Af hverju ríkisstjórnin verður að víkja strax

Ríkisstjórnin hefur ekkert umboð vegna Icesave enda vill hún ekki skilja hvað þjóðin hefur að segja um málið. Ólafur Ragnar skildi það vel í fyrra og var góður málsvari fyrir þjóðina. En þessi ríkisstjórn fór strax að ræða við aðila úti í heimi með afsökunartón og rugli.

Steingrímur ætlar að sitja sem fastast. Hann er lím ríkisstjórnar sem er að liðast í sundur. Steingrímur þarf að skilja að völd eru ekki bara fyrir völd, heldur er fólk kosið í embætti vegna loforða sem það gefur. Maðurinn er fastur í heimi fjarri veruleikanum, enda setið á þingi í meira en 30 ár. Mín skoðun er að þingmennska umfram átta ár ætti ekki að líðast.

Árni Páll er ekki rétti maðurinn til að sjá um Icesave málið á erlendri grundu, enda reynast í hans höndum tilgangurinn helga meðalið. Tilgangurinn er að komast í Evrópusambandið og meðalaðið er hvað sem er sama hvað það kostar. Og fórnarkostnaðurinn er þegar orðinn gífurlegur.

Sjálfur hef ég ekkert á móti því að Ísland gangi í Evrópusambandið, en er ekki sáttur við hvernig litið er á það sem lausn á vandamálum frekar en markmið til að finna betri stefnu. Það þarf að leysa mörg mál á Íslandi og sitjandi ríkisstjórnin hefur ekki getað gert mikið þau tvö ár sem hún hefur setið. Hún er svona eins og kona sem situr í ruggustól og reynir að leggja kapal og rugga sér samtímis.

Það þarf að laga skuldavanda heimila og fyrirtækja með því að klippa á verðtrygginguna. Það eitt getur gefið fólki von um einhvers konar framtíð. 110% leiðin reyndist bara djók, þar sem að bankarnir stjórna öllu eignamati og útiloka sjálfstætt mat. Það er náttúrulega bara bilun.

Þessi ríkisstjórn er ráðalaus en heldur sér á floti með öllum tiltækum ráðum sem hægt er að lesa um í Prinsinum eftir Machiavelli, 16. aldar verk sem fjallar um hvernig stjórnmálamenn ná völdum og hversu auðvelt er að halda þeim þegar völdin eru loks þeirra, sé öllum tiltækum ráðum og blekkingum beitt.

Í þarsíðustu kosningum kaus ég Samfylkinguna og varð fyrir afar djúpum vonbrigðum, enda hafði Björgvin G. Sigurðsson, heimspekingur, mælt fyrir að hann myndi berjast gegn verðtryggingunni og varð hann viðskiptaráðherra, sem síðan gerði ekkert í málinu, heldur fór að spila með þeim sem höfðu mestan hag af því að halda henni. Þá var það hluti af stefnuskrá Samfylkingarinnar að berjast gegn verðtryggingarskrímslinu, en hún gerði aldrei neitt, heldur ákvað að láta það líðast áfram. Sama sagan er ennþá í gangi. Sjálf forsætisráðherra hafði barist gegn verðtryggingu með kjafti og klóm í stjórnarandstöðu og vildi umsvifalaust banna hana vegna þess ranglætis sem hún skapaði, en sem forsætisráðherra setti hún málið í nefnd sem kæfði það síðan á einni viku.

Stjórnmálamenn sem eru við völd í dag á Íslandi eru aðeins við völd valdanna vegna, og svoleiðis verður að stoppa. Þeim virðist sama um hvað þjóðin hefur að segja og túlkar úrslitin í kosningum gærdagsins eins og þeim hentar. Því spái ég. Þetta munum við sjá í allan dag og næstu daga, eins og verið sé að neyða í okkur ógeðisdrykk. það gerðist eftir Icesave kosninguna í fyrra og það mun gerast eftir Icesave kosninguna núna.

Stóri vandinn er sá að næsta ríkisstjórn verður sjálfsagt eins byggð upp, bara með öðru fólki. Það þyrfti að brjóta þetta upp með því að breyta kosningafyrirlaginu þannig að fólk geti ekki keypt sér sæti á listum með forkosningum og þannig svindlað sér bakdyramegin inn á þing. Það þarf að breyta framkvæmdarreglum um kosningar, nokkuð sem hópur eins og stjórnlagaráð mætti beita sér fyrir.

Það er ljóst að þessi ríkisstjórn þarf að víkja strax, enda hefur þjóðin sýnt skýrt og greinilega að hún treystir ríkisstjórninni ekki fyrir að breyta rétt í Icesave málinu. Það er í sjálfu sér alvarleg vantraustsyfirlýsing frá þjóðinni sem ábyrgðarfullri ríkisstjórn ber að taka alvarlega.

Mikið hefur verið talað um að þessi ríkisstjórn sé að taka til. Því miður hefur það ekki verið mín upplifun. Þessi ríkisstjórn hefur reynt að halda veislunni áfram og hefur ekki ennþá fundið sér kúst og fægiskóflu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Algjörlega sammála. Nú ætti forsetinn að setja þessa ríkisstjórn af og setja á stofn neyðarstjórn með fólki sem þekkir til alþjóðastjórnmála.  Síðan þarf að breyta kosningakerfinu, og flokkar að aflúsa sig.  ALgjörlega sammála um að breyta kosningakerfinu best væri að hafa persónukjör. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.4.2011 kl. 12:51

2 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

það eru eingvir til að taka við.

Vilhjálmur Stefánsson, 10.4.2011 kl. 14:37

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Nei þess vegna þarf utanþings eða neyðarstjórn, meðan aflúsun fer fram. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.4.2011 kl. 14:58

4 Smámynd: Jón Sveinsson

Hjartanlega sammála Ásthildi.

Jón Sveinsson, 10.4.2011 kl. 22:28

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Stjórnin þarf að fara frá, þau tala ennþá niður til þjóðarinnar.  Og ætla að vinna vel fyrir bretana og hollendingana áfram.  Ég treysti þeim ekki fyrir þessari uppstokkun sem þarf að verða, þau hafa ennþá ekki brugðist við Rannsóknarskýrslu Alþingis...  Ég er fylgjandi öllum leiðum sem hægt væri að beita til þess að losna við stóran hluta þingmanna sem sitja í boði stórfyrirtækja og eigenda þeirra á Alþingi..  Fyrr er ekki hægt að hefjast handa við endurreisn...  Það er allavega mín tilfinning...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.4.2011 kl. 23:23

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Algjörlega sammála.

Ásdís Sigurðardóttir, 11.4.2011 kl. 13:37

7 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 14.4.2011 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband