum sama um siðferðið?" og leggur upp ágætis mynd, en kemst að annarri niðurstöðu en undirritaður. Valgarður skrifar:

Sennilega er einfaldast – eins og ég hef nefnt áður – að ímynda sér erlendan banka sem kæmi hingað að safna innistæðum með loforði um himinháa vexti. Gefum okkur að stjórnvöld í viðkomandi landi hafa haft sterkan grun um, ef ekki örugga vissu fyrir, að viðkomandi banki væri að falla. Þætti okkur ekki sem þessi sömu stjórnvöld bæru einhverja ábyrgð?

Eftir þessa ágætu uppsetningu og spurningu fer hann að tala um "okkur" sem stjórnvöld. Ég vil ekki kannast við að "ég" eða "við" séum stjórnvöld. Þetta er samsemdarvilla.

Hins vegar vil ég kannast við að fólk var kosið og að þetta fólk sem stjórnaði var kosið til að bera mikla ábyrgð. Það að þetta fólk stóð ekki undir ábyrgðinni, þýðir ekki að þjóðin skuli þar með axla hana og skrifa undir óútfylltan tékka.

Alþingi hefur ákveðið að einungis einn maður skuli sæta ábyrgð: Geir H. Haarde, á meðan sannleikurinn er sá að bara í einræðisríkjum ber einn aðili ábyrgð. Það er mikill fjöldi af samábyrgum aðilum enn á kreiki. Og þessir aðilar eru ekki þjóðin. 

Ef stjórnvöld eru ábyrg eiga þeir sem brugðust  fyrir hönd stjórnvalda að sæta ábyrgð, auk þeirra sem lögðu metnað sinn og starfsheiður að veði gegn greiðslu og frama, í stað þess að hengja bakara fyrir smið. Í þessu máli er fjöldinn allur af bökurum. Smiðirnir munu líklega sleppa með væga timburmenn verði Icesave samningurinn samþykktur og byrja aftur eftir helgi, enda verður ekki lengur alþjóðleg pressa á þessu fólki, og stjórnvöldum (sem ætlast er til að geri eitthvað af viti í málinu, og þá ekki bara semja um skuldir þessa fólks). Í staðinn á að varpa ábyrgðinni yfir á heila þjóð.

Hvar er siðferðið í að varpa ábyrgð eins yfir á annan? Hvar er siðferðið í að hengja bakara fyrir smið?


"Ég nenni þessu ekki lengur"

Mikið er talað um að kjósa I3 samninginn í burtu, enda áberandi raddir sammála um að það sé orðið hundleiðinlegt mál. Ég er ekki sannfærður um að hægt verði að kjósa málið í burtu, hvorki með nei eða já.

Verði I3 samþykkt, mun fyrirbærið breytast í ótilgreinda peningaskuld sem greiðist aðeins upp verði ekki gengisfelling á Íslandi næstu árin. Hætt verður að ræða um samninginn, skuldin mun leggjast á herðar íslenskra þegna sem munu þegjandi borga í breska og hollenska sjóði einhverja áratugi eða aldir, skuld sem klyfjuð var á bak þeirra meðan þeir sváfu.

Verði I3 ekki samþykkt, hafa þau skilaboð verið send í annað sinn að skuldir einkafyrirtækis verði ekki greiddar af almenningi, sérstaklega í ljósi þess að þessar skuldir virðast hafa verið illa fengnar.

Ég hafna þeim letirökum sem atvinnumenn í áróðri eru að troða upp á venjulegt fólk. Þau rök heyrði ég fyrst haft þegar samningi tvö átti fyrst að þvinga í gegn, og í dag virðist hver einasti málsmetandi aðili segja það sama. Samt hefur ekkert breyst, annað en að áróðursmaskínan virkar ljómandi vel, miklu betur en nokkurn tíma fyrr.

Reyndir lögfræðingar mæla með samningaleiðinni sem hagstæðari leið en höfnun, en aðrir telja mikilvægara að standa vörð um réttlætið sem slíkt og gefa ekki þumlung eftir. Þarna takast á nytjarök og skyldurök. Með frekar einföldu áhættumati getum við áttað okkur á að líklega sé skynsamlegra að samþykkja en hafna, enda andstæðingar Íslands alltof stórir og voldugir til að við eigum séns í þá (minnimáttarkenndarrök). Spurning hvað skyldan segir okkur að gera?

Hefði Ísland öðlast sjálfstæði árið 1944 eða farið út í þorskastríð gegn stórþjóð og tryggt 200 mílna fiskveiðilögsögu, eða hinir norsku víkingar nokkurn tíma vogað sér að stinga tá í kaldan sjó fyrir meira en þúsund árum, hefðu viðkomandi verið meðvitaðir um nýtísku áhættustjórnun?


Stone Age. Ertu til í að gefa þessari stuttu teiknimynd einkunn?

Kunningi minn tók þátt í gerð þessarar teiknimyndar. Mér finnst hún frábær. Vildi bara deila henni með ykkur.

Skrifaðu endilega athugasemd og ég kem henni til höfunda.


Hversu auðvelt er að gleyma 1200 milljörðum króna?

Þegar talað er um Icesave þessa dagana er sífellt talað um einhverja tugi milljarða. 34 milljarða hér eða 65 milljarða þar.

Einhverjir virðast viljandi gleyma því að raunverulegu tölurnar eru 1234 milljarðar hér eða 1265 milljarðar þar.

Eða það skilst leikmanninum mér.

Sko, 1200 milljarðarnir eru sú upphæð sem Bretar og Hollendingar eiga að fá úr þrotabúi Landsbankans fari allt á næstbesta veg. Það gleymist hinsvegar oft að minnast á óvissuna sem felst í hversu mikið tekst að endurheimta af þessum 1200 milljörðum til að borga upp í Icesave.

Segjum að samningur númer þrjú verði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Segjum að ekki takist að endurheimta eina einustu krónu úr hinum fallna Landsbanka.

Þá fellur skuld á þjóðina sem samsvarar ríflega 1200 milljörðum. Ég nenni ekki einu sinni að minnast á einhverja tugi í þessu samhengi. 

Væri ég til í að taka slíka áhættu?

Ekki glæta.

Þar að auki hef ég ekki enn séð rök fyrir því að Íslendingar skuldi allan þennan pening annan en þau að ríkisstjórnin hefur verið dugleg að taka einhver lán í nafni Icesave samninga sem þjóðin hefur hafnað og mun hafna. Að sjálfsögðu vilja fæstir tala um slíkar skuldbindingar og siðferðið bakvið þær.

Væri hin raunverulega upphæð "skuldarinnar" kr. 34 milljarðar, af hverju má ekki setja þá uppæð sem þak á hvað Íslendingar eru tilbúnir að borga, þrátt fyrir að skulda ekki neitt?

Ég skil vel að fólk verði ringlað í umræðu sem er stjórnað af fólki sem telur sig vita hvað öllum öðrum er fyrir bestu án þess að vita sjálft hvað þeim sjálfum er fyrir bestu, og þegar áróður ómar mun hærra en skynsemin.

En ég trúi því að fólk átti sig á að allur þessi áróður er bara skvetta í hafið og að hinar stöðugu öldur sannleikans verði það sem fólk sjái að lokum, þó að þeim sé skipað að horfa bara í skvetturnar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband