Er pólitísk spilling búin að skjóta rótum á Íslandi?

 

Í tilefni umræðu dagsins og þess að íslensk stjórnmál virðast sífellt sökkva dýpra í svað vafasamra ákvarðana ákvað ég að þýða ansi góða skilgreiningu á hugtakinu pólitískri spillingu úr alfræðiritinu Britannica. Ef við hugsum um rætur spillingar á yfirvegaðan hátt getum við betur áttað okkur á hvað er að gerast. Þekking og skilningur er fyrsta skrefið í átt að lausn.

Það að aðrir stjórnmálamenn hafi verið að gera sömu hluti réttlætir ekki neitt. Því að eitt vanhugsað og illt verk réttlætir ekki önnur vanhugsuð og ill verk. Það skiptir engu máli hvaða persóna á í hlut, spilling er alltaf spilling, og er aldrei framkvæmd af einhverri einni manneskju, heldur hópnum sem leyfir henni að festa rætur.

 

 

Hér kemur skilgreining á spillingu frá Encyclopedia Britannica:

Óviðeigandi og yfirleitt ólögleg hegðun ætluð til að tryggja eigin hag eða annarra. 

Myndir spillingar birtast til dæmis í mútum, fjárkúgun, og misnotkun á upplýsingum innanfrá. Spilling skýtur rótum þegar samfélagið sýnir andvaraleysi eða skort á kröfum um að heilbrigðum ferlum sé fylgt eftir. Í samfélögum þar sem hefð er fyrir gjöfum, verður oft erfitt að greina á milli viðeigandi og óviðeigandi gjafa. 

Spilling tengist oft skipulegri glæpastarfsemi.

 

 

 

Ég stóðst ekki mátið og ákvað að grípa í eina af mínum eftirlætis tilvitnunarbókum og þýða nokkrar góðar um spillingu:

Í samfélagi þar sem spilling er almenn getur frelsið ekki lifað lengi. (Edmund Burke 1729-1797)

Spilling er eins og snjóbolti, þegar hún byrjar að rúlla getur hún ekki annað en stækkað. (C.C. Colton 1780-1832)

Seldu ekki dygð til að græða, né frelsi til að auka völdin. (Benjamin Franklin 1706-1790)

Spilling stigmagnast. (Juvenal 60-127)

Allt þetta fólk hefur verðmiða. (Sir Robert Walpole 1676-1745)

Fáir hafa næga dygð til að standast hæsta boð. (George Washington 1732-1799)

Spilling er aldrei framkvæmd af einstaklingi. Hún felur alltaf í sér hóp af fólki sem er tengt saman af einni grundvallarreglu: að skiptast á greiðum. Þessi sameinaða spilling er byggð á hefðbundnu siðgæði, vel treystum vináttuböndum og tækifærum sem birtast. Hún gerir glæpum fært að eiga sér stað án refsingar og aðaleinkenni hennar er óþolandi hroki. (Roberto da Matta 1936- )

 


 

Við þurfum að gæta okkar, hugsa gagnrýnið um hvert siðferði okkar þjóðar er að fara, og uppræta þessa tryggðabönd spillingar sem koma í stað góðra og fagmannlegra starfshátta. Það sorglega er að þeir sem eru við völd munu ekki uppræta þetta, og líkast til ekki heldur þeir sem munu komast til valda, því þeir halda að svona sé þetta bara og þeim líkar það kannski bara ágætlega því þetta hentar best þeim sem eru við völd hverju sinni.

Það þarf manneskju eða flokk með ansi breitt bak til að vinna gegn slíkum ófögnuði, sem má kannski helst líkja við Trójuhest, sem smyglar sér inn í fólk sem vill vel og hertekur það síðan af því að það fer að meta falska vináttu meira en það sem er almennt gott eða fjöldanum til heilla.

 

Dæmi nú hver fyrir sig.

 

 

Myndir:

Sökkvandi Legokall: hue - for the love of color

Peningar undir borðið: Sox first

Snjóbolti: Freelancer Fire


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Við munum þá væntanlega horfa fram á endalausa spillingu í ísl. stjórnmálum

Sigrún Jónsdóttir, 22.8.2008 kl. 00:28

2 identicon

Eru þá Ólafur F. og Frjálslyndi flokkurinn eins og stóra timburkanínan í Holy Grail?  Þar var kanínunni ýtt inn fyrir virkisveggina (Sjálfstæðisflokkinn) og þegar virkinu hafði verið lokað þá var komið að aðal trixinu, sem fólst í því að stökkva út úr kanínunni og hertaka virkið innan frá.  Eini gallinn er sá að riddararnir voru í skóginum fyrir utan virkið þegar þeir föttuðu að það væri planið 

En ein góð tilvitnun varðandi spillingu og ríkið:  "Það er hættulegt að hafa rétt fyrir sér, þegar ríkið hefur rangt fyrir sér."

Matti (IP-tala skráð) 22.8.2008 kl. 00:40

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta finnst mér góður pistill, takk fyrir mig!

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.8.2008 kl. 01:29

4 Smámynd: Viðar Freyr Guðmundsson

Óviðeigandi og yfirleitt ólögleg hegðun ætluð til að tryggja eigin hag eða annarra.
 Er þá ekki ansi frjálslega farið með þetta orð í allri umræðunni undanfarið ? Það er jú hægt að deila um hvað sé óviðeigandi, en sjaldnar um hvað sé ólöglegt.

Viðar Freyr Guðmundsson, 22.8.2008 kl. 04:56

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sigrún: Það er líklegt að þetta haldi áfram, nema eitthvað mikið gerist.

Matti: Af einhverjum ástæðum hugsaði ég meira út í Life of Brian, þegar áhangendur Brian's héldu blindri tryggði við hann, svo blindri að þeim datt ekki í hug að hlusta á hann. En Trójukanínan úr The Holy Grail er vissulega viðeigandi líking. En í sambandi við tilvitnun þína, þá hefur þetta því miður verið raunin víða um heim - að fólk hefur verið handsamað og pyntað fyrir gagnrýni sína á ríkinu, en til allrar hamingju höfum við ekki enn sokkið það djúpt hér á landi. Við verðum að gagnrýna það óréttlæti sem felst í spillingu. Það er það minnsta sem við getum gert.

Lára Hanna: Þakka þér.

Viðar Freyr: Yfirleitt ólögleg þýðir náttúrulega að viðkomandi athæfi sé í flestum tilfellum ekki löglegt (en ekki endilega öllum) og geti tengst mútumálum, fjárkúgunum og skipulagðri glæpastarfsemi. Lög eru ólík um allan heim, þannig að ekki er hægt að alhæfa neitt um hvernig spilling tengist lögum, þó að vissulega sé hún alltaf siðferðilega röng.

Siðferðið hefur umfram lög þann kost að það nær mun dýpra en lög, en þann galla að vegna þess að siðferði er í eðli sínu óskráð og háð heilbrigðri skynsemi, kemst fólk upp með að fylgja því ekki eftir.

Hrannar Baldursson, 22.8.2008 kl. 07:50

6 Smámynd: Héðinn Björnsson

Mikið er gott að sjá að spillingin á Íslandi hefur aftur komist á laxveiðistigið. Spilling á stærðargráðunni hundrað þúsund til ein milljón. Fyrir bara nokkrum árum var spillingin á stærðargráðunni tugir milljarðar. Vonandi að það takist að halda spillingarstigi þjóðarinnar á þessu stigi, þó líklegra sé að það fari aftur í milljarðatugina þegar að næsta góðæri eða einkavæðingarferli fer í gang.

Héðinn Björnsson, 22.8.2008 kl. 17:42

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Héðinn: Spillingin á þessu ári veltur á tugum milljarða.

Hrannar Baldursson, 22.8.2008 kl. 19:08

8 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

"...felur alltaf í sér hóp af fólki sem er tengt saman af einni grundvallarreglu: að skiptast á greiðum".

Svo vill til að þetta er líklega einnig ágæt skilgreining á almennum hugsunarhætti íslensku þjóðarinnar. Sem er óneitanlega svolítið óþægilegt. Og passar ekki alveg við þá algengu fullyrðingu að hvergi sé minni spilling en á Íslandi.

Ketill Sigurjónsson, 22.8.2008 kl. 19:27

9 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Laxveiðiboðin hafa verið notuð til að kaupa stóra greiða um áratugi á Íslandi - og því miður hefur það að mestu verið látið óátalið.  Þó vita allir að veiðileyfin með fæði og gistingu kosti mörg hundruð þúsund á mann í nokkurra daga lotum.

Helgi Jóhann Hauksson, 23.8.2008 kl. 01:33

10 identicon

Hrannar, ég verð eiginlega að spyrja þig í hæðni hvað þú eigir við þegar þú spyrð hvort spillingin sé "búin að skjóta rótum á Íslandi?" hehe  Við þurfum nú ekki að skoða margar sögubækur til að átta okkur á þeirri spillingu sem hér hefur þrifist síðan við fengum heimastjórnina í okkar hendur. Það sem mér finnst hins vegar skemmtilegt að velta fyrir mér núna er hvort munur sé á fyrirgreiðslupólitík og spillingu eða hvort þetta sé bara sami hluturinn...

Kristbjörn H. (IP-tala skráð) 23.8.2008 kl. 16:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband