Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Er fjölmiðlun í dag meiri skáldskapur en gagnrýnin hugsun?

Mikið er fjallað um mögulegt eldgos á Íslandi í mörgum af virtustu fjölmiðlum heimsins vegna hugsanlegra afleiðinga fyrir flugsamgöngur. Þetta er skýrt dæmi um hvernig fjölmiðlun virðist hafa breyst í einhvers konar eltingarleik um seljanlegustu fréttirnar.

Einnig er mikið fjallað um dramatíkina á bakvið meint dómgreindarleysi dómsmálaráðherra. Írónía? 

Liðin er sú tíð þegar fjölmiðlun snerist um sannleiksleit. Svo virðist sem að háskólar og útgáfa vísinda og fræðirita komist nær sannleikanum en fjölmiðlar.

Vandinn við sannleikann, er að þó hann sé nauðsynleg undirstaða heilbrigðs samfélags, þá er hann frekar leiðinlegur og bragðlítill, illseljanlegur og óþægilegur.

Til að öðlast vinsældir eru lygar ekki bara skylirði, heldur listgrein.

Er fjölmiðlun í dag meiri skáldskapur en gagnrýnin hugsun? 

Fróðlegt væri að lesa òæsandi fréttir sem sýna heiminn eins og hann er. Ekki heiminn út frá sjónarhorni tilfinninga, heldur með skynsemiblæ. Slíkt myndi því miður krefjast mikillar vinnu og ekki líklegt til vinsælda. Þess vegna sitjum við uppi með tilfinningahlaðnar fréttir um hluti sem gætu gerst og eru líklega hræðilegir.


Spotify - gerir ólöglega tónlistardreifingu úrelta

WHILTY010

Síðustu misserin hef ég notað Spotify til að hlusta á tónlist. Mér skilst að þessi þjónusta sé ekki til á Íslandi, sem er miður, því allir græða á þessu. Hægt er að finna fullt af góðri tónlist á þessum miðli, og hlusta á hvert lag fimm sinnum ókeypis. Þetta er fínt fyrir gaura eins og mig sem finnst gaman að hlusta á hitt og þetta, en er ekki sérstakur aðdáandi einhverra tónlistargrúppu.

Á móti kemur að eftir þriðja hvert lag eða svo, eru auglýsingar í eina mínútu, sem mér finnst réttlætanlegur kostnaður fyrir að hlusta á tónlistina sem mig langar að hlusta á. Viljirðu losna við auglýsingarnar er hægt að kaupa mánaðarlega áskrift, og líka gera einhverja samninga um niðurhal. 

Ég sé ekki betur en að allir græði. Listamenn fá athygli, það er hlustað á tónlist þeirra, og þeir fá einhverja aura í baukinn fyrir vikið. Tónlistamiðillinn græðir eitthvað líka. Hef ekki hugmynd um hversu mikið, en ég reikna með að Spotify sé orðið frekar arðbært fyrirtæki. Svo græðir hlustandinn og þarf ekki einu sinni að hlusta á samvisku sína nagandi vegna ólöglegs niðurhals.

Væri til dæmis Bubbi á Spotify myndi hann strax græða. Það er nefnilega fullt af Íslendingum erlendis sem sakna að heyra hans ágætu tónlist, sem og annarra íslenskra tónlistamanna, sem virðast velja að loka markað sinn innan Íslands og notfæra ekki nýjustu tækni til að koma sér á framfæri víða um heim. Reyndar eru Sigur Rós og Björk þarna inni, enda ekki bundin í íslensku tónlistarklíkuna Stef, sem er ætlað að tryggja fjárhagslegt öryggi íslenskra tónlistamanna, en er að ég held, óafvitandi, að takmarka möguleika þessara listamanna.

Í augnablikinu hef ég lög eftir Whitney Houston í gangi á Spotify, til að heiðra minningu hennar og hugleiða aðeins hversu fallvalt mannanna líf getur verið, jafnvel meðal þeirra hæfustu okkar. 


10 vinsælustu blogg ársins 2011

lightbulb-art-UPDATE

Þegar kemur að áramótum er við hæfi að líta yfir farinn veg, sjá hvort það hafi snjóað eitthvað í förin, hvort manni hafi tekist að róta upp smá möl, eða horfa vonsvikinn í baksýnisspegilinn á malbik sem virðist ósnertanlegt í sinni harðneskju, og horfa jafnframt fram á veginn og velta fyrir sér hvort maður geti dregið einhvern lærdóm af árinu sem er að líða. 

Á liðnu ári hef ég ferðast mikið um heiminn, en ekki skrifað neitt sérstaklega mikið um þessi ferðalög. Skemmtilegustu ferðirnar voru án nokkurs vafa heimsókn til Mexíkó og síðan ökuferð gegnum Evrópu til Ungverjalands á Nissan Micra síðustu páska. Ég hef horft minna á kvikmyndir, teflt minna, og bloggað minna en fyrri ár, en á móti lagt mikla orku í að byggja mér og minni fjölskyldu heimili í Noregi.

Það kemur mér stöðugt á óvart þegar ég heyri frá hinni íslensku ríkisstjórn hversu litlu máli henni virðist vara húsnæðisvandinn, atgervisflóttinn og neyðin sem vex á Íslandi, og virðist í algjörri afneitun, en þess í stað vísa til talnareiknings í Excel eins og þar sé hinn heilaga sannleika að finna. Sjálfur er ég sæmilega hæfur í Excel og kann að gera ýmsar formúlur og kannast við hvernig hægt er að láta hlutina líta út á einn veg eða annan með smá tilfæringum á sjónarhornum.

Vonandi að sannleikurinn komi fram fyrr eða síðar og Íslendingar fari að átta sig á hvað Norðmenn eru að græða gífurlega á öllum þessum duglegu Íslendingum sem komnir eru í góð störf hérna megin við sundið. Ég kvarta ekki því ég tel mig vera réttu megin við girðinguna. Hins vegar læt ég heyra í mér þegar mér sýnist stjórnvöld vera að villa um með áróðri í stað vandaðs rökstuðnings. Nokkuð sem er algjör óþarfi á þessum erfiðu tímum.

Þá er það listinn:

 

10. sæti: Hvort eiga lögin um Icesave að vernda hagsmuni eða réttlætið?

Vangaveltur um hvort hagsmunir eða réttlætið eiga að ræða þegar teknar eru ákvarðanir í mikilvægum málum fyrir almannaheill.

Kjarni málsins:

Sett eru lög: þú skalt ekki stela. Ef þú stelur verður þér refsað með sekt eða fangelsisvist. Ef ekki bara þú, heldur hver sem er stelur, skal refsað með sekt eða fangelsisvist. Hvort er með  þessum lögum verið að passa upp á hagsmuni eða verið að gæta réttlætis? Er verið að passa upp á hagsmuni þeirra sem eiga mikið eða eiga lítið? Tja, það er verið að gæta hagsmuna beggja. Ef aðeins væri verið að gæta hagsmuna annars aðilans, þá væri það ranglátt. Icesave samningurinn gætir hagsmuna takmarkaðs hóps Íslendinga og hunsar algjörlega stóran hóp. Það er ranglátt í sjálfu sér.

 

9. sæti: Greiðsluvandi heimila og velferðarráðuneytið: "Eru lánþegar bara fáfróðir vitleysingar?"

Velti fyrir mér "áfrangaskýrslu velferðarvaktarinnar", þar sem ég velti fyrir mér vafasömum ályktunum sem teknar eru meira með orðaflaumi en rökstuðningi.

Kjarni málsins:

Það er eins og þeir sem stóðu að þessari rannsókn átti sig ekki á þeim óásættanlegu lausnum sem viðskiptabankarnir stjórna, og telji vanþekkingu hafa meiri áhrif á dómgreind manna, heldur en skynsemi og góð dómgreind. Ég held einmitt að flest fólk í þessari erfiðu stöðu hafi ágætis dómgreind, og sé þreytt á að heyra hvað stjórnvöld telja almenning vera heimskan og fáfróðan. Fólk vill lausn á þessum vanda, en stjórnvöld skella við skollaeyrum og hlusta ekki. Ég tel þann heimskan sem ekki vill hlusta. Ég tel þann heimskan sem telur sig vita allt, geta allt, og stjórna öllu betur en allir aðrir. Því miður er of mikið af slíku fólki við völd á Íslandi í dag. Þetta fólk þarf að læra að hlusta. Það þarf að læra auðmýkt. Það þarf að vinna með fólkinu, ekki á móti því. 

 

8. sæti: Jóhanna Sigurðardóttir í Kastljósi (2011) 1/2

Horfði á frekar lélegt og dapurlegt Kastljósviðtal við Jóhönnu Sigurðardóttur og deildi mínum vangaveltum hér á blogginu.

Kjarni málsins:

Þegar hún var síðar spurð út í verðtrygginguna, fannst mér áhugavert að hún hugsaði bara um eina hlið málsins, virtist nákvæmlega sama um þá sem staddir eru í skuldafangelsi í dag, og virðist ekki skilja mikilvægi þess að leysa þetta fólk úr viðjum vandans. 

 

7. sæti: Viltu fórna ömmu þinni til að verða rík(ur)? Uppskrift að fjármálafléttu sem virkar

Vangaveltur um svikamyllur fjármálafyrirtækja.

Kjarni málsins: 

Engum hefur verið refsað fyrir þessa hegðun. Hún er lögleg á Íslandi. Sem er skömm. Djúp og ljót skömm. Framkvæmdu þessa fléttu og þú getur orðið rík manneskja. Sum okkar myndu aldrei framkvæma slíkar fléttur, enda höfum við eitthvað sem kallast samviska og annað sem kallast réttlætiskennd sem stoppar okkur. En samviskan og réttlætiskenndin er ekki öllum gefin. Því miður. Og fólkið með samviskuna og réttlætiskenndina þarf að borga og þjást vegna þessara fléttubjálfa. Er um of mikið beðið þegar krafist er að þetta ranglæti hætti? Það á að leyfa fjármálafyrirtækjum að hrynja vegna lélegrar stjórnunar, í stað þess að halda þeim og þeirra eigendum uppi á ofurlaunum með verðtryggingunni, hærri sköttum á borgara, og stöðugan niðurskurð í embættismannakerfinu. Það eina sem mun standa eftir þegar kemur að skuldadögum eru svartir turnar fjármálastofnana sem standa auðir. Allt annað verður í rjúkandi rúst.

 

6. sæti: Birgitta Jónsdóttir á forsíðu Wired.com

Tók eftir Birgittu á forsíðu Wired.com, einni af þeim síðum sem ég les nokkuð reglulega. Þetta var tengt Wikileaks málinu. Þetta mál grunar mig að hafi orðið til þess að Birgitta reynir að halda núverandi ríkisstjórn gangangi, enda vel varin af öðrum þingmönnum á meðan fjaðrafaukið stóð yfir. Það er miður, því það er eins og mestallt púðrið hafi fokið úr Birgittu eftir þetta mál.

Kjarni málsins:

Það er merkilegt hvernig leynd er réttlætt til að vernda opinbera starfsmenn, á meðan íslenskur veruleiki segir okkur að leyndin hafi verið notuð til að vinna skuggaverk bakvið tjöldin, þá af einhverjum stjórnmálamönnum, opinberum starfsmönnum, útrásarvíkingum, eigendum banka og starfsmönnum þeirra. 

 

5. sæti: Ólík viðhorf: Landflótta lánþegi og aðstoðarmaður forsætisráðherra

Vangaveltur eftir að nafni minn úr forsætisráðuneytinu reyndi að gera lítið úr mínum pælingum í eldhúskrók hans á Facebook. Hann virðist hafa tilhneigingu til að fara í manninn, en ekki boltann, þegar rökin fara að halla á hann.

Kjarni málsins:

Ég tel verðtryggingu rangláta vegna þess að hún tryggir aðeins lánveitanda, en lánþegi hefur enga tryggingu. Hækki verðlag, hækkar lánið, en ekki geta lánþega til að greiða af láninu því að laun eru ekki verðtryggð. Afleiðing þessa er ójöfnuður. 

 

4.  sæti: Mikil er grimmd Íslendingsins

Velti fyrir mér kæruleysi eða tómlæti þeirra sem hafa sloppið bærilega undan hruninu.

Kjarni málsins:

Fólk tók lán fyrir húsnæði. Það þótti eðlilegt. Síðan hrundi fjármálakerfið. Sökin var hjá fjármálastofnunum og ríkinu. Innistæður voru tryggðar í botn. Þannig að þeir sem áttu pening urðu ekki fyrir ónæði. Hins vegar tvöfölduðust allar verðtryggðar skuldir og hækka enn. Engin útkomuleið önnur en gjaldþrot, og ekki hefur enn reynt á ný gjaldþrotalög, þar sem mögulegt er að viðhalda kröfum gagnvart fólki að eilífu. Gjaldþrot fyrir manneskju er ekki það sama og gjaldþrot fyrir fyrirtæki. Fyrirtæki er bara kennitala. Manneskja er líf

 

3. sæti: Heilaþvegið Ísland?

Velti fyrir mér atgervisflótta frá Íslandi og reikna út hvað hann kostar í milljörðum, því það virðist vera það eina sem stjórnvöld skilja: peningaupphæðir og prósentutölur.

Kjarni málsins:

Það væri áhugavert að sjá það í nákvæmlegum útreikningum hversu mikils virði hver einasta dugleg og vel menntuð manneskja er, sem frá Íslandi flytur. Sérhver slík manneskja kostar sjálfsagt að minnsta kosti 10 milljónir króna á ári. 10 brottfluttir kosta þá um 100 milljónir og 100 brottfluttir verða að milljarði. Sjálfsagt má meta höfuðstól hverrar manneskjur upp á hundrað milljónir.

 

2.  sæti: Annað stærsta bankarán aldarinnar í gangi á Íslandi; hvar er Superman?

Velti fyrir mér af hverju í ósköpunum húsnæðislán þurfi að hækka svona gríðarlega hratt, þannig að útilokað sé að venjuleg manneskja geti borgað af þeim. Skil ekki reikninginn hugsanlega vegna þess að hvorki forsendur né reiknireglur eru gefnar upp.

Kjarni málsins: 

Sérstakur saksóknari er á kafi í gömlum máli og engar fréttir úr þeim bæ. Fjármálaeftirlitið virðist lamað. Efnahagsbrotadeild lögreglunnar hefur sameinast sérstökum þannig að þar eru starfsmenn sjálfsagt að aðlagast nýjum vinnustað, læra á Word upp á nýtt og svoleiðis, en enginn virðist þess megnugur að bæði sjá ránið sem er í gangi og stoppa það.

 

1. sæti: Besta aprílgabb dagsins

Aprílgabb sem ég setti inn til að sjá hvort vinsældir bloggs míns séu meira tengdar áhuga á vönduðum vangaveltum eða hreinni forvitni. Markaðsfræðingurinn í mér segir að alvarlegar vangaveltur séu ekki líklegar til vinsælda nema maður sitji á þingi eða hafi atvinnu af fjölmiðlum. Hins vegar skjótast brandarar auðveldlega efst á vinsældalistann.

Velti fyrir mér hvort ég ætti að taka eitt ár þar sem ég reyni að gera þetta blogg vinsælt, svona meðvitað... 

Kjarni málsins:

Þannig hljómaði aprílgabbið mitt í fyrra og ég ákvað að nota það aftur í dag. Joyful Ég held að engin af mínum greinum hafi fengið jafn mikinn lestur og þetta einfalda aprílgabb fyrir ári, og sjálfsagt hef ég sjaldan lagt jafn litla vinnu í eina grein. Ég er forvitinn að vita hvort þessi verði jafn vinsæl.
 
 
Wizard   Sideways   Whistling   Shocking   Blush

 

 

 

Játning: Ég stal hugmyndinni að þessu bloggi af síðu Eyglóar Harðardóttur, alþingismanns. 

Myndina fékk ég að láni frá The Art Newspaper


Realizing Your True Business Value Potential

41cBAj1seiL._SS500_

Út er komin í öllum helstu bókaverslunum heims bókin "Realizing Your True Business Value Potential" en höfundar innihalds eru þau Øystein Ullnaess og Marianne Ericsson. Undirritaður ritstýrði. Øystein hefur skapað hugmynda- og hugbúnaðarkerfinu TrueValue4U sem notað er til þess að fylgja eftir viðskiptahugmyndinum, allt frá sköpun hugmyndar til framkvæmdar.

Hægt er að nota kerfið til að fylgja eftir hvaða hugmynd sem er, allt frá því að hún verður til og að afurð. Það öfluga við kerfið er að sérhver liður í hugmyndasögunni getur verið unninn saman í teymi, þannig að hugmyndir er auðvelt að skapa í hópi og vinna til afurðar með eins mörgum flækjustigum og nauðsynlegt er. Reyndar einfaldar kerfið flækjurnar og gerir leiðina að framkvæmd auðveldari, en það er önnur saga.

Þetta er ekki fyrsta bókin sem ég gef út. Áður hef ég unnið handbækur fyrir hugbúnaðarkerfi og tekið þátt í útgáfu bóka fyrir íslenska stjórnsýslu. Ég hef skrifað nokkur hundruð smásögur og fjölda ljóða, en aðeins gefið út fjórar af þessum sögum og eitt ljóð. Reyndar hef ég bloggað mikið, en tel það ekki með. Mér finnst ég eiga mikið inni.  Og nú kann ég að gefa út sjálfur. Kannski ég fari að nota þessa þekkingu fyrir sjálfan mig.

Hugbúnaðarkerfið virkar eins og hugmyndamiðstöð þar sem þú byrjar að kortleggja verðmæti eða gildi, til dæmis markmið, og síðan þær kröfur eða hindranir sem liggja í veginum. Síðan tengir þú þessar kröfur og hindranir við vinnu sem þarf að framkvæma eða lausnir, sem síðan leiða til framkvæmdar. Allt er þetta sett saman í gagnagrunni á myndrænan hátt fyrir notendur, þannig að hægt er að sjá alla starfsemi fyrirtækis á einni litrænni mynd, og síðan er hægt að skoða nánar einstaka þætti.

img_1

Ég hef notað þetta kerfi sjálfur og það virkar. Fyrir um ári síðan bauð ég fólki sem vinnur að rannsóknarstörfum ókeypis kynningu á kerfinu, en ég tel að það gæti hjálpað mikið við rannsóknir í kjölfar hrunsins, sem og verið góður grundvöllur fyrir hugmyndasköpun inn í framtíðina. Að sjálfsögðu var ekkert hlustað og boð mitt fyrir hönd öflugra sérfræðinga hérna í Noregi að engu haft. En það mátti svo sem alveg búast við því. Þegar fólk telur sig vita nákvæmlega hvað þarf að gera og telur sig hafa fullkomna stjórn á hlutunum, þá er öndverðan yfirleitt hið sanna, og kerfi eins og þetta leiðir hið sanna í ljós.

Í þessu bloggi er ég hvorki að auglýsa bókina né kerfið, enda fæ ég engan arð af sölu. Hins vegar er þetta kerfi sem ég hef notað sjálfur til að ná tökum á eigin hugmyndum, og er afar sáttur við afleiðurnar, og að sjálfsögðu stoltur yfir að hafa gefið út fallega og gagnlega bók sem hefur verið vel tekið.

Bókaútgáfa er skemmtileg. 

 


Mikill missir: Steve Jobs 1955-2011

main_image_1000x621

"Heaven got a major upgrade today."
- Chris Calloway

Magnaður uppfinningamaður lést í gær, maður sem hefur haft djúp áhrif á hvernig Jarðarbúar starfa og hafa samskipti sín á milli. Við minnumst hans fyrir Apple, Mac, iMac, iPod, iPhone, iPad og hvernig hann kynnti vörurnar með miklum sannfæringarkrafti og tign: Steve Jobs 1955-2011

 

Mynd: wired.com


Hvar varstu fyrir 10 árum þegar árásin á tvíburaturnana var framkvæmd?

WTC-019S

Ég sá seinni flugvélina fljúga inn í bygginguna í beinni útsendingu á CNN, en var staddur í Merida, Mexíkó. Á sama tíma sendi systir mín mér skilaboð gegnum MSN frá Íslandi um atburðinn. Hvorugt okkar trúði eigin augum. Ég fór til New York mánuði síðar og upplifði þar Ground Zero.


Minningarorð um Eyjuna

Þegar Eyjan kom fyrst fram á sjónarsviðið sem nýr vettvangur fyrir bloggara, var vefkerfið nánast fullkomið. Það hvatti til umræðu og mikill fjöldi fólks tók þátt. Ég efast um að "byltingin" hefði tekist án þeirra skoðanaskiptana sem fram fóru á Eyjunni.

Eitt af því besta við kerfið er að lesendur gátu gefið athugasemdum einkunn, hvort þeim líkaði athugasemdin eða ekki. Þannig fóru vinsælar athugasemdir efst í athugasemdakerfið. Þetta virkaði ljómandi vel frá mínum bæjardyrum séð, sem lesandi og notandi miðilsins. Ekki nóg með það, hægt var að sjá hversu margar athugasemdir höfðu birst við hverja frétt, og oftast voru athugasemdirnar með dýpra innsæi um stöðu mála en fréttin sjálf.

Eignarhaldsfélag Björns Inga Hrafnssonar keypti Eyjuna fyrir síðustu Icesavekosningar og tók athugasemdakerfið úr sambandi í nokkra daga þannig að umræðuvettvangur almennings var takmarkaður að einhverju leyti. 

Umræðuvettvangur á Íslandi er nefnilega mjög viðkvæmt fyrirbæri og auðvelt að skemma fyrir, sérstaklega ef hægt er að eignast besta umræðusvæðið og leggja það síðan niður í áföngum. Eyjan var slíkur vettvangur og hefur verið eyðilögð innanfrá. Svona rétt eins og fjármálakerfið.

Fyrir fáeinum dögum var athugasemdakerfið tekið úr sambandi, og annað lélegra tekið upp í staðinn, beintenging við Facebook. Sjálfur nota ég Facebook takmarkað, aðallega til að halda samskiptum við vini og kunningja víða um heim, en ekki til að leggja inn athugasemdir við ólík mál. Þar að auki er Facebook alræmt fyrir að virða ekki lög og reglur um persónuvernd.

Fyrir mitt leyti, þá kveð ég Eyjuna og vona að blog.is lifni aftur við eða þá að skynsamt fólk með góðar hugmyndir opni álíka síðu og Eyjan var þegar hún fyrst sló í gegn.


Samúðarkveðja til Norðmanna

88-a78b8474-8ab55e7e

Dagurinn í dag er sorgardagur. Í gær létu sjö manneskjur lífið þegar sprengja sprakk í miðborg Osló, og gríðarlegur fjöldi særðist. Fyrst datt mér í hug að þetta væri hryjðuverk frá Al-Queda vegna stríðsins í Líbýu. Því get ég ekki neitað. Stuttu síðar birtist norskur nýnasisti á fjöldafundi ungmenna, dulbúinn sem lögreglumaður, stóð uppi á stein í miðju hópsins og hóf að skjóta úr hríðskotabyssu inn í hópinn. Samkvæmt VG drap hann yfir 80 unglinga. Sprengiefni fannst á eyjunni. Voru þessi tvö hryðjuverk framkvæmd af aðeins einni manneskju?

Fyrir Noreg er þetta gríðarleg blóðtaka.  Hryðjuverk sem þessi hafa ekki gerst síðan í heimstyrjöldinni síðari þegar nasistar tóku Noreg. 

Það er ekki annað hægt en að spyrja hvernig sumt fólk getur gert svona hluti. Fyrst veltir maður fyrir sér hvort maðurinn hafi verið geðveikur. En síðan rifjast upp að heil hreyfing nasista stundaði sambærilegt ofbeldi skipulega fyrir aðeins um 70 árum, og það um alla Evrópu, og þá var það til að knýja fram heimsmynd sem aðeins útvaldir pössuðu inn í. Hina átti að fjarlægja.

Ekki veit ég svörin. En spurningarnar eru margar.

 

 

Mynd af vefsíðu VG.


Verður heimsendir í dag klukkan 18:00?

Teachings_of_Jesus_38_of_40._the_rapture._one_in_the_field._Jan_Luyken_etching._Bowyer_Bible

Spá- og útvarpsmaðurinn Harold Camping segir að í dag, 21. maí 2011 sé dagurinn sem fólk verður valið í lið með eða á móti Guði. Síðan verður heimsendir eftir fimm mánuði 21. október 2011. 

Ég velti fyrir mér hvernig hinir útvöldu munu vita um valið, og hvort þeir hafi eitthvað um það að segja. Fá þeir upplýsingar í tölvupósti, með bréfi eða símhringingu, eða verða þeir bara numdir á brott án vitneskju þegar að dómsdegi kemur? Heimsækir þá kannski engill sem segir þeim fréttirnar eða dregur þá í burtu með valdi?

Camping segir engan vafa leika á að þetta sé staðreynd. Hann virðist gleyma því að þegar enginn vafi leikur á einhverju, það er einmitt þá sem eitthvað er líklega ekki rétt. Sé eitthvað 100% öruggt, er ég viss um að það sé hugarburður. Ég er viss um það.  Af prinsippástæðum ekki nema 99.99% viss.

Þetta á að gerast kl. 18:00 á staðartíma um allan heim. Ég velti fyrir mér hvað verður um fólkið sem er að ferðast á milli tímasvæða í flugvél, bíl eða jafnvel gangandi. Verður það kannski valið tvisvar? Það væri frekar svalt. Halo

Hann kallar þetta fyrirbæri "The Rapture"

Harold_Camping_2011

Taka má fram að Harold Camping er fæddur árið 1921 og hugsanlega meinar hann bara að hans eigin heimur sé kominn á endastað, enda næstum níræður kallinn, og þetta sé allt myndlíking um hans eigin hvarf úr þessum heimi og von um að hann lendi á góðum stað. Kannski er dagurinn í dag sá dagur sem hann sjálfur sættir sig við að lífið varir ekki að eilífu og að hann hverfi frá þessum heimi á árinu.

Hins vegar "rök"styður hann staðfestu sína með eftirfarandi "rökum". Upplýsingarnar hefur hann úr Biblíunni.

Ég leyfi mér að birta þessi "rök" á ensku og tek þau beint úr Wikipedia. Að þýða þessi "rök" er í raun að gefa þeim of mikla athygli.

  1. The number five equals "atonement", the number ten equals "completeness", and the number seventeen equals "heaven".
  2. Christ is said to have hung on the cross on April 1, 33 AD. The time between April 1, 33 AD and April 1, 2011 is 1,978 years.
  3. If 1,978 is multiplied by 365.2422 days (the number of days in a solar year, not to be confused with the lunar year), the result is 722,449.
  4. The time between April 1 and May 21 is 51 days.
  5. 51 added to 722,449 is 722,500.
  6. (5 × 10 × 17)2 or (atonement × completeness × heaven)2 also equals 722,500.

Það er ekki oft sem eitthvað kemur fram í þessu heimi sem ég get skilgreint sem algjört bull. En þessi kenning kemur ansi nálægt því

 

Led+Zeppelin+stairway+to+heaven

Það er í sjálfu sér dapurt að við öll verðum öll einhvern tíma að deyja, og þar sem ég er 100% viss um að það sé satt, hlýtur, samkvæmt mínu eigin prinsippi, eitthvað að vera athugavert við þessa sannfæringu. 

Við vitum ekki hvað dauðinn er. Það eina sem við vitum er að það verður mikil breyting á lífi okkar. Líkaminn mun hætta að virka. Nákvæmlega ekki eins og þegar við sofum.

Við vitum ekki hvað tekur við. Auðveldast er að gera ráð fyrir að ekkert taki við. Hvað verður um alla þá upplifun sem við búum yfir eftir þetta líf? Gufar hún bara upp? Verður hún að engu? Hvað er þetta ekkert sem tæki við? Það sem tekur við eftir lífið er eitt af þeim mest spennandi fyrirbærum sem ég hef ekki enn upplifað, og spurning hvort maður hafi tíma til að vera hissa þegar kemur að því. 

Það má ekki gleyma því að þegar við hugsum fyrirbærin of stórt, þá getum við tapað sýn á því sem skiptir meira máli. Í mínu tilfelli er það að tryggja börnum heimsins möguleika á góðu og farsælu lífi, með fókus á mín eigin börn. Því hvernig getur maður bætt heiminn án þess að rækta eigin garð?

 

Upplýsingar: Wikipedia: 2011 end times prediction


Besta aprílgabb dagsins

 


 

Ég er búinn að fylgjast vel með flestum fjölmiðlum í dag og safnað saman öllum bestu aprílgöbbunum.

Besta gabbið kemur án nokkurs vafa frá mbl.is. Eyjan setti fram nokkur lúmsk, en það allra besta kemur frá visir.is.

Skoðaðu göbbin með að smella á linkana.

Sért þú að lesa þetta hefur þú hlaupið apríl. Whistling

 

1. apríl!

 

Þessi grein er nefnilega aprílgabbið mitt í ár.

 

Þannig hljómaði aprílgabbið mitt í fyrra og ég ákvað að nota það aftur í dag. Joyful Ég held að engin af mínum greinum hafi fengið jafn mikinn lestur og þetta einfalda aprílgabb fyrir ári, og sjálfsagt hef ég sjaldan lagt jafn litla vinnu í eina grein. Ég er forvitinn að vita hvort þessi verði jafn vinsæl.
 
 
Wizard   Sideways   Whistling   Shocking   Blush
 
 
 
 
Mynd: Wikipedia - April Fool's Day

 

--- Þetta aprílgabb birti ég fyrst 2009 og síðan aftur 2010. Það virkar. Sami brandarinn virðist virka aftur og aftur og sjáum til hvort hann gangi í dag. ---


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband