Hvað er títt, herra forseti?

Nótt eina á Austurvelli vaknaði styttan af Jóni Sigurðssyni til lífs og hélt ræðu yfir sextíu og þremur rónum sem sátu undir stalli hennar og hlustuðu með misjafnlega mikilli athygli og gáfum. 

"Það er ekki allt Steingrími og Jóhönnu að kenna. Þau hafa engin völd vegna þess að þau hafa ekki kjark til að nýta þau mögulegu völd sem þau gætu haft til annars en að hlíða því sem þau áður kölluðu með ákveðinni fyrirlitningu, nýfrjálshyggjunni," sagði styttan af Jóni og rumdi illilega.

"Heyr heyr," sögðu rónarnir og fengu sér sopa.

"Ég hef ekki orðið var við tímabundið jafnvægi, annað en að gríðarlega há lán hafa verið tekin af ríkinu til að fresta skellinum mikla, flóðbylgju sem mun safna upp krafti með samskonar vöxtum og vaxtavöxtum og heimilin hafa þurft að þola, og þessi bylgja mun skella yfir þjóðina á næsta kjörtímabili, þegar kemur að skuldadögum. Vandanum hefur aðeins verið frestað. Þetta er lognið á undan storminum. Kannski við séum í auga fellibylsins?"

"Heyr heyr," sögðu rónarnir og fengu sér að ropa.

"Það er galið að hafa húsnæðislán verðtryggð í þessu ástandi sem nú ríkir. Þau eru ekkert annað en fjötur um fætur þeirra sem reyndu að eignast húsnæði á síðasta áratug. Er það virkilega glæpur sem fólk á að þjást fyrir árum saman, að þola verri örlög en glæpamenn sem dæmdir eru í fangelsi, eða þrælar fyrir daga frelsisstríðsins, og þá yfirleitt til skemmri tíma en húsnæðislánahelvíti með verðtryggingu, vexti og vaxtavexti sem krauma undir?"

"Heyr heyr," sögðu rónarnir raulandi.

"Réttlæti er mikilvægasta verkefnið í dag, það réttlæti að engin mannvera á þessari jörð þurfi að upplifa þrælkun, og þar sem við erum Íslendingar, sjálfstæðir Íslendingar, ættum við að einbeita okkur að því að enginn Íslendingur lifi við þrælkun, eða líði skort á frumþörfum eins og að vanta mat, klæði eða húsnæði. Þegar við erum öll orðin frjáls, getum við svo hjálpað umheiminum."

"Heyr heyr," hrópuðu rónarnir.

"Þegar peningar og markaðslögmál eru meira metin en sjálft mannslífið, þá erum við komin á villigötur, því að peningum og markaðslögmálinu er nákvæmlega sama um þig og þína velferð í lífinu, en ekki hinum manneskjunum, sama hvað þú hefur gert af þér. Jóni forseta er aldrei sama um þig, kæri Íslendingur, hvaðan sem þú kemur, sama hvað þú hefur gert, sama hvort þér sé sama um mig."

"Heyr heyr," sagði einn róninn á meðan hinir rifust.

"Og jú, ég hef fylgst með. Of mikið kannski. En ég hef fylgst með og mér hryllir við þeim hörmungum sem ég hef séð fyrir, og þeim afleiðingum sem skammsýnistefna fjármálakerfisins og ríkisvaldsins mun leiða yfir framtíð landsins, sem sífellt verður myrkari. Því óveðurskýin hrannast upp, og á endanum mun fátt standa eftir án skemmda."

"Vér mótmælum allir," sagði blaðsíða úr bók sem fauk framhjá styttunni af Jóni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

Meiriháttar pistill og hugmynd! Gaman að heyra loksins í Jóni forseta... :)

Óskar Arnórsson, 22.2.2012 kl. 06:00

2 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Flott færsla heyr heyr!

Sigurður Haraldsson, 22.2.2012 kl. 09:05

3 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Þú kveður þér hljóðs sem frumlegt skáld!

Sigurður Alfreð Herlufsen, 22.2.2012 kl. 11:23

4 Smámynd: Óskar Arnórsson

Þetta er reyndar með skemmtilegustu pistlum sem ég hef lesið lengi. Maður fær fullt af hugmyndum og kanski var það ætlunin. Það mættu alveg vera fleiri í þessum stíl...

http://www.youtube.com/watch?v=BdZMCfNzl28&feature=related

Óskar Arnórsson, 22.2.2012 kl. 17:23

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir félagar :)

Hrannar Baldursson, 22.2.2012 kl. 18:35

6 Smámynd: Óskar Arnórsson

Þú átt endilega að þróa þennan stíl Hrannar, í alvöru! Myndi alveg geta komið nýjum "vinkli" á fullt af málum.

Það er hvort eð er orðið þreytandi að skoða mál alltaf í sama umræðustíl. Það líkar það kanski ekki endilega öllum enn ég held að þeir séu glettilega margir sem hefðu áhuga og gaman af að láta reyna á mál með þessari aðferð.

Ég held að það sé ákveðin feimni í gangi sem heldur aftur af snillingum og stílmeisturum eins og þér sem kann að koma hlutum að á hlutlausan og ákveðin hátt án þess að það sé neitt verið að ráðast á neinn.

Ég er voða hrifin af þessu verð ég að segja...

Óskar Arnórsson, 22.2.2012 kl. 18:50

7 Smámynd: Davíð Pálsson

Magnað!

Davíð Pálsson, 22.2.2012 kl. 20:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband