War Horse (2011) ****

War-Horse-Movie-poster-Film-review-e1324422829991

"War Horse" er önnur fjölskyldumynd Steven Spielbergs frá árinu 2011. Hin fyrri var "The Adventures of Tintin". Báðar hittu þær beint í mark hjá mér.

"War Horse" er í eðli sínu rómantísk fjölskyldumynd um vináttu, tryggð, heiður og ólík gildi. Þrátt fyrir þetta fagra yfirbragð er djúp undiralda sem fylgir söguheiminum, Englandi og Frakklandi frá upphafi til enda fyrri heimstyrjaldar, þar sem margar góðar manneskjur falla í heimskulegu stríði sem enginn vildi bera ábyrgð á.

Styrjaldir eins og fyrri heimstyrjöldin, eru svolítið eins og efnahagshrun, þau eru engum að kenna, og magna upp bæði það besta og versta í fólki. Hinir góðu sem vilja verja sína samherja og eigin þjóð verða hetjur, en hinir grimmu sem hugsa um ekkert annað en að hámarka gróðann eða drepa sem flesta verða að skrímslum.

Í gegnum þessa heimsmynd gengur og hleypur hesturinn Joey, en við kynnumst honum fyrst þar sem unglingurinn Albert Narracott (Jeremy Irvine) verður vitni að fæðingu hans. Á endanum eignast drengurinn hestinn, en faðir hans Ted (Peter Mullan) selur hernum hestinn og sendir hann í eitt grimmasta stríð veraldar, þar sem hestar mega sín lítils gegn stórskotavopnum. Móðirin Rose (Emily Watson) er allt annað en sátt við skammarlega hegðun eiginmanns hennar, sem hún þrátt fyrir allt elskar, og segir hún syni sínum að þó hún hati mann sinn sífellt meira elski hún hann alltaf jafn mikið. Frekar óvenjuleg gildi fyrir kvikmynd á árinu 2012.

Við fylgjumst með ferðum hestsins gegnum stríðið þar sem hann kynnist fjölda fólks af ólíkum uppruna og bakvið ólíkar víglínur. Hinir ensku og þýsku sína hestinum mikla virðingu, en af einhverjum ástæðum fá Frakkar ansi slæma útreið frá Spielberg, sem virðast vera hinar mestu skepnur, þegar kemur að virðingu þeirra gagnvart fráum fákum.

Joey kynnist vingjarnlegum og göfugum enskum herforingja, svörtum og fögrum fáki, þýskum bræðrum sem gerast liðhlaupar, franskri sveitastúlku og afa hennar, frönskum hestavini og skilningslausum yfirmönnum hans, og lendir síðan í aðstæðum sem virðast algjörlega vonlausar, flækist í gaddavír á miðjum vígvellinum og öll von virðist úti. 

Það sem gefur myndinni sérstakan ævintýrablæ er leit drengsins að hestinum, en hvorugur þeirra gefst upp við að leita hvors annars. Það er einmitt þess vegna sem ég kalla "War Horse" rómantíska fjölskyldumynd.

Lokatökurnar í myndinni er með því fallegasta sem sést hefur á kvikmyndatjaldi, þar sem himinn virðist eins og klipptur úr "Gone with the Wind", og restin eins og listalegt málverk á hreyfingu. Afar fallegur endir á góðri kvikmynd, sem hefur ekki snert af kvikyndisskap eða illrætni frá sjónarhorni sögumanns, en auga kvikmyndarinnar sér heiminn út frá augum hests, og sýnir okkur þannig margt af því besta og versta sem við manneskjur höfum að geyma. 

Mig grunar að "War Horse" verði ekkert sérstaklega vinsæl til að byrja með, en verði álitin klassík innan fárra ára. Mér fannst gaman að sjá hversu margir unglingar voru í bíó, og velti fyrir mér hvort þau séu farin að fá leið á öllum hryllingnum, ofbeldinu og grófum húmor sem tröllriðið hefur kvikmyndum og sjónvarpi síðustu misserin. Ekki veit ég svarið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband