Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Fast Five (2011) ***1/2

fast-five-poster-600w

Framhaldsmynd númer fjögur hefur engan rétt til að vera betri en myndir 1-4. Ég man ekki til að slíkt hafi áður gerst í kvikmyndasögunni, en "Fast Five" tekst það sem engri kvikmynd hefur áður tekist; að rúlla upp fyrirmyndunum á stórskemmtilegan hátt.

Justin Lin er leikstjóri sem borgar sig að fylgjast með í framtíðinni. Honum tekst að byggja upp spennumynd um hraðskreiðan kappakstur þar sem bílarnir eru ekki í aðalhlutverki, heldur persónurnar. Reyndar eru þessar persónur líkari ofurhetjum en venjulegu fólki. Fyrir undirritaðan dregur það engan veginn úr gildi myndarinnar. 

"Fast Five" er spennumynd sem tekst að víkja sér undan öllum helstu klisjunum. Ég átti sífellt von á ákveðnum klisjum, en í stað þess að falla í gildrurnar, voru handritshöfundarnir klókir og notuðu þær til að byggja aukna spennu. 

fast_five_12

Það magnaða við "Fast Five" eru allar aukapersónurnar og hvernig tekst að gera þær eftirminnilegar. Aðalpersónurnar eru líka fínar. Þær eiga næstum allar skilið sína eigin kvikmynd, slíkur er sköpunarkrafturinn í þessari mynd.

Fyrir þá sem hafa fylgst með seríunni frá því "The Fast and The Furious" (2001) kom út með frekar slöku framhaldi "2 Fast 2 Furious" (2003) og frekar óvænt góðu framhaldi "The Fast and The Furious: Tokyo Drift", sem síðan hélt áfram með hinni arfaslöku "Fast and Furious" (2009), þá er "Fast Five" óvænt gleðigjöf, því hún er betri en allar fyrri myndirnar til samans.

Það er ekki nóg með að Dwayne Johnson blæs nýju lífi í söguna með hinni eitilhörðu sérsveitarlöggu Hobbs, heldur er sögusviðið líka óvænt og skemmtilegt, Rio de Janero í Brasilíu, og þar að auki er leikarahópurinn frá fjölmörgum þjóðum, og hver öðrum betri, sem gefur myndinni svolítið sérstakan blæ. Maður finnur fjölmenningakúltúr streyma út úr fingurgómum leikstjórans. Það er frekar sjaldgæft í hasarmyndum.

Það var lengi draumur manna að sjá Schwarzeneigger og Stallone kljást á hvíta tjaldinu. Þeir birtust loks saman í hinni hörmulegu "The Expendables" (2010) og gerðu lítið fyrir goðsöguna um þessa hasarjötna hvíta tjaldsins. Vin Diesel og Wayne Johnson hafa þessa efnablöndu sem gaman er að sjá í svona myndum. Það er gaman að sjá þá takast á og hvernig sögupersónur þeirra þróast. Þetta er sérstaklega skemmtilegt þar sem hvorki Vin Diesel né Wayne Johnson hafa verið að gera neitt sérstaklega góða hluti síðustu ár.

fast-five-wallpapers-1

En aðeins um söguþráðinn. 

Dominic Toretto "Vin Diesel" er á leið í fangelsi þegar honum er bjargað af félögum sínum, fyrrum FBI löggunni Brian O'Conner (Paul Walker) og systur hans Mia. Saman flýja þau frá Bandaríkjunum til Brasilíu, eða eins og klisjan segir, úr öskunni í eldinn. Þar lenda þau upp á kant við mafíuforingja borgarinnar sem hefur sér til aðstoðar nánast allt gjörspillta lögregluliðið, fyrir utan hina undurfögru löggu Gisele Harabo (Gal Gadot). Þegar fréttist af þeim félögum í Rio mætir sérsveitarlöggan Luke Hobbs (Dwayne Johnson) á svæðið með hörkulið, sem svífst einskis til að klófesta hina eftirsóttu.

Toretto ákveður að ræna mafíuforingjann, og fær til sín stóran hóp góðra vina sem leggur á ráðin með honum. Á sama tíma leitar mafían, löggan og sérsveitin að þessum ofurhetjum hraðskreiðra bíla. Sagan er vel sögð og vissulega til þess gerð að fá áhorfandann til að hlýja og halda sér fast í sætið, og það tekst ljómandi vel.

Það eina neikvæða við myndina er að það eru nokkur bílaáhættuatriði sem eru algjörlega ómöguleg, en samt skemmtilega útfærð. Þau draga úr trúverðugleika myndarinnar, þar til maður áttar sig á að þetta er ofurhetjumynd. Þá verður þetta bara gaman.

Fast-Five_01

Það er ljóst að framhald verður á þessum myndaflokki. Með þeirri persónusköpun sem birtist í þessari mynd nálgast hún það að skapa sinn eigin söguheim, svona eiginlega eins og "Star Trek" eða "Star Wars". 

Góð skemmtun í bíó!


Source Code (2011) ****

source-code-poster

Tímaflakkstryllirinn "Source Code" hefði getað heitið "Quantum Leap: The Movie" og sjálfsagt fengið betri aðsókn fyrir vikið. Hún er skemmtilegur og vel gerður samtíningur úr snilldar kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Það má segja að umgjörðin komi úr "Quantum Leap" (1989-1993) og "24" (2001-2010), en söguþráðurinn úr "Groundhog Day" (1993), "Avatar" (2009) og "Star Trek" (2009). Öll þessi blanda heppnast vel.

"Source Code" er önnur kvikmynd leikstjórans Duncan Jones í fullri lengd. Sú fyrri var "Moon" (2009) og báðar með eftirminnilegum söguþræði og persónum sem fá áhorfandann til að velta hlutunum fyrir sér. Það er eins og loks hafi stigið fram á sviðið leikstjóri sem getur gert fyrir kvikmyndir það sem Philip K. Dick (1928-1982) gerði fyrir smásögur.

Colter Stevens (Jake Gyllenhaal) vaknar í lest, í líkama annars manns og hefur átta mínútur þar til lestin springur í loft upp. Hann hefur verið sendur til að finna upplýsingar um þá hryðjuverkamenn sem stóðu fyrir sprengjunni. Hann þarf að upplifa þessar sömu átta mínútur óteljandi sinnum til að ná valdi á aðstæðum og kynnast fólkinu í lestinni, sérstaklega hinni aðlaðandi Christina Warren (Michelle Monaghan). Eftir því sem hann kynnist fólkinu betur, og sérstaklega dömunni, vaknar hjá honum áhugi á að bjarga öllum í lestinni, sem er náttúrulega ómögulegt verkefni (eða "Mission Impossible" (1996)), enda tilvistin í lestinni ekkert annað en minning.

source-code-movie-poster-2011-1020694538

En málið er ekki einfalt. Samkvæmt dr. Rutledge (Jeffrey Wright) er Colter aðeins að upplifa síðustu átta mínútur í lífi kennara sem staddur var í lestinni, og hann á engu að geta breytt, þar sem þetta er bara minning.

Þegar Colter skýst yfir í veruleikann í hvert skipti sem hann deyr á áttundu mínútu er hann lokaður inni í einhvers konar tanki, og hefur aðeins samskipti við tvær manneskjur, annars vegar Goodwin (Vera Farmiga) og hins vegar dr. Rutledge (Jeffrey Wright), en sá síðarnefndi er jafnframt hálfgerður Frankenstein, svo enn sé bætt við vísunum. 

Reyndar leikur Scott Bakula lítið hlutverk í myndinni, en Bakula lék að sjálfsögðu aðalhlutverkið í þáttunum "Quantum Leap". Hann talar meira að segja eins og dr. Sam Becket gerði í þeim þáttum, en honum var títt að segja "Oh boy!". 

Jake Gyllenhaal keyrir söguna áfram og er jafn góður í "Source Code" og hann var slakur í "Prince of Persia" (2010), og jafn góður og hann var í hinni afar góðu "Brothers" (2009) þar sem hann var í aðalhlutverki ásamt Natalie Portman og  Tobey Maguire.

Eins og títt er um góðar vísindaskáldsögur, þá spyr hún heimspekilegra spurninga sem virðast við fyrstu sýn frekar einfaldar, en þegar pælt er í þeim leynast hugmyndir sem hafa kannski ekki flotið upp á yfirborðið hjá okkur öllum. Stóra spurningin er hvað minningar séu, hvort að minning sé eitthvað meira og merkilegra en hugarburður? Skapa sameiginlegar minningar heim okkar eða er heimurinn bara efnislegt tóm? 

Það er alltof sjaldan sem maður sér svona góðan vísindatrylli í bíó.

Allgjör snilld!


Verður heimsendir í dag klukkan 18:00?

Teachings_of_Jesus_38_of_40._the_rapture._one_in_the_field._Jan_Luyken_etching._Bowyer_Bible

Spá- og útvarpsmaðurinn Harold Camping segir að í dag, 21. maí 2011 sé dagurinn sem fólk verður valið í lið með eða á móti Guði. Síðan verður heimsendir eftir fimm mánuði 21. október 2011. 

Ég velti fyrir mér hvernig hinir útvöldu munu vita um valið, og hvort þeir hafi eitthvað um það að segja. Fá þeir upplýsingar í tölvupósti, með bréfi eða símhringingu, eða verða þeir bara numdir á brott án vitneskju þegar að dómsdegi kemur? Heimsækir þá kannski engill sem segir þeim fréttirnar eða dregur þá í burtu með valdi?

Camping segir engan vafa leika á að þetta sé staðreynd. Hann virðist gleyma því að þegar enginn vafi leikur á einhverju, það er einmitt þá sem eitthvað er líklega ekki rétt. Sé eitthvað 100% öruggt, er ég viss um að það sé hugarburður. Ég er viss um það.  Af prinsippástæðum ekki nema 99.99% viss.

Þetta á að gerast kl. 18:00 á staðartíma um allan heim. Ég velti fyrir mér hvað verður um fólkið sem er að ferðast á milli tímasvæða í flugvél, bíl eða jafnvel gangandi. Verður það kannski valið tvisvar? Það væri frekar svalt. Halo

Hann kallar þetta fyrirbæri "The Rapture"

Harold_Camping_2011

Taka má fram að Harold Camping er fæddur árið 1921 og hugsanlega meinar hann bara að hans eigin heimur sé kominn á endastað, enda næstum níræður kallinn, og þetta sé allt myndlíking um hans eigin hvarf úr þessum heimi og von um að hann lendi á góðum stað. Kannski er dagurinn í dag sá dagur sem hann sjálfur sættir sig við að lífið varir ekki að eilífu og að hann hverfi frá þessum heimi á árinu.

Hins vegar "rök"styður hann staðfestu sína með eftirfarandi "rökum". Upplýsingarnar hefur hann úr Biblíunni.

Ég leyfi mér að birta þessi "rök" á ensku og tek þau beint úr Wikipedia. Að þýða þessi "rök" er í raun að gefa þeim of mikla athygli.

  1. The number five equals "atonement", the number ten equals "completeness", and the number seventeen equals "heaven".
  2. Christ is said to have hung on the cross on April 1, 33 AD. The time between April 1, 33 AD and April 1, 2011 is 1,978 years.
  3. If 1,978 is multiplied by 365.2422 days (the number of days in a solar year, not to be confused with the lunar year), the result is 722,449.
  4. The time between April 1 and May 21 is 51 days.
  5. 51 added to 722,449 is 722,500.
  6. (5 × 10 × 17)2 or (atonement × completeness × heaven)2 also equals 722,500.

Það er ekki oft sem eitthvað kemur fram í þessu heimi sem ég get skilgreint sem algjört bull. En þessi kenning kemur ansi nálægt því

 

Led+Zeppelin+stairway+to+heaven

Það er í sjálfu sér dapurt að við öll verðum öll einhvern tíma að deyja, og þar sem ég er 100% viss um að það sé satt, hlýtur, samkvæmt mínu eigin prinsippi, eitthvað að vera athugavert við þessa sannfæringu. 

Við vitum ekki hvað dauðinn er. Það eina sem við vitum er að það verður mikil breyting á lífi okkar. Líkaminn mun hætta að virka. Nákvæmlega ekki eins og þegar við sofum.

Við vitum ekki hvað tekur við. Auðveldast er að gera ráð fyrir að ekkert taki við. Hvað verður um alla þá upplifun sem við búum yfir eftir þetta líf? Gufar hún bara upp? Verður hún að engu? Hvað er þetta ekkert sem tæki við? Það sem tekur við eftir lífið er eitt af þeim mest spennandi fyrirbærum sem ég hef ekki enn upplifað, og spurning hvort maður hafi tíma til að vera hissa þegar kemur að því. 

Það má ekki gleyma því að þegar við hugsum fyrirbærin of stórt, þá getum við tapað sýn á því sem skiptir meira máli. Í mínu tilfelli er það að tryggja börnum heimsins möguleika á góðu og farsælu lífi, með fókus á mín eigin börn. Því hvernig getur maður bætt heiminn án þess að rækta eigin garð?

 

Upplýsingar: Wikipedia: 2011 end times prediction


Ný hugmynd um framkvæmd kosninga: 10 inn, 10 út

Hvaða skoðun þú hefur á þessari hugmynd um lausn á spillingarvandamálinu? Ef þér finnst hugmyndin góð, ræddu hana við félaga þína og skrifaðu í athugasemdakerfið. Með þessu fyrirkomulagi fengju þingmenn á sig pressu til að standa sig vel og vinna af heilindum. Þá gætu einstaklingar með vafasama fortíð síður laumað sér inn á þing með því að spila á kosningakerfið. 

Mig langar að vekja athygli og varpa fram til umræðu þessari hugmynd sem Einar Sólheim sendi í athugasemdakerfið við greinina Hefur meirihlutinn alltaf rétt fyrir sér?

Hann skrifar:

Kannski við ættum að fá að kjósa fólk bæði á og af þingi í beinni kosningu. Jack Welch sagðist alltaf losa sig við 10% starfsmanna á ári hverju. Þannig náði hann stöðugt að hækka meðlahæfni hjá GE. Við gætum t.d. árlega kosið á þing 10 nýja einstaklinga, en á sama tíma kjósa burtu þá 10 sem við vildum losna við. Þannig gætu t.d. ekki setið á þingi einstaklingar sem hefðu 30% stuðning ef 70% væru á móti þeim.

Vekjum athygli á þessari góðu hugmynd.


Fyrsta sýnishornið úr Tinna í leikstjórn Steven Spielberg

adventure-of-tintin-poster_487x721

Tinni í leikstjórn Steven Spielberg með nýrri 3D tækni. Þetta verður áhugavert.


Hefur meirihlutinn alltaf rétt fyrir sér?

animal1

Á Íslandi ríkir meirihlutalýðræði. Meirihlutinn ræður. Það virðist engu skipta hvort meirihlutinn hafi rétt eða rangt fyrir sér. Það eitt að hann ræður, gerir ákvörðun hans rétta. Þetta er afskræming á lýðræðinu. Lýðræði snýst ekki um það að meirihlutinn hafi rétt fyrir sér, heldur að meirihlutinn stjórni umræðunum og komist að því hvað er rétt og hvað rangt á hverri stundu.

Mér hefur sýnst íslenska ríkisstjórnin, bæði núverandi sem og þær fyrri, hafi snúið lýðræðishugtakinu upp í þann misskilning að meirihlutinn ráði, og að þeir sem stjórna meirihlutanum, ráði þar af leiðandi ennþá meiru. Og mig grunar að samfélagið allt sé sýkt af þessari ranghugmynd og að erfitt verði að brjóta hana á bak aftur. 

Ranglátt fólk setur lög yfir samlanda sína. Ranglátt fólk fer með völd eins og leikföng.

Ísland í dag virðist orðið að orvelsku ríki, bæði í anda Animal Farm og 1984, þar sem frelsi þykir hættulegt, sérstaklega nýtt frelsi, og best að koma á höftum til að fólk fari ekki fram úr sjálfu sér. Valdhafar gera allt sem þeir geta til að halda völdum, myndu ekki hika við að heilaþvo lýðinn væri það mögulegt, væru tilbúnir að fórna duglegasta vinnuhestinum til þess eins að narta í kjöt hans.

Ég er viss um að kreppan á Íslandi sé að dýpka. Það þykist ég sjá á þingsfrumvörpum um ritstýringu á fjölmiðlum, skömmtun á gjaldeyri, hörðum vörnum fyrir fjármálafyrirtækin,  og þeirri einföldu hugmynd að ein lausn sé á öllum vandamálum - að ganga í Evrópusambandið. Það þykist ég sjá á því að smáþjófum er refsað af hörku en þeir sem hafa rústað lífi fjölskyldna fá stjörnu í kladdann.

Ákveði meirihluti Íslendinga að ganga í ESB, þýðir það ekki að það sé rétt ákvörðun. Það að meirihluti Íslendinga kaus gegn Icesave III samkomulaginu, þýðir ekki að það hafi verið rétt ákvörðun (þó að ég trúi því). Það að meirihluti Íslendinga hafi kosið VG og Samfylkingu til stjórnunar á landinu, þýðir ekki að það hafi verið rétt ákvörðun (nokkuð augljóst - hins vegar var enginn góður kostur í stöðunni), og þó að þjóðin kjósi Ólaf Ragnar aftur sem forseta, þýðir það ekki að það sé rétt ákvörðun, þó að ég telji hann réttan mann á réttum stað, umkringdan fjandmönnum.

Ég vil sjá fólk í brúnni sem hefur engu að leyna. Fólk sem hægt er að treysta. Fólk sem hefur ekki eina einustu beinagrind í skápnum. Fólk með hreinan skjöld. Fólk sem hefur ekki komist áfram með því að svíkja annað fólk og svindla á kerfinu.

Meirihlutalýðræði ætti að snúast um að færa ákvörðunarvald í hendur fólki sem er treystandi. Þegar í ljós kemur að þessu fólki er ekki treystandi, ætti að vera hægt að svipta það völdum, og ef í ljós kemur að lýðræðiskerfið sjálft kaffærir gott fólk og spillir því þannig að úr góðu fólki verður vont, þá þarf að vera hægt að umturna slíku kerfi, í stað þess að fylgja því eftir eins og lamb forystusauði fram af bjargbrún.


Ólík viðhorf: Landflótta lánþegi og aðstoðarmaður forsætisráðherra

Facebook_863982i

Við Hrannar B. Arnarsson áttum í samskiptum á Facebook sem endaði með að ég var sakaður um að bulla og leita mér ekki upplýsinga. Mér er afar annt um sannleikann og þætti miður ef ég sjálfur uppfyllti ekki þær kröfur sem ég geri til sjálfs mín, um að leita mér stöðugt upplýsinga til að mynda skoðanir reistar á traustum rökum, og segja satt og rétt frá þessum skoðunum. Og í fullri hógværð vona ég að þessar skoðanir reynist það traustar að hægt verði að kalla þær þekkingu sem er sterkari en straumar og stefnur líðandi stundar.

Skoðanir Hrannar B. Arnarsson hljóta að enduróma þær skoðanir sem líðast í forsætisráðuneytinu. Ég er hins vegar landflótta lánþegi. Ég sá ekki fram á að geta haft fyrir mér og minni fjölskyldu á Íslandi, og flutti úr landi til að vinna mér inn fyrir stökkbreyttum húsnæðisskulum og bílalánum á Íslandi, nokkuð sem ég sé ekki eftir, sérstaklega eftir að hafa upplifað samræðu eins og þessa.

Ég hef ekki hugmynd um hversu margir Íslendingar hafa flutt af landi brott eða íhuga það, en reikna með að fyrri talan sé í þúsundum og síðari talan í tugum þúsunda.

Það er ekkert léttmeti að flytja frá einu landi til annars. Í mínu tilfelli var ákvörðunin auðveld þó að framkvæmdin hafi verið og sé enn í dag erfið. Ég sá ranglætið sem var í gangi og vildi ekki að börn mín þyrftu að búa við slíka samfélagsgerð í framtíðinni, þar sem gífurlegar greiðslur til stjórnmálamanna þykja eðliðlegar, þar sem stjórnmálamenn og útrásarvíkingar taka saman höndum og ryksuga allan auð þjóðarinnar og reyna að komast upp með það, og gera það hugsanlega, þar sem eigendur banka eignast banka með því að taka lán í öðrum bönkum, og lána eigendum hinna bankanna til að eignast þá. Ég vil ekki lifa í svona samfélagi og spurningin var einföld: átti ég að berjast fyrir að breyta Íslandi í betra samfélag eða flytja úr landi?

Hugsanlega átti ég auðvelt með að taka þessa ákvörðun þar sem ég hef búið erlendis áður. Sem unglingur bjó ég eitt sumar í Noregi, vann við að skúra á spítala í Bærum 16 ára gamall. Gerði það til að kaupa mér Commodore Amiga 2000 tölvu, sem tókst. 

Nokkrum árum síðar fór ég í M.Ed. nám til Bandaríkjanna og kynntist bandarískri menningu innanfrá. 

Enn síðar flutti ég til Mexíkó og kynntist öðru lífi og menningu þar. 

Eftir að hafa flutt heim til Íslands 2004 gerði ég þau mistök að kaupa mér íbúð á 100% láni. Mistök sem ég sé eftir enn í dag. Ég á mér enga ósk heitari en að losna við þessa íbúð og lánið sem á henni hvílir. 110% leiðin virkar ekki til þess, vegna þess að ég hef staðið í skilum og staðið undir ábyrgð. Ísland er undarlegur heimur.

Fjölskyldan ákváð saman að flytja úr landi. Forsendur fyrir að búa á Íslandi höfðu brostið.

Árin erlendis hafa ekki verið auðveld. Það er ekki auðvelt að finna samanstað fyrir fjögurra manna fjölskyldu í nýju landi, eða finna gott starf og skóla sem henta börnunum. Það er í mörg horn að líta. Ég sé fram á að lífið komist fyrst í nokkuð eðlilegt horf næsta haust, um tveimur og hálfu ári eftir brottflutning frá Íslandi.

Því finnst mér svo merkilegt þegar ég sé lítið gert úr flutning fólks frá Íslandi, eins og það sé bara einhver þægileg lausn. Það er ekki þannig. Þetta er góð leið fyrir þá sem sætta sig ekki við að lifa við stöðugan ójöfnuð og spillingu, nokkuð sem hefur því miður virðist vera haldið áfram af nýjustu ríkisstjórn Samfylkingar og VG, þrátt fyrir fögur fyrirheit um að hreinsa til. Gífurlegum fjármunum hefur verið varið í að verja fjármálastofnanir, sem miskunnarlausar hafa aleiguna af varnarlausu fólki.

Það allra sárasta finnst mér loforðin um skjaldborg yfir heimilin og að banna verðtryggingu, en bæði Samfylking og VG gjömmuðu hátt um bæði fyrirbærin fyrir síðustu kosningar og reyndar stanslaust í mörg ár áður en til byltingar kom, og þegar kemur að deginum þegar tækifærið gefst til að standa við gefin loforð og áætlanir, snúa báðir flokkarnir baki í þjóðina og yppta öxlum. Þeim er sama um fólkið. Þannig er það bara.

hrannarbjorn.jpg

3. maí 2011, kl. 16:33
Hrannar Björn Arnarsson skrifar:

Skjaldborg í orði og á borði - gjaldþrotum fækkar þrátt fyrir eitt mesta efnahagshruni síðari tíma - vitið þér enn eða hvað ?

"Samkvæmt opinberum tölum um fjölda gjaldþrota einstaklinga hefur engin aukning orðið á slíkum gjaldþrotum eftir bankahrunið. Þvert á móti hefur slíkum gjaldþrotum fækkað ef eitthvað og eru í lágmarki miðað við tölur frá aldamótum."

Nokkrir einstaklingar birtu skilaboð um að þetta væri frekar villandi. Ein spurning frá Frímanni S. var þannig kl. 16:36:

„Hvað eru margir gjaldþrota sem eru með frest vegna greiðsluaðlögunar og annarra úrræða.?"

Og önnur athugsemd frá Gunnhildi Ö. kl. 16:49:

Æil hvurslags er þetta eiginlega Hrannar, við erum ekki asnar þó við virðumst kannski stundum vera það. Hvað eru margir með frystingar sem nú eru að renna sitt skeið, hvað eru margir með umsóknir inni hjá Umboðsmanni skuldara og því í raun greiðsluþrota? En það er gott að þú ert svona ánægður með gang mála á Íslandi, það er þá einhver sem gleðst yfir ástandinu. Er ég þó sannfærð um að það eru ekki þeir sem berjast við að eiga fyrir salti í grautinn og standa fyrir utan hjáparstofnanir í hverri viku. Mig langar að segja við þig: Skammastu þín, en þar sem ég er vel upp alin geri ég það ekki.

Hugmyndaheimurinn sem birtist í athugasemdum nafna míns þykir mér skelfilegur, en hann svarar kl. 16:53:

Þetta er allt satt og rétt hjá ykkur - fullt af fólki sem berst í bökkum, fullt af fólki sem er með frystingar og skjól af allskyns úrræðum og flestir Íslendingar hafa það mun verr en fyrir hrun. Þessu neitar enginn. Tölurnar tala hinsvegar sínu máli um að stjórnvöldum hefur tekist að forða fjölda gjaldþrotum og því að fólk missi heimili sín umvörpum eins og allt stefndi í. Því er væntanlega óþarfi að afneita - eða hvað ?

Ég vil taka fram að þessu neita ég í svari sem kemur síðar. „Þessu neitar enginn" er staðhæfing sem stenst ekki þar sem ég neita henni, og tel nokkuð öruggt að ég er ekki enginn. Þessu neita ég.

Árni H. Svarar kl. 17:04:

Þessi framsetning er villandi Hrannar. Gjaldþrot eru ekki fleiri vegna þess að það kostar kröfuhafa að setja fólk í gjaldþrot og í flestum tilfellum er ekki eftir neinu að slægjast, allar eignir yfirveðsettar og kröfuhafar græða lítið á því að setja fólk í þrot. Það hafa hins vegar margir misst heimili sín á nauðungarsölum þegar veðhafar leysa til sín eignirnar.

Hrannar Björn svarar kl. 17:20:

Sömu rök áttu við um gjaldþrot einstaklinga fyrir hrun Árni, enda fátítt að einstaklingar séu séttir í þrot, nema búið sé að ganga að öllum fasteignum áður. Hitt er rétt að fjöldi fólks hefur misst fasteignir í kjölfar hrunsins, þó þar hafi menn hingað til getað verið í skjóli vegna úrræða stjórnvalda - margir hafa hinsvegar kosið að nýta það skjól ekki enda felst ekki í því lausn, heldur aðeins skjól til að leita lausna.

Þarna kemur skýrt fram að skjaldborg ríkisstjórnar fyrir heimili hafi aðeins verið „skjól til að leita lausna" en markmiðið ekki verið að hjálpa fólki til að leysa sín mál eftir allt ranglætið sem hefur hrunið yfir heimilin frá og fyrir hrun. Þetta er þvert á það sem flokkar lofuðu fyrir Hrun, en í raun er þetta ekkert annað en það sem gagnrýnendur hafa verið að segja: úrræði ríkisstjórnarinnar hafa verið að lengja í hengingarólinni. Þetta hefur Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra staðfest. Mér finnst þetta mikil frétt.

Gunnhildur Ö kveikir greinilega á þessu og svarar Hrannari kl. 17:26:

Hvaða tölur eru það Hrannar sem sýna að fólki hafi verið forðað frá gjalþrotum. Hvað hafa t.d. mörg greiðsluaðlögunarmál komist á? Við vitum öll að það hafa fjölmargir fengið gálgafrest með frystingum og að fjölmörg mál liggja inni hjá Umboðsmanni skuldara sem ekki hafa fengið afgleiðslu. Þegar niðurstað þeirra mála allra liggur fyrir getum við farið að tala um tölur/staðreyndir. Mér verður mjög misboðið þegar svona fáránlegum fréttaflutningi er skellt í andlit okkar sem vitum á eigin skinni hvernig skaldborgin virkar.

Eftir að hafa séð þessi samskipti skrifar Don Hrannar de Breiðholt, rétt áður en hann ekur af stað til vinnu 4.5.2011 kl. 7:43:

 

‎"Tölurnar tala hinsvegar sínu máli um að stjórnvöldum hefur tekist að forða fjölda gjaldþrotum og því að fólk missi heimili sín umvörpum eins og allt stefndi í. Því er væntanlega óþarfi að afneita - eða hvað ?"

Það eru ekki stjórnvöld sem hafa forðað fólki frá gjaldþrotum, heldur er það fólkið sjálft sem hefur gert það, með samhjálp og með því að flytja úr landi. Hvert sem ég fer og sama á hvern ég hlusta, nema þig, þá er fólk afar hneykslað á aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.

Kannski hefurðu sjálfur það bara of gott til að líta niður úr fílabeinsturninum? Ekki veit ég það.

Síðan bætti ég við 4 mínútum síðar:

Það er ein ástæð fyrir því að ég varð ekki gjaldþrota: þar sem lögin um gjaldþrot jafnast á við lífstíðarfangelsi ákvað ég frekar að flytja úr landi með fjölskyldu mína en sitja í skuldafangelsi með mín börn alla ævi. Að minnsta kosti er von til að komast af erlendis. Ekki misskilja mig, Ísland er land sem ég elska, en stjórnendur þessa lands hafa algjörlega klúðrað því að fólk sem keypti sér húsnæði á síðasta áratug geti komist þar af. Þá er ég bæði að tala um núverandi ríkisstjórn og þær fyrri. Ekkert hefur breyst.

Þarna er ég að sjálfsögðu að tala um gjaldþrotalögin eins og þau voru þegar ég flutti af landi snemma árs 2009. Ég kannast við breytingar á lögunum desember 2010, þar sem bætt var inn ákvæði um að kröfuhafar gætu aðeins framlengt kröfur sínar fyrir dómstólum, og þeir gætu gert það á tveggja ára fresti. Þessa breytingu tel ég ekki vera marktæka fyrr en í ljós hefur komið að gjaldþrota manneskja verður ekki hundelt af kröfuhöfum ævina út. Einnig tel ég það í sjálfu sér ömurlegt hlutskipti fyrir nokkra manneskju að verða gjaldþrota, og sérstaklega ef það er ekki hennar sök, ef hún hefur ekki lifað um efni fram og hefur aðeins verið saknæm um að taka sér húsnæðislán - eins og það sé glæpur. Í það minnsta sýnist mér refsað harðar á Íslandi fyrir að taka stökkbreytt húsnæðislán heldur en líkamsárásir, nauðganir og jafnvel morð.

Hrannar Björn svarar kl. 11:57:

Eithvað hefur þú kynnt þér gjaldþrotalögin ílla nafni, rétt eins og þau úrræði sem skuldurum bjóðast, ef þú telur að í þeim felist ekki aðrar lausnir en "lífstiðarfangelsi". Það er beinlínis fráleit fullyrðing og ekki í neinu samhengi við raunveruleikann. Eins stenst það ekki skoðun að menn geti flúið gjaldþrot með því að flýja land, en það er önnur saga. Skuldir hverfa ekki við það að yfirgefa landið. Annars finnst mér þú tala um þessi mál af svo yfirgripsmikilli fáfræði Hrannar, að það er mér eiginlega áfall - þú virðist hvorki kynna þér mál, né taka mark á þeim ábendingum sem þú færð um allar þær rangfærslur sem þú ferð með. Ég sé því satt best að segja lítinn tilgang í að ræða þessi mál við þig öllu frekar. Þú virðist fastur í einhverjum tilbúnum veruleika sem engu fær breytt og þannig verður það bara að vera. Gangi þér annars allt í haginn.

Þarna gefur Hrannar Björn sér að ég hafi kynnt mér gjaldþrotalögin illa. Ég hef lesið þau. Bæði þau sem voru í gangi fyrir breytinguna í desember 2010 og eftir breytinguna. Ég hef skoðað hvaða áhrif gjaldþrot hefur haft á manneskjur og séð að fólk hefur verið hundelt alla ævi af kröfuhöfum, og að kröfurnar eru einfaldlega endurnýjaðar með reglulegu millibili. Ég hef rætt við lögfræðing um þetta. Hans mat var að breytingin á lögunum breyttu í raun engu, aðeins því að kröfurnar yrðu endurnýjaðar með styttra millibili.  Ef þetta er merki um að hafa kynnt mér gjaldþrotalögin illa, þá hef ég gert það, og óska eftir að mér verði bent á nákvæmlega hvað ég hef gert vitlaust.

Einnig bendir Hrannar Björn mér á að ég hafi kynnt mér úrræði skuldara illa. Í fyrsta lagi, þá líkar mér illa við að kalla lánþega „skuldara". Í öðru lagi hef ég lagt á mig töluverða vinnu til að kynna mér þessi úrræði. Áður en ég tók ákvörðun um að flytja úr landi, kynnti ég mér þessi úrræði rækilega. Ég gekk meira að segja í Hagsmunasamtök heimilanna og hjálpaði samtökunum að safna upplýsingum, ræddi við samtökin á fundum og var sá aðili sem benti á að bæði gjaldeyrislán og verðtryggð lán væru í raun ólögleg vegna forsendubrests. Síðan þetta gerðist hefur bróður mínum tekist að sanna ólögmæti gjaldeyrislána í réttarsal, sem þýtt hefur að fjármálafyrirtækin hafa þurft að endurgreiða töluverðar upphæðir.

Nú tel ég rétt að beina athyglinni að verðtryggðum lánum, en forsendur þeirra hafa einnig brugðist, þó ástæðurnar séu aðrar. Ég hef stöðugt kynnt mér úrræði „lánþega" og verið ósáttur við t.d. 110% leiðina, en ég geri skýra grein fyrir henni í þessari færslu sem ég skrifaði 20.4.2011:

"Þeim var eg verst er eg unni mest" og Af hverju látum við þrælkun líðast á Íslandi í dag?

Þannig að ég hef leitað mér upplýsinga um þessi mál, en Hrannari Birni Arnarssyni finnst mér ég hafa leitað þessara upplýsinga illa, og þætti mér vænt um að vita hvað er rangt í mínum málflutningi. Það er slegið undir beltisstað með að ásaka viðmælandann um þekkingarleysi og gera ekkert til að leiðrétta þetta mögulega þekkingarleysi, þetta er þekkt úrræði mælskulistarmanna notað til að drepa málefnislega umræðu.

Þessu svara ég kl. 19:21 (að loknum löngum vinnudegi):

Í fyrsta lagi, þá hef ég skoðað gjaldþrotalögin nýju þar sem kröfuhafar geta aðeins samkvæmt dómsúrskorði fengið kröfur sínar endurnýjaðar. Nú hefur engin reynsla komið á þessi lög, þannig að það er 50-50 hvort þessi endurnýjun verði áfram jafn auðveld fyrir kröfuhafa og áður. Ég vildi ekki verða gjaldþrota og flutti úr landi, ekki til að láta skuldir hverfa, heldur til að geta borgað mínar skuldir með launum erlendis frá.

Skemmtilega orðað hjá þér að þér finnst ég fastur í einhverjum tilbúnum veruleika. Það finnst mér líka. Hins vegar hef ég mikla trú á að þessum veruleika sé hægt að breyta til hins betra sé vilji og dugnaður fyrir hendi.

Gangi þér sömuleiðis allt í haginn.

Samhliða þessu áttum við í orðasennu á öðrum þræði Hrannars B. Arnarssonar, þar sem hann sýnir frá tölfræðilegu sjónarhorni að allt er í allrabesta lagi á Íslandi. Þeir sem þekkja eitthvað til tölfræði kannast við hversu auðvelt er að túlka hvaða hugsanlegar tölur sér í hag, sé til þess vilji. Það finnst mér ósiðlegt háttarlag.

Þannig hófst hin samræðan með skilaboðum frá Hrannari Birni, 2.5.2011:

‎"Ólíkt því sem margir vilja vera að láta í umræðu, og stundum af öðrum ástæðum en sannleiksást, þá fer skulda- og gjaldeyrisstaðan hratt batnandi. Það þýðir að vonandi verða tækifæri til að hefja afléttingu hafta fyrr en síðar, og að það er engin ástæða til að ætla að krónan veikist ef svo heldur áfram sem horfir."

Mér sýnist Hrannar Björn fullyrða hér að krónan sé sterk. Verðbólgan er lítil. Fyrir kosningar lofuðu Samfylking og VG að banna verðtrygginguna. Nú er tækifæri til þess. Og takið eftir hvernig nafni minn fer í hring í þessari samræðu. Fyrst segir hann að krónan sé sterk og síðar heldur hann því fram að krónan sé ekki nógu sterk til að hægt sé að klippa verðtrygginguna úr sambandi.

4.4.2011 skrifaði ég grein um þetta mál: Af hverju er ekki enn búið að BANNA verðtryggingu lána?

Undirritaður skrifar kl. 16:20:

Svo ég leyfi mér að tala eins og rispuð plata: Hvað um aftengingu verðtryggingar?

Svarið frá Hrannari Birni kl. 16:59 kom mér á óvart, enda hefur þarna greinilega orðið algjör viðsnúningur á stefnu Samfylkingar og VG, og þar að auki finnst mér hugsunin svo grunn, skammsýn og innantóm að mér hreinlega blöskrar:

Myndir þú frekar velja lán með breytilegum vöxtum ? Ég þakka mínu sæla fyrir 4,15% vexti + verðtryggingu, en lægri vexti efast ég um að hægt verði að gefa í íslenskum krónum - sú hefur amk ekki verið raunin undanfarna áratugi... Aftenging verðtryggingar eða bann við henni leysir engan vanda - fjármagnið mun alltaf þurfa að innibera vexti sem dekka áhættuna

Ég get svarað nú að ég tel málið ekki það einfalt að einungis ein lausn sé möguleg: annað hvort að viðhalda verðtryggingu eða hafa lán með breytilegum vöxtum. Mögulegar lausnir þarf að kanna og útlista. Það eru hundruðir mögulegra lausna. Ekki bara ein. Mér hafði ekki dottið í hug að aðstoðarmaður forsætisráðherra gæti verið svona skammsýnn.

Þess vegna svara ég kl. 18:03:

Hrannar Björn: Ertu að grínast eða ertu blindur? Verðtryggingin er búin að éta upp eignir fólks í heimilum þeirra. Nú þegar verðbólgan er lág gefst einmitt tækifæri til að klippa á hana. Mundu að þegar verðtrygging var fyrst sett á, þá var hún einnig sett á laun. Nú þegar verðtryggð laun og verðtryggð lán fylgjast ekki að, skapar það gríðarlegt ójafnvægi. Ég er, í mestu vinsemd, hneykslaður í skammsýni þinni.

Í stað þess að átta sig á að kannski sé hægt að hugsa þetta í víðara samhengi, ákveður Hrannar Björn að festa sig við að einungis ein önnur leið sé til en verðtrygging. Þessu svarar hann kl. 19:03

Berðu saman vexti af óverðtryggðum lánum og verðtryggðum Hrannar - farðu eins langt aftur og þú vilt en ræðum um kosti og galla verðtryggingar þegar þú hefur rannsakað þróun þessarar grunnforsendu rökræðunnar sem þú fitjar hér uppá. Til langs tíma kemur verðtryggingin nefnilega betur út. Verðtrygging étur ekki upp neinar eignir, ekki frekar en hún bjó þær til þegar hún hélt hvorki í við þróun launa eða fasteignaverðs. Verðtrygging er hlutlaus mælikvarði á þróun verðlags, sem ver lánveitendur og lántaka fyrir áhættu af verðbólgu. Hvað heldur þú að margir hefðu farið á hausinn eða misst eignir sínar ef þeir hefðu haft breytilega vexti á lánum sínum í stað verðtryggða, þegar vextir lágu í kringum 20% - Ég hefði amk ekki ráðið við slika vexti á 25 milljóna láni - bara vextir hefðu verið um 5 milljónir á ári ! Ég er því hvorki blindur né í hlátur í hug... Vandinn er ekki verðtrygging - vandinn er óstöðugleiki íslensku krónunnar og þann vanda leysir þú ekki með afnámi verðtryggingar. Sorry !

Munið að í upphafi greinar skrifar Hrannar Björn um styrkleika krónunnar, en í síðustu málsgrein um óstöðugleika íslensku krónunnar. Hann talar í hringi og aðeins um eina hugsanlega lausn.

Ég tel verðtryggingu rangláta vegna þess að hún tryggir aðeins lánveitanda, en lánþegi hefur enga tryggingu. Hækki verðlag, hækkar lánið, en ekki geta lánþega til að greiða af láninu því að laun eru ekki verðtryggð. Afleiðing þessa er ójöfnuður. Þar sem Hrannar Björn Arnarsson situr í forsvari fyrir flokk sem kennir sig við jöfnuð, þykir mér þetta afar athyglisvert, og því held ég áfram að velta þessu fyrir mér, en gat ekki á mér setið að stinga inn einum léttum brandara, þrátt fyrir alvarleika málsins, kl. 22:29:

Jú, blindur. Þú sérð það bara ekki sjálfur.

Og síðan bæti ég við 4.5.2011 kl. 19:31:

Að sjálfsögðu leita ég mér upplýsinga, nafni. Í raun er þetta í grunninn pólitísk afstaða. Að halda í verðtryggingu eykur ójöfnuð í samfélaginu og flokkast sem hægri stefna, eða íhaldssemi. Það er auðvelt að rökstyðja slíka stefnu, hafirðu farið í framboð í skjóli hennar. Að afnema verðtryggingu miðar að jöfnuði í samfélaginu og ber keim af svokallaðri jafnaðarstefnu, nokkuð sem Samfylking var kosin til að berjast fyrir. Að Samfylking og Vinstri græn skuli hafa breyst í hálfgerða hægri flokka er svolítið spes.

Rétt eins og með Icesave, þá virðist þú vera að þiggja þínar upplýsingar, hvaðan sem þú færð þær, gagnrýnislaust. Þú getur betur.

Ég hafði gagnrýnt Samfylkingu og VG fyrir Icesave afstöðu þeirra þar sem efnisleg rök héldu ekki vatni, og reynt var að kasta ryki í augu fólks með stanslausum endurtekningum, hræðsluáróðri og spuna. Þessi spunahegðun heldur áfram þegar kemur að verðtryggingu og úrræðum fyrir lánþega.

Ég skil ekki af hverju, en íslenskir stjórnmálamenn virðast ekki kunna auðmýkt. Að viðurkenna þegar þeir hafa haft rangt fyrir sér. Það virðist útilokað. Að hafa rangt fyrir sér getur ekki gerst, aðeins aðstæður geta breyst. Svona tækifærishyggja mun aldrei leiða til góðs.

Nú hefur þolinmæði Hrannars Björns þrotið, enda sér hann að rökleg staða hans er töpuð. Í stað þess að gefast upp og takast í hendur eins og heiðursmönnum sæmir, ákveður hann að ryðja taflmönnunum af borðinu og rjúka í burtu með þessari athugasemd á miðnætti, kl. 0:05 (á mínum tíma - sjálfsagt 22:05 að íslenskum tíma):

Verðtryggingin hefur ekkert að gera með hægri eða vinsti - þetta er þvílíkt dæmalaust rugl hjá þér að það tekur engu tali... úff!

Að lokum óskaði ég eftir leyfi til að birta þessa samræðu á blogginu, en fékk aldrei svar. 5.5.2011 kl. 19:45 skrifa ég:

Sæll aftur Hrannar Björn, fæ ég leyfi þitt til að birta þessa samræðu á bloggi mínu?

Þessi samskipti fóru fram samtímis á tveimur ólíkum þráðum, og að lokum bað ég nafna minn um leyfi til að birta samræðu okkar á bloggi mínu. Ég hef ekki fengið neitt svar við þessari beiðni og álykta því að þögn sé það sama og samþykki. Tveir dagar hafa liðið frá þessari spurningu minni og tel ég það meira en nægan umþóttunartíma.

Þögn er sama og samþykki.

620x350_facebook_chat_tcm48-155120

Sárt finnst mér að vera ásakaður um að kanna málin ekki vel, en ég tel mig hafa gert það og jafnvel prófað skoðanir mínar með því að skrifa um þær greinar og lesa vandlega athugasemdir við þær, eins og sjá má á greinum sem ég hef áður birt. 

Hins vegar hef ég ekki atvinnu af að rýna í þessi mál og nota eingöngu örfáar tómstundir um kvöld og helgar til þess. Það að ég fæ ekki laun fyrir að rannsaka þessi mál og hafa skoðanir um þau, þýðir ekki að skoðanir mínar né nokkurs annars séu einskis virði. 

Að gera lítið úr skoðunum annarra kalla ég hroka. Hroki frá næstæðsta starfsmanni einnar æðstu stofnunar þjóðarinnar til manns sem hefur neyðst til að flytja frá landi og þjóð sem hann elskar, veldur óneitanlega svolitlum vonbrigðum.

 

***

Að sjálfsögðu eru athugasemdir við þessa færslu opnar þannig að ekki verði hægt að segja þessa grein vera aðeins háða einu takmörkuðu sjónarhorni. Athugasemdirnar verða sjálfkrafa hluti að greininni, og öllum er velkomið að taka þátt.

Endilega, ef þú sérð hvar ég hef rangt fyrir mér, hvar upplýsingar mínar, þekking eða skoðanir eru ónákvæmar, þá þætti mér afar vænt um leiðréttingu, ekki leiðréttingu með upphrópun, heldur leiðréttingu með rökum.

 

Fyrri færslur sem tengjast þessari samræðu:

  1. Af hverju látum við þrælkun líðast á Íslandi í dag? 21.4.2011 | 18:47
  2. "Þeim var eg verst er eg unni mest" 20.4.2011 | 05:55
  3. Af hverju ríkisstjórnin verður að víkja strax 10.4.2011 | 06:57
  4. Af hverju við segjum NEI við Icesave III (myndbönd) 9.4.2011 | 07:09
  5. Af hverju "já" er ekki það sama og að loka Icesave málinu 8.4.2011 | 05:48
  6. Hefurðu lesið áhættugreiningu Marinós G. Njálssonar um Icesave? 7.4.2011 | 14:43
  7. Af hverju er ekki enn búið að BANNA verðtryggingu lána? 4.4.2011 | 23:33
  8. Nei eða já? Já eða nei? 3.4.2011 | 21:19
  9. "Ég nenni þessu ekki lengur" 15.3.2011 | 17:13
  10. Viltu ræða nokkrar af grundvallarspurningum Icesave? 27.2.2011 | 09:55
  11. Hvort eiga lögin um Icesave að vernda hagsmuni eða réttlætið? 22.2.2011 | 00:04
  12. Er ekkert pláss fyrir heiðarlegt fólk á Íslandi? 20.2.2011 | 09:26

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband