Erum við virkilega hamingjusamasta þjóð í heimi?


Flest setjum við okkur það markmið að verða hamingjusöm í lífinu, og jafnvel eftir lífið. En til þess að nálgast markmiðið verðum við að miða á rétta skotmarkið. Er mögulegt að einhver okkar séu að miða á rangt skotmark? Það held ég. Sumir halda að þeir séu að miða á hamingju þegar þeir í raun eru að miða á farsæld. Leyfðu mér að útskýra: 

Undanfarin ár hefur verið í tísku að mæla það hversu hamingjusamar þjóðir eru. Samkvæmt þessu eru þjóðir hamingjusamari eftir því sem að þær uppfylla fleiri félagsleg skilyrði. Nú er talað um að þjóðir Norðurlanda séu hamingjusamir vegna félagslega kerfisins sem þeir fengu í arf frá forfeðrum sínum, og í fyrra sprengdi íslenska þjóðin alla skala sem hamingjusamasta þjóð í heimi samkvæmt alþjóðlegri rannsókn á högum þjóða.

Ég get ekki að því gert. Ég hristi hausinn yfir svona fréttum. Það er ekki verið að tala um hamingjuna, heldur farsæld.


Ég trúi ekki að hægt sé að mæla hamingju þjóðar. Það er hægt að mæla farsæld þjóðar en ekki hamingju. Farsæld er mikil eða lítil eftir því hvernig gengur að uppfylla skilyrði og framkvæma verkefni sem bæta ytri aðstæður í lífinu. Farsæld má ekki rugla saman við hamingju. Alls ekki. Manneskja sem tekur sín fyrstu spor í hinu harða lífi og heldur að farsæld sé það sama og hamingja, sér farsældina fyrir sér og eyðir mörgum árum í að öðlast hana, áttar sig hugsanlega ekki fyrr en of seint eða aldrei að hún setti sér ónákvæmt markmið.

Það eru til ýmsar kenningar um hamingjuna, hvað hún er og hvernig best er að öðlast hana. En í grundvallaratriðum skiptast skoðanir fólks í tvennt, annars vegar eru það þeir sem telja að hamingja sé eitthvað sem hægt er að höndla, telja og mæla - en þetta kalla ég farsæld, á meðan hinn hópurinn sér hamingjuna sem eitthvað handan okkar skilnings, ósnertanlegt og ómælanlegt - þetta kalla ég hamingju. Ég held að við séum samt í grunninn flest sammála um hvað hamingja er en ruglum bara saman hugtökum af því að við höfum ekki hugsað þau af sömu dýpt. Málið er að þegar við höfum eitthvað tvennt til að velja um, annað þeirra er sýnilegt og áþreifanlegt, en hitt ekki, þá höfum við tilhneigingu til að velja það sem við getum höndlað og jafnvel eignast, heldur en eitthvað sem við vitum ekki einu sinni hvort við getum snert.


Sumir einstaklingar virðast þurfa að setja sér áþreifanleg markmið í lífinu sem er raunhæft fyrir þá að ná, og þannig verði þeir hamingjusamir; og svo þegar markmiðinu hefur verið náð, þá þarf að setja sér nýtt og hærra markmið, komast lengra, og í stað þess að vera í góðu standi, vera í betra standi en allir hinir. Þetta er lýsing á farsæld.

Sumir einstaklingar virðast hins vegar setja sér markmið í lífinu sem erfiðara er að mæla. Til er fólk sem setur sér markmið eins og 'Ég stefni á að verða betri manneskja', og þá meina ég ekki betri í hinu og þessu heldur en allir hinir, heldur einfaldlega manneskja sem bætir sig dag frá degi, verður ekkert endilega meiri manneskja, heldur meira manneskja. Það er einmitt það sem menntun snýst um. Ég held einmitt að eftir því sem að maður getur orðið meira manneskja, nálgast maður það að vera hamingjusamur, og í raun muni maður aldrei vita fyrir víst hvort að maður sjálfur sé hamingjusamur - það er aukaatriði - heldur er maður einfaldlega hamingjusamur eða ekki.

Hugsum okkur unga manneskju á Íslandi í dag. Hún fer út í lífið með þann vilja að verða hamingjusöm - en ég held að líkurnar séu töluvert meiri á að manneskjan leiti sér farsældar frekar en hamingju. Svo er auðvitað hægt að leita sér að hvoru tveggja, en þá verður maður að skilja þennan greinarmun og átta sig á að þó að maður sé sáttur og ánægður, þá þýðir það ekkert endilega að maður sé hamingjusamur.

Hér fyrir ofan sérðu þarfapýramída Maslow. Þegar þú hefur uppfyllt allar þessar þarfir, þá er spurningin sú hvort að þú sért farsæl manneskja eða hamingjusöm.

Til að vera farsæll þarftu einfaldlega að uppfylla eigin markmið, til dæmis að eignast nauðsynjar, búa við virðulega samfélagsstöðu, vera í góðu starfi, vera heilbrigð, eða lifa lífi þar sem þér líður vel og þér finnst möguleikar opnir til að gera ýmislegt sem þig langar til að gera. Ég tel þetta vera afar mikilvægt.

Það þarf samt meira til. Þeir farsælu geta nú valið um hvort að þeir vilji verða ennþá farsælli - setja sér fleiri markmið - eða nálgast hamingjuna (eða fá hamingjuna til að nálgast þá) - þar sem líf okkar snýst um að nálgast hið góða eða gefa hinu góða aðgang að okkur sjálfum.

Farsæld er gagnleg til að ná frekari markmiðum, en hamingja er markmið í sjálfu sér. 

Getur manneskja sem á ekki neitt, ekki einu sinni góð börn eða góða heilsu, gott öryggi eða gott starf, getur sú manneskja verið hamingjusöm í því ástandi sem hún er? Er hamingjan eitthvað sem býr innra með okkur, eitthvað sem þarf að virkja, eitthvað sem þarf að varðveita, eitthvað sem við gerum og erum, eða er hamingjan eitthvað sem við nálgumst eða eitthvað sem nálgast okkur?

Endum þetta með tilvísun í Aristóteles, þar sem hann veltir fyrir sér sams konar hlutum, en er kominn aðeins dýpra, búinn að hafna því að hamingjan felist í auði, virðingarstöðu eða einhverju slíku sem getur verið gagnlegt, heldur eitthvað sem er eftirsóknarvert sjálft sín vegna:

Vissulega er sjón fyrir líkamann eins og rökhugsun fyrir sálina. (Aristóteles - Siðfræði Nikómakkusar) 



mbl.is Fengu hamingjuna í arf frá víkingunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það röksyður þetta að danir taka mest af "brospillum" af öllum þjóðum heims miðað við höfðatölu.

Spurning hvor hafi verið gerð samskonar könnun hjá íslensku þjóðinni.

Kveðja,

Katala (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 14:40

2 Smámynd: Ómar Ingi

Nei það tel ég nú ekki vera , en rosalega höldum við það svona eins og

Allt annað sé best á íslandi

Fallegasta kvennfólkið = Bull

Besta Vatnið = Það er til alveg eins gott vatn á nokkrum stöðum í heiminum en vatnið okkar er gott ekki spurning

Fallegasta landslagið stórbrotnasta osfv = humm ekki finnst mér það,

Þið getið ferðast um bandaríkinn og nánast allt sem er til hér er til þar.

Þetta er heilaþvotturinn okkar sem fæðist í minnimáttarkennd okkar vegna smæðar okkar, eða allvega eitthvað er að þegar altaf er verið að tönglast á Ísland Best í Heimi

Ísland er frábært land en baa fullt af klikkuðu öfgafullu fólki sem telur sér trú um ýmislegt sem alls ekki er alltaf rétt.

Bara mín skoðun enda einn af þessum kolklikkuðu íslendingum og ekki ennþá búin að flýja land

Enda ÍSLAND BEST Í HEIMI

Ómar Ingi, 29.3.2008 kl. 14:58

3 Smámynd: Bumba

Ja drengir drengir drengir. Ég er svoleiðis gjörsamlega sammála þess. Fyrirgefðu, Katala, þú ert kannski kona. Brospillur er flott orð fyrir þá sem þurfa að "lyfta sér á kreik" í hinu daglega lífi, persónulega finnst mér skemmtilegra að tala um lyftiduft.  Íslendingar eru langt frá því hamingusamir. Með beztu kveðju.

Bumba, 29.3.2008 kl. 18:43

4 identicon

Góðar pælingar um hamingjuna. Og sammála að það sé ekki hægt að finna út hver er "hamingjusamastur í heimi". Við hljótum öll að skilgreina hamingjuna út frá okkur sjálfum, en ekki út frá einhverju stöðluðu.. og því er nánast vonlaust að mæla hana..

Lovísa (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 15:59

5 identicon

Nei það er ekki rétt hjá þér að um farsæld sé að ræða í þessum rannsóknum. Hinsvegar er það ekki hamingja heldur, heldur kallast þetta á fræðimáli Subjective well being, sem er þó mun skyldara hamingju en farsæld.

Í þessum rannsóknum er alltaf stjórnað fyrir fátækt og velgengni, en rannsóknir hafa sýnt að auðvitað er erfitt er að ná háu SWB án nokkurs fjárhagslegs öryggis og t.d. ótta um að börnin manns fái ekki að borða á morgun. Hinsvegar þá hafa rannsóknirnar líka sýnt að eftir að öllum grunnþörfum manns er náð (matur, vatn, ásættanleg heilbrigðisþjónusta o.s.frv.) þá veita auknir peningar og velgengni manni ekki aukna hamingju.

Það sem þessar rannsóknir byggja á, er að þær hafa sýnt að það sem í raun veitir manni hamingju eða SWB eru vinir, fjölskylda, áhugamál etc. Þessar rannsóknir eiga því lítið skylt við pýramída Maslow, því í mörgum af þessum rannsóknum hefur komið fram að manneskja getur verið afskaplega hamingjusöm - og með hátt SWB - án margra af þessum hlutum sem Maslow taldi nauðsynlega. 

Hinsvegar er það alveg rétt að það er fáránlegt að reyna að skilgreina hver er hamingjusamasta þjóðin - japanir mælast t.d. afskaplega lágir á SWB skalanum, því að þeim er kennt að vera hlédrægir og að þeir eigi ekki að trana sér fram, og þegar þeir eiga að fylla út SWB spurningalista, eða eru spurðir hversu hamingjusamir þeir eru, þá gera þeir frekar lítið úr eigin hamingju - annað telst dónaskapur í þeirra augum. 

Sigurlaug Lilja Jónasdóttir (IP-tala skráð) 1.4.2008 kl. 17:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband