Hvernig veljum við hvort við verðum góðar eða slæmar manneskjur?

Við heyrum stundum í fréttum um spillt og gráðugt fólk, glæpamenn og lygara, einræðisherra og fjöldamorðingja, eins og það sé sjálfsagður hlutur að mikil spilling og slæmir hlutir séu á gangi í samfélaginu. Það sé bara hluti af því að vera til.

Það er frekar auðvelt að verða slæm manneskja, en það gerist þegar maður ákveður að gera hluti nánast í hugsunarleysi og án tillits til viðmiða sem hjálpa manni að finna góða leið í lífinu. En hvernig finnum við hina leiðina, hvernig verðum við góðar manneskjur, sem þá gerir samfélagið þá væntanlega að betra samfélagi. Þegar þú leitar ekki visku, þá sinnir þú ekki visku og finnst allt í lagi að gera heimskulega hluti.

“Að breyta rétt er hinn ósýnilegi hlekkur milli sálar einstaklingsins og sálar borgarinnar.” - Platón (Ríkið, Bók IV)

Stundum er talað um að aðstæður skapi einstaklinga og samfélag, en það er svolítið villandi fullyrðing. Það er hugarfarið sem skapar einstaklinga og samfélag. Einstaklingar með gott hugarfar skapa gott samfélag, og einstaklingar með slæmt hugarfar skapa slæmt samfélag. En einstaklingar eru misjafnir og því eru samfélögin svolítið misjöfn líka. 

En gott hugarfar er forsenda þess að við breytum rétt, en gott hugarfar er tengt einstaklingi sem leitar visku, hugrekkis, réttlætis og skapgerðar. Takið eftir að það þarf ekki að finna til að öðlast gott hugarfar, aðeins að leita, en þó leita af einlægni.

Sá sem leitar visku reynir að gera það sem krefst visku, sá sem leitar hugrekkis reynir að gera það sem krefst hugrekkis, sá sem leitar réttlætis reynir að gera það sem krefst réttlætis og sá sem leitar skapgerðar reynir að gera það sem krefst skapgerðar.

Sá sem leitar visku gerir vel með því að lesa, læra og spyrja spurninga um heiminn og tilveruna, íhugar svörin og leitar ólíkra sjónarmiða.

Sá sem leitar hugrekkis ver eigin sjónarmið, þó það geti verið erfitt, setur ef það er nauðsynlegt eigið líf í hættu til að bjarga öðrum, deilir sögu eða pælingum með öðrum þrátt fyrir ótta við gagnrýni.

Sá sem leitar réttlætis miðar við lög og sanngirni, veltir fyrir sér sönnunargögnum í leit að sannleika hvers máls, og kemur fram við alla aðra af sanngirni.

Sá sem leitar skapgerðar gætir sín á heilbrigðu mataræði, æfingum og svefni, reynir að forðast því að fresta hlutum, og umfram allt reynir að hafa stjórn á eigin tilfinningum og úthella reiði sinni ekki yfir aðra þegar það reynist freistandi.

Við getum ákveðið hvort við verðum góðar eða slæmar manneskjur út frá því hvernig við ákveðum að haga okkur, og ef við stöldrum við og hugsum okkur aðeins um, getum við vanist á að gera þá hluti sem gera okkur að betri manneskju, sérstaklega ef við einbeitum okkur að dyggðum eins og visku, hugrekki, réttæti og skapgerð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dominus Sanctus.

Réttar FYRIRMYNDIR, uppeldi   og félagsskapur í  æsku

skiptir miklu fyrir framhaldið.

Dominus Sanctus., 11.1.2024 kl. 14:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband