Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Eiríkur Ingi Jóhannsson: takk!

eirikur_ingi_side

Um viðtalið við Eirík Inga í Kastljósi. Aðdáunarverð frásögn af sorglegum atburði.

Takk fyrir gjöfina þína til okkar allra. Frásögn af hugrekki, samkennd og sjálfsbjörgunarhvöt.

Ég samhryggist í sorg þinni.

Þitt stóra hjarta er innblástur öllum þeim sem hafa þurft að berjast í ölduróti heimsins síðustu ár, reynt að synda í ljós þyrlunnar og gera sig sýnilega, í örvæntingarfullri leit að björgun, og þú sýnir í eitt skipti fyrir öll af hverju ekkert okkar á nokkurn tíma að gefast upp.

Kærar þakkir!


Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingar um húsnæðislánþega: "Við eigum með almennum hætti að hjálpa þessu fólki"

helgiw3Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingar um húsnæðislánþega: "Við eigum með almennum hætti að hjálpa þessu fólki"
 
Loksins loksins.
 
Eftir að hafa upplifað grafarþögn um vanda lánþega húsnæðisána þeirra sem tóku lánin eftir ágúst 2004, sérstaklega frá stjórnmálamönnum sem eru í ríkisstjórn, en meira frá þeim sem eru í stjórnarandstöðu, heyri ég í fyrsta sinn þingmann úr stjórnarliðinu flytja orð sem má túlka ótvírætt sem stuðning við millistéttaraulann sem er með allt niðrum sig eftir bankarán aldarinnar og gríðarlega stjórnmálaspillingu. 
 
Ég sel það ekki dýrara en ég kaupi það, en þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri þingmann Samfylkingar viðurkenna þessa staðreynd sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa barist fyrir síðustu þrjú ár að verði hlustað á. Þetta er skref í rétta átt. Nú þarf Helgi Hjörvar að standa við stóru orðin og gefa í botn. 
 
Hugsanlega verður nauðsynlegt að minnast á að þessi orð voru sögð, enda hafa orð þingmanna ekki beinlínis verið mikils virði síðustu misserin, þar sem verk fylgja sjaldan orðum. 
 
En þetta sagði Helgi: 
 
Það geta verið full rök fyrir að fara í þá aðgerð, en þá verða menn að horfast í augu við að það kostar peninga, það er ekki hægt að gera endalaust fyrir alla, og við erum að ræða fyrir hverja á að fara í almennar aðgerðir, af hverju, og hvað erum við tilbúin að kosta miklu til þess. Ég tel að það sé kynslóð hérna sem hefur orðið fyrir meiri áföllum en aðrar kynsóðir í Íslandssögunni. Hún verður fyrir því að kaupa húsnæði eftir ágúst 2004 þegar markaðurinn er á uppsprengdum verðum út af inngripum hins opinbera. Þetta er ungt fólk sem að fær lán fyrir næstum því fullu kaupverði, verður svo fyrir því alvarlega áfalli að það fellur fasteignaverðið, í öðru lagi hækka skuldirnar í verðtryggða kerfinu okkar gríðarlega á fyrstu árunum eftir kaup, og í þriðja lagi verða þau fyrir verulegri kaupmáttarskerðingu, og ég held að það hafi engin kynslóð orðið fyrir jafn mörgum áföllum í einu, og ég held að það sé algjörlega óhjákvæmilegt að við eigum með almennum hætti að hjálpa þessu fólki. 
 
Þetta sagði Helgi Hjörvar, alþingismaður Samfylkingar í útvarpsviðtali Í Bíti Bylgjunnar,  31. janúar 2012. Þú getur hlustað á viðtalið við þá Guðlaug Þór og Helga Hjörvar hér, en Helgi kveður upp þessi merku orð á 7. mínútu. 
 
Helgi Hjörvar fær hálft hrós frá mér fyrir þessi orð, og fullt hrós ef hann fylgir þeim eftir í verki. 

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband