Viltu ræða nokkrar af grundvallarspurningum Icesave?

Ég er á móti því að Icesave reikningar verði borgaðir af íslensku þjóðinni og vona sannarlega að sú skoðun ein geri mig ekki að öfgakenndum vitleysing, en þannig hef ég heyrt þeim hópi lýst sem er alfarið gegn slíkum samningnum.

Ég kannast ekki við skuldbindingu íslensku þjóðarinnar til að borga skuldir einkabanka sem fóru á hausinn, þó svo að þessir bankar hafi verið með íslenska kennitölu, ekki frekar en að ég tel Saudi-Arabíu bera fulla ábyrgð á afleiðingum gjörða Osama bin Laden bara vegna þess að hann fæddist í Saudi Arabíu.

Hins vegar kannast ég við að íslensk ríkisstjórn setti neyðarlög og í kjölfarið var henni bylt úr stjórn og við tók ný ríkisstjórn sem þóttist hafa allt aðrar áherslur, en ákvað að fylgja stefnu fyrri ríkisstjórnar í veigamestu málum 100%. Ég efast enn í dag um réttmæti þessara neyðarlaga, og kannast við að erlendir kröfuhafar muni láta reyna á lögmæti hennar.

Núverandi ríkisstjórn reyndi að þvinga fram Icesave númer tvö sem þjóðin hafnaði. Ári síðar kemur sama ríkisstjórn með lítið breyttan samning og ætlar að þvinga honum í gegn. Deja Vu?

Þegar ég kaus gegn Icesave í fyrra kom ég í verk þeirri skoðun minni að þjóðin og afkomendur okkar skuli ekki borga skuldir einkafyrirtækis sem fór á hausinn. Þingið ákvað að hunsa þessa skoðun, og hefur sýnt þeim sem hafa þessa skoðun virðingarleysi með því að hugleiða ekki að við höfum hugsanlega eitthvað til okkar máls.

Nú met ég stöðuna óbreytta fyrir utan það að ríkisstjórn og þing hlustuðu ekki á þjóðina og hafa sýnt að þau hafa engan vilja til að hlusta á rök þeirra sem hafa ólíka skoðun en þá sem þeim hentar.

Eins og þing og ríkisstjórn sé að segja enn og aftur: "Þið eruð ekki þjóðin!"

Það er enginn sveigjanleiki til staðar hjá þessari ríkisstjórn, hún telur sig vita hvað er best og berst með þekktum herbrögðum fyrir málstaði sínum, sem hún er ekki tilbúin að velta fyrir sér hvort sé réttur eða rangur. 

Nú þarf ég að spyrja nokkurra spurninga sem mér finnst þurfa að svara. Þetta eru ekki auðveldar spurningar, en ég tel mikilvægt að sérhver manneskja velti þeim vandlega fyrir sér, ræði þær við félaga sína og reyni þannig að átta sig á grundvallaratriðum málsins. Ég tek það fram að þetta er ekki endanlegur spurningarlisti yfir öll hugsanleg málefni tengd Icesave, en tel þetta grundvallarspurningar málsins. 

Ef þér tekst ekki að svara einhverri af þessum spurningum, komdu þér þá í aðstæður þar sem fólk með ólíkar hugmyndir er til í að ræða málin, þar sem einhver einn kemst ekki upp með að reyna að sannfæra alla hina með brennandi mælskulist, þar sem allir fá tækifæri til að segja sína skoðun og ræða rökin á bakvið hana með skynsamlegum hætti.

  1. Af hverju á ríkisstjórn og þing að semja við Breta og Hollendinga um skuld banka og tryggingarsjóðs sem bankarnir báru ábyrgð á? Bara vegna þess að bankarnir voru með íslenska kennitölu?
  2. Af hverju er ekki hlustað á að þjóðin gerði byltingu þegar fyrst átti að þvinga þessu í gegn?
  3. Af hverju er ekki hlustað þegar þjóðin greiðir um 97% atkvæði gegn því að þetta nái í gegn?
  4. Af hverju á að þvinga þetta í gegn núna með auknum hræðsluáróðri og meiri mælskutækni?
  5. Af hverju halda þeir sem eru fylgjandi þessum samningi að það sé siðferðilega rangt að samþykkja hann ekki?
  6. Af hverju halda meðmælendur samningsins því fram að það sé skylda þjóðarinnar að borga skuldir einkabanka?
  7. Af hverju sjá meðmælendur samningsins það ekki sem skyldu þjóðarinnar að vernda næstu kynslóðir með kjafti og klóm, að gæta sjálfstæðis þeirra og virðingu til lengri tíma?
  8. Af hverju finnst meðmælendum samningsins í lagi að kynslóðin í dag sleppi með skrekkinn þar sem álögurnar verða ekki gífurlegar næsta áratuginn, með þeirri vitneskju að álögurnar verða aftur á móti gífurlegar fyrir næstu kynslóðir?
  9. Af hverju er þegar búið að taka lán út á þessa samninga þó að þjóðin sé algjörlega á móti þeim?
  10. Ef þjóðin segir aftur nei, hvernig verður hægt að tryggja að þing og ríkisstjórn reyni ekki að troða Icesave fjögur ofan í kok þjóðarinnar að ári liðnu?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Karl

Sæll Hrannar,

Skil vel að þú sért enn hugsi yfir neyðarlögunum. Kannski voru þau lífsnauðsynleg, kannski ekki, kannski hefði mátt útfæra þau öðruvísi. En í mínum huga er það alveg ljóst, og var fyrir a.m.k. einu og hálfu ári, að Icesave er ÓHJÁKVÆMILEGUR fylgifiskur neyðarlaganna.

Svarið við öllum þínum spurningum myndi ég súmmera sem svo: Við þurfum að semja um Icesave, vegna þess að "við" (íslensk stjórnvöld) ákváðum EINHLIÐA að íslenskar bankainnstæður væru "friðhelgar", en innstæður Icesave-viðskiptavina Landsbankans væru það ekki. Svo einfalt er þetta. Okkar innstæður voru tryggðar - ekki með víxli úr ríkissjóði - heldur með eignum úr þrotabúum bankanna. Icesave innstæður voru það ekki.

Ef við komumst upp með neyðarlögin, gegn því að undirgangast núv. Icesave samning, held ég það sé bærilega sloppið, sérstaklega miðað við horfurnar um heimtur úr þrotabúinu, sem íslensk stjórnvöld hafa haft gott svigrúm til að ráðstafa, en þurftu ekki að selja í einum grænum hvelli á brunaútsölu fyrir slikk.

Ég geri grein fyrir mínum viðhorfum í tveimur síðustu pistlum á síðu minni:

http://bloggheimar.is/einarkarl/

PS

(Sit við Makka, en mbl blog.is kommenta-editorinn virkar ekki hjá mér í Safari vafranum, þ.e. get bara slegið inn strípaðan texta. Kannast lesendur við það vandamál?)

Einar Karl, 27.2.2011 kl. 10:27

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að kröfuhafar í þrotabú gömlu bankana sem eru öll helstu fjármálafyrirtæki heims eru nú með í gangi málaferli sem ætlað er að hnekkja neyðarlögunum.

Færustu lögspekingar heims vinna nú að því að fá neyðarlögunum hnekkt. Verði neyðarlögunum hnekkt þá eignast þessir kröfuhafar þrotabú Landsbankans. Verðmæti þess er um 1.200 milljarðar. Þessir aðilar munu ekki gefa þessa 1.200 milljarða eftir baráttulaust.

Verði neyðarlögunum hnekkt fyrir dómi þá verða innistæður ekki lengur forgangakröfur í þrotabúum bankana.

Það þýðir að við getum ekki notað eignir þrotabús Landsbankans til að greiða Icesave.

Ef við samþykkjum ríkisábyrgð á Icesave og neyðarlögunum verður hnekkt og við fáum ekki krónu úr þrotabúi Landsbankans upp í Icesasve þá þarf ríkissjóður samt að borga þessar 1.200 ma.

Þess vegna hafa Bretar og Hollendingar sótt það svo fast að fá þessa ríkisábyrgð. Þeir óttast að neyðarlögunum verði hnekkt og ef það gerist þá verður að vera ríkisábyrgð á Icesave þannig að við neyðumst til að taka fé úr ríkissjóði til að borga Icesave.

Verði neyðarlögunum hnekkt þá falla 1.200 milljarðar á ríkisjóð.

Þess vegna má ekki samþykkja Icesave.

Það má ekki veita þessa ríkisábyrgð.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 27.2.2011 kl. 10:30

3 Smámynd: Guðmundur Jónsson

 Einar karl!!

"" "við" (íslensk stjórnvöld) ákváðum EINHLIÐA að íslenskar bankainnstæður væru "friðhelgar", en innstæður Icesave-viðskiptavina Landsbankans væru það ekki. Svo einfalt er þetta. ""

Þetta er bar raklaus þvæla, lestu neyðarlögin og kyntu þér ferlið sem landsbankinn fór í gegnum. Þú ert búin skrifa tugi ath og  icesave-blog hér á mbl án þess að vita eða skilja um hvað þú ert að fjalla.

Landsbankanum var skipt upp í tvo banka gamla og nýja. þegar það var búið kom nýr fjárfestir (íslenska ríkið) og sett peninga i nýja landsbankann en ekkert í gamla landsbankann. Síðan keypti nýji bankinn eignir (á matsverði) af gamlabankanum, aðallega íslensk húsnæðislán. 

Guðmundur Jónsson, 27.2.2011 kl. 11:15

4 Smámynd: Einar Karl

Guðmundur,

ég myndi svo sannarlega vilja skilja þetta allt enn betur.

Endurfjármögnun Landsbankans var frágengin í okt 2009. Um það má lesa í fréttatilkynningu HÉR. Í tilkynningu stóð:

"Samkomulag á milli íslenskra stjórnvalda, skilanefndar Landsbanka Íslands hf. og Landsbankans (NBI hf) um uppgjör á eignum og skuldum vegna skiptingar bankans hefur verið undirritað. Fulltrúar helstu kröfuhafa hafa tekið þátt í samningaviðræðunum.

Samkomulagið gerir ráð fyrir að Landsbankinn (NBI hf) gefi út skuldabréf til gamla bankans að fjárhæð 260 milljarðar króna til 10 ára. Skuldabréfið er gengistryggt og tryggir Landsbankanum þannig erlenda fjármögnun. Þá er gert ráð fyrir að gefin verði út hlutabréf til gamla bankans að fjárhæð 28 milljarðar króna sem svarar til um 20% heildarhlutafjár Landsbankans (NBI hf).

Heildarfjárhæð skuldabréfsins og hlutabréfanna samsvarar mati Landsbankans (NBI hf) á yfirteknum eignum umfram skuldir, en er lágmarksverðmæti eignanna að mati skilanefndar og ráðgjafa hennar.

Miðað við þessa frásögn skil ég ekki hvað þá átt við, þegar þú segir "nýr fjárfestir (íslenska ríkið) og sett peninga i nýja landsbankann en ekkert í gamla landsbankann"

Ertu að tala um einhverja AÐRA fjármögnun, en þessa sem var frágengin í ok. 2009? Endilega útskýrðu betur, ég vildi eiginlega gjarnan að þetta sé rangt skilið hjá mér.

Einar Karl, 27.2.2011 kl. 11:42

5 Smámynd: Einar Karl

Bara til að fyrirbyggja misskilning, næstu tvær málsgreinar á eftir skáletruðu málsgreininni eru líka beint upp úr fréttatilkynningunni:

"Samkomulagið gerir ráð fyrir ... [...] " og

"Heildarfjárhæð skuldabréfsins og hlutabréfanna samsvarar mati Landsbankans (NBI hf) á yfirteknum eignum umfram skuldir ...

Einar Karl, 27.2.2011 kl. 11:45

6 identicon

                        N E I      I C E S A V E 

Númi (IP-tala skráð) 27.2.2011 kl. 12:35

7 identicon

Sæll Hrannar.

Afstaðan til IceSave er grundvallarspurning um glæpi og refsingu, raunverulega afstöðu til skýrslu RNA, afleiðingar þess að hafa rangt við þótt bankarnir hafi verið tæmdir skv. uppáskrift endurskoðenda, hræsni, blekkingar, þráhyggju og úthald.

Ég mun alltaf hafna því að gerast ábyrgðarmaður fyrir þá aðila sem skipuðu sæti á lista Forbes yfir 100 ríkustu menn í heimi fyrir einungis þremur árum, búa nú í ríkidæmi í London og Luxemburg og var hampað af sömu elítu og vill núna endurtaka leikinn.

Svona svara ég þínum spurningum:

1. Það á ekki að gera það. Kjölfestufjárfestar bankanna, stjórnir þeirra og bankastjórar eiga að greiða skuldir sínar. Þar að auki lögðu bresk stjórnvöld landið rýtingsstungu í hruninu þegar eignir ríkisins voru frystar, millilandaviðskipti sett í uppnám og landsmönnum settir afarkostir. Rökrétt afleiðing af því að Bretar ábyrgist uppgjör krafna í bankann. Að lokum hvílir ekki lagaskylda á skattgreiðendum að ábyrgjast stöðu innistæðutryggingasjóðs.

2. Af því að flokkanir og þingið hefur verið á fóðrum hjá kjölfestufjárfestunum s.l. tíu ár og VG eru pólitískir umskiptingar hægra megin við Framsókn. Hjá sumum snerist byltingin einungis um aðgang að völdum sjálfs síns vegna.

3. Af því ilmurinn af veislurréttunum í Brussel er svo lokkandi að hann rænir fólk heilbrigðri dómgreind og elítan lítur þangað eftir hýrum augum eftir meira lánsfé. Hroki elítunnar er það mikill að hún vílar ekki fyrir sér að skrifa upp á óútfylltan víxil fyrir hundruði milljarða og það áður en fyrir liggur hvort forgangur að búinu verði tryggt næstu árin.

4. Af því að elítan vill telja almenningi trú um að aukin skuldasöfnun sé til þess fallin að auka hagvöxt. Lykilorð hennar nú er það sama fyrir hrun :”Vöxtur” hvað sem það kostar fyrir almenning, náttúruna og komandi kynslóðir.

5. Af því skilgreining þeirra á siðferði er valkvæð og jafnræðisreglan á aðeins við í þessu einangraða tilviki. Hún á skv. þeirra mati ekki við þegar innistæður voru tryggðar án hámarks, hluthafar töpuðu öllu, kröfuhafar nær öllu sínu og fasteignaeigendur/lántakendur voru gerðir nær eignalausir. Skjaldborgin er því valkvæð.

6. Vegna þess að margir þeirra hafna leynt og ljóst niðurstöðum skýrslu RNA um að rekstur bankanna hafi verið skipulögð glæpastarfsemi heldur einungis örlítil rekstraróreiða sem skattgreiðendum sé hollast að ábyrgjast annars hafi þeir verra af. Endurreisn bankakerfisins er liður því að reyna aftur…

7. Af því þeir halda því fram að friðarkaupastefna og bugtun fyrir hótunum borgi sig þrátt fyrir reynslu aldanna. Hver væri landhelgin í dag ef þessir menn hefðu einhverju ráðið?

8. Af því að hippakynslóðin er ábyrgðarlaus og hugsar bara um sig, nýtt lénsskipulag, diplómasí í Brussel, rauðvín, osta og ríkistryggð eftirlaun.

9. Af sömu ástæðu og hrunda bankakerfið var endurreist – einbeittum brotavilja yfirvalda og vilja til að endurtaka hrunið.

10. T.d. með því að taka upp beint lýðræði eins og hefur gefist nokkkuð vel í Sviss.

Torfi Hjartarson (IP-tala skráð) 27.2.2011 kl. 13:21

8 identicon

Þessu tengt ... hví var ég ekki spurður hvort ég vildi greiða skuldir óreiðumanna þegar neyðarlögin voru samþykkt eða þessar upphæðir sem runnu til Sjóvá eða núna til Sparisjóðs Keflavíkur?

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 27.2.2011 kl. 15:25

9 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Af því að, einfaldlega, að það sneri eigi að ,,vondum útlendingum".

Svo er þetta auðvitað rétt hjá Einari K. varðandi meðferð þrotabússins.  Ótrúlegt að eftir allt bla blaið, að einhverjir 3 ísl., skuli ekki hafa fattað það ennþá.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 27.2.2011 kl. 15:28

10 identicon

Staðhæfingin að við íslendingar berum einhverja ábyrgð á Icesave vegna þess að við höfum með neyðarlögum tekið meira úr þrotabúinu en aðrir, hefur ekki verið rökstudd (svo ég viti). Einar Karl hefur reynt en ekki tekist. Samkvæmt hans rökum þá á mismununin sér stað við stofnun nýja Landsbankans úr þrotabúinu í okt 2009, eða ári eftir hrun. Látum nú vera hvernig hann kýs að túlka uppgjör milli nýja bankans og þrotabúsins, segum bara sem svo að hann hafi rétt fyrir sér að þá eigi mismununin sér stað. Af því spretta 2 einkennilegar niðurstöður.

1. Það voru ekki neyðarlögin sjálf sem ollu mismunun milli kröfuhafa.Þar sem þau voru sett ári áður en meint mismunun átti sér stað.

2. Ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu stóð að meintri mismunun milli kröfuhafa á sama tíma og hún þóttist vera að semja um Icesave.

Ég efast raunar um að þessar niðurstöður séu réttar, en efast líka um að
Einar Karl og aðrir sem aðhyllast "sektar-ástæðuna" átti sig alveg á samhenginu.

ps. auglýsi hér með eftir góðum rökum fyrir því að neyðarlögin hafa skapað okkur a.m.k. siðferðislega greiðsluskyldu í Icesave.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 27.2.2011 kl. 20:22

11 Smámynd: Ómar Ingi

Auðvitað á EKKI að borga icesave , það hefur Davíð alltaf sagt og veit vel enda er það til á upptöku að seðlabankastjóri bretlands viðurkennir það.

Svo er auðvitað vitað að ef við neitum þá ef í versta falli EFTA dósmstóllinn dæmir okkur í óhag þá verður það í islenskum krónum.

og svo er þetta mál að fyrnast árið 2012

Auðvitað eigum við ekki að semja við þessar helv aumingja sem bretar og hollendingar eru þetta eru þjóðir sem eiga ekkert hafa aldrei átt bara stolið af öðrum þjóðum sem helv nýlendu þjoðirnar sem þær eru.

við segjum NEI við icesave.

Ómar Ingi, 27.2.2011 kl. 22:18

12 Smámynd: Þórir Kjartansson

Hrannar, ef þú hefur ekki horft á viðtalið við Lárus Blöndal í Silfrinu í dag, skaltu endilega gera það.  Þar færð þú svör við öllum þessum spurningunum sem þú veltir upp hér að ofan. Einnig held ég að aðrir stórvirkir bloggarar um Icesave hefðu mjög gott af því líka og myndu þá fara aðeins varlegar í allskonar fullyrðingar á eftir.

Þórir Kjartansson, 27.2.2011 kl. 22:20

13 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Um það hvort neyðarlögin voru nauðsyn eða ekki er lengi hægt að deila, þau voru sett á og við það situr.  Nú vinna elendir lögfræðingar að því að finna leið til að fá þeim hnekkt. Sú vinna er algerlega óháð því hvort icesave samningurinn verði samþykktur eða ekki.

Ef við samþykkjum icesave erum við að skuldbinda ríkissjóð til að greiða samkvæmt honum. Ef lögfræðingum tekst að hnekkja neyðarlögunum er ljóst að stæðsti hluti eigna gamla Landsbankans fer til greiðslu þess sem umfram 20.000 evru inneign reikningseigenda og icesave mun þá leggjast nánast að fullu á Íslenska ríkið. Þá kemur væntanlega til þess að virkja verðir þá grein samningsins er fjallar um hámarks greiðslur! Það væri öllum hollt að skoða samninginn og sjá hvað það þíðir fyrir okkur!!

Hvers vegna ætli Bretar og Hollendingar hafi ekki viljað fá þrotabúið og vinna úr því sjálfir? Ástæðan er einföld, þeir sögðu að áhættan væri of mikil!!

Ef það er svo mikil áhætta fyrir þá, er það þá ekki einnig áhætta fyrir okkur?!!

Oft er maður hálf gáttaður á málfluttningi þeirra sem vilja samþykkja þetta kúlulán!! Það er eins og menn vilji ekki heyra sannleikann!!

Gunnar Heiðarsson, 27.2.2011 kl. 23:42

14 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég gef lítið fyrir málflutning Lárusar, Þórir. Hann er að verja eigið verk og því flytur hann sitt mál samkvæmt því. Það gerði Svavar Gestsson einnig.

Ef einhver gögn eru til sem ekki eru komin fram og styrkja málflutning þeirra sem vilja samþykkja samninginn eiga þeir að leggja þau fram!!

Þau gögn sem aðgengileg eru núna, bæði hjá ráðuneytinu og ekki síður skýrsla Gamma, gefa ekki beinlínis von um góðan endi ef samningurinn verður samþykktur!!

Því er staðan nú sú að ef öll þau gögn sem til staðar eru og aðgengileg almenningi eru einu gögn málsins væri gjörsamlega glórulaust að samþykkja samninginn.

Því ættu talsmenn þess að samþykkja samninginn, frekar að vera að vinna að því að koma þeim gögnum til almennings, sem rökstyðja það, ef þau gögn eru á annað borð til!!

Gunnar Heiðarsson, 27.2.2011 kl. 23:50

15 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Held að þetta geti átt við "Gerði mér dagamun og keypti mér hamborgara, en eftir stutta stund HURFU þeir af pönnunni!!! Meira draslið..... Ætti ég að gera eins og bretar og hollendingar, að fara útí búð og heimta að fá tapið endurgreitt"???

Sá þetta á bloggsíðu vinkonu minnar...

Kveðja

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 28.2.2011 kl. 01:13

16 Smámynd: Óskar Arnórsson

Þó Icesave væri bara ein króna er hún lafnólögleg fyrir því. Icesave er sönnun fyrir því hversu létt er að heilþvo fólk og fá það til að trúa því að þetta sé ekta skuld.

Handrukkarar nota ógnir og sumum tekst svo vel að allir eru farnir að trúa að skuldin hafi verið til í alvörunni.

Menn falla kylliflatir fyrir þvælunni. handrukkarar ættu að læra af þessu og nota sömu taktík. Staðhæfa bara nógu oft tóma þvælu, blanda in nógu mörgum, fara í blöðin með málið, vera kurteisir enn bakka aldrei.

Þá verður samið um greiðslur sem aldrei áttu sér stoð í raunveruleikanu. Enda engin áhugi fyrir raunverileikanum hjá þeim sem vilja borga Icesave. Þeir lifa í sínum eigin, langt burtu frá venjulegu fólki.

Óskar Arnórsson, 28.2.2011 kl. 17:54

17 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

http://vald.org/greinar/110228/   Ég hef einfaldan smekk, ég kýs að borga ekki og segji nei í atkvæðagreiðslunni.....

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.3.2011 kl. 02:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband