Source Code (2011) ****

source-code-poster

Tímaflakkstryllirinn "Source Code" hefði getað heitið "Quantum Leap: The Movie" og sjálfsagt fengið betri aðsókn fyrir vikið. Hún er skemmtilegur og vel gerður samtíningur úr snilldar kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Það má segja að umgjörðin komi úr "Quantum Leap" (1989-1993) og "24" (2001-2010), en söguþráðurinn úr "Groundhog Day" (1993), "Avatar" (2009) og "Star Trek" (2009). Öll þessi blanda heppnast vel.

"Source Code" er önnur kvikmynd leikstjórans Duncan Jones í fullri lengd. Sú fyrri var "Moon" (2009) og báðar með eftirminnilegum söguþræði og persónum sem fá áhorfandann til að velta hlutunum fyrir sér. Það er eins og loks hafi stigið fram á sviðið leikstjóri sem getur gert fyrir kvikmyndir það sem Philip K. Dick (1928-1982) gerði fyrir smásögur.

Colter Stevens (Jake Gyllenhaal) vaknar í lest, í líkama annars manns og hefur átta mínútur þar til lestin springur í loft upp. Hann hefur verið sendur til að finna upplýsingar um þá hryðjuverkamenn sem stóðu fyrir sprengjunni. Hann þarf að upplifa þessar sömu átta mínútur óteljandi sinnum til að ná valdi á aðstæðum og kynnast fólkinu í lestinni, sérstaklega hinni aðlaðandi Christina Warren (Michelle Monaghan). Eftir því sem hann kynnist fólkinu betur, og sérstaklega dömunni, vaknar hjá honum áhugi á að bjarga öllum í lestinni, sem er náttúrulega ómögulegt verkefni (eða "Mission Impossible" (1996)), enda tilvistin í lestinni ekkert annað en minning.

source-code-movie-poster-2011-1020694538

En málið er ekki einfalt. Samkvæmt dr. Rutledge (Jeffrey Wright) er Colter aðeins að upplifa síðustu átta mínútur í lífi kennara sem staddur var í lestinni, og hann á engu að geta breytt, þar sem þetta er bara minning.

Þegar Colter skýst yfir í veruleikann í hvert skipti sem hann deyr á áttundu mínútu er hann lokaður inni í einhvers konar tanki, og hefur aðeins samskipti við tvær manneskjur, annars vegar Goodwin (Vera Farmiga) og hins vegar dr. Rutledge (Jeffrey Wright), en sá síðarnefndi er jafnframt hálfgerður Frankenstein, svo enn sé bætt við vísunum. 

Reyndar leikur Scott Bakula lítið hlutverk í myndinni, en Bakula lék að sjálfsögðu aðalhlutverkið í þáttunum "Quantum Leap". Hann talar meira að segja eins og dr. Sam Becket gerði í þeim þáttum, en honum var títt að segja "Oh boy!". 

Jake Gyllenhaal keyrir söguna áfram og er jafn góður í "Source Code" og hann var slakur í "Prince of Persia" (2010), og jafn góður og hann var í hinni afar góðu "Brothers" (2009) þar sem hann var í aðalhlutverki ásamt Natalie Portman og  Tobey Maguire.

Eins og títt er um góðar vísindaskáldsögur, þá spyr hún heimspekilegra spurninga sem virðast við fyrstu sýn frekar einfaldar, en þegar pælt er í þeim leynast hugmyndir sem hafa kannski ekki flotið upp á yfirborðið hjá okkur öllum. Stóra spurningin er hvað minningar séu, hvort að minning sé eitthvað meira og merkilegra en hugarburður? Skapa sameiginlegar minningar heim okkar eða er heimurinn bara efnislegt tóm? 

Það er alltof sjaldan sem maður sér svona góðan vísindatrylli í bíó.

Allgjör snilld!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Rétt Don , án efa ein af betri myndum ársins , sonur hans Bowie er að standa sig vel sem leikstjóri.

Ómar Ingi, 22.5.2011 kl. 14:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband