Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2024

Hætturnar sem felast í fáfræði

Fáfræði skil ég, ef ég reyni að skilgreina hana, sem skort á gagnrýnu viðhorfi og áhuga til að leita sér þekkingar og visku.

Það var einhvern tíma sem ég var að lesa samræðu eftir Platón að Sókrates sagði að fáfræðin væri uppspretta alls hins illa í heiminum. Og þessi setning festist í huga mínum með því að skoða hana frá ólíkum sjónarhornum tel ég hana vera sanna. 

Fyrst langar mig að skoða hana frá stóísku sjónarhorni, en samkvæmt stóuspekinni er illska ekki eitthvað sem gengur laust í heiminum og í öðru fólki, heldur er hún einungis eitthvað sem þú getur valdið í þínum eigin huga. Ef þú kærir þig ekki um að læra, ef hið sanna skiptir þig engu máli og þú stekkur á skoðanir sem eru illa ígrundaðar og ferð að básúna þær út um allar trissur, þá ertu að valda sjálfum þér skaða.

Ein afleiðing af slíkum skaða er að þú getur með orðum þínum og verkum skapað aðstæður sem gætu valdið því að aðrir valdi sjálfum sér sams konar skaða, og þegar við erum komin með samfélag í gang sem nærist á fáfræði, þá má kannski segja að við séum komin með spillt samfélag.

En fáfræðin hefur ekki bara með upplýsingar að gera, því nóg er af misjafnlega áreiðanlegum upplýsingum út um allt, heldur með þekkingu. Á meðan upplýsingar eru gögn sem liggja eins og hráviði út um allar trissur, í bókum, tímaritum, á netinu, hvar sem er, þá er þekking eitthvað sem við höfum eftir að hafa nýtt okkur þessar áreiðanlegu upplýsingar, en ef það sem við byggjum upp er byggt á röngum upplýsingum, þá erum við búin að byggja um blekkingu.

Það er gríðarlegur munur á þekkingu og blekkingu, svo mikill að fátt er þýðingarmeira í samfélögum heimsins en að slítast úr viðju blekkingar og inn í heim þekkingar. Þetta hefur stöðugt gerst í sögunni, að heimspekingar og fræðimenn benda á hvernig heimurinn er í raun og veru, að það kemur gríðarlegt bakslag þegar þeir sem trúa að heimurinn sé eins og þeir hafa alltaf upplifað hann, hafna þessum nýju upplýsingum, og setja þær ekki í þekkingarbankann sinn. Þetta er hugsanlega helsta ástæða þess að samfélög slíta sig ekki út úr blekkingum nema á afar löngum tíma. 

Í nútíma samfélögum, jafnt okkar á Íslandi sem erlendis, er ekki skortur á upplýsingum. Það er til mikið af góðum upplýsingum víða sem gefur okkur nákvæm svör við alls konar spurningum. Það sem skortir er hins vegar vilji til að nýta þær upplýsingar sem eru aðgengilegar. 

Dæmi um þetta er neitun á tilvist COVID-19, loftlagsbreytingum og jafnvel því að jörðin sé hnöttur frekar en flöt. Í þessum tilvikum ákveður fólk hvað það vill trúa og myndar sér síðan rök út frá því. Það er andstætt vísindalegri aðferð, byggir á tilfinningum og trú sem á sér ekkert endilega rætur í veruleikanum. Vísindaleg nálgun væri að finna upplýsingarnar fyrst, tengja þær saman með traustum rökum, og eftir það ekki mynda sér skoðun, heldur þekkingu sem er þessi eðlis að hún getur vaxið með nýjum upplýsingum og breytingum á veruleikanum. Skoðanir breytast ekki, þær standa í stað, en þekking flæðir áfram og vex með tíð og tíma.

Dreifing falsfrétta og rangra upplýsinga gegnum samfélagsmiðla er annað dæmis sem getur haft alvarlegar afleiðingar bæði fyrir einstaklinga og samfélög. Eins og sést á stjórnmálum víða um heim og hvernig stjórnmálaflokkar hafa nýtt sér gögn um fólk, til dæmis út frá Like notkun á Facebook, hefur sumum þjóðarleiðtogum tekist að komast til valda með því að beita lygum og röngum upplýsingum. Það sér ekki enn fyrir endann á þeim vanda.

En vandinn er fyrst og fremst persónulegur. Við megum ekki vera of fljót að stökkva á skoðanir sem okkur líkar, því þá lifum við í fáfræði.

Betra væri að þróa með sér gagnrýna hugsun, þar sem við byrjum á að velta fyrir okkur hvort heimildir séu áreiðanlegar eða óáreiðanlegar og spyrja síðan gagnrýnna spurninga um þær upplýsingar sem stöðugt berast okkur.

Við þurfum að leggja vinnu í nám, sýna forvitni og reyna að kynnast nýjungum sem stöðugt spretta upp, eins og þegar kemur að sýndarveruleika og gervigreind, því ef við lærum ekki um hvernig hægt er að nýta þessa öflugu tækni, er líklegt að við verðum ekki samkeppnishæf, hvorki gagnvart tækninni né öðru fólki sem kann að nýta sér hana.

Til að útrýma fáfræði úr okkar eigin huga er gagnlegt að taka þátt í málefnalegum umræðum með opnum huga, hlusta á sjónarmið annarra og vera tilbúinn að endurskoða eigin skoðanir í ljósi nýrra upplýsinga. Þannig byggjum við upp þekkingu.

Fyrsta skrefið er að vinna í okkar eigin málum, því þar höfum við mestu völdin. Næsta skref er síðan að átta okkur á hvar við getum gert gagn í samfélaginu. 

Til að takast á við fáfræði í samfélaginu er öflugasta tækið menntun. Ef við stuðlum að auknum gæðum menntunar og þrýstum á að menntakerfið bjóði upp á gagnrýna hugsun og fræðslu um mikilvæg samtímamál, þá eflir það grundvöll þekkingar, og getur dregið úr mætti blekkinga.

Þá væri gott að nýta nýjungar við fræðslu, til dæmis samfélagsmiðla, sýndarveruleika og gervigreind, frekar en að forðast þessa hluti eins og þeir séu uppspretta einhvers ills. Nýjungar eru aðeins breyting á samfélaginu, þróun sem gerist með hugviti og uppfinningum. Ef við útilokum slíka þætti frá námi, eins og með því að banna farsíma í skóla, þá erum við komin á villigötur. Betra væri að kenna fólki að nýta sér slíka tækni í samhengi við nám og síbreytilegan heim.

Við getum hvatt fólk til þátttöku í samfélaginu, hvatt fólk til að kjósa, taka þátt í sjálfboðaliðastörfum, taka þátt í stjórnmálum eða opinberri umræðu. 

Fáfræði er eitthvað sem leiðir til verri heims, hvort sem það er á persónulegum eða samfélagslegum forsendum, en góðu fréttirnar eru þær að við getum með markvissum hætti unnið að því að draga úr fáfræði og byggja upp samfélag sem á rætur í þekkingu, skilningi og samkennd.  

 


Mistök og það sem við getum lært af þeim

Mistök eru framkvæmd sem hafa aðrar afleiðingar en við stefnum að, og eru þannig mótsögn í sjálfu sér við vilja okkar.

Það er óhjákvæmilegt að gera fjölmörg mistök hvern einasta dag, svo framarlega sem við framkvæmum einhverja hluti. 

Mistökin geta verið einföld og saklaus, við förum óvart í ósamstæða sokka, við ýtum aðeins of oft á Snooze takkann þannig að við mætum of seint til vinnu, við gleymum að borða morgunmat, og setjum ekki á okkur gleraugun áður en við byrjum morgunlesturinn.

Síðan er hægt að gera mun stærri mistök, eins og þegar við veljum okkur maka og eftir einhver ár kemur í ljós að sambandið er hvorugum aðilanum gott, við ráðum okkur til starfa hjá fyrirtæki og áttum okkur á mörgum árum síðan að þessi tími sem við vörðum í starfinu var að miklu leyti tímaeyðsla, eða í fjármálum þegar við ofnotum kreditkort og leggjum ekki nógu mikið til hliðar. Allt eru þetta frekar alvarleg mistök, sem hugsanlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir með góðri fyrirhyggju, en raunin er samt sú að svona mistök eru gerð alla daga og skapa mikla óhamingju til lengri tíma lítið.

Svo eru það ennþá stærri mistök, en það er þegar við vísvitandi brjótum lög, reglur eða gegn dyggðum til að ná einhverju með auðveldum hætti eitthvað sem okkur langar í.  Þjófur heldur sjálfsagt ef honum tekst að fremja glæp og græða þannig einhvern pening og ekki komst upp um hann, að hann hafi alls ekki gert mistök, en vissulega gerði hann samt mistök, því hann valdi að gera eitthvað sem er gegn dygðinni, gegn því sem er að framkvæma það sem er gott og rétt, og hann veit það sjálfur, og hann hefur með því valið löst, að gera frekar eitthvað sem er rangt og illt. 

Málið er að afleiðingin er ekkert endilega sú að hann verður dæmdur fyrir brotið af öðrum, ennþá verra er að hann verði dæmdur af sjálfum sér, og verði fyrir vikið að verri manneskju sem þykir allt í lagi að brjóta af sér til að ná fram markmiðum sínum. Til lengri tímahafa slíkar ákvarðanir og framkvæmdir persónuleg áhrif sem enginn getur mælt, og því miður verður hugsanlega aldrei sýnilegt, því samfélagið gerir ekkert endilega þær kröfur á fólk að það sé sátt með sjálft sig.

Hins vegar hefur slík hegðun þau áhrif að viðkomandi á erfiðara með að treysta en vantreysta, hann er líklegri til að segja ósatt en satt, slík manneskja verður óheil í verkum sínum, og áttar sig sjálfsagt seint á því, sérstaklega ef hún er upphafin af öðrum manneskjum í kringum hana, sem sætti sig við sambærileg gildi, eða réttara sagt, sambærilega persónulega spillingu.

Málið er að þegar við gerum það sem okkur langar, erum við ekki nauðsynlega að gera það sem við viljum. Við viljum að sjálfsögðu byggja betri heim og þroska sjálf okkur, hafa góð samskipti og samvinnu við aðra, og gera það sem er gott og rétt, þannig að það hafi ekki aðeins víðtæk áhrif út á við, heldur einnig inn á við. En ef við gerum frekar það sem okkur langar heldur en það sem við viljum, þá erum við gjörn á að gera mistök sem við höldum kannski að hafi ekkert svo slæm áhrif, og kannski eru þau það ekki út á við, þegar við skoðum stóra samhengið, en þau geta verið það inn á við, sem er frekar slæmt, því það hindrar okkur frá því að láta gott frá okkur leiða, bæði út á við, og inn á við.

Góðu fréttirnar eru þær að við getum bæði komið í veg fyrir mistök og lært af þeim. Þetta helst allt í hendur. 

Hér eru nokkur ráð sem geta hjálpað til við að forðast mistök:

Staldraðu við og íhugaðu málin áður en þú tekur mikilvægar ákvarðanir, veltu fyrir þér mögulegum afleiðingum þeirra, bæði fyrir alla þá sem að málinu koma og samfélagið, og ekki síst, fyrir þig. Reyndu að átta þig á kostum og göllum slíkra ákvarðana út frá þeim gildum sem þú metur mest í lífinu. Leitaðu einnig ráða hjá fólki sem þú treystir.

Skoðaðu reglulega eigin hug og tilfinningar, reyndu að átta þig á fyrri ákvörðunum og hegðun, hvort þær hafi verið góðar eða mistök, og ef þú finnur mistök, reyndu að átta þig á hvaðan þau spruttu og hvort þú getir lagfært ferlið sem þú fylgdir til að valda þeim.

Þegar þú hefur uppgötvað eigin mistök, reyndu að nota þau sem tækifæri til að læra, frekar en að ásaka þig um eitthvað sem þú hefðir getað gert betur, eða sem verra er, ásaka aðra um mistök sem þú framkvæmdir, því þá lærirðu ekkert á þeim. Veltu fyrir þér hvað þú getur lært og hvernig þú getur notað þessa reynslu til að bæta þig.

Þegar þú skoðar fyrri verk þín og áttar þig á að þú gerir sífellt færri mistök, þá er um að gera að fagna því með einhverjum hætti og gera það sem þig langar til, svo framarlega sem það er í samhljómi við það sem þú vilt.

Okkar eigin mistök geta verið verkfæri sem stuðlar að eigin vexti og þroska. Mistök eru ekki endastöð, heldur hindranir í veginum sem við þurfum að komast yfir. Með því að vera opin fyrir okkar eigin mistökum getum við lært hraðar og haft betri áhrif bæði á samfélagið og okkur sjálf. Lífið er nám og nám er breytingar á hæfni okkar til að lifa lífinu betur. Bæði skref sem stigin eru klaufalega og líka þau sem eru stigin vel, skila okkur á leiðarenda, eina spurningin er hver það er sem kemur í mark.

Mistökin geta þannig fært okkur mikla ógæfu ef hugur okkar er lokaður, en með opnum huga gefa þau okkur tækifæri til að læra, bæta við sjálfsþekkingu, visku og geta jafnvel leitt til djúpstæðrar hamingju.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband