Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Er það lýðræði þegar allir kostir eru slæmir?

Kreppan sýnir klærnar. Í gær las ég blogg um mann sem réð ekki við að borga vörubíl sinn og unnið fyrir lifibrauði sínu, og var jarðaður fyrir skömmu í kyrrþey. Í lok síðustu viku fóru hugrökk hjón í viðtal til að lýsa hvernig ástatt var fyrir þeim í kjölfar hrunsins. Því miður fengust kerfisbundin svör frá þeim stofnunum sem ábyrgð bera á ástandi þessara einstaklinga, og þetta fólk stimplað sem óreiðufólk, þrátt fyrir að meginástæða hörmunga þeirra hafi verið Hrunið. Nú þarf enn hugrakkara fólk til að ganga fyrir skjöldu og segja sínar sögur, þó að það verði talað niður til þeirra og reynt að sverta orðspor þeirra á kerfisbundinn hátt.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur algjörlega brugðist. Stjórn sem komst til valda vegna óánægju fólks sem annars vegar var sprottin úr þeirri gífurlegu spillingu sem fest hafði rætur í stjórnsýslunni, og hins vegar vegna aðgerðarleysis. Sama sagan virðist vera að endurtaka sig. Þegar ríkisstjórn lofar að allar upplýsingar verði gefnar upp um mikilvæg mál og leynir þeim síðan, er verið að ljúga, nema það séu náttúrulega gróusögur að gagnsæi hafi einhvern tíma verið yfirlýst markmið Samfylkingar og VG. Ef ekki er verið að standa við eigin fullyrðingar, er það náttúrulega ekkert annað en ein af mörgum birtingarmyndum spillingar.

Fyrirtæki eru byrjuð að segja upp starfsfólki í kjölfar hækkandi skatta, sem þýðir fleira atvinnulaust fólk sem ríkisstjórnin þarf að finna úrræði fyrir. Á sama tíma er ríkisstjórnin algjörlega lömuð á Alþingi, þrætir um matartíma (það er reyndar sjálfsagður réttur sérhvers starfsmanns að fá matartíma, enda er fólk ekki vélar), og á meðan hvíla stjórnarliðar sig fjarverandi frá fundi. Það er eins og þetta fólk skilji ekki, geti ekki troðið inn í gegnum sín þröngu eyru að það er fólk í þjóðfélaginu sem hrópar af lífs og sálarkröftum á hjálp. Börn eru í hættu. Fá hugsanlega ekki næringu. Foreldrar orðnir þunglyndir. Hvað verður um börnin falli foreldrar fyrir eigin hendi?

Þeir sem eru á Alþingi mættu vinsamlegast skola af sér sælubrosið sem fylgir því að vera við völd, og horfa til fólksins sem er virkilega illa statt, og sleppa því vinsamlegast að bera íslenska alþýðu saman við afrískar aðstæður, og fullyrða að hlutfallið hjá Íslendingum sé miklu betra. Slíkt er merkingarlaust gaul, sem ber að víta harðlega. Einnig er engan veginn við hæfi að bera ástandið í dag saman við aðrar hörmungar Íslandssögunnar, þegar fólk neyddist til að flýja land sitt í umvörpum, og voga sér að fullyrða að það sé minna af slíku í dag og því sé ástandið bara nokkuð eðlilegt.

Það er algjörlega ólíðandi að fólk sem starfar við stjórnmál sé atvinnufólk í greininni sem vinnur fyrst og fremst út frá líkönum og tölfræði, en ekki út frá eigin samvisku, samúð með náunganum og ávallt með almannaheill sem viðmið.

Það er gífurleg stjórnarkreppa á Íslandi. Stjórnvöld orðin álíka óvinsæl og Hrunstjórnin og því hugsanlega stutt í að hún falli þannig að hrægammarnir úr hinum flokkunum geti tekið völdin, hlakkandi yfir óförum andstæðinga sinna, án þess að gera sér grein fyrir að í sökkvandi skipi er enginn andstæðingur annars.

Þegar sagt var frá Óslóartrénu í gær, vék hugur minn ekki frá örlögum síðasta Óslóartrés. Ég þori ekki að spá fyrir um hvað verður um hið nýja tré, sem opnað var með ljóði frá Gerði Kristný, en hún hélt mótmælaræðu 4. desember í fyrra. Ákveðin írónía í þessu.

Lýðræði er hinn síendurtekni grunur um að meira en helmingur fólksins hafi yfirleitt rétt fyrir sér. (E.B. White)

Ég hef frekar einfalda sýn á íslenska stjórnmálaflokka. Vinsamlegast leiðréttið eða bætið við fari ég með rangt mál:

Sjálfstæðisflokkur:

  • Ber ábyrgð á Hruninu (vegna hagsmunatengsla) - (einkavæddi bankakerfið á skaðlegan hátt)
  • Hefur ekki beðið afsökunar (hroki)
  • Opinber fulltrúi auðmanna (Björgólfsveldið: auðræði, þar sem aðeins þeir ríku eru þjóðin)
  • Styður leynimakk (stuðningur við Íraksstríðið, upplýsingar um stöðu banka)

Samfylkingin:

  • Ber ábyrgð á Hruninu (vegna vanrækslu og vanþekkingar)
  • Hefur ekki beðið afsökunar (hroki)
  • Óopinber fulltrúi auðmanna (Baugsveldið, Hagar og 1988: auðræði, þar sem aðeins þeir ríku eru þjóðin, en þykist vera fulltrúi fjöldans, blekking sem þjóðin hefur ekki enn séð í gegnum, og sjálfsagt ekki heldur flestir meðlimir flokksins sem þar eru í hugsjónarham.) 
  • Styður leynimakk (en segist vilja allt upp á borðinu, nema sumt)

Vinstri grænir:

  • Bera ekki ábyrgð á Hruninu (enda var þeim aldrei treyst af þjóðinni til að fara með stjórn, fyrr en efnahagskerfið hrundi, og þá virðist fólk hafa talið að fyrst einir höfðu rangt fyrir sér hljóta hinir að hafa rétt fyrir sér. Ekki gleyma að á getraunaseðlinum eru þrír möguleikar: 1X2)
  • Hafa krafist afsökunarbeiðni (styrkir pólitíska stöðu þeirra)
  • Opinber andstæðingur auðmanna, einkavæðingar og kapítalisma, svo langt sem það nær
  • Styður leynimakk í leyni, en er opinberlega algjörlega á móti því

Framsóknarflokkur:

Flokkur sem þykist algjörlega endurnýjaður, en þegar forystan segir já eða nei, fylgja skilyrði sem á endanum þýðir að já þýðir nei og nei þýðir já.

Borgarahreyfingin:

Það var sjálfsblekkingin sem ég féll fyrir. Það voru eftir allt ekki bara 1X2 á seðlinum, heldur líka þrettán raðir. Hvað maður getur verið vitlaus.

Að skila auðu:

Túlkað sem ógildur seðill. Slíkt atkvæði ætti hins vegar að vera beiðni um aðra kosti heldur en endalaust slæma kosti.

 

Lýðræði snýst um að gefa þegnum þjóðar val. Þegar góðir valkostir eru ekki til staðar, er þá um raunverulegt val að ræða?


Valda samviskulausir stjórnmálamenn óbætanlegum skaða?

"Undan öflugasta drifkrafti okkar, harðstjóranum í okkur, víkur ekki aðeins rökhugsun okkar, heldur einnig samviskan." (Friedrich Nietzsche)

Það er aðeins eitt viðmið sem ég krefst skilyrðislaust af sérhverri manneskju, og sérstaklega af þeim manneskjum sem eru við völd. Valdhafa virðist oft skorta þetta eina fyrirbæri sem gerir þá sannarlega að verðskulduðum valdhöfum.

Þetta er samviskan.

Hér má ekki ruglast á samvisku og samviskusemi. Samviskusemi er það kallað þegar fólk vinnur vinnu sína af eljusemi. Samviska er hins vegar ögn dularfyllra og erfiðara hugtak.

Í örstuttu máli má segja að manneskja með samvisku beri skilyrðislausa virðingu fyrir réttlæti. Mannkynið hefur í margar aldir reynt að binda réttlætið í lagabókstaf, en virðist enn ekki hafa náð að tjóðra réttlætisskepnuna niður, án þess að fórna einhverju í staðinn. Samviskan getur hins vegar náð valdi á réttlætisskepnunni með því að leyfa réttlætinu að ná valdi á sér.

Þegar stjórnmálamenn flykkjast um leiðtoga, stefnu, ákvörðun, lög, ferli eða hvað það er sem þeim dettur í hug, án þess að hafa almannaheill, réttlæti og samvisku efst í huga verður viðkomandi stjórnmálamaður strax vita gagnslaus þjóðfélagsþegn og reyndar meira til ógagns en gagns. Slíkum stjórnmálamanni ætti að koma strax í betra hlutverk, eins og að þrykkja númeraspjöld fyrir bíla, lagfæra sprungur í malbiki eða skipta um ljósaperur í götuvitum.

Samviskan er það sem gerir okkur mennsk. Hún er það sem kallar til okkar þegar okkur ofbýður eitthvað. Hún er það sem bítur okkur þegar við sjáum fólk þjást að óþörfu. Vandinn er að samviskan er ekki hávaðasöm, hún brýst ekki inn í líf hinna samviskulausu með ofbeldi og látum, heldur kemur hún innanfrá, og annað hvort er viðkomandi nógu mennskur til að hlusta á eigin samvisku eða ekki.

Ef samviskan hefði verið hæsta viðmið allra stjórnmálaflokka á 20. öld, hefði mannkynið aldrei þurft að þola nasisma, fasisma, kommúnisma, kapítalisma og alla hina tilgerðarlegu ismana sem eiga það sameiginlegt að hitta ekki í hjartastað þess sem gerir okkur göfug, velviljug, hjálpsöm, dugleg, því sem gefur okkur sjálfsvirðingu, eða því sem gerir okkur að sönnum manneskjum.

Ég hef orðið var við fólk sem hefur djúpa réttlætiskennd. Slíkt fólk virðist vera til staðar á Alþingi í dag, en því miður í afgerandi minnihluta, máttlaust og raddlaust, sama í hvaða flokki viðkomandi kann að vera. Samviskan er nefnilega ekki flokksbundin, og ef hún væri það, myndi hún samstundis hætta að vera samviska.

Grundvallarviðmið sérhverrar manneskju sem hefur einhver völd ætti að vera góð samviska. Þegar meginmarkmið viðkomandi snúast hins vegar um framapot, atkvæðaveiðar, hagsmunaplott, vinsældir; sama hvað það kann að heita, ef viðkomandi hefur ekki samvisku, þá eru völd hennar verri en engin.

Því miður lítur út fyrir að samviska íslenskra þingmanna sé ekki góð, frekar en þeirra einstaklinga sem virðast komast til valda um heim allan. Þeir virðast flestir ætla sér auðveldu leiðirnar að eigin markmiðum, en eru ekki tilbúnir að spyrja sig af djúpri alvöru hvort að þessi markmið séu réttlát og góð, óháð þeirra eigin hugmyndafræði, flokkslínum og skoðunum.

Gallinn við þá sem hafa ekki samvisku er að þeir sjá samviskuna sem hindrun til að koma eigin markmiðum í framkvæmd og skora mark. Þeir vilja ekki hafa samvisku. Hún er gagnslaus fyrir viðkomandi. Hún tefur. Hún er leiðinleg. Hún er ekki inn. Viðkomandi verður hins vegar verri en gagnslaus án hennar.

Er samviska þín í lagi? 


So?

so02

Hann er nýorðinn 16 ára. Gífurlegt náttúrutalent. Hann var tiltölulega óþekktur fyrir mótið þrátt fyrir að vera stigahærri en allir íslensku stórmeistararnir, en nú beinist athygli heimsins að honum. Hann tekur þátt í heimsmeistaramóti FIDE og hefur þegar rústað tveimur keppendum sem fyrir mótið þóttu meðal þeirra sigurstranglegri. Þessi drengur heitir Wesley So og er frá Filippseyjum.

Það er saga til næsta bæjar þegar 16 ára drengur gerir jafntefli við stórmeistara, hvað þá að sigra tvo ofurstórmeistara í röð, þá Vassily Ivanchuck og Gata Kamsky, sem báðir hafa í áratugi verið á toppi skákheimsins.

Þetta er eitt af því sem gerir skákina skemmtilega. Þegar tveir keppendur setjast við skákborðið skiptir engu máli hefðbundnir hlutir eins og kyn, aldur, þjóðerni, menning eða trúarbrögð, heldur fyrst og fremst þekking viðkomandi skákmanns, sjálftraust, skilningur, úthald, einbeiting og áhugi.

Hinn norski Magnús Carlsen hefur verið stóra barna- og unglingastjarnan í nokkur ár, en nú hefur So birst og gæti auðveldlega orðið að helsta keppinauti Carlsen um heimsmeistaratitil í skák, en eins og þeir sem fylgjast með íþróttinni varð Carlsen heimsmeistari í hraðskák fyrr í þessum mánuði, aðeins 18 ára gamall.

Sigurskák So gegn Kamsky:

Kamsky,G (2695) - So,W (2640) [C11]
Heimsmeistaramót FIDE Khanty-Mansiysk RUS (3.1), 27.11.2009

1.e4 e6 2.d4 d5 3.Rc3 Rf6 4.e5 Rfd7 5.f4 c5 6.Rf3 Rc6 7.Be3 Db6 8.a3 cxd4 9.Rxd4 Bc5 10.Ra4 Da5+ 11.c3 Bxd4 12.Bxd4 Rxd4 13.Dxd4 b6 14.Be2 Ba6 15.Bd1 Db5 16.b4 Hc8 17.Rb2 Dc6 18.Hc1 0-0. 19.a4 Bc4 20.Bg4 Bb3 21.0-0 Bxa4

22...Bb5 23.Hfe1 Hfe8 24.He3 f6 25.fxe6 Rxe5 26.Bf5 g6 27.Bh3 Dd6 28.Hd1 Hcd8 29.Hd2 De7 30.Hf2 Rc6 31.Dd2

31...d4! 32.He4 dxc3 33.Dxc3 Hf8 34.g4 Hd6 35.Bg2 Re5 36.g5 Hxe6 37.gxf6 Hfxf6. 38.Hxf6 Dxf6 39.He3 Bc6 40.Rd1 Dg5 41.Hg3 Df4 42.Rf2 Bxg2 43.Kxg2 Rc4 44.Dd3 Re3+ 45.Kg1 Rf5 46.Dd5 Dc1+ 47.Rd1 Kf7 48.Hc3 Dg5+ 49.Kf2 Df4+ 50.Kg2 Dg4+ 51.Kf2 De2+ 52.Kg1 De1+ 53.Kg2 Kg7 0-1.

Gaman að þessu.

 

Myndir og skák: Chessbase 


Af hverju ég vil ekki mótmælafundi, heldur verndarfundi

Hugmyndin er einföld.

Ef brotið er á einstaklingum eða fjölskyldum þarf þjóðin að mynda skjaldborg fyrir þetta fólk. Ríkisstjórnin er ekki þjóðin. Heimilin þurfa úrræði, ekki mótmælafundi eða verkföll, enda erum við hvort eð er flest í sama liði, og mótmæla valda aðeins sundrung. Vernd skapar hins vegar einingu.

Lánastofnanir og ríkisvaldið hafa brotið á þeim sem skulda lán. Það er enginn vafi á því lengur. Nú er svo komið að einstaklingar og fjölskyldur eru að tapa húsnæði sínum og eignum vegna Hrunsins. Þrátt fyrir að erlendir kröfuhafar hafi látið hlutfall af kröfum sínum falla niður, halda lánastofnanir fullum kröfum sínum gagnvart þeim sem minnst mega sín. Þetta fólk hefur ekki öfluga lögfræðinga sem það getur snúið sér til, góða vini í stjórnsýslunni, eða einhvern sem getur kippt í spotta innan lánastofnunarinnar. Þetta fólk þarf vernd.

Fólk er krafið kerfisbundið um vexti af lánum sem eitt sinn töldust eðlileg, en eru í dag ekkert annað en okur, sem hlýtur að vera ólöglegt einhvers staðar í lagabunkanum. Við vitum að samkvæmt Mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna hefur sérhver manneskja skilyrðislausan rétt til að vera virt sem manneskja, en ekki hlutur, og hefur rétt á húsaskjóli, fötum og mat. Samkvæmt sáttmála um réttindi barna, eiga börn rétt á menntun og tækifærum til að njóta æskunnar.

Það er verið að brjóta gegn þessum grundvallaratriðum, og við, þjóðin, erum að bregðast þessu fólki með því að bregðast ekki rétt við. Hugurinn er þó til staðar. Hugmyndin um greiðsluverkfall er til dæmis góðra gjalda verð, en er því miður ekki hugsuð til enda, þar sem að afleiðingar hennar eru sjálfvirkur og aukinn innri kostnaður á þann sem í verkfallið fer, án þess að lánastofnun finni nokkuð fyrir þrýstingi vegna þess að viðkomandi hefur ekki greitt á réttum tíma, enda er það svo að fæstir eru að greiða á réttum tíma þessa dagana. Fáir geta það.

Það sem þarf er vernd.

Hvernig vernd? Jú, þegar við vitum að óréttlæti er framið, þurfum við að halda verndarfundi og stöðva framkvæmdarvaldið til að framkvæma þegar augljóst óréttlæti á sér stað. Lögreglumenn eru skyldugir til að fara að lögum, og þeir gera það. Þetta er upp til hópa afar gott og heiðarlegt fólk. Hins vegar þarf að stöðva lögregluna eða annað framkvæmdarvald þegar hún er send út af mafíósum til að þvinga fram óréttlátum kröfum. Þá ættu Hagsmunasamtök heimilanna að koma til, kalla saman verndarfund og flykkjast á þann stað þar sem ætlunin er til dæmis að koma fólki á götuna.

Þetta er 1. stigs forgangsvernd.

2. stigs forgangsvernd snýst um að berjast gegn auknum kostnaði sem fellur á lán vegna þess að viðkomandi hefur ekki tekist að greiða á réttum tíma, til dæmis vegna þess að hafa misst vinnuna. Forsendur þurfa að vera skýrar og ljóst að brotið hefur verið á viðkomandi einstaklingi. Kröfur eru sendar í lögfræðing. Ef slíkum kröfum er hafnað og lántakandi getur ekki varið sig gegn þessum aukna kostnaði, er tilefni til annars stigs forgangsverndar, og það er að halda verndarfund hjá lögfræðifyrirtækinu þar sem lánastofnunin stundar viðskipti sín.

3. stigs forgangsvernd snýst hins vegar um að vernda fólk gegn okurlánum. Greiðsluverkfall getur verið hluti af slíkri vernd, en hún þyrfti að vera betur útfærð. Eftir að hafa lagt höfuðið í bleyti, held ég að framkvæmin þyrfti að vera hnitmiðaðri. Til að greiðsluverkfall virki þarf hópur að skuldbinda sig til að vernda þá sem fara í greiðsluverkfallið, og allir þeir sem fara í þetta greiðsluverkfall þurfa að undirrita yfirlýsingu og senda sinni lánastofnun, enda er mikilvægt að samskipti séu opin og öllum gefið tækifæri til að breyta rétt.


Marinó G. Njálsson kom með góða hugmynd í gær. Að fólk skrifaði bréf til banka og annarra lánastofnanna þar sem það krafðist einfaldlega að lán þeirra yrðu leiðrétt. Sendi einstaklingar inn slík bréf, og afrit til Hagsmunasamtaka heimilanna, enda fer þar hópur fólks með vernd heimila að leiðarljósi, hvort sem slík heimili eru skuldug eða ekki, og fái viðkomandi engin svör innan ákveðins tíma, segjum 14 daga, þá er tilefni til að halda verndarfund. Fái fólk þau svör að það verði rukkað um allan þennan pening en hafi hins vegar aðgang að greiðslujöfnunarúrræði, þar sem það fær aukalán til að greiða fyrsta lánið, sem er náttúrulega brella og sjónhverfing sem notuð er til að slá ryki í augu fólks, og virkar því miður vel sem slíkt, þá má halda verndarfund í viðkomandi lánastofnun.

Hugmyndin er að halda verndarfundina þar sem þeir eiga við.

Að halda verndarfundi fyrir framan Alþingishúsið er tilgangslaust. Ríkisstjórnin er gagnslaus. Kannski ekki tilgangslaus, en gagnslaus. Hana ætti helst að hunsa. Stjórnmálamenn hafa dæmt sig með verkum sínum. Þrasa endalaust á þingi í kappræðustíl, ræða ekki málin af alvöru, þvinga málum í gegn. Að þetta fólk skuli halda að það stjórni fólkinu á Íslandi er mér ráðgáta, þar sem það virðist ekki einu sinni getað stjórnað sjálfu sér. Fylgstu með stjórnmálamanni í sjónvarpssal. Það er undantekning ef viðkomandi sýnir næga hógværð og virðingu til að hlusta á sjónarmið annarra, taka þau gild, og vera tilbúin til að setja sig í spor viðkomandi.

Slíka undantekningu höfum við séð hjá Ögmundi Jónassyni, en hann er því miður undantekningin frá reglunni, einn á móti straumnum.

Stjórnvöldum á Íslandi eru veitt alltof mikil athygli á meðan þau gera ekkert gagn. Fjölmiðlar veita þeim þessa athygli og straumurinn flæðir með. Því miður er staðan orðin þannig í dag að fólk þarf að taka völdin í eigin hendur. Ríkisstjórnir virka best á friðartímum, þegar ekkert þarf að gera, og kerfið rúllar sinn vanagang og fólk þarf að vita af einhverju risabatteríi sem rúllar og telur því trú um að það sé að vernda fólkið.

Það eru ófriðartímar á Íslandi.

Á ófriðartímum er ríkisstjórn hins vegar bákn sem stendur í vegi fyrir réttlæti og eðlilegum framkvæmdum þeirra sem vilja finna leiðir út úr vandanum, og ekki nóg með það, ríkisstjórnina er auðvelt að misnota innan frá af óvönduðum einstaklingum sem kunna á kerfið, hafa tök á lykilfólki. Hagsmunir fárra eru því miður verndaðir af ríkisstjórnum, og það getum við ekki liðið í dag.
Við erum stödd á ófriðartímum með gagnslausa ríkisstjórn og ógn sem kemur innanfrá, af lánastofnunum sem hafa verið misnotaðar, og afleiðingin er sú að venjulegt fólk þarf að borga með öllu sínu.

Það er ranglátt.

Er það skylda okkar að vernda réttlætið, og ekki bara réttlætið, heldur þá sem beittir eru ranglæti í nafni réttlætisins?

Ég vona að fólk úr öllum þjóðfélagsstigum taki höndum saman gegn þessu óréttlæti, því að við erum flest meðvituð um það, en höfum kannski ekki fundið farsæla leið sem við trúum að virki til að vernda þá sem hafa verið beittir órétti.

Ég þekki nokkra alþingismenn. Fínt fólk. En þau virðast umturnast í viðtölum við fjölmiðla þannig að í stað fólksins sem ég taldi mig þekkja, birtist það sem málsvarar málstaðar sem er miklu ómerkilegra en þau sjálf.

Ég þekki marga lögmenn og bankamenn. Afbragðs einstaklingar margir hverjir. Þá vil ég ekki láta dæma af dómstóli götunnar. Hins vegar vil ég fá þá og allar aðrar stéttir í lið með réttlætinu, í stað þess að taka þátt í ranglátu kerfi einungis til að vernda sig og sína. Réttlátt kerfi verndar alla.


Fjöldagjaldþrot íslenskra heimila í sjónmáli?

Þú verður að hlusta á þetta.

Þetta er viðtal sem Heimir Karlsson átti við íslensk hjón sem gátu ekki staðið í skilum á verðtryggðu húsnæðisláni, ekki vegna húsnæðislánsins, heldur vegna lögfræðikostnaðar og annnars innri kostnaðar í bankanum. Nú standa þau uppi án húsnæðis og skulda 17 milljónir þrátt fyrir að hafa staðið í skilum vegna lánanna. Húsnæðislaus, hann atvinnulaus og með börn. Hvar er skjaldborgin fyrir þetta fólk? Hvar er skjaldborgin fyrir þær þúsundir sem eru í sömu stöðu?

Eina sem maður heyrir frá ríkisstjórninni er að staðan sé ekki svo slæm, þetta eru bara einhverjar prósentur af þjóðinni. Ég hef aðeins eitt að segja við þá sem nota tölfræði og líkön í svona málum:

ÞAÐ ER RANGT AÐ TROÐA MANNESKJUM Í TÖLFRÆÐILÍKAN OG GERA ÞANNIG LÍTIÐ ÚR VANDA ÞEIRRA

Bankinn þeirra hefur komið fram við þau af mikilli grimmd, og hvorki forsætisráðherra né félagsmálaráðherra svarað þegar þau hafa reynt að ná sambandi við stjórnmálamenn í ákalli um hjálp. Maðurinn hefur íhugað sjálfsmorð. Konan er afar döpur.

Hagsmunasamtök heimilanna urðu til vegna þess að hópur einstaklinga sá fyrir að þessi yrði raunin, og er í raun einu íslensku samtökin sem reyna að slá skjaldborg yfir heimilin, en þessi samtök eru óháð stjórnmálaflokkum og unnin í sjálfboðavinnu. 

Því miður hafa samtökin mætt óvæntri mótstöðu frá þremur hópum: bönkum, ríkisstjórn og fjármagnseigendum, en af einhverjum ástæðum skilja þessir þrír aðilar ekki að Hagsmunasamtök heimilanna eru fyrst og fremst mannúðarsamtök sem berjast fyrir þeim eðlilegu mannréttindum að fólk fái að hafa þak yfir höfuðið.

Ég held að Hagsmunasamtök heimilanna ættu að íhuga alvarlega að safna saman upplýsingum um þau mannréttindabrot sem verið er að vinna gegn góðu fólki á Íslandi, og stofni til samvinnu við alþjóðleg mannréttindasamtök.

Því miður hafa Hagsmunasamtök heimilanna séð sig neydd til að fara út í þá leið að efna til friðsamlegra mótmæla með að hætta tímabundið greiðslum, en því miður virðast afleiðingarnar verða þær að bankarnir senda sínar kröfur í lögfræðinga sem eykur kostnaðinn fyrir þá sem skulda töluvert. Greiðsluverkfall vekur athygli á stöðu mála, en það þarf meira til.

Ef farið er út í greiðsluverkfall þarf samstaðan að vera öflug, og verkfallið má alls ekki vera tímabundið. Fólk þarf líka að standa saman.

Ég skil ekki það fólk sem lifir án vandræða og sér venjulega einstaklinga sem hafa staðið í skilum allt sitt líf, tapa öllu sínu, hvernig það getur staðið gegn þessu fólki og sagt að ekkert réttlæti sé í að fella niður skuldir þeirra, þegar þetta fólk biður aðeins um réttlæti.

Það er ekkert réttlæti í því að tapa öllu.

Ég heyri stöðugt frá æ fleirum að ég hafi tekið góða ákvörðun við að flytja úr landi þegar þetta var allt rétt að byrja. Það er ekki auðvelt að flytja frá heimalandi sínu án atvinnu. Hafa verður í huga að einstaklingur fær aðeins þrjá mánuði í atvinnuleysisbætur flytji hann frá Íslandi, og erfitt er að finna góð störf í Evrópu í dag. Það eru um 300 manns um hvert auglýst starf á Oslósvæðinu í Noregi, þannig að þetta er ekki auðvelt. Það tók mig sex mánuði að finna starf. 

Þeir sem ætla að flytja út verða að átta sig á að fórnirnar eru miklar. En þeir sem ætla að vera áfram heima og finna að byrjað er að þjarma að þeim, verða að standa saman og sýna þessa samstöðu í verki. Það er erfið leið, en valið stendur aðeins á milli tveggja kosta:

a) flytja úr landi

b) verja heimilin

Þjóðir hafa farið út í styrjaldir til að verja heimilin. Það var frekar auðvelt fyrir mig að flytja úr landi þar sem ég hef lengi búið erlendis, en í Mexíkó lenti fjölskylda mín í erfiðum náttúruhamförum, fyrst fellibyl og svo flóði, þannig að allar eignir okkar fóru forgörðum. Eftir það flutti ég til Íslands, kom með fjölskylduna heim, og þá skellur Hrunið á. Þetta eru verri hamfarir en fellibylur og flóð, aðallega vegna þess að þessar hamfarir eru af mannavöldum, og fylgt eftir af grimmd, skilningsleysi og síðan virðist meirihluti þjóðarinnar kæra sig kollóttan.

Hvar er þjóðin?


Af hverju iPod Touch er langbesta græja sem ég hef átt

Ég hef átt fullt af tölvum um ævina, Sinclair ZX Spectrum 48K, Commodor 64, Amiga 2000, og svo nokkrar PC og Mac, fullt af símum, lófatölvum, MP3 spilurum, GPS tækjum og myndavélum. Ég hef gaman af græjum. 

Í dag á ég iPod Touch. Þetta er fyrsta tölvan sem ég hef átt sem gerir nákvæmlega allt eins og ég vil að það gerist, gerir það hratt og kemur mér sífellt á óvart. 

Það tekur mig um einn og hálfan tíma að fara til og koma heim úr vinnu daglega. Á meðan hef ég góðan tíma til að leika mér að iPod Touch græjunni. 

Ég hef horft á bíómyndir í þessari græju, til dæmis hef ég hlaðið niður Dilbert podcasti, sem gaman er að glugga í á leið í vinnu. Kemur mér alltaf í gott skap fyrir daginn. Einnig er hægt að spila flotta tölvuleiki, hlusta á hljóðbækur eða tónlist. Það er líka gott að lesa rafbækur með þessari græju. Hún getur bókstaflega allt nema spilað fótbolta, þó að hægt sé að kaupa fótboltaleiki í hana.

Það besta er að ég kemst á Internetið með wi-fi tengingu, þannig að þegar ég er nálægt heitum reit, get ég kíkt á tölvupóstinn, skoðað veðurspána, skoðað götukort, kíkt á YouTube, og hvað sem maður gerir með venjulegri tölvu. 

Snertiskjárinn er algjör snilld. Hann virkar þrusuvel og vandræðalaust. Ég keypti þunnar plastfilmur til að verja skjáinn og gúmmíhulstur utan um græjuna, og tel það skynsamlega leið til að verjast hnjaski. Sérstaklega skemmtilegt er þegar maður hallar tækinu, þá er jafnvægisnemi í græjunni sem stýrikerfið nemur, þannig að ef maður vill stærra letur þegar maður les til dæmis blogg, snýr maður bara græjunni 90 gráður, og myndin stækkar.

Ég hef átt þennan 16GB iPod touch í 6 mánuði og er hæstánægður með hann. 

Þá veistu það.

Og ég er ekki einu sinni að selja græjuna. Vil einfaldlega láta vita þegar ég upplifi eitthvað gott, gagnlegt eða skemmtilegt. 

 


ZX Sinclair Spectrum 48K

 


Commodore 64

 


Amiga 500

 

 

Myndir: apple.com og gamlar tölvur frá wikipedia

 


Erum við þrælar?

Eini sinni þótti mér heimur okkar frekar einfaldur. Það var áður en ég fór að hugsa um hann af alvöru. Síðar meir þótti mér spennandi að velta fyrir mér hvað það væri í heiminum sem ógnaði mest frelsi manneskjunnar til að vera það sem hún er.

Frá því ég hef verið barn, hefur mér líkað vel við mína eigin manngerð, og þegar kom að því að velja mér framtíðarmenntun, var meginviðmiðið að ég fengi að vera áfram ég sjálfur og þroskast í samræmi við það. Að gera það er flóknara en að segja það. Þetta var afar sjálfhverft val og hefur það margoft verið gagnrýnt í mín eyru, og hef ég hlustað á þessa gagnrýni, en ekki talið rétt að ég leitaði menntunar á sviðum sem einungis tryggðu mér tekjur í framtíðinni, heldur þótti mér mikilvægara að verja tíma mínum í menntun sem hefði merkingu fyrir mig.

Þetta er meginástæðan fyrir því að ég valdi frekar nám í heimspeki og bókmenntafræði, en tölvunarverkfræði, sem mér þótti reyndar afar spennandi kostur. Og reyndar hef ég stundað tölvutengd störf alla tíð, frá því að kenna tölvufræði til að vinna í upplýsingatækni. Ástæðan fyrir að ég valdi heimspeki og bókmenntafræði var einföld. Ég hafði margar spurningar um heiminn og tilveruna, og hef reyndar ennþá fullt af þeim, hafði fundið hjá sjálfum mér mikla þörf fyrir að skrifa og lesa, frá barnæsku - sem hafði ekkert að gera með lestur og skrift í skóla, heldur einhverja þörf til að velta fyrir sér hugmyndum eigin og annarra og móta þær í samspili við fyrsta flokks pælingar. Með þessum huga las ég Biblíuna á 12. aldursári, las ljóð og skáldsögur. Síðan varð ég hugfanginn af skák og hvernig hún tengist mannlegri hugsun, bæði skapandi, gagnrýnni og síðan þessari tegund af hugsun sem reynir að sjá til enda sérhvers máls.

Það magnaða við heimspekina er að þú kemst í snertingu við hugsuði sem deila sínum dýpstu hugsunum með þér og þú færð enn betri tækifæri til að móta eigin þekkingu á heiminum. Þannig séð var þetta val svolítið sjálfhverft, eins og val um framtíð mætti vel vera. Hins vegar hefði ég vel getað ímyndað mér líf í heimi þar sem enginn kostur væri á mannlegum fræðum, og manni ýtt út í starfsþjálfun frekar en menntun, sem er fyrst og fremst hugsuð til að mæta samfélagslegum þörfum og væntingum. Það þarf ekki annað en að lesa George Orwell eða Platón til að dýpka slíkar pælingar. Ætli teiknimyndin 'Animal Farm' hafi ekki einmitt vakið mig til umhugsunar um þessi mál, þegar hún var, að mig minnir, einhvern tíma í bernsku sýnd á jólunum í íslensku sjónvarpi.

Á meðan maður eyðir árum í að velta fyrir sér heimspeki, tekst maður á við spurningar eins og 'ætti maður alltaf að segja satt?', 'hvar liggja takmarkanir mannlegrar þekkingar?', 'hvað er það við fegurð sem hefur áhrif á fólk?' og margt fleir, en heimspekingar hafa ekki bara skoðun á þessu, heldur leyfa sér að hafna því sem þeir hafa áður trúað og reyna að líta á spurninguna fordómalaust, reyna að hugsa um hana sem hugtak, skoða síðan önnur viðhorf, bera þau síðan saman við eigið líf, skoðanir og hugsanir. Eftir slíka rannsókn held ég að heimspekingur þurfi ekki að taka meðvitaða ákvörðun eða komast að einni ákveðinni niðurstöðu, heldur síast þessi vinnsla þekkingar inn í vitund hans, jafnvel á meðan hann sefur. Eða hún.

Þetta leiðir til þess að maður öðlast dýpri skilning á því hvers vegna lygar og spilling festa rætur. Hafir þú ekki hugsað um hvernig þú hugsar, verður þú hugsanlega þræll eigin skoðana, sérstaklega ef þær eru ekki mótaðar af vandlegri umhugsun. 

Þér finnst kannski í lagi að hagræða upplýsingum til að fá meira út úr kerfinu, þér finnst kannski í lagi að græða á óförum annarra? Þannig eru hlutirnir bara, gætirðu hugsað. Takirðu tíma til að velta þessu fyrir þér, og snúist grundvallarhugmyndir um siðferði gegn því hvernig þú vilt lifa lífinu, spurningarnar um hvernig hlutirnir ættu að vera frekar en hvernig þeir eru, myndir þú þá hafna siðferðinu eða því lífi sem þig langar að lifa, sé líf þitt á einhvern hátt ranglátt?

Lifum við til annars en að bæta heim okkar?

Segjum að manneskja hafi haft lifibrauð sitt af því að stofna mörg fyrirtæki, velja síðan eitt þeirra, hella skuldum allra hinna yfir á þetta eina og láta þetta eina fara svo á hausinn. Gera þetta margsinnis og sífellt í hærri upphæðum. Er slík manneskja frjáls til að vera hún sjálf, eða þrælbundin í einhverja ímynd sem er ekki sönn?

Frjáls vilji kemur í ljós þegar við vitum að við höfum val. Hjarðhegðun þar sem allir fylgja þeirri sömu stefnu að eignast sífellt eitthvað flottara en aðrir, virðist ekki vera val, heldur líkara fíkn. Sorglegri fíkn. Það er auðvelt að vera meðvirkur í slíkri fíkn.

Er kannski einhver sjálfstæð skoðun falin þarna djúpt innra með okkur. Eitthvað sem aðeins barnið í okkur veit? Eitthvað sem við grófum í djúpa jörð og földum til að geta fullorðnast og hætt að vera áhrifalaus börn? Getur verið að eitt af grundvallarvandamálum heimsins felist í því að við berum ekki virðingu fyrir barninu í okkur sjálfum, né þá í þeim börnum sem enn eru börn, og því finna þessi börn sig knúin til að fullorðnast og hætta því að vera þau sjálf? 


Hvernig dóm fær auðmaðurinn og teiknimyndafígúran Skröggur frá Roger Ebert?

bilde?Site=EB&Date=20091104&Category=REVIEWS&ArtNo=911059995&Ref=AR&Maxw=438

Komin er út íslensk þýðing á kvikmyndadómi Roger Ebert um Disney myndina "A Christmas Carol" sem gerð er eftir klassískri sögu Charles Dickens, og fær hún afar góða dóma.

Rökstuðningurinn er það góður að nú langar mig líka að sjá hana.

Smelltu hérna til að lesa dóminn.


Ný styrjöld hafin sem enginn tekur eftir?

google-vs-microsoft

Þetta er tilraun til að leggja heiminn í rúst. Að gera eitthvað sambærilegt í raunheimum væri samstundið úthrópað sem hryðjuverk, en sjálfsagt réttlætt af snjöllum pólitíkusum og spunameisturum sem réttlætanleg aðgerð í styrjöld. Það vill kannski gleymast að almannaheill allrar veraldar liggur undir, en góðar upplýsingar eru lykilþáttur í að byggja upp raunverulega þekkingu í baráttu við fordóma. Án þeirra verður heimsmynd okkar skakkari og í samræmi við hugmyndir þeirra fáu sem vilja ráða yfir heiminum með þeim völdum sem þeir trúa að fjármunir gefi þeim.

Styrjöldin um upplýsingar er hafin. Barist er um mannlega þekkingu. Annar aðilinn vill ná völdum yfir mannlegri hegðun, hinn aðilinn vill græða á henni eins og hún er.

Stóra spurningin er: Eiga upplýsingar að vera frjálsar, ókeypis og óháðar?

Microsoft er í viðræðum við fjölmiðlafyrirtæki Ruperts Murdoch, News Corp., um að fjarlægja fréttir af fréttavefjum News af vef Google. Myndi Microsoft greiða News fyrir það samkvæmt heimildum fjölmiðla í gær og í dag. Eru viðræðurnar á byrjunarstigi en upphafsmaður þeirra er Murdoch, samkvæmt Washington Post. Er þetta enn einn liðurinn í stríði leitarvéla um aðgang að vefsíðum og býr til þrýsting á Google að greiða fyrir efni á vefsvæði sínu, samkvæmt frétt Financial Times í dag.

Google hefur gjörbreytt upplýsingaheiminum og hefur jafnvel verið bætt inn í enskar orðabækur sem sögnin "to google", sem þýðir að nota google.com til að leita upplýsinga á vefnum. Þetta er öflugt tæki fyrir venjulegt fólk. Þú getur fundið hvaða upplýsingar sem er kunnirðu að nota leitarvélina rétt. 

Google hefur tekjur af auglýsingum sem tengjast leitarvélinni. Fyrirtæki greiða google fyrir að koma fréttum til fólks sem leitar ákveðinna hugtaka. Þetta svínvirkar og hefur gert Google að heimsveldi í heimi upplýsingatækninnar.

Svo virðist þó að velgengni Google hafi vakið upp öfund hjá einhverjum sem skilgreina eigin tilvist út frá hlutfallslegum völdum í heiminum. Rupert Murdoch stjórnar nánast heimi fjölmiðla, eins og útvarpi, sjónvarpi og dagblöðum. Hann hefur ekki náð stjórn á internetinu, og finnst það sjálfsagt frekar pirrandi. 

Google er að vissu leyti öryggistæki fyrir venjulegt fólk, þar sem aðgangur þess að áreiðanlegum upplýsingum, þeim að kostnaðarlausu, getur verið afar fróðlegur og gagnlegur. Þetta er raunverulegt gildi. Þetta veit Murdoch, sem hefur í áratugi fengið að matreiða upplýsingar ofan í almenning, og náð jafnvel að stjórna hvernig það lifir, hvað það kaupir, hvað því finnst merkilegt. 

Mér finnst ekki ólíklegt að Murdoch reyni að fá flest fjölmiðlafyrirtæki heims í lið með sér, þar sem aukin og strangari áhersla verður lögð á höfundarétt, þannig að ef vefsíða birtir til dæmis frétt án þess að greiða fyrir heimildirnar, verður hægt að sækja hana til saka og rukka um peninginn. Þetta þýðir að fyrirtæki eins og Google, sem lítur á fréttir og aðrar upplýsingar sem ókeypis efni þegar það hefur komið einu sinni birst gjaldfrítt á Internetinu, gætu verið kærð fyrir gífurlega fjármuni fyrir það eitt að auka upplýsingaflæðið.

Ef þetta ráðabrugg Murdoch og Microsoft gengur upp, þýðir það breytingu á hvernig við lítum á frelsi upplýsinga. Frelsi upplýsinga verður ekki lengur gjaldfrí, og þeir sem reyna að miðla upplýsingum án þess að borga fyrir þær gætu fengið á sig ákæru.

Viljum við að upplýsingaheimurinn verði takmarkaður til þess eins að auðmenn stjórni hvernig múgurinn kaupir neysluvörur?

-Ekki ég.

Er líklegt að þessi brella gangi upp hjá innrásarvíkingunum?

-Já.


mbl.is Ræða um að útiloka Google
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins: orsakir efnahagshrunsins uppgötvaðar

Þetta er kannski svolítið klikkuð hugmynd. En jafnframt svolítið mergjuð. Ég efast um að hún sé sönn. En hún gæti verið það. Ef hún væri sönn veit ég ekki hvernig við gætum vitað það. Gleymum öllum útrásarvíkingum, kúlulánum, pólitískri spillingu, bankaránum innanfrá, stöðutöku gagnvart krónunni, verðtryggingunni, myntkörfulánum, alþjóðlegri lausafjárkreppu, blóðugri byltingu á Austurvelli - öllu þessu sem við trúum að fléttaðist saman til að koma íslensku hagkerfi á hnén.

Ímyndum okkur að við séum stödd í september 2008. Fáeinum dögum fyrir hrun íslensku bankanna. Um það bil sem alheimskreppan var að skella á. Settur var í gang öreindahraðall. Gífurlega stór og öflugur. Í bankalandinu Sviss!

Sumir héldu að gangsetningin gæti valdið heimsendi. Aðrir héldu að karlmenn yrðu getulausir. Enn aðrir töldu að svona stór rafeindahraðall gæti vakið reiði Guðs. Aðrir að afleiðingarnar yrðu óvæntar og ófyrirsjáanlegar. Flestir kæra sig hins vegar kollótta og nenna ekki að pæla í endalausum samsæriskenningum eða hlutum sem aldrei verður hægt að sanna.

Hvað ef þessi rafeindahraðall hefur haft áhrif á peningakerfi heimsins sem enginn hafði skilning á, og valdið einhvers konar skammhlaupi sem olli því að upplýsingar í öllum tölvukerfum heimsins brengluðust? Hvað ef þessi rafeindahraðall hafði óvænt áhrif á gildi upplýsinga, bætti við einu núlli hér og dró frá eitt núll þar. Þannig að maður sem átti samkvæmt tölvukerfi banka einn daginn 8 milljarða átti næsta dag 8 krónur.

Bíddu, gerðist ekki eitthvað slíkt á hlutabréfamarkaði?

Ef afleiðingarnar eru ófyrirsjáanlegar og gætu orðið á alþjóðlegum skala, og nokkrum dögum síðar hrynur fjármálakerfi veraldar, gæti verið að það sé samband þarna á milli? Eitthvað samband sem enginn skilur og enginn trúir að sé til staðar þar sem það er svo langsótt, eins og sú hugmynd að bankastarfsmenn eigi að vera áhættusæknir en ekki gæta þeirra peninga sem þeim er trúað fyrir af viðskiptavinum. Reyndar er bankastarfsmönnum vorkunn. Þeir lifa í svo síbreytilegum fjármálaheimi að þeir þurfa að láta peninga fljóta til að þeir haldi verðmæti sínu. Málið er að fjármálaheimurinn virðist vera einhvers konar stormský sem er á sífelldri hreyfingu og enginn skilur.

Þú leggur sömu krónu aldrei tvisvar inn í banka.

Nú er verið að setja þennan hraðal aftur í gang. Tilraun tvö. Eftir fyrstu tilraun hrundi fjármálaheimurinn. Ekki að það sé sannanlegt samband þarna á milli, en það verður spennandi að sjá hvort eitthvað sambærilegt gerist á næstu dögum. Kannski eftir mánaðarmót.

Ég spái því að við fáum einhverjar stórmerkilegar fréttir 7. desember um enn fleiri fjármálahörmungar í þessum skrítna heimi sem virðist stjórna gjörsamlega hvernig fólk hagar sér í raunheimum. Ef þú hefur einhverja stjórn á þessum óreiðuheimi og eignast peninga, ber fólk virðingu fyrir þér, hyllir þér við hvert tækifæri og gefur þér aðgang að ákvörðunum stjórnmálamanna og svo geturðu keypt skoðanir almennings með því að dæla í þá vel völdum upplýsingum með fjölmiðlum. Þeir kalla slíkt 'misinformation' á enskunni. Mættum við ekki kalla þetta 'misupplýsingar'?

Ef þessi spá rætist, að einhverjir bankar fara til dæmis á hausinn um mánaðarmótin þar sem þeir geta ekki borgað skuldir sínar, enda hefur eitthvað eins og flæðandi fjármunir þornað upp, þá getur verið eitthvað til í þessum brjálæðislegu samsæriskenningum. Ef ekki, ætti lesandi góður vinsamlegast að loka þessari bloggsíðu og heimsækja hana aldrei aftur, sama hvaða annarlegu langanir gætu sótt á klikkfingurinn. 

 

Mynd: Fréttavefur BBC


mbl.is Öreindahraðallinn aftur í gang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband