Af hverju er ekki enn búið að BANNA verðtryggingu lána?

Þessa grein birti Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra Íslands, 2. nóvember árið 1996 og virtist þá full af réttlætiskennd og umhugað um íslensk heimili. Skáletrun og textastækkun er frá undirrituðum. Hvað hefur breyst síðan Jóhanna birti þessa grein?

Árni Páll Árnason viðskiptaráðherra hefur einnig lýst yfir að hann vilji losna við verðtrygginguna, en heldur að það sé aðeins hægt með því að ganga fyrst í Evrópusambandið, en hann sagði í viðtali við Vísi árið 2008:

,,Því fyrr sem við náum í gegn aðild að Evrópusambandinu því fyrr getum við kvatt verðtrygginguna. Við megum einfaldlega engan tíma missa."

Ályktun landsfundar VG 2009 um afnám verðtryggingar:

"Fundurinn skorar á ríkisstjórnina að leita leiða til að lækka höfuðstól húsnæðislána eða frysta hluta hækkunar höfuðstóls lána vegna verðbólguskotsins. Einnig að gerð verði tímasett áætlun um afnám verðtryggingar.

Ekki verði gengið lengra í innheimtu skulda en að lánastofnun leysi til sín veðsetta eign."

Fyrir kosningar og alla tíð hafa Samfylking og VG verið sammála um afnám verðtryggingar. Nú eru þessir flokkar við völd, og munu sjálfsagt glata þeim innan skamms, en geta þau ekki að minnsta kosti gert einn hlut rétt: afnema verðtrygginguna áður en hún veldur enn meiri skaða? Nú er verðbólgan lág og kjörið tækifæri til að afnema þetta skrímsli. 

Hvað er það sem stoppar, annað en að verðtryggingin leiðir fjármálastofnanir á spena íslenskra heimila?

Mikið væri ég feginn að sjá þing og ríkisstjórn gera að minnsta kost einn hlut rétt.

 

Grein forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, skrifuð áður en hún blindaðist af eigin völdum:

 

Ísland eina landið sem verðtryggir skuldir heimilanna

Efnahagsleg rök og sanngirni mæla með því að verðtrygging á lánum til heimilanna verði alfarið bönnuð. að ríkisstjórnin sé föst í gamla verðbólguhugsunarhættinum.

RÍKISSTJÓRNIN telur að sívaxandi skuldir heimilanna séu merki um að heimilin eyði um efni fram. Ríkisstjórnin talar minna um að heimilin í landinu eru oft neydd til að taka lán til að eiga til hnífs og skeiðar frá degi til dags og fyrir gluggaumslögunum frá lánastofnunum vegna skulda sem sífellt vefja upp á sig. Ríkisstjórnin talar heldur ekki um hvernig verndarstefnan og ofurtollar í landbúnaði, sem heimilin eiga enga sök á, hafa aukið skuldir heimilanna.

Grænmetisverð eykur skuldir heimilanna
Stöðugleiki hefur ríkt í efnahagslífinu á udanförnum árum- fyrir tilstuðlan launafólks og verðbólgan verið með því minnsta sem þekkist. Fólkið skilur því ekki hvernig höfuðstóll skuldanna vex sífellt. Er nema von að það skilji ekki ástæðurnar, eins og þegar kartöflur hækkuðu tímabundið í sumar, þá leiddi vísitalan og verðtrygging til þess að skuldir heimilanna jukust um 500 milljónir króna. Hækkun á grænmeti á einu ári, sem mörg heimili hafa ekki efni á að kaupa vegna ofurtolla og verndarstefnu ríkisstjórnarinnar, juku engu að síður skuldir heimilanna um 1300 milljónir króna.

Verðtryggð lán ekki afnumin
Undirrituð beindi fyrirspurn til viðskiptaráðherra á Alþingi um verðtryggingu lána og skuldir heimilanna. Þar kom margt athyglisvert fram sem kallar á viðbrögð.

Meginniðurstaðan er að verðtrygging er ekki á lánum til heimila í löndum OECD, að Íslandi undanskildu. Notkun hennar í öðrum löndum hefur einskorðast við ríkisskuldabréf en þó í mjög litlum mæli. Skuldir heimila í árslok verða 350 milljarðar króna og hafa aukist á þessu ári um 25 milljarða króna. 90% af lánunum eru verðtryggð, en einungis 10% óverðtryggð.

Af hálfu stjórnvalda eru engin áform uppi um að takmarka verðtryggingu lána, umfram það sem þegar hefur verið ákveðið.

Staða heimilanna hér og á hinum Norðurlöndunum
Skuldir heimilanna á hinum Norðurlöndum hafa farið hraðminnkandi frá 1986. Hér á landi hafa þær farið vaxandi á þessum tíma og voru á síðasta ári 125% af ráðstöfunartekjum eða 25% umfram það fé sem heimilin hafa til ráðstöfunar. Gjaldþrot heimilanna hafa vaxið gífurlega. Á árinu 1993 voru þau 414 ­ á árinu 1995 ­ 871 gjaldþrot. Þannig hafa gjaldþrot heimilanna meira en tvöfaldast á 2 árum. Laun og lífskjör eru hér með því lægsta sem þekkist og vinnutími hvað lengstur. Auk þess þurfa íslensk heimili að búa við verðtryggingu á lánaskuldbindingum sínum sem hvergi þekkist innan landa OECD. Því til viðbótar eru bæði raunvextir og nafnvextir mun hærri hér á landi. Þannig voru nafnvextir um 2­3% hærri á Íslandi, en hinum Norðurlöndum í október sl., þó verðbólgan sé svipuð í þessum löndum.

Ríkisstjórnin hefur enga trú á stöðugleikanum
Stöðugleiki, lítil verðbólga og lengst af jákvæður viðskiptajöfnuður hefur ríkt hérlendis á síðustu misserum. Jafnframt sýna mörg fyrirtæki mikinn hagnað og greiða niður skuldir sínar.

Þessi umskipti í efnahags- og atvinnulífi má að langmestu leyti þakka launafólki, en afleiðing þess hefur bitnað á launafólki, með auknum skuldum þeirra og litlum launahækkunum. Allt þetta ætti nú að skapa forsendur til að afnema verðtryggingu á fjárskuldbindingum heimilanna. En allt kemur fyrir ekki. Rökstuðningur ráðherrans í svari við fyrirspurn minni byggist á gamla verðbólguhugsunarhættinum, ­ sem ríkisstjórnin virðist föst í. Hún hefur enga trú á að stöðugleikinn haldist til frambúðar.

Er Ísland öðruvísi?
Það vekur líka athygli í svari ráðherrans að þó stjórnvöld hafi þegar ákveðið að banna verðtryggingu á sparifé landsmanna frá 1. janúar árið 2000 stendur ekki til að banna verðtryggingu útlána umfram það sem þegar hefur verið ákveðið á skammtímalánum. Það mæla bæði efnahagsleg rök og sanngirni með því að verðtrygging á lánum til heimilanna verði alfarið bönnuð á næstu misserum.

Við viljum ekki endurtaka leikinn frá 1983 að kippa úr sambandi verðtryggingu launa en ekki lána. Ríkisstjórnin kemst ekki hjá því að svara af hverju Ísland, sem býr við svipað efnahagsumhverfi og þjóðir sem við berum okkur saman við, hafi eitt landa verðtryggingu á lánum til heimilanna. Og það sem verra er. Ætli að viðhalda henni. Því verður að breyta.

Jóhanna Sigurðardóttir, alþingism. (Mbl. nóvember, 1996)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Það er hægt með einu pennastriki að samþykkja verðtryggingu, og afnám verðtryggingar á launum.  Núna er kjörið tækifæri að afnema verðtrygginguna, en Jóhanna er bara kjaftakerling.  Í stjórnarandstöðu ybbar hún gogg, í stjórnunarstöðu gleymast hugsjónirnar..  Einu sinni þóttist hún vera jafnaðarmanneskja, enginn trúir því uppá hana í dag.....

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 5.4.2011 kl. 02:35

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

"Það mæla bæði efnahagsleg rök og sanngirni með því að verðtrygging á lánum til heimilanna verði alfarið bönnuð á næstu misserum."

Amen 

Jóhanna Magnúsdóttir, 5.4.2011 kl. 02:51

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Á mínum vinnustað er ein af grundvallarsiðareglum starfsfólks að standa við orð sín og fylgja þeim eftir í verki. Af hverju ætti Alþingi að vera eitthvað öðruvísi þegar kemur að slíkum vinnureglum?

Hrannar Baldursson, 5.4.2011 kl. 06:01

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já það er ansi skondið að lesa hvað þetta fólk sagði og barðist fyrir í stjórnarandstöðu, svo er allt gleymt þegar kemur að því að geta efnt orðin.  Þau eru þá bara í orði en ekki á borði.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.4.2011 kl. 10:59

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Vorið 2008, nokkrum mánuðum fyrir hrun bankanna, skipaði þáverandi félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir nefnd.

Hlutverk nefndarinnar var að kanna hvort ekki ætti að afnema verðtryggingu af lánum. Það tók nefndina innan við viku að komast að niðurstöðu: Það væri ekki rétt að afnema verðtryggingu lána þar sem það gæti skaðað fjármálastofnanir og fjármagnseigendur.

Og hver var svo formaður þessarar nefndar sem vann svo skörunglega að það tók ekki viku að komast að þessari niðurstöðu? Jú það var flokksfélagi Jóhönnu, Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ !!

Gunnar Heiðarsson, 5.4.2011 kl. 12:17

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Svo vel skilaði þessi nefnd sínu verki að Jóhanna Sigurðardóttir hefur ekki síðan þorað að nefna þetta mál.

Gunnar Heiðarsson, 5.4.2011 kl. 12:20

7 Smámynd: Sigrún Aðalsteinsdóttir

Það er alveg stórmerkilegt fyrirbæri hvað stjórnmálamenn virðast eiga auðvelt með að gleyma hugsjónum sínum þegar í valdastólinn er komið.

Gamlar hugsjónir - trömpum þær bara niður í kúamykju og níðumst svo á alþýðunni.

Sigrún Aðalsteinsdóttir, 5.4.2011 kl. 13:19

8 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þetta er ein af grundvallarástæðum þess að þessari ríkisstjórn er ekki treystandi. Hún stendur ekki við loforð þó að meirihluti sé á bakvið þau.

Hrannar Baldursson, 5.4.2011 kl. 16:12

9 Smámynd: Óskar Arnórsson

Verðtrygginginn er efnahagsglæpur. Hvað kallast allir sem taka þátt í glæpagengjum? Það er eiginlega hlægilegt að hugsa til einhverra útrásarmanna sem glæpamanna.

Það sem núverandi og fyrrverandi Ríkisstjórninr á Íslandi eru búnir að láta viðgangast í landinu er miklu alvarlegar...

Bankasýstemið á Íslandi eru eins og heróínistar í Danmörku. Þeir eru orðnir svo háðir eitrinu að núna fær maður niðurgreitt heróín frá ríkinu...

Að stjórnmálamenn á Íslandi brjóti loforð er ekki frétt og hefur aldrei verið. Ég legg til að öllum kosningaloforðum verði þinglýst og allir ráðherrar og þingmenn verði að vikja sem ekki standa við þinglýst kosningaloforð....

Óskar Arnórsson, 6.4.2011 kl. 13:54

10 identicon

Í aðdraganda Icesave-kosninganna er mikið fabúlerað um óútfylltan tékka sem við þurfum að borga; það veit enginn hvað greiðslan verði í raun og veru há. Þetta er afar merkileg ábending (og sannarlega réttmæt) en kemur hins vegar frá fólki sem sjálft hefur skrifað upp á óútfylltan tékka þegar það tók lán fyrir húsnæði sínu... Ekki kvartaði það þá...

Merkilega fyndið :)

Kristbjörn Helgi Björnsson (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 16:42

11 Smámynd: Sigrún Aðalsteinsdóttir

Ó, jú það kvartaði þá, en hafði enga aðra kosti í stöðunni.

Sigrún Aðalsteinsdóttir, 8.4.2011 kl. 00:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband